Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 57. máls.

Þskj. 57  —  57. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist eftirfarandi orðskýring í viðeigandi stafrófsröð: Reikiþjónusta: Símtalsþjónusta, SMS-þjónusta, MMS-þjónusta og önnur gagnaflutningsþjónusta í farsímaneti sem á upphaf hjá viðskiptavini í farsímaneti rekstraraðila hér á landi og lýkur í farsímaneti rekstraraðila í öðru ríki eða er móttekið af viðskiptavini með upphaf í almennu símaneti í öðru ríki og lýkur í farsímaneti rekstraraðila hér á landi.

2. gr.

    Í stað hlutfallstölunnar „0,65%“ í 3. mgr. 22. gr. laganna kemur: 0,10%.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 35. gr. laganna:
     a.      Í stað orðsins „reikisímtal“ í 1. mgr. kemur: reikiþjónustu.
     b.      Í stað orðsins „reiki“ í inngangsmálslið 2. mgr. kemur: reikiþjónustu.
     c.      Á eftir orðinu „Hámarksverð“ í c-lið 2. mgr. kemur: í heild- og smásölu.
     d.      Við 2. mgr. bætast fjórir stafliðir, svohljóðandi:
        i.     Reglur um tímamælingar og gjaldfærslur reikisímtala.
        j.     Gjaldtöku fyrir móttöku talhólfsskilaboða í reikiþjónustu.
        k.     Skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita reikiviðskiptavinum sínum persónubundnar upplýsingar um verð og annað tengt gagnaflutningsþjónustu í reiki.
        l.     Skyldu fjarskiptafyrirtækja til að gera reikiviðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með gagnaflutningsnotkun sinni á grundvelli verðs og magns og veita þeim kost á að velja efstu mörk fyrir slíka þjónustu yfir ákveðið tímabil.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Lækkun jöfnunargjaldsprósentu skv. 2. gr. gildir afturvirkt frá 1. janúar 2009.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Inngangur.
    Hjá samgönguráðuneytinu hefur verið unnið að frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, í samráði við Póst- og fjarskiptastofnun.
    Tilgangur frumvarps þessa er annars vegar að lækka álagningarprósentu (gjaldhlutfall) jöfnunargjalds í jöfnunarsjóð alþjónustu og hins vegar að innleiða ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 544/2009 frá 18. júní 2009 um breytingar á reglugerð nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins, og á tilskipun 2002/21/EB (hér eftir nýja reikireglugerðin).

II. Lækkun álagningarprósentu jöfnunargjalds.
    Með lögum um fjarskipti, nr. 81/2003, var m.a. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/ 22/EB frá 7. mars 2002 um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og þjónustu innleidd í íslenskan rétt. Alþjónustu má skilgreina sem afmarkaða þætti fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra, sbr. 1. gr. reglugerðar um alþjónustu nr. 1356/ 2007. Allir landsmenn eiga rétt á alþjónustu, sbr. 1. mgr. 19. gr. fjarskiptalaga og 6. gr. reglugerðar um alþjónustu nr. 1356/2007.
    Í samræmi við ákvæði 20. gr. fjarskiptalaga ákveður Póst- og fjarskiptastofnun hvort og þá hvaða fyrirtæki skuli veita alþjónustu. Útnefning alþjónustuveitanda er tímabundin. Póst- og fjarskiptastofnun hefur útnefnt Símann hf. sem veitanda alþjónustu, fyrst samkvæmt rekstrarleyfi félagsins frá 30. júlí 1998. Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar frá 5. apríl 2005 voru alþjónustukvaðir á félagið að stofni til framlengdar til 31. desember 2007. Voru þessar skyldur síðan endurnýjaðar með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 25/2007, en þá voru Síminn hf., Já upplýsingaveitur og Míla hf. útnefnd með skyldu til þess að veita alþjónustu í fjarskiptum á starfssvæði sínu. Þessu til viðbótar telst neyðarsímsvörun til alþjónustu og hefur Neyðarlínan verið útnefnd með skyldur í þessum efnum.
