Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 93. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 95  —  93. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, með síðari breytingum.

Flm.: Álfheiður Ingadóttir, Atli Gíslason, Björgvin G. Sigurðsson,


Höskuldur Þórhallsson, Ragnheiður E. Árnadóttir,


Valgerður Bjarnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir.



1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þjóðgarðurinn er að öllu leyti undanþeginn lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á 136. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu.
    Um þjóðgarðinn á Þingvöllum gilda sérstök lög, nr. 47/2004. Markmið þeirra er að varðveita ásýnd þjóðgarðsins sem friðlýsts helgistaðar þjóðarinnar. Lögin fela Þingvallanefnd að annast málefni þjóðgarðsins. Forsætisráðuneytið fer með yfirstjórn mála sem varða þjóðgarðinn, þ.m.t. úrskurðarvald í stjórnsýslukærum vegna ákvarðana Þingvallanefndar.
    Frá stofnun þjóðgarðsins hefur land innan hans verið leigt undir sumarhús. Hinn 1. júlí 2008 tóku gildi lög nr. 75/2008, um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Til þess að taka af allan vafa um að land innan þjóðgarðsins falli ekki undir gildissvið laga nr. 75/ 2008 er talið rétt að kveða sérstaklega á um það í lögum um þjóðgarðinn.