Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 100. máls.

Þskj. 104  —  100. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)



1. gr.

    2. gr. laganna orðast svo:
    Héraðsdómur er dómstóll á fyrsta dómstigi og er hann einn fyrir landið allt.
    Dómstólaráð ákveður hvar héraðsdómur hefur fastar starfsstöðvar og hvernig landinu er skipt í þinghár. Auglýsing um þetta skal birt í Stjórnartíðindum.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. orðast svo: Dómstjóri héraðsdóms á sæti í dómstólaráði, en auk hans skulu tveir kjörnir þar til setu af héraðsdómurum úr þeirra röðum, einn skal kjörinn af Lögmannafélagi Íslands úr hópi starfandi hæstaréttarlögmanna og loks skipar ráðherra einn án tilnefningar og skal hann ekki vera starfandi dómari.
     b.      Orðin „sem sæti á í dómstólaráði“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.

3. gr.

    14. gr. laganna orðast svo:
    Auk þess sem mælt er fyrir um í öðrum ákvæðum þessara laga er hlutverk dómstólaráðs sem hér segir:
     1.      Að fara með á sína ábyrgð fjárreiður héraðsdóms, þar á meðal að gera tillögur til dómsmálaráðherra um fjárveitingar til hans.
     2.      Að ákveða hvar starfsstöðvar héraðsdóms eru á landinu og hversu margir dómarar og aðrir starfsmenn starfi við hverja þeirra, auk þess að setja almennar reglur um flutning dómara milli starfsstöðva.
     3.      Að ráða aðra starfsmenn en dómara til héraðsdóms og fara með öll málefni sem þá varða.
     4.      Að skipuleggja endurmenntun héraðsdómara og annarra starfsmanna héraðsdóms.
     5.      Að setja starfsreglur um samræmda framkvæmd við héraðsdóm, en dómstólaráð getur ákveðið að slíkar reglur verði bindandi ef þær varða ekki meðferð dómsmáls að því leyti sem dómari ber einn ábyrgð á henni, sbr. 1. mgr. 24. gr.
     6.      Að taka saman upplýsingar um fjölda mála og afgreiðslu þeirra og gefa eftir þörfum ábendingar af því tilefni, svo og að stuðla að öðru leyti að því að gætt sé skilvirkni og hraða við meðferð dómsmála.
     7.      Að setja eftir þörfum almennar reglur um viðveruskyldu héraðsdómara á vinnustað og tilhögun orlofs þeirra, þar á meðal hvort og þá hvernig dregið verði úr starfsemi héraðsdóms vegna orlofs dómara og annarra starfsmanna.
     8.      Að koma fram gagnvart stjórnvöldum og öðrum í þágu héraðsdóms í tengslum við atriði sem undir dómstólaráð heyra.
     9.      Að gera tillögur um hvað eina sem getur orðið til úrbóta í störfum héraðsdóms eða löggjöf sem þau varða.
    Dómstólaráð skipar ráðinu framkvæmdastjóra til fimm ára í senn. Framkvæmdastjóri stýrir daglegum rekstri dómstólaráðs eftir ákvörðun og í umboði þess, þar á meðal fjárreiðum héraðsdóms og málefnum starfsmanna.
    Dómstólaráð skal gefa út ársskýrslu um starfsemi héraðsdóms.

4. gr.

    15. gr. laganna orðast svo:
    Dómstólaráð ákveður við hvaða starfsstöð héraðsdóms dómari hefur skrifstofu. Sú ákvörðun getur hvort heldur gilt um óákveðinn tíma eða tiltekið tímabil. Þegar embætti héraðsdómara er laust skal að jafnaði taka ákvörðun um við hvaða starfsstöð dómari verður áður en það er auglýst laust til umsóknar.
    Eftir því sem frekast er unnt skal dómstólaráð taka tillit til óska héraðsdómara þegar ákveðið er við hvaða starfsstöð hann hefur skrifstofu.
    Héraðsdómari á rétt á að skipta um starfsvettvang svo fljótt sem verða má eftir að hafa starfað í þrjú ár samfleytt við sömu starfsstöð, enda standi ákvæði 4. mgr. því ekki í vegi.
    Héraðsdómari verður ekki færður á nýja starfsstöð gegn vilja sínum í lengri tíma en sex mánuði á hverju tíu ára tímabili ef hann getur ekki með góðu móti sótt vinnu þar án búferlaflutninga. Þetta gildir þó ekki ef flytja þarf dómara af starfsstöð sinni vegna varanlegra breytinga á starfsemi við hana.

5. gr.

    16. gr. laganna orðast svo:
    Héraðsdómarar kjósa dómstjóra og varadómstjóra úr sínum röðum til fimm ára í senn. Segi dómstjóri eða varadómstjóri því starfi lausu eða láti hann af dómaraembætti skal nýr maður kjörinn til starfans til loka kjörtímabils þess sem af því hefur látið.
    Auk þess að gegna dómstörfum fer dómstjóri með stjórn héraðsdóms að því er varðar meðferð og rekstur dómsmála og ber ábyrgð á henni. Þar á meðal skiptir hann verkum milli dómara og annarra starfsmanna héraðsdóms, hann getur skipt dómurum í deildir og úthlutar dómurum eða deildum þeirra málum, en heimilt er dómstjóra að fela dómara á starfsstöð, þar sem dómstjóri hefur ekki skrifstofu, að vinna þessi verk í umboði hans. Honum ber að fylgjast með störfum dómara og gæta aga gagnvart þeim að því leyti sem ekki kemur í hlut annarra skv. 28.–30. gr. Þá kemur dómstjóri að öðru leyti fram út á við í þágu héraðsdóms og er í fyrirsvari fyrir hann með þeirri takmörkun sem leiðir af 8. tölul. 1. mgr. 14. gr.

6. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Til aðstoðar dómurum má ráða lögfræðinga sem fullnægja skilyrðum 2.–6. tölul. 2. mgr. 12. gr. Aðstoðarmaður skal ráðinn til fimm ára og er heimilt að endurnýja þá ráðningu einu sinni. Að öðru leyti gilda um hann almennar reglur um starfsmenn ríkisins.
    Dómstjóri getur falið aðstoðarmanni önnur dómstörf en þau að fara með og leysa að efni til úr hvers konar einkamálum, þar sem vörnum er haldið uppi, og sakamálum frá því að þau koma til aðalmeðferðar. Dómstjóri ber ábyrgð á störfum aðstoðarmanns og getur gefið honum fyrirmæli um hvað eina sem lýtur að rækslu þeirra.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      2. málsl. 1. mgr. fellur brott.
     b.      4. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      3. og 4. málsl. 4. mgr. falla brott.
     d.      2. og. 3. málsl. 5. mgr. falla brott.
     e.      2. málsl. 6. mgr. fellur brott.

8. gr.

    1. mgr. 19. gr. laganna orðast svo:
    Fullnægi enginn dómari við héraðsdóm sérstökum hæfisskilyrðum til að fara með mál kveður dómstjóri í einu lagi upp úrskurð um að þeir víki allir sæti í því. Dómsmálaráðherra skipar þá setudómara til að fara með málið.

9. gr.

    Orðin „sérstakar annir krefji og“ í 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. laganna falla brott.

10. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 21. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Héraðsdómur skal hafa fastan þingstað í hverri þinghá samkvæmt ákvörðun dómstólaráðs. Um þetta skal birt auglýsing með sama hætti og segir í 2. mgr. 2. gr.
     b.      2. málsl. 2. mgr. fellur brott.

11. gr.

    Í stað orðsins „héraðsdómstóla“ í 1. málsl. 22. gr. laganna kemur: héraðsdóm.

12. gr.

    Fyrirsögn III. kafla laganna verður: Héraðsdómur.

13. gr.

    Orðin „fyrir héraðsdómi Reykjavíkur“ í 1. málsl. 1. mgr. 30. gr. laganna falla brott.

14. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010.

15. gr.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á öðrum lögum:
     1.      Lög um landsdóm, nr. 3/1963, með síðari breytingum:
              a.      A-liður 1. mgr. 2. gr. laganna orðast svo: þeir fimm dómarar við Hæstarétt sem hafa átt þar lengst sæti, dómstjóri héraðsdóms og prófessorinn í stjórnskipunarrétti við Háskóla Íslands. Hæstiréttur kveður til varadómendur hæstaréttardómara úr hópi annarra hæstaréttardómara og síðan lagakennara við háskóla, hæstaréttarlögmanna eða héraðsdómara, sem fullnægja skilyrðum til þess að vera skipaðir dómarar í Hæstarétti. Varamaður dómstjóra héraðsdóms er varadómstjóri, en að honum frágengnum sá héraðsdómari sem lengst hefur gegnt því embætti. Lagadeild Háskóla Íslands kýs varamann prófessorsins í stjórnskipunarrétti.
              b.      Í stað orðanna „viðkomandi héraðsdómara“ í 2. málsl. 22. gr. laganna kemur: héraðsdóms.
     2.      Þinglýsingalög, nr. 39/1978, með síðari breytingum: Í stað orðanna „héraðsdómara í lögsagnarumdæmi þinglýsingarstjóra“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: héraðsdóm, en það skal gert á starfsstöð héraðsdóms í umdæmi þinglýsingarstjóra.
     3.      Lög um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, nr. 24/1986, með síðari breytingum: Orðið „Reykjavíkur“ í 2. og 3. málsl. 3. mgr. 9. gr. laganna fellur brott.
     4.      Lög um aðför, nr. 90/1989, með síðari breytingum: 4. mgr. 4. gr. laganna orðast svo:
                  Að því leyti sem málefni samkvæmt lögum þessum koma til kasta héraðsdóms skal þeim beint til starfsstöðvar hans í umdæmi þess sýslumanns sem fer með viðkomandi aðfarargerð, nema annað sé sérstaklega tekið fram.
     5.      Lög um kyrrsetningu, lögbann o.fl., nr. 31/1990, með síðari breytingum: 3. gr. laganna orðast svo:
                  Að því leyti sem fyrirmæli laga þessara heimila að ágreiningur um gerð verði borinn undir héraðsdóm, án þess að um mál sé að ræða til staðfestingar á gerðinni, skal ágreiningi beint til starfsstöðvar héraðsdóms í umdæmi þess sýslumanns sem fer með gerðina.
     6.      Lög um einkaleyfi, nr. 17/1991, með síðari breytingum: Orðið „Reykjavíkur“ í 1. málsl. 50. gr. og 1. mgr. 64. gr. laganna fellur brott.
     7.      Lög um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, með síðari breytingum:
              a.      Inngangsmálsliður 1. mgr. 42. gr. laganna orðast svo: Kröfu um opinber skipti skal beint skriflega til starfsstöðvar héraðsdóms í umdæmi þess sýslumanns sem skiptin eiga undir.
              b.      1. mgr. 101. gr. laganna orðast svo:
                     Krafa um opinber skipti skal vera skrifleg og skal henni beint til héraðsdóms í þeirri þinghá þar sem aðilarnir eiga eða áttu síðast sameiginlegt lögheimili, nema þeir semji um annað.
              c.      1. mgr. 117. gr. laganna orðast svo:
                     Ef krafist er opinberra skipta til slita á skrásettu félagi skal beiðni um þau beint til héraðsdóms í þeirri þinghá þar sem félagið á varnarþing. Sé félag óskrásett skal beiðninni beint til héraðsdóms í þeirri þinghá þar sem félagið hefur aðalstöðvar. Ráðist þinghá ekki með þessum hætti skal krafist skipta í þinghá þar sem formaður félagsstjórnar á heimilisvarnarþing, en sé formaður enginn, þá í þinghá þar sem sá sem krefst skiptanna á heimilisvarnarþing.
              d.      Í stað orðanna „þeim héraðsdómstól sem hefur lögsögu“ í 2. málsl. 2. mgr. 119. gr. laganna kemur: starfsstöð héraðsdóms.
              e.      Í stað orðanna „þess héraðsdómstóls“ í 1. málsl. 1. mgr. 121. gr. laganna kemur: starfsstöðvar héraðsdóms.
              f.      Í stað orðanna „þess héraðsdómstóls“ í 1. málsl. 1. mgr. 122. gr. laganna kemur: þeirrar starfsstöðvar héraðsdóms.
              g.      Í stað orðanna „þess héraðsdómstóls sem hefur lögsögu“ í 1. málsl. 1. mgr. 123. gr. laganna kemur: starfsstöðvar héraðsdóms.        
              h.      Eftirfarandi breytingar verða á 124. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „þeim héraðsdómstól“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: þeirri starfsstöð héraðsdóms.
                 b.      Í stað orðanna „þeim héraðsdómstól sem kvað“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: þeirri starfsstöð héraðsdóms þar sem kveðið var.
     8.      Lög um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum:
               a.      Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:
                  a.      Í stað orðanna „héraðsdómstóls í því umdæmi“ í 1. mgr. kemur: héraðsdóms í þeirri þinghá.
                 b.      2. mgr. orðast svo:
                         Ef samtímis er beiðst heimildar til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafist gjaldþrotaskipta hjá einum manni eða fleirum og firma eða félagi, sbr. 1. mgr. 5. gr., og varnarþing þeirra er ekki það sama, má setja fram kröfu eða beiðni fyrir héraðsdómi í þinghá þar sem einhver þeirra á varnarþing.
                 c.      3. mgr. orðast svo:
                         Ef beiðni eða krafa kemur fram í þinghá þar sem ekki verður farið með hana skal héraðsdómari beina henni til meðferðar í réttri þinghá, en sá dagur sem beiðni eða krafa barst fyrst héraðsdómi telst frestdagur án tillits til þessa.
                 d.      4. mgr. orðast svo:
                         Farið verður með beiðni eða kröfu í þeirri þinghá þar sem hún kom réttilega fram þótt skuldari flytji lögheimili sitt eða skráð varnarþing úr þinghánni áður en endanleg afstaða er tekin til beiðninnar eða kröfunnar.
                 e.      1. málsl. 5. mgr. orðast svo: Beiðnum eða kröfum skuldarans eða annarra varðandi heimild til greiðslustöðvunar skal beint til héraðsdóms í þeirri þinghá þar sem heimildin var veitt í byrjun þótt skuldarinn hafi flutt lögheimili sitt eða skráð varnarþing úr þinghánni eftir að heimildin var veitt.
              b.      Í stað orðsins „héraðsdómstóla“ í 1. mgr. 9. gr. laganna kemur: héraðsdóm.
              c.      Á eftir orðinu „héraðsdóms“ í 1. málsl. 1. mgr. 169. gr. laganna kemur: í þinghánni.
              d.      Í stað orðanna „þess héraðsdómstóls“ í 1. málsl. 1. mgr. 171. gr. laganna kemur: héraðsdóms í þeirri þinghá.
              e.      Í stað orðanna „þeim héraðsdómstól“ í 2. málsl. 1. mgr. 172. gr. laganna kemur: þeirri starfsstöð héraðsdóms.
     9.      Lög um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum:
              a.      4. mgr. 3. gr. laganna orðast svo:
                     Að því leyti sem málefni samkvæmt þessum lögum koma til kasta héraðsdóms skal þeim beint til starfsstöðvar hans í umdæmi sýslumannsins sem fer með nauðungarsöluna.
              b.      1. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Við héraðsdóm skal halda skrá um þau mál sem hann fær til meðferðar eftir ákvæðum þessara laga.
     10.      Lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, með síðari breytingum:
              a.      2. mgr. 1. gr. laganna orðast svo:
                      Í héraði eiga mál samkvæmt lögum þessum undir héraðsdóm.
              b.      2. málsl. 3. mgr. 4. gr. laganna orðast svo: Dómsformaður stýrir þó dómi, kveður einn upp úrskurði um annað en frávísun máls, gefur út kvaðningar og tilkynningar, heldur þing til uppkvaðningar dóms, annast gerð og staðfestingu dómgerða og kemur fram út á við fyrir hönd dómsins.        
              c.      Í stað orðanna „hvern héraðsdómstól“ í 1. málsl. 1. mgr. 11. gr. og 1. og 2. mgr. 12. gr. laganna kemur: héraðsdóm.
              d.      Í stað orðanna „hlutaðeigandi dómstóls“ í 1. málsl. 2. mgr. 13. gr. laganna kemur: héraðsdóms.
              e.      Í stað orðanna „fyrir öðrum dómi“ í 2. málsl. 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: fyrir dómara við aðra starfsstöð héraðsdóms.
              f.      4. mgr. 61. gr. laganna fellur brott.
              g.      Eftirfarandi breytingar verða á 73. gr. laganna:
                 a.      Í stað orðanna „fyrir öðrum dómi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: við aðra starfsstöð héraðsdóms.
                 b.      Í stað orðsins „dómi“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: starfsstöð héraðsdóms.
              h.      1. mgr. 74. gr. laganna orðast svo:
                     Ef gagnaöflun á að fara fram hér á landi við aðra starfsstöð héraðsdóms en þar sem mál er rekið sendir dómari í málinu hlutaðeigandi starfsstöð skriflegt erindi ásamt beiðni aðila, frumritum eða myndritum nauðsynlegra gagna og endurritum úr þingbók.
              i.      Í stað orðanna „öðrum dómi“ í 1. málsl. 2. mgr. og 1. málsl. 3. mgr. 75. gr. laganna kemur: dómi þar sem mál er ekki rekið.
              j.      Fyrirsögn XI. kafla laganna verður: Öflun sönnunargagna fyrir dómi á öðrum stað en þar sem mál er rekið.
              k.      Eftirfarandi breytingar verða á 91. gr. laganna:
                 a.      1. mgr. orðast svo:
                         Ef stefndi á skráð lögheimili, fasta búsetu eða dvalarstað hér á landi skal stefnufrestur vera ein vika.
                 b.      2. mgr. fellur brott.
