Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 81. máls.

Þskj. 82  —  81. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Sérstakur frádráttur nýsköpunarfyrirtækis samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.

2. gr.

    Við 1. mgr. B-liðar 30. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fé sem varið er til kaupa á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum skv. 6. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, enda sé um hlutafjáraukningu að ræða skv. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
    Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og vera verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa í sams konar félögum, en þó aldrei hærri en 300.000 kr. hjá einstaklingi og 600.000 kr. hjá hjónum.
    Til keyptra hlutabréfa skv. 2. mgr. teljast einungis hlutabréf lögaðila sem fengið hafa staðfestingu frá Rannís skv. 6. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og eru á skrá sem ríkisskattstjóri heldur vegna viðkomandi tekjuárs.
    Það er skilyrði frádráttar skv. 1. mgr. að maður eigi viðkomandi hlutabréf yfir þrenn áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra á skattframtali. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Ekki skal þó beita ákvæði um tekjufærslu frádráttar ef maður kaupir á sama ári og eigi síðar en 30 dögum eftir söluna önnur hlutabréf í hlutafélagi sem uppfyllir skilyrði þessa töluliðar, fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og söluverð hinna seldu hlutabréfa var. Sé kaupverðið lægra skal ákvæði 2. málsl. eiga við um mismuninn. Fenginn frádrátt skal tekjufæra að fullu með 10% álagi, eða í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar að endurfjárfest sé í stað hinna seldu.
    Ekki er heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr. þessa töluliðar.
    Frádráttur samkvæmt þessum tölulið heimilast frá tekjum skv. A- og B-lið 7. gr.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði frádráttar samkvæmt þessum tölulið.

3. gr.

    Við 31. gr. laganna bætist nýr töluliður, svohljóðandi: Fé sem varið er til kaupa á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum samkvæmt lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, enda sé um hlutafjáraukningu að ræða skv. V. kafla laga nr. 2/1995, um hlutafélög, og V. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
    Frádráttur skv. 1. mgr. skal miðast við fjárfestingu á hverju ári og vera verðmæti keyptra hlutabréfa umfram verðmæti seldra hlutabréfa í sams konar félögum, en þó aldrei hærri en 15.000.000 kr.
    Til keyptra hlutabréfa skv. 2. mgr. teljast einungis hlutabréf í félögum sem fengið hafa staðfestingu frá Rannís skv. 6. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og eru á skrá sem ríkisskattstjóri heldur vegna viðkomandi tekjuárs.
    Það er skilyrði frádráttar skv. 1. mgr. að skattaðili eigi viðkomandi hlutabréf yfir þrenn áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra á skattframtali. Selji hann bréfin innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa. Ekki skal þó beita ákvæði um tekjufærslu frádráttar ef skattaðili kaupir á sama ári og eigi síðar en 30 dögum eftir söluna önnur hlutabréf í hlutafélagi sem uppfyllir skilyrði þessa töluliðar, fyrir a.m.k. sömu fjárhæð og söluverð hinna seldu hlutabréfa var. Sé kaupverðið lægra skal ákvæði 2. málsl. eiga við um mismuninn. Fenginn frádrátt skal tekjufæra að fullu með 10% álagi, eða í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar að endurfjárfest sé í stað hinna seldu.
    Ekki er heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr. þessa töluliðar.
    Frádráttur samkvæmt þessum tölulið heimilast frá tekjum skv. B-lið 7. gr.
    Fjármálaráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um skilyrði frádráttar samkvæmt þessum tölulið.

4. gr.

