Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 58. máls.

Þskj. 58  —  58. mál.



Frumvarp til landflutningalaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




I. KAFLI
Gildissvið.
1. gr.

    Lög þessi gilda um allan vöruflutning með ökutæki á landi án tillits til þess hvort greitt er fyrir flutninginn eða ekki enda annist flytjandi flutning.
    Lögin gilda um vöruflutning með einu ökutæki, með samtengdum ökutækjum og með vagni eða í gámi þegar vagn eða gámur hefur verið festur við ökutæki, hvort sem slíkur vagn eða gámur er, við fermingu og/eða affermingu, tengdur við ökutæki eða ekki. Auk þess gilda lögin um lausan vagn eða gám sem tímabundið hefur verið aftengdur ökutæki meðan á vöruflutningi stendur.
    Lögin gilda um réttarsamband flytjanda, sendanda og móttakanda vörunnar. Auk þess gilda þau um réttarsamband eiganda vöru og flytjanda, sé eigandi hvorki sendandi né móttakandi vörunnar.
    Óheimilt er, nema annað sé tekið fram í lögunum, að víkja frá ákvæðum þeirra.

2. gr.

    Í lögum þessum er merking eftirfarandi orða sem hér segir:
     1.      Flytjandi: Sá sem með samningi tekur að sér vöruflutning með ökutæki fyrir annan, eiganda, sendanda og/eða móttakanda vörunnar, hvort sem hann ekur ökutækinu sjálfur eða ökumaður í hans þjónustu.
     2.      Vöruflutningur: Allir vöruflutningar á Íslandi með ökutækjum, vögnum og gámum, hvort sem flutt er fyrir einn aðila eða fleiri í einu og hvort sem flutt er innan sama bæjarfélags eða milli landshluta.
     3.      Gámur: Gámur hvort sem er lokaður eða opinn, fleti eða hvers kyns sambærileg flutningseining sem notuð er til að halda vörum saman.
     4.      Vagn: Hvers konar eftirvagn og tengitæki sem hönnuð eru til að vera dregin af ökutæki en ganga ekki fyrir eigin vélarafli.
     5.      Ökutæki: Tæki á hjólum, beltum, völtum, meiðum eða öðru sem ætlað er til aksturs á landi og eigi rennur á spori, þ.m.t., en þó ekki tæmandi, bifreið, bifhjól, dráttarvél og vinnuvél, hvort sem tækið er vélknúið eða ekki.
     6.      Fjölþáttaflutningur: Vöruflutningur þar sem sami farmflytjandi tekur að sér flutninginn með fleiri en einni flutningsaðferð frá móttökustað til afhendingarstaðar.
    

3. gr.

    Sé vagn, gámur og/eða ökutæki flutt hluta leiðar á skipi, án þess að vera jafnframt losað, gilda þessi lög um allan flutninginn.
    Þurfi að skipta um vagn, gám og/eða ökutæki á leiðinni, eða áður en varan er komin á ákvörðunarstað, telst samt vera um einn flutning að ræða sem fellur undir lög þessi.

4. gr.

    Lög þessi gilda einnig um starfsmenn, umboðsmenn og undirverktaka flytjanda, sendanda, móttakanda og eiganda vöru.

5. gr.

    Lög þessi gilda ekki um póstflutninga sem falla undir lög um póstþjónustu.
    Við flutning póstsendinga er flytjandi einungis ábyrgur gagnvart hlutaðeigandi póstþjónustu í samræmi við þær reglur sem aðilar hafa samið sérstaklega um að skuli gilda um flutninginn eða lög um póstþjónustu hafi ekki verið samið um slíkar reglur. Flytjandi ber ekki ábyrgð á flutningnum gagnvart sendanda, móttakanda og/eða eiganda póstsendingar.

6. gr.

    Þegar eigandi ökutækis er jafnframt flytjandi vöru skulu lög þessi ganga framar umferðarlögum um ábyrgð á tjóni sem kann að verða á vörunni.

II. KAFLI

Flutningssamningar.

7. gr.

    Fyrir sérhverja vörusendingu skal sendandi, sé ekki um annað samið, útfylla fylgibréf á þar til gert eyðublað sem flytjandi útvegar.
    Í stað fylgibréfs skv. 1. mgr. er sendanda heimilt, með samþykki flytjanda, að senda flytjanda með rafrænum hætti, eða á annan þann hátt sem flytjandi fer fram á, þær upplýsingar sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 8. gr. Í slíkum tilvikum ber flytjanda að varðveita upplýsingar um flutninginn á þann hátt sem hann kýs, þ.m.t. á rafrænu formi.
    Ef heimildar skv. 2. mgr. er neytt skal flytjandi afhenda sendanda kvittun sem gerir kleift að bera kennsl á vöruna og hefur að geyma þær upplýsingar sem varðveittar eru um flutninginn. Slík kvittun má vera á rafrænu formi.

8. gr.

    Fylgibréf eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. er sönnun fyrir gerð flutningssamnings, skilmála hans og móttöku flytjanda á vörunni eins og henni er þar lýst nema annað sannist eða um annað sé samið.
    Í fylgibréfi skv. 1. mgr. skulu a.m.k. vera eftirfarandi upplýsingar:
     1.      Nafn og heimilisfang sendanda.
     2.      Nafn og heimilisfang móttakanda.
     3.      Dagsetning á móttöku flytjanda á vörunni.
     4.      Fjöldi pakka, tilgreining vöru, pökkun, mál og vigt.
     5.      Merking um meðferð og meðhöndlun vöru.
     6.      Greiðsluskilmálar.
     7.      Kröfuupphæðir sem innheimta á hjá móttakanda sé um slíkt að ræða.
     8.      Tilgreining á verðmæti vörunnar ef sérstakar ástæður eru til.
     9.      Sérstök og skýr tilgreining ef flytja á vöruna við ákveðið hitastig eða ef meðhöndla á vöruna á einhvern sérstakan eða gætilegan hátt.
     10.      Sérstök tilgreining á því hvort um hættulega vöru er að ræða og nánari lýsing á eðli vörunnar ef um slíkt er að ræða.

9. gr.

    Sendanda og flytjanda er heimilt að bæta í fylgibréfið eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. öðrum upplýsingum sem þeir telja nauðsynlegar vegna flutnings vörunnar. Flytjanda er jafnframt heimilt að bæta við nánari reglum um framkvæmd flutningsins.

10. gr.

    Flytjandi staðfestir móttöku vörunnar með undirskrift sinni á fylgibréfið. Undirritun hans má vera prentuð eða stimpluð.
    Sé heimildar 2. mgr. 7. gr. neytt staðfestir flytjandi móttöku vörunnar með kvittun skv. 3. mgr. 7. gr.

11. gr.

    Þótt fylgibréf sé ekki gefið út, heimild 2. mgr. 7. gr. á ekki við eða fylgibréf eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. hefur glatast eða er ekki þess efnis sem mælt er fyrir um í lögum þessum er flutningssamningur engu að síður gildur og háður ákvæðum laga þessara.

III. KAFLI

Móttaka, flutningur og afhending vöru og flutningsgjald.

12. gr.

    Sendanda ber að merkja vöruna greinilega með nafni, heimilisfangi og síma móttakanda, svo og með öðrum nauðsynlegum upplýsingum, áður en hún er afhent flytjanda.

13. gr.

    Flytjanda ber að hafa þau lögbundnu leyfi sem krafist er vegna flutningsstarfseminnar, eftir því sem við á. Flytjanda ber jafnframt að sjá til þess með eðlilegri árvekni að ökutæki, vagn og gámur sé í fullnægjandi ástandi til móttöku, flutnings og varðveislu vöru og ber með eðlilegri árvekni að ferma, flytja, annast um og afferma vörur sem hann flytur.

14. gr.

    Flutningur samkvæmt lögum þessum er talinn hefjast er flytjandi tekur við vöru til flutnings og lýkur við afhendingu hennar til móttakanda eða skv. 16. gr.

15. gr.

    Við móttöku vöru skal flytjandi kanna hvort upplýsingar í fylgibréfi eða upplýsingar sem honum eru sendar skv. 2. mgr. 7. gr. eru réttar, eftir því sem séð verður. Flytjanda er heimilt að setja þá fyrirvara við upplýsingarnar sem hann telur nauðsynlega.
    Hafi flytjandi ekki færi á að kanna hvort upplýsingar eru réttar er honum heimilt að geta um það í fylgibréfinu eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. og undanskilja sig með því þeirri skyldu sem mælt er fyrir um í þessari grein.

16. gr.

    Flytjandi skal afhenda vöruna á ákvörðunarstað til þess aðila sem skráður er móttakandi í fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. nema sendandi og flytjandi hafi samið um annað.
    Ef móttakandi er ekki við því búinn að veita vöru viðtöku eða neitar að taka við vöru, móttakandi er ókunnur eða finnst ekki eða ómögulegt er að afhenda vöruna af öðrum orsökum, skal flytjandi koma vörunni í örugga geymslu á kostnað og áhættu sendanda og lýkur flutningnum við það, nema um annað sé samið. Flytjandi skal þá tilkynna sendanda um geymslu vörunnar og leita fyrirmæla hans um frekari meðferð hennar. Flytjanda er heimilt að krefja sendanda bæði um þann kostnað sem til fellur meðan beðið er eftir fyrirmælum frá sendanda og kostnað við að framfylgja þeim.
    Komi til þess að endursenda þurfi vöru til sendanda ber honum að greiða flutningsgjald og aðrar kröfur sem flytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. vegna upphaflegs flutnings, sem og allan þann kostnað sem til fellur við endursendingu vörunnar.
    Hafi flytjandi ekki innan fjórtán almanaksdaga, frá því að tilkynning skv. 2. mgr. er send af stað til sendanda með sannanlegum hætti, fengið fyrirmæli frá honum um meðferð vörunnar er flytjanda heimilt:
     a.      að selja svo mikið af vörunni sem þarf til lúkningar á kröfum sem á henni hvíla, á hvern þann hátt sem hann telur að sé hagstæðastur hverju sinni, án þess að þörf sé undangenginnar áskorunar til sendanda, móttakanda og eiganda vörunnar, eða
     b.      að farga allri vörunni eða hluta hennar á kostnað og áhættu sendanda enda sé sendanda tilkynnt skriflega með hæfilegum fyrirvara um þessa ráðstöfun flytjanda á vörunni, eða
     c.      að koma allri vörunni eða því sem ekki er selt skv. a-lið eða sem ekki er fargað skv. b- lið í örugga geymslu á kostnað og áhættu sendanda enda sé sendanda tilkynnt skriflega um þessa ráðstöfun flytjanda á vörunni.

