Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 11. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 11  —  11. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

Flm.: Ragnheiður E. Árnadóttir, Árni Johnsen, Ásbjörn Óttarsson, Birgir Ármannsson, Bjarni Benediktsson, Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson,


Illugi Gunnarsson, Jón Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson, Ólöf Nordal,
Pétur H. Blöndal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Tryggvi Þór Herbertsson,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Birkir Jón Jónsson,
Eygló Harðardóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þórhallsson,
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Ingi Jóhannsson,
Siv Friðleifsdóttir, Vigdís Hauksdóttir.


    Alþingi ályktar að skora á umhverfisráðherra að afturkalla þá ákvörðun að fela Skipulagsstofnun að úrskurða að nýju um hvort fram skuli fara sameiginlegt mat á Suðvesturlínu, tengdum virkjunum og öðrum framkvæmdum.

Greinargerð.


    Umhverfisráðherra hefur nú fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum. Málinu hefur verið vísað aftur til Skipulagsstofnunar til efnislegrar meðferðar og úrlausnar.
    Með þessari ákvörðun hefur verið gerð enn ein atlagan að stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins, gengið hefur verið freklega á meðalhófsregluna, mikilvægri atvinnuuppbyggingu teflt í tvísýnu og unnið gegn áformum um mjög nauðsynlega atvinnusköpun, sem byggist á ábyrgri nýtingu náttúruauðlinda í þágu atvinnuuppbyggingar í landinu. Það er því afar brýnt að þessi ákvörðun verði afturkölluð hið fyrsta og unnið að því að ryðja úr vegi hindrunum við uppbyggingu stórframkvæmda á þessu sviði, sem fyrirheit voru gefin um af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Í stöðugleikasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins var sérstakur kafli um framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu. Þar segir orðrétt: „Ríkisstjórnin mun greiða götu þegar ákveðinna stórframkvæmda sbr. þjóðhagsáætlun, s.s. framkvæmda vegna álvera í Helguvík og Straumsvík. Undirbúningsvinnu verði hraðað vegna áforma sem tengjast fjárfestingu í meðalstórum iðnaðarkostum, s.s. gagnaverum og kísilflöguframleiðslu. Kappkostað verður að engar hindranir verði af hálfu stjórnvalda í vegi slíkra framkvæmda eftir 1. nóvember 2009. Einnig verði unnið skipulega að úrvinnslu áforma um aðrar stórfjárfestingar í atvinnulífinu þannig að taka megi ákvarðanir sem fyrst um hugsanlegan framgang þeirra.“
    Hér fer ekkert á milli mála. Ríkisstjórnin gaf ákveðin fyrirheit sem snúa meðal annars að framkvæmdum vegna álvera í Straumsvík og Helguvík. Forsenda þeirra framkvæmda er vitaskuld orkuöflunin og afhending orku til þeirrar atvinnustarfsemi sem unnið hefur verið að meðal annars í Helguvík. Að undanförnu hafa komið upp fjölmörg tilvik þar sem augljóslega er verið að vega að forsendum þessa samnings sem ríkisstjórnin gerði við launþega og atvinnulíf. Ákvörðun umhverfisráðherra er skýrt dæmi um þetta. Þannig skapast fullkomin óvissa um kjarasamninga með tilheyrandi afleiðingum fyrir aðrar efnahagsstærðir í landinu.
Við bætist að ákvörðun ráðherrans er byggð á afar hæpnum lagalegum grunni. Samtök atvinnulífsins telja að úrskurður umhverfisráðherra sé ekki í samræmi við lög og virðist því vart geta haft nokkra þýðingu. Í áliti SA frá 1. október sl. segir orðrétt: „Þannig virðist blasa við að úrskurður umhverfisráðherra sé dæmi um stjórnsýslu sem ekki virðir tímamörk sem bundin eru í lögum. Ekkert í lögunum heimilar Skipulagsstofnun að taka upp álit sitt á mati á umhverfisáhrifum og sjálfsagt virðist að framkvæmdaaðilar haldi sínu striki óháð þessum úrskurði ráðherra sem er til þess fallinn að tefja, skapa óvissu og um leið spilla fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs. Það er óviðunandi að fyrirtæki sem undirbúa framkvæmdir, og fara í einu og öllu að lögum, skuli verða fyrir því að ráðherra skuli breyta skilyrðum eftir á og tefla þannig í tvísýnu öllum undirbúningi framkvæmda og valda með ákvörðunum sínum ómældum kostnaði.“