                 c.      Orðin „án tillits til ákvæða 2.–4. mgr.“ í 1. málsl. 5. mgr. falla brott.
              l.      Í stað orðanna „sama eða hliðsettan dómstól“ í 1. málsl. 2. mgr. 116. gr. laganna kemur: héraðsdóm.
              m.      Eftirfarandi breytingar verða á 123. gr. laganna:
                 a.      2. mgr. orðast svo:
                         Aðili sem æskir málsmeðferðar eftir reglum þessa kafla skal afhenda dómstjóra héraðsdóms stefnu ásamt skriflegri beiðni um útgáfu hennar og þeim málsgögnum sem geta stutt beiðnina. Í stefnu skal höfð eyða til þess að dómari geti skráð þar stað og stund til þingfestingar og stefnufrest og skal tekið fram í texta hennar að dómstjóri hafi fallist á beiðni um að málið sæti flýtimeðferð. Í beiðni skal rökstutt ítarlega hvernig megi telja skilyrðum 1. mgr. fullnægt.
                 b.      Í stað orðsins „dómari“ í 1. málsl. 3. mgr. kemur: dómstjóri.
                 c.      Í stað orðanna „forstöðumaður dómstóls“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: dómstjóri.
              n.      Eftirfarandi breytingar verða á 138. gr. laganna:
                 a.      Í stað orðanna „þess dóms þar sem dómur gekk eða stefna var árituð“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: héraðsdóms.
                 b.      Orðin „eða berst röngum dómi“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
               o.      Í stað orðanna „öðrum dómi“ í e-lið 1. mgr. 143. gr. laganna kemur: dómi á öðrum stað en þar sem mál er rekið.
              p.      Orðin „fyrir hverjum héraðsdómstóli var leyst úr málinu“ í a-lið 1. mgr. 155. gr. laganna falla brott.
              q.      Í stað orðanna „héraðsdómstólsins, þar sem leyst var úr máli“ í 3. mgr. 156. gr. laganna kemur: héraðsdóms.
     11.      Lög um alþjóðlega samvinnu um fullnustu refsidóma, nr. 56/1993, með síðari breytingum: Í stað orðanna „þann héraðsdóm sem kvað upp útivistardóminn“ í 1. málsl. 1. mgr. 36. gr. laganna kemur: héraðsdóm þar sem útivistardómurinn var kveðinn upp.
     12.      Lög um fjöleignarhús, nr. 26/1994, með síðari breytingum: Í stað orðanna „viðkomandi héraðsdóms“ í 1. málsl. 3. mgr. 22. gr. a laganna kemur: héraðsdóms á varnarþingi fasteignarinnar.
     13.      Lög um réttaraðstoð við alþjóðadómstólinn sem fjallar um stríðsglæpi í fyrrum Júgóslavíu, nr. 49/1994, með síðari breytingum: Í stað orðanna „viðkomandi héraðsdómstóls“ í 9. gr. laganna kemur: héraðsdóms.
     14.      Sóttvarnalög, nr. 19/1997, með síðari breytingum: Í stað orðanna „því umdæmi“ í 1. málsl. 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: þeirri þinghá.
     15.      Lögræðislög, nr. 71/1997, með síðari breytingum:
              a.      Í stað orðanna „sama dómstóli“ í 1. mgr. 6. gr. laganna kemur: héraðsdómi.
              b.      Í stað orðanna „héraðsdóm Reykjavíkur“ í 3. málsl. 9. gr. laganna kemur: héraðsdóm í Reykjavík.
              c.      Í stað orðanna „viðkomandi dómstóls“ í 1. málsl. 3. mgr. 30. gr. laganna kemur: héraðsdóms.
              d.      Í stað orðanna „viðkomandi dómstóli“ í 1. málsl. 6. mgr. 31. gr. laganna kemur: héraðsdómi.
     16.      Lög um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum: Í stað orðanna „því umdæmi“ í 1. málsl. 3. mgr. 101. gr. laganna kemur: þeirri þinghá.
     17.      Barnalög, nr. 76/2003, með síðari breytingum: Í stað orðanna „héraðsdómi Reykjavíkur“ í 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 37. gr. laganna kemur: héraðsdómi í Reykjavík.
     18.      Lög um Evrópufélög, nr. 26/2004, með síðari breytingum: Í stað orðanna „því umdæmi“ í 1. málsl. 14. gr. laganna kemur: þeirri þinghá.
     19.      Lög um öflun sönnunargagna vegna ætlaðra brota á hugverkaréttindum, nr. 53/2006: Í stað orðanna „því umdæmi“ í 1. mgr. 5. gr. laganna kemur: þeirri þinghá.
     20.      Lög um evrópsk samvinnufélög, nr. 92/2006: Í stað orðanna „því umdæmi“ í 1. málsl. 15. gr. laganna kemur: þeirri þinghá.
     21.      Lög um meðferð sakamála, nr. 88/2008, með síðari breytingum:
              a.      Í stað orðanna „hina reglulegu héraðsdómstóla“ í 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: héraðsdóm.
              b.      Í stað orðanna „hvern héraðsdómstól“ í 1. málsl. 1. mgr. 13. gr., 14. gr. og 1. mgr. 17. gr. laganna kemur: héraðsdóm.
              c.      Í stað orðanna „hlutaðeigandi dómstóls“ í 2. mgr. 15. gr. laganna kemur: héraðsdóms.
              d.      49. gr. laganna orðast svo:
                     Kröfu um rannsóknaraðgerð sem atbeina dómara þarf til skal beint til héraðsdóms. Heimilt er lögreglustjóra sem stýrir rannsókn brots að bera kröfu sína upp við héraðsdómara á starfsstöð héraðsdóms í umdæmi lögreglustjórans. Eins skal farið að þegar ágreiningur skv. 2. mgr. 102. gr. er borinn undir dómara.
              e.      Eftirfarandi breytingar verða á 50. gr. laganna:
                 a.      Orðin „hafi þau öll verið framin í umdæmi sama héraðsdómstóls“ í 2. málsl. 2. mgr. falla brott.
                 b.      3. mgr. orðast svo:
                         Höfða má mál í hvaða þinghá sem er á landinu ef brot var framið á íslensku skipi eða í loftfari utan þingháa, svo og ef brot var framið erlendis og mál um það sætir lögsögu íslenskra dómstóla.
              f.      51. gr. laganna orðast svo:
                     Ef ríkissaksóknari, héraðssaksóknari eða lögreglustjóri ber undir dóm mál sem sætir afbrigðilegri meðferð skv. XXVII. kafla skal það gert í þinghá í því umdæmi þar sem hann hefur starfsstöð eða sá sem málið varðar á heimilisvarnarþing. Sé slíkt mál borið undir dóm af öðrum skal það gert í þinghá þar sem hann á sjálfur heimilisvarnarþing en sé það ekki fyrir hendi, þá í hvaða þinghá sem er á landinu.
              g.      Í stað orðanna „fyrir öðrum dómi“ í 2. málsl. 1. mgr. 112. gr. laganna kemur: fyrir dómara við aðra starfsstöð héraðsdóms.
              h.      4. mgr. 128. gr. laganna fellur brott.
              i.      Eftirfarandi breytingar verða á 138. gr. laganna:
                 a.      Í stað orðanna „fyrir öðrum dómi“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: við aðra starfsstöð héraðsdóms.
                  b.      Í stað orðsins „dómi“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: starfsstöð héraðsdóms.
              j.      1. mgr. 139. gr. laganna orðast svo:
                     Ef gagnaöflun á að fara fram hér á landi við aðra starfsstöð héraðsdóms en þar sem mál er rekið sendir dómari í málinu hlutaðeigandi starfsstöð skriflegt erindi ásamt beiðni aðila, frumritum eða myndritum nauðsynlegra gagna og endurritum úr þingbók.
              k.      Í stað orðanna „öðrum dómi“ í 1. málsl. 2. mgr. 140. gr. laganna kemur: dómi þar sem mál er ekki rekið.
              l.      Fyrirsögn XXI. kafla laganna verður: Öflun sönnunargagna fyrir dómi á öðrum stað en þar sem mál er rekið.
              m.      Eftirfarandi breytingar verða á 150. gr. laganna:
                 a.      Í stað orðanna „þess dómstóls þar sem máli var lokið“ í 2. málsl. 5. mgr. kemur: héraðsdóms.
                  b.      Í stað orðanna „hlutaðeigandi dómstóli“ í 1. málsl. 6. mgr. kemur: héraðsdómi.
              n.      A-liður 1. mgr. 152. gr. laganna orðast svo: í hvaða þinghá málið verður rekið fyrir héraðsdómi.
              o.      Í stað orðanna „sama dómstóli“ í 1. mgr. 169. gr. laganna kemur: héraðsdómi.
              p.      Í stað orðanna „sama dómstóli“ í 1. málsl. 3. mgr. 175. gr. laganna kemur: héraðsdómi í sömu þinghá.
              q.      Í stað orðanna „viðeigandi héraðsdóms“ í 2. málsl. 2. mgr. 178. gr. laganna kemur: héraðsdóms í viðeigandi þinghá.
              r.      Orðin „dómstól og“ í 1. málsl. 2. mgr. 183. gr. laganna falla brott.
              s.      Í stað orðanna „sama eða hliðsettan dómstól“ í 1. málsl. 2. mgr. 186. gr. laganna kemur: héraðsdóm.
              t.      Eftirfarandi breytingar verða á 188. gr. laganna:
                 a.      Í stað orðanna „þess dómstóls þar sem útivistardómur gekk“ í 1. málsl. 1. mgr. kemur: héraðsdóms.
                  b.      Orðin „hún berst röngum dómstóli“ í 1. málsl. 2. mgr. falla brott.
              u.      Í stað orðanna „öðrum dómi“ í q-lið 1. mgr. 192. gr. laganna kemur: dómi á öðrum stað en þar sem mál er rekið.
              v.      Orðin „fyrir hverjum héraðsdómstóli var leyst úr því“ í a-lið 2. mgr. 201. gr. laganna falla brott.
              w.      Í stað orðanna „héraðsdómstóllinn, þar sem leyst var úr máli“ í 1. mgr. 202. gr. laganna kemur: héraðsdómur.
     22.      Lög um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna á íbúðarhúsnæði, nr. 50/2009: Í stað orðanna „héraðsdómstóls í því umdæmi“ í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: héraðsdóms í þeirri þinghá.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir fyrirmæli 14. gr. taka lög þessi þegar gildi á þann hátt að dómstólaráð getur fyrir 1. janúar 2010 tekið þær ákvarðanir sem um ræðir í 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga um dómstóla, sbr. 1. og 10. gr. þessara laga, þótt þær komi ekki til framkvæmda fyrr en nefndan dag. Þá skal fyrir þann tíma kjósa dómstjóra og varadómstjóra héraðsdóms og skipa framkvæmdastjóra dómstólaráðs, sem taka til starfa 1. janúar 2010, svo og tilnefna og skipa menn til að taka sæti í dómstólaráði frá þeim degi.