17. gr.

    Þegar vara er komin á ákvörðunarstað getur móttakandi krafist afhendingar vörunnar gegn greiðslu þeirrar upphæðar sem innheimta skal samkvæmt fylgibréfinu eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. auk annarra gjalda sem hvíla á vörunni enda uppfylli hann öll þau skilyrði sem greinir í flutningssamningi.
    Flytjanda er heimilt að krefjast þess af móttakanda að hann sanni á sér deili áður en varan er afhent en að öðrum kosti er flytjanda heimilt að neita afhendingu án þess að baka sér skaðabótaskyldu. Í slíku tilviki skulu ákvæði 2. og 3. mgr. 16. gr. gilda eftir því sem við á.
    Verði ágreiningur um upphæð og gjöld sem móttakanda ber að greiða skv. 1. mgr. er flytjanda heimilt að neita að afhenda vöruna nema gegn tryggingu sem flytjandi metur fullnægjandi.

18. gr.

    Hafi ekki verið samið um fjárhæð flutningsgjalds skal greiða það gjald sem fram kemur í gjaldskrá flytjanda en sé ekki um slíka gjaldskrá að ræða það gjald sem almennt var notað þegar flytjandi tók við vörunni.
    Hafi verið flutt meira vörumagn en fylgibréf eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. getur um skal greiða flutningsgjald fyrir það sem umfram er í samræmi við 1. mgr.

IV. KAFLI


Ábyrgð flytjanda.


19. gr.

    Skemmist vara eða glatist meðan á flutningi stendur ber flytjanda að bæta tjón sem af því hlýst nema hann sanni að hvorki hann né maður sem hann ber ábyrgð á eigi sök á tjóninu.
    Flytjandi ber ábyrgð á tjóni sem verður af völdum óeðlilegra tafa í flutningi nema hann sanni að hann eða menn sem hann ber ábyrgð á hafi viðhaft þær aðgerðir við flutninginn sem sanngjarnt getur talist eða að ógerlegt hafi verið að framkvæma slíkar aðgerðir.

20. gr.

    Skaðabætur skv. 19. gr. skal ákveða eftir verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi að viðbættum flutningsgjöldum.
    Liggi verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi ekki fyrir skulu bætur ákveðnar eftir verðmæti slíkrar vöru á þeim stað og tíma þar sem og þegar afhending fer fram en sé ekki um slík verðmæti að ræða þá markaðsverði og sé hvorugu þessu til að dreifa þá venjulegu verði fyrir vöru sömu tegundar og af sömu gæðum. Sönnunarbyrði um verðmæti vöru hvílir á þeim sem bóta krefst.
    Lækka má skaðabætur sem flytjanda ber að greiða eða fella þær alveg niður ef hann sannar að eigandi, sendandi eða móttakandi vörunnar eða einhver sem þeir bera ábyrgð á hafa verið valdir eða samvaldir að tjóninu vegna yfirsjónar eða vanrækslu.

21. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði 20. gr. verður flytjanda aldrei gert að greiða hærri skaðabætur en sem nemur 12,5 SDR fyrir hvert kíló vöru sem skemmist eða glatast eða sem nemur fjárhæð flutningsgjalds sé um að ræða óeðlilegar tafir á afhendingu vöru og bótakrefjandi sannar að hann hafi orðið fyrir beinu fjártjóni vegna þeirra.
    Flytjandi getur ekki borið fyrir sig ábyrgðartakmarkanir skv. 1. mgr. ef það sannast að hann hafi sjálfur valdið tjóninu af ásetningi eða stórfelldu gáleysi og honum mátti vera ljóst að tjón mundi sennilega hljótast af.
    Með SDR er átt við sérstök dráttarréttindi eins og þau eru skilgreind af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gengisskráningu Seðlabanka Íslands á þeim við sölu. Umreikningur í íslenskar krónur skal miðast við uppgjörsdag en dómsuppsögudag ef málinu verður ekki lokið utan réttar.

22. gr.

    Heimilt er að semja um hærri hámarksbætur en nefndar eru í 21. gr.
    Auk þess er heimilt að semja um aðrar hámarksbætur en nefndar eru í 21. gr. sé um að ræða fjölþáttaflutning. Slíkar hámarksbætur geta þó aldrei verið lægri en þær hámarksbætur sem mælt er fyrir um í siglingalögum eða loftferðalögum, eftir því sem við á, enda er heimild þessi bundin því skilyrði að sömu hámarksbætur gildi meðan á fjölþáttaflutningi stendur.
    Hafi sendandi gefið upp í fylgibréfi hærra verðmæti vöru en kveðið er á um í 21. gr. og greitt flutningsgjald í samræmi við það skal það verð lagt til grundvallar um mörk ábyrgðar flytjanda ef það leiðir til hærri bóta en hámarksbóta skv. 21. gr.

23. gr.

    Ákvæði þessa kafla koma ekki í veg fyrir að flytjandi geri fyrirvara í fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. um undanþágu ábyrgðar:
     a.      á flutningi á lifandi dýrum, eða
     b.      á flutningi á vöru sem búið er að hlaða í gám þegar gámur er afhentur flytjanda til flutnings, eða
     c.      á fermingu og/eða affermingu ökutækis, vagns eða gáms þegar sendandi, móttakandi eða eigandi vöru sjá um fermingu og/eða affermingu ökutækis, vagns eða gáms.
    

V. KAFLI

Ábyrgð sendanda.

24. gr.

    Sendandi ber ábyrgð á að upplýsingar sem tilgreindar eru í fylgibréfi eða upplýsingar skv. 2. mgr. 7. gr. og merkingar vöru séu réttar. Hann er ábyrgur fyrir kostnaði og tjóni sem hlýst af því að upplýsingarnar eru rangar, ónákvæmar, ógreinilegar eða að öðru leyti ófullkomnar.

25. gr.

    Sendanda ber að sjá til þess að ástand, frágangur og pökkun vörunnar sé með þeim hætti að hún þoli umsaminn flutning og að flytjandi geti auðveldlega og örugglega fermt hana um borð í ökutæki, vagn eða gám, flutt hana og affermt.
    Sendanda ber að skýra sérstaklega frá því og merkja vöruna ef hún þarfnast sérstakrar umönnunar eða gætilegrar meðferðar.
    Sendandi er ábyrgur gagnvart flytjanda vegna tjóns sem vörusending hans veldur á ökutæki, vagni, gámi, mönnum, efni eða annarri vöru vegna þess að umbúðir eru lélegar eða ófullnægjandi. Þetta gildir þó ekki ef framangreint ástand umbúðanna er sýnilegt eða flytjanda er kunnugt um það og hann tekur við vörunni án fyrirvara um ástand umbúða.

26. gr.

    Sendandi skal sjá um og ber ábyrgð á að vara sem hefur í för með sér bruna- eða sprengihættu eða er að öðru leyti hættuleg ökutæki, vagni, gámi, öðrum vörum og/eða mönnum, svo og sýrur eða önnur fljótandi efni sem skemmt geta út frá sér, sé merkt samkvæmt gildandi reglum um flutning á hættulegum varningi og sé í fullnægjandi umbúðum.
    Áður en hættuleg vara skv. 1. mgr. er afhent til flutnings skal sendandi gefa nákvæmar upplýsingar um í hverju hættan er fólgin og hvaða varúðarráðstafanir verði að viðhafa við flutning hennar. Sendanda er einnig skylt að veita þá fræðslu um vöruna sem nauðsynleg er til að varna tjóni.
    Nú hefur vara sem um getur í 1. mgr. verið afhent til flutnings án þess að sendandi hafi upplýst flytjanda um þessa eiginleika hennar og er flytjanda þá heimilt, án þess að baka sér skaðabótaskyldu, að skilja vöruna eftir þar sem hann er staddur og gera hana óskaðlega eða eyðileggja með þeim hætti að ekki valdi öðrum tjóni en þess skal ávallt gætt að sendandi verði fyrir sem minnstum skaða.
    Aðgerðir sem flytjanda er heimilt að grípa til samkvæmt ákvæði þessu fara fram á kostnað og ábyrgð sendanda.

VI. KAFLI
Ábyrgð móttakanda.
27. gr.

    Móttakandi skal taka við vöru á ákvörðunarstað eins fljótt og verða má og eigi síðar en þremur dögum eftir að honum er kunnugt um að varan sé tilbúin til afhendingar.
    Með móttöku vöru skuldbindur móttakandi sig til að greiða flutningsgjald og aðrar kröfur sem flytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr., nema um annað sé samið.
    Ákvæði 2. mgr. eiga þó ekki við ef móttakandi hefur sannanlega óskað eftir því við sendanda og flytjanda að vara sé ekki flutt til hans með þeim greiðsluskilmálum að móttakandi eigi að greiða flutningsgjald eða aðrar kröfur sem flytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr.
    Komi til þess að vara sé samt sem áður send og afhent móttakanda þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. skal sendandi greiða flutningsgjald og aðrar kröfur sem flytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr.
    Um móttöku, afhendingu og flutning vörunnar skal að öðru leyti fara samkvæmt ákvæðum III. kafla.

28. gr.

    Flytjandi hefur haldsrétt í vörunni þar til greitt hefur verið flutningsgjald og kröfur sem flytjandi getur krafist greiðslu á samkvæmt fylgibréfi eða kvittun skv. 3. mgr. 7. gr., sem og aðrar kröfur og annar kostnaður sem af flutningi stafa.
    Flytjanda er heimilt að selja svo mikið af vörunni sem þarf til lúkningar kröfum sem á henni hvíla á þann hátt sem hann kýs án þess að þörf sé undangenginnar áskorunar til sendanda, móttakanda eða eiganda hennar. Haldsréttur skv. 1. mgr. nær jafnframt til alls kostnaðar við slíka sölu, þ.m.t. kostnaðar við fermingu, affermingu og geymslu meðan á sölumeðferð stendur.

29. gr.

    Þegar móttakandi tekur við vöru án fyrirvara skal litið svo á að varan hafi verið afhent óskemmd og í samræmi við lýsingu í fylgibréfi, þar til annað sannast.

30. gr.

