Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 158. máls.

Þskj. 175  —  158. mál.Frumvarp til laga

um Íslandsstofu.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.
Markmið.

    Markmið laga þessara er að efla ímynd og orðspor Íslands, styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins.

2. gr.
Hlutverk.

    Stofnuð er Íslandsstofa. Hlutverk hennar er:
     a.      að vera samstarfsvettvangur fyrirtækja, hagsmunasamtaka, stofnana og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að efla ímynd og orðspor Íslands,
     b.      að veita alhliða þjónustu og ráðgjöf í því skyni að greiða fyrir útflutningi á vöru og þjónustu,
     c.      að laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdu kynningar- og markaðsstarfi,
     d.      að upplýsa erlenda fjárfesta um kosti Íslands og vera stjórnvöldum til ráðuneytis um fjárfestingarmál,
     e.      að styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis.

3. gr.
Stjórn.

    Stjórn Íslandsstofu skipuleggur og ákveður verkefni stofunnar. Stjórnina skipa níu menn valdir til þriggja ára í senn. Utanríkisráðherra skipar fimm stjórnarmenn eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn stjórnarmann eftir tilnefningu forsætisráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra og einn án tilnefningar. Skal sá vera formaður stjórnar. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum. Stjórnin samþykkir árlega starfs- og fjárhagsáætlun Íslandsstofu og hefur eftirlit með framkvæmd hennar. Hún ræður framkvæmdastjóra Íslandsstofu og ákveður starfskjör hans. Stjórnin skal, í samráði við viðkomandi fagráðuneyti, skipa sérstakar verkefnastjórnir um áherslur í markaðs- og kynningarmálum ferðaþjónustunnar erlendis og fjárfestingum erlendra aðila á Íslandi. Stjórnin boðar til aðalfundar Íslandsstofu sem halda skal fyrir 1. maí ár hvert.

4. gr.
Rekstur.

    Framkvæmdastjóri annast daglega stjórn Íslandsstofu og ræður starfsfólk. Íslandsstofa hefur sjálfstæðan fjárhag og reikningshald og er undanþegin tekjuskatti. Stjórn Íslandsstofu ákveður gjaldskrá fyrir þjónustu. Þess skal gætt að útseld þjónusta standi að mestu leyti undir kostnaði við þau störf sem unnin eru samkvæmt beiðni einstakra aðila sem leita eftir þjónustu Íslandsstofu.

5. gr.
Tekjur.

    Tekjur Íslandsstofu eru:
     1.      Markaðsgjald, 0,05%, sem lagt er á gjaldstofn til greiðslu tryggingagjalds eins og hann er skilgreindur í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Um álagningu og innheimtu markaðsgjalds fer eftir ákvæðum þeirra laga. Markaðsgjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs þegar stofn þess myndaðist.
     2.      Framlög í fjárlögum.
     3.      Þóknun fyrir veitta þjónustu.
     4.      Þjónustusamningar við stofnanir og samtök.
     5.      Sérstök framlög og aðrar tekjur. Íslandsstofu ber að stofna til samstarfs við þá aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta og skal ráðstafa 14% af tekjum af markaðsgjaldi til verkefna af þeim toga.

6. gr.
Reglugerðarheimild.

    Ráðherra er heimilt, að fenginni umsögn stjórnar Íslandsstofu, að kveða nánar á um starfsemi Íslandsstofu í reglugerð.

7. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002, með síðari breytingum.

8. gr.
Breytingar á öðrum lögum.

     1.      Í stað orðanna „Útflutningsráðs Íslands“ í 1. mgr. 5. gr. laga um skipan ferðamála, nr. 73/2005, með síðari breytingum, kemur: Íslandsstofu.
     2.      Í stað orðsins „Útflutningsráði“ í 1. mgr. 12. gr. kvikmyndalaga, nr. 137/2001, með síðari breytingum, kemur: Íslandsstofu.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

    Við gildistöku laga þessara tekur Íslandsstofa við öllum réttindum og skyldum Útflutningsráðs Íslands, eignum þess og skuldum.

II.