    Þegar skipað er í fyrsta sinn í dómstólaráð eftir gildistöku laga þessara skal einn aðalmaður ásamt varamanni skipaður til eins árs, annar aðalmaður ásamt varamanni til tveggja ára og síðan koll af kolli þannig að fimmti aðalmaður ásamt varamanni verður skipaður til fimm ára. Skal skipunartími hvers ákveðinn af tilviljun þegar ráðið er hverjir veljast þar til starfa. Ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. 13. gr. laga um dómstóla um bann við skipun sama aðalmanns í dómstólaráði oftar en tvisvar samfleytt skulu ekki girða fyrir að aðalmenn, sem skipaðir verða nú til eins árs eða tveggja ára, verði skipaðir tvívegis á ný til að eiga þar sæti eftir að sá skipunartími er á enda eða að aðalmaður, sem átt hefur sæti í dómstólaráði þrjú ár eða skemur við gildistöku laga þessara, verði skipaður tvisvar samfleytt eftir það. Við gildistöku laga þessara tekur héraðsdómur skv. 1. mgr. 2. gr. laga um dómstóla, sbr. 1. mgr. 1. gr. þessara laga, við öllum eignum og skuldbindingum héraðsdómstólanna átta. Frá sama tíma verða stöður dómstjóra skv. 16. gr. laga um dómstóla lagðar niður og störf starfsmanna dómstólanna flutt yfir til héraðsdóms.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum réttarfarsnefndar að tilhlutan dóms- og kirkjumálaráðherra. Frumvarpið á þann aðdraganda að dómstólaráð gerði vorið 2009 tillögur til ráðherra í tengslum við ráðagerðir um sparnað í rekstri héraðsdómstóla, þar sem því var meðal annars hreyft að draga mætti talsvert úr kostnaði af þeim með því að sameina þá, en halda þó starfsemi þeirra áfram eftir þörfum utan höfuðborgarsvæðisins á sérstökum starfsstöðvum. Með þessu mundi kostnaður minnka vegna yfirstjórnar og húsnæðis auk tækjabúnaðar og mannahalds, þótt dómurum yrði ekki fækkað. Um leið mætti stuðla að því að starfskraftar dómara nýttust betur með því að þeir yrðu ekki hver um sig bundnir við tiltekinn dómstól, heldur gætu þeir starfað við héraðsdóm hvar sem er á landinu og yrði þannig betur fært að mæta álagi á einstökum stöðum þegar þörf krefði. Á þennan hátt yrði einnig búið í haginn til að mæta auknu álagi á héraðsdómstóla, sem reiknað hefur verið með vegna aðstæðna í þjóðfélaginu, en vænta mætti að síður yrði þá þörf á að fjölga héraðsdómurum í bráð af þeim sökum. Á grundvelli þessara tillagna hefur frumvarpið verið samið og hefur í þeim efnum verið haft samráð við dómstólaráð.
    Sú meginástæða að baki frumvarpinu sem að framan greinir veldur því að gera verður tillögur um margvíslegar breytingar á lögum um dómstóla, nr. 15/1998, og þá ekki aðeins á 2. gr. þeirra, þar sem nú er mælt fyrir um tilvist átta héraðsdómstóla, sem hver fer með dómsvald á fyrsta stigi í nánar tilgreindu umdæmi. Samhliða breytingu á því ákvæði þarf öðru fremur að endurskoða reglur um stjórn héraðsdóms, sem eftir frumvarpinu yrði einn fyrir landið allt, annars vegar varðandi dómstjóra og hins vegar dómstólaráð. Í frumvarpinu felst sú ráðagerð að dómstjóri, sem yrði einn ásamt föstum varadómstjóra, færi eins og núverandi stjórnendur héraðsdómstólanna átta, sem bera sama starfsheiti, með faglega yfirstjórn sameinaðs héraðsdóms og stýrði þar verkum við meðferð og rekstur dómsmála, sem hann bæri ábyrgð á. Dómstólaráð, sem skipað yrði nokkuð á annan veg en eftir gildandi reglum, færi á hinn bóginn með yfirstjórn alls, sem varði stjórnsýslu, fjármál og málefni annarra starfsmanna við héraðsdóm en dómaranna. Verkaskipting þessi er að nokkru leyti við lýði eftir núverandi reglum, en þó með þeim hætti að hver héraðsdómstóll hefur haft sjálfstæðan rekstur með viðeigandi starfsemi og stjórnsýslu undir yfirstjórn dómstjórans á hverjum stað, en dómstólaráð hefur haft með höndum að deila út til þeirra fé, sem þeim er veitt í einu lagi með fjárlögum, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 14. gr. laga um dómstóla. Með þeirri meginbreytingu sem felst í frumvarpinu gefst tækifæri til að skerpa á þessari verkaskiptingu og afnema þátttöku og stjórn dómstjóra á þessum þætti í starfsemi héraðsdóms, en þess í stað leggja áherslu á hlutverk dómstjóra sem faglegs stjórnanda dómsins. Þessar hugmyndir eru ekki nýjar, enda var við undirbúning frumvarps sem varð að lögum um dómstóla hugað rækilega að þeim kosti að hafa aðeins einn héraðsdómstól fyrir allt landið og skipta verkum milli dómstjóra og dómstólaráðs í meginatriðum á þann hátt sem hér er lagt til. Á þeim tíma fékkst á hinn bóginn ekki nægur hljómgrunnur fyrir slíkum breytingum. Undanfarinn áratug hefur fengist góð reynsla af þeirri skipan sem lögin leiddu af sér, meðal annars með starfsemi dómstólaráðs og þeirri tilhögun að héraðsdómarar eru ekki skipaðir til starfa við tiltekinn dómstól, heldur ákveður dómstólaráð við hvaða dómstól hver dómari hefur fast sæti. Á vissan hátt má líta svo á að gildandi reglur hafi orðið áfangi í þróun sem nú er lagt til að lokið verði með sameiningu héraðsdómstóla í eina stofnun. Ljóst er að með því að stíga þetta skref til fulls fengist talsverður sparnaður í rekstri og hagræðing, auk þess sem meiri festa yrði í faglegum þætti starfseminnar.
    Flest ákvæði frumvarpsins, sem miða að breytingum á lögum um dómstóla, snúa að þeim atriðum sem að framan er getið. Frá þessu er sú undantekning helst að í 6. gr. frumvarpsins er gerð tillaga um breytingar á reglum 17. gr. laganna um störf löglærðra aðstoðarmanna við héraðsdóm. Eins og málum er nú háttað geta þeir ekki í eigin nafni gegnt dómstörfum, en í reynd hafa þeir leyst af hendi margvísleg verk af þeim meiði í nafni og undir umsjón dómstjóra eða einstakra héraðsdómara. Á sínum tíma komu stöður aðstoðarmanna í stað dómarafulltrúa, sem gátu sinnt tilteknum dómstörfum í eigin nafni, en með setningu laga um dómstóla var stefnt að því að breyta eðli starfa þessara lögfræðinga við héraðsdómstólana þannig að þeir yrðu dómurum fremur til hjálpar en að þeir fengjust sjálfstætt við verk. Nú er rúmur áratugur liðinn frá því að breyttar reglur um þetta tóku gildi, en í reynd hafa þær ekki komið að fullu til framkvæmda eins og ætlast var til. Ætla má að ýmislegt búi þar að baki, en öðru fremur virðast fjárhagslegar ástæður hafa valdið því að fjöldi aðstoðarmanna hefur ekki náð þeirri tölu að raunhæft yrði að koma að fullu á þeirri tilhögun, sem stefnt var að í byrjun. Á undanförnum árum hefur því í auknum mæli verið hreyft á vettvangi héraðsdómstóla að hverfa ætti frá þessu og veita aðstoðarmönnum heimildir til takmarkaðra starfa í eigin nafni, en á ábyrgð og undir umsjón dómstjóra. Tillaga um þetta var meðal annars flutt á Alþingi í frumvarpi um breyting á lögum um dómstóla, sem þáverandi dóms- og kirkjumálaráðherra flutti á 133. löggjafarþingi 2006–2007 (496. mál), en það frumvarp varð ekki útrætt. Í tillögum dómstólaráðs til ráðherra, sem urðu kveikjan að þessu frumvarpi, var meðal annars bent á að breyting af þessum toga gæti aukið nokkuð afköst við héraðsdómstólana án þess að til þyrfti að koma fjölgun starfsmanna. Ekki verður annað séð en að sú ábending eigi rétt á sér og er því lagt til með 6. gr. frumvarpsins að aðstoðarmenn fái heimildir til dómstarfa í sama mæli og dómarafulltrúar höfðu síðustu árin fyrir gildistöku laga um dómstóla.
    Auk þeirra atriða sem rætt er um að framan leiða tillögur um nýja skipan héraðsdóms til þess að breyta verður fjölmörgum ákvæðum í öðrum lögum þeim til samræmis. Tillögur um það efni er að finna í 15. gr. frumvarpsins. Þær snúa að mestu leyti að ákvæðum annarra laga þar sem rætt er á einn eða annan hátt um héraðsdómstóla í tilteknu umdæmi, en slíkt ætti ekki lengur við ef frumvarp þetta yrði að lögum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í þessari grein er að finna viðamestu breytinguna sem felst í frumvarpinu. Þar er nánar tiltekið mælt svo fyrir í 1. mgr. að héraðsdómur sé dómstóll á fyrsta dómstigi og sé hann einn fyrir landið allt. Ástæðurnar fyrir þessari breytingu hafa verið skýrðar að framan í almennum athugasemdum, en með þessu yrði horfið frá þeirri skipan, sem nú gildir, að héraðsdómstólar séu átta og hafi hver um sig landfræðilega afmarkað umdæmi. Ítrekað skal að með þessu yrði ekki horfið frá því að héraðsdómur hefði starfsstöðvar á ýmsum stöðum á landinu, þar sem dómarar hefðu fastan vinnustað og yrðu eftir atvikum búsettir. Skv. 2. mgr. þessarar greinar kæmi í hlut dómstólaráðs að ákveða hvar þessar starfsstöðvar yrðu, auk þess að mæla fyrir um skiptingu landsins í þinghár, en um þetta yrði birt auglýsing í Stjórnartíðindum. Um skiptingu landsins í þinghár eru nú fyrirmæli í 2. mgr. 2. gr. laganna þar sem boðið er að umdæmi hvers dómstóls sé ein þinghá, en frá því megi þó víkja samkvæmt ákvörðun dómsmálaráðherra í reglugerð sem setja skuli að fenginni umsögn viðkomandi dómstóls og dómstólaráðs. Eðlilegt þykir að breyta þessu á þann veg að dómstólaráð taki ákvörðun um skiptingu landsins í þinghár samhliða því að mæla fyrir um hvar starfsstöðvar héraðsdóms yrðu.