    Móttakandi skal tilkynna flytjanda um tjón á vörunni jafnskjótt og þess verður vart og í síðasta lagi þremur dögum eftir móttöku vörunnar. Að öðrum kosti telst varan hafa verið afhent í því ástandi sem lýst er í fylgibréfi, kvittun skv. 3. mgr. 7. gr. eða annarri móttökukvittun ef ekki eru færðar sannanir gegn því.
    Ef um töf er að ræða skal tilkynning hafa borist flytjanda í síðasta lagi fjórtán dögum frá því afhenda átti vöruna enda skal gengið út frá því að um óeðlilegan drátt hafi verið að ræða hafi vara ekki verið afhent innan þess tíma.
    Tilkynning samkvæmt þessari grein skal vera skrifleg og send með sannanlegum hætti innan þeirra tímafresta sem mælt er fyrir um í 1. og 2. mgr.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
31. gr.

    Kröfur sem rísa kunna í tengslum við flutning á grundvelli laga þessara fyrnast á einu ári frá því að móttakandi kvittar fyrir móttöku vörunnar eða á einu ári og tveimur mánuðum frá því að vara var afhent til flutnings sé ekki um kvittun móttakanda að ræða.
    Samningar sem mæla fyrir um að kröfur sem rísa á grundvelli laganna skuli ekki fyrnast eða að þeim skuli fylgja lengri eða styttri fyrningarfrestur en mælt er fyrir um í ákvæði þessu eru ógildir.

32. gr.

    Ákvæðum laga þessara skal beita hvort heldur krafa byggist á samningi eða ábyrgð utan samninga.

33. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010. Jafnframt falla úr gildi lög nr. 24/1982, um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Flutningur sem hefst en er ólokið fyrir gildistöku laga þessara skal fara eftir ákvæðum laga nr. 24/1982.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I.


    Frumvarp þetta er samið af starfshópi sem skipaður var af þáverandi samgönguráðherra með skipunarbréfi dags. 30. október 2006. Í starfshópnum sátu Svanhvít Axelsdóttir, lögfræðingur í samgönguráðuneytinu, Einar Baldvin Axelsson hrl. sem fulltrúi flytjenda og Lárus Óskarsson sem fulltrúi kaupenda þjónustunnar, báðir skipaðir af Samtökum verslunar og þjónustu.
    Megintilgangur frumvarpsins er að laga reglur um landflutninga að því rekstrarumhverfi sem greinin býr við núna og þeim breytingum sem orðið hafa á því sviði.

II.


    Gildandi lög um landflutninga eru lög nr. 24/1982, um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi. Lögin hafa að geyma reglur um efni flutningssamnings og ábyrgð flytjanda, sendanda og móttakanda. Áður en lög þessi tóku gildi voru ekki fyrir hendi lög eða reglur hér á landi um flutningssamninga og ábyrgð viðkomandi aðila við vöruflutninga á landi.
    Í frumvarpi til gildandi laga kemur fram að þau séu byggð á grundvelli tillagna frá Landvara, félagi íslenskra vöruflytjenda, og Félagi íslenskra stórkaupmanna, sem aftur eru byggðar á reglum um flutningssamninga og flutningsábyrgð annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt var norsk og dönsk löggjöf höfð til hliðsjónar við samningu laganna sem og sérstakar aðstæður hér á landi.
    Í kjölfar setningar laga nr. 24/1982 samþykkti Landvari sérstakar reglur um gírókröfuþjónustu Landvara og skilmála um flutning í vöruflutningum á landi og var reglum þessu ætlað að vera til fyllingar lögunum.
    Segja má að aðdraganda að þessari endurskoðun laganna sé að rekja til stofnunar flutningssviðs Samtaka verslunar og þjónustu, SVÞ, í ársbyrjun 2006. Eftir að aðildarfélög Landvara bættust í hóp aðildarfélaga flutningasviðsins síðar á því ári var ákveðið að kanna hvort þörf væri á því að endurskoða reglur og skilmála Landvara.
    Niðurstaða þeirrar könnunar var að betra væri gera breytingar á lögum nr. 24/1982 og hafa þannig samræmdar reglur um flutninga á landi í stað þess að setja sérstaka flutningsskilmála sem semja þyrfti um að giltu í viðkomandi flutningi hverju sinni. Var talið að slíkt myndi auka hættu á að hér á landi væru í gildi margir og mismunandi skilmálar í landflutningum.
    Þau atriði í gildandi lögum sem einkum var talið að þyrfti að endurskoða eru eftirfarandi:
          gildissvið laganna væri ekki nægilega skýrt,
          taka þyrfti af allan vafa um hvort lögin væru frávíkjanleg,
          óljóst væri hvort lögin gengju framar umferðarlögum,
          gildissvið laganna vegna innanbæjarflutninga,
          heimild skorti til þess að gefa út rafræn fylgibréf,
          ábyrgðarreglur væru ekki nægilega skýrar og í mörgum tilfellum of flóknar,
          reglur vantaði um tilkynningu tjóna og afleiðingar þess ef ekki er tilkynnt um tjón,
          skýrari og betri úrræði vantaði fyrir flytjanda þegar honum væri ókleift að afhenda vöru.

III.


    Eins og fram hefur komið skipaði þáverandi samgönguráðherra starfshóp sem ætlað var að endurskoða lög nr. 24/1982, um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi. Var starfshópnum jafnframt falið að vinna tillögur að frumvarpi og hafa við það hliðsjón af því rekstrarumhverfi sem landflutningar búa við núna og þeim breytingum sem hafa orðið á því sviði frá því lögin tóku gildi. Auk þess hafði starfshópurinn til hliðsjónar framangreind atriði sem talið var að þyrftu endurskoðunar. Frumvarp þetta er afraksturinn af vinnu starfshópsins.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu breytingum og nýmælum frumvarpsins frá gildandi lögum, nr. 24/1982.
    
Heiti laganna.
    Lagt er til að heiti laganna verði „landflutningalög“. Breyting þessi er til einföldunar og er í samræmi við önnur lög á sviði flutningaréttar eins og „siglingalög“ og „loftferðalög“.

Gildissvið.
    Allnokkrar breytingar frá gildandi lögum eru lagðar til í frumvarpinu. Eftirfarandi eru helstu nýmæli:
          Lagt er til að lögin gildi um allan vöruflutning með ökutæki á landi og gildi því bæði um vörusendingar sem fluttar eru milli bæjarfélaga og innan sama bæjarfélags í stað þess að vera takmarkað við flutninga milli landshluta eða byggðarlaga eins og gildandi lög.
          Lögin gildi án tillit til þess hvort greitt er fyrir flutninginn eða ekki enda annist flytjandi flutning og er með því komið í veg fyrir að hægt sé að komast fram hjá lögunum með því að bjóða upp á ókeypis flutning.
          Lögin gildi um flutning með samtengdum ökutækjum og gámum.
          Lögin gildi einnig um réttarsamband eiganda vöru og flytjanda en í gildandi lögum segir ekkert um réttarstöðu eiganda vöru sem verður fyrir tjóni sem flytjandi á sök á.
          Lögin gildi ekki um póstflutninga sem falla undir lög um póstþjónustu.
          Lögin gildi framar umferðarlögum um ábyrgð á tjóni á vörum þegar eigandi ökutækis er jafnframt flytjandi vöru.
          Lögin verði ófrávíkjanleg nema annað sé tekið sérstaklega fram í einstökum ákvæðum þerra.
     Þá er lagt til það nýmæli að ýmis hugtök sem koma fram eru skýrð.

Flutningssamningar.
    Áfram er gert ráð fyrir fylgibréfi sem innihaldi tilteknar upplýsingar og er ekki um veigamiklar efnislegar breytingar að ræða frá gildandi lögum. Frumvarpið inniheldur nokkur nýmæli er varða flutningssamninginn og atriði honum tengd og eru þau helstu eftirfarandi:
          Fjallað er um sönnunargildi fylgibréfs og er gert ráð fyrir að hægt sé að víkja frá ákvæðinu.
          Fellt er út ákvæði gildandi laga um hverju megi bæta við fylgibréf enda þykir rétt að veita mönnum val um það.
          Undirritun á fylgibréfi getur verið prentuð eða stimpluð.
          Fylgibréf getur verið rafrænt.
          Viðmið um hvernig meta á hvort flytjandi hafi vanefnt flutningssamning.
          Flytjandi skal hafa þau lögbundnu leyfi sem krafist er til þess að geta innt af hendi flutninginn, eftir því sem við á.
          Fellt er út að flytjandi þurfi að rökstyðja fyrirvara sem honum er heimilt að setja í fylgibréf.
          Ákvæði um ráðstöfunarrétt sendanda vöru er ítarlegra og það skýrt hvenær sá réttur fellur niður.
          Breytingar á möguleikum flytjanda til að ljúka flutningi ef ekki er hægt að afhenda vöruna.
          Flytjanda er gefinn kostur á að losna við vöru með sölu og fá kröfur sínar greiddar ef sendandi sinni ekki áskorun flytjanda eða farga henni á kostnað sendanda.

Ábyrgð flytjanda.
    Ein meginbreytingin sem lögð er til með frumvarpinu snýr að ábyrgðarreglum. Að mati starfshópsins eru gildandi reglur allt of strangar, sérstaklega þar sem lagt er til að lögin séu ófrávíkjanleg.
    Af þeim sökum er lagt til að ábyrgðarregla frumvarpsins verði sakarlíkindaregla. Í þeirri reglu felst að sönnunarbyrðin hvílir á flytjanda sem þýðir að hann ber ábyrgð á farmtjóni nema hann geti sannað að rekja megi tjónið til atvika sem hvorki hann né menn sem hann ber ábyrgð á eiga á sök á.

Fjárhæð skaðabóta.
    Í frumvarpinu er að finna breytingar er varða fjárhæð bóta og miða þær að því að gera reglurnar ítarlegri svo auðveldara sé að ákvarða bætur þegar vara skemmist eða glatast. Er lagt til að miða eigi bætur við verðmæti vörunnar eins og það kemur fram á vörureikningi að viðbættum flutningsgjöldum.
    
Takmörkun bótafjárhæðar.
    Önnur veruleg breyting sem lögð er til með frumvarpinu er um takmörkunarfjárhæð bóta. Breytingin er nauðsynleg þar sem erfitt að reikna út takmörkunarfjárhæðina samkvæmt gildandi lögum þar sem sú vísitala vöru og þjónustu sem miða á við er ekki lengur í gildi.
    Starfshópurinn leggur til að tekið verði mið af þeirri venju í flutningarétti að miða takmörkunarfjárhæð við SDR. Þá leggur starfshópurinn til að takmörkunarfjárhæðin verði 12,5 SDR fyrir hvert kíló vöru. Er það mat starfshópsins að með þessari tillögu sé ekki gengið of langt í breytingu á fjárhæðinni miðað við gildandi lög og ekki heldur vikið mikið frá þeim reglum sem gilda í þeim ríkjum sem við berum okkur mest saman við. Nánar er fjallað um þetta í athugasemdum við 21. gr.
    Lagt er til að lögin verði frávíkjanleg hvað bótafjárhæð varðar þó þannig að einungis sé hægt að semja um hærri bætur en samkvæmt takmörkunarfjárhæð.
    