    Telji fjarskiptafyrirtæki, þ.m.t. Neyðarlínan, að alþjónusta sem því er gert skylt að veita, sbr. 20. gr., sé rekin með tapi og því ósanngjörn byrði á fyrirtækinu getur það sótt um til Póst- og fjarskiptastofnunar að því verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá stafsemi sem um ræðir. Við útreikninga á kostnaði við alþjónustu skal m.a. taka mið af markaðsávinningi af því að veita þjónustuna með hliðsjón af greiningu kostnaðar við að veita þjónustuna. Samkvæmt lögum skal rekstrarþáttur alþjónustu vera aðskilinn öðrum rekstri í bókhaldi alþjónustuveitanda, sbr. 6. mgr. 21. gr. fjarskiptalaga og 12. gr. reglugerðar um alþjónustu. Endurgjaldið er ákveðið af Póst- og fjarskiptastofnun í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar og að jafnaði fyrir eitt ár í senn. Telji Póst- og fjarskiptastofnun eða veitandi alþjónustu að forsendur fyrir ákvörðun fjárframlaga hafi breyst verulega getur hvort um sig krafist endurskoðunar á framlaginu og gildistíma þess, sbr. 5. mgr. 21. gr. laganna.
    Endurgjald vegna alþjónustu er greitt úr jöfnunarsjóði alþjónustu, sbr. 1. mgr. 22. gr. fjarskiptalaga. Sjóðurinn er samkvæmt ákvæðinu í vörslu Póst- og fjarskiptastofnunar, en fjárhagur hans er aðskilinn frá fjárhag stofnunarinnar. Sjóðurinn er fjármagnaður með gjaldi sem lagt er á öll starfandi fjarskiptafyrirtæki á landinu.
    Lengst af var það einungis Neyðarlínan ohf. sem sótti um framlag úr jöfnunarsjóði vegna skyldu félagsins til að veita aðgang að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala. Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála 10. október 2007, nr. 1/2007, var Símanum ákvarðað framlag úr jöfnunarsjóði vegna hluta af kostnaði fyrirtækisins við uppbyggingu á gagnaflutningsþjónustu með 128 Kb/s flutningsgetu um landið allt á árunum 2001–2005, samtals 163.233.277 kr. Til að mæta þessari útgjaldaaukningu úr jöfnunarsjóði var álagningarprósenta jöfnunargjalds hækkuð úr 0,12% í 0,65%, sjá nánar athugasemdir við frumvarp sem varð að lögum nr. 143/2007, um breytingar á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.
    Síminn hefur hins vegar ekki sótt um frekari framlög úr jöfnunarsjóði alþjónustu vegna gagnaflutningsþjónustu með 128 Kb/s flutningsgetu, né annarra alþjónustuskyldna sem hvíla á fyrirtækinu. Það sama gildir um Mílu ehf. og Já upplýsingaveitur ehf., en skyldum fyrirtækjanna að því er viðkemur alþjónustu er lýst í ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 25/2007. Af þeim sökum er nauðsynlegt að lækka núverandi álagningarprósentu þannig að álagt jöfnunargjald á fjarskiptafyrirtæki landsins standi einungis undir þeirri þjónustu sem Neyðarlínunni ohf. er skylt að veita undir merkjum alþjónustu og fyrirtækið hefur sótt um að fá framlög fyrir undanfarin ár.
    Með ákvörðun Póst- og fjarskiptastofnunar nr. 12/2009 var Neyðarlínunni ákvarðað framlag úr sjóðnum fyrir árið 2009 að upphæð 33.371.618 kr. og eru þetta einu skuldbindingarnar sem fallið hafa á sjóðinn á þessu ári og koma að óbreyttu til með að gera næstu ár. Í skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um jöfnunarsjóð fyrir árið 2008 má sjá stöðu sjóðsins um síðustu áramót.
    Lækkun prósentunnar þýðir að álögur á fjarskiptafyrirtæki landsins vegna jöfnunargjalds munu lækka um sem nemur 163 millj. kr. sem er það framlag sem Símanum var ákvarðað með úrskurði úrskurðarnefndar nr. 1/2007.
