Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 165. máls.

Þskj. 184  —  165. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Á eftir orðunum „þær jarðir“ í 3. málsl. 1. mgr. 40. gr. laganna kemur: þar á meðal eyðijarðir.

2. gr.

    Við f-lið 50. gr. laganna bætist: 1. mgr. 33. gr.

3. gr.

    Lög þessi öðlast gildi við birtingu.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eftir ábendingu Fiskistofu og Landssambands veiðifélaga.
    Eigi er langt síðan lax- og silungsveiðilög, nr. 61 14. júní 2006, öðluðust gildi. Hin nýju lög voru lengi í smíðum og þykja hið ágætasta lagaverk. Með frumvarpi þessu er engu að síður ætlun að gera á þeim minni háttar réttingu. Um nánari skýringar er vísað til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins hér á eftir.
    Vegna þess hversu efni frumvarpsins er einfalt og sjálfsagt hefur ekki þótt ástæða til þess að leita umsagna við það á stjórnsýslustigi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Við skýringu á þessari frumvarpsgrein verður ekki komist hjá því að rekja forsendur þess hvernig atkvæðisréttur er ákveðinn í veiðifélagi og um leið helstu ákvæði laga sem tengjast hugtökunum jörð og lögbýli í því samhengi.

A. Atkvæðisréttur í veiðifélagi fram til gildistöku laga um lax- og silungsveiði nr. 61/2006.
    Í 1. gr. vatnalaga, nr. 15/1923, er landareign skilgreind svo í merkingu laganna, að þar sé átt við land lögbýlis og lóð og lönd innan takmarka kaupstaða og löggiltra verslunarstaða. Í XIII. kafla laganna voru almenn ákvæði um veiði í vötnum og var hún að meginstefnu bundin við landareignir.
    Þessi kafli vatnalaganna var felldur úr gildi með fyrstu lögunum um lax- og silungsveiði, nr. 61/1932. Í IX. kafla þeirra laga var fjallað um veiðifélög. Í 2. mgr. 59. gr. laganna sagði, að kveðja skyldi til fundar ábúendur allra jarða á fyrirhuguðu félagssvæði, ef stofna ætti félag við vatn eða vötn, sem veiði væri í. Um atkvæðisrétt á slíkum fundi sagði í 2. mgr. 60. gr., að hann hefðu allir þeir, sem til fundar skyldi boða skv. 59. gr. Í næstu lögum um lax- og silungsveiði, nr. 112/1941, voru sams konar ákvæði í 2. mgr. 60. gr. og 2. mgr. 61. gr. Enn sagði í 2. mgr. 65. gr. næstu laga um lax- og silungsveiði, nr. 53/1957, að kveðja skyldi ábúendur jarða til fundar um stofnun veiðifélags. Í 2. mgr. 66. gr. var svo kveðið á, að á slíkum fundi og öðrum færi þannig um atkvæðisrétt, að ábúandi hvers lögbýlis, sem metið væri til verðs í gildandi fasteignamati, skyldi hafa eitt atkvæði. Ef maður byggi á fleiri en einni jörð, hefði hann eitt atkvæði. Hið sama gilti um eigendur eyðijarða. Væru ábúendur lögbýlis og eigendur eyðijarðar fleiri en einn, skyldu þeir gera með sér skriflegan samning um það, hver færi með atkvæðisrétt jarðarinnar.
    Í 2. mgr. 48. gr. laga um lax- og silungsveiði, nr. 76/1970, var samhljóða ákvæði um atkvæðisrétt á fundum í veiðifélagi með einni breytingu, sem gerð hafði verið með lögum nr. 38/1970, er tóku gildi 27. maí 1970, um breytingu á lögum nr. 53/1957, en meginmál breytingalaganna var fellt inn í síðargreindu lögin og þau gefin út sem lög nr. 76/1970. Breytingin fólst í því, að atkvæðisréttur ábúanda skyldi miðast við lögbýli, „sem metið [væri] til verðs í gildandi fasteignamati við gildistöku laga þessara.“ Í greinargerð með frumvarpi til breytingalaganna var þetta ákvæði skýrt svo, að það væri sett til að girða fyrir, að lögbýlum væri skipt í þeim tilgangi að afla atkvæðisréttar í veiðifélögum (Alþt. A-deild 1969, bls. 1669). Áfram sagði í lögunum að væri jörð í eyði skyldi eigandi hennar hafa eitt atkvæði.

