Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 166. máls.

Þskj. 185  —  166. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra,
með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Á eftir orðunum „sbr. þó 4. gr. a“ í 4. mgr. 2. gr. laganna kemur: og 3. mgr. 13. gr.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      Við 1. málsl. 2. mgr. bætist: sbr. þó 3. mgr.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Matvælastofnun (yfirdýralækni) er heimilt að veita leyfi til innflutnings á djúpfrystu svínasæði að uppfylltum skilyrðum sem greinir í 8. gr. Einnig má setja skilyrði sem lúta að rannsókn sæðis á einangrunartíma og heilbrigðisástandi og aðbúnaði á því búi þar sem óskað er eftir að nýta sæðið. Komi í ljós að skilyrðum þessum er ekki fullnægt eða Matvælastofnun (yfirdýralæknir) telur smitsjúkdómahættu af sæðinu af öðrum ástæðum skal afturkalla leyfið og eyða sæðinu.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Svín voru haldin hér á landi frá landnámstíð fram til um 1600 að því er talið er. Nú á ræktun alisvína sér meira en 80 ára samfellda sögu. Á þeim tíma hafa ýmsar pestir valdið vanhöldum og búsifjum. Sú reynsla kennir að smitsjúkdómavarnir eru svínaræktinni afar mikilvægar, m.a. við innflutning dýra og erfðaefnis. (Um sögu svínaræktar fram til 1969 má vísa til Árbókar landbúnaðarins 1970, bls. 77–78.)
    Um leið og þessi sannindi eru viðurkennd verður að athuga að erfðaframfarir eru hraðstígar í svínarækt og að bændum er hagsmunamál að öðlast greiðan aðgang að ákjósanlegu erfðaefni.
    Um innflutning á svínum og erfðaefni þeirra fer nú eftir lögum nr. 54/1990, um innflutning dýra. Þeim lögum hefur í tvígang verið breytt hvað varðar innflutning svína og erfðaefnis þeirra. Það eru breytingalög nr. 153/2002 og nr. 141/2007. Markmið þessara laga hefur verið að stytta einangrunarferli og auðvelda erfðaframfarir.
    Með 13. gr. laga um innflutning dýra, með áorðnum breytingum, er ráðherra heimilt að leyfa innflutning svína og erfðaefnis þeirra frá viðurkenndum kynbótabúum eða sæðingarstöðvum á einangrunarstöð undir eftirliti umsjónardýralæknis. Slíkt leyfi skal þó aðeins veita ef fyrir liggja meðmæli yfirdýralæknis. Innflutt erfðaefni svína má hins vegar ekki flytja úr einangrunarstöð. Svín sem vaxið hafa af innfluttu erfðaefni í einangrunarstöð má flytja þaðan að fengnu leyfi yfirdýralæknis og að því tilskildu að þau séu flutt á bú sem fullnægja þeim ákvæðum sem yfirdýralæknir setur til að hindra smithættu frá þeim og fá viðurkenningu fagráðs í greininni.
    Með lögum nr. 141/2007 voru gerðar minni háttar breytingar á þeim ákvæðum laga um innflutning dýra sem varða innflutning svína, m.a. með leiðréttingu á hugtökum laganna. Við þinglega meðferð frumvarps til laganna kannaði sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd sérstaklega tilhögun á innflutningi svína og erfðaefnis þeirra í tilefni af ósk svínabænda sem komu fyrir nefndina. Sérstaklega urðu nokkrar umræður um hvort rétt gæti verið að breyta lögum þannig að heimilað yrði að flytja ýmist ferskt eða frosið svínasæði beint inn á bú hér á landi.
    Í áliti nefndarinnar, dags. 10. desember 2007, var beint til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að hann skipaði ,,starfshóp sérfræðinga til að gera tillögur um leiðir til að efla og auka hagkvæmni í svínarækt, m.a. með tilliti til hugsanlegs innflutnings á erfðaefni, með það að leiðarljósi að búgreinin verði arðbær og samkeppnisfær við aðrar greinar og matvælaöryggi og sjúkdómavarnir séu nægilega tryggð“ (þskj. 480, 204. mál 135. löggjafarþings).
    Hinn 15. apríl 2008 skipaði ráðherra nefnd þriggja manna til starfans. Þeir voru Halldór Runólfsson yfirdýralæknir, Vilhjálmur Svansson, dýralæknir og sérfræðingur í veirufræði á Keldum, og Þorsteinn Ólafsson, dýralæknir hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, nú sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun. Nefndinni var m.a. falið að íhuga þær athugasemdir og tillögur sem fram höfðu komið um innflutning svína, kanna aðstæður og fyrirkomulag sjúkdómavarna á einangrunarstöð og skilgreina þau skilyrði sem rétt væri að setja kæmi til beins innflutnings á svínasæði. Nefndin hélt fjölmarga fundi, leitaði sjónarmiða víða og fór í kynnisferð til Noregs þar sem nefndarmenn kynntu sér einangrunar- og sæðingarstöð Norsvin í Hamri auk þess sem þeir funduðu með sérfræðingum rannsóknastöðvar dýrasjúkdóma í Ósló. Nefndin skilaði ráðherra skýrslu hinn 3. apríl 2009.
    Nefndin telur að ekki sé ásættanleg áhætta að heimila innflutning á fersku svínasæði frá einangrunarstöð í Noregi beint til kynbóta á býlum hér á landi. Um ítarleg rök fyrir þessari niðurstöðu verður hér vísað til skýrslu nefndarinnar sem er m.a. aðgengileg hjá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Matvælastofnun.
    Nefndin gerir tvær tillögur um mögulegar aðferðir við innflutning á svínasæði.
    Tillaga nr. 1 felur í sér að heimild verði veitt fyrir innflutningi á fersku svínasæði frá Norsvin í Noregi sem fari eingöngu til notkunar á sérstöku einangrunarbúi (einangrunarstöð) sem rekið verði af Svínaræktarfélagi Íslands, eða öðrum þar til bærum aðila. Sú tillaga felur í sér að ekki þarf að breyta lögum enda yrði framkvæmdin, rétt eins og nú, innan heimilda 13. gr. laga um innflutning dýra.
    Tillaga nr. 2 felur í sér að heimild verði veitt fyrir innflutningi á frosnu svínasæði frá Norsvin í Noregi, sem geti farið beint inn á svínabú hér á landi, að loknum ákveðnum einangrunartíma. Fyrir slíkum innflutningi verði hverju sinni veitt sérstakt leyfi bundið skilyrðum um athugun á heilbrigðisástandi. Nauðsynleg heilbrigðisvottorð verði gefin út við töku sæðisins og önnur heilbrigðisvottorð gefin út að loknum einangrunartíma þegar staðfest hefur verið að engin viðsjárverð breyting hafi orðið á heilbrigðisástandi galtanna í Norsvin-stöðinni eða almennt í Noregi.
    Með þessu frumvarpi eru lagðar til nauðsynlegar lagabreytingar svo fara megi að síðari tillögu sérfræðinganefndarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Af 4. mgr. 2. gr. laganna má ráða að almennt er ráðherra falið að taka ákvörðun um innflutning dýra að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Frá því er einungis brugðið um gæludýr og erfðaefni þeirra sem ekki teljast til nýrra dýrategunda eða erlendra stofna tegunda sem hér eru fyrir, sbr. 4. gr. a og 5. gr. laganna.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að fullnaðarákvörðunarvald um innflutning á djúpfrystu svínasæði verði flutt til yfirdýralæknis. Ákvörðunum yfirdýralæknis má skjóta til úrskurðar ráðherra verði frumvarpið að lögum. Það er til samræmis við meginregluna um trygga kæruleið í stigskiptri stjórnsýslu.

