Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 76. máls.

Þskj. 76  —  76. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska
og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum
til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, er heimilt að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna skuldbindinga sjóðsins sem stafa af lánum hans frá breska og hollenska ríkinu samkvæmt samningum dags. 5. júní 2009 og viðaukasamningum 19. október sama ár til að standa straum af lágmarksgreiðslum, sbr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 98/1999, til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Þessi heimild takmarkast ekki af öðrum ákvæðum laganna. Ábyrgðin, sem í samræmi við lánasamningana gengur í gildi 5. júní 2016, ræðst einvörðungu af ákvæðum samninganna.

2. gr.

    2. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:

Lagaleg staða.


    Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.
    Fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, og sú úrlausn er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins, að á íslenska ríkinu hafi ekki hvílt skylda af þeim toga sem nefnd er í 1. mgr., eða að á öðru aðildarríki EES-samningsins hafi ekki hvílt slík skylda í sambærilegu máli, skal fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna, og eftir atvikum einnig Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins, um það hvaða áhrif slík úrlausn kunni að hafa á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins samkvæmt þeim.

3. gr.

    3. og 4. gr. laganna falla brott.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Til að fylgjast með og meta forsendur fyrir endurskoðun á lánasamningunum, sbr. endurskoðunarákvæði þeirra, skal ríkisstjórnin gera ráðstafanir til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri í síðasta lagi fyrir 5. júní 2015 IV. greinar úttekt á stöðu þjóðarbúsins, einkum með tilliti til skuldastöðu og skuldaþols. Að auki verði í úttektinni lagt mat á þær breytingar sem orðið hafa miðað við mat sjóðsins frá 19. nóvember 2008.
    Við mat á forsendum til endurskoðunar á samningunum skal einnig tekið tillit til stöðu í þjóðarbúskapnum og ríkisfjármálum á hverjum tíma og mats á horfum í þeim efnum þar sem m.a. verði sérstaklega litið til gjaldeyrismála, gengisþróunar og viðskiptajafnaðar, hagvaxtar og breytinga á landsframleiðslu svo og þróunar fólksfjölda og atvinnuþátttöku.
    Ákvörðun um að óska eftir viðræðum um breytingar á lánasamningunum samkvæmt endurskoðunarákvæðum þeirra skal tekin með samþykki Alþingis. Meta skal hvort óska skuli endurskoðunar eigi síðar en 5. október 2015 og skal niðurstaða þess mats lögð fyrir Alþingi fyrir lok þess árs.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


1.     Inngangur.
    Þegar stóru viðskiptabankarnir þrír féllu í byrjun október 2008 voru umtalsverðar fjárhæðir á innlánsreikningum Landsbanka Íslands hf. í útibúum hans í Bretlandi og Hollandi, svokölluðum Icesave-reikningum. Þessir fjármunir voru innlánseigendum ótiltækir frá og með 6. október 2008 en daginn eftir, 7. október 2008, tók Fjármálaeftirlitið yfir stjórn Landsbankans á grundvelli svokallaðra neyðarlaga, þ.e. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Við þessar aðstæður reis ágreiningur á milli Íslands annars vegar og Bretlands og Hollands hins vegar um hvort íslenska ríkinu bæri að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi en sú lágmarkstrygging nam þá 20.887 evrum fyrir hvern innstæðueiganda samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi.
    Með samþykkt þingsályktunartillögu 5. desember 2008 var ríkisstjórninni falið að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli sameiginlegra viðmiða sem samþykkt voru á milli Íslands, Bretlands og Hollands fyrir tilstilli Evrópusambandsins (ESB) í Brussel 14. nóvember 2008. Þessi sameiginlegu viðmið hafa verið nefnd Brussel-viðmið og í þeim fólst að: (1) aðilar viðurkenndu þá lagalegu stöðu að tilskipun um innstæðutryggingar gilti á Íslandi með sama hætti og hún gilti í aðildarríkjum Evrópusambandsins; (2) þessi viðurkenning mundi greiða fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, og í samningum við Ísland skyldi taka tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland væri í og nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gerðu Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt; (3) stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins tækju áframhaldandi þátt í samningsferlinu sem færi fram í samráði við þær.

    Að loknum samningaviðræðum var 5. júní 2009 ritað undir tvo lánasamninga á milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (hér eftir nefndur tryggingarsjóðurinn nema annað sé tekið fram) og íslenska ríkisins annars vegar og breska og hollenska ríkisins hins vegar. Auk þess var gerður sérstakur uppgjörssamningur milli íslenska og breska tryggingarsjóðsins. Með þessum lánasamningum átti að leiða Icesave-málið til lykta. Þessir samningar öðluðust gildi ef samþykkt yrðu lög á Alþingi fyrir lok sumarþings 2009 þar sem fjármálaráðherra væri fyrir hönd ríkissjóðs heimilað að veita tryggingarsjóðnum ábyrgð á efndum lánasamninganna. Lagafrumvarp þessa efnis var lagt fram á Alþingi 30. júní sl. en því var verulega breytt í meðförum Alþingis, sbr. sérstaklega 1.–4. gr. laga nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Af tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 96/2009 leiddi að Alþingi samþykkti heimild ráðherra til að veita ríkisábyrgð en með ýmsum fyrirvörum í formi forsendna fyrir veitingu ríkisábyrgðar og efnahagslegra og lagalegra viðmiða. Til þess að ríkisábyrgðin gengi í gildi varð að kynna breskum og hollenskum stjórnvöldum fyrirvarana og þau urðu fallast á þá, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2009.
    Í kjölfar lagasetningarinnar ræddu aðilar lánasamninganna saman og fljótlega kom fram að bresk og hollensk stjórnvöld væru ekki reiðubúin til að fallast á fyrirvara Alþingis að öllu leyti. Að loknum viðræðum aðila lánasamninganna varð niðurstaðan sú að gera viðaukasamninga og með þeim hætti samrýma að mestu leyti efni lánasamninganna og þeirra fyrirvara sem koma fram í 1.–4. gr. laga nr. 96/2009. Það er mat ríkisstjórnarinnar að meginefni fyrirvaranna hafi náð fram að ganga. Litið er svo á að lengra verði ekki komist og nauðsynlegt sé að ljúka málinu. Hinir endanlegu samningar eru að mati ríkisstjórnarinnar viðunandi lausn á einni erfiðustu milliríkjadeilu Íslands á lýðveldistímanum. Til þess að lánasamningarnir taki gildi, eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum, er nauðsynlegt að breyta lögum nr. 96/2009. Verði þessar lagabreytingar ekki gerðar fyrir 30. nóvember næstkomandi geta bresk og hollensk stjórnvöld rift samningunum.
    Viðaukasamningarnir frá 19. október 2009 eru í reynd þrír samningar, í fyrsta lagi samningur hollenska ríkisins annars vegar og tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins hins vegar ( hollenski viðaukasamningurinn), í öðru lagi samningur breska ríkisins annars vegar og tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins hins vegar ( breski viðaukasamningurinn) og í þriðja lagi samningur Tryggingarsjóðs breskra innstæðueigenda og íslenska tryggingarsjóðsins en sá samningur breytir uppgjörssamningi þessara aðila frá 5. júní síðastliðnum. Samkvæmt framangreindum þremur samningum breytist réttarstaða tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins gagnvart breskum og hollenskum stjórnvöldum með sama hætti, þ.e. þær breytingar sem verða á lánasamningunum frá 5. júní 2009 eru efnislega samhljóða.
    Þetta frumvarp er lagt fram í því skyni að samræma efni lánasamninganna, eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum, þeim lögum sem gilda eiga um heimild fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð vegna lána sem tryggingarsjóðurinn hefur tekið hjá breskum og hollenskum yfirvöldum. Þetta tryggir að ríkisábyrgðin verði óskilyrt og þess gerist ekki þörf að túlka ákvæði samninganna með hliðsjón af þeim lögum sem heimila fjármálaráðherra að veita tryggingarsjóðnum ríkisábyrgð. Samkvæmt þessu eiga samningarnir að marka alfarið réttarstöðu aðila á grundvelli enskra laga. Orðalag 1. gr. frumvarpsins tekur af tvímæli um þetta.
    Þungamiðjan í almennum athugasemdum frumvarps þessa er að skýra hvaða munur er á ákvæðum gildandi laga nr. 96/2009 og ákvæðum lánasamninganna eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum. Þessu viðfangsefni verða gerð skil með umfjöllun um eftirfarandi atriði:
     1.      Gildistíma ríkisábyrgðar.
     2.      Viðurkenningu á fyrirvörum og tengsl fyrirvara við ríkisábyrgð.
     3.      Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar.
     4.      Efnahagsleg viðmið.
     5.      Lagalegt viðmið um hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar.
     6.      Lagalegt viðmið um úthlutun eigna við uppgjör Landsbanka Íslands hf. eða þrotabús hans.
    Þegar fjallað hefur verið um framangreint verða ýmis álitaefni reifuð nánar. Í lokin verður gerð grein fyrir einstökum ákvæðum frumvarpsins en áður en lengra er haldið þykir nauðsynlegt að fjalla nánar um bakgrunn málsins.

2.     Bakgrunnur málsins.
2.1     Forsagan.
    Innlánastarfsemi Landsbanka Íslands hf. var í Bretlandi og Hollandi rekin í formi útibúa en ekki dótturfélaga. Um þessa starfsemi giltu því ákvæði laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, en þau lög eru byggð á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EBE um innlánatryggingakerfi. Í samræmi við 3. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 nær greiðsluskylda Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, og þ.m.t. ábyrgð hans á greiðslufalli, til útibúa íslenskra banka á Evrópska efnahagssvæðinu. Fljótlega eftir fall Landsbankans varð ljóst að eignir tryggingarsjóðsins næmu eingöngu broti af þeirri fjárhæð sem mögulega gæti fallið á hann vegna lágmarkstryggingar innstæðueigenda Icesave-reikninganna. Með hliðsjón af þessu m.a. sneru stjórnvöld í Bretlandi og Hollandi sér til íslenskra stjórnvalda í því skyni að kanna með hvaða hætti þau hygðust tryggja að sjóðurinn stæði við þær skuldbindingar sem í tilskipuninni fælust.
    Hinn 11. október 2008 var af hálfu hollenskra stjórnvalda annars vegar og íslenskra stjórnvalda og íslenska tryggingarsjóðsins hins vegar ritað undir skjal um sameiginlegan skilning aðila þess efnis að íslenska tryggingarsjóðnum yrði veitt lán með ríkisábyrgð til að bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Lánið frá hollenska ríkinu til tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins átti að vera til 10 ára, með 6,7% vöxtum og þriggja ára afborgunarleysistímabili. Fram kom af hálfu íslenskra stjórnvalda þann sama dag að viðræður við Breta hefðu gengið vel og von væri á samkomulagi við þá einnig fljótlega. Viðræður íslenskra og breskra embættismanna 23. og 24. október 2008 skiluðu hins vegar ekki árangri.
    Þegar hér var komið sögu var ljóst að það væri mat breskra og hollenskra yfirvalda að íslenska ríkið þyrfti að standa að baki tryggingarsjóðnum vegna lágmarkstrygginga innstæðueigenda en íslensk stjórnvöld töldu á hinn bóginn að íslenska ríkinu bæri ekki að ábyrgjast greiðslur til innlánseigenda ef þær færu fram úr því sem tryggingarsjóðurinn gæti staðið undir af inngreiðslum í sjóðinn. Afstaða íslenskra stjórnvalda byggðist aðallega á því að slík skylda væri ekki fyrir hendi þar sem fjármálakerfi landsins hefði hrunið nánast að fullu. Á meðan þessi ágreiningur var enn óleystur tóku bresk og hollensk stjórnvöld þá ákvörðun að lofa almennum innstæðueigendum Icesave-reikninganna endurgreiðslu sinna innstæðna. Bresk yfirvöld greiða slíkar innstæður út að fullu en hollensk stjórnvöld greiða hverjum innstæðueiganda að hámarki 100 þúsund evrur.

    Um þetta leyti var Evrópusambandinu falið, af hálfu viðsemjenda Íslands, að gerast milligönguaðili í málinu. Á þessu stigi málsins var lögð á það áhersla af hálfu íslenskra stjórnvalda að fá úr málinu skorið fyrir viðeigandi úrskurðaraðila eða dómstól en þessu var hafnað af viðsemjendunum. Afstaða þeirra byggðist ekki síst á því að talið var varhugavert að gefa með einhverjum hætti til kynna að vafi kynni að leika á um það innlánstryggingakerfi sem lægi til grundvallar innlánastarfsemi í Evrópu þar sem ótvírætt gildi tilskipunarinnar væri forsenda þess að innstæðueigendur treystu bönkum fyrir sparifé sínu. Réttaróvissa kynni að valda ófyrirséðum afleiðingum í evrópsku bankakerfi.
    Ástandið á Íslandi í nóvember 2008 var að flestra mati alvarlegt, m.a. vegna skorts á gjaldeyri. Talið var að umsókn Íslands um aðstoð Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá 3. nóvember 2008 yrði ekki tekin fyrir í stjórn sjóðsins á meðan ágreiningur væri uppi um Icesave-málið. Önnur ríki voru þá ekki tilbúin að lána íslenska ríkinu nema samstarfi yrði komið á milli íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nokkrum dögum eftir samþykkt Brussel- viðmiðanna var ritað undir samstarfsyfirlýsingu íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en áður, þ.e. 15. nóvember 2009, hafði m.a. eftirfarandi málsliðum verið bætt við 9. lið viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins: „Ísland hefur heitið því að virða skuldbindingar á grundvelli innstæðutryggingakerfisins gagnvart öllum tryggðum innlánshöfum. Þetta byggist á þeim skilningi að unnt verði að forfjármagna þessar kröfur fyrir tilstyrk viðkomandi erlendra ríkja og að jafnt Ísland sem þessi ríki séu staðráðin í að efna til viðræðna á næstu dögum með það að markmiði að ná samkomulagi um nánari skilmála vegna þessarar forfjármögnunar.“
    Eftir að ályktun Alþingis var samþykkt 5. desember 2008, um að veita stjórnvöldum heimild til að leiða m.a. Icesave-málið til lykta, hófst ferli sem lauk með samningum 5. júní 2009. Um þetta ferli vísast nánar til almennra athugasemda sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 96/2009 og gagna sem tengjast undirbúningi og gerð Icesave-lánasamninganna, sbr. skjöl sem eru aðgengileg á vefsíðunni www.island.is.