Undanþágur frá ábyrgð.
    Lagðar eru til breytingar frá gildandi lögum á ákvæðum um undanþágur frá ábyrgð og eru þær reglur byggðar á sömu sjónarmiðum og eru að finna í sjórétti og koma fram í siglingalögum. Undanþágur snúa að flutningi á lifandi dýrum, flutningi á vörum sem búið er að hlaða í gám og þegar lestun eða losun er framkvæmd af aðila sem ekki er á vegum flytjanda.

Ábyrgð.
    Í frumvarpinu er skýrar kveðið á um skyldu sendanda varðandi frágang og pökkun vörunnar og tilkynningu um meðferð hennar ef þörf er á einhverri sérstakri meðferð umfram almennar vörur enda stendur það sendanda næst að gæta að þessum atriðum. Þá hefur frumvarpið að geyma ítarlegri reglur um flutning á hættulegum vörum og skyldum sendanda og úrræði flytjanda hvað það varðar.
    Lagðar eru til skýrari reglur um móttöku vöru og lagt til að móttakandi fái þriggja daga frest til þess að taka við vöru.
    Þá er nýmæli í frumvarpinu um hvað skuli gera ef móttakandi hefur sannanlega óskað eftir því bæði við sendanda og flytjanda að varan sé ekki flutt til hans með þeim greiðsluskilmálum að hann eigi að greiða flutningsgjaldið og aðrar kröfur. Er með þessu ákvæði verið að leysa ákveðið vandamál sem upp hefur komið undanfarin ár með auknum landflutningum.
    Þá er lagt til að flytjandi hafi haldsrétt í vörunni í stað þess að hann hafi handveð. Þykir það eðlilegra réttarúrræði enda eru vörurnar í vörslum flytjanda. Þá er ítarlega mælt fyrir um hvernig flytjandi getur nýtt sér haldsrétt sinn með því að selja vöru upp í kröfur sínar.

Ýmis ákvæði.
    Lagt er til að ekki sé heimilt að semja um lengri eða styttri frest en mælt er fyrir um í frumvarpinu.
    Þá er nýmæli að kveða á um að ákvæðum frumvarpsins skuli beita hvort sem krafa byggist á samningi eða ábyrgð utan samninga og er því ætlað að tryggja að ekki sé hægt að komast fram hjá lögunum á neinn hátt með því að byggja bótakröfu á t.d. almennum skaðabótareglum.
    Samandregið má segja að helstu breytingar og nýmæli í frumvarpinu séu eftirfarandi:
          Nýtt lagaheiti.
          Víðara og betur afmarkað gildissvið.
          Gildir um flutning hvort sem flutt er gegn gjaldi eða ekki.
          Gildir um gámaflutninga.
          Gildir um eiganda vöru.
          Ófrávíkjanlegt nema annað sé tekið fram.
          Orðskýringar.
          Gildir ekki um póstflutninga.
          Gengur framar umferðarlögum um ábyrgð á tjóni á vöru.
          Sönnunargildi fylgibréfs.
          Rafrænt fylgibréf.
          Undirritun getur verið prentuð eða stimpluð.
          Skyldur flytjanda vegna flutnings sem viðmið við ákvörðun um vanefndir.
          Fellt út að flytjandi þurfi að rökstyðja fyrirvara í fylgibréfi.
          Rannsóknarskylda flytjanda getur fallið niður.
          Möguleikar flytjanda til að ljúka flutningi ef ekki er hægt að afhenda vöru.
          Ný ábyrgðarregla – sakarlíkindareglan.
          Heimild til að lækka eða fella niður bætur.
          Bótafjárhæð – almennt á að miða við verðmæti vöru í vörureikningi.
          Ný takmörkunarfjárhæð – 12,5 SDR.
          Hægt að víkja frá takmörkunarfjárhæðum – til hækkunar og þegar samið er um fjölþáttaflutning.
          Undanþága frá ábyrgð – ákveðin tilvik.
          Ítarlegri reglur um flutning á hættulegum vörum, skyldur sendanda og úrræði flytjanda.
          Ítarlegri reglur um móttöku voru og fresti til þess.
          Úrræði ef vara er ekki móttekin.
          Réttur móttakanda til að losna undan skyldu til greiðslu flutningsgjalda í ákveðnu tilviki þrátt fyrir að taka við vörum.
          Réttur flytjanda til að selja vöru upp í kröfur.
          Ekki heimilt að semja um annan fyrningartíma.
          Gildir hvort sem krafa byggist á samningi eða ábyrgð utan samninga.

    Þá er um breytingu að ræða á uppsetningu frumvarpsins og er því skipt upp í sjö kafla í stað sex eins og gildandi lögum. III. kafli er nýjung og er settur í frumvarpið til þess að hafa það skýrara og aðgengilegra.

Athugasemdir við einstakar greinar og kafla frumvarpsins.


Um I. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um gildissvið auk þess sem þar er að finna skýringar ýmissa hugtaka.

Um 1. gr.


    Í 1. mgr. er lagt til að lögin gildi um allan vöruflutning með ökutæki á landi. Með því er gerð sú breyting frá gildandi lögum að ákvæði frumvarpsins eiga bæði við um vörusendingar sem fluttar eru milli bæjarfélaga og innan sama bæjarfélags. Frumvarpið er þar af leiðandi ekki takmarkað við flutninga milli landshluta eða byggðarlaga eins og gildandi lög en í greinargerð með frumvarpi til þeirra laga kemur fram að lögunum sé fyrst og fremst ætlað að gilda um þá skipulagsbundnu vöruflutninga sem fara fram á milli landshluta eða byggðarlaga, en ekki um vörusendingar innan sama bæjarfélags eða kaupstaðar.
    Þessi breyting er nauðsynleg í ljósi þeirra gríðarlegu vöruflutninga sem eiga sér stað innan sama bæjarfélags, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, á degi hverjum. Er með öllu óásættanlegt að um slíka flutninga gildi engin lög þegar kemur að ábyrgð og skyldum flytjanda, sendanda og móttakanda.
    Auk þess er í greininni ekki lengur gert að skilyrði eins og í gildandi lögum að vöruflytjandi annist að jafnaði flutning fyrir fleiri en einn aðila í sömu ferð. Það verður að teljast óeðlilegt þar sem fyrir hendi getur verið sú staða að um flytjanda sé að ræða sem aðeins tekur að sér að flytja fyrir eitt fyrirtæki hvert á landi sem er. Er engin ástæða til þess að einhverjar aðrar reglur gildi um slíka aðila en þá sem að jafnaði flytja fyrir fleiri í sömu ferð.
    Í 1. mgr. er einnig lagt til að ákvæði frumvarpsins gildi án tillit til þess hvort greitt er fyrir flutninginn eða ekki enda annist flytjandi flutning. Hér er um breytingu að ræða frá gildandi lögum sem taka aðeins til flutnings gegn gjaldi. Með þessu er slegið föstu að þegar einhver tekur að sér flutning með samningi, sem getur verið munnlegur eða skriflegur, þá gildi lögin án tillit til þess hvort greitt er sérstaklega fyrir flutninginn eða greiðslan er innifalin í öðru gjaldi. Þannig er ekki hægt að komast fram hjá ákvæðunum með því að bjóða upp á ókeypis flutning.
    Í 2. mgr. er lagt til að ákvæði frumvarpsins gildi um flutning með samtengdum ökutækjum og gámum. Tekið er fram að þótt vagnar og gámar séu ekki tengdir við ökutæki meðan lestun og losun á sér stað en verði það síðar eða hafi verið það þá gildi ákvæðin. Þessi breyting er fyrst og fremst gerð í ljósi breytinga á flutningsmáta frá því gildandi lög voru sett en nú er mikið um að vörur séu fluttar í gámum.
    Einnig er nýmæli að finna í 3. mgr. þar sem lagt er til að ákvæðið gildi einnig um réttarsamband eiganda vöru og flytjanda. Í gildandi lögum segir ekkert um réttarstöðu eiganda vöru sem verður fyrir tjóni sem flytjandi á sök á. Eigandi vörunnar getur af þeim sökum krafið flytjanda um bætur á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar og fengið tjón sitt bætt að fullu í stað þess að þurfa að sæta t.d. takmörkun á bótafjárhæð og stuttum fyrningarfresti sem mælt er fyrir um í frumvarpinu og gildir fyrir sendanda og móttakanda. Telja verður að slík niðurstaða sé óeðlileg og geti leitt til þess að reynt verði að fara á svig við ákvæði frumvarpsins. Þykir af þeim sökum rétt að leggja til að ákvæðið gildi um réttarsamband eiganda vöru og flytjanda þannig að eigandinn sitji við sama borð og sendandi og móttakandi.
    Þá er í 4. mgr. lagt til það nýmæli að kveða á um að lögin séu almennt ófrávíkjanleg. Ekkert slíkt ákvæði er í gildandi lögum og kann því að vera óvissa um hvort gildandi lög séu frávíkjanleg. Það verður að telja miður þar sem lögin ná tæpast tilgangi sínum ef flytjanda er heimilt að undanþiggja sig ábyrgð þeirri sem mælt er fyrir um þar. Þykir því nauðsynlegt að skýrt sé mælt fyrir um það að lögin séu ófrávíkjanleg nema annað sé tekið sérstaklega fram í einstökum ákvæðum þeirra.
    

Um 2. gr.


    Hér er lagt til það nýmæli að skýra einstök hugtök sem koma fyrir í frumvarpinu og er því ætlað að auðvelda skýringar á ákvæðum þess. Samsvarandi orðskýringar er ekki að finna í gildandi lögum og hefur t.d. verið fundið að því að ekki sé í þeim skilgreining á hvað sé „vara“.
    Rétt þykir að benda á skilgreiningu á hugtakinu „vöruflutningur“, en samkvæmt henni er um að ræða alla vöruflutninga á Íslandi með ökutæki, vögnum og gámum. Með því er frumvarpið takmarkað við flutninga á Íslandi. Þá má einnig benda á að hugtakið „ökutæki“ er einnig skilgreint en sú skilgreining er meira og minna byggð á skilgreiningu hugtaksins í umferðarlögunum. Auk þess er að finna í skilgreiningu á „gámi“.

Um 3. gr.


