Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.

Þskj. 224  —  200. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um náttúruverndaráætlun 2009–2013 .

(Lögð fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




    Alþingi ályktar, með vísan til 65. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, að á næstu fimm árum skuli unnið að friðlýsingu tólf svæða til þess að stuðla að traustri verndun íslenskrar náttúru og framkvæmd alþjóðlegra samninga um náttúruvernd hér á landi. Tilgangurinn er að koma upp neti verndarsvæða, byggðu á faglegum forsendum, til þess að tryggja verndun landslags, náttúru og líffræðilegrar fjölbreytni, þess sem sérstætt er í náttúru landsins, fágætt eða í hættu og að friða náttúruleg landsvæði til náttúruverndar, vísindarannsókna, vöktunar og útivistar.
    Eftirtalin svæði og tegundir lífvera verði á náttúruverndaráætlun 2009–2013:

I. Plöntusvæði.
     a.      Snæfjallaströnd – Kaldalón.
     b.      Eyjólfsstaðaskógur.
     c.      Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar.
     d.      Gerpissvæðið.
     e.      Steinadalur í Suðursveit (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

II. Dýrasvæði.
     a.      Undirhlíðar í Nesjum.
     b.      Tjarnir á Innri-Hálsum í Berufirði.
     c.      Hvannstóð undir Reynisfjalli.

III. Vistgerðir á hálendinu.
    Tvær vistgerðir á hálendinu verði friðaðar, rústamýravist og breiskjuhraunavist. Verndun þeirra verði m.a. tryggð með því að friðlýsa eftirtalin svæði:
     a.      Orravatnsrústir,
     b.      stærra friðland í Þjórsárverum,
     c.      svæði í Skaftártungum og á Síðuafrétti (sem verða hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

IV. Jarðfræðisvæði.
         Langisjór og nágrenni (verður hluti af Vatnajökulsþjóðgarði).

V. Tegundir plantna og dýra.
    Friðlýstar verði:
     a.      24 tegundir háplantna,
     b.      45 tegundir mosa,
     c.      90 tegundir fléttna,
     d.      þrjár tegundir hryggleysingja: tröllasmiður, tjarnarklukka og brekkubobbi.

Svæði sem eru á fyrstu náttúruverndaráætlun og unnið verður með áfram.
    Áfram verði unnið að friðlýsingu svæða sem eru á fyrri náttúruverndaráætlun. Staða í undirbúningi friðlýsingar þessara svæða er mjög misjöfn, en reynt verður að friðlýsa sem flest á tímabilinu.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