2.2     Meginefni Icesave-lánasamninganna frá 5. júní 2009.
    Í megindráttum fólst í lánasamningunum að íslenski tryggingarsjóðurinn fengi lán hjá breskum og hollenskum yfirvöldum að fjárhæð allt að 2,35 milljarðar punda, annars vegar, og 1,3 milljarðar evra, hins vegar, sem skyldi endurgreiðast á 15 árum. Tryggingarsjóðurinn, sem er sjálfseignarstofnun, tók lánin en ríkissjóður tókst á hendur ábyrgð á endurgreiðslum höfuðstóls og vaxta. Á tímabilinu 5. júní 2016 til 5. júní 2024 skyldi greitt af lánunum með 32 jöfnum afborgunum en lánin skyldu bera 5,55% fasta ársvexti frá og með 1. janúar 2009. Gegn þessum lánum átti tryggingarsjóðurinn að fá kröfu hvers innstæðueiganda á hendur búi Landsbanka Íslands framselda en að höfuðstólsverðmæti gat einstök krafa numið í mesta lagi lágmarkstryggingunni eða 20.887 evrum. Samkvæmt ákvæðum lánasamninganna var hvorki tryggingarsjóðnum né íslenska ríkinu skylt að greiða afborganir af lánunum á fyrstu sjö árum lánstímans en hins vegar átti tryggingarsjóðurinn að greiða niður lánin af þeim fjármunum sem hann fengi af kröfum sínum á hendur búi Landsbanka Íslands hf. Þessum fjármunum tryggingarsjóðsins, sem hann fengi við úthlutun eigna Landsbanka Íslands hf., átti að skipta á milli hollenska og breska sjóðsins að tiltölu, þ.e. um 2/3 fjármunanna áttu að fara í að greiða niður breska lánið og 1/3 þeirra í að greiða niður hollenska lánið.
    Við samningsgerðina 5. júní sl. var óumdeilt að kröfur íslenska tryggingarsjóðsins, Breta og Hollendinga væru forgangskröfur í búi Landsbanka Íslands hf. og að þær ættu rætur sínar að rekja til krafna hvers innstæðueiganda á hendur bankanum. Í sérstökum uppgjörssamningi milli Tryggingarsjóðs breskra innstæðueigenda og íslenska tryggingarsjóðsins var tekið fram að ef einn aðili fengi meira úthlutað til sín en næmi hlutfallslegum rétti hans til innstæðunnar í heild, af hvaða ástæðum sem það væri, þá skyldu aðilar eigi að síður skipta fjármunum á milli sín að tiltölu (pro rata). Mælt var fyrir um svipaða skipan í hollenska lánasamningnum. Af þessu leiddi að sama hvernig færi með útgreiðslur úr búi Landsbanka Íslands til þessara þriggja aðila skyldi sú regla gilda að hverri útgreiðslu úr búinu yrði skipt eftir hlutfallslegu vægi krafna aðila í heild, þ.e. að íslenski tryggingarsjóðurinn fengi um 52% af þeim útgreiðslum sem bærust til aðilanna en hinir tveir aðilarnir fengju samanlagt 48%. Þetta mætti skýra nánar með eftirfarandi dæmi: Heildarútgreiðsla úr búi Landsbankans til aðilanna þriggja nemur 1.000 milljörðum íslenskra króna. Óháð því hvernig slitastjórn bankans ákveður að greiða eigi þessa fjármuni út úr búinu fær íslenski tryggingarsjóðurinn samtals 520 milljarða króna til að greiða niður skuldina samkvæmt lánasamningunum.
    Á meðan frumvarp það, sem varð að lögum nr. 96/2009, var enn til meðferðar á Alþingi var sá skilningur sem þarna birtist við úthlutun eigna úr búi Landsbanka Íslands hf. gagnrýndur á opinberum vettvangi, m.a. af hæstaréttarlögmönnunum Ragnari H. Hall og Herði Felix Harðarsyni og Eiríki Tómassyni lagaprófessor. Þeir töldu að íslenska tryggingarsjóðnum bæri að fá fyrstu 20.887 evrurnar úr búinu þar sem krafa hvers innstæðueiganda væri ein krafa og tryggingarsjóðurinn íslenski hefði því öðlast réttarstöðu innstæðueigandans hvað varðar útgreiðslu á fyrstu 20.887 evrum búsins. Þessar röksemdir mætti skýra nánar með sambærilegu dæmi og nefnt er hér að framan: Heildarútgreiðsla úr búi Landsbankans til aðilanna þriggja nemur 1.000 milljörðum íslenskra króna og þar af nemur höfuðstólsverðmæti samanlagðra krafna íslenska tryggingarsjóðsins 700 milljörðum króna. Þar sem fyrstu 700 milljarðarnir úr búi bankans rynnu til íslenska tryggingarsjóðsins færu þeir fjármunir í að greiða niður lán sjóðsins við Breta og Hollendinga.
    Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar frá 15. ágúst sl. þá töldu ýmsir lögfræðingar að ákvæði lánasamninganna um þetta atriði styddust við grundvallarreglur íslensks gjaldþrotaréttar og því rýrðu þau ekki að neinu leyti rétt íslenska tryggingarsjóðsins þegar kæmi að úthlutun úr búi Landsbankans. Einnig voru þau rök sett fram að önnur niðurstaða bryti að öllum líkindum í bága við EES-samninginn, sbr. t.d. álit prófessors Pierre Mathijsen, dags. 28. júlí 2009, og álit Andra Árnasonar, hrl., og Helgu Melkorku Óttarsdóttur, hdl., dags. 10. ágúst 2009, en þessi álit eru aðgengileg á vefsíðunni www.island.is.
    Ekki þykir ástæða til að gera efni samninganna frekari skil hér og vísast til nánari umfjöllunar um þá í almennum athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum nr. 96/2009, nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, dags. 15. ágúst 2009, og gögnum sem er að finna á www.island.is.

2.3     Umfjöllun Alþingis um frumvarp til laga um veitingu ríkisábyrgðar.
    Frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. var lagt fram á Alþingi í lok júní síðastliðins. Frumvarpinu fylgdu ítarlegar skýringar um forsögu málsins og ástæður þess að íslenska ríkið ætti að gangast undir ábyrgð þessa. Þótt forræði málsins væri hjá fjárlaganefnd Alþingis fjölluðu utanríkismálanefnd og efnahags- og skattanefnd einnig ítarlega um málið og skiluðu þær fjárlaganefnd álitum sínum í lok júlí. Þessi álit voru birt með nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar. Jafnhliða fór fram umfangsmikil vinna á vegum fjárlaganefndar við að semja fyrirvara við samþykkt ríkisábyrgðar á efndum Icesave-samninganna. Meiri hluti fjárlaganefndar skilaði ítarlegu nefndaráliti um málið 15. ágúst sl. og gerði viðamiklar breytingar á frumvarpinu. Á milli annarrar og þriðju umræðu voru gerðar enn frekari breytingar á frumvarpinu en það varð að lokum að lögum nr. 96/2009 frá 2. september 2009.

2.4     Kynning á fyrirvörum Alþingis og viðræður aðila.
    Í samræmi við ákvæði laganna voru breskum og hollenskum stjórnvöldum kynntir þeir fyrirvarar sem Alþingi hefði samþykkt. Sú kynning fór fram með óformlegum hætti í samtölum og á fundum í Haag, London og Reykjavík, en jafnframt sendi forsætisráðherra starfsbræðrum sínum í löndunum tveimur bréf þar sem afstaða Alþingis var útskýrð og óskað eftir fundi æðstu stjórnvalda ef á þyrfti að halda. Þá átti utanríkisráðherra fundi með starfsbræðrum sínum í New York og fjármálaráðherra með sínum starfsbræðrum í Istanbúl. Fljótlega kom fram sú afstaða breskra og hollenskra stjórnvalda að réttast væri að gera sérstaka viðaukasamninga sem fælu í sér samþykki við fyrirvörum Alþingis og breytingar á fyrirliggjandi lánasamningum. Þannig mætti tryggja að lánasamningarnir stæðu sjálfstætt og um þá giltu að öllu leyti ensk lög eins og ráð var fyrir gert í lánasamningunum frá 5. júní 2009. Fulltrúar Íslands í þessum viðræðum gerðu fjárlaganefnd Alþingis grein fyrir þessari afstöðu breskra og hollenskra stjórnvalda um miðjan september síðastliðinn.
    Þótt Bretar og Hollendingar væru reiðubúnir að fallast á fyrirvara Alþingis að verulegu leyti varð ljóst að einhver atriði stæðu út af. Enn fremur töldu fulltrúar þessara ríkja nauðsynlegt að réttarstaða aðila yrði að vera mjög skýr þannig að ekki yrði ósamræmi milli laga nr. 96/2009 og lánasamninganna. Niðurstaðan varð sú að gera viðaukasamninga við fyrri lánasamninga þar sem tekið yrði tillit til fyrirvara samkvæmt lögum nr. 96/2009 að því marki sem aðilar náðu samkomulagi um. Af þessu leiðir að leggja þarf fram frumvarp til breytinga á lögum nr. 96/2009 til að tryggja þetta samræmi.

2.5     Hvaða kostir koma til greina við að samræma lögin og viðaukasamningana?
    Nokkrar leiðir og aðferðir koma til greina þegar samræma á efni viðaukasamninganna þeim lögum sem gilda eiga um veitingu ríkisábyrgðarinnar. Með hliðsjón af efni viðaukasamninganna komu aðallega tvær leiðir til greina. Annars vegar væri mögulegt að breyta einstökum ákvæðum laga nr. 96/2009 þannig að samræmi yrði á milli þeirra og samninganna. Með þessari leið mundi uppbygging laganna haldast óbreytt en á móti kæmi að grípa þyrfti til þónokkurra breytinga á einstökum ákvæðum og yrðu þær breytingar óhjákvæmilega flóknar, m.a. með tilliti til mismunandi útfærslna á greiðsluhámarki hvers árs skv. 3. gr. laga nr. 96/2009 og ákvæðum viðaukasamninganna. Hins vegar væri mögulegt að nema 1.–4. gr. laga nr. 96/2009 úr gildi og færa ráðherra nýja heimild til að veita ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins samkvæmt lánasamningunum 5. júní 2009, eins og þeim var breytt með viðaukasamningum dags. 19. október 2009. Þessi leið þykir tryggja samræmi með skýrum hætti en á móti kemur að uppbygging laga nr. 96/2009 þarf að taka róttækum breytingum sé þessi leið valin. Aðrar leiðir, sem hefðu í för með sér að fyrirvarar 1.–4. gr. laga nr. 96/2009 yrðu í reynd óvirkir, kæmu einnig til greina, svo sem að setja viðaukaákvæði við lög nr. 96/2009 eða sérstök viðaukalög.
    Eftir að hafa metið og vegið þessar leiðir var talið skynsamlegast og skýrast að leggja til í frumvarpi þessu að 1.–4. gr. gildandi laga nr. 96/2009 yrðu felldar úr gildi. Í stað þeirra greina er lagt til að bætt verði við nýju heimildarákvæði fyrir fjármálaráðherra til að veita ríkisábyrgð vegna skuldbindinga Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt lánasamningunum, sbr. 1. gr. frumvarpsins. Í þessu felst að fyrirvarar við ríkisábyrgðina verða ekki í lögum nr. 96/2009 heldur mun meginefni þeirra koma fram í lánasamningunum frá 5. júní 2009 eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum.
    Samhliða þessu er lagt til að bætt verði við nýrri 2. gr. þar sem sá skilningur er áréttaður að ekkert í lögunum feli í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Ef tilteknir úrlausnaraðilar fallast á þann skilning að á íslenska ríkinu, eða EES-aðildarríki í sambærilegu máli, hafi ekki hvílt þessi skylda skal fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna.
    Samkvæmt 3. gr. frumvarpsins falla 3. og 4. gr. gildandi laga úr gildi en í 4. gr. frumvarpsins er lagt til að 5. gr. laganna um endurskoðun lánasamninganna verði styrkt, sbr. athugasemd við þá grein sem skýrir hana nánar.

3.     Mismunur á ákvæðum viðaukasamninga og ákvæðum laga nr. 96/2009.
3.1     Gildistími ríkisábyrgðar.
    Lánasamningarnir frá 5. júní 2009 voru til 15 ára og áttu því að vera að fullu efndir 5. júní 2024. Greiðsla afborgana og vaxta átti að hefjast 5. júní 2016 en fram að því bar íslenska tryggingarsjóðnum að greiða niður lánin eftir því sem hann fengi úthlutað úr búi Landsbanka Íslands hf. Ábyrgð ríkisins á skuldbindingum sjóðsins yrði samkvæmt þessu virk 5. júní 2016 og með því væri íslenska ríkinu skylt að tryggja greiðslur á afborgunum og vöxtum á hverjum ársfjórðungi þar til lánin væru að fullu greidd 5. júní 2024.
    Samkvæmt gildandi 3. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2009 takmarkast ríkisábyrgðin við hámark á greiðslum úr ríkissjóði og á greiðsluskyldan aldrei að vera hærri en hámark ríkisábyrgðar, sbr. 1. málsl. 5. mgr. sömu greinar. Af 2. málsl. 5. mgr. 3. gr. laganna leiðir að aðilar lánasamninganna skulu hefja tímanlega viðræður ef á einhverjum tíma stefnir í að lánsfjárhæðir ásamt vöxtum verði ekki greiddar í lok lánstímans vegna hámarksgreiðslna úr ríkissjóði. Því er lýst yfir í niðurlagi 1. mgr. 1. gr. laganna að ábyrgðin gildi til 5. júní 2024.
    Skiptar skoðanir hafa verið um hvort eftirstöðvar lánanna falli að öllu leyti niður ef sú staða kæmi upp í lok lánstímans að lánasamningarnir hafi ekki verið að fullu efndir vegna framangreindra fyrirmæla í lögum nr. 96/2009. Sumir hafa viljað túlka fyrirmælin á þann veg en aðrir að þau kvæðu eingöngu á um viðræður um framhald málsins.
    Af hálfu breskra og hollenskra stjórnvalda kom fram að óviðunandi væri að lánin mundu hugsanlega falla niður árið 2024 á grundvelli ákvæða laga nr. 96/2009. Að þeirra mati varð að breyta þessu ef samningar ættu að vera í gildi á milli aðila. Í þessu samhengi var vísað til venju í alþjóðlegum lánasamningum, ekki síst þeim sem fullvalda ríki eiga aðild að.
    Lánstíminn getur orðið til 5. júní 2024 ef greiðslur afborgana og vaxta eru innan þess árlega greiðsluhámarks sem getið er í samningunum. Komi sú staða upp að afborganir og vextir fari sameiginlega upp fyrir greiðsluhámarkið hækkar höfuðstóll lánanna en greiðslubyrði hvers árs verður lægri fyrir vikið. Ávallt skal þó greiða árlega vexti, þ.e. vaxtagreiðslur mynda eins konar gólf til mótvægis við greiðsluhámarkið. Þessi greiðsluferill er í megindráttum í samræmi við 3.–5. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2009 en hins vegar er orðið óumdeilt að eftirstöðvar lánanna munu aldrei falla niður jafnvel þótt greiðsluhámarkið leiði til þess að afborganir séu ekki að fullu greiddar.
    Í því skyni að létta greiðslubyrði hvers árs eða af öðrum ástæðum getur tryggingarsjóðurinn eða íslenska ríkið hvenær sem er valið einhliða að framlengja lánstímann til 5. júní 2030. Verði það gert munu sömu samningsákvæði gilda um greiðsluhámark og greiðslulágmark hvers árs. Séu lánin ekki að fullu gerð upp 5. júní 2030 getur tryggingarsjóðurinn eða íslenska ríkið framlengt þau um fimm ár í senn.
    Framangreindur munur á ákvæðum gildandi laga nr. 96/2009 og ákvæðum viðaukasamninganna þýðir í hnotskurn að lánstíminn helst óbreyttur ef forsendur um efnahagslega framvindu á Íslandi standast en ella mun lánstíminn lengjast til ársins 2030 og eftir atvikum um fimm ár í senn eftir það tímamark. Af ákvæðum viðaukasamninganna leiðir að eftirstöðvar lánanna, sem hugsanlega myndast vegna greiðsluhámarksins, falla aldrei niður. Þetta gerir að verkum að breyta þarf lögum nr. 96/2009 í því skyni að samræma efni þeirra og ákvæða lánasamninganna eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum.