    Verði ekki annað ákveðið með lögum fellur markaðsgjald skv. 1. tölul. 5. gr. niður frá og með 1. janúar 2013, þó þannig að álagning gjaldsins fari fram árið 2013 vegna gjaldstofns ársins 2012.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu er sett á laggirnar ný stofnun, Íslandsstofa („Promote Iceland“), á grunni Útflutningsráðs Íslands. Því verða núgildandi lög um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002, felld úr gildi verði frumvarp þetta að lögum. Leiðir það m.a. til þess að samráðsnefnd atvinnulífs og stjórnvalda, sem kveðið er á um í 1. gr. laganna, leggst af, en gert er ráð fyrir að atvinnulífið og stjórnvöld eigi áfram með sér náið samráð með öðrum hætti, sbr. athugasemdir við 3. gr. Breytingin hefur hins vegar ekki áhrif á núverandi fjárveitingar til þeirra verkefna sem með lögunum munu heyra undir Íslandsstofu, þ.e. fjárveitingar til Útflutningsráðs og til markaðs- og kynningarstarfs Ferðamálastofu. Þá er ekki gert ráð fyrir að hið breytta fyrirkomulag hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Þvert á móti er verið að mæta kröfum um bætt samstarf, skýrari stefnu og aðgerðir til að efla og standa vörð um ímynd og orðspor Íslands með því að hagræða og nýta betur þá fjármuni sem nú er varið til markaðs- og kynningarstarfa erlendis.
    Verkefni Íslandsstofu verða viðameiri en verkefni Útflutningsráðs eru nú. Í fyrsta lagi er Íslandsstofu ætlað að setja skýran ramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands þar sem aðilar í útflutningi, ferðaþjónustu og þekkingariðnaði koma til samstarfs við hið opinbera um að efla og standa vörð um orðspor Íslands erlendis. Í öðru lagi verður markaðs- og kynningardeild Ferðamálastofu rekin innan vébanda Íslandsstofu sem mun fá það lögbundna hlutverk með þessu frumvarpi að laða til landsins erlenda ferðamenn. Til að sinna verkefnum sínum skal Íslandsstofa byggja starf sitt á bestu fáanlegu fagþekkingu á sviði útflutningsaðstoðar og ferða- og ímyndarmála, þannig að samstarf hins opinbera og einkaaðila lúti ávallt faglegri stefnumótun og starfsaðferðum til langs tíma í þessum veigamikla málaflokki.
    Hugmyndin um samstarf á sviði útflutningsþjónustu og um samræmingu ímyndar- og kynningarmála er ekki ný af nálinni. Til dæmis má nefna að árið 2003 undirrituðu Útflutningsráð Íslands og utanríkisráðuneytið samstarfssamning sem hefur gefið góða raun. Meginmarkmið þess samnings var að skýra verkaskiptingu, forðast tvíverknað og auka samstarf hvað varðar þjónustu við íslensk útflutningsfyrirtæki. Samstarf Útflutningsráðs og utanríkisráðuneytisins við kynningu á íslenskri menningu erlendis og menningartengdri atvinnustarfsemi fyrir erlendan markað hefur vaxið þessu samhliða. Þá skipaði forsætisráðherra nefnd í nóvember 2007 til þess að gera tillögur um hvernig styrkja mætti ímynd og orðspor Íslands. Rauði þráðurinn í niðurstöðum nefndarinnar, sem skilaði tillögum í mars 2008, var að styrkja þyrfti og samhæfa ímyndar- og kynningarmál þjóðarinnar. Í skýrslunni var m.a. lagt til að komið yrði á fót vettvangi sem gefið yrði nafnið „Promote Iceland“. Með honum yrði núverandi fyrirkomulag einfaldað, gert skilvirkara og heildstæð sýn fengist yfir það kynningarstarf á erlendri grundu sem fer fram af hálfu hins opinbera. Í skýrslunni var lagt til að hlutverk „Promote Iceland“ yrði að fylgjast með ímynd Íslands og þróun hennar, miðla samræmdum skilaboðum og upplýsingum til uppbyggingar á sterkri og jákvæðri ímynd, bregðast við neikvæðri umfjöllun sem snertir íslenska hagsmuni og samræma aðgerðir er varða ímyndarmál. Þá var í skýrslunni lagt til að starfsemin yrði nátengd sendiskrifstofum Íslands og að skrifstofur Ferðamálastofu erlendis yrðu lagðar niður og starfsemi þeirra færð til „Promote Iceland“. Í skýrslunni var ekki tekin afstaða til þess hvar í stjórnkerfinu vettvangurinn skyldi vistaður, né hvort stofnsett yrði ný stofnun eða einhverjum þeirra aðila sem nú fást við verkefni sem tengjast orðspori og landkynningarmálum falin umsjón starfsins.
    Frumvarpi þessu er ætlað að koma til móts við hugmyndir um aukið samstarf opinberra aðila og atvinnulífsins, markvissari nýtingu fjármuna, aukna samhæfingu og öflugri þjónustu. Við undirbúning frumvarpsins fór fram náið samráð ráðuneyta iðnaðar- og utanríkismála, með aðkomu Ferðamálastofu og Útflutningsráðs Íslands, auk samráðs við forsætisráðuneyti og mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Efling utanríkisviðskipta og aukin gjaldeyrisöflun hér á landi ýtir undir hagvöxt og velmegun. Mikilvægt er að hvetja erlenda aðila til að nýta sér mannauð og staðarkosti lands og þjóðar með fjárfestingum og starfsemi á Íslandi. Aukinn útflutningur og erlendar fjárfestingar hér á landi skapa þannig nauðsynlegan vöxt gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið og eru veigamikill þáttur í aukinni framleiðni, atvinnu og almennri velferð. Ljóst er að neikvæð umræða um Ísland og íslensk málefni getur haft skaðleg áhrif á sölu íslenskrar vöru, þjónustu og þekkingar erlendis, sem og á fjárfestingar erlendra aðila á Íslandi og á komu erlendra ferðamanna hingað til lands. Með stofnun Íslandsstofu verða útflutningsþjónusta, landkynningar- og markaðsstarf ferðamála og ímyndar- og orðsporsmál Íslands á einum stað í stjórnkerfinu. Með því er ætlunin að ná fram samræmdri langtímastefnu, auknum árangri og rekstrarlegu hagræði.

