Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.
Prentað upp.

Þskj. 223  —  199. mál.
Leiðréttur texti.




Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sjúkratryggingar,
nr. 112/2008, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    2. málsl. 2. mgr. 56. gr. laganna orðast svo: Enn fremur koma ákvæði IV. kafla til framkvæmda eigi síðar en 1. janúar 2011 að því er varðar samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt lögum um sjúkratryggingar skal Sjúkratryggingastofnun annast alla samningsgerð um kaup á heilbrigðisþjónustu. Lögin tóku gildi 1. október 2008 en gert var ráð fyrir að ákvæði IV. kafla laganna um samninga sem heilbrigðisráðuneytið hefur gert kæmi til framkvæmda eigi síðar en 1. júlí 2009 og ákvæði um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili eigi síðar en 1. janúar 2010. Heilbrigðisráðuneytið hefur gert fjölda þjónustusamninga um heilbrigðisþjónustu við ýmsa aðila, svo sem líknarfélög, sjálfseignarstofnanir og einkaaðila, og hefur flutningur þeirra til Sjúkratrygginga Íslands tekið mun meiri tíma en ætlað var. Nauðsynlegt þykir því að fresta gildistöku ákvæðis um samninga við heilbrigðisstofnanir í eigu ríkisins og samninga við sveitarfélög og aðra er reka hjúkrunarheimili um eitt ár. Hér er því lagt til að í stað 1. janúar 2010 komi 1. janúar 2011, en ákvæðið verði að öðru leyti óbreytt.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar,
nr. 112/2008, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að gerð samninga um heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðuneytið hefur séð um og gert við heilbrigðisstofnanir og sveitarfélög flytjist til Sjúkratrygginga Íslands eigi síðar en 1. janúar 2011 í stað 1. janúar 2010 þar sem lengri tíma hefur þurft til að færa þessi verkefni milli aðila en ráð var fyrir gert.
    Gerð þjónustusamninga sem heilbrigðisráðuneytið hefur haft með höndum vegna heilbrigðisþjónustu á vegum einstaklinga, fyrirtækja og sjálfseignarstofnana var færð til Sjúkratrygginga Íslands 1. júlí 2009.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.