3.2     Viðurkenning á fyrirvörum og tengsl fyrirvara við ríkisábyrgð.
    Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2009 er það skilyrði fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar að breskum og hollenskum stjórnvöldum verði kynntir þeir fyrirvarar sem eru settir við ábyrgðina samkvæmt lögum þessum og að þau fallist á þá. Enn fremur er tekið fram að lánveitendur samkvæmt lánasamningum frá 5. júní 2009 þurfa að viðurkenna að skuldbindingar tryggingarsjóðsins séu háðar sömu fyrirvörum og ríkisábyrgð samkvæmt lögunum. Eins og þegar hefur komið fram voru breskum og hollenskum stjórnvöldum kynntir fyrirvarar laga nr. 96/2009 en þau hafa ekki fallist á þá alla. Af ákvæðum viðaukasamninganna leiðir því að ósamræmi verður á milli þeirra og 2. mgr. 1. gr. laganna og því er lagt til að þetta ákvæði verði fellt úr gildi.
    Í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 96/2009 er m.a. tekið fram að ríkisábyrgðin afmarkist af fyrirvörum sem koma fram í lögunum og þeir séu óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar. Þar sem markmiðið með gerð viðaukasamninganna er að þeir, ásamt eldri lánasamningum, standi sem sjálfstæð heimild um réttarstöðu aðila samninganna, er lagt til að þetta ákvæði falli úr gildi.
    Þegar framangreint er metið ber að líta til þess að meginefni fyrirvaranna kemur nú fram í samningunum sjálfum í stað þess að vera í íslenskum lögum. Þýðing þess að framangreind ákvæði verði felld brott er því takmörkuð.

3.3     Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar.
    Forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðar eru taldar upp í þremur töluliðum í 2. gr. laga nr. 96/2009. Í viðaukasamningunum er að fullu leyti komið til móts við 2.–3. tölul. 2. gr. laga nr. 96/2009, sbr. gr. 3.3.3 og 3.3.4 í bresku og hollensku viðaukasamningunum. Með þessum ákvæðum viðaukasamninganna er hafið yfir vafa að friðhelgisréttindi íslenska ríkisins séu að fullu tryggð sem og yfirráð landsins yfir náttúruauðlindum þess, þ.m.t. réttur handhafa íslensks ríkisvalds til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim.
    Hvað varðar 1. tölul. 2. gr. laga nr. 96/2009 er tekið fram í viðaukasamningunum að lánasamningarnir hafi verið gerðir með hliðsjón af Brussel-viðmiðunum en ekki að viðmiðunum verði beitt við túlkun á samningunum. Jafnframt er tekið fram í viðaukasamningunum að samningarnir verði endurskoðaðir í samræmi við eldri ákvæði þeirra. Ástæðan fyrir þessu fráviki frá 1. tölul. 2. gr. er sú að ensk lög gilda um samningana og Brussel-viðmiðin voru ekki talin nægilega skýr til að hægt væri beita þeim við að túlka lánasamningana í heild.
    Talið er að einhliða réttur tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins til að framlengja lánin og upptaka árlegs greiðsluhámarks þeim til handa tryggi nægjanlega fjárhagslega stöðu íslenska ríkisins svo að það geti endurreist fjármála- og efnahagskerfi sitt. Af því leiðir að lánasamningarnir samrýmast Brussel-viðmiðunum enn betur en áður og draga úr líkum á að endurskoða þurfi samningana vegna mögulegrar bágrar fjárhagsstöðu íslenska ríkisins á lánstímanum.

3.4     Efnahagsleg viðmið.
    Með 3. gr. laga nr. 96/2009 voru í fimm málsgreinum sett viðmið sem marka veitingu ríkisábyrgðarinnar tiltekna efnahagslega umgjörð. Þær málsgreinar sem mestu máli skipta eru 3.–5. mgr. en í þeim er mælt fyrir um árlegt hámark á greiðslum úr ríkissjóði vegna ríkisábyrgðarinnar. Eins og áður segir getur þetta greiðsluhámark leitt til þess að samningarnir verði ekki að fullu gerðir upp í lok lánstímans 5. júní 2024. Þessu hefur verið breytt í viðaukasamningunum þannig að lánin munu ávallt framlengjast ef enn verða eftirstöðvar í lok lánstímans sökum greiðsluhámarksins. Jafnframt er gert ráð fyrir því í viðaukasamningunum að árlegir vextir af höfuðstól lánanna séu ávallt greiddir þrátt fyrir greiðsluhámarkið en viðsemjendur íslenska ríkisins vísuðu þar til grundvallarreglu í lánasamningum á milli ríkja. Það var skoðun viðsemjenda ríkisins og tryggingarsjóðsins að ekki kæmi til álita að vextir yrðu áfram ógreiddir eftir 5. júní 2016. Talið er líklegt að vaxtagreiðslur haldist innan greiðsluhámarksins. Með hliðsjón af framangreindum þáttum varð niðurstaðan sú að vextir yrðu frá og með 5. júní 2016 ávallt greiddir á ársfjórðungsfresti. Að öðru leyti eru viðmið í viðaukasamningunum sambærileg þeim sem koma fram í 3.–5. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2009.
    Í eftirfarandi töflu koma fram þau atriði sem felast í 3.–5. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2009 annars vegar og hins vegar þau atriði sem koma fram í viðaukasamningunum:

Samanburður á greiðsluhámarki milli laga og viðaukasamninga.


Atriði í 3.–5. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2009. Atriði í viðaukasamningunum.
Árlegt hámark er á greiðslum úr ríkissjóði. Árlegt hámark er á greiðslu afborgana en ávallt þarf að greiða vexti.
Greiðsluhámarkið miðast samtals við 6% af samanlagðri hagvaxtaraukningu á Íslandi frá 2008 til greiðsluárs á tímabilinu 2017–2023. Þetta greiðsluhámark er samtals 3% árin 2016 og 2024. Samkvæmt hollenska viðaukasamningnum var verg landsframleiðsla Íslands árið 2008 11,495 milljarðar evra og samkvæmt breska viðaukasamningnum var verg landsframleiðsla Íslands árið 2008 9,194 milljarðar punda. Aukning á vergri landsframleiðslu landsins tekur mið af þessum tölum og miðast greiðsluhámarkið samtals við 6% af samanlagðri hagvaxtaraukningu á Íslandi frá 2008 til greiðsluárs á tímabilinu 2017–2023. Þetta greiðsluhámark er samtals 3% árið 2016 en gildir ekki á því ári samninganna þar sem reiknað er með að lánin verði að fullu endurgreidd, þ.e. árið 2024, árið 2030 eða eftir atvikum síðar.
Vöxtur á vergri landsframleiðslu skal mældur í pundum vegna samningsins við Bretland og í evrum vegna samningsins við Holland. Miða skal við meðalgengi miðgengis Seðlabanka Íslands á pundi og evru gagnvart krónu á ársgrundvelli og mati á vergri landsframleiðslu samkvæmt skilgreiningu Eurostat. Þegar meta á verga landsframleiðslu Íslands frá og með árinu 2016 skal líta til nýjasta mats á henni fyrir viðeigandi almanaksár samkvæmt riti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um horfur í efnahagsmálum heimsins.
Vöxtur á vergri landsframleiðslu Íslands skal mældur í evrum og pundum á meðalgengi íslensku krónunnar samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands eins og það hefur verið á því tímabili sem liðið hefur frá tveimur mismunandi en aðliggjandi útreikningsdögum greiðsluþaks. Útreikningsdagur greiðsluþaks er sá dagur sem er tíu virkum dögum fyrir gjalddaga. Þetta þýðir með öðrum orðum að meðalgengið talið í evrum og pundum ræðst af þróun þess á hverjum ársfjórðungi. Aðilar skulu semja um viðmiðunargengi ef Seðlabanki Íslands af einhverjum ástæðum birtir ekki daglega gengi íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum.
Ef greiðsluhámarkið leiðir til þess að samningarnir séu ekki að fullu efndir í lok lánstímans er umdeilt hvort eftirstöðvar lánanna falli niður. Ef greiðsluhámarkið leiðir til að þess að eftirstöðvar séu enn til staðar í lok lánstíma þá framlengist lánstíminn sjálfkrafa.

    Eins og framangreind upptalning gefur til kynna felst meginmunurinn á efnahagslegu viðmiðunum í 3.–5. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2009 annars vegar og á viðmiðunum í viðaukasamningunum hins vegar í því að í þeim síðarnefndu er skýrt kveðið á um að höfuðstóll lánanna getur aldrei fallið niður og gólf er á greiðslum, þ.e. ávallt verður að greiða vexti. Af viðaukasamningunum leiðir að sá hluti hverrar afborgunar sem er ógreiddur vegna greiðsluhámarksins bætist við höfuðstólinn.
    Útfærsla á því hvernig verg landsframleiðsla Íslands er reiknuð og með hvaða hætti finna skuli út hagvaxtaraukningu, mælda í evrum og pundum, felur ekki í sér grundvallarmun en miðast við að auðveldara verði að átta sig á hvort greiðsluhámarkið verður virkt á hverjum ársfjórðungi. Af þessum sökum eru ákvæði í viðaukasamningunum um að þetta skuli liggja skýrt fyrir tíu dögum fyrir gjalddaga og reikna beri þakið miðað við þær forsendur sem þá liggja fyrir. Hafi þær forsendur verið rangar verða þær leiðréttar við næsta gjalddaga.
    Hvað varðar útreikninga á vergri landsframleiðslu Íslands liggur fyrir að Hagstofa Íslands reiknar út verga landsframleiðslu á grundvelli skilgreininga frá Eurostat. Seðlabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og aðrir aðilar sem spá fyrir um hagvöxt á Íslandi byggja þær spár á gildum sem Hagstofan reiknar út. Samkvæmt þessu er munurinn á 4. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2009 og útfærslunni í viðaukasamningnum lítill þar sem spár um framvindu hagvaxtar byggjast á skilgreiningum Eurostat. Niðurstaðan varð að miða við spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um áætlaða verga landsframleiðslu landsins.
    Eins og gert er ráð fyrir í 4. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2009 skal samkvæmt viðaukasamningunum áætla verga landsframleiðslu Íslands miðað við meðalgengi íslensku krónunnar á tilteknu tímabili. Ólíkt lögunum, sem gera ráð fyrir að þetta sé gert á ársgrundvelli, er í viðaukasamningunum miðað við að þetta verði gert á ársfjórðungsfresti, þ.e. meðalgengi íslensku krónunnar gagnvart evru eða pundi skal fundið út eins og það var á því tímabili sem var á milli tveggja mismunandi en aðliggjandi útreikningsdaga greiðsluþaks. Þetta tímabil spannar því þann dag sem var fyrir útreikningsdag greiðsluþaks til þess dags sem kemur á undan næsta útreikningsdegi greiðsluþaks.

3.5    Lagalegt viðmið um hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar.
    Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2009 er ríkisábyrgðin bundin þeim fyrirvara að fram fari viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess ef úr því hafi fengist skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, að íslenska ríkið eða önnur aðildarríki EES-samningsins hafi ekki borið ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar, þar á meðal við kerfishrun á fjármálamarkaði. Í 3. mgr. 4. gr. laganna er mælt fyrir um að fari slíkar viðræður ekki fram eða leiði þær ekki til niðurstöðu geti Alþingi takmarkað ríkisábyrgð samkvæmt lögunum í eðlilegu samræmi við tilefnið.
    Í hnotskurn má segja að réttaráhrif ákvæðisins séu bundin við að þar til bær úrlausnaraðili komist að þeirri niðurstöðu að ábyrgð af þessu tagi hvíli ekki á herðum aðildarríkja EES- samningsins samkvæmt tilskipun 94/19/EB um innstæðutryggingar við sambærilegar aðstæður og sköpuðust á Íslandi í október 2008.
    Bresk og hollensk stjórnvöld töldu þetta ákvæði skapa réttaróvissu um skuldbindingargildi lánasamninganna frá 5. júní 2009 og við það yrði ekki unað. Á hinn bóginn var ákvæðið árétting Alþingis á að úr því hafi ekki fengist skorið fyrir þar til bærum úrlausnaraðila hvort íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslur vegna lágmarkstrygginga innstæðueigenda í útibúum íslensks einkabanka í öðru aðildarríki EES-samningsins. Þar sem aðilar komu sér saman um að lánasamningarnir, eins og þeim var breytt með viðaukasamningunum, mundu ráða réttarstöðu aðila er lagt til í frumvarpinu að 1. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2009 verði felld brott.
    Samhliða framlagningu þessa frumvarps er stefnt að því að gefin verði út sameiginleg yfirlýsing fjármálaráðherra ríkjanna þriggja þess efnis meðal annars að þótt íslenska ríkið ítreki bindandi ábyrgð sína gagnvart þeim skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda að greiða innstæðueigendum Icesave í Bretlandi og Hollandi tryggingu viðurkenni það ekki að fyrir hendi hafi verið lagaleg skuldbinding frá öndverðu um að veita þann stuðning. Jafnframt verður í yfirlýsingunni mælt fyrir um viðræður milli aðila að beiðni einhvers þeirra og eftir atvikum viðbrögð við breyttum aðstæðum.
    Fyrir utan þessa yfirlýsingu er lagt til í 1. mgr. 2. gr. frumvarps þessa að Alþingi árétti að heimild til veitingar ríkisábyrgðar feli ekki í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Í 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins er jafnframt lagt til að fjármálaráðherra sé skylt að efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna, og eftir atvikum einnig Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins, um það hvaða áhrif það hefði á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins samkvæmt þeim ef komist yrði að þeirri niðurstöðu að á íslenska ríkinu hafi ekki hvílt ábyrgð eða ef annað aðildarríki EES-samningsins hefði ekki borið slíka ábyrgð í sambærilegu máli. Svo að ákvæðið verði virkt verður niðurstaða um þetta atriði að byggjast á úrlausn þar til bærs aðila sem verður að vera í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins.
    Af framangreindum heimildum leiðir að lagaleg skuldbinding íslenska ríkisins mun haldast óbreytt samkvæmt lánasamningunum, jafnvel þótt síðar yrði komist að þeirri niðurstöðu í dómsmáli að sú skuldbinding hafi ekki verið fyrir hendi í upphafi. Hins vegar felst í þessum yfirlýsingum að íslenska ríkið mun eiga ríka kröfu til að fá stöðu sína sem ábyrgðaraðila endurskoðaða og að um hana verði fjallað á pólitískum vettvangi.