    Ákvörðun um þessar framkvæmdir hefur lotið í einu og öllu þeim lögum og reglum sem um þær gilda. Skipulagsstofnun markaði málinu um mitt ár 2006 tiltekinn farveg sem framkvæmdaraðila var gert að fara eftir. Því máli lauk með áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum álversins í Helguvík þann 4. október 2007. Þessari niðurstöðu var síðan vísað til umhverfisráðuneytisins, sem tók málið til efnislegrar ákvörðunar. Í ítarlegum úrskurði ráðuneytisins, sem birtur var 4. apríl sl., segir meðal annars:
    „Svo að sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum geti komið til álita verða tengdar framkvæmdir að vera matsskyldar samkvæmt lögunum, en í sérhverju mati einstakra framkvæmda skal gera grein fyrir sammögnunaráhrifum þeirra með öðrum framkvæmdum. Með vísan til þessa og framanritaðs að öðru leyti verður eins og á stendur að telja að ákvörðun um sameiginlegt mat álversins og tengdra framkvæmda nú færi í bága við framangreindan kjarnaþátt meðalhófsreglunnar svo og sjónarmið um réttmætar væntingar framkvæmdaraðila. Í þessu sambandi skal þó áréttað að niðurstaða þessi felur ekki í sér afstöðu ráðuneytisins til þess hvort 2. mgr. 5. gr. kunni síðar að geta komið til álita vegna annarra matsskyldra framkvæmda álverinu í Helguvík tengdum.“
    Af framansögðu er ljóst að úrskurður núverandi umhverfisráðherra brýtur í bága við meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og sjónarmið um réttmætar væntingar framkvæmdaraðila. Þegar fyrrverandi umhverfisráðherra tók afstöðu til þess, hvort framkvæmdir í Helguvík skyldu sæta sameiginlegu mati (sbr. úrskurð dags. 4. apríl 2008), taldi hann að meðalhófsregla stjórnsýslulaga og sjónarmið um réttmætar væntingar framkvæmdaraðila stæðu því í vegi að hægt væri að beita 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum og fara fram á sameiginlegt mat. Núverandi umhverfisráðherra fer þvert á þennan úrskurð sem framkvæmdaraðilar hafa hins vegar stuðst við í góðri trú.
    Þetta er fullkomlega ámælisverð stjórnsýsla, sem hlýtur að hafa í för með sér beint fjárhagslegt tjón þeirra sem unnið hafa í góðri trú að uppbyggingu mannvirkja. Afleiðingin er því sú að framkvæmdaraðilar og aðrir fjárfestar geta ekki tekið ákvarðanir í vissu um að framkvæmdarvaldið grípi ekki inn í með svo dæmalausum hætti sem nú hefur gerst.
    Til viðbótar við þetta er einnig ljóst að ráðherra hefur þverbrotið allar reglur um fresti og farið þannig freklega á skjön við kærufresti í ákvæðum laga um umhverfisáhrif. Á þetta hafa Samtök atvinnulífsins meðal annars bent. Skv. 4. mgr. 14. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum er ráðherra skylt að kveða upp úrskurð innan tveggja mánaða frá því að kærufrestur rann út í kærumáli sem varðar ákvörðun Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 5. gr. Samkvæmt framangreindu rann frestur ráðherra til að úrskurða í málinu því út 25. júní sl. Þrátt fyrir skýr lagafyrirmæli um annað úrskurðaði ráðherra í málinu 29. september sl., rúmum þremur mánuðum eftir að lögbundinn úrskurðarfrestur var útrunninn.
    Hér er um grafalvarlegt mál að ræða. Stjórnsýsla umhverfisráðherra er óskiljanleg. Úrskurðurinn er á svig við lög og reglur og afleiðingarnar af gjörðum ráðherrans eru alvarlegar fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, jafnframt því að brjóta stöðugleikasáttmálann sem ríkisstjórnin er aðili að. Enn fremur veikir þetta fjármögnunarmöguleika íslenskra orkufyrirtækja og fælir frá mögulega fjárfesta sem ekki geta lengur treyst á samninga stjórnvalda.
    Þetta er mál af þeirri stærðargráðu að ríkisstjórnin hlýtur að láta það sig varða. Forusta ríkisstjórnarinnar hlýtur að knýja á um að umhverfisráðherra afturkalli ákvörðun sína. Þótt ekki væri nema vegna þeirrar ábyrgðar sem hún ber á því að stöðugleikasáttmálanum verði stefnt í frekari óvissu. Nóg er nú samt.