Inngangur.
    Tillaga til þingsályktunar um náttúruverndaráætlun 2009–2013 er nú lögð fram í þriðja sinn en sambærilegar tillögur voru lagðar fram á 136. og 137. löggjafarþingi án þess að það næðist að ljúka umfjöllun um tillögurnar. Gerðar hafa verið viðeigandi breytingar á tillögunni í samræmi við áfanga sem náðst hafa í friðlýsingum svæða sem voru tilgreind í fyrri tillögum. Fjalllendi við Hoffell hefur verið fellt út úr áætluninni þar sem friðlýsingu svæðisins og sameiningu við Vatnajökulsþjóðgarðs er lokið. Meðal annarra breytinga er minnkun á verndarsvæði brekkubobba í undirhlíðum Reynisfjalls, eftir nánari skoðun á dreifingu hans og viðræður við fulltrúa í sveitarstjórn Mýrdalshrepps um tillöguna. Ljóst er talið að með náinni samvinnu við sérfræðinga um hryggleysingja og verndun brekkubobbans er hægt að standa þannig að gangagerð á svæðinu að náttúruverndargildi þess rýrni ekki verulega. Eftir viðræður við landeigendur að Egilsstöðum I og fulltrúa Fljótsdalshéraðs um Egilsstaðaskóg og svæði til náttúruverndar í sveitarfélaginu var ákveðið að breyta ekki mörkum svæða í sveitarfélaginu heldur að ræða tillögurnar og aðra friðlýsingarkosti í tengslum við framkvæmd áætlunarinnar.
    Tillaga þessi hefur verið unnin á grundvelli 65. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, en þar er kveðið á um að umhverfisráðherra skuli láta vinna náttúruverndaráætlun fyrir landið á fimm ára fresti og leggja hana fyrir Alþingi. Í náttúruverndaráætlun skulu, í samræmi við 66. gr. laga um náttúruvernd, vera sem gleggstar upplýsingar um náttúruminjar, þ.e. náttúruverndarsvæði og lífverur, búsvæði þeirra, vistgerðir og vistkerfi sem ástæða þykir til þess að friðlýsa. Í lögunum er kveðið á um að náttúruverndaráætlun skuli taka til helstu tegunda vistgerða og vistkerfa, svo og jarðmyndana hér á landi, m.a. með tilliti til menningarlegrar og sögulegrar arfleifðar, nauðsynjar á endurheimt búsvæða, nýtingar mannsins á náttúrunni og ósnortinna víðerna. Miða skal við að svæði á náttúruverndaráætlun hafi að geyma sjaldgæfar tegundir eða tegundir í útrýmingarhættu, séu óvenjutegundarík eða viðkvæm fyrir raski ellegar séu nauðsynleg til viðhalds sterkum stofnum mikilvægra tegunda. Jafnframt skal þess gætt að svæðin hafi verulegt vísinda-, félags-, efnahags-, eða menningarlegt gildi, séu mikilvæg fyrir viðhald náttúrulegra þróunarferla, hafi alþjóðlegt náttúruverndargildi eða séu einkennandi fyrir náttúrufar viðkomandi landshluta.
    Tilgangurinn með vinnslu náttúruverndaráætlunar er að koma upp neti friðlýstra svæða sem tryggi verndun lífríkis og jarðminja sem þarfnast verndar. Í því felst m.a. að setja fram áætlun um friðlýsingar til fimm ára í senn sem lögð er fyrir Alþingi í samræmi við ákvæði 65. og 66. gr. laga um náttúruvernd. Sú náttúruverndaráætlun sem hér er kynnt er önnur áætlunin sem unnin er frá gildistöku endurskoðaðra laga um náttúruvernd árið 1999 og nær til fimm ára tímabils frá 2009–2013. Gildistími og framkvæmd fyrstu náttúruverndaráætlunar var 2004–2008 og búið er að friðlýsa þrjú svæði, þ.e. Guðlaugstungur, Vatnajökulsþjóðgarð og Vatnshornsskóg, og friðlýsing Álftaness og Skerjafjarðasvæðisins er hafin með friðlýsingu Gálgahrauns og strandsvæða innan Garðabæjar. Verndun búsvæða fugla í Heimaey og úteyjum Vestmannaeyja er á lokastigi. Vinna og undirbúningur við friðlýsingu þriggja svæða er vel á veg kominn. Vinna við fjögur svæði á fyrri áætlun, þ.e. Öxarfjörð, Látraströnd – Náttfaravíkur, Skeiðarársand og Geysi, auk svæða á Reykjanesskaganum, hefur hins vegar verið í biðstöðu. Nánar er fjallað um þessi svæði síðar í greinargerðinni.
    Hér er fjallað um áherslur í náttúruvernd, einkum hvað varðar friðlýsingar tegunda, búsvæða og vistgerða, hér á landi og stefnu í náttúruvernd á alþjóðlegum vettvangi. Þá verður gerð grein fyrir stöðu og framkvæmd fyrstu náttúruverndaráætlunarinnar, undirbúningi og vinnslu nýrrar náttúruverndaráætlunar fyrir tímabilið 2009–2013, tillögum um verndun tólf svæða og forsendum fyrir vali þessara svæða, auk tillagna um friðlýsingu fjölda tegunda plantna og dýra. Í viðauka fylgja jafnframt ítarlegri upplýsingar um hvert svæði fyrir sig og þær tegundir og vistgerðir sem áætlað er að vinna með við framkvæmd náttúruverndaráætlunar næstu fimm árin.
    Umhverfisráðherra skipaði starfshóp í júlí 2007 til þess að vinna að undirbúningi nýrrar náttúruverndaráætlunar fyrir árin 2009–2013. Starfshópinn skipuðu forstjórar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar, þau Jón Gunnar Ottósson og Ellý Katrín Guðmundsdóttir, síðar tók Kristín Linda Árnadóttir hennar sæti, og Sigurður Ármann Þráinsson, umhverfisráðuneytinu, sem var formaður starfshópsins. Auk þeirra störfuðu Snorri Baldursson og María Harðardóttir, starfsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands, og Guðríður Þorvarðardóttir og Hjalti J. Guðmundsson, starfsmenn Umhverfisstofnunar, með samráðshópnum. Í skipunarbréfi hópsins segir: „Við gerð áætlunarinnar verði lögð áhersla á að bæta framkvæmd og eftirlit með þegar friðlýstum svæðum, friðlýsingu á miðhálendi Íslands, svo sem Þjórsárvera og jaðarsvæða Vatnajökulsþjóðgarðs, auk ákveðinna viðkvæmra svæða og náttúrufyrirbæra í hafinu umhverfis Ísland.“ Við gerð áætlunarinnar skyldi starfshópurinn taka mið af fenginni reynslu af gildandi náttúruverndaráætlun 2004–2008.
    Á umhverfisþingi í október árið 2007 var undirbúningur áætlunarinnar kynntur og farið yfir hugmyndir og áherslur sem ætlunin var að leggja til grundvallar við vinnslu hennar. Gerð var grein fyrir því að áhersla yrði lögð á friðlýsingu tegunda háplantna, fléttna og mosa sem teljast vera í hættu og eru á endurskoðuðum válista Náttúrufræðistofnunar Íslands og á friðun plöntusvæða sem mikilvæg eru til styrkingar tegundafriðlýsingum, m.a. í þeim tilgangi að fullnægja alþjóðlegum skuldbindingum, bæði samnings um líffræðilega fjölbreytni og Bernarsamningsins um vernd villtra dýra og plantna og lífsvæða í Evrópu og myndun nets verndarsvæða til verndunar tegundum og vistgerðum. Á umhverfisþingi kom jafnframt fram að áhersla yrði lögð á friðun hafsvæða og tegunda í hafinu sem teljast vera í hættu, svo sem steinkórals ( Lophelia pertusa) og annarra kóraltegunda, stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og mat á útbreiðslu og friðlýsingu sérstæðra og sjaldgæfra vistgerða á hálendinu, jaðarsvæða Vatnajökulsþjóðgarðs og mikilvægra eða sérstæðra jarðmyndana sem ástæða þykir til að friðlýsa.
    Á þinginu komu fram ábendingar þingfulltrúa um að við undirbúning náttúruverndaráætlunar væri mikilvægt að huga að eftirfarandi svæðum: Langasjó, Jökulsá á Fjöllum, Torfajökulssvæðinu, Brennisteinsfjöllum, Grændal, Jökulsánum í Skagafirði, Þjórsárverum (m.t.t. stækkunar), Hofsjökli, Kverká, og að sérstaklega þurfi að huga að landslagi og votlendissvæðum.
    Starfshópurinn ásamt starfsmönnum framangreindra stofnana hafa haft veg og vanda af því að vinna tillögur að náttúruverndaráætluninni. Þessi vinna hefur tekið lengri tíma en áætlað var og hefur leitt til þess að ekki var svigrúm til þess að fara með tillögur að áætluninni í almennt kynningar- og athugasemdaferli, eins og kynnt hafði verið m.a. á umhverfisþingi í október 2007. Áætlunin er byggð á sömu hugmyndafræði og aðferðafræði og notuð var við undirbúning fyrstu áætlunarinnar, þ.e. skipulegri greiningu á tiltækum upplýsingum í gagnagrunnum Náttúrufræðistofnunar Íslands um tegundir, vistgerðir og jarðfræði landsins í þeim tilgangi að þróa áfram net verndarsvæða sem tryggi verndun líffræðilegrar fjölbreytni landsins og annarra náttúruminja. Stuðst hefur verið við þau gögn sem unnin voru við undirbúning fyrri náttúruverndaráætlunar, svo sem tillögur Umhverfisstofnunar sem kynntar voru árið 2003 og tvær skýrslur Náttúrufræðistofnunar Íslands frá árinu 2002, annars vegar Verndun tegunda og svæða sem tekur til lífríkis og vistgerða og hins vegar Verndun jarðminja á Íslandi sem unnin var í samvinnu við Umhverfisstofnun. Áherslur í vali svæða eru hins vegar aðrar. Í náttúruverndaráætlun 2004–2008 var áhersla lögð á tegundir fugla sem eru í hættu auk nokkurra plöntusvæða. Nú er megináhersla lögð á tegundir lífvera, bæði plantna og dýra, í hættu, friðun ákveðinna svæða þar sem þær tegundir sem eru í mestri hættu finnast og fágætar og verðmætar vistgerðir á hálendinu.
    Hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands við undirbúning áætlunarinnar hefur verið að fara kerfisbundið yfir og meta upplýsingar í gagnagrunnum stofnunarinnar og aðrar aðgengilegar upplýsingar um tegundir, vistgerðir, jarðmyndanir og önnur náttúrufyrirbæri og leggja mat á verndargildi þeirra í náttúru Íslands. Sérstaklega eru hafðar í huga sjaldgæfar tegundir, tegundir á válista og ábyrgðartegundir og tegundir sem falla undir alþjóðlega samninga. Í samræmi við markmið samningsins um líffræðilega fjölbeytni, evrópsku áætlunina um plöntuvernd og evrópsku áætlunina um verndun hryggleysingja er áhersla lögð á verndun plantna og búsvæði þeirra sem og nokkrar tegundir dýra og vistgerða sem eru sjaldgæfar og teljast vera í sérstakri hættu. Eldri tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands um friðlýsingu plöntutegunda voru endurskoðaðar og endurmetnar í ljósi betri og meiri upplýsinga um magn og dreifingu þeirra hér á landi.
    Umfangsmesta verkefni Umhverfisstofnunar við undirbúning þessarar náttúruverndaráætlunar tengist framkvæmd gildandi áætlunar og samantekt upplýsinga um framgang og stöðu hennar í þeim tilgangi að meta reynsluna og taka mið af henni við gerð þessarar áætlunar. Jafnframt þurfti að taka saman upplýsingar um ástand friðlýstra svæða og vinna tillögur um hvernig best megi bæta framkvæmd og eftirlit með þegar friðlýstum svæðum. Jafnframt vann Umhverfisstofnun greiningu á hugsanlegum hagsmunaárekstrum á þeim svæðum sem komu helst til greina í nýja náttúruverndaráætlun og teknar voru saman upplýsingar um landeigendur á svæðunum og til hvaða sveitarfélaga þau heyrðu.
    Í náttúruverndaráætlun 2009–2013 er lagt til að næstu fimm árin verði unnið að friðlýsingu tólf svæða á landinu og að 24 tegundir háplantna, 45 tegundir mosa, 90 tegundir fléttna, þrjár tegundir hryggleysingja og tvær vistgerðir verði friðlýstar í þeim tilgangi að tryggja verndun líffræðilegrar fjölbreytni og að halda áfram uppbyggingu nets verndarsvæða sem tryggi verndun tegunda, vistgerða og vistkerfa sem eru í hættu og þarfnast verndar. Jafnframt er lagt til að framkvæmd fyrri náttúruverndaráætlunar verði haldið áfram. Þessar áherslur eru í samræmi við ákvæði laga um náttúruvernd um vinnslu náttúruverndaráætlunar, sbr. 66. gr. laganna. Jafnframt er verið að vinna að framkvæmd stefnu og markmiða samningsins um líffræðilega fjölbreytni um að stöðva eyðingu líffræðilegrar fjölbreytni árið 2010 á landi og 2012 í höfunum og mynda net verndarsvæða í þeim tilgangi.

Markmið og hlutverk náttúruverndaráætlunar.
    Markmiðið með undirbúningi náttúruverndaráætlunar til fimm ára í senn er að móta stefnu í náttúruvernd og friðlýsingum mikilvægra náttúruminja. Um leið verður verndun náttúru Íslands markvissari, markaðar eru skýrar áherslur fyrir val svæða til friðunar og við undirbúning hennar er m.a. tekið mið af alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að og áherslum og skuldbindingum sem þeim fylgja, m.a. um að koma á fót skipulegu neti verndarsvæða sem tryggi verndun líffræðilegrar fjölbreytni, auk þess sem tekið er mið af stefnumótun og straumum í náttúruvernd á alþjóðlegum vettvangi. Einn mikilvægasti þátturinn í vinnslu og samþykkt náttúruverndaráætlunar er sú kynning og umfjöllum um áætlunina og tillögur hennar sem fram fer á Alþingi.
    Með náttúruverndaráætlun 2004–2008 var stigið fyrsta skipulega skrefið í þá átt að koma upp neti verndarsvæða hér á landi sem byggist annars vegar á vísindalegum gagnagrunnum um náttúru landsins og hins vegar á faglegu mati á verndargildi þeirra. Í náttúruverndaráætlun 2009–2013 er haldið áfram við uppbyggingu nets verndarsvæða, en nú með höfuðáherslu á plöntur og plöntusvæði auk þess sem áhersla er lögð á sjaldgæfar vistgerðir á hálendinu og nokkrar tegundir hryggleysingja sem hafa mjög takmarkaða útbreiðslu á landinu. Þetta er í fullu samræmi við áherslur í alþjóðlegu náttúruverndarstarfi undanfarið. Aðildarríki samningsins um líffræðilega fjölbreytni hafa samþykkt viðamikla stefnu um verndun plantna í heiminum þar sem hvatt er til þess að ríkin setji sér stefnu í verndun plantna í samræmi við 2010 markmiðin um að stöðva rýrnun líffræðilegrar fjölbreytni og í samræmi við þúsaldarmarkmiðin. Í samningnum er lögð rík áhersla á hversu mikilvægur þáttur í verndun náttúrunnar og líffræðilegrar fjölbreytni felst í uppbyggingu nets verndarsvæða. Það miðar að verndun tegunda, erfðabreytileika þeirra, vistgerða og vistkerfa, enda hafa verið samþykkt skýr töluleg markmið um verndun vistkerfa einstakra ríkja, svæða og heimsins í heild, bæði á þurrlendi og í höfunum.
    Á vettvangi Bernarsamningsins hefur jafnframt verið samþykkt evrópsk áætlun um plöntuvernd fyrir 2008–2014 þar sem aðildarríki samningsins skuldbinda sig til þess að vinna að verndun plöntutegunda sem falla undir samninginn og taldar eru í hættu. Í áætluninni eru töluleg markmið um verndun tegunda og mikilvægra svæða. Hluti af þessari áætlun er að tryggja verndun búsvæða viðkomandi plantna og byggjast tillögur að nýrri náttúruverndaráætlun m.a. á þessum ákvæðum. Einnig hefur sambærileg evrópsk áætlun um verndun hryggleysingja verið samþykkt á vettvangi samningsins.
    Á grundvelli samþykkta þessara samninga og skuldbindinga Íslands gagnvart þeim hefur Náttúrufræðistofnun Íslands unnið að því undanfarin ár að safna kerfisbundið upplýsingum um sjaldgæfar plöntutegundir og hefur m.a. kortlagt og lagt mat á útbreiðslu og magn plöntutegunda sem eru á válistum. Í kjölfarið var gefin út skýrsla um þessar rannsóknir, Vöktun válistaplantna 2002–2006. Nýverið var svo válisti stofnunarinnar fyrir plöntur endurmetinn á grundvelli nýrri og betri vitneskju og breytt í kjölfarið. Þær tillögur sem settar eru fram í nýrri náttúruverndaráætlun byggjast að verulegu leyti á þessari vinnu sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands. Loks ber að nefna í þessu samhengi nýútgefið Íslenskt plöntutal. Blómplöntur og byrkningar þar sem stofnunin birtir skrá yfir 489 íslenskar og ílendar framandi tegundir háplantna, en þar af eru 439 tegundir taldar til hinnar villtu íslensku flóru.

Friðlýst