3.6    Lagalegt viðmið um úthlutun eigna við uppgjör Landsbanka Íslands hf. eða þrotabús hans.
    Af 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2009 leiðir að tryggingarsjóðnum beri að láta á það reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu. Miðað er við að þær réttarreglur sem skeri úr þessu séu þær sem í gildi voru 5. júní 2009, þ.m.t. lög nr. 2/1993, um Evrópska efnahagssvæðið. Verði niðurstaðan sú að krafa tryggingarsjóðsins gangi framar við úthlutun skulu teknar upp viðræður við aðila lánasamninganna um það hvernig farið skuli með eignir úr búi Landsbanka Íslands hf. og áhrif þess á samningana og skuldbindingu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Í 3. mgr. 4. gr. laganna er mælt fyrir um að fari slíkar viðræður ekki fram eða leiði þær ekki til niðurstöðu geti Alþingi takmarkað ríkisábyrgð samkvæmt lögunum í eðlilegu samræmi við tilefnið.
    Samkvæmt ákvæðum viðaukasamninganna gera viðsemjendur tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins sér grein fyrir að tryggingarsjóðurinn láti væntanlega á þetta atriði reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðila. Fallist slitastjórn Landsbankans á kröfu tryggingarsjóðsins um þetta atriði, og þeirri ákvörðun er ekki skotið til dómstóla, fela slíkar málalyktir í sér að ákvæði lánasamninganna taka breytingum í samræmi við það. Af c-lið gr. 3.5.2 hollenska viðaukasamningsins leiðir m.a. að ef íslenskir dómstólar komast að þeirri niðurstöðu að íslenski tryggingarsjóðurinn njóti slíkrar réttarstöðu, eða eftir atvikum að viðsemjendur tryggingarsjóðsins njóti slíkrar réttarstöðu vegna þeirra hluta kröfunnar, skulu ákvæði um hlutfallslegar jafnar greiðslur úr búi Landsbanka Íslands hf. taka breytingum í samræmi við það. Sambærileg regla á að gilda í uppgjörssamningi breska tryggingarsjóðsins og þess íslenska, sbr. e-lið gr. 2.1 í viðaukasamningi sjóðanna. Svo að þessi ákvæði verði virk má niðurstaða íslenskra dómstóla um þetta atriði ekki vera í ósamræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins.
    Þegar litið er til framangreinds er vikið frá 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2009 með þrennum hætti. Í fyrsta lagi er sá möguleiki ekki útilokaður að viðsemjendur íslenska tryggingarsjóðsins eigi rýmri rétt til úthlutunar en sjóðurinn. Í öðru lagi má niðurstaða íslenskra dómstóla um þetta atriði ekki vera í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins ef ákvæðið á að víkja ákvæðum lánasamninganna frá 5. júní 2009 til hliðar. Í þriðja lagi felur samningsákvæðið í sér að tiltekin niðurstaða dómstóla mun sjálfkrafa valda því að samningarnir breytist en lögin gerðu ráð fyrir að áður en til þess kæmi færu fram viðræður og síðan tæki Alþingi ákvörðun um lækkun ríkisábyrgðar.
    Litlar líkur eru taldar á því að fyrsti möguleikinn sé raunhæfur miðað við þau íslensku lög sem giltu 5. júní 2009, þ.e. ólíklegt er talið að viðsemjendur íslenska tryggingarsjóðsins eigi rýmri rétt til úthlutunar en tryggingarsjóðurinn miðað við þær reglur sem giltu 5. júní 2009. Hvað varðar annað skilyrðið töldu viðsemjendur íslenska tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins að alþjóðlegur dómstóll þyrfti að kveða á um þetta atriði til þess að niðurstaða íslensks dómstóls mundi leiða til breytinga á ákvæðum lánasamninganna frá 5. júní 2009. Með hliðsjón af lögfræðiálitum sem íslensk stjórnvöld hafa aflað sér, sbr. álit prófessors Pierre Mathijsen, dags. 28. júlí 2009, og álit Andra Árnasonar, hrl., og Helgu Melkorku Óttarsdóttur, hdl., dags. 10. ágúst 2009, var talið eðlilegt að alþjóðlegur dómstóll skæri úr um hvaða vægi reglur Evrópuréttar hefðu að þessu leyti. Þetta varð því niðurstaða samninganna um þetta atriði.
    Þegar meta á síðastnefndu niðurstöðu samninganna er ljóst að ekki er hægt að tryggja að íslenskir dómstólar fallist á þá kröfu að vísa máli af þessu tagi til EFTA-dómstólsins. Þetta stafar af sjálfstæði íslenskra dómstóla samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar sem og af ákvæðum laga nr. 21/1994, um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Í ljósi þess að færð hafa verið rök fyrir því í álitsgerðum innlendra og erlendra sérfræðinga á sviði Evrópuréttar að ákvæði samningsins um Evrópska efnahagssvæðið geti skipt máli við úrlausn þess atriðis verður að telja afar sennilegt að íslenskir dómstólar vísi málinu til EFTA-dómstólsins í samræmi við 1. gr. laga nr. 21/1994. Geri þeir það hins vegar ekki munu ákvæði lánasamninganna frá 5. júní 2009 um þetta atriði standa óhögguð jafnvel þótt íslenskir dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að íslenski tryggingarsjóðurinn hefði hinn sérstaka forgang við úthlutun eigna úr búi Landsbankans.
    Þar sem samið verður milli íslenska ríkisins og tryggingarsjóðsins um að sjóðurinn muni láta á þennan sérstaka forgangsrétt reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum þykir ekki ástæða til að hafa sérstakt ákvæði um það í lagafrumvarpi þessu. Ákvæði þess efnis í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2009 fellur því úr gildi verði frumvarp þetta að lögum.

4.     Mat á efni frumvarpsins í heild og einstökum þáttum þess.
    Í VI.–VIII. kafla áðurnefnds nefndarálits meiri hluta fjárlaganefndar, dags. 15. ágúst, var fjallað um lögfræðileg, efnahagsleg og pólitísk álitaefni er tengdust Icesave-málinu. Við mat á efni þessa frumvarps ber að líta til þessara kafla nefndarálitsins um réttlætingu þess að veita ríkisábyrgð á skuldbindingum tryggingarsjóðsins vegna lágmarkstryggingar á innstæðum í útibúum Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Eigi að síður er ástæða til að fjalla hér nánar um þessi atriði.

4.1     Lagaleg álitaefni.
    Icesave-lánasamningarnir, eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum, gera að verkum að friðhelgisréttindi íslenska ríkisins eru í fullu samræmi við fyrirvara þess efnis í lögum nr. 96/2009 ásamt því að réttur handhafa íslensk ríkisvalds til að kveða á um skipulag nýtingar á náttúruauðlindum og skipan eignarhalds á þeim er einnig tryggður. Að öðru leyti felst í ákvæðum viðaukasamninganna að komið er til móts við þá lagalegu fyrirvara sem kveðið er á um í lögum nr. 96/2009. Frá þessu eru þó frávik eins og fjallað hefur verið um hér að framan. Rétt þykir að greina þessi frávik aðeins nánar og meta þau.
    Með hliðsjón af möguleikum tryggingarsjóðsins og íslenska ríkisins til að framlengja lánstímann einhliða, sem og möguleikum þeirra til að hagnýta sér greiðsluhámark hvers árs, dregur væntanlega úr þörf fyrir endurskoðun lánasamninganna ásamt því að ákvæði samninganna eru í meira samræmi en áður við Brussel-viðmiðin. Verulega er því komið til móts við 1. tölul. 2. gr. laga nr. 96/2009 í viðaukasamningunum.
    Fyrir liggur að ágreiningur um skyldu íslenska ríkisins til að ábyrgjast lágmarkstryggingar innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og í Hollandi hefur ekki verið til lykta leiddur fyrir þar til bærum úrlausnaraðila. Ástæður þessa hafa nú þegar verið raktar í athugasemdum þessum en fjallað er nánar um þær í áðurnefndu nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, dags. 15. ágúst 2009. Í frumvarpi þessu er lagt til að áréttað verði að heimild til veitingar ríkisábyrgðar feli ekki í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Komist tilteknir úrlausnaraðilar að þeirri niðurstöðu að lagaskilningur íslenskra stjórnvalda hafi verið réttur, eða eftir atvikum annars aðildarríkis EES í sambærilegu máli, skal þess freistað að fá samningsaðila til að ræða hvaða áhrif það hafi á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins. Einnig er stefnt að því að fjármálaráðherrar Íslands, Hollands og Bretlands riti undir sameiginlega yfirlýsingu þar sem fram kemur m.a. að íslenska ríkið veiti þessa ábyrgð þótt það hafi ekki viðurkennt að því hafi borið lagaleg skylda til þess. Þessi niðurstaða málsins er talin viðunandi þar sem afar örðugt er að semja um þetta atriði svo að skuldbindandi sé og samhliða áskilja sér einhliða rétt til að endurskoða málið í heild ef síðar kemur í ljós að grunnskyldan var aldrei fyrir hendi. Það verður einfaldlega ekki bæði haldið og sleppt í þessum efnum.
    Gert er ráð fyrir því í viðaukasamningunum að íslenski tryggingarsjóðurinn muni láta á það reyna hvort kröfur sjóðsins við úthlutun eigna bús Landsbanka Íslands hf. hafi sérstakan forgang umfram kröfur annarra aðila vegna sömu innstæðu. Samkvæmt viðaukasamningunum má úrlausn íslenskra dómstóla um þetta atriði ekki vera í andstöðu við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins ef samningsákvæði um hlutfallslega jafna skiptingu hverrar kröfu eigi að taka breytingum. Verði komist að þeirri niðurstöðu að lagaskilningur um sérstakan forgang krafna tryggingarsjóðsins sé réttur munu ákvæði samninganna um hlutfallslega skiptingu einstakra krafna breytast sjálfkrafa. Slíkt er til hagsbóta fyrir íslenska tryggingarsjóðinn og íslenska ríkið miðað við þau réttaráhrif sem nú eru bundin slíkri niðurstöðu skv. 2. og 3. mgr. 4. gr. laga nr. 96/2009.

4.2     Efnahagsleg álitaefni.
    Þung og mikil skuldsetning opinberra aðila sem og einkaaðila er alvarlegt vandamál um þessar mundir í íslensku efnahagslífi. Rekstur margra fyrirtækja er einnig erfiður vegna skorts á getu þeirra að endurfjármagna sig. Telja má að skortur á lánsfjármagni og áhættufjármagni sé nú á margan hátt enn alvarlegra vandamál fyrir íslenskt efnahagslíf en of mikil skuldsetning. Í því skyni m.a. að leysa þetta úrlausnarefni er talið nauðsynlegt að auka gjaldeyrisforða landsins svo að hægt verði að draga úr gjaldeyrishöftum og skapa forsendur fyrir lækkun stýrivaxta Seðlabanka Íslands. Með því móti aukast líkur á að hjól atvinnulífsins fari að snúast hraðar.
    Þrátt fyrir breytta Icesave-lánasamninga er ljóst að fáum er gleðiefni að standa undir þeim byrðum sem þeir valda fjárhag íslenska ríkisins. Sá kostur að hafna þeim kemur til greina á grundvelli ýmissa raka en á hinn bóginn er ljóst að slík afstaða er til þess fallin að tefja þær efnahagsaðgerðir sem nauðsynlegar eru taldar til að stöðva samdrátt og örva atvinnulífið. Á meðan engin gjaldeyrislán berast til Íslands verður erfiðara að stöðva efnahagslegan vítahring sem getur fylgt djúpum gjaldeyris- og fjármálakreppum.
    Grundvallarhugmyndin að baki 3. gr. laga nr. 96/2009 er að hamla gegn því að greiðslubyrði vegna Icesave-lánasamninganna verði íslenska ríkinu ofviða. Með breyttum lánasamningum hefur verið tekið ríkulegt tillit til þessa. Tryggingarsjóðnum og íslenska ríkinu er gert kleift að lengja lánstímann einhliða og greiðsluhámark hvers árs getur komið að góðum notum á meðan íslenskt efnahagslíf er enn að ná sér á strik. Sé litið til þessa verður að telja að hinir föstu 5,55% ársvextir lánasamninganna séu hóflegir.
    Á meðan frumvarp til laga nr. 96/2009 var enn til meðferðar á Alþingi lögðu fjármálaráðuneytið, Seðlabanki Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands mat á efnahagsleg áhrif Icesave-lánasamninganna frá 5. júní 2009. Hagfræðistofnun var nokkuð gagnrýnin á hvernig fjármálaráðuneytið og Seðlabankinn mátu getu íslenska ríkisins til að endurgreiða lánasamningana en þó komust allir þessir aðilar að þeirri niðurstöðu að líklegast gæti ríkissjóður staðið skil á lánasamningunum.
    Þegar litið er til framangreinds verður að teljast afar líklegt að ákvæði Icesave-lánasamninganna, eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningunum, veiti íslensku efnahagslífi fullnægjandi skjól svo að hægt sé að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi landsins. Af samningunum leiðir því að íslenska ríkið mun að öllu forfallalausu geta staðið við þá án þess að þeir íþyngi íslensku samfélagi um of eftir að ríkisábyrgðin verður virk 5. júní 2016.

4.3     Pólitísk álitaefni.
    Sú stefna hefur verið mörkuð að starfa með öðrum ríkjum í því skyni að koma íslensku efnahagslífi á kjölinn. Önnur ríki setja þau skilyrði fyrir lánveitingum til Íslands að aðstoðin falli að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Í ljós hefur komið að frekari lán verða ekki veitt til íslenska ríkisins nema Icesave-málið verði leyst. Þetta hefur verið staða mála alveg frá því í nóvember 2008 og skýrir að verulegu leyti erfiða samningsstöðu íslenska ríkisins við lausn Icesave-málsins.
    Þegar tekin er afstaða til þessa frumvarps verður að líta til þeirra kosta sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir um efnahagslega og pólitíska framtíð þess. Sé því hafnað að samþykkja þetta frumvarp er ljóst að Icesave-deilan verður áfram óleyst. Fram að þessu hefur það þýtt ófullnægjandi lánafyrirgreiðslur Íslands og það skapar viðvarandi efnahagsleg vandkvæði. Óvissan sem fylgir því að hafa þetta mál óleyst dregur jafnframt úr möguleikum atvinnulífsins á að afla sér sjálft lánsfjármagns eða áhættufjármagns. Það veldur svo aftur aukinni hættu á samdrætti í efnahagslífinu.
    Pólitísk staða Íslands á alþjóðavettvangi verður að teljast veik miðað við þá samstöðu sem hefur myndast um að veita ekki lán til landsins nema Icesave-málið verði leyst. Sú staða er því óbreytt frá því að Alþingi hafði til meðferðar frumvarp það sem varð lögum nr. 96/2009. Eins og rakið er í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, dags. 15. ágúst sl., takast á tvö sjónarmið í þessu máli, þ.e. að hafna ríkisábyrgð eða fallast á hana. Ein rök fyrir því að hafna ríkisábyrgð eru að óska eftir betri samningum. Slík rök fela í sér tvenns konar áhættu, annars vegar að Ísland einangrist og hins vegar að betri niðurstöðu verði ekki náð.
    Að breyttu breytanda á þetta við um afstöðu til þessa frumvarps þar sem ljóst er að erfitt verður úr þessu að fá hagstæðari samninga um lausn deilunnar en þá sem liggja nú fyrir. Vissulega kemur til álita að hafna alfarið að leysa málið og vísa viðsemjendum íslenska ríkisins á dómstóla. Það er hins vegar mat þessarar ríkisstjórnar að slíkt hafi mun alvarlegri pólitískar og efnahagslegar afleiðingar fyrir Ísland en að ljúka málinu með þeim hætti sem lagt er til að verði gert með þessu frumvarpi.
    Það er mat ríkisstjórnarinnar að meginefni þeirra fyrirvara sem komu fram í lögum nr. 96/2009 sé virt í fyrirliggjandi viðaukasamningum við lánasamningana frá 5. júní 2009. Nauðsynlegt er að leiða þetta mál til lykta og hefur með viðaukasamningunum tekist að treysta stöðu íslenska ríkisins umtalsvert í samanburði við lánasamningana frá því í júní síðastliðnum. Hinn pólitíski og efnahagslegi ávinningur af því að ljúka málinu með þessum hætti er mun meiri en þau atriði sem upp á vantar til að fullt samræmi sé á milli ákvæða viðaukasamninganna og 1.–4. gr. gildandi laga nr. 96/2009.