Um 2. gr.

    Greinin fjallar um stofnun og hlutverk Íslandsstofu. Í fyrsta lagi verður Íslandsstofa samstarfsvettvangur stjórnvalda og hagsmunaaðila þar sem mótuð verður samræmd stefna um uppbyggingu ímyndar og orðspors Íslands, en jákvæð ímynd styrkir útflutningsstarfsemi og laðar að erlenda ferðamenn og fjárfesta. Íslandsstofu er jafnframt ætlað að hrinda stefnunni í framkvæmd og samræma, eftir því sem kostur er, starfsemi þeirra sem koma að alþjóðlegu kynningar- og markaðsstarfi.
    Í öðru lagi mun Íslandsstofa veita fyrirtækjum alhliða faglega aðstoð, fræðslu og ráðgjöf við að kynna og selja vörur, þjónustu og þekkingu á erlendum mörkuðum. Góð reynsla er komin á þessar áherslur hjá forvera Íslandsstofu, Útflutningsráði, og verða þær áfram grundvöllur starfseminnar. Íslandsstofa skal byggja starfsemi sína á bestu fáanlegu fagþekkingu á sviði útflutningsaðstoðar, ferða- og ímyndarmála. Þjónusta Íslandsstofu stendur öllum íslenskum fyrirtækjum til boða og er þeim opin þátttaka í verkefnum hennar. Kynning á íslenskri menningu erlendis og viðskipti með menningartengdar afurðir erlendis geta fundið sér farveg innan Íslandsstofu, en þessi þáttur er fyrirferðarmikill í starfsemi sendiskrifstofa Íslands erlendis og mikilvægur fyrir ímynd og orðspor þjóðarinnar. Umtalsverð samlegðaráhrif geta þannig verið á milli útflutningsþjónustu, kynningar á Íslandi sem áfangastað ferðamanna og menningarkynningar.
    Í þriðja lagi er Íslandsstofu ætlað það hlutverk að laða til landsins erlenda ferðamenn með samræmdri og stefnumiðaðri kynningu á Íslandi sem áfangastað. Hér er um að ræða núverandi markaðs- og kynningarstarf Ferðamálastofu gagnvart erlendum mörkuðum, en rekstur þess mun flytjast í heild yfir til Íslandsstofu. Hingað til hefur því starfi verið sinnt bæði af Ferðamálastofu í Reykjavík og af skrifstofum hennar erlendis (í Frankfurt, Kaupmannahöfn og New York). Ákveðið hefur verið að loka skrifstofum Ferðamálastofu í Frankfurt og Kaupmannahöfn. Gert er ráð fyrir að hluta þeirra verkefna verði sinnt af sendiráðum Íslands í viðkomandi ríkjum sem taki að sér hlutverk markaðsskrifstofa ferðamála.
    Í fjórða lagi skal Íslandsstofa laða til landsins erlenda fjárfestingu. Er þetta í samræmi við núverandi hlutverk fjárfestingarstofu sem rekin hefur verið innan Útflutningsráðs Íslands samkvæmt samningi viðskiptaráðuneytisins (síðar iðnaðarráðuneytisins) og Útflutningsráðs frá 8. desember 2004 um verkefni og rekstur fjárfestingarstofu. Frumvarpið hefur engin áhrif á gildi þess samnings.
    Í fimmta lagi skal Íslandsstofa styðja við kynningu á íslenskri menningu erlendis, enda er íslenskur menningararfur og íslensk menning grunnstoð ímyndar og orðspors Íslands. Góð reynsla hefur fengist af samstarfi opinberra stofnana og verkefna sem sinna kynningu á íslenskri menningu erlendis. Þannig er t.a.m. Útflutningsmiðstöð íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) til húsa hjá Útflutningsráði Íslands og nást margvísleg samlegðaráhrif af samstarfi ÚTÓN við Útflutningsráð, utanríkisráðuneytið og Ferðamálastofu. Eins hefur reynslan af samkomulagi utanríkisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins um samstarf á sviði menningarmála, sem undirritað var í febrúar 2007, verið góð. Samstarfið mun halda áfram með stofnun Íslandsstofu. Gert er ráð fyrir að annað opinbert starf að menningarkynningu erlendis verði rekið innan vébanda eða í samstarfi við Íslandsstofu eftir því sem við á.