    Ekki er um efnislegar breytingar að ræða frá gildandi lögum um að ekki skiptir máli um réttarsamband aðila á meðan varan er í umsjá flytjanda hvers konar bifreið eða tæki tengd við bifreiðina flytjandinn notar eða hvort skipta þarf um flutningstæki á leiðinni á ákvörðunarstað.

Um 4. gr.


    Ákvæði þetta er sambærilegt 5. gr. gildandi laga og er ekki um efnislegar breytingar að ræða. Ákvæðið er þó gert skýrara í frumvarpinu en það er í gildandi lögum og lagt til að tekin verði af öll tvímæli um að tilteknum aðilum sé heimilt að bera fyrir sig sömu ábyrgðartakmörkun og flytjandi, eins og gert er í siglinga- og loftferðalögum. Það er ekki skýrt í gildandi lögum.

Um 5. gr.


    Ákvæði þetta er nýmæli og er tekið fram að lögin gildi ekki um póstflutninga sem eiga undir lög um póstþjónustu. Með ákvæðinu er mælt fyrir um að þegar um er að ræða póstsendingar með ökutækjum stofnast ekki til beins samningssambands milli þess sem senda vill póst (eiganda sendingarinnar) og flytjanda, heldur er samningssambandið milli póstþjónustufyrirtækisins og flytjandans. Það samningssamband er síðan jafnframt undanþegið ákvæðum laganna með fyrirmælum 2. mgr., um að réttarsamband þeirra ákvarðist af þeim reglum sem þeir semja um, þ.e. samningi þeirra. Það er sem sagt samningsfrelsi hvað varðar ábyrgð flytjanda á póstsendingum. Þó er gert ráð fyrir að lög um póstþjónustu gildi um ábyrgðina, sé samningum ekki fyrir að fara.

Um 6. gr.


    Ákvæði þetta er nýmæli og er ekki að finna hliðstætt ákvæði í gildandi lögum.
    Hvorki í gildandi lögunum né athugasemdum í frumvarpinu sem varð að þeim lögum er fjallað um hvort lögin, og þá sérstaklega ákvæði þeirra um ábyrgð flytjanda, gangi framar ákvæðum umferðarlaga um bótaskyldu, ef slík staða kemur upp.
    Samkvæmt 88. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, skal skráður eða skráningarskyldur eigandi eða umráðamaður vélknúins ökutækis bæta það tjón sem hlýst af notkun þess enda þótt tjónið verði ekki rakið til bilunar eða galla á tækinu eða ógætni ökumanns. Hér er um hlutlæga bótaábyrgð að ræða án nokkurra undantekninga. Ábyrgð þessi er ótakmörkuð. Hún fyrnist á fjórum árum skv. 99. gr. umferðarlaga. Skylt er að kaupa vátryggingu fyrir þessari ábyrgð skv. 91. gr. umferðarlaga.
    Miðað við þetta er ljóst að ákvæði gildandi laga um ábyrgð á farmi og þetta ákvæði umferðarlaga geta skarast í vissum tilfellum, því ábyrgð samkvæmt umferðarlögum getur náð til tjóns á farmi sem rekja má til notkunar bifreiðarinnar. Þetta getur leitt til þess að sú staða komi upp að bótakrefjandi hafi val um að krefja eiganda vöruflutningabifreiðar, sem tekið hefur að sér að flytja vöru fyrir hann gegn gjaldi, um bætur vegna tjóns á farmi eftir ákvæðum laga um flutningssamninga og ábyrgð við vöruflutninga á landi eða umferðarlögum.
    Þetta skiptir máli, þar sem gildandi lög hafa meðal annars að geyma sérreglur um ábyrgð, takmörkun ábyrgðar og mun styttri fyrningarfrest heldur en mælt er fyrir um í umferðarlögum. Ef bótakrefjandi kýs að byggja á umferðarlögum getur það leitt til þess að hann fái allt tjón sitt bætt með því að krefja vátryggingafélag bifreiðarinnar um bæturnar í stað þess að krefja flytjanda sjálfan og þarf þá ekki að sæta takmörkun á ábyrgð. Auk þess er óeðlilegt að mismunandi fyrningarreglur gildi um kröfur sem þessar.
    Rétt er að leggja áherslu á að þessi staða getur bara komið upp í þeim tilvikum þegar eigandi vöruflutningabifreiðar annast að jafnaði flutning fyrir fleiri í einni ferð gegn gjaldi og hann kemur fram sem flytjandi gagnvart sendanda og móttakanda, þ.e. þegar eigandi bifreiðarinnar flytur vörur í atvinnuskyni.
    Til þess að gæta jafnræðis og tryggja að allir sitji við sama borð þegar kemur að því að bæta tjón í landflutningum var það niðurstaða starfshópsins að mæla fyrir um það með skýrum hætti í frumvarpinu að ákvæði samkvæmt því gangi framar umferðarlögum. Með því yrði tryggt að sömu reglur gildi alltaf um ábyrgð á farmtjóni.

Um II. kafla.


    Í kafla þessum er fjallað um flutningssamninga en áfram er gert ráð fyrir fylgibréfi sem meginheimild slíks samnings.

Um 7. gr.


    Hér er lagt til að fyrir hverja vörusendingu skuli útfylla þar til gert fylgibréf. Ákvæði þetta er samhljóða 1. málsl. 6. gr. gildandi laga.
    Í 2. mgr. er lagt til nýmæli sem snýr að rafrænum fylgibréfum, þ.e. að þær upplýsingar sem koma eiga fram í fylgibréfi sé einnig hægt að senda til flytjanda með rafrænum hætti, eða á annan þann hátt sem flytjandi kýs. Flytjanda ber þá að varðveita þær upplýsingar, t.d. rafrænt, og er í 3. mgr. kveðið á um að þá beri flytjanda að afhenda sendanda kvittun fyrir móttöku sem getur verið rafræn, t.d. með tölvupósti. Þykir ákvæði sem þetta nauðsynlegt í ljósi breyttra aðstæðna og aukningar í rafrænni þjónustu og afgreiðslu ýmiss konar.

Um 8. gr.


    Í ákvæði þessu er kveðið á um sönnunargildi fylgibréfs eða kvittunar sem mælt er fyrir um í 7. gr. og er það nýmæli. Þá er gert ráð fyrir að hægt sé að víkja frá ákvæðum frumvarpsins um efni fylgibréfsins.
    Þá er í 2. mgr. kveðið á um það sem koma skal fram í fylgibréfi og er ekki um veigamiklar breytingar frá gildandi lögum að ræða hvað það varðar. Bætt er við tveimur nýjum atriðum í upptalningu á því sem fram á að koma í fylgibréfi, það er í lok 9. tölul. og í 10. tölul. Önnur atriði eru óbreytt. Rétt þykir að taka fram að sömu upplýsingar þarf að senda ef nýtt er heimild 7. gr. um að senda upplýsingar rafrænt eða með öðrum hætti.

Um 9. gr.


    Hér er kveðið á um að bæta megi frekari upplýsingum í fylgibréf og er ákvæðið sambærilegt 3. mgr. 6. gr. gildandi laga. Ekki þykir ástæða til að taka fram hvaða upplýsingar það eru heldur rétt að veita mönnum val um það.

Um 10. gr.


    Í ákvæði þessu er kveðið á um staðfestingu flytjanda á móttöku vörunnar með undirritun á fylgibréf og er það samhljóða 4. mgr. 6. gr. gildandi laga. Í ljósi breyttra aðstæðna og með hliðsjón af tillögu 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins um rafræn fylgibréf er lagt til það nýmæli að undirritun geti verið prentuð eða stimpluð.

Um 11. gr.


    Hér er fjallað um réttarstöðuna ef fylgibréf er ekki gefið út, er ekki þess efnis sem áskilið er eða það hefur glatast. Ákvæðið er samhljóða 7. gr. gildandi laga um að flutningssamningur telst eigi að síður gildur og fer eftir ákvæðum frumvarpsins.

Um III. kafla.


    Kafli þessi hefur að geyma ákvæði um móttöku, flutning og afhendingu vöru auk ákvæða um flutningsgjald.

Um 12. gr.


     Ákvæði þetta er efnislega samhljóða 5. mgr. 6. gr. gildandi laga um hvernig sendanda ber að merkja vöruna. Þó er lögð til sú viðbót að þetta eigi að gera áður en vara er afhent til flutnings.

Um 13. gr.


    Ákvæði þetta er nýmæli um tilteknar skyldur flytjanda. Þar er kveðið á um umönnunarskyldu flytjanda en engin slík ákvæði eru í gildandi lögum þegar kemur að flutningnum, eins og t.d. er í 26. og 51. gr. siglingalaga. Nauðsynlegt þykir að setja einhver viðmið um þetta, einkum ef til þess kemur að meta þurfi hvort flytjandi hafi vanefnt flutningssamning. Með þessu ákvæði er ekki lögð skilyrðislaus skylda á flytjanda heldur ber honum að sýna eðlilega árvekni þegar kemur að því að undirbúa ökutæki og framkvæma flutning. Hann verður með öðrum orðum að hegða sér eins og almennt má krefjast af góðum flytjanda við sömu aðstæður. Þessi skylda hvílir á flytjanda meðan á flutningi stendur. Flytjandi verður hins vegar í öllum tilvikum að hafa lögbundin leyfi til þess að geta innt af hendi flutninginn, eftir því sem við á en um slík leyfi er fjallað í öðrum lögum, svo sem lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi.

Um 14. gr.


    Hér er um sambærilegt ákvæði að ræða og er í 4. gr. gildandi laga um upphaf og enda flutnings. Engar efnislegar breytingar eru gerðar um að flutningur hefst þegar flytjandi tekur við vöru og lýkur þegar varan ef afhent en bætt er við tilvísun til 16. gr., sem snýr að úrræðum flytjanda ef hann getur ekki afhent vöruna.

Um 15. gr.