4.4     Heildarmat.
    Fáum getur blandast hugur um að þetta mál hefur reynst íslensku samfélagi afar þungt í skauti, bæði innan lands og gagnvart öðrum ríkjum. Meginástæða þess er sú að heildarfjárskuldbinding íslenska ríkisins hefur fyrst og fremst skapast vegna starfsemi íslensks viðskiptabanka í einkaeigu á erlendri grundu og brúttófjárhæð skuldbindingarinnar nemur um það bil helmingi af áætlaðri vergri landsframleiðslu Íslands árið 2009. Einnig skiptir hér máli að færð hafa verið fram haldbær lagarök þess efnis að þessi skylda hvíli ekki á íslenska ríkinu auk þess sem úrlausn þar til bærs úrlausnaraðila liggur ekki fyrir um hana. Að sama skapi er ljóst að ef fallist yrði á lagarök Íslendinga mundi réttarstaðan sem kæmi upp vera óviðunandi að mati allra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins að Íslandi undanskildu. Slíkt skapar fyrir fram verulega erfiðleika við að afla málstað Íslands fylgis á erlendum vettvangi. Þrátt fyrir málefnalega lagaóvissu er brýnt af efnahagslegum og pólitískum ástæðum að ljúka Icesave-málinu. Alþingi verður að taka afstöðu til þess hvort viðaukasamningarnir og frumvarp þetta feli í sér viðunandi lausn málsins.
    Það er ljóst að öll ríki sem boðist hafa til að lána íslenska ríkinu, að undanskildum Færeyjum, hafa í reynd tengt lánsloforð sín við afgreiðslu Icesave-málsins. Þessi lán annarra ríkja verða eingöngu veitt ef samstarf íslenskra stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn heldur áfram. Af þessu leiðir að lánafyrirgreiðsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og einstakra ríkja við Ísland á sér ekki stað nema lausn finnist á Icesave-málinu.
    Það er mat núverandi ríkisstjórnar að forsenda fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs byggist á samstarfsáætlun íslenskra yfirvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hugsanlega kann að vera nauðsynlegt að endurskoða þá áætlun en það breytir því ekki að allar slíkar samstarfsáætlanir sigla í strand ef ekki tekst að leysa Icesave-málið. Að mati ríkisstjórnarinnar yrðu afleiðingar þess alvarlegar fyrir íslenskt efnahagslíf. Talið er að frumvarp þetta sé til þess fallið að leysa erfiðustu milliríkjadeilu Íslands á síðari tímum með viðunandi hætti. Þessi lausn felur í sér að mikilvægustu þættir fyrirvara laga nr. 96/2009 hafa verið lagðir til grundvallar við endanlegar lyktir málsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með þessu ákvæði er lagt til að í stað gildandi 1. gr. laga nr. 96/2009 komi ný grein sem heimili fjármálaráðherra að veita Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta ríkisábyrgð vegna lána sjóðsins á grundvelli framanrakinna lánasamninga, dags. 5. júní 2009, eins og þeim hefur verið breytt með viðaukasamningum, dags. 19. október 2009. Verði frumvarpið í heild sinni að lögum mun þetta ákvæði þýða að fjármálaráðherra hafi heimild til að veita ríkisábyrgð sem nær til höfuðstóls lánanna og vaxta án þess að íslensk lög takmarki þá heimild við ákveðna fyrirvara, þ.e. íslensk lög munu ekki einhliða ákvarða réttarstöðu aðila lánasamninganna heldur munu samningarnir skera úr um réttarstöðuna. Þetta á sem sagt að tryggja að ráðherra öðlist ótvíræðar heimildir að íslenskum lögum til að veita ábyrgðina og hann muni nýta þær í því skyni að virkja ákvæði samninganna.

Um 2. gr.


    Eins og komið hefur fram í almennu athugasemdunum er afar örðugt að gera hvort tveggja í senn, semja um lausn Icesave-málsins og halda jafnframt til haga lagalegri óvissu um skyldu íslenska ríkisins til að standa að baki íslenska tryggingarsjóðnum. Þrátt fyrir það er lagt til að í fyrri málsgrein 2. gr. komi fram að ekkert í lögunum feli í sér viðurkenningu á því að á íslenska ríkinu hafi hvílt skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Með þessari yfirlýsingu er ætlunin að undirstrika að íslensk stjórnvöld hafi hvorki viðurkennt þessa lagalegu skyldu né heldur hafi þau fengið að koma ágreiningsefni þessu fyrir hlutlausan úrskurðaraðila.
    Lagt er til að í 2. mgr. verði kveðið á um að fáist síðar úr því skorið, fyrir þar til bærum úrlausnaraðila, og sú úrlausn er í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins, að íslenska ríkið hafi ekki haft skyldu af þeim toga sem nefnd er í 1. mgr., eða annað aðildarríki EES-samningsins hafi ekki haft slíka skyldu í sambærilegu máli, skuli fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna, og eftir atvikum einnig Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins, um það hvaða áhrif slík úrlausn kunni að hafa á lánasamningana og skuldbindingar ríkisins samkvæmt þeim.
    Í ljósi þess að það getur ekki verið úrlausn hvaða aðila sem er sem hafa á þau áhrif að fjármálaráðherra sé skylt að efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna er tekið fram í 2. mgr. að úrlausn þar til bærs aðila verði að vera í samræmi við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins eða eftir atvikum forúrskurð Evrópudómstólsins. Ástæða þess að Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins eru nefndar í 2. mgr. er sú að þessir aðilar komu að gerð Brussel-viðmiðanna haustið 2008 og komi í ljós að íslenska ríkinu hafi aldrei lögum samkvæmt borið skylda að gangast undir þessa ábyrgð má ætla að þeir hafi brugðist skyldum sínum. Því væri rétt við þessar aðstæður að þeir kæmu aftur að málinu í því skyni að finna á því eðlilega og sanngjarna lausn.
    Þegar 2. gr. er virt í heild sinni á hún ekki að hafa önnur réttaráhrif en þau að við tilteknar aðstæður skuli fjármálaráðherra efna til viðræðna við aðra aðila lánasamninganna og eftir atvikum Evrópusambandið og stofnanir Evrópska efnahagssvæðisins. Það er talið nauðsynlegt að binda svona um hnútana þar sem lánasamningarnir eiga að ráða alfarið réttarstöðu aðila þeirra.

Um 3. gr.


    Eins og rakið hefur verið í almennu athugasemdunum þykir nauðsynlegt að fella úr gildi 3.–4. gr. laga nr. 96/2009 í því skyni að tryggja samræmi milli íslenskra laga og endurskoðaðra lánasamninga. Fyrir þessu hafa verið færð ítarleg rök. Ekki þykir ástæða til að nema fyrstu tvær málsgreinar 3. gr. að öllu leyti úr gildi og er lagt til að þær verði að mestu leyti færðar í 5. gr. laganna sem fjallar um endurskoðun lánasamninganna.

Um 4. gr.


    Fram kemur í gr. 3.6 viðaukasamninganna að ákvæði 5.–8. gr. varði eingöngu lögskipti á Íslandi og hafi ekki áhrif á efni lánasamninganna. Þrátt fyrir þetta ákvæði er ljóst að uppistaðan í fyrstu tveimur málsgreinum 3. gr. laga nr. 96/2009 varðar fyrst og fremst endurskoðun samninganna. Af þessum sökum er lagt til að fyrstu tvær málsgreinar 3. gr. verði að fyrstu tveimur málsgreinum 5. gr. fyrir utan orðalagsbreytingar sem lúta aðallega að gildandi 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í þeim málslið er mælt fyrir um að ríkisábyrgð samkvæmt lögunum sé grundvölluð á því að fjárhagsleg byrði vegna hennar verði innan viðráðanlegra marka þannig að Íslandi verði gert kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Þessi málsliður vísar með óbeinum hætti til Brussel-viðmiðanna og þeirra fyrirvara sem 1.–4. gr. laga nr. 96/2009 kveða á um en eins og áður segir hefur verið tekin afstaða til Brussel-viðmiðanna og fyrirvaranna með gerð viðaukasamninganna. Jafnframt er lagt til að 2. málsl. 5. gr. laga nr. 96/2009 falli brott en hann vísar til forsendna ríkisábyrgðarinnar og viðmiða samkvæmt lögunum.
    Um skýringu á 5. gr. svo breyttri vísast til eftirfarandi ummæla í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar frá 15. ágúst 2009 um fyrstu tvær málsgreinar 3. gr. laga nr. 96/2009:
    „Í endurskoðunarákvæðum samninganna er vísað til IV. greinar úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, samkvæmt samkomulagi um samþykktir sjóðsins frá 1945, með síðari breytingum, sem viðmiðs fyrir ósk um endurskoðun. Að mati meiri hlutans er nauðsynlegt að kveða nánar á um með hvaða hætti skuli óskað eftir slíkri úttekt og innan hvaða tímamarka. Meiri hlutinn leggur áherslu á nokkur atriði sem líta beri til við mat á forsendum til endurskoðunar á samningunum. Því er í 2. mgr. greinarinnar kveðið á um að tillit sé tekið til stöðu í þjóðarbúskapnum og ríkisfjármálum á hverjum tíma og mats á horfum í þeim efnum þar sem sérstaklega sé litið til gjaldeyrismála, gengisþróunar og viðskiptajafnaðar, hagvaxtar og breytinga á landsframleiðslu, svo og þróunar fólksfjölda og atvinnuþátttöku. Það er mat meiri hlutans að þessi atriði hafi beina tilvísun í Brussel-viðmiðin og séu þar af leiðandi þess eðlis að ætlast megi til þess af viðsemjendum að þau séu lögð til grundvallar í þessu samhengi.
    Ríkisábyrgðin grundvallast á því að fjárhagsleg byrði vegna hennar verði innan viðráðanlegra marka og hafa því eftirfarandi viðmið verið sett til að unnt sé að leggja mat á greiðslugetu þjóðarbúsins á hverju ári. Er þá miðað við að ekki sé farið fram úr einhverju af eftirfarandi hlutföllum:
     1.      hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af vergri landsframleiðslu fer yfir 240%,
     2.      hlutfall erlendra skulda opinberra aðila af skatttekjum fer yfir 250%,
     3.      hlutfall erlendra afborgana og vaxta af útflutningstekjum fer yfir 150%.
    Þannig er gert ráð fyrir að viðræður verði teknar upp um lánasamningana verði skuldaþol þjóðarbúsins og ríkissjóðs ósjálfbært. Ef farið er fram úr einhverjum þessara þriggja mælikvarða skulu teknar upp viðræður milli aðila skv. 5. gr.“

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.



Fylgiskjal I.

Óopinber þýðing – Enski textinn gildir


VIÐAUKASAMNINGUR
    við lánssamning frá 5. júní 2009
    milli
         Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi
    og
         Íslands
    og
         umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins

    

Dagsettur 19. október 2009



VIÐAUKASAMNINGUR ÞESSI, DAGSETTUR 19. OKTÓBER 2009, ER GERÐUR MILLI:
(1)      TRYGGINGARSJÓÐS INNSTÆÐUEIGENDA OG FJÁRFESTA Á ÍSLANDI, sem er sjálfseignarstofnun sem stofnuð er samkvæmt íslenskum lögum ( „Tryggingarsjóðs innstæðueigenda“),
(2)      ÍSLANDS („íslenska ríkisins“) og
(3)      UMBOÐSMANNA BRESKA FJÁRMÁLARÁÐUNEYTISINS.

