Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 75. máls.

Þskj. 75  —  75. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)



1. gr.

    5. og 6. mgr. 3. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Á eftir 3. gr. laganna kemur ný grein, sem verður 3. gr. a, og orðast svo ásamt fyrirsögn:

Tekjur Siglingastofnunar Íslands.


    Siglingastofnun Íslands aflar sér tekna á eftirfarandi hátt:
     1.      Með innheimtu þjónustugjalda sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.
     2.      Með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna lögmæltra verkefna á starfssviði stofnunarinnar, þ.m.t. útgáfu starfsleyfa og atvinnuskírteina og veitingu undanþágna til starfa á skipum.
     3.      Með þjónustugjöldum fyrir afgreiðslu gagna.
     4.      Með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna starfsemi sem rekin er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði.
     5.      Með gjaldtöku sem kveðið er á um í sérlögum sem gilda um starfsemi stofnunarinnar.
    Siglingastofnun Íslands skal greina kostnað allra verkefna, hvort sem fjármögnun byggist á sértekjum eða framlögum úr ríkissjóði. Kostnaðargreining tekur til alls kostnaðar.
    Gjöld skv. 1.–3. tölul. skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem samgönguráðherra staðfestir og birt er í B-deild Stjórnartíðinda. Til sérlaga skv. 1. tölul. teljast lög um eftirlit með skipum, nr. 47/2003, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, lög um skipamælingar, nr. 146/2002, lög um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, nr. 76/2001, lög um köfun, nr. 31/1996, lög um lögskráningu sjómanna, nr. 43/1987, lög um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, lög um siglingavernd, nr. 50/2004, hafnalög, nr. 61/2003, lög um íslenska alþjóðlega skipaskrá, nr. 38/2007, og lög um áhafnir íslenskra fiskiskipa, varðskipa, skemmtibáta og annarra skipa, nr. 30/2007. Við ákvörðun gjalda skal leggja til grundvallar kostnað vegna launa og launatengdra gjalda, aksturs, þjálfunar og endurmenntunar, aðkeyptrar sérfræðiþjónustu, húsnæðis, starfsaðstöðu, fjarskipta, búnaðar og tækja, stjórnunar- og stoðþjónustu og alþjóðlegrar samvinnu í þágu siglinga, auk ferða og uppihalds. Fjárhæð gjalda tekur mið af kostnaði sem hlýst af eftirliti og þjónustu í hverju tilviki.
    Gjöld skv. 4. tölul. skulu ákvörðuð í viðmiðunargjaldskrá sem Siglingastofnun setur. Þann hluta starfsemi Siglingastofnunar Íslands sem rekinn er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði skal skilja fjárhagslega frá öðrum þáttum rekstrarins og skal endurgjald taka mið af markaðsverði. Sala á þjónustu samkvæmt þessari málsgrein skal byggjast á samningum.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í samgönguráðuneytinu í samráði við Siglingastofnun Íslands. Frumvarpinu er ætlað að gera lagaákvæði um gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hefur heimild til að taka gjald. Þau nýmæli sem í frumvarpinu felast eru eftirfarandi:
    Í 4. tölul. 1. efnismgr. 2. gr. er kveðið á um að Siglingastofnun geti aflað sér tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna starfsemi sem rekin er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði og skv. 4. efnismgr. er tekið fram að þau gjöld skuli ákvörðuð í viðmiðunargjaldskrá sem Siglingastofnun setur og þar verði m.a. kveðið á um taxta á útseldri vinnu stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að sú gjaldskrá taki mið af markaðsverði þjónustunnar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greina skuli kostnað allra verkefna og á allur kostnaður vegna þessarar sérhæfðu þjónustu að vera fjárhagslega aðskilinn frá lögmæltum verkefnum