Um 3. gr.

    Ákvæðið fjallar um stjórnarfyrirkomulag og hlutverk stjórnar Íslandsstofu. Utanríkisráðherra skipar fimm stjórnarmenn eftir tilnefningu frá Samtökum atvinnulífsins, einn eftir tilnefningu frá forsætisráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu mennta- og menningarmálaráðherra og einn stjórnarmann án tilnefningar sem jafnframt skal vera formaður stjórnar. Stjórnin endurspeglar þannig hið breiða samstarf sem er um Íslandsstofu. Náin tengsl atvinnulífs og Íslandsstofu eru undirstrikuð með því að fulltrúar atvinnulífs hafa meiri hluta í stjórninni en formaður er skipaður af ráðherra. Gert er ráð fyrir því að stjórninni sé heimilt, í samráði við viðkomandi fagráðuneyti, að skipa sérstakar verkefnastjórnir til að móta áherslur einstakra málaflokka, t.a.m. hvað varðar kynningu og markaðsstarf ferðamála erlendis og fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Með því skal tryggt að stefna og verkefni Íslandsstofu í einstökum málaflokkum taki mið af áherslum hlutaðeigandi hagsmunaaðila á hverjum tíma. Með þessum hætti er náið samráð hins opinbera og atvinnulífsins tryggt. Verkefnastjórnir starfa í umboði stjórnar Íslandsstofu.

Um 4. gr.

    Í greininni er kveðið á um rekstur Íslandsstofu, sjálfstæði fjárhags og reikningshalds, ásamt heimild til gjaldtöku fyrir útselda þjónustu og setningu gjaldskrár í því sambandi. Er þetta sambærilegt fyrirkomulag og hefur gilt um Útflutningsráð hingað til.

Um 5. gr.

    Höfuðtekjustofn Íslandsstofu verður markaðsgjald eins og það er skilgreint í III. kafla laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Þá er gert ráð fyrir framlagi af fjárlögum til starfseminnar, þóknun fyrir veitta þjónustu, tekjum af þjónustusamningum og sérstökum óskilgreindum tekjum og framlögum. Gert er ráð fyrir að fjárveitingum til markaðs- og kynningarstarfs ferðamála erlendis, sem eru á fjárlagalið ráðuneytis ferðamála, verði ráðstafað til Íslandsstofu með þjónustusamningum þar um. Í 2. mgr. er kveðið á um óbreytt fyrirkomulag fjármögnunar fjárfestingarstofu, sbr. 8. gr. samnings milli viðskiptaráðuneytisins og Útflutningsráðs frá desember 2004. Áfram skulu veitt 14% af markaðsgjaldi til verkefna í samstarfi við aðila sem vinna að markaðssetningu á Íslandi fyrir erlenda fjárfesta.

