Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 69. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 103  —  69. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



     1.      Við 2. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Verklagsreglur sem settar eru skv. 1. mgr. skulu m.a. taka til eftirtalinna atriða:
              1.      Mats á eigna- og skuldastöðu skuldara.
              2.      Mats á greiðslugetu skuldara þar sem tekið skal tillit til eðlilegrar framfærslu.
              3.      Mats á aðstæðum skuldara, m.a. fjölskyldugerð, húsnæði og sérstökum aðstæðum.
              4.      Skilyrða sem kunna að verða sett fyrir ákvörðunum um breytingar á skilmálum skuldabréfa eða lánssamninga.
              5.      Skýrleika og réttmætis kröfu kröfueiganda.
              6.      Hlutlægni við ákvörðunartöku kröfueiganda.
     2.      Við 3. gr. Orðin „og hafa eftirlit með því að þeir framfylgi reglunum“ í 2. mgr. falli brott.
     3.      Á eftir 3. gr. komi nýr kafli, II. kafli, Eftirlit með sértækum aðgerðum, með tveimur nýjum greinum, 4. og 5. gr., svohljóðandi:
                  a.      (4. gr.)
                 

Eftirlitsnefnd.


                      Efnahags- og viðskiptaráðherra skipar faglega nefnd sem hefur eftirlit með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar, sbr. I. kafla. Í nefndina skal skipa þrjá menn, hagfræðing, endurskoðanda og einstakling sem uppfyllir skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og skal hann vera formaður nefndarinnar. Eftirlitshlutverk nefndarinnar nær eingöngu til eftirlitsskyldra aðila á fjármálamarkaði, sbr. lög nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
                      Efnahags- og viðskiptaráðuneyti ber kostnað af störfum nefndarinnar og skal hún heyra undir ráðherra. Enn fremur skal ráðuneytið leggja eftirlitsnefndinni til sérstakan starfsmann sem undirbýr fundi hennar og útvegar og vinnur upplýsingar sem nauðsynlegar eru fyrir störf nefndarinnar.
                      Ráðherra setur í samráði við hagsmunaaðila reglugerð um störf eftirlitsnefndar.
                  b.      (5. gr.)
                 

Hlutverk eftirlitsnefndar.