Um 2. gr.


    Verði frumvarpið að lögum mun Matvælastofnun (yfirdýralæknir) hafa heimild skv. 3. mgr. 13. gr. laganna til að leyfa innflutning á djúpfrystu svínasæði beint inn á bú hér á landi að uppfylltum tilteknum málefnalegum skilyrðum.
    Í 8. gr. laganna er mælt fyrir um heilbrigðisskilyrði við val á erfðaefni til innflutnings. Þar er m.a. kveðið á um að sæði verði aðeins flutt inn frá viðurkenndri kynbótastöð þar sem fylgst hefur verið með heilbrigði foreldra eða foreldris nægilega lengi að mati yfirdýralæknis. Að virtri framangreindri sérfræðingaskýrslu má t.d. ætla að bú Norsvin að Hamri í Noregi geti fallið hér undir.
    Þess verður krafist að sæði verði geymt í tryggri einangrun hér á landi meðan beðið er staðfestingar á óbreyttu heilbrigðisástandi svína á kynbótastöð og útflutningslandi. Þá kann að þykja sjálfsagt að binda heimild til innflutnings við þau bú ein sem uppfylla skilyrði reglugerðar um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit á svínabúum. Rétt er að taka fram að ekki er í frumvarpsgreininni gert ráð fyrir að sérstakar hömlur verði lagðar á starfsemi svínabúa sem flytja inn erfðaefni með þessum hætti.
    Hér er aðeins fjallað um innflutning á djúpfrystu svínasæði. Um innflutning á svínum eða öðru erfðaefni mun fara eftir öðrum ákvæðum laganna, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/1990,
um innflutning dýra, með síðari breytingum.

    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að fullnaðarákvörðunarvald um innflutning á djúpfrystu svínasæði verði flutt frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti yfir til Matvælastofnunar (yfirdýralæknis). Jafnframt mun stofnunin hafa heimild til að leyfa innflutning á djúpfrystu svínasæði til svínabúa hér á landi að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.