B. Ákvæði gildandi lax- og silungsveiðilaga, nr. 61/2006, um atkvæðisrétt í veiðifélagi.
    Í 1. mgr. 40. gr. hinna nýju lax- og silungsveiðilaga segir að á félagssvæði veiðifélags fylgi eitt atkvæði hverri jörð sem veiðirétt á í samræmi við ákvæði laganna. Hið sama gildi um veiðifélag sem einungis tekur til veiðivatna á afréttum í þjóðlendu. Síðan segir að með jörð sé hér átt við þær jarðir sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976. Í orðum ákvæðisins er því ekki vikið sérstaklega að atkvæðisrétti eyðijarða eins og í eldri lögum. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur helst fram að eðlilegt þyki að miða við þetta tímamark „í ljósi þess að þá hafði lögbýlaskipan landsins tekið á sig nokkuð endanlega mynd.“ Hvergi segir að tilgangur frumvarpsins sé að þrengja eða fella niður atkvæðisrétt eyðijarða. (132. löggjþ. 2005–2006, þskj. 891, 607. mál.)
    Hugtakið lögbýli var ekki skilgreint í jarðalögum, nr. 65/1976. Um skilning á því verður að leita til 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976. Efnislega er þar kveðið á um að í lögunum nefnist jörð eða lögbýli hvert það býli sem sérstaklega er metið til verðs í fasteignarmati, með tilgreind og ákveðin merki, nauðsynlegan húsakost og landrými eða aðstöðu til að framfleyta minnst 10 kúgildum. Þá sagði í sömu lagagrein að jörð sem ekki hefur verið setin í 2 ár eða lengur, teljist eyðijörð, og þó að hús séu fallin eða rifin, teljist hún lögbýli, nema jörðinni sé ráðstafað til annarra nota með samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, t.d. lögð til afréttar eða sameinuð annarri jörð.
    Með jarðaskýrslu fyrir fardagaárið 1958–1959 hóf Landnám ríkisins árlega útgáfu á jarðaskýrslu fyrir allt landið á grundvelli skýrslna frá hreppstjórum. Þegar ábúðarlög, nr. 64/1976, og jarðalög, nr 65/1976, gengu í gildi, 31. maí 1976, var í gildi jarðaskrá fyrir fardagaárið 1975–76 (fardagar voru 3. júní 1976).
    Vegna þess hversu örðugt er um vik að afla heimilda um hvort eyðijörð hafi verið ráðstafað „til annarra nota“, við gildistöku jarðalaga, nr. 65/1976, hafa veiðifélög við ákvörðun atkvæðisréttar samkvæmt hinum nýju lögum, stuðst í framkvæmd við jarðaskrá Landnáms ríkisins fyrir fardagaárið 1975–76. Þá hefur þýðingu að við færslur í jarðaskrána, á næstliðnum árum, hafði Landnám ríkisins m.a. byggt á 1. gr. ábúðarlaga, nr. 36/1961, þar sem kveðið var á um að eyðijarðir féllu úr tölu lögbýla eða jarða hefðu þær ekki verið byggðar í 25 ár eða lengur. Með þessu hafa eigendur fjölda eyðijarða, sem fallið höfðu úr jarðaskránni, misst atkvæðisrétt í veiðifélagi.
    Með setningu laga nr. 61/2006 var ekki ætlunin að gera grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi atkvæðisréttar í veiðifélögum að því er varðar eyðijarðir. Tilgangur þessa frumvarps að færa þetta atriði til fyrri vegar með því að gera tillögu um að kveðið verði að nýju sérstaklega á um að atkvæðisréttur fylgi eyðibýlum.

C. Um ákvörðun atkvæðisréttar verði frumvarpið að lögum.
    Frumvarpið gerir einungis ráð fyrir því að orðunum „þar á meðal eyðijarðir“ verði skeytt inn í 3. málsl. 1. mgr. 40. gr. laganna, á eftir orðunum „þær jarðir“. Við þetta kveður lagatextinn skýrlega á um að atkvæðisréttur fylgi jörðum, þar á meðal eyðijörðum, sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976.
    Við úrlausn um hvort jörð, þar á meðal eyðijörð, teljist hafa verið „lögbýli“ við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976, ber, eins og áður er um getið, að hafa hliðsjón af skýringu á hugtakinu „lögbýli“ í 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976, sem öðluðust gildi sama dag og eldri jarðalög.
    Verði frumvarpið að lögum munu eyðijarðir sem í framkvæmd hafa misst atkvæðisrétt samkvæmt framansögðu öðlast þann rétt með skýrum hætti að nýju.

Um 2. gr.

    Með þessari frumvarpsgrein er stefnt að því að mæla fyrir um að sú háttsemi að hefja framkvæmd í veiðivatni án þess að leyfi hafi verið aflað skv. 1. mgr. 33. gr. laganna sé refsiverð.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er annars vegar lagt til að eigendum eyðijarða verði tryggður atkvæðisréttur á fundum veiðifélaga og hins vegar er gert ráð fyrir að sú háttsemi að hefja framkvæmd í veiðivatni án þess að leyfi hafi verið aflað, skv. 1. mgr. 33. gr. laganna, sé refsiverð.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.