                      Eftirlitsnefnd skv. 4. gr. skal fylgjast með og kanna að eigin frumkvæði hvort eftirlitsskyldir aðilar á fjármálamarkaði framfylgja samræmdum reglum sem kunna að verða settar á grundvelli 2. gr. og reglum skv. 2. mgr. 3. gr. Nefndin skal enn fremur fylgjast með því að við framkvæmd sértækra aðgerða sé gætt sanngirni og jafnræðis milli skuldara.
                      Nefndin skal hafa samstarf við umboðsmann sem starfar í þágu viðskiptavina viðkomandi fjármálafyrirtækis ef hann er fyrir hendi.
                      Nefndin getur kallað eftir gögnum um ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli I. kafla. Ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, koma ekki í veg fyrir að nefndin fái afhent gögn eða aðgang að fundum. Nefndin skal bundin þagnarskyldu um gögn og upplýsingar sem hún kann að fá vitneskju um við starf sitt.
                      Telji nefndin að samræmdum reglum skv. 2. gr. og reglum á grundvelli 2. mgr. 3. gr. sé ekki fylgt eða sanngirni og jafnræðis ekki gætt skal hún greina ráðherra frá því í sérstöku áliti. Varði meint brot reglur á grundvelli 2. mgr. 3. gr. skal nefndin jafnframt skila áliti sínu til Fjármálaeftirlitsins. Nefndin skal þó gæta þagnarskyldu við gerð álita og gæta þess að ekki séu gefnar upplýsingar sem varpa ljósi á hvaða viðskiptavinur eigi í hlut.
                      Vakni grunur hjá nefndinni um að við framkvæmd reglnanna sé gengið að lögbundnu eigin fé eftirlitsskyldra aðila eða rekstri þeirra að öðru leyti skal hún tilkynna það til Fjármálaeftirlitsins.
                      Nefndin skal skila skýrslu til ráðherra um framkvæmd á ákvæðum I. kafla fyrir 1. mars 2010 sem ráðherra kynnir fyrir Alþingi. Ráðherra getur enn fremur óskað eftir skýrslu frá nefndinni eftir þann tíma, sem hann skal jafnframt kynna fyrir Alþingi.
     4.      Við 4. gr. Í stað orðanna „verðtryggðra lána“ í 1. efnismálsl. komi: verðtryggðra lána einstaklinga.
     5.      6. gr. falli brott.
     6.      Við 8. gr.
                  a.      Við bætist nýr stafliður, a-liður, svohljóðandi: Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórn Íbúðalánasjóðs er einnig heimilt að veita lántakendum lána til byggingar eða kaupa á leiguhúsnæði, sem og lánþegum eldri leiguíbúðalána sem Íbúðalánasjóður hefur yfirtekið, lán til skuldbreytingar á vanskilum til allt að 30 ára í því skyni að leysa úr tímabundnum greiðsluerfiðleikum.
                  b.      Í stað orðanna „enda sé tryggt“ í c-lið komi: enda sé tilgangur heimildarinnar.
     7.      Á eftir 8. gr. komi nýr kafli, V. kafli, Breytingar á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með einni nýrri grein, 10. gr., svohljóðandi:
                 Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                 Kröfueigendum er heimilt að gera samninga við einstaklinga um skuldbreytingar og breytingar á skilmálum lánssamninga þeirra, sem eftir atvikum kunna að leiða til eftirgjafar skulda, án þess að slíkir samningar leiði til skattskyldu fyrir aðila skv. 7. gr.
                 Skilyrði er þó að ákvarðanir um slíka samninga við einstaklinga taki mið af því hvort til eru eignir eða tryggingar upp í skuldina og að þær séu teknar á grundvelli reglna um nauðasamninga, nauðasamninga til greiðsluaðlögunar eða skv. 2. gr. laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins. Enn fremur er kröfueigendum heimilt að lækka höfuðstól gengis- og verðtryggðra skulda einstaklinga í tengslum við afnám gengis- eða verðtryggingar höfuðstóls ef slík eftirgjöf byggist á mati á núvirði skuldar fyrir og eftir lánskjarabreytingu og breytingunni er ekki ætlað að rýra virði skuldarinnar. Slíkar lækkanir geta verið samræmdar eftir tegundum lánssamninga.
                 Kröfueigendum er heimilt að draga fjárhæð eftirgefinnar skuldar, sbr. 1. mgr., frá tekjum sínum, sbr. 3. tölul. 31. gr., enda liggi fyrir að krafan tengist beint atvinnurekstri þeirra. Kröfueiganda er skylt að varðveita öll gögn sem voru forsendur eftirgjafarinnar þannig að unnt verði að sinna upplýsingaskyldu skv. 92. gr. Upplýsingar skulu veittar í því formi sem ríkisskattstjóri ákveður.
                 Ákvæðið gildir um ákvarðanir sem teknar eru á árunum 2009–2011 og uppfylla skilyrði 1.–3. mgr.
     8.      Við 9. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: I. og II. kafli falla brott 31. desember 2011.
     9.      Við bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  a.      (I.)
                      Ráðherra skal við gildistöku laga þessara skipa starfshóp með fulltrúum allra þingflokka, sérfræðingum og fulltrúum hagsmunaaðila. Hópurinn skal meta árangurinn af framkvæmd laganna og skoða álitaefni sem upp koma við framkvæmdina, sem og álitaefni tengd þinglýsingum og stöðu síðari veðhafa, samkeppnisréttarleg álitaefni sem tengjast lögunum og þörf á takmörkun á gildistíma laganna.
                      Þá skal starfshópurinn skoða stofnun nýs embættis umboðsmanns skuldara sem m.a. skuli gæta hags og réttinda skuldara, beita sér fyrir því að áhrif laga þessara séu í samræmi við markmið þeirra, vinna að því að tryggja jafnræði, sanngirni og gagnsæi í samskiptum og samningum fjármálafyrirtækja við skuldara og taka við og meðhöndla ábendingar og mál um misbeitingu laganna.
                      Starfshópurinn skal skila ráðherra fyrstu tillögum sínum og drögum að lagabreytingum eftir því sem efni standa til en þó eigi síðar en 1. mars 2010 og síðan eftir þörfum. Ráðherra skal að því búnu leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögunum.
                  b.      (II.)
                      Ráðherra skal leita leiða til að mæta skorti á langtímafjármögnun á íbúðalánamarkaði og tryggja fjármögnun og endurfjármögnun íbúðalána fyrir fjármálafyrirtæki og Íbúðalánasjóð.
                      Ráðherra skal leggja frumvarp þess efnis fyrir Alþingi.