    Ekki þykir ástæða til að leggja til breytingar á því að flytjandi kanni hvort upplýsingar í fylgibréfi, sem sendandi lætur hann fá, séu í samræmi við viðkomandi vöru. Þessi rannsóknarskylda felur í sér könnun á hvort merking vörunnar, fjöldi eininga og ástand umbúða sé í samræmi við það sem skráð er í fylgibréf. Auk þess er ekki heldur ástæða til að leggja til breytingar á því að flytjandi geti gert athugasemd og gert fyrirvara við þessar upplýsingar ef hann telur þær ekki í samræmi við vöruna, t.d. að ekki sé um 10 kassa að ræða heldur 9.
    Hins vegar er lögð til sú breyting að flytjandi þurfi ekki að rökstyðja fyrirvarann eins og er í gildandi lögum enda engar leiðbeiningar þar að finna um hvernig það skuli gert. Er enda aðeins talað um að flytjandi geri athugasemd ef hann telji ástæðu til í athugasemd um 9. gr. í frumvarpi til laganna án þess að tekið sé fram að sá fyrirvari þurfi að vera rökstuddur.
    Af þeim sökum er lagt til að þessi áskilnaður um rökstuðning verði felldur brott enda ekki í samræmi við framkvæmd. Hvernig á flytjandi t.d. að rökstyðja að pokar séu rifnir með öðru en að skrá „pokar rifnir“ á fylgibréf?
    Lagt er til í 2. mgr. að bætt verði við að ef flytjandi hefur ekki færi á að kanna þessar upplýsingar þá sé honum heimilt að geta um það í fylgibréfinu og með því fellur rannsóknarskylda hans niður. Þetta þýðir að rannsókn hans er takmörkuð við það sem hann getur séð enda getur hann t.d. ekki séð hvort í kassa séu 10 einingar af vöru ef kassinn er lokaður. Í því tilviki er hann ekki skuldbundinn til að ganga úr skugga um fjölda eininga, t.d. með því að opna kassa eða aðrar lokaðar umbúðir, og má setja fyrirvara um það í fylgibréfið og losna með því undan rannsóknarskyldunni.
    Þessar breytingartillögur eru í raun í samræmi við það sem kemur fram í athugasemd um 9. gr. í frumvarpi til gildandi laga en þar segir að ekki sé ætlast til að flytjandi rannsaki innihald vörusendingar heldur einungis að hann beri sjáanlegt ástand sendingarinnar og merkingar saman við fylgibréf og upplýsingar í því. Í stað þess að hafa þetta í athugasemdum með frumvarpi þykir er rétt að kveða á um þetta í frumvarpinu.

Um 16. gr.


    Í ákvæði þessu er einkum fjallað um möguleika flytjanda á því að ljúka flutningnum með afhendingu vörunnar til móttakanda. Ákvæði þetta er að mestu leyti nýmæli en á sér að hluta til samsvörun í 13. og 14. gr. gildandi laga.
    Í 1. mgr. er fjallað um þá skyldu flytjanda að afhenda réttum móttakanda vörunnar. Þessarar skyldu er ekki getið með beinum hætti í gildandi lögum og þótt hún sé til staðar, eðli málsins samkvæmt, þykir eðlilegra að kveða á um það með skýrum hætti í frumvarpinu.
    Það úrræði sem flytjandi hefur ef honum tekst ekki að uppfylla þessa skyldu sína felst í því að koma vörunni í geymslu á kostnað og áhættu sendanda og leita fyrirmæla hans um frekari meðferð vörunnar. Kveðið er á um þetta í 2. mgr.
    Eðlilegt þykir að flytjandi eigi þess kost að leita eftir fyrirmælum frá sendanda vörunnar þegar er ástatt eins og segir í 2. mgr. enda hefur sendandi í raun og veru umráðaréttinn yfir vörunni á meðan á flutningi stendur. Hann getur því einn gefið flytjanda ný fyrirmæli um afhendingu vörunnar.
    Þá er í 3. mgr. fjallað um úrræði flytjanda ef hann fær ekki fyrirmæli frá sendanda um meðferð vörunnar. Miðað er við ákveðinn tímafrest og að honum loknum getur flytjandi beitt þeim úrræðum sem þar er kveðið á um í a–c-lið og hefur flytjandi val um hvaða leið hann velur hverju sinni.

Um 17. gr.


    Ákvæði þetta fjallar um rétt móttakanda til að fá vöruna afhenta. Í 1. mgr. er ekki að finna efnisbreytingu frá 12. gr. gildandi laga um rétt móttakanda til að krefjast afhendingar á ákvörðunarstað. Þó er bætt við að móttakandi verði að uppfylla öll flutningsskilyrði auk þess að greiða allar kröfur sem á vörunni hvíla. Þetta ákvæði tengist svokölluðum „gíróreglum“ en þær fela í sér möguleika sendanda til að láta flytjanda innheimta fyrir sig andvirði vörunnar áður en varan er afhent móttakanda. Er gert ráð fyrir því í 7. tölul. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Ekki þótti rétt að setja frekari reglur um þetta í frumvarpið og því er það undir viðkomandi flytjanda eða flutningssviði SVÞ að búa til skilmála fyrir þessa þjónustu.
    2. og 3. mgr. frumvarpsins eru nýmæli. Sá réttur flytjanda sem þar er lagður til þykir nauðsynlegur til þess að hann geti komið í veg fyrir að hann brjóti samning sinn við sendanda varðandi afhendingu á vörunni. Er mjög mikilvægt fyrir flytjanda að hafa þennan rétt þar sem móttakandi þarf ekki að framvísa neinu skjali í skiptum fyrir vöruna eins og þarf þegar vara er flutt samkvæmt farmskírteini.
    

Um 18. gr.


    Í ákvæði þessu sem fjallar um fjárhæð flutningsgjalds ef ekki hefur verið samið um það en um þetta er fjallað í 15. gr. gildandi laga. Í stað þess að miða eigi við gjald sem almennt var notað er lagt til að miðað sé við gjaldskrá flytjanda enda er við það miðað í framkvæmd. Sé gjaldskrá hins vegar ekki til staðar þá skuli miða við gjald sem aðrir greiða flytjanda á þessum tíma.

Um IV. kafla.


    Kafli þessi fjallar um ábyrgð flytjanda og er hér að finna mestu breytingarnar frá gildandi lögum sem lagðar eru til með frumvarpinu.
    Ábyrgð flytjanda er tvenns konar, annars vegar ábyrgð á meðferð vöru og hins vegar svokölluð umönnunarábyrgð eða ábyrgð vegna tjóns sem hlýst af völdum dráttar við flutning vöru.

Staða fyrir gildistöku laga nr. 24/1884.
    Fyrir gildistöku laga nr. 24/1982 voru bótareglur umferðarlaga einu skaðabótaákvæðin sem tóku til tjóns á farmi í bifreið. Þrátt fyrir að þær reglur feli í sér víðtæka ábyrgð áttu þær oft ekki við þegar leysa þurfti úr ágreiningi um bótaskyldu vegna farmtjóns í landflutningum. Þar sem ekki var fyrir að fara settum lögum varð að skera úr slíkum ágreiningi eftir almennum reglum kröfuréttar eða með lögjöfnun frá ábyrgðarákvæðum siglinga- eða loftferðalaga. Það sem hér kom til skoðunar var hvort flytjandi bar aðeins ábyrgð eftir sakarlíkindareglunni eða reglunni um vinnuveitandaábyrgð eða hvort víðtækari reglur kæmu til greina. Þá var það einnig álitamál hvort farmflytjanda var heimilt að áskilja sér að vera undanþeginn bótarétti.
    Hér á landi sem og annars staðar hafa um langt skeið gilt þær reglur að farmflytjandi er bótaskyldur vegna tjóns á farmi nema hann sanni að hvorki hann eða neinn sem hann ber ábyrgð á eigi sök á tjóninu, þ.e. sakarlíkindareglan, sbr. siglingalög og eldri loftferðalög. Fyrir setningu laga nr. 24/1982 beitti Hæstiréttur þessari meginreglu um ábyrgð eiganda bifreiðar vegna skemmda sem urðu á farmi í flutningi gegn gjaldi (HRD 1981:35).

Staða eftir gildistöku laga nr. 24/1984.
    Með setningu laga nr. 24/1982 var horfið frá sakarlíkindareglunni og í 16. og 17. gr. kveðið á um hlutlæga ábyrgð með nánar tilgreindum undantekningum. Samkvæmt gildandi lögum er flytjandi bótaskyldur vegna farmtjóns sem verður á meðan á flutningi stendur nema sýnt sé fram á að tjónið sé að rekja til ástæðna sem eru tæmandi taldar í lögunum. Sama reglan gildir hvort sem um ábyrgð á meðferð farms er að ræða eða umönnunarábyrgð.

Breytingartillögur frumvarpsins.
    Með frumvarpinu er lagt til að horfið verði frá þeirri ábyrgðarreglu laganna að ábyrgðin sé hlutlæg með nánar tilgreindum undantekningum og þessi í stað tekin upp sakarlíkindaregla sem að einhverju leyti er mildari ábyrgðarregla.
    Samkvæmt gildandi reglum ber flytjandi t.d. ábyrgð á tjóni sem rakið verður til sakar óviðkomandi þriðja aðila, t.d. ökumanna annarra ökutækja eða þjófa, og tjóni sem hlýst af tilviljun eins og bruna og umferðarslysi, einnig ef tjónið er að rekja til bilunar eða galla í ökutækinu sem notað er til að flytja vöruna, jafnvel þótt bilun eða galli verði ekki rakinn til mannlegra mistaka eða yfirsjónar.
    Að mati starfshópsins eru gildandi reglur of strangar, einkum þegar tekið er tillit til þess að lagt er til í frumvarpinu að það verði ófrávíkjanlegt. Flytjanda er þá ekki heimilt að undanskilja sig ábyrgð með skilmálum heldur ber hann ábyrgð á farmtjóni nema hann geti sannað að rekja megi tjónið til atvika sem hvorki hann né aðilar sem hann ber ábyrgð á eigi sök á. Með tillögu þessari er fylgt reglum sjóréttar og verður að telja það eðlilegt þar sem stór hluti af flutningum sem áður fóru fram með strandferðaskipum er nú með bifreiðum. Auk þess er mikill hluti af þeim vörum sem fluttar eru með bifreiðum fyrst fluttar sjóleiðina hingað til lands eða sjóleiðina úr landi. Þykir eðlilegt að sama ábyrgðarregla gildi á meðan á öllum flutningnum stendur.
    Þá eru lagðar til breytingar á reglum um hámarksfjárhæð bóta og er nánar gerð grein fyrir þeim í skýringum við 21. gr. frumvarpsins.

Um 19. gr.


    Í ákvæði þessu er fjallað um ábyrgð farmflytjanda á tjóni vegna skemmda á vöru eða ef hún glatast og er, eins og að framan er rakið, lögð til sú breyting að í gildi verði sakarlíkindaregla og er sönnunarbyrðin hjá flytjanda um að hann eigi ekki sök á tjóninu.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði um ábyrgð á tjóni sem rekja má til tafa og er um sömu ábyrgðarregluna að ræða, þ.e. sakarlíkindaregluna. Flytjandi ber því ábyrgð á tjóni vegna óeðlilegra tafa nema hann sanni að hann eða menn sem hann ber ábyrgð á hafi gert allt sem sanngjarnt er að þeir gerðu til að koma í veg fyrir töfina eða að ómögulegt hafi verið að koma í veg fyrir hana. Sönnunarbyrðin um það er hjá flytjanda. Rétt er að skilgreina „óeðlilegar tafir“ í samræmi við 2. mgr. 30. gr. frumvarpsins, þ.e. að 14 dagar teljast óeðlileg töf.
    