Um 2. gr.


    Í 13. gr. laga um dómstóla eru ákvæði sem aðallega varða skipan dómstólaráðs, en skv. 1. mgr. þeirrar greinar eiga þar sæti fimm menn, sem skipaðir eru af dómsmálaráðherra ásamt jafn mörgum varamönnum til fimm ára í senn. Af þeim eru tveir kjörnir af héraðsdómurum úr þeirra röðum, tveir eru kjörnir af dómstjórum úr þeirra hópi og einn er skipaður af ráðherra án tilnefningar. Þá eru í 2. mgr. reglur um hvernig brugðist verður við ef héraðsdómari eða dómstjóri, sem á sæti í dómstólaráði, lætur af embætti sínu eða starfi eða fær lausn frá sæti sínu þar. Í 5. gr. frumvarpsins er lagt til að einn dómstjóri verði kjörinn til að veita héraðsdómi forstöðu og verður vegna þeirrar breytingar að mæla fyrir um nýja skipan dómstólaráðs. Með a-lið 2. gr. frumvarpsins er af þessum sökum gert ráð fyrir því að í stað tveggja dómstjóra, sem kjörnir eru til starfa þar, eigi dómstjórinn sjálfkrafa sæti í dómstólaráði, en hitt sætið, sem losni með þessu, verði skipað þannig að Lögmannafélag Íslands tilnefni í það starfandi hæstaréttarlögmann. Með b-lið greinarinnar er mælt fyrir um brottfall orða í 2. mgr. 13. gr. laganna sem snúa að þeirri aðstöðu að dómstjóri, sem á sæti í dómstólaráði, láti af því starfi, en ummæli í ákvæðinu, sem þetta varða, yrðu óþörf ef frumvarpið yrði að lögum, enda ætti dómstjórinn sem fyrr segir ávallt sæti sjálfkrafa í dómstólaráði í skjóli stöðu sinnar.

