Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 46. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 106  —  46. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 45/1997, um vörumerki, með síðari breytingum.

Frá minni hluta viðskiptanefndar.



    Í athugasemdum við frumvarpið segir orðrétt:
    ,,Í réttarframkvæmd er iðulega fjallað um tvö afbrigði tæmingar, alþjóðlega og svæðisbundna. Hugtakið landsbundin tæming er einnig þekkt en síður notað en þau fyrrnefndu.
    Víðtækasta hugtakið er alþjóðleg tæming. Eftir markaðssetningu með atbeina rétthafa getur vara eða þjónusta farið í frjálsu flæði um heim allan og getur rétthafi ekki síðar hindrað notkun, sölu, leigu, innflutning, útflutning eða annars konar dreifingu hennar.
    Svæðisbundin tæming er þrengra hugtak og varðar þá stöðu þegar vara hefur verið markaðssett innan ákveðins svæðis, af rétthafa sjálfum eða með hans samþykki, t.d. innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Vörur eða þjónusta, sem sett hefur verið á markað, getur eftirleiðis farið í frjálsu flæði innan þess svæðis en rétthafi getur á hinn bóginn stöðvað m.a. útflutning þeirra til landa utan svæðisins, sem og innflutning til svæðisins á þeim vörum sem hann hefur markaðssett utan þess.“
    Verði frumvarpið að lögum mun samkeppni minnka sem leiðir af sér aukna fákeppni og hærra vöruverð. Um þetta voru umsagnaraðilar sammála. Ástæða þeirrar breytingar sem kveðið er á um í frumvarpinu er sú að Íslendingar eru nauðbeygðir af Evrópudómstólnum að fara þá leið sem frumvarpið mælir fyrir um þrátt fyrir að það sé óumdeilt að það fari gegn hagsmunum neytenda í landinu. Það er augljóst að Íslendingar hafa ekki verið nægjanlega á varðbergi þegar tilskipanir Evrópusambandsins hafa verið innleiddar og er Icesave-málið skýrt dæmi um það, en mörg önnur dæmi mætti nefna.
    Markaðurinn á Íslandi er mjög lítill miðað við önnur lönd og er mikilvægt að hann sé sem opnastur og allt verði gert til að viðhalda hér samkeppni og koma í veg fyrir fákeppni. Þetta mál gengur þvert á þau markmið og er löngu kominn tími til að spyrna við fótum.
    Minni hlutinn leggst gegn samþykkt frumvarpsins.

Alþingi, 22. okt. 2009.



Guðlaugur Þór Þórðarson.


Ragnheiður E. Árnadóttir.