Um 20. gr.


    Hér er lögð til sú breyting að ákvörðun um skaðabætur miðist við verðmæti vörunnar samkvæmt vörureikningi að viðbættum flutningsgjöldum í stað þess að bótaákvörðun miðist af verðgildi vöru eins og segir í 18. gr. gildandi laga. Hins vegar er lagt til að fellt sé úr gildi að annar kostnaður sé bættur enda er slíkur kostnaður ekki skilgreindur í 18. gr. gildandi laga og leiðir það aðeins til deilna á milli aðila. Með þeim breytingum sem lagðar eru til eru reglurnar gerðar einfaldari og auðveldara er að ákveða bætur þegar vara skemmist eða eyðileggst með öllu.
    Í 2. mgr. er kveðið á um hvernig bætur skuli ákveðnar ef verðmæti verður ekki fundið með vörureikningi og einnig að sönnunarbyrðin fyrir fjárhæð kröfu sé hjá þeim sem setur hana fram eins og almennt er í skaðabótarétti.
    Þá er lagt til í 3. mgr. að bætur megi lækka eða fella niður í tilvikum þegar flytjandi sannar að tjónið eða tafir sé að rekja til yfirsjónar eða vanrækslu eiganda vöru, sendanda eða móttakanda.

Um 21. gr.


    Hér eru lagðar til breytingar á ákvæðum gildandi laga er varða takmörkunarfjárhæðir bóta. Þar er fyrst að nefna að lagt er til að fjárhæðin miðist við SDR í stað þess að taka mið af tiltekinni vísitölu. Er þessi breyting til einföldunar auk þess sem gætt er samræmis þar sem í flutningarétti er venja að miða takmörkunarfjárhæðir við SDR og tryggja með því verðgildi fjárhæða í tímanna rás. Auk þess er óþarflega erfitt að reikna út takmörkunarfjárhæð samkvæmt gildandi lögum þar sem umrædd vísitala vöru og þjónustu er ekki lengur í gildi.
    Vegna þessarar tillögu er í 3. mgr. að finna skýringu á SDR og við hvaða gengi á að miða þegar tjón er gert upp. Þessi grein er nauðsynleg til þess að koma í veg fyrir óþarfa deilur þegar kemur að uppgjöri bóta, en slíkt hefur átt sér stað við uppgjör tjónamála samkvæmt siglingalögum sökum skorts á skýrum ákvæðum um þetta.
    Í athugasemdum við 19. gr. gildandi laga þar sem kveðið er á um takmörkunarfjárhæð bóta kemur fram að fjárhæðin sé ákveðin, m.a. með hliðsjón af ábyrgð í loftflutningum. Slík takmörkun ábyrgðar er sögð nauðsynleg og algeng. Þá segir í almennum athugasemdum við frumvarpið til gildandi laga að samsvarandi lög á Norðurlöndunum hafi verið höfð til hliðsjónar við samningu laganna. Jafnframt hafi verið höfð til hliðsjónar norsk og dönsk lög sem jöfnum höndum fjalla um landflutninga innan lands og milli landa. Loks hafi verið leitast við að fella lögin að sérstökum aðstæðum hér á landi þar sem þess var þörf. Annað kemur ekki fram um ábyrgðartakmörkun gildandi laga.
    Lagt er til í frumvarpinu að takmörkunarfjárhæð í landflutningum verði 12,5 SDR fyrir hvert kíló vöru.
    Var við þá ákvörðun einkum litið til eftirfarandi. Samkvæmt loftferðalögum er ábyrgð vegna tjóns á farmi takmörkuð við 17 SDR á hvert kíló. Í siglingalögum er miðað við 2 SDR og í alþjóðasamningi á sviði landflutningaréttar, CMR The Convention on the Contract for the International Carriage of Goods by Road 1956, er fjárhæðin 8,33 SDR. Þá skoðaði starfshópurinn takmörkunarfjárhæðir í innanlandsflutningum í löndum sem við berum okkur saman við og kom í ljós að reglur eru mismunandi og í sumum tilvikum eru engar almennar reglur heldur er byggt á skilmálum.
    Starfshópnum þótti óþarfi að hafa takmörkunarfjárhæð eins lága og í siglingalögum enda fæli það í sér allt of miklar breytingar frá gildandi lögum. Starfshópnum þótti einnig 8 ,33 SDR fela í sér of mikla breytingu en hins vegar 17 SDR of hátt. Var því ákveðið að fara milliveginn milli ákvæða loftferðalaga og CMR-samningsins og leggja til takmörkunarfjárhæðina 12,5 SDR.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði um hvenær flytjandi missir rétt til að takmarka ábyrgð sína. Er gert ráð fyrir að það sé í undantekningartilvikum og þá einungis þegar hann sjálfur hefur valdið tjóninu af ásetningi eða því gáleysi sem lýst er í ákvæðinu. Ákvæði þetta er að miklu leyti sambærilegt 19. gr. gildandi laga nema að hér er lagt til það viðbótarskilyrði að flytjandi hafi verið ljósar afleiðingar gerða sinna. Er orðalag þetta fengið úr reglum um sjóflutninga.
    Rétt er að taka fram að reglan leiðir m.a. til þess að aðgerðir eða aðgerðaleysi þeirra sem vinna í þágu flytjanda, t.d. ökumaður eða þeir sem sjá um lestun og losun ökutækis, getur ekki komið í veg fyrir að flytjandi takmarki ábyrgð sína þar sem reglan er takmörkuð við athafnir flytjanda sjálfs.
    

Um 22. gr.


    Hér er lagt til að hægt sé að víkja frá ákvæðum frumvarpsins og semja um hærri takmörkunarfjárhæð en greinir í 21. gr.
    Sérstaklega er fjallað um heimild til frávika vegna fjölþáttaflutninga og er það til að gæta samræmis á meðan á flutningnum stendur. Sem dæmi má nefna útflutning á fiskafurðum þar sem flytjandi sækir vöruna til framleiðanda, flytur landleiðina til Reykjavíkur þar sem vörunni er lestað um borð í skip og flutt til Evrópu. Flutningurinn er allur framkvæmdur af sama flytjanda og því þykir eðlilegt að hann hafi möguleika á að semja sérstaklega um að sömu ábyrgðarreglur gildi alla leið.
    Í 3. mgr. er ákvæði sem er samhljóða og í 20. gr. gildandi laga, að miða skuli við verðmæti vöru. Sú heimild er áfram háð því skilyrði að verðmætis sé getið í fylgibréfi og að flutningsgjaldið taki mið af því. Þykir eðlilegt að hafa slíka reglur áfram og er þá einkum verið að horfa til verðmætrar vöru sem e.t.v. vegur ekki mikið og því verður bótatakmörkun 21. gr. sérstaklega ósanngjörn. Áfram er lagt til að þessar bætur verði þó aldrei lægri en hámarksbætur 21. gr. frumvarpsins.

Um 23. gr.


    Ákvæði þetta er nýmæli og er við það höfð hliðsjón af sömu sjónarmiðum og er að finna í sjórétti og koma fram í siglingalögum um sams konar flutning.
    Í fyrsta lagi er lagt til að flytjandi geti gert fyrirvara um ábyrgð á flutningi á lifandi dýrum.
    Í öðru lagi er lagt til að flytjandi geti gert fyrirvara um flutning á vöru sem búið er að hlaða í gám þegar gámurinn er afhentur flytjanda til flutnings og hann veit þar af leiðandi ekki í hvaða ástandi varan er í þegar hann tekur við gáminum til flutnings. Er eðlilegt að flytjandi geti í slíku tilfelli gert fyrirvara um ábyrgð sína á vörunni.
    Í þriðja lagi er lagt til að flytjanda sé heimilt að gera fyrirvara um ábyrgð á lestun og/eða losun þegar sendandi og/eða móttakandi sjá um lestun og/eða losun. Það er eðlilegt í ljós þess að þessi verk eru þá framkvæmd af aðilum sem eru ekki á vegum flytjanda og hann mundi ekki bera ábyrgð á eftir almennum reglum um húsbóndaábyrgð.

Um V. kafla.


    Í þessum kafla er fjallað um ábyrgð sendanda á upplýsingum í fylgibréfi og frágangi og pökkun vörunnar. Eru lögð til skýrari ákvæði um skyldur sendanda varðandi frágang og pökkun vörunnar. Einnig hvað varðar tilkynningar um meðferð hennar ef þörf er á einhverri sérstakri meðferð umfram almennar vörur enda stendur það sendanda næst að gæta að þessum atriðum. Þá hefur frumvarpið að geyma ítarlegri reglur um flutning á hættulegum vörum og skyldum sendanda og úrræði flytjanda hvað það varðar

Um 24. gr.


    Í 1. mgr. er ákvæði sem er efnislega samhljóða 21. gr. gildandi laga. Þar er kveðið á um ábyrgð sendanda á því að upplýsingar um vöruna í fylgibréfi og merkingar vöru séu réttar Sama gildir að sjálfsögðu um upplýsingar sem eru sendar á rafrænan hátt skv. 7. gr. frumvarpsins.

Um 25. gr.


    Ákvæði þetta er að verulegu leyti nýmæli en hefur auk þess að geyma ákvæði samhljóða 22. gr. gildandi laga. Í 1. mgr. er fjallað um ábyrgð sendanda á því að varan sé í því ástandi og þannig frá vörunni gengið að hún þoli þann flutning sem hún á fyrir höndum, sem og fermingu og affermingu. 2. mgr. kveður á um að sendanda beri að skýra sérstaklega frá því ef þörf er á einhverri sérstakri meðferð umfram almennar vörur og eftir atvikum að merkja vöruna til samræmis. Þykir eðlilegt að ábyrgð á þessu sé hjá sendanda enda standa þessi atriði honum nær og að hann beri hallann af því að ganga ekki nægilega vel frá vörunni og/eða skýra frá því ef það þarf að beita einhverjum öðrum aðferðum en almennt er gert við vörslu og meðferð vörunnar meðan á flutningi stendur.
    Í 3. mgr. er að finna sambærilega reglu og er í 22. gr. gildandi laga um ábyrgð sendanda gagnvart flytjanda á tjóni sem verður vegna vörusendinga hans þegar ákvæða 1. og 2. mgr. er ekki gætt. Rétt er að taka fram að þetta ákvæði á ekki við um tjón á vörunni sjálfri sem rekja má til ófullnægjandi umbúða.
    