Um 3. gr.


    Hér er kveðið á um hlutverk dómstólaráðs. Eins og getið var í almennum athugasemdum hér að framan er gengið út frá því í frumvarpinu að dómstólaráð fái viðameira hlutverk en nú er mælt fyrir um í 14. gr. laganna með því að í hlut ráðsins kæmi auk núverandi verkefna að fara á sína ábyrgð með allar fjárreiður sameinaðs héraðsdóms ásamt starfsmannahaldi við þá að frátöldu því sem varðar dómara við dómstólinn. Með þessu yrði úr sögunni hlutverk dómstjóra í þessum efnum, en skv. 5. mgr. 16. gr. laganna sinna þeir bæði fjárreiðum og starfsmannamálum við einstaka héraðsdómstóla ásamt því að gegna þar dómstörfum og stýra starfseminni við meðferð og rekstur dómsmála. Um ástæðurnar fyrir þessari breyttu verkaskiptingu milli dómstólaráðs og dómstjóra vísast til þess sem segir í almennum athugasemdum við frumvarpið.
    Í 1. mgr. þessarar greinar eru í níu töluliðum talin upp viðfangsefni dómstólaráðs. Að mestu leyti er sú talning sama efnis og í gildandi ákvæði 1. mgr. 14. gr. laga um dómstóla, en um tvennt er þó öðru fremur munur. Annars vegar er lagt til með 1. tölul. þessa ákvæðis að dómstólaráð fari á sína ábyrgð með fjárreiður héraðsdóms, þar á meðal að gera tillögur um fjárveitingar til hans, en eftir núgildandi reglu gerir dómstólaráð tillögur um sameiginlega fjárveitingu til allra héraðsdómstólanna átta og skiptir síðan veittu fé milli þeirra. Hins vegar eru þau nýmæli í 3. tölul. að dómstólaráð ráði til héraðsdóms aðra starfsmenn en dómara og fari með öll málefni sem þá varða, en eins og fyrr var getið er þetta verkefni nú í höndum dómstjóranna við einstaka dómstóla. Auk þessara atriða má benda á að í 2. tölul. er áréttað að dómstólaráð ákveði hvar héraðsdómur hafi fastar starfsstöðvar, en eins og nú kæmi í hlut þess að ákveða fjölda dómara og annarra starfsmanna við hverja starfsstöð og setja reglur um flutning dómara milli þeirra. Að öðru leyti svarar efni þessarar málsgreinar til núgildandi 1. mgr. 14. gr.
    Í 2. mgr. er lagt til að mælt verði fyrir um stöðu framkvæmdastjóra dómstólaráðs, en sú staða hefur nú verið til um árabil án þess að kveðið sé á um hana í lögum. Í ljósi þess að lagt er til með frumvarpinu að færa talsvert út hlutverk dómstólaráðs þykir rétt að setja reglur um þetta efni, en þær taka mið af framkvæmd á þessu sviði.
    Ákvæði 3. mgr. þessarar greinar svarar efnislega til núgildandi 2. mgr. 14. gr. laga um dómstóla.

Um 4. gr.


    Í 15. gr. laga um dómstóla eru ákvæði um hvernig héraðsdómarar raðast til sæta við héraðsdómstólana átta, en um þetta fer eftir ákvörðun dómstólaráðs, sem lýtur jöfnum höndum að fjölda dómara á hverjum stað og hvaða dómarar skipi þau sæti, auk þess sem dómstólaráð getur mælt fyrir um að allt að þrír dómarar eigi ekki fast sæti við tiltekinn dómstól. Með frumvarpinu er sem fyrr segir stefnt að því að héraðsdómur verði einn, en hafi nokkrar fastar starfsstöðvar. Sú breyting veldur því að endurskoða þarf fyrirmæli 15. gr., svo sem gert er með þessari grein frumvarpsins. Í meginatriðum er hér gengið út frá því að reglur um þetta verði hliðstæðar þeim sem nú gilda. Þannig er hér í 1. mgr. ráðgert að dómstólaráð ákveði við hvaða starfsstöð héraðsdóms einstakir dómarar eigi að hafa skrifstofu, en sú ákvörðun geti hvort heldur gilt um tiltekinn eða ótilgreindan tíma. Jafnframt þessu er lagt til að felld verði niður fyrrnefnd heimild til að til að hafa tiltekinn fjölda dómara án fasts sætis, enda yrði hún óþörf með hliðsjón af því að eftir frumvarpinu gætu héraðsdómarar starfað hvar sem er á landinu án tillits til þess hvar þeir hefðu skrifstofu. Að þessu frátöldu eru ákvæði 4. gr. efnislega þau sömu og nú koma fram í 15. gr. laga um dómstóla, en þó með nokkurri einföldun, sem leiðir af breyttri skipan héraðsdómstólanna.

Um 5. gr.