BAKGRUNNUR
(A)     Samningsaðilar eru aðilar að upprunalega lánssamningnum.
(B)     Sá fyrirvari var gerður gagnvart því að upprunalegi lánssamningurinn öðlaðist gildi að Alþingi hefði samþykkt að íslenska ríkið tæki á sig ábyrgð samkvæmt upprunalega lánssamningnum og samþykkt hver þau lög önnur eða heimildir sem þyrfti til að tryggja að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt upprunalega lánssamningnum væru lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar.
(C)     Alþingi hefur með lögunum um ríkisábyrgð (e. Authorising Act) samþykkt þá ábyrgð sem íslenska ríkið tekur á sig samkvæmt upprunalega lánssamningnum, þó með tilteknum skilyrðum og takmörkunum. Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins hafa fengið í hendur enska þýðingu á lögunum um ríkisábyrgð, þ.m.t. á þessum skilyrðum og takmörkunum.
(D)     Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins hafa hug á að samþykkja og skýra nánar sum af þeim skilyrðum og takmörkunum, sem er að finna í lögunum um ríkisábyrgð, samkvæmt og að því marki sem sérstaklega er tekið fram í þessum samningi og hafa samningsaðilar hug á að breyta í þessu skyni upprunalega lánssamningnum eins og fram kemur í þessum samningi.
SAMKOMULAG HEFUR NÁÐST UM EFTIRFARANDI:
1.     SKILGREININGAR OG TÚLKUN
1.1     Skilgreiningar
Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér segir:
„Lög um ríkisábyrgð“ (e. Authorising Act): lög nr. 96/2009 varðandi heimild til að gefa út ríkisábyrgð, eins og þau voru samþykkt af Alþingi Íslendinga 28. ágúst 2009.
„Gildistökudagur“: sá dagur sem um getur í mgr. 2.1 ( Gildistökudagur).
„Breyttur lánssamningur“: upprunalegi lánssamningurinn eins og honum er breytt með þessum samningi.
„Upprunalegur lánssamningur“: lánssamningurinn sem gerður var milli samningsaðilanna 5. júní 2009.
1.2     Skilgreiningar á hugtökum felldar inn í samninginn
1.2.1     Hugtök sem skilgreind eru í upprunalega lánssamningnum hafa sömu merkingu í þessum samningi nema annað sé tekið fram.
1.2.2     Málsgrein. 1.3 ( Skýringar) upprunalega lánssamningsins gildir í þessum samningi eins og hún væri hluti af honum.
1.3     Tilgreining
Samningsaðilarnir tilgreina þennan samning sem fjármálaskjal.
2     GILDISTÖKUDAGUR
2.1     Gildistökudagur
Gildistökudagur er sá dagur þegar:
2.1.1     þeim aðgerðum, sem um getur í mgr. 3.1 undir 3. mgr. ( Gildistaka) í upprunalega lánssamningnum, öðrum en þeim sem um getur í b-lið í mgr. 3.1 undir 3. mgr. í upprunalega lánssamningnum, hefur verið lokið,
2.1.2     Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið hafa afhent umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins, á því formi og með þeim efnistökum sem þeir telja fullnægjandi, eftirfarandi skjöl (á ensku eða, ef þau eru ekki á ensku, skal þeim fylgja löggilt þýðing á ensku):
    (a)     frumrit þessa samnings, dagsett og undirritað með viðeigandi hætti af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins,
    (b)     samþykkt stjórnar eða aðra viðeigandi heimild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til að framkvæma fyrir sitt leyti þennan samning og uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt honum og
    (c)     afrit af lögunum sem um getur í a-lið í mgr. 2.1.3.
2.1.3     Íslenska ríkið mun:
    (a)     strax og raunhæft reynist eftir dagsetningu þessa samnings leggja fyrir Alþingi frumvarp þar sem kveðið er á um að íslenska ríkið fái heimild, án skilyrða og fyrirvara, til að taka á sig ábyrgð samkvæmt breyttum lánssamningi og um hverja þá heimild aðra sem þarf til að tryggja að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt fjármálaskjölunum séu lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar og
    (b)     afhenda umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins afrit af lögunum ásamt löggiltri þýðingu á ensku um leið og lögin sem byggjast á frumvarpinu öðlast gildi.
2.2     Gildistaka breytts lánssamnings
Á gildistökudegi:
2.2.1     öðlast breytingar á upprunalega lánssamningnum, sem tilgreindar eru í 3. mgr. ( Samþykki og breytingar), gildi og
2.2.2     öðlast breyttur lánssamningur gildi.
2.3     Frestur (e. long stop date)
    Ef aðgerðunum, sem um getur í mgr. 2.1 ( Gildistökudagur), hefur ekki verið lokið hinn 30. nóvember 2009 er umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins heimilt að rifta þessum samningi með því að senda Tryggingarsjóði innstæðueigenda tilkynningu um það og afrit til íslenska ríkisins.
3     SAMÞYKKI OG BREYTINGAR
3.1     Vísanir
Nema annað sé tekið fram teljast vísanir í þessari málsgrein (3. mgr.):
3.1.1     til málsgreina (e. paragraph and subparagraphs) vera vísanir til viðeigandi málsgreina í upprunalega lánssamningnum og
3.1.2     til greina (e. Articles) vera vísanir til greina í lögunum um ríkisábyrgð.
3.2     1. gr. laganna
3.2.1     Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins samþykkja skilyrðin og takmarkanirnar sem fram koma í hinum ýmsu greinum laganna um ríkisábyrgð að því marki sem slíkt er skýrt tekið fram í staðfestingunum og breytingunum sem fram koma í þessari málgrein (3. mgr.) og íslenska ríkið og Tryggingarsjóður innstæðueigenda fallast á slíkt samþykki og fyrrnefndar staðfestingar og breytingar.
3.2.2     Upprunalegi samningurinn og hin fjármálaskjölin og túlkun þeirra haldast óbreytt, nema þeim sé breytt með skýrum hætti í þessum samningi.
3.3     2. gr. laganna
3.3.1     Samningsaðilar staðfesta að samið hafi verið um hinn breytta lánssamning í samræmi við „hin umsömdu viðmið“ frá 14. nóvember 2008, sem Ísland, Evrópusambandið og hlutaðeigandi aðildarríki þess stóðu að og sem var ætlað að gilda í samningaviðræðum aðila.
3.3.2     Samningsaðilar staðfesta að heimilt sé að endurskoða breytta lánssamninginn eins og fram kemur í 16. mgr. ( Breyttar aðstæður) í breytta lánssamningnum.
3.3.3     Samningsaðilar staðfesta að þótt fallið sé frá friðhelgisréttindum í 18. mgr. ( Fallið frá friðhelgisréttindum) í breytta lánssamningnum nái það ekki til þeirra eigna íslenska ríkisins sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum, eigna íslenska ríkisins á Íslandi sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki eða eigna Seðlabanka Íslands.
3.3.4     Samningsaðilar staðfesta að ekkert í upprunalega lánssamningnum eða breytta lánssamningnum sé til þess fallið að svipta Ísland yfirráðum eða hafi þau áhrif að svipta Ísland yfirráðum yfir náttúruauðlindum sínum eða rétti sínum til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim.
3.4     3. gr. laganna
3.4.1     Ákvæðum mgr. 1.1 ( Skilgreiningar) er breytt sem hér segir:
    (a)     Svohljóðandi nýrri skilgreiningu er skotið inn á eftir skilgreiningunni á „samningsaðilum“:
         „„Afborgunardagur“:
        (a)     sérhver dagur þegar þrír, sex eða níu mánuðir eru liðnir frá sjöunda ársdegi (e. anniversary date) samningsins eða sérhver síðari ársdagur samningsins og
        (b)     sérhver ársdagur eftir sjöunda ársdag samningsins,
        (þannig að fyrsti afborgunardagur verði þremur mánuðum eftir sjöunda ársdag samningsins).“
    (b)     Í skilgreiningunni á „afborgun“ komi orðin „með fyrirvara um hvers kyns aðlögun sem krafist er samkvæmt 4. mgr. ( Endurgreiðsla)“ í stað orðanna „með fyrirvara um mgr. 4.4.3,“.
3.4.2     Ákvæðum 4. mgr. ( Endurgreiðsla) er breytt sem hér segir:
    (a)     Mgr. 4.3 ( Afborgunaráætlun) er felld brott og í stað hennar komi eftirfarandi:
         „4.3     Afborgunaráætlun
        4.3.1    Eftir sjöunda ársdag samningsins skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda byrja að endurgreiða það sem þá stendur eftir af höfuðstóli lánsins í þrjátíu og tveimur afborgunum á ársfjórðungsfresti, sbr. þó önnur ákvæði þessarar málsgreinar (4. mgr.) ( Endurgreiðsla).
         4.3.2    Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir afborgun á hverjum afborgunardegi, sbr. þó mgr. 4.3a (Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu).“
    (b)     Svohljóðandi fjórum nýjum málsgreinum er skotið inn á eftir mgr. 4.3 ( Afborgunaráætlun):
         „4.3a Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu
    4.3a.1     Í þessari málsgrein (mgr. 4.3a) hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér segir:
             „Heildargreiðslubyrði“: að því er varðar sérhvert almanaksár, samtala:
            (a)     afborgana sem greiddar hafa verið eða greiða ber samkvæmt mgr. 4.3 ( Afborgunaráætlun) og
            (b)     vaxta sem greiddir hafa verið eða greiða ber samkvæmt mgr. 5.2.2 undir mgr. 5.2 ( Vaxtagreiðslur),
            í hverju tilviki á því almanaksári.
             „Útreikningsdagur greiðsluþaks“: dagurinn sem er tíu virkum dögum fyrir afborgunardag.
             „Greiðsluþak“: að því er varðar hvert almanaksár eftir árið 2015, sú fjárhæð sem nemur fjórum prósentum (eða tveimur prósentum að því er varðar árið 2016) af þeirri fjárhæð sem íslenskt jafngildi vergrar landsframleiðslu á því almanaksári er hærra en jafngildi vergrar landsframleiðslu Íslands í sterlingspundum fyrir árið 2008, sem samningsaðilar hafa ákveðið að skuli vera 9.194.000.000 sterlingspunda.
             „Verg landsframleiðsla á Íslandi“: nýjasta mat á vergri landsframleiðslu á Íslandi fyrir viðkomandi almanaksár á hverjum útreikningsdegi greiðsluþaks, birt í nýjustu samantekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagshorfum í heiminum (e. World Economic Outlook).
              „Jafngildi vergrar landsframleiðslu á Íslandi“: á útreikningsdegi greiðsluþaks og að því er varðar verga landsframleiðslu á Íslandi, fjárhæð þessarar vergu landframleiðslu á Íslandi (gefin upp í íslenskum krónum), umbreytt í sterlingspund á meðalgengi eins og það er birt af Seðlabanka Íslands (eða, birti Seðlabanki Íslands ekki slíka gengisskráningu, daggengi frá aðila sem íslenska ríkið og umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins koma sér saman um á sanngjarnan hátt) á tímabilinu sem lýkur daginn fyrir viðkomandi útreikningsdag greiðsluþaks og hefst á næsta útreikningsdegi greiðsluþaks á undan.
    4.3a.2     Þessi málsgrein (mgr. 4.3a) gildir ef heildargreiðslubyrði af því sem hefur verið greitt eða greiða ber á því almanaksári hefur farið eða mun fara yfir greiðsluþakið fyrir það almanaksár á útreikningsdegi greiðsluþaks að því er varðar afborgun (þ.m.t., til að taka af allan vafa, afborgun sem hefur hækkað samkvæmt mgr. 4.3a.4).
    4.3a.3     Ef þessi málsgrein (mgr. 4.3a) á við um afborgun getur Tryggingarsjóður innstæðueigenda tilkynna það umboðsmönnum breska fjármálaráðuneytisins eigi síðar en á fimmta virka degi eftir viðkomandi útreikningsdag greiðsluþaks og mun sú afborgun þá verða lækkuð þannig að mgr. 4.3a.2 eigi ekki lengur við um þá afborgun eða, ef lækka þarf afborgunina í þessu skyni niður í neikvæða tölu, niður í núll.
    4.3a.4     Sú fjárhæð sem afborgun lækkar um samkvæmt mgr. 4.3a.3 leggst við næstu afborgun.
    4.3a.5     Ekkert í þessari málsgrein (mgr. 4.3a) skal hafa áhrif á, eða verða fyrir áhrifum af, greiðslu sem reidd er af hendi eða sem krafist er að reidd sé af hendi samkvæmt mgr. 4.2 ( Endurgreiðsla með fjármagni úr Landsbankanum).
    4.3b     Möguleiki Íslands á framlengingu
    4.3b.1     Í þessari málsgrein (mgr. 4.3b) er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
             „Gildistökudagur framlengingar“: dagurinn þegar þrír mánuðir eru liðnir frá því að tilkynning um framlengingu var lögð fram eða annar dagur sem samningsaðilar koma sér saman um skriflega.
             „Tilkynning um framlengingu“: tilkynningin sem um getur í mgr. 4.3b.2.
    4.3b.2     Tryggingarsjóður innstæðueigenda getur hvenær sem er kosið að framlengja, með skriflegri tilkynningu til umboðsmanna breska fjármálaráðuneytisins, afborgunaráætlunina sem fram kemur í mgr. 4.3.1 undir mgr. 4.3 ( Afborgunaráætlun).
    4.3b.3     Leggi Tryggingarsjóður innstæðueigenda fram tilkynningu um framlengingu gildir eftirfarandi:
              (a)     ef gildistökudagur framlengingar rennur upp fyrir fyrsta afborgunardag skal lesa tilvísunina „þrjátíu og tveimur“ í skilgreiningunni á „afborgun“ í mgr. 1.1 ( Skilgreiningar) og í mgr. 4.3.1 undir mgr. 4.3 ( Afborgunaráætlun) sem „fimmtíu og sex“ og
             (b)     ef gildistökudagur framlengingar rennur upp á fyrsta afborgunardegi eða síðar:
                       (i)        skal lesa tilvísunina „þrjátíu og tveimur“ í mgr. 4.3.1 undir mgr. 4.3 ( Afborgunaráætlun) sem „fimmtíu og sex“ og
                      (ii)    skal lesa skilgreininguna á afborgun þannig að afborganir sem falla í gjalddaga eftir gildistökudag framlengingar skuli vera heildarhöfuðstóll lánsins strax eftir gildistökudag framlengingarinnar, deilt með fjölda afborgunardaga sem ber upp eftir gildistökudag framlengingar, þannig að heildarfjöldi afborgunardaga verði fimmtíu og sex alls.
    4.3b.4     Ef ógreiddur höfuðstóll er útistandandi á láninu 5. júní 2024 á grundvelli mgr. 4.3a ( Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu) skal litið svo á að Tryggingarsjóður innstæðueigenda hafi lagt fram tilkynningu um framlengingu með gildistökudaginn 5. júní 2024, nema Tryggingarsjóðurinn hafi tilkynnt um framlengingu fyrir þann dag.
     4.3c     Endurgreiðsla ógreidds höfuðstóls eftir 5. júní 2030
    4.3c.1     Í þessari málsgrein (mgr. 4.3c) merkir „ógreiddur höfuðstóll“ hverja þá fjárhæð höfuðstóls lánsins sem ekki hefur verið endurgreidd 5. júní 2030 eða fyrr á grundvelli mgr. 4.3a ( Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu).
    4.3c.2     Ef „ógreiddur höfuðstóll“ er útistandandi eftir 5. júní 2030 skal, nema samningsaðilar komist að skriflegu samkomulagi um annað, greiða hann með tuttugu jöfnum ársfjórðungslegum afborgunum til viðbótar á fimm ára tímabili sem bætist við og skal mgr. 4.3a ( Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu) gilda áfram á því tímabili þannig að unnt sé að takmarka fjárhæð slíkrar afborgunar.
    4.3c.3     Ef „ógreiddur höfuðstóll“ er útistandandi í lok fimm ára tímabilsins, sem um getur í mgr. 4.3c.2, skulu ákvæði þessarar málsgreinar (mgr. 4.3c) gilda að breyttu breytanda um endurgreiðslu hans.
    4.3d     Tilkynningar
            Íslenska ríkinu er einnig heimilt að gefa út, fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda, hverja þá tilkynningu sem Tryggingarsjóðnum er heimilt að gefa út samkvæmt þessari málsgrein (4. mgr.).
    (c)     í b-lið mgr. 4.2.2 falla niður orðin „fyrst inn á elsta hlutann“ og orðinu „hlutfallslega“ er skotið inn á eftir orðunum „hana skal nýta til að greiða“.“
3.5     4. gr. laganna
    Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins staðfesta að þeim sé kunnugt um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda kunni að leita úrskurðar til þar til bærra úrskurðaraðila um að kröfur hans á hendur búi Landsbankans gangi framar öðrum kröfum vegna sömu innlána.
3.6     5., 6., 7. og 8. gr. laganna
    Samningsaðilar staðfesta að 5., 6., 7. og 8. gr. laganna varði innri málefni íslenska ríkisins og eigi ekki að hafa áhrif á upprunalega lánssamninginn eða breytta lánssamninginn.
4     SKILMÁLAR FELLDIR INN Í SAMNINGINN
    Ákvæði mgr. 1.2 ( Hagur þriðju aðila), 13 ( Allur samningurinn, breytingar), 14 ( Tilkynningar), 15 ( Önnur ákvæði), 17 ( Gildandi lög og lögsaga) og 18 ( Fallið frá friðhelgisréttindum) gilda um þennan samning eins og þau væru hluti af honum og skal þannig líta á allar vísanir í þessum málsgreinum til „þessa samnings“ sem vísanir til þessa samnings.

VIÐAUKASAMNING ÞENNAN GERÐU, ÞANN DAG SEM SEGIR Í UPPHAFI VIÐAUKASAMNINGS ÞESSA:
         
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi
Nafn: Áslaug Árnadóttir
Starfsheiti: stjórnarformaður Trygggingarstjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

Íslenska ríkið
Nafn: Guðmundur Árnason
Starfsheiti: ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytinu
         
Umboðsmenn breska fjármálaráðuneytisins
Nafn: Gary Roberts
Starfsheiti: f.h. breska fjármálaráðherrans


Fylgiskjal II.