    Í samræmi við 3. mgr. 22. gr. fjarskiptalaga lagði Póst- og fjarskiptastofnun til, sbr. bréf til samgönguráðuneytisins, dags. 23. júlí 2009, að álagningarprósenta jöfnunargjalds fyrir árið 2009, sem kemur til innheimtu árið 2010, verði lækkuð úr 0,65% í 0,10%. Forsenda prósentuhlutfallsins er sú greining stofnunarinnar að bókfærð velta á fjarskiptamarkaðinum verði a.m.k. 35 milljarðar kr. Til samanburðar var álagningarstofn rekstargjalds á árinu 2008 tæpir 40 milljarðar kr., sjá nánar fylgiskjal I .
    Samkvæmt framangreindu er lagt til í frumvarpi þessu, í samræmi við tillögu Póst- og fjarskiptastofnunar, að álagningarprósenta jöfnunargjalds verði ákveðin 0,10% fyrir árið 2009. Prósentutala þessi er miðuð við að áætluð velta gjaldskyldra aðila á árinu 2009 verði a.m.k. 35 milljarðar kr. Ef frumvarpið verður að lögum verða heildartekjur jöfnunarsjóðs á árinu 2010 í kringum 35 millj. kr.
    Álagning og innheimta jöfnunargjalds fer að öðru leyti eftir ákvæðum VIII.–XIV. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum.

III. Ný reglugerð um reikiþjónustu á EES-svæðinu.
    Um mitt ár 2007 tók gildi í Evrópu reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 717/ 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins og um breytingu á tilskipun 2002/21/EB (hér eftir reikireglugerðin). Með reikireglugerðinni voru settar skýrar reglur á þessu sviði með það að markmiði að sameiginlegri nálgun væri beitt innan EES til að tryggja að notendur almennra farsímaneta borgi ekki óhófleg verð fyrir reikisímtöl innan EES. Tilgangur reikireglugerðarinnar er m.a. að ná fram öflugri neytendavernd og um leið tryggja samkeppni milli rekstraraðila farsímaneta og að smásöluverð fyrir reikiþjónustu innan EES endurspegli á sanngjarnan hátt undirliggjandi kostnað sem felst í að veita þessa þjónustu. Gildissvið reikireglugerðarinnar er að mestu leyti takmarkað við hefðbundin reikisímtöl, þ.e. upphaf og lúkningu símtala, í farsímanetum og þætti sem tengjast þeim, t.d. hámarksmínútugjald (í heild- og smásölu), Evrópugjaldskrá, gagnsæi gjalda, viðmiðunargengi og uppgjörsaðferðir við myntbreytingar, upplýsingaskyldu fjarskiptafyrirtækja og skyldur fjarskiptafyrirtækja til að verða við beiðnum reikiviðskiptavina um skipti milli reikigjaldskráa.
    Með 3. gr. laga nr. 118/2008, um breytingu á lögum nr. 81/2003, um fjarskipti, var reikireglugerðin innleidd í íslenskan rétt í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt EES- samningnum og þannig séð til þess að fjarskiptafyrirtæki hér á landi uppfylli skilyrði hennar. Var reikireglugerðin innleidd með þeim hætti að eldra ákvæði 35. gr., er kvað á um samninga fjarskiptafyrirtækja um innanlandsreiki, var fellt brott í samræmi við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA). Í stað eldra ákvæðis 35. gr. kom nýtt ákvæði er kveður á um skyldu fjarskiptafyrirtækja til að sjá til þess að heild- og smásöluverð fyrir reikisímtöl í farsímanetum innan EES-svæðisins verði ekki hærra en það hámarksverð sem er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu hverju sinni. Í 2. mgr. 35. gr. er síðan að finna reglugerðarheimild til að innleiða reikireglugerðina en samkvæmt ákvæðinu skal samgönguráðherra setja reglugerð um reiki í almennum farsímanetum. Í ákvæðinu er talið upp í a–h-lið hvaða þættir reikiþjónustu það eru sem reglugerð ráðherra gildir um. Hins vegar er þar ekki um tæmandi talningu að ræða, sbr. skammstöfunina „m.a.“. Framangreind lög voru samþykkt á Alþingi 11. september 2008 en reikireglugerðin var innleidd formlega hér á landi með reglugerð nr. 1046/2008 28. október 2008.
