Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.

Þskj. 219  —  195. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 47/2006, um kjararáð,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við ákvæði til bráðabirgða II í lögunum bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Til ársloka 2010 er óheimilt að endurskoða úrskurði kjararáðs sem kveðnir voru upp á árinu 2009 til hækkunar. Málsgrein þessi gildir ekki um forseta Íslands.
    Við ákvörðun launa nýrra aðila sem heyra undir úrskurðarvald kjararáðs skal gætt samræmis við 1. mgr. ákvæðis þessa.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Eitt af mikilvægustu verkefnum í efnahagsmálum næstu missiri er á sviði ríkisfjármála. Víðtækra aðgerða er þörf til að mæta miklu tekjufalli ríkissjóðs vegna efnahagshrunsins og mikilla skulda af þess völdum. Meginmarkmið frumvarps þessa er að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á árinu 2010 til að mæta stórfelldum tekjusamdrætti ríkissjóðs vegna efnahagskreppunnar.
    Frumvarpið mælir í fyrsta lagi fyrir um framlengingu þess að óheimilt sé að hækka laun þeirra sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs, nú til ársloka 2010. Því verði óheimilt, til ársloka 2010, að endurskoða úrskurði kjararáðs sem kveðnir voru upp á árinu 2009, þ.m.t. um launalækkanir alþingismanna, ráðherra og annarra sem heyra undir úrskurðarvald kjararáðs, til hækkunar. Kjarasamningar verða almennt lausir 30. nóvember 2010. Ekki er ljóst hvernig aðstæður þróast og er því ekki gert ráð fyrir að binda kjararáð lengur en til ársloka 2010. Ráðstöfun þessari er því ætlað að gilda tímabundið og að því búnu geti kjararáð að nýju fellt úrskurð um þá sem heyra undir úrskurðarvald þess að teknu tilliti til kjara hjá viðmiðunarhópum eins og þau verða á þeim tíma. Heimilt yrði að endurskoða úrskurðina til lækkunar, til dæmis ef í ljós kæmi að viðmiðunarhópar lækkuðu enn meira en sem nemur úrskurðum ráðsins. Kveðið er á um að þetta taki ekki til forseta Íslands. Helgast það af ákvæði 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að óheimilt skuli að lækka greiðslur af ríkisfé til forseta á kjörtímabili hans.
    Í öðru lagi mælir frumvarpið fyrir um að við ákvörðun launa nýrra aðila sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs skuli gætt samræmis eins og kveðið er á um í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II. Kjararáð skuli við ákvörðun launa þessara aðila gæta samræmis við þá launalækkun sem ákvörðuð var til handa alþingismönnum, ráðherrum og öðrum sem heyra undir úrskurðarvald ráðsins. Tilgangurinn er að þeir sem hæstu launin hafa lækki hlutfallslega mest að jafnaði. Kjararáði er eftirlátið svigrúm til að útfæra þá ákvörðun. Hér er m.a. átt við ákvörðun launa skv. 2. mgr. 1. gr. laganna og hugsanlega nýrra forstöðumanna sem geta komið til við sameiningar stofnana ríkisins.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 47/2006,
um kjararáð, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að óheimilt verði að endurskoða úrskurði kjararáðs, sem kveðnir voru upp á árinu 2009, til hækkunar til ársloka 2010. Með breytingu sem gerð var á lögum um kjararáð í desember 2008 var kjararáði gert að kveða upp nýjan úrskurð um 5–15% lækkun launakjara alþingismanna og ráðherra fyrir árslok 2008 og að úrskurðurinn taki gildi frá 1. janúar 2009. Óheimilt var að endurskoða úrskurðinn til hækkunar á árinu 2009. Með breytingu á lögunum var einnig mælt fyrir um að kjararáð endurskoðaði launakjör annarra er undir ráðið heyra til samræmis, þó ekki forseta Íslands. Með frumvarpi þessu er verið að lengja um eitt ár þann tíma sem lækkun launa samkvæmt úrskurði ráðsins skuli standa. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að við ákvörðun um launakjör nýrra aðila sem heyra undir úrskurðarvald kjararáðs skuli gætt samræmis við þá launalækkun sem ákvörðuð hefur verið til annarra sem heyra undir ráðið. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 er ekki gert ráð fyrir neinum hækkunum á launakjörum ríkisstarfsmanna umfram þá hækkun lægstu launa sem samið var um í lok júní sl.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er því gert ráð fyrir að launaútgjöld ríkissjóðs verði í samræmi við forsendur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010.