stofnunarinnar. Verkefni þau sem hér um ræðir eru fyrst og fremst innlend og erlend verkefni hafnasviðs Siglingastofnunar. Hafnasvið sinnir einkum lögboðnum verkefnum er lúta að rannsóknum og áætlanagerð, svo og umsjón og eftirlit með þeim hafnargerðum og sjóvörnum sem ríkissjóður veitir fjármuni til. Auk þess sinnir hafnasviðið verkefnum innan lands sem ekki eru lögbundin en sérhæfð á sviði hafnagerðar. Þannig nýtir Siglingastofnun þá sérþekkingu sem hún hefur í hafnagerð í þágu þeirra aðila sem á þurfa að halda. Slík verkefni eru m.a. botnrannsóknir, dýptarmælingar, keyrsla sérhæfðra ölduforrita og hönnun hafnarmannvirkja. Á undanförnum árum hefur aukist að leitað hafi verið til Siglingastofnunar með að taka að sér verkefni erlendis. Þau verkefni sem nú eru í gangi eru: þátttaka í hönnun nýrrar hafnar á vesturströnd Ástralíu sem byggja á vegna útflutnings á járngrýti, ráðgjöf til olíufyrirtækis í Mið-Austurlöndum, verkefni fyrir danskan verktaka sem byggir höfn á austurströnd Sri Lanka og forhönnun á brimvarnargarði á Kólaskaga í Rússlandi. Siglingastofnun hefur leitast við að nýta innlenda ráðgjafa til aðstoðar í þessum verkefnum.
    Áður hefur stofnunin m.a. tekið þátt í byggingu brimvarnargarðs í Sirevaag í Jæren í Suður-Noregi og hönnun brimvarna fyrir móttökustöð fyrir jarðgas frá Snöhvit-svæðinu sem Statoil byggði við Hammerfest í Norður-Noregi.
    Í 2. efnismgr. 2. gr. er kveðið á um að stofnunin skuli greina allan kostnað allra verkefna, hvort sem fjármögnun byggist á sértekjum eða framlögum úr ríkissjóði. Þetta er nýmæli í lögum um Siglingastofnun, en ákvæðið er í samræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefur í stofnuninni í mörg ár.
    Í ýmsum sérlögum er kveðið á um gjaldtöku fyrir þjónustu Siglingastofnunar. Í 3. efnismgr. 2. gr. eru taldir upp þeir kostnaðarliðir sem gjöldunum er ætlað að standa undir. Í álitum umboðsmanns Alþingis hefur margsinnis verið bent á óskýrar gjaldtökuheimildir, m.a. að óljóst sé hvaða kostnaðarliðum viðkomandi gjaldi sé ætlað að standa undir, og er þessari breytingu ætlað að bæta þar úr.
    Í 5. tölul. 1. efnismgr. 2. gr. er kveðið á um gjaldtöku sem byggist á heimild í sérlögum og er ætlað að standa undir rekstri og framkvæmdum á vegum Siglingastofnunar Íslands. Um er að ræða gjöld sem lögð eru á án þess að sérgreint endurgjald komi á móti.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um Siglingastofnun Íslands,
nr. 6/1996, með síðari breytingum.

    Markmið frumvarpsins er að gera lagaákvæði um gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hefur heimild til að taka gjald og hvaða kostnaðarliði hægt er að leggja til grundvallar hverju sinni. Er í því sambandi tekið tillit til álits umboðsmanns Alþingis sem hefur bent á óskýrar gjaldtökuheimildir gildandi laga þar sem meðal annars sé óljóst hvaða kostnaðarliðum viðkomandi gjaldi sé ætlað að standa undir. Frumvarpinu er ætlað að bæta úr því. Í frumvarpinu er jafnframt gert ráð fyrir að Siglingastofnun geti aflað sér tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna starfsemi sem rekin er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði. Miðað er við að þau gjöld skuli ákvörðuð í viðmiðunargjaldskrá sem Siglingastofnun setur og taki mið af markaðsverði þjónustunnar. Verkefni þau sem hér um ræðir eru fyrst og fremst innlend og erlend verkefni hafnasviðs Siglingastofnunar, svo sem botnrannsóknir, dýptarmælingar, keyrsla sérhæfðra ölduforrita og hönnun hafnarmannvirkja. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að allur kostnaður vegna þessarar sérhæfðu þjónustu verði fjárhagslega aðskilinn frá lögmæltum verkefnum stofnunarinnar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.