    Í kjölfar endurskoðunar framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins á framkvæmd reikireglugerðarinnar, í samræmi við 11. gr. reglugerðarinnar, var það niðurstaðan að til að ná betur fram markmiðum reikreglugerðarinnar, þ.e. að efla neytendavernd og tryggja samkeppni milli rekstraraðila farsímaneta, væri að nauðsynlegt að framlengja gildistíma reikireglugerðarinnar og víkka út gildissvið hennar með því að setja reglur um aðrar reikiþjónustur í farsímanetum en einungis hefðbundin símtöl.
    Eftir töluverða undirbúningsvinnu og hefðbundið samráðsferli hjá Evrópusambandinu var 18. júní 2009 samþykkt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 544/2009 um breytingar á reglugerð nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins, og á tilskipun 2002/21/EB (hér eftir nýja reikireglugerðin). Með reglugerð þessari, sem hér er lagt til að verði innleidd í íslenskan rétt, er gildistími reikireglugerðarinnar framlengdur um tvö ár eða til 30. júní 2012. Þá er gildissvið reikireglugerðarinnar víkkað út svo hún nái yfir fleiri reikiþjónustur í farsímanetum auk hefðbundinna símtala. Þannig er til að mynda bætt við ákvæðum sem gilda um SMS-, MMS- og gagnaflutningsþjónustu í farsímanetum og fleiri reglur settar um upplýsingaskyldu þjónustuveitenda, einkum þegar kemur að SMS- og gagnaflutningsþjónustu í reiki. Aðrar helstu breytingar eða nýjungar sem nýja reikireglugerðin kveður á um eru m.a.:
          Þak fyrir heildsölugjald fyrir reikisímtöl skv. 3. gr. er lækkað.
          Þak fyrir smásölugjald fyrir reikisímtöl skv. 4. gr. er lækkað.
          Þjónustuveitendum verður óheimilt að gjaldfæra viðskiptavini fyrir móttekin talhólfsskilaboð í reiki.
          Tímamæling þjónustuveitenda á gjaldfærslu reikisímtala skal vera í sekúndum.
          Þak er sett á heildsölugjöld fyrir SMS í reiki.
          Sérstök Evrópugjaldskrá fyrir SMS skal vera í boði.
          Þak er sett á smásölugjöld fyrir SMS.
          Óheimilt er að gjaldfæra reikiviðskiptavini fyrir móttekin SMS.
          Upplýsingaskylda þjónustuveitenda um gagnsæi smásölugjalda skv. 6. gr. er látið ná til SMS-, MMS- og gagnaflutningsþjónustu í reiki, eins og við á.
          Sérstakar reglur eru settar um gagnsæi smásölugjalda fyrir gagnaflutningsþjónustu til að efla neytendavernd.
          Þak er sett á heildsölugjald fyrir gagnaflutningsþjónustu með reiki í farsímanetum.
    Ekki er sett sérstakt þak eða hámarksverð á smásölugjöld fyrir gagnaflutningsþjónustu í farsímanetum þar sem framkvæmdastjórn ESB mat það svo eftir endurskoðun á reikireglugerðinni að nægileg samkeppni ríkti á smásölumarkaði fyrir þessa þjónustu. Er það einkum vegna þess að notendur hafa aðra valmöguleika en farsímanet til að fá aðgang að gagnaflutningsþjónustu. Til að mynda hafa notendur víða aðgang að þráðlausum aðgangsnetum að internetinu. Af þessum sökum þykir ótímabært að setja hömlur eða reglur um gjöld fyrir þessa þjónustu á smásölustigi. Hins vegar er ljóst að tenging símtækis/búnaðar við gagnaflutningsþjónustu í reiki verður ávallt að vera með fyrirframsamþykki viðkomandi notanda hverju sinni. Á því ekki að vera neinn gagnaflutningur í reiki, þar á meðal hugbúnaðaruppfærslur og niðurhal netpósts, án fyrirframsamþykkis eða beiðni hlutaðeigandi notanda, nema því aðeins ef viðkomandi hefur gefið til kynna að hann óski ekki eftir slíkri vernd. Þjónustuveitendum er því ekki heimilt að gjaldfæra reikiviðskiptavini sína fyrir gagnaflutningsþjónustu sem nýja reikireglugerðin gildir um nema viðskiptavinurinn hafi áður samþykkt skilmála þjónustunnar.