    Í þessari grein er mælt fyrir um val dómstjóra sem forstöðumanns héraðsdóms og hlutverk hans. Ákvæði þetta felur í sér nokkra einföldun frá gildandi reglum, sem taka til skipunar dómstjóra við þá átta héraðsdómstóla sem nú starfa. Í 1. mgr. er lagt til að dómstjóri verði líkt og nú kosinn af héraðsdómurum úr þeirra röðum til fimm ára í senn og að auki varadómstjóri, en eftir núverandi reglum er heimilt að kjósa slíkan staðgengil dómstjóra við þá dómstóla þar sem þrír eða fleiri dómarar eiga fast sæti. Sú meginbreyting felst í 1. mgr. að kosningu dómstjóra er ætlað að ráða niðurstöðu um val á honum og er ekki ráðgert að hann verði sérstaklega skipaður til starfans, en eftir 1. mgr. 16. gr. laga um dómstóla skipar ráðherra dómstjóra að undangengnu kjöri og er ekki bundinn af niðurstöðu þess. Þessi breyting þykir eðlileg með tilliti til sjálfstæðis dómstóla og þeirrar tilhögunar að dómstjóri yrði eftir frumvarpinu einn fyrir héraðsdóm, kosinn úr röðum 38 dómara. Er þá jafnframt horft til þess að forseti Hæstaréttar er kjörinn af dómurum réttarins og er hann ekki skipaður af öðrum til að gegna því starfi, en að þessu leyti felur frumvarpið í sér tillögu um að sams konar regla gildi um dómstjóra héraðsdóms. Regla 1. mgr., sem hér um ræðir, gerir óþörf fyrirmæli sem nú eru í 2., 3. og 4. mgr. 16. gr. laga um dómstóla og taka til staðgengils dómstjóra, kjör nýs dómstjóra ef héraðsdómari, sem gegnir starfinu, flyst til annars dómstóls, og brottvikningu dómstjóra úr því starfi.
    Ákvæði 2. mgr. um verkefni dómstjóra eru hliðstæð gildandi reglum í 5. mgr. 16. gr. laga um dómstóla ef frá er talið að í frumvarpinu er ekki mælt fyrir um stjórn hans á fjármálum héraðsdómstóls eða starfsmannahaldi, sem lagt er til eins og fyrr greinir að heyri undir dómstólaráð. Í 2. mgr. er með þessari breytingu lögð áhersla á faglega stjórn dómstjórans á starfsemi héraðsdóms, þar á meðal varðandi ákvörðun um verkaskiptingu héraðsdómara og úthlutun verkefna, en í þessu sambandi má vekja athygli á því að lagt er til að dómstjóra verði heimilt að fela dómara við starfsstöð, þar sem dómstjórinn á ekki sjálfur sæti, að úthluta verkefnum til dómaranna sem þar starfa.

Um 6. gr.


    Eins og vikið var að í almennum athugasemdum við frumvarpið er með þessari grein lagt til að teknar verði upp rýmri heimildir um starfssvið aðstoðarmanna héraðsdómara en nú gilda skv. 17. gr. laga um dómstóla með því að aðstoðarmönnum verði veitt vald til að gegna í takmörkuðum mæli dómstörfum í eigin nafni, en í umboði og á ábyrgð dómstjóra og undir boðvaldi hans. Ástæðunum að baki þessari tillögu hefur þegar verið lýst, en með henni yrðu starfsheimildir aðstoðarmanna að þessu leyti færðar í sama horf og gilti um dómarafulltrúa eftir lögum um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, eins og þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 80/1995. Varðandi þessa grein er að öðru leyti rétt að vekja athygli á því að ráðgert er að aðstoðarmenn verði ráðnir til fimm ára í senn og yrði aðeins heimilt að endurnýja þá ráðningu eitt sinn. Um þetta er regla frumvarpsins áþekk fyrirmælum í 2. málsl. 17. gr. laga um dómstóla um að ráðning aðstoðarmanns sé tímabundin og ekki lengur en til fimm ára við sama dómstól.

Um 7. gr.


    Í þessari grein er lagt til að ýmis fyrirmæli í 18. gr. laga um dómstóla falli niður og er það að mestu gert til að laga þá grein að öðrum ákvæðum frumvarpsins. Þannig er í a-lið 7. gr. frumvarpsins ráðgert að niður falli seinni málsliður 1. mgr. 18. gr., þar sem dómstólaráði er ætlað að setja leiðbeiningarreglur handa dómstjórum um úthlutun mála, en slíkar reglur yrðu óþarfar eftir að héraðsdómur væri orðinn einn og færu að auki á svig við þá verkaskiptingu milli dómstjóra og dómstólaráðs, sem frumvarpið miðar að. Í b- og e-lið er lagt til að niður falli ákvæði í 3. og 6. mgr. 18. gr., sem snúa að því hvernig dómari verði fenginn frá einum héraðsdómstóli til að fara með mál fyrir öðrum, en við sameiningu dómstólanna í einn yrði regla um þetta óþörf. Loks er í c- og d-lið mælt fyrir um brotthvarf reglna í 4. og 5. mgr. 18. gr. um heimild héraðsdómara til að skjóta ákvörðunum dómstjóra varðandi úthlutun mála til dómstólaráðs sem kærustigs, en vegna þess markmiðs frumvarpsins að skerpa á verkaskiptingu milli ráðsins og dómstjóra þykir sú kæruleið ekki lengur eiga við.

Um 8. gr.


    Í 1. mgr. 19. gr. laga um dómstóla eru fyrirmæli um hvernig brugðist verði við ef allir dómarar við héraðsdómstól reynast vanhæfir til að fara með tiltekið dómsmál, en í slíku tilviki kveður dómstjóri við dómstólinn upp úrskurð um að dómarar þar víki allir sæti og beinir því til dómstólaráðs að fenginn verði dómari við annan héraðsdómstól til að fara með málið. Séu allir dómarar við aðra dómstóla jafnframt vanhæfir til að fara með málið lætur dómstólaráð frá sér fara rökstutt álit um það og skipar dómsmálaráðherra að því fengnu setudómara til verksins. Með sameiningu héraðsdómstólanna í einn gætu þessar reglur ekki lengur átt við og er því lagt til með 8. gr. frumvarpsins að þessu ferli verði breytt á þann hátt að ráðherra skipi setudómara ef dómstjóri kveður upp úrskurð um að allir dómarar við héraðsdóm séu vanhæfir til að fara með mál.

Um 9. gr.


    Í 20. gr. laga um dómstóla er mælt fyrir um setningu manns til að gegna embætti héraðsdómara tímabundið ef dómari fær leyfi frá störfum eða hefur af öðrum sökum forföll. Skv. 1. málsl. 2. mgr. 20. gr. er slík setning háð þeim skilyrðum að dómstólaráð mæli með því að hún verði gerð og sérstakar annir við dómstólinn krefji, en um það atriði hefur dómsmálaráðherra mat. Með þessari grein frumvarpsins er lagt til að síðastnefndur áskilnaður verði felldur niður. Í því sambandi er tekið tillit til þess að dómstólaráði er skv. 3. gr. frumvarpsins ætlað að fara með fjárreiður héraðsdóms á sína ábyrgð, en þáttur í því hlýtur meðal annars að vera að meta hverju sinni hvort stofna eigi til kostnaðar af setningu staðgengils fyrir héraðsdómara, sem fær leyfi frá störfum eða forfallast. Jafnframt er það í samræmi við þá stefnu að auka sjálfstæði dómstóla að takmarka að þessu leyti afskipti framkvæmdarvaldsins af starfsemi þeirra.

Um 10. gr.


    Með þessari grein eru lagðar til tvær breytingar á 21. gr. laga um dómstóla. Annars vegar er í a-lið ráðgert að dómstólaráð taki ákvörðun um fasta þingstaði héraðsdóms í einstökum þinghám, en eftir gildandi reglum ákveður dómsmálaráðherra þetta í reglugerð að fenginni tillögu hlutaðeigandi dómstóls. Þessi tillaga er í samræmi við ákvæði 1. gr. frumvarpsins um breytingar á 2. gr. laga um dómstóla, sem fela eins og áður segir meðal annars í sér að dómstólaráð taki ákvörðun um skiptingu landsins í þinghár. Hins vegar er í b-lið lagt til að niður falli ákvæði síðari málsliðar 2. mgr. 21. gr. laganna, þar sem héraðsdómara er heimilað að heyja þing utan umdæmis dómstólsins sem hann starfar við, en með sameiningu héraðsdómstólanna í einn yrði sú regla óþörf.