Óopinber þýðing – Enski textinn gildir



VIÐAUKASAMNINGUR
    við lánssamning frá 5. júní 2009

    milli
              Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi
    og
              Íslands
         og
              Hollands
         Dagsettur     19. október 2009


VIÐAUKASAMNINGUR ÞESSI, DAGSETTUR 19. OKTÓBER 2009, ER GERÐUR MILLI:
(1)     TRYGGINGARSJÓÐS INNSTÆÐUEIGENDA OG FJÁRFESTA Á ÍSLANDI, sem er sjálfseignarstofnun sem stofnuð er samkvæmt íslenskum lögum („Tryggingarsjóður innstæðueigenda“),
(2)     ÍSLANDS („íslenska ríkisins“) og
(3)     HOLLANDS („hollenska ríkisins“).

BAKGRUNNUR:
(A)     Samningsaðilar eru aðilar að upprunalega lánssamningnum.
(B)    Sá fyrirvari var gerður gagnvart því að upprunalegi lánssamningurinn öðlaðist gildi að Alþingi hefði samþykkt að íslenska ríkið tæki á sig ábyrgð samkvæmt upprunalega lánssamningnum og samþykkt hver þau lög önnur eða heimildir sem þyrfti til að tryggja að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt upprunalega lánssamningnum væru lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar.
(C)    Alþingi hefur með lögunum um ríkisábyrgð (e. Authorising Act) samþykkt þá ábyrgð sem íslenska ríkið tekur á sig samkvæmt upprunalega lánssamningnum, þó með tilteknum skilyrðum og takmörkunum. Hollenska ríkið hefur fengið í hendur enska þýðingu á lögunum um ríkisábyrgð, þ.m.t. á þessum skilyrðum og takmörkunum.
(D)    Hollenska ríkið hefur hug á að samþykkja og skýra nánar sum af þeim skilyrðum og takmörkunum, sem er að finna í lögunum um ríkisábyrgð, samkvæmt og að því marki sem sérstaklega er tekið fram í þessum samningi og með fyrirvara um þá og hafa samningsaðilar hug á að breyta í þessu skyni upprunalega lánssamningnum eins og fram kemur í þessum samningi.

SAMKOMULAG HEFUR NÁÐST UM EFTIRFARANDI:
1     SKILGREININGAR OG TÚLKUN
1.1     Skilgreiningar
    Í samningi þessum hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér segir:
    „Lög um ríkisábyrgð“ (e. Authorising Act): lög nr. 96/2009 um heimild til að gefa út ríkisábyrgð, eins og þau voru samþykkt af Alþingi Íslendinga 28. ágúst 2009.
    „ Gildistökudagur“: sá dagur sem um getur í mgr. 2.1 (Gildistökudagur).
     „Breyttur lánssamningur“: upprunalegi lánssamningurinn eins og honum er breytt með þessum samningi.
     „Upprunalegur lánssamningur“: lánssamningurinn sem gerður var milli samningsaðilanna 5. júní 2009.
1.2    Skilgreiningar á hugtökum felldar inn í samninginn
1.2.1    Hugtök sem skilgreind eru í upprunalega lánssamningnum hafa sömu merkingu í þessum samningi nema annað sé tekið fram.
1.2.2    Mgr. 1.3 (Skýringar) upprunalega lánssamningsins gildir í þessum samningi eins og hún væri hluti af honum.
1.3     Tilgreining
    Samningsaðilarnir tilgreina þennan samning sem fjármálaskjal.
2     GILDISTÖKUDAGUR
2.1      Gildistökudagur
2.1.1     Gildistökudagur er sá dagur þegar:
     (a)    þeim aðgerðum, sem um getur í mgr. 3.1.1 undir 3. mgr. (Gildistaka) í upprunalega lánssamningnum, öðrum en þeim sem um getur í b-lið í mgr. 3.1.1 undir 3. mgr. (Gildistaka) í upprunalega lánssamningnum, hefur verið lokið,
     (b)    Tryggingarsjóður innstæðueigenda og íslenska ríkið hafa afhent hollenska ríkinu, á því formi og með þeim efnistökum sem það telur fullnægjandi, eftirfarandi skjöl (á ensku eða, ef þau eru ekki á ensku, skal þeim fylgja löggilt þýðing á ensku):
          (i)    frumrit þessa samnings, dagsett og undirritað með viðeigandi hætti af hálfu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins,
          (ii)    samþykkt stjórnar eða aðra viðeigandi heimild Tryggingarsjóðs innstæðueigenda til að framkvæma fyrir sitt leyti þennan samning og uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt honum og
          (iii)    afrit af lögunum sem um getur í mgr. 2.1.2.
2.1.2     Íslenska ríkið mun:
     (a)    strax og raunhæft reynist eftir dagsetningu þessa samnings leggja fyrir Alþingi frumvarp þar sem kveðið er á um að íslenska ríkið fái heimild án skilyrða og fyrirvara til að taka á sig ábyrgð samkvæmt breyttum lánssamningi og um hverja þá heimild aðra sem þarf til að tryggja að skuldbindingar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og íslenska ríkisins samkvæmt fjármálaskjölunum séu lögmætar, gildar, bindandi og fullnustuhæfar og
     (b)    afhenda hollenska ríkinu afrit af lögunum ásamt löggiltri þýðingu á ensku um leið og lögin sem byggjast á frumvarpinu öðlast gildi.
2.2     Gildistaka breytts lánssamnings
    Á gildistökudegi:
2.2.1    öðlast breytingar á upprunalega lánssamningnum, sem tilgreindar eru í 3. mgr. (Samþykki og breytingar), gildi og
2.2.2     öðlast breyttur lánssamningur gildi.
2.3.      Frestur (e. long stop date)
    Ef aðgerðunum, sem um getur í mgr. 0.1 (Gildistökudagur), hefur ekki verið lokið hinn 30. nóvember 2009, er hollenska ríkinu heimilt að rifta þessum samningi með því að senda Tryggingarsjóði innstæðueigenda tilkynningu um það og afrit til íslenska ríkisins.
3     SAMÞYKKI OG BREYTINGAR
3.1      Vísanir
    Nema annað sé tekið fram teljast vísanir í þessari málsgrein (mgr. 3):
3.1.1    til málsgreina (e. paragraph and subparagraphs) vera vísanir til viðeigandi málsgreina í upprunalega lánssamningnum og
3.1.2     til greina (e. Articles) vera vísanir til greina í lögunum um ríkisábyrgð.
3.2      1. gr. laganna
3.2.1    Hollenska ríkið samþykkir skilyrðin og takmarkanirnar sem fram koma í hinum ýmsu greinum laganna um ríkisábyrgð að því marki sem slíkt er skýrt tekið fram í staðfestingunum og breytingunum sem fram koma í þessari málgrein (mgr. 3) og íslenska ríkið og Tryggingarsjóður innstæðueigenda fallast á slíkt samþykki og fyrrnefndar staðfestingar og breytingar.
3.2.2    Upprunalegi samningurinn og hin fjármálaskjölin og túlkun þeirra haldast óbreytt, nema þeim sé breytt með skýrum hætti í þessum samningi.
3.3     2. gr. laganna
3.3.1    Samningsaðilar staðfesta að samið hafi verið um hinn breytta lánssamning í samræmi við „hin umsömdu viðmið“ frá 14. nóvember 2008, sem Ísland, Evrópusambandið og hlutaðeigandi aðildarríki þess stóðu að og sem var ætlað að gilda í samningaviðræðum aðila.
3.3.2    Samningsaðilar staðfesta að heimilt sé að endurskoða breytta lánssamninginn eins og fram kemur í 15. mgr. (Breyttar aðstæður) í breytta lánssamningnum.
3.3.3    Samningsaðilar staðfesta að þótt fallið sé frá friðhelgisréttindum í 16.3. mgr. (Fallið frá friðhelgisréttindum) í breytta lánssamningnum nái það ekki til þeirra eigna íslenska ríkisins sem njóta friðhelgi samkvæmt Vínarsamningnum, eigna íslenska ríkisins á Íslandi sem það þarf nauðsynlega á að halda til að starfrækja hlutverk sitt sem fullvalda ríki eða eigna Seðlabanka Íslands.
3.3.4    Samningsaðilar staðfesta að ekkert í upprunalega lánssamningnum eða breytta lánssamningnum sé til þess fallið að svipta Ísland yfirráðum eða hafi þau áhrif að svipta Ísland yfirráðum yfir náttúruauðlindum sínum eða rétti sínum til að kveða á um nýtingu og skipan eignarhalds á þeim.
3.4     3. gr. laganna
3.4.1     Ákvæðum mgr. 1.1 (Skilgreiningar) er breytt sem hér segir:
     (a)    Svohljóðandi nýrri skilgreiningu er skotið inn á eftir skilgreiningunni á „samningsaðilum“:
         „Afborgunardagur“:
          (a)    sérhver dagur þegar þrír, sex eða níu mánuðir eru liðnir frá sjöunda ársdegi (e. anniversary date) samningsins eða sérhver síðari ársdagur samningsins og
         (b)    sérhver ársdagur eftir sjöunda ársdag samningsins,
            (þannig að fyrsti afborgunardagur verði þremur mánuðum eftir sjöunda ársdag samningsins).
     (b)    Í skilgreiningunni á „afborgun“:
          (i)    komi orðin „með fyrirvara um hvers kyns aðlögun sem krafist er samkvæmt 4. mgr. (Afborgun)“ í stað orðanna „með fyrirvara um mgr. 4.3.3. undir mgr. 4.3 (Valfrjáls innborgun)“ og
         (ii)     komi orðin „þrjátíu og tveimur“ í stað tölunnar „32“.
3.4.2    Ákvæðum 4. mgr. (Endurgreiðsla) er breytt sem hér segir:
     (a)    Mgr. 4.2 (Afborgunaráætlun) er felld brott og í stað hennar komi eftirfarandi:
        4.2     Afborgunaráætlun
        4.2.1    Eftir sjöunda ársdag samningsins skal Tryggingarsjóður innstæðueigenda byrja að endurgreiða það sem þá stendur eftir af höfuðstóli lánsins í þrjátíu og tveimur afborgunum á ársfjórðungsfresti, sbr. þó önnur ákvæði þessarar málsgreinar (4. mgr.).
        4.2.2    Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiðir afborgun á hverjum afborgunardegi, sbr. þó mgr. 4.2a (Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu).
     (b)    Svohljóðandi fjórum nýjum málsgreinum er skotið inn á eftir mgr. 4.2 (Afborgunaráætlun):
          4.2a         Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu
        4.2a.1    Í þessari málsgrein (mgr. 4.2a) hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér segir:
                  „Heildargreiðslubyrði“: að því er varðar sérhvert almanaksár, samtala:
                  (a)    afborgana sem greiddar hafa verið eða greiða ber samkvæmt mgr. 4.2 (Afborgunaráætlun) og
                  (b)    vaxta sem greiddir hafa verið eða greiða ber samkvæmt mgr. 5.2.2 undir mgr. 5.2 (Vaxtagreiðslur),
                í hverju tilviki á því almanaksári.
                 „Útreikningsdagur greiðsluþaks“: dagurinn sem er tíu virkum dögum fyrir afborgunardag.
                 „Greiðsluþak“: að því er varðar hvert almanaksár eftir árið 2015, sú fjárhæð sem nemur tveimur prósentum (eða einu prósenti að því er varðar árið 2016) af þeirri fjárhæð sem íslenskt jafngildi vergrar landsframleiðslu á því almanaksári er hærra en jafngildi vergrar landsframleiðslu Íslands í evrum fyrir árið 2008, sem samningsaðilar hafa ákveðið að skuli vera 11.495.000.000 evrur.
                 „Verg landsframleiðsla á Íslandi“: nýjasta mat á vergri landsframleiðslu á Íslandi fyrir viðkomandi almanaksár á hverjum útreikningsdegi greiðsluþaks, birt í nýjustu samantekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagshorfum í heiminum (e. World Economic Outlook).
                 „Jafngildi vergrar landsframleiðslu á Íslandi“: á útreikningsdegi greiðsluþaks og að því er varðar verga landsframleiðslu á Íslandi, fjárhæð þessarar vergu landframleiðslu á Íslandi (gefin upp í íslenskum krónum), umbreytt í evrur á meðalgengi eins og það er birt af Seðlabanka Íslands (eða, birti Seðlabanki Íslands ekki slíka gengisskráningu, daggengi frá aðila sem íslenska ríkið og hollenska ríkið koma sér saman um á sanngjarnan hátt) á tímabilinu sem lýkur daginn fyrir viðkomandi útreikningsdag greiðsluþaks og hefst á næsta útreikningsdegi greiðsluþaks á undan.
        4.2a.2    Þessi málsgrein (mgr. 4.2a) gildir ef heildargreiðslubyrði af því sem hefur verið greitt eða greiða ber á því almanaksári hefur farið eða mun fara yfir greiðsluþakið fyrir það almanaksár á útreikningsdegi greiðsluþaks að því er varðar afborgun (þ.m.t., til að taka af allan vafa, afborgun sem hefur hækkað samkvæmt mgr. 4.2a.4).
        4.2a.3    Ef þessi málsgrein (mgr. 4.2a) á við um afborgun getur Tryggingarsjóður innstæðueigenda tilkynnt það hollenska ríkinu eigi síðar en á fimmta virka degi eftir viðkomandi útreikningsdag greiðsluþaks og mun sú afborgun þá verða lækkuð þannig að mgr. 4.2a.2 eigi ekki lengur við um þá afborgun eða, ef lækka þarf afborgunina í þessu skyni niður í neikvæða tölu, niður í núll.
        4.2a.4    Sú fjárhæð, sem afborgun lækkar um samkvæmt mgr. 4.2a.3, leggst við næstu afborgun.
         4.2a.5    Ekkert í þessari málsgrein (mgr. 4.2a) skal hafa áhrif á, eða verða fyrir áhrifum af, greiðslu sem reidd er af hendi eða sem krafist er að reidd sé af hendi samkvæmt mgr. 4.1 (Endurgreiðsla með fjármagni úr Landsbankanum).
         4.2b        Möguleiki Íslands á framlengingu
         4.2b.1    Í þessari málsgrein (mgr. 4.2b) er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
                 „Gildistökudagur framlengingar“: dagurinn þegar þrír mánuðir eru liðnir frá því að tilkynning um framlengingu var lögð fram eða annar dagur sem samningsaðilar koma sér saman um skriflega.
                 „Tilkynning um framlengingu“: tilkynningin sem um getur í mgr. 4.2b.2.
        4.2b.2    Tryggingarsjóður innstæðueigenda getur hvenær sem er kosið að framlengja, með skriflegri tilkynningu til hollenska ríkisins, afborgunaráætlunina sem fram kemur í mgr. 4.2.1 undir mgr. 4.2. (Afborgunaráætlun).
        4.2b.3    Leggi Tryggingarsjóður innstæðueigenda fram tilkynningu um framlengingu gildir eftirfarandi:
                 (a)    ef gildistökudagur framlengingar rennur upp fyrir fyrsta afborgunardag skal lesa tilvísunina „þrjátíu og tveimur“ í skilgreiningunni á „afborgun“ í mgr. 1.1 (Skilgreiningar) og í mgr. 4.2.1 undir mgr. 4.2 (Afborgunaráætlun) sem „fimmtíu og sex“ og
                 (b)    ef gildistökudagur framlengingar rennur upp á fyrsta afborgunardegi eða síðar:
                       (i)    skal lesa tilvísunina „þrjátíu og tveimur“ í mgr. 4.2.1 undir mgr. 4.2 (Afborgunaráætlun) sem „fimmtíu og sex“ og
                       (ii)    skal lesa skilgreininguna á afborgun þannig að afborganir sem falla í gjalddaga eftir gildistökudag framlengingar skuli vera heildarhöfuðstóll lánsins strax eftir gildistökudag framlengingarinnar, deilt með fjölda afborgunardaga sem ber upp eftir gildistökudag framlengingar, þannig að heildarfjöldi afborgunardaga verði fimmtíu og sex alls.
        4.2b.4    Ef ógreiddur höfuðstóll er útistandandi á láninu 5. júní 2024 á grundvelli mgr. 4.2a (Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu) skal litið svo á að Tryggingarsjóður innstæðueigenda hafi lagt fram tilkynningu um framlengingu með gildistökudaginn 5. júní 2024, nema Tryggingarsjóðurinn hafi tilkynnt um framlengingu fyrir þann dag.
     4.2c    Endurgreiðsla ógreidds höfuðstóls eftir 5. júní 2030
        4.2c.1    Í þessari málsgrein (mgr. 4.2c) merkir „ógreiddur höfuðstóll“ hverja þá fjárhæð höfuðstóls lánsins sem ekki hefur verið endurgreidd 5. júní 2030 eða fyrr á grundvelli mgr. 4.2a (Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu).
        4.2c.2    Ef „ógreiddur höfuðstóll“ er útistandandi eftir 5. júní 2030 skal, nema samningsaðilar komist að skriflegu samkomulagi um annað, greiða hann með tuttugu ársfjórðungslegum afborgunum til viðbótar á fimm ára tímabili sem bætist við og skal mgr. 4.2a (Þak á greiðslu höfuðstóls með vísun til uppsafnaðs vaxtar vergrar landsframleiðslu) gilda áfram á því tímabili þannig að unnt sé að takmarka fjárhæð slíkrar afborgunar.
        4.2c.3     Ef „ógreiddur höfuðstóll“ er útistandandi í lok fimm ára tímabilsins, sem um getur í mgr. 4.2c.2, skulu ákvæði þessarar málsgreinar (mgr. 4.2c) gilda að breyttu breytanda um endurgreiðslu hans.
    4.2d    Tilkynningar
            Íslenska ríkinu er einnig heimilt að gefa út fyrir hönd Tryggingarsjóðs innstæðueigenda hverja þá tilkynningu sem Tryggingarsjóðnum er heimilt að gefa út samkvæmt þessari málsgrein (4. mgr.).
3.5     4. gr. laganna
3.5.1    Hollenska ríkið staðfestir að því sé kunnugt um að Tryggingarsjóður innstæðueigenda kunni að leita úrskurðar þar til bærra úrskurðaraðila um að kröfur hans á hendur búi Landsbankans gangi framar öðrum kröfum vegna sömu innstæðu.
3.5.2    Ákvæðum mgr. 3.1.2 undir mgr. 3 (Gildistaka) er breytt sem hér segir:
     (a)    Á eftir orðunum „eins fljótt og því verður við komið“ í ii. lið b-liðar bætist við „nema iii. liður hér á eftir gildi“.
     (b)    Orðið „og“ í lok ii. liðar í b. lið falli brott.
     (c)    Svohljóðandi nýjum iii. lið er skotið inn í b-lið á eftir ii. lið:
         (iii)    (A)    ef íslenskur dómstóll gefur út endanlegan úrskurð, sem ekki er hægt að áfrýja, þar sem 1) ákveðið er að krafa, í heild eða að hluta, sem framseld hefur verið Tryggingarsjóði innstæðueigenda, eða réttindi sem Seðlabanki Hollands heldur eftir, eftir því sem við á, skuli ganga framar öðrum kröfum vegna sömu innstæðu við úthlutun úr búi Landsbankans og 2) að það sé ekki í andstöðu við ráðgefandi álit sem hefur verið aflað frá EFTA-dómstólnum um slíka forgangsstöðu eða
             (B)     ef slitastjórn Landsbankans ákveður að krafa, í heild eða að hluta, sem framseld hefur verið Tryggingarsjóði innstæðueigenda, eða réttindi sem Seðlabanki Hollands heldur eftir, eftir því sem við á, skuli ganga framar öðrum kröfum vegna sömu innstæðu við úthlutun úr búi Landsbankans og enginn innlánseigandi eða lánardrottinn hefur borið brigður á slíkan úrskurð fyrir íslenskum dómstóli og það hefur ekki verið látið hjá líða vegna breytingar, sem gerð hefur verið á íslenskum lögum eftir 5. júní 2009 og gerir erfiðara um vik eða útilokar að unnt sé að vefengja úrskurðinn,
                þá gildir skuldbindingin, sem lýst er í mgr. (ii) að framan að því er varðar Tryggingarsjóð innstæðueigenda eða Seðlabanka Hollands, eftir því sem við á, ekki nema forgangsstaðan sé til komin vegna breytingar sem gerð er á íslenskum lögum eftir 5. júní 2009, og
3.6     5., 6., 7. og 8. gr. laganna
    Samningsaðilar staðfesta að 5., 6., 7. og 8. gr. laganna varði innri málefni íslenska ríkisins og eigi ekki að hafa áhrif á upprunalega lánssamninginn eða breytta lánssamninginn.
4     SKILMÁLAR FELLDIR INN Í SAMNINGINN
    Ákvæði mgr. 1.2 (Hagur þriðju aðila), 12 (Breytingar), 13 (Tilkynningar), 14 (Önnur ákvæði) og mgr. 16 (Gildandi lög og lögsaga) gilda um þennan samning eins og þau væru hluti af honum og skal þannig líta á allar vísanir í þessum málsgreinum til „þessa samnings“ sem vísanir til þessa samnings.
    VIÐAUKASAMNING ÞENNAN GERÐU, ÞANN DAG SEM SEGIR Í UPPHAFI VIÐAUKASAMNINGS ÞESSA:

     Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta á Íslandi
     Nafn: Áslaug Árnadóttir
     Starfsheiti: stjórnarformaður Trygggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta

     Íslenska ríkið
     Nafn: Guðmundur Árnason
     Starfsheiti: ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytinu
    
     Hollenska ríkið
    Fjármálaráðherra
    fyrir hans hönd     
     Nafn: Johan C. Barnard

    


Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 96/2009,
um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.

    Með frumvarpi þessu eru gerðar tillögur til Alþingis um breytingar á lögum nr. 96/2009, sem sett voru á sl. sumarþingi og fela í sér heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán til Tryggingasjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til þess að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Vísað er til umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis með því frumvarpi um fyrri áform og málavexti. Við afgreiðslu málsins á Alþingi voru gerðar breytingar á frumvarpinu á þá leið að í lögunum var veitt heimild til ríkisábyrgðar á lánunum en settir ákveðnir fyrirvarar um forsendur fyrir ríkisábyrgðinni og um efnahagsleg og lagaleg viðmið. Af helstu breytingum sem gerðar voru á fyrra frumvarpinu og hafa áhrif á fjárhagsskuldbindinguna má í fyrsta lagi nefna það skilyrði að lána-samningarnir verði túlkaðir í samræmi við svonefnd Brussel-viðmið, þ.m.t. um forsendur fyrir endurskoðun samninganna, og að fullveldi ríkisins tryggi friðhelgi frá aðför að eignum þess og óskoruð yfirráð á náttúruauðlindum landsins. Í öðru lagi var í lögunum sett hámark á árlega greiðslubyrði ríkissjóðs vegna lánanna. Hámarkið miðast við 4% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í pundum vegna lánasamnings við breska ríkið og 2% af vexti vergrar landsframleiðslu mælt í evrum vegna lánasamnings við hollenska ríkið. Vöxtur á vergri landsframleiðslu Íslands skal mældur frá 2008 til greiðsluárs á tímabilinu 2017–2023. Samkvæmt lögunum eru hlutföllin helmingi lægri árin 2016 og 2024. Í þriðja lagi gera lögin ráð fyrir að hafi lánin ásamt vöxtum ekki verið greidd að fullu í lok lánstímans, þ.e. árið 2024, þá taki aðilar upp viðræður um framhald málsins. Í fjórða lagi var gerður fyrirvari um lagalega stöðu málsins þar sem ekki hafi fengist leyst úr því álitaefni hvort aðildarríki EES-samningsins beri ábyrgð gagnvart innstæðueigendum vegna lágmarkstryggingar þegar kerfishrun verður á fjármálamarkaði. Loks má nefna að í lögunum var sett skilyrði um að fram fari viðræður milli aðila um áhrif þess á lánasamningana ef niðurstaða dómstóla verður að kröfur tryggingasjóðsins gangi við úthlutun eigna Landsbankans framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu.
    Í kjölfar þessarar lagasetningar um ríkisábyrgðina hafa staðið yfir viðræður íslenskra stjórnvalda og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við bresk og hollensk stjórnvöld. Niðurstaða þeirra viðræðna felur í sér að fallist er á meginefni skilyrðanna sem Alþingi setti en þó ekki að öllu leyti á sama hátt. Nýtt samkomulag gerir ráð fyrir að gerðir verði viðaukasamningar við lánasamningana frá 5. júní sl. þar sem tekið verði tillit til þeirra viðmiða og fyrirvara sem leiða af lögunum um ríkisábyrgðina. Varðandi þak á árlegar greiðslur miðað við hagvöxt er þó gengið út frá þeirri útfærslu að ávallt verði greiddir vextir, sem líta má á sem eins konar gólf í greiðslunum, en að afborganir sem kunna falla umfram hámarkið bætist þá við höfuðstólinn. Útreikningar benda til að vaxtaþátturinn muni haldast innan greiðsluhámarksins. Auk þess er gert ráð fyrir að viðaukasamningarnir feli í sér að engin tímamörk verði á ríkisábyrgðinni þannig að lánin framlengist ef þau eru ekki að fullu greidd upp árið 2024. Tryggingarsjóðnum verður heimilt að framlengja lánstímann til 2030 með sömu ákvæðum um hámark og lágmark árlegra greiðslna ef t.d. ástæða þykir til að lækka árlega greiðslubyrði einhvern tímann á tímabilinu. Í annan stað er lagt fram nýtt frumvarp til breytingar á lögunum um ríkisábyrgðina til að samræma þau breyttum efnisákvæðum viðaukasamninganna. Í þessu fumvarpi sem hér er til umfjöllunar er því lagt til að þau ákvæði um efnahagsleg og lagaleg viðmið sem sett verða inn í viðauka við lánasamningana við Breta og Hollendinga verði felld út úr lögunum um ríkisábyrgðina. Þá er í frumvarpinu lagt til að í lögin verði tekin upp ákvæði um óskoraða ríkisábyrgð á samningunum með þeim breyttu skilyrðum sem felast í viðaukasamningunum og að í lögunum felist engin viðurkenning á því að Íslandi hafi borið lagaleg skylda til að ábyrgjast lágmarkstryggingu innstæðna í útibúum LÍ í Bretlandi og Hollandi. Þar með þurfi aðilar að taka upp viðræður um áhrif á samninga ef dómstólar komist að niðurstöðu um að íslenska ríkið hafi ekki borið þá skyldu.
    Með framangreindum breytingum á lögunum er ekki gert ráð fyrir að breyting verði á heildarskuldbindingum tryggingarsjóðsins eða ríkisábyrgðinni. Vegna efnahagslegu fyrirvaranna sem settir voru við afgreiðslu upphaflega frumvarpsins um hámark á greiðslubyrði miðað við vöxt vergrar landsframleiðslu má gera ráð fyrir því að greiðslur vaxta og höfuðstóls á fyrri helmingi greiðslutímabilsins verði heldur lægri en reiknað var með í fyrri umsögn en að þær gætu orðið þyngri í lok tímabilsins. Þetta ræðst af þróun vaxtar vergrar landsframleiðslu og gengisþróun á tímabilinu. Það sem ekki greiðist á fyrri helmingi tímabilsins færist aftur fyrir þannig að um nokkurs konar greiðslujöfnun er að ræða. Ef greiðslur frestast vegna þessa hámarks má telja líkur á að vaxtakostnaður verði meiri en ella þar sem vaxtaberandi höfuðstóll verður þá tekinn lengur að láni. Nýjustu spár um endurheimtur af eignum Landsbankans gera á hinn bóginn ráð fyrir að þær geti orðið allt að 90%. Í fyrri umsögn var miðað við að endurheimtuhlutfallið yrði 75%. Ef þetta gengur eftir lækkar heildarskuldbinding gagnvart samkomulaginu og ábyrgð ríkissjóðs þar með frá því sem áður hafði verið gert ráð fyrir. Sem fyrr er mikil óvissa um efnahagshorfur til svo langs tíma og þar með um endanlega útkomu skuldbindinga samkvæmt samningunum og hvernig þær falla til í tíma. Vöxtur vergrar landsframleiðslu, gengisþróun og endurheimtur af eignum Landsbankans eru þó þau atriði sem hafa mest áhrif á hversu mikil heildarbyrði þjóðarbúsins verður að lokum. Í meðfylgjandi töflu samkvæmt útreikningum sem Seðlabanki Íslands hefur gert kemur fram staða skulda vegna Icesave lánasamninganna við lok ársins 2015 miðað við mismunandi forsendur um endurheimtur.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Í fyrri umsögn var miðað við lauslegra mat fjármálaráðuneytis þar sem gengið var út frá 415 milljarða kr. skuldbindingu miðað við 75% endurheimtur. Mat Seðlabankans gerir ráð fyrir um 351 milljarða kr. skuldbindingu miðað við sömu endurheimtur en nú eru taldar meiri líkur á að þær verði nálægt 90%, eins og áður segir, og er áætlað að skuldbindingin sem standa þyrfti skil á mundi þá nema um 253 milljörðum kr. Verði frumvarpið óbreytt að lögum og ofangreindar forsendur ganga eftir má því gera ráð fyrir að heildarskuldbinding ríkissjóðs verði umtalsvert minni en gert var ráð fyrir í fyrri umsögn þegar frumvarp um þetta mál var lagt fram í sumar. Að lokum er vakin athygli á því að í þeirri kostnaðarumsögn var gert ráð fyrir að árlegar greiðslur úr ríkissjóði sem svara til afborgana og vaxta hjá tryggingarsjónum yrðu færðar í einu lagi til gjalda á útgjaldahlið ríkissjóðs þegar þær kæmu til greiðslu frá og með árinu 2016. Nú er til nánari skoðunar með hvaða hætti eigi að færa áhrif skuldbindingarinnar, þar með talið uppsöfnun vaxta, í fjárlögum og ríkisreikningi þar til greiðslur hefjast og kann niðurstaðan að verða að mat á henni færist til gjalda í rekstrarreikningi og að afkoma verði þar með lakari en ella.