    Þrátt fyrir að nýja reikireglugerðin kveði ekki á um hámarksgjöld fyrir gagnaflutningsþjónustu í reiki á smásölustigi eru settar ýmsar reglur til að bæta gagnsæi smásölugjalda fyrir þessa þjónustu. Markmið þessara nýju gagnsæisreglna um gagnaflutningsþjónustu er að reikiviðskiptavinir verði sem best upplýstir um þau gjöld og skilmála sem gilda fyrir þá persónulega þegar þeir nota gagnaflutningsþjónustu í reiki. Er þannig komið í veg fyrir að notendur fái óvænt svimandi háa reikninga (e. bill shock) með því að gera þjónustuveitendum skylt að gera reikiviðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með og stjórna útgjöldum sínum vegna þessarar þjónustu.
    Þar sem framangreind reikireglugerð Evrópusambandsins er hluti af EES-samningnum, samkvæmt ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á IX viðauka EES-samningsins nr. 143/2007 frá 26. október 2007, með þeim breytingum og viðbótum sem leiðir af IX. viðauka, bókun 1 um altæka aðlögun og öðrum ákvæðum hans, leiða skuldbindingar samkvæmt samningnum til þess að nauðsynlegt er að innleiða reglugerðina í íslensk lög.
    Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að innleidd verði í heild sinni reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 544/2009 frá 18. júní 2009, um breytingar á reglugerð nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins, og á tilskipun 2002/ 21/EB, með reglugerð sem ráðherra setur á grundvelli ákvæðis 2. mgr. 35. gr. laga nr. 81/2003, um fjarskipti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. og 2. gr.


    Ákvæðin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.


     Um a-lið.
    Með reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 544/2009 frá 18. júní 2009 um breytingar á reglugerð nr. 717/2007 frá 27. júní 2007, um reiki á almennum farsímanetum innan bandalagsins, og á tilskipun 2002/21/EB er gildissvið reikireglugerðarinnar víkkað út svo að hún nái yfir fleiri reikiþjónustur í farsímanetum auk hefðbundinna símtala. Með þessum breytingum gildir reikireglugerð EB nú jafnframt um SMS-, MMS- og gagnaflutningsþjónustu í farsímanetum. Af þessari ástæðu þykir nauðsynlegt að gera viðeigandi breytingar á orðalagi 1. mgr. 35. gr. laganna og er því lagt til að í stað orðsins „reikisímtal“ í ákvæðinu komi orðið „reikiþjónustu“.
     Um b-lið.
    Til að skýrt sé að reglugerð ráðherra gildir um allar þær þjónustur sem reikireglugerðin gildir um og farsímaþjónustuveitendur veita í reiki þykir rétt að skýra betur orðalag 2. mgr. 35. gr. þar sem segir að samgönguráðherra setji „reglugerð um reiki“. Er því lagt til að í stað orðsins „reiki“ komi orðið „reikiþjónusta“.
     Um c-lið.
    Með nýju reikireglugerðinni eru settar reglur um hámarksverð fyrir SMS-, MMS- og gagnaflutningsþjónustu í farsímanetum. Þrátt fyrir að þessir þættir séu nú þegar taldir upp í núgildandi c-lið ákvæðisins þykir nauðsynlegt að gera betur grein fyrir forsendum fyrir því hámarksverði sem þar er getið um, þ.e. heimildin til að setja hámarksverð gildir fyrir bæði heildsölu- og smásölustig. Af þessari ástæðu er lagt til að á eftir orðinu „Hámarksverð“ í c-lið 2. mgr. 35. gr. bætist við orðin „í heild- og smásölu“.
