Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 74. máls.

Þskj. 74  —  74. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    6. gr. laganna orðast svo:
    Til að standa straum af kostnaði við rekstur og framkvæmdir á vegum Siglingastofnunar Íslands skal greitt vitagjald af skipum sem sigla við Íslandsstrendur og hafa hér viðkomu. Heimilt er að færa fjármagn á milli fjárlagaára.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 2. mgr. 7. gr. laganna:
     a.      Í stað fjárhæðarinnar „78,20 kr.“ kemur: 156,50 kr.
     b.      Í stað fjárhæðarinnar „3.500 kr.“ kemur: 4.900 kr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Tilgangur frumvarps þessa er að hækka vitagjald í samræmi við verðlagsbreytingar og þróun gengis frá því að gjaldið var hækkað með lögum nr. 142/2002. Þá var ákveðið að vitagjald skyldi vera 78,20 kr. af hverju brúttótonni skips og lágmarksgjald 3.500 kr.
    Með frumvarpinu er lagt til að vitagjald verði 156,50 kr. á hvert brúttótonn, sem er 100% hækkun í samræmi við þróun gengisbreytinga og hækkun neysluverðsvísitölu, og að lágmarksgjald hækki í 4.900 kr. Frá ársbyrjun 2002 til febrúar 2009 hefur neysluverðsvísitalan hækkað um 39% og evra um 100%.
    Erlend skip greiða nú um 85% af vitagjaldi og mun hækkunin því að mestu varða þau en lágmarksgjaldið smábátaflotann.
    Jafnframt er lagt að 6. gr. laganna verði breytt á þann veg að vitagjaldið megi ekki einungis nota í verkefni skv. 2. gr. laganna heldur til að standa straum af kostnaði við rekstur Siglingastofnunar Íslands og framkvæmdir á hennar vegum.Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vitamál, nr. 132/1999.

    Tilgangur frumvarpsins er annars vegar að hækka vitagjald en með hækkuninni er meðal annars tekið tillit til þróunar verðlags og gengis frá því að gjaldið var hækkað með lögum nr. 142/2002. Gert er ráð fyrir að vitagjaldið verði nú 156,5 kr. á hvert brúttótonn skips í stað 78,2 kr. og þá er lagt til að lágmarksgjald samkvæmt lögunum verði 4.900 kr. í stað 3.500 kr. Gert er ráð fyrir að tekjur af vitagjaldi hækki um 145 m.kr. við þessar breytingar. Hins vegar er í frumvarpinu gert ráð fyrir að gjaldaheimild vitagjaldsins verði víkkuð og hún notuð til að standa straum af rekstri og framkvæmdum á vegum Siglingastofnunar Íslands í stað þess að standa einungis straum af verkefnum skv. 2. gr. núgildandi laga.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Fjárheimildir Siglingastofnunar til útgjaldaskuldbindinga verða óbreyttar eftir sem áður. Hins vegar er gert ráð fyrir að með hækkun vitagjaldsins muni ríkistekjur af gjaldinu aukast um 145 m.kr. og verða 290 m.kr. á árinu 2010. Fjármögnun Siglingastofnunar mun þá breytast að því leyti að gert er ráð fyrir að á móti lækki beint ríkisframlag um sömu fjárhæð. Breytingin mun þannig ekki hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs. Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010 hefur verið gert ráð fyrir þessum breytingum.