Um 11. gr.


    Í þessari grein er lögð til minni háttar breyting á 22. gr. laga um dómstóla sem leiðir af því að héraðsdómur yrði einn samkvæmt frumvarpinu og niður falla heiti dómstóla sem tengjast umdæmi þeirra.

Um 12. gr.


    Með þessari grein er gert ráð fyrir þeirri breytingu á fyrirsögn III. kafla laga um dómstóla að rætt verði þar um héraðsdóm í eintölu í stað þess að kenna kaflann við þær stofnanir í fleirtölu eins og nú er gert. Þetta stafar af þeirri breyttu skipan sem um ræðir í 1. gr. frumvarpsins.

Um 13. gr.


    Í þessari grein er lögð til minni háttar breyting á 30. gr. laga um dómstóla sem leiðir af því að héraðsdómur yrði einn samkvæmt frumvarpinu og niður falla heiti dómstóla sem tengjast umdæmi þeirra.

Um 14. gr.


    Hér er mælt fyrir um gildistöku laga ef frumvarp þetta nær fram að ganga, en við það er miðað að það gerist 1. janúar 2010 að öðru leyti en því sem kveðið er á um í ákvæði til bráðabirgða.

Um 15. gr.


    Í þessari grein eru gerðar tillögur um breytingar á 22 öðrum lögum en lögunum um dómstóla og snúa þær í sumum tilvikum að nokkrum fjölda ákvæða í einstökum lögum. Að mestu helgast þessar tillögur af breytingum sem stefnt er að með frumvarpinu um að aðeins verði til einn héraðsdómur í stað átta, að ekki verði lengur til dómstólar sem kenndir eru við tiltekin umdæmi eða hafi lögsögu á landfræðilega afmörkuðu svæði og að aðeins verði einn dómstjóri við héraðsdóm. Ekki þykir ástæða til að skýra þessar tillögur frekar í einstökum atriðum að öðru leyti en því að vekja verður sérstaka athygli á a- og b-lið k-liðar 10. tölul. þar sem ráðgerðar eru breytingar á reglum 91. gr. laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991, sem snúa að því með hvaða lágmarksfyrirvara birta þurfi stefnu í slíku máli áður en það verður þingfest. Nánar tiltekið er nú mælt svo fyrir í 1. mgr. þeirrar lagagreinar að stefnufrestur sé þrír sólarhringar ef stefndi í málinu á heimili í þeirri þinghá þar sem mál verður þingfest eða í þinghá sem hefur sama þingstað, en tekið er síðan fram að í þessu tilliti skoðist umdæmi Héraðsdóms Reykjavíkur og Héraðsdóms Reykjaness sem ein þinghá væri. Skv. 2. mgr. sömu lagagreinar er stefnufrestur að öðrum kosti ein vika ef stefndi á heimili hér á landi. Með því að frumvarpið miðar að því að fyrrnefndir tveir héraðsdómstólar verði ekki lengur til er ljóst að sérreglan um stefnufrest fyrir þeim gæti ekki staðið óbreytt. Sá kostur er vissulega fyrir hendi að breyta 1. mgr. 91. gr. laga um meðferð einkamála á þann hátt að talin verði upp þau sveitarfélög sem nú eiga undir héraðsdómstólana í Reykjavík og á Reykjanesi og láta sérregluna um það landsvæði haldast. Þegar á hinn bóginn er litið til þess að þinghám hefur fækkað mjög undanfarin ár og svæðin innan þeirra að sama skapi stækkað þykja sérstök rök ekki standa til þess að gera mun á stefnufresti eftir því hvort stefndi búi í þinghánni, þar sem mál verður þingfest, eða í annarri þinghá. Því er lagt til með þeim ákvæðum frumvarpsins sem hér um ræðir að stefnufrestur verði í öllum tilvikum ein vika ef stefndi er búsettur hér á landi og gildi þá einu í hvaða þinghá hann eigi heimili.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er gerð tillaga um ákvæði til bráðabirgða í tveimur málsgreinum. Í þeirri fyrri er kveðið á um frávik frá fyrirmælum um gildistöku í 14. gr. frumvarpsins með því að dómstólaráði verði þegar heimilt að taka ákvarðanir um þau atriði sem mælt er fyrir um í 1. og 10. gr. frumvarpsins, þótt ekki sé runninn upp sá dagur sem tiltekinn er í 14. gr. Auk þess verði heimilt fyrir þann tíma að kjósa dómstjóra og varadómstjóra fyrir héraðsdóm, skipa framkvæmdastjóra fyrir dómstólaráð og tilnefna og skipa menn til að taka sæti í dómstólaráði, en í öllum tilvikum kæmu ákvarðanir, kjör, tilnefningar og skipanir ekki til framkvæmda fyrr en lagabreytingar samkvæmt frumvarpinu tækju gildi. Í síðari málsgrein ákvæðisins eru síðan sérreglur um skipun dómstólaráðs í fyrsta skipti eftir reglum frumvarpsins, en þær eiga sér fyrirmynd í bráðabirgðaákvæði sem á sínum tíma var sett um sama efni í 2. mgr. 38. gr. laga um dómstóla. Þá er kveðið á um að hinn sameinaði héraðsdómur taki við öllum eignum og skuldbindingum héraðsdómstólanna og að störf allra starfsmanna flytjist yfir til héraðsdóms. Jafnframt er tekið fram að stöður dómstjóra við dómstólana átta verði lagðar niður enda verður einungis um eina stöðu dómstjóra að ræða verði frumvarpið að lögum. Embætti dómara verður ekki lagt niður en gert er ráð fyrir að dómstólaráð muni tilkynna dómurum um við hvaða starfsstöð héraðsdóms dómari muni hafa skrifstofu í samræmi við 15. gr. dómstólalaga, sbr. 4. gr. frumvarps þessa.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla,
nr. 15/1998, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að héraðsdómstólarnir átta verði sameinaðir í einn dómstól fyrir landið allt. Dómstólaráð skal ákveða hvar héraðsdómur hefur fastar starfsstöðvar og hvernig landinu er skipt í þinghár. Dómstjóri, sem verður einn ásamt föstum varadómstjóra, skal fara með faglega yfirstjórn héraðsdóms og skipta verkum milli dómara og annarra starfsmanna héraðsdóms. Gert er ráð fyrir að löglærðir aðstoðarmenn dómara fái heimildir til dómstarfa í sama mæli og dómarafulltrúar höfðu áður.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að megintilgangur þess sé að draga úr kostnaði við rekstur héraðsdómstóla. Fjármálaráðuneytið gerir ráð fyrir að sameining héraðsdómstólanna í einn dómstól gefi möguleika á að ná fram margvíslegri hagræðingu í rekstri, svo sem vegna yfirstjórnar, húsnæðis, tækja og mannafla. Við sameiningu opnast möguleiki á að nýta betur starfskrafta dómara þannig að þeir verði ekki bundnir við einn tiltekinn dómstól heldur geti starfað við héraðsdóm hvar sem er á landinu. Rekstrarkostnaður héraðsdómstóla á árinu 2008 var tæpur 1 milljarður króna.
    Héraðsdómstólar hafa lengi verið fjárhagslega sameinaðir í fjárlögum og ríkisreikningi og hefur frumvarpið því engin áhrif þar á. Lögfesting frumvarpsins leiðir ekki til beins sparnaðar í rekstri héraðsdómstóla, heldur gerir það auðveldara að hagræða í starfseminni og draga þar með úr kostnaði.