     Um d-lið.
    Til að fylgja eftir þeim breytingum og nýjungum sem nýja reikireglugerðin kveður á um og tryggja rétta innleiðingu á nýju reikireglugerðinni er lagt til að fjórum nýjum stafliðum verði bætt við ákvæði 2. mgr. 35. gr.
    I-liður:
    Fram til þessa hafa fjarskiptafélög beitt mismunandi aðferðum við tímamælingu á gjaldfærslu símtala, hvort sem um er að ræða innanlands- eða reikisímtöl. Þegar símtal hefst er fyrst tekið upphafsgjald og um leið er einnig gjaldfært fyrir lágmarkslengd. Þegar lágmarkstíminn er liðinn er gjaldfært fyrir hvert byrjað tímabil. Tímabil lágmarkslengdar og tímabils er táknað í gjaldskrá með tveimur tölum með deilistriki á milli, sbr. 60/10, 60/30 og 60/60. Til dæmis þýðir tímamælingin 60/10 að lágmarkslengdin miðast við 60 sekúndur og síðan er gjaldfært fyrir hverjar byrjaðar 10 sekúndur eftir það. Notandi sem talar í 62 sekúndur greiðir þannig upphafsgjald, lágmarkslengd 60 sekúndur og 10 sekúndur þar til viðbótar þótt hann hafi einungis notað 2 sekúndur af þessum 10.
    Samkvæmt nýju reikireglugerðinni er þjónustuveitendum aðeins heimilt að gjaldfæra reikiviðskiptavini sína fyrir hverja notaða sekúndu. Til að vega upp á móti þessari breytingu er þjónustuveitendum heimilt að leggja á reikisímtöl ákveðið upphafsgjald sem má þó ekki vera hærra en gjald fyrir 30 sekúndna reikisímtal. Þetta upphafsgjald má hins vegar aðeins leggja á hringd reikisímtöl en ekki móttekin reikisímtöl. Með hliðsjón af framangreindu og til að tryggja að fullnægjandi lagastoð sé fyrir hendi fyrir framangreindri reglu er lagt til að nýjum staflið, i-lið, verði bætt við ákvæði 2. mgr. 35. gr., svohljóðandi: Reglur um tímamælingar og gjaldfærslur reikisímtala.
    J-liður:
    Hingað til hefur þetta verið svo að farsímanotandi hér á landi sem hefur kveikt á talhólfsþjónustu tengdri símanúmeri sínu hefur þurft að greiða reikisímtal til Íslands þegar símtal fer í talhólf á meðan viðkomandi er í útlöndum. Að auki hefur sá sem hringir og er framvísað í talhólf þurft að greiða innanlandssímtal. Margir notendur hafa verið óánægðir með að þurfa að greiða fyrir símtöl sem enda í talhólfum þeirra þar sem þeir hafa ekki sjálfir stjórn á lengd skilaboðanna. Fram til þessa hafa þjónustuveitendur hér á landi þó reynt að upplýsa viðskiptavini sína um hversu kostnaðarsamt það getur verið að nota talhólf í útlöndum og því mælst til þess að þeir sem ekki kæra sig um að greiða fyrir móttekin talhólfsskilaboð slökkvi á talhólfinu með þeir eru erlendis.
    Samkvæmt nýju reikireglugerðinni verður hér breyting á, en þó ekki fyrr en 1. júlí 2010. Frá og með þeim tíma verður þjónustuveitendum óheimilt að gjaldfæra reikiviðskiptavini sína fyrir móttöku talhólfsskilaboða. Þykir þetta nauðsynleg neytendavernd þar sem reikiviðskiptavinir sem móttaka símtöl sem enda í talhólfum þeirra hafa ekki sjálfir stjórn á lengd slíkra skilaboða. Með hliðsjón af framangreindu og til að tryggja að fullnægjandi lagastoð sé fyrir hendi fyrir framangreindri reglu er lagt til að nýjum staflið, j-lið, verði bætt við ákvæði 2. mgr. 35. gr., svohljóðandi: Gjaldtöku fyrir móttöku talhólfsskilaboða í reikiþjónustu.