    Við 4. mgr. 112. gr. laganna bætast þrír nýir málsliðir, svohljóðandi: Frá álögðum tekjuskatti lögaðila sem falla undir 5. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki skal draga fjárhæð sem ákvörðuð er skv. 11. gr. þeirra laga áður en greiðsluskylda samkvæmt þessari málsgrein er ákvörðuð. Sé engin eða lægri greiðsluskylda fyrir hendi skal greiða frádráttinn út að hluta eða öllu leyti. Reglur um skuldajöfnun skattfrádráttar á móti opinberum gjöldum eða vörslusköttum til ríkissjóðs, þar á meðal um forgangsröð, skulu settar í reglugerð.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010 og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011 vegna tekjuársins 2010.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að nýsköpunarfyrirtækjum verði veittur stuðningur í formi frádráttar frá tekjuskatti í hlutfalli við útlagðan kostnað við rannsóknir og þróun og hins vegar að skattaðilum verði heimilaður frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestinga í hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum sem viðurkennd hafa verið af Rannís. Skilyrði hlutabréfafrádráttar er m.a. að um kaup á nýju hlutafé sé að ræða sem gangi beint til aukningar á eigin fé nýsköpunarfyrirtækis. Almenn hlutabréfaviðskipti falla þannig ekki undir lögin. Leiða má að því líkur að frádráttur sem þessi verði til þess að efla rannsóknar- og þróunarstarf innan nýsköpunarfyrirtækja.
    Nánari ákvæði um skilyrði sem nýsköpunarfyrirtæki skal uppfylla til að frádráttur komi til álita er að finna í sérstökum lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki en frumvarp þess efnis er lagt fram samhliða frumvarpi þessu.
    Erfitt er að meta af einhverri nákvæmni beinan kostnað ríkissjóðs af umræddri ríkisaðstoð við nýsköpunarfyrirtæki, en hann er í raun þríþættur samkvæmt tillögum frumvarpsins.
    Í fyrsta lagi er tillaga um beinan stuðning í formi skattfrádráttar við nýsköpunarfyrirtækið sjálft. Sé tekið mið af reynslu Norðmanna og reynslu Tækniþróunarsjóðs er ekki óvarlegt að ætla að fjöldi samþykktra nýsköpunarverkefna gæti orðið á bilinu 100–150 á ári og meðalstærð verkefnis verði 30–40 millj. kr. Miðað við þær forsendur næmi stuðningurinn 450–750 millj. kr. á ári, væntanlega eitthvað lægri fjárhæð fyrsta árið, en næði hámarki á þriðja ári.
    Í öðru lagi er lagt til að einstaklingum verði veittur skattafsláttur vegna kaupa á hlutabréfum sem gefin eru út af nýsköpunarfyrirtækjum. Gert er ráð fyrir að einstaklingar geti varið allt að 300 þús. kr. árlega til hlutafjárkaupa í nýsköpunarfyrirtækjum, sem myndi frádrátt frá tekjuskattsstofni þeirra og er sú fjárhæð tvöföld hjá hjónum. Sé við það miðað að 1.000 einstaklingar og sami fjöldi hjóna fjárfesti samkvæmt hámarksfjárhæð í slíkum bréfum, eða samtals um 900 millj. kr., lækkar tekjuskattur þessara aðila um 200–250 millj. kr. og tekjur ríkissjóðs samsvarandi. Jafnframt lækka tekjur sveitarfélaga í formi útsvars um liðlega 100 millj. kr. Miðað við framangreindar forsendur nemur stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki í þessu formi því um 300–350 millj. kr. Til fróðleiks má nefna að tekjuskattsfrádráttur vegna almenna hlutabréfaafsláttarins, sem hér var við lýði á tímabilinu 1991–2003, varð hæstur samtals 2.660 millj. kr. á árinu 1997, og náði til liðlega 17.500 framteljenda.
    Í þriðja lagi er einnig lagt til að lögaðilar fái heimild til skattafsláttar vegna kaupa á hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja. Í frumvarpinu er miðað við að lögaðilar geti fjárfest fyrir allt að 15 millj. kr. árlega í slíkum bréfum sem samhliða veiti þeim rétt til frádráttar frá tekjuskattsstofni. Sé gengið út frá þeim forsendum að 250 lögaðilar nýti sér þennan rétt árlega, þ.e. kaupi hlutabréf í nýsköpunarfyrirtækjum fyrir 3,5–4 milljarða kr., gæti það lækkað tekjuskattsgreiðslur þeirra um nálægt 500 millj. kr. á ári.
    Þegar allt er lagt saman gæti ríkisaðstoð í formi þeirra skattaívilnana sem að framan er lýst numið 1.200–1.500 millj. kr., auk þess sem stuðningur sveitarfélaga í formi lægra útsvars næmi liðlega 100 millj. kr. Þá er ótalinn sá stuðningur sem fram kæmi sem aukið hlutafé til viðkomandi nýsköpunarfyrirtækja frá einstaklingum og fyrirtækjum í stað lánsfjár verði frumvarp þetta að lögum, en áhrif þess munu fyrst koma fram við álagningu opinberra gjalda á árinu 2011. Hafa ber þó í huga að þær fjárhæðir sem hér hafa verið nefndar eru mikilli óvissu háðar og er þeim fyrst og fremst ætlað að gefa lauslega hugmynd um möguleg áhrif af tillögum frumvarpsins.
    Hér að framan hefur einungis verið horft til þeirra útgjalda sem opinberir aðilar kunna að verða fyrir með beinum hætti verði frumvarpið að lögum. Markmið stjórnvalda með slíkum stuðningi er vitaskuld að stuðla að verðmætaaukningu í íslenskum þjóðarbúskap með sköpun nýrra atvinnutækifæra og fjölgun starfa sem ella hefðu ekki orðið til. Sú verðmætasköpun mun án efa leiða til aukinna skatttekna, bæði beinna og óbeinna, til allrar framtíðar, sem búast má við að geri gott betur en að vega upp beinan kostnað af þeirri ríkisaðstoð sem efnt kann að vera til í þessu sambandi. Hver nettóáhrifin verða til lengri tíma litið á afkomu ríkissjóðs, sveitarfélaga og þjóðarbúsins alls er útilokað að meta í fjárhæðum á þessu stigi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með ákvæði þessu er tekið skýrt fram að fjárhæð sú sem ákvörðuð er til frádráttar skv. 11. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki skuli ekki teljast til skattskyldra tekna viðkomandi.

