Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 197. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 221  —  197. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl.

Flm.: Helgi Hjörvar, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson.



1. gr.

    Við XXVII. kafla laganna bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði XX. kafla um tímamörk og fresti til riftunar ráðstafana þrotamanns skal á tímabilinu frá 6. október 2008 til 31. desember 2011 miða tímamörk og fresti riftunar ráðstafana þrotamanns við fjögur ár.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður flutt á síðasta löggjafarþingi (31. mál). Markmið frumvarpsins er að tryggja að hægt verði að ganga frá þeim málum sem upp koma í kjölfar bankahrunsins án þess að hætta sé á að hagsmunir spillist vegna álags og tímaskorts. Hér er lagt til að þetta verði framkvæmt á þann hátt að rýmka tímafresti riftunar ráðstafana þrotamanna tímabundið.
    Heimildir laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., um riftun ráðstafana þrotamanna er að finna í XX. kafla laganna. Reglur þessar heimila að hnekkja tilteknum ráðstöfunum þrotamanns eða ráðstöfunum tiltekins eðlis sem hann eða aðrir, svo sem kröfuhafar, hafa viðhaft áður en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Það er markmið gjaldþrotalaga að veita kröfuhöfum í þrotabú jafnan rétt til greiðslna við úthlutun úr því og koma í veg fyrir ólögmætt undanskot eigna. Hlutverk riftunarreglna er að tryggja enn frekar að markmið laganna um jafnræði kröfuhafa við úthlutun náist. Það getur verið freistandi fyrir skuldara sem sér fram á þrot að reyna að búa í haginn fyrir sig með því t.d. að skjóta undan eignum til nákominna eða greiða þeim kröfuhöfum sem hann sér hag í að greiða. Þá geta einstakir lánardrottnar sett skuldurum afarkosti við slíkar aðstæður, jafnvel um óeðlilegar ráðstafanir. Riftunarreglurnar eru nauðsynleg heimild fyrir þrotabúið til að ónýta með afturvirkum hætti slíkar ráðstafanir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir mismunun kröfuhafa og draga fleiri eignir undir skiptin.
    Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem nú eru í íslensku samfélagi er ljóst að þau tímamörk og frestir sem lögin gera ráð fyrir til að ónýta afturvirkar ráðstafanir þrotamanns sem falla undir lögin eru tiltölulega stuttir og ekki hugsaðir út frá þeim aðstæðum sem við er að glíma nú. Það er fyrirséð að málafjöldi verði gríðarlegur og álag á stofnunum sem koma að þessu ferli á efalaust eftir að stigmagnast á næstu missirum með þeim afleiðingum að kerfið hefur ekki undan og mun lengri tíma tekur að ljúka málum. Eins er ljóst að fjölmargir hafa gripið til ráðstafana í kjölfar bankahrunsins sem flokkast geta sem málamyndagerningar og undanskot eigna og getur það ekki liðist að þeir aðilar verði látnir komast upp með slíkt. Til að koma í veg fyrir háttsemi af þessu tagi er lagt til í frumvarpi þessu að tímamörk og frestir riftunar ráðstafana þrotamanna skuli miðast við fjögur ár fyrir frestdag.