Um 6. gr.

    Ákvæðið er í samræmi við núverandi reglugerðarheimild í lögum um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002.

Um 7. gr.

    Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002, með síðari breytingum, enda gerir frumvarpið ráð fyrir að Íslandsstofa yfirtaki öll réttindi og allar skuldbindingar Útflutningsráðs Íslands. Ekki er gert ráð fyrir samráðsnefnd atvinnulífs og stjórnvalda í lögum um Íslandsstofu, en náið samráð mun áfram eiga sér stað í annarri mynd. Aðalfundur Íslandsstofu verður vettvangur samráðs atvinnulífs og stjórnvalda um málefni hennar. Þá helst núgildandi fyrirkomulag um tilnefningu stjórnar óbreytt, þar sem atvinnulífið tilnefnir meiri hluta stjórnarmanna. Auk þess felur hlutverk verkefnastjórna í sér að fulltrúar atvinnulífsins eigi þar sæti, sbr. athugasemdir við 3. gr.

Um 8. gr.

    Vegna yfirtöku Íslandsstofu á réttindum og skuldbindingum Útflutningsráðs eru í þessu ákvæði gerðar breytingar á lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005, og kvikmyndalögum, nr. 137/2001. Ekki er um neinar efnisbreytingar að ræða, aðrar en þær sem leiðir af þessu frumvarpi.

Um ákvæði til bráðabirgða I.

    Í ákvæðinu felst að með stofnun Íslandsstofu er Útflutningsráð Íslands lagt niður. Íslandsstofa mun við gildistöku laga þessara yfirtaka rekstur á grunni Útflutningsráðs og tekur þá yfir öll réttindi og allar skuldbindingar Útflutningsráðs, eignir þess og skuldir.

Um ákvæði til bráðabirgða II.

    Um er að ræða áframhald á núgildandi sólarlagsákvæði um markaðsgjald, sem finna má í lögum um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002. Gjaldið fellur sem áður úr gildi 1. janúar 2013 verði annað ekki ákveðið.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um Íslandsstofu.

    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði á laggirnar ný stofnun, Íslandsstofa, á grunni Útflutningsráðs Íslands. Því er einnig lagt til með frumvarpinu að lög um útflutningsaðstoð, nr. 160/2002 verði felld úr gildi. Verkefni Íslandsstofu verða m.a. að setja ramma utan um ímyndar- og kynningarmál Íslands og að sinna markaðs- og kynningarmálum sem heyra undir Ferðamálastofu. Ákveðið hefur verið að skrifstofum Ferðamálastofu í Frankfurt og Kaupmannahöfn verði lokað á árinu 2009 og að þeir fjármunir sem við það sparast verði nýttir í kynningar- og markaðsverkefni sem stýrt verði frá Íslandi, auk þess sem sendiráð Íslands muni taka að sér hlutverk markaðsskrifstofa ferðamála í viðkomandi ríkjum. Í heild er áætlað að verkefni Íslandsstofu muni aukast miðað við núverandi umsvif. Stjórn Íslandsstofu mun skipuleggja og ákveða verkefni stofnunarinnar. Stjórnin verður skipuð níu manns en utanríkisráðherra skipar fimm eftir tilnefningu Samtaka atvinnulífsins, einn stjórnarmann eftir tilnefningu forsætisráðherra, einn eftir tilnefningu iðnaðarráðherra, einn eftir tilnefningu menntamálaráðherra og einn stjórnarmann án tilnefningar. Áætlað er að verkefni og fjárheimildir færist frá Útflutningsráði og einnig mun Íslandsstofa fá til ráðstöfunar fyrir sín verkefni hluta af fjárheimildum til ferðamála er tilheyra iðnaðarráðuneytinu. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að fjárveiting til markaðs- og kynningarstarfs ferðamála erlendis verði ráðstafað til Íslandsstofu með þjónustusamningum þar um. Einnig mun Íslandsstofa yfirtaka verkefnið Iceland Naturally en ekki liggur fyrir hvort það verði með þjónustusamningi eða með öðrum hætti. Þá liggur ekki fyrir áætlun um hvaða fjárheimildir muni nákvæmlega falla undir þau verkefni sem munu vera á ábyrgð Íslandsstofu og er því ekki hægt að segja til um hver umsvif Íslandsstofu verða.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð þar sem að einungis er um að ræða breytta notkun og tilfærslur á fjárheimildum.