Um 2. gr.


    Með ákvæðum þessarar greinar er lagt til að mönnum verði heimilað að draga frá skattskyldum tekjum kaup á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum, þ.e. að kaupverð hlutabréfanna gangi beint til hækkunar á eigin fé félagsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði að draga frá tekjum verðmæti keyptra hlutabréfa, en þó með ákveðnu hámarki sem er 300.000 kr. fyrir einstaklinga og fyrir hjón 600.000 kr.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri haldi skrá yfir þau félög sem fengið hafa staðfestingu frá Rannís, sbr. lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki.
    Í 4. mgr. er fjallað nánar um skilyrði frádráttar. Meðal annars er skilyrði fyrir frádrætti að maður eigi viðkomandi hlutabréf yfir þrenn áramót og geri árlega grein fyrir eignarhaldi þeirra. Verði bréfin seld innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa að viðbættu álagi. Kaupi maður hins vegar bréf innan ársins fyrir sömu fjárhæð skal þó ekki tekjufæra frádráttinn.
    Í 5. og 6. mgr. er tekið fram að ekki sé heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr. Að auki kemur fram að frádráttur heimilast frá tekjum skv. A- og B-lið 7. gr. tekjuskattslaga.
    Í 7. mgr. er að finna heimild til að setja reglugerð um ýmsa þætti viðkomandi frádrættinum almennt. Ýmis vandamál er varða skattalega framkvæmd kunna að koma upp þegar breytingar verða á högum manna frá frádráttarári til söluárs. Meðal annars breytingar á hjúskaparstöðu, andlát, heimilisfesti o.s.frv. Er gert ráð fyrir því að fjármálaráðherra verði heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd á þessu ákvæði.

Um 3. gr.


    Með ákvæðum þessarar greinar er lagt til að frá rekstrartekjum verði heimilað að draga kaup á hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum, þ.e. að kaupverð hlutabréfanna gangi beint til hækkunar á eigin fé félagsins.
    Í 2. mgr. er lagt til að heimilt verði að draga frá tekjum verðmæti keyptra hlutabréfa, en þó með ákveðnu hámarki sem er 15.000.000 kr.
    Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri haldi skrá yfir þau félög sem fengið hafa staðfestingu frá Rannís, sbr. lög um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, þ.m.t. sjóði þar sem undirliggjandi verðmæti eru eingöngu hlutabréf í staðfestum nýsköpunarfyrirtækjum.
    Í 4. mgr. er fjallað nánar um skilyrði frádráttar. Meðal annars er skilyrði fyrir frádrætti að eignarhald á hlutabréfunum vari yfir þrenn áramót og að árlega sé gerð grein fyrir eignarhaldi þeirra. Verði bréfin seld innan þess tíma færist nýttur frádráttur til tekna á söluári viðkomandi hlutabréfa, að viðbættu álagi. Kaupi skattaðili hins vegar bréf innan ársins fyrir sömu fjárhæð skal þó ekki tekjufæra frádráttinn.
    Í 5. og 6. mgr. er tekið fram að ekki sé heimilt að flytja á milli ára og nýta sem frádrátt það sem fjárfest er umfram hámark á hverju ári skv. 2. mgr. Að auki kemur fram að frádráttur heimilast frá tekjum skv. B-lið 7. gr. tekjuskattslaga.
    Í 7. mgr. er að finna heimild til að setja reglugerð um ýmsa þætti viðkomandi frádrættinum almennt.

Um 4. gr.


    Ákvæðið fjallar um fyrirkomulag á meðferð sérstaks frádráttar skv. 11. gr. laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki sem kemur til lækkunar á álögðum tekjuskatti sé hann fyrir hendi en ef skattalegt tap er af rekstri nýsköpunarfyrirtækisins er frádrátturinn greiddur út, að hluta eða öllu leyti þegar álagning opinberra gjalda lögaðila fer fram, að teknu tilliti til skuldajöfnunar.

Um 5. gr.


    Greinin fjallar um gildistöku og þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003,
um tekjuskatt, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt á þá leið að skattaðilum verði heimilaður frádráttur frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í hlutafjáraukningu nýsköpunarfyrirtækja. Viðkomandi hlutafélög þurfa að hafa fengið staðfestingu Rannsóknarmiðstöðvar Íslands, Rannís, sem nýsköpunarfyrirtæki í samræmi við lög um slík fyrirtæki.
    Frumvarpið er lagt fram samhliða öðru frumvarpi til laga um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Vísað er til umsagnar fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis um það frumvarp þar sem fjallað er um þessi áform og hugsanleg áhrif þeirra á afkomu ríkissjóðs.