Um 26. gr.


    Hér er kveðið á um flutning á vörum sem geta haft hættu í för með sér í flutningi. Um slíkt eru ákvæði í 23. og 24. gr. gildandi laga. Hér er í sjálfu sér ekki um efnisbreytingar að ræða heldur er lagt til ítarlegra ákvæði hvað varðar hættueiginleika vörunnar, skyldur sendanda og úrræði flytjanda hvað slíkan flutning varðar.
    Í 1. mgr., sem er að mestu efnislega samhljóða 23. gr., er lagt til að sendandi skuli sjá um og bera ábyrgð á að hættulegar vörur séu merktar samkvæmt gildandi reglum um flutning á hættulegum varningi og séu í fullnægjandi umbúðum, eftir því sem við á og gildir á hverjum tíma.
    Með 2. mgr. er lagt til nýmæli um upplýsingaskyldu sendanda gagnvart flytjanda þegar varan er afhent til flutnings. Verður að telja eðlilegt að slík skylda sé fyrir hendi hjá sendanda svo unnt sé að flytja vörurnar með fullnægjandi hætti og gæta fyllsta öryggis.
    3. mgr. er samhljóða 24. gr. gildandi laga og er þar fjallað um úrræði flytjanda í þeim tilvikum sem sendandi hefur ekki upplýst um hættulega eiginleika vörunnar og/eða annað sem tengist flutningi á slíkum vörum.
    Þá er lagt til það nýmæli í 4. mgr. að aðgerðir sem grípa þarf til skv. 3. mgr. fari fram á kostnað á ábyrgð sendanda og þykir það eðlilegt þar sem grípa þarf til ráðstafana 3. mgr. vegna brota sendanda á skyldum sínum skv. 1. og 2. mgr.

Um VI. kafla.


    Kafli þessi hefur að geyma reglur um ábyrgð móttakanda vörunnar.

Um 27. gr.


    Í ákvæði þessu er kveðið á um það hvenær móttakandi skuli taka við vörunni. Í gildandi lögum segir að það skuli gert eins fljótt og verða má án þess að það sé skýrt nokkuð frekar. Það er því frekar óskýrt innan hvaða tímamarka móttakandi skuli sækja vöruna og er því lagt til það nýmæli í 1. mgr. að móttakandi hafi þriggja daga frest til að taka við vöru. Að öðrum kosti geti flytjandi gripið til þeirra úrræða sem honum er veitt í 16. gr. frumvarpsins enda segir í 5. mgr. að ákvæði III. kafla gildi um móttöku vöru.
    Í 2. mgr. er að finna samsvarandi ákvæði og er í 2. málsl. 25. gr. gildandi laga um að móttakandi skuldbindi sig með móttöku vörunnar til að greiða flutningsgjaldið og önnur tengd gjöld. Það nýmæli er þó lagt til að aðilar geti samið um annað og er hér því lögð til heimild til frávika frá ákvæðum frumvarpsins.
    3. og 4. mgr. frumvarpsins eru nýmæli. Er þar kveðið á um að ákvæði 2. mgr. eigi ekki við ef móttakandi hefur með sannanlegum hætti óskað eftir því við bæði sendanda og flytjanda, áður en viðkomandi vara er móttekin af flytjanda til flutnings, að vara sé ekki flutt til móttakanda með þeim greiðsluskilmálum að móttakandi eigi að greiða flutningsgjald eða aðrar kröfur sem á vöru hvíla samkvæmt fylgibréfi eða kvittun. Kjósi flytjandi hins vegar að flytja vöruna til móttakanda með þeim skilmálum sendanda að móttakandi eigi að greiða það sem á vöru hvílir og varan er afhent móttakanda, þrátt fyrir ósk hans um að svo sé ekki gert, er móttakandi ekki skuldbundinn til þess að greiða þessar kröfur þótt hann hafi tekið við vörunni.
    Í slíku tilviki hvílir greiðsluskyldan á sendanda, enda er það hann sem ákveður greiðsluskilmála skv. 6. tölul. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins þrátt fyrir ósk móttakanda um annað. Er eðlilegt að sendandi geti ekki skuldbundið móttakanda með þessum hætti ef móttakandi getur sannað að hann hafi óskað eftir því við sendanda og flytjanda að vara sé ekki flutt og afhent honum með þeim skilmálum að hann eigi að greiða umræddar kröfur. Þetta á ekki að hafa nein áhrif á flytjanda þar sem hann fær með þessu ákvæði lögbundinn rétt til þess að krefja sendanda um umrædd gjöld í stað móttakanda.

Um 28. gr.


    Ákvæði þetta kveður á um að flytjandi eigi haldsrétt í vörum þar til flutningsgjald og annað sem tengist flutningum hefur verið greitt. Ákvæðið er að mestu samhljóða 26. gr. gildandi laga nema lagt er til það nýmæli að flytjandi eigi haldsrétt í vörunni í stað handveðs. Er sú breyting einkum grundvölluð á því að flytjandi hefur haldsrétt í þeim vörum sem eru í hans vörslum og þykir því óþarfi að kveða á um að hann hafi einnig handveð enda er haldsréttur grundvöllur nauðungarsölu án undangengins dóms, sáttar eða fjárnáms til fullnustu kröfu. Að öðru leyti er ákvæðið gert skýrara og mælt með skýrum hætti fyrir um rétt flytjanda til að selja vörur upp í kröfur sínar.
    Þá er í 2. mgr. kveðið á um með hvaða hætti flytjandi getur selt vörur og er það ekki skilyrði að vara sé seld samkvæmt lögum um nauðungarsölu heldur er flytjanda heimilt að selja hana á hvern þann hátt sem hann telur hagstæðast hverju sinni. Með því er verið að flýta þessu úrræði flytjanda og gefa honum kost á að fá sem best verð fyrir vöruna.

Um 29. gr.


    Ákvæði þetta, sem er efnislega samhljóða 27. gr. gildandi, laga kveður á um að ef varan er móttekin án fyrirvara teljist hún afhent óskemmd og í samræmi við lýsingu í fylgibréfi.
    Eins og í gildandi lögum er það á ábyrgð móttakanda að kanna ástand vörunnar við móttöku hennar. Þó er áfram gert ráð fyrir að þrátt fyrir að fyrirvari hafi ekki verið gerður sé unnt að færa sönnur fyrir að varan hafi orðið fyrir tjóni í flutningi sem flytjandi ber ábyrgð á.

Um 30. gr.


    Í ákvæði þessu er kveðið á um réttaráhrif þess ef ekki er tilkynnt um tjón. Í gildandi lögum eru ákvæði um þetta í 28. gr. en þar er gert ráð fyrir að tilkynnt sé „án tafar“ þess að nánar sé skýrt hvað átt er við með því. Til að bæta úr því er í frumvarpinu lagt til að tilkynna verði um tjón a.m.k. þremur dögum eftir móttöku vörunnar. Í 2. mgr. er lagt til nýmæli er varðar kvartanir vegna tafa á afhendingu. Lagt er til að móttakandi kvarti innan fjórtán daga frá því að afhenda átti vöruna. Er jafnframt gert ráð fyrir að slíkur afhendingardráttur skoðist alltaf sem óeðlilegur og veiti þar með móttakanda rétt til að krefja flytjanda um bætur vegna tjóns sem þessi dráttur á afhendingu hefur í för með sér.
    Þá er lagt til í 3. mgr. að tilkynning skuli vera skrifleg og send með sannanlegum hætti. Tilkynning markar upphaf tímafrestanna og því mikilvægt að það liggi fyrir með skýrum hætti hvenær tilkynnt var. Um það hvenær tilkynning telst komin fram fer eftir almennum reglum kröfuréttar og er miðað við að tilkynning hafi verið send af stað en hún þarf ekki að vera komin til vitundar flytjandans enda gert ráð fyrir að móttakandi hafi í höndum sönnun þess að hafa sent tilkynninguna, sbr. áskilnað um að tilkynningin hafi verið send með sannanlegum hætti og er vísað til reglna kröfuréttar um það með hvaða hætti það verður gert.

Um VII. kafla.


    Í kafla þessum eru ýmis ákvæði sem ekki eiga undir aðra kafla frumvarpsins, svo sem um fyrningu krafna og gildistöku.

Um 31. gr.


    Í ákvæði þessu er kveðið á um fyrningu krafna sem rísa í tengslum við flutning á grundvelli frumvarpsins og er fyrningarfresturinn eitt ár frá nánar tilgreindum upphafsdegi að telja. Ekki er um efnisbreytingu á ræða á fyrningarreglum 29. gr. gildandi laga. Hins vegar er ástæða til þess að árétta í 2. mgr. að ekki sé heimilt að semja um lengri eða styttri fyrningarfrest en mælt er fyrir um í 1. mgr.

Um 32. gr.


    Hér er um nýmæli að ræða sem á að tryggja að ekki sé hægt að komast fram hjá ákvæðum frumvarpsins á neinn hátt með því að byggja bótakröfu á t.d. almennum skaðabótareglum. Ákvæði þetta á sér fyrirmynd í reglum um sjóflutninga.

Um 33. gr.


    Lagt er til að frumvarpið öðlist gildi 1. janúar 2010 og samhliða falli lög nr. 24/1982 úr gildi.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er kveðið á um lagaskil. Þar sem í frumvarpinu eru ýmis nýmæli, þar á meðal ný ábyrgðarregla og nýtt viðmið um takmörkun bótafjárhæðar, er það mat starfshópsins að nauðsynlegt sé að hafa skýrt ákvæði um lagaskilin til að koma í veg fyrir síðari ágreining. Er við það miðað að allur flutningur sem hefst í gildistíð eldri laga, þ.e. fyrir 1. janúar 2010, fari eftir lögum nr. 24/1982. Um allan flutning sem hefst frá og með 1. janúar 2010 fer eftir ákvæðum frumvarpsins.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til landflutningalaga.

    Megintilgangur frumvarpsins er að laga reglur um landflutninga að því rekstrarumhverfi sem greinin býr við í dag og breytingum sem orðið hafa á því sviði. Um er að ræða breytingar sem snúa að ýmsum skilyrðum starfsgreinarinnar, svo sem varðandi vöruflutninga, rafræna flutningssamninga, frágang sendenda á vöru o.fl.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður því ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.