    K-liður:
    Með nýju reikireglugerðinni eru settar ýmsar reglur til að bæta gagnsæi smásölugjalda fyrir gagnaflutningsþjónustu í reiki. Þannig kveður nýja reikireglugerðin m.a. á um að þjónustuveitendur skuli upplýsa viðskiptavini sína um þá áhættu sem getur fylgt sjálfvirkri tengingu búnaðar við gagnaflutningsþjónustu í farsímanetum og hvernig hægt er á auðveldan hátt að slökkva á slíkum sjálfvirkum tengingum. Þá er jafnframt kveðið á um skyldu þjónustuveitenda til að senda reikiviðskiptavinum sínum sjálfvirk skilaboð, í hvert sinn sem viðkomandi kemur í annað ríki og reynir þar að tengjast gagnaflutningsþjónustu, þar sem honum er tilkynnt um að tenging við reikiþjónustu sé komin á. Í sömu skilaboðum skulu veittar persónubundnar upplýsingar um gjaldskrár sem viðkomandi viðskiptavini standa til boða. Þessar upplýsingar eiga þjónustuveitendur að senda í farsíma viðkomandi eða annan búnað sem tengist farsímaneti með reiki honum að kostnaðarlausu og á máta sem best hæfir til að tryggja auðvelda móttöku og skilning.
    Með hliðsjón af framangreindu og til að tryggja að fullnægjandi lagastoð sé fyrir nýjum reglum um gagnsæi smásölugjalda fyrir gagnaflutningsþjónustu er lagt til að nýjum staflið, k-lið, verði bætt við ákvæði 2. mgr. 35. gr., svohljóðandi: Skyldu fjarskiptafyrirtækja til að veita reikiviðskiptavinum sínum persónubundnar upplýsingar um verð og annað tengt gagnaflutningsþjónustu í reiki.
    L-liður:
    Auk nýrra reglna um gagnsæi smásölugjalda kveður nýja reikireglugerðin jafnframt á um skyldu þjónustuveitenda til að gera reikiviðskiptavinum sínum kleift, þeim að kostaðarlausu, að fylgjast með gagnaflutningsnotkun sinni á grundvelli verðs og magns yfir ákveðið tímabil. Þá skulu þjónustuveitendur jafnframt gefa reikiviðskiptavinum sínum kost á að setja mörk á það verð eða magn sem þeir geta notað fyrir gagnaflutningsþjónustu í reiki yfir ákveðið tímabil. Verður þessi þjónusta að standa reikiviðskiptavinum á EES-svæðinu til boða 1. mars 2010 í síðasta lagi. Til að tryggja að fullnægjandi lagastoð sé fyrir framangreindri reglu er lagt til að nýjum staflið, l-lið, verði bætt við ákvæði 2. mgr. 35. gr. og orðist hann svo: Skyldu fjarskiptafyrirtækja til að gera reikiviðskiptavinum sínum kleift að fylgjast með gagnaflutningsnotkun sinni á grundvelli verðs og magns og veita þeim kost á velja efstu mörk fyrir slíka þjónustu yfir ákveðið tímabil.

Um 4. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Gert er ráð fyrir að álagningarprósenta jöfnunargjalds gildi afturvirkt þannig að við álagningu skattyfirvalda á árinu 2010 verði stuðst við hina nýju prósentu þegar kemur að álagningu jöfnunargjalds vegna ársins 2009. Ástæða þess er fyrst og fremst sú að ekki er gert ráð fyrir að í jöfnunarsjóð komi tekjur umfram þau framlög sem Póst- og fjarskiptastofnun samþykkir að fenginni umsókn. Um ívilnandi aðgerð er að ræða í þágu greiðanda jöfnunargjalds þannig að ekki mun reyna á ákvæði 72. og 77. gr. stjórnarskrárinnar.



Fylgiskjal I.


Álagningarprósenta Jöfnunarsjóðs alþjónustu
árið 2010 vegna tekna á árinu 2009.


Forsendur.
    Stofn til rekstrargjalds á árinu 2009 vegna tekna á árinu 2008 er 39.593.852.643 kr.
    Stofn til jöfnunargjalds er sá sami og er til rekstrargjalds vegna tekna á árinu 2008.
    Umsókn Neyðarlínunnar fyrir árið 2009 er 33.371.618 kr.
    Skuld jöfnunarsjóðs við Póst- og fjarskiptastofnun er 6.894.872 kr.

Álagning (stofn í þús. kr.)

Stofn / % 35000000 37000000 39000000 40000000 42000000 44000000
0,05% 17500 18500 19500 20000 21000 22000
0,06% 21000 22200 23400 24000 25200 26400
0,07% 24500 25900 27300 28000 29400 30800
0,08% 28000 29600 31200 32000 33600 35200
0,09% 31500 33300 35100 36000 37800 39600
0,10% 35000 37000 39000 40000 42000 44000
0,11% 38500 40700 42900 44000 46200 48400
0,12% 42000 44400 46800 48000 50400 52800
Niðurstaða 0,10%




Fylgiskjal II.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjarskipti,
nr. 81/2003, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að jöfnunarsjóðsgjald skv. 22. gr. núgildandi laga verði lækkað úr 0,65% í 0,1%. Við það er áætlað að álögur á fjarskiptafyrirtæki muni nema eftir breytingu um 35 m.kr. og mun því fjárheimild Jöfnunarsjóðs alþjónustu lækka til samræmis. Endurgjald vegna alþjónustu er greitt úr Jöfnunarsjóði alþjónustu en sjóðurinn er fjármagnaður með gjaldi sem lagt er á öll fjarskiptafyrirtæki á landinu. Alþjónustu má skilgreina sem afmarkaða þætti fjarskipta af tilteknum lágmarksgæðum sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra. Lengst af var það einungis Neyðarlínan ohf. sem sótti um framlag úr sjóðnum vegna skyldu félagsins til að veita aðgang að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala. Með úrskurði úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála, þann 10. október 2007 nr. 1/2007, var tilteknu fjarskiptafyrirtæki ákvarðað framlag úr sjóðnum vegna hluta af kostnaði fyrirtækisins við uppbyggingu á ákveðinni gagnaflutningsþjónustu um landið allt á árunum 2001–2005 sem nam rúmum 163 m.kr. Til að mæta þeirri útgjaldaaukningu var álagningarhlutfall jöfnunargjalds hækkað úr 0,12% í 0,65%. Þar sem ekki hefur verið sótt um frekari framlög úr sjóðnum vegna þessarar tilteknu þjónustu er talið nauðsynlegt að lækka álagningarhlutfallið í 0,1% þannig að álagt jöfnunargjald á fjarskiptafyrirtæki landsins standi einungis undir þeirri þjónustu sem Neyðarlínunni ohf. er skylt að veita undir merkjum alþjónustu.
    Hins vegar er í frumvarpinu lagt til að innleidd verði ákvæði reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 544/2009 um breytingar á reglugerð 717/2007 um reiki á almennum farsímanetum innan Bandalagsins. Með breytingunni er sett þak á ýmis gjöld fjarskiptafyrirtækja til notenda vegna alþjóðlegs reikis en það er farsímaþjónusta sem notendur farsíma nýta sér þegar þeir eru staddir utan þess ríkis sem fjarskiptafyrirtæki sem þeir eiga viðskipti við starfar í.
    Í fjárlögum 2009 var fjárheimild Jöfnunarsjóðs alþjónustu um 208 m.kr. Verði frumvarpið óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að fjárheimild sjóðsins lækki um 173 m.kr. og verði 35 m.kr. frá og með árinu 2010. Tekjur og gjöld ríkissjóðs munu lækka samsvarandi, eða um 173 m.kr., þar sem um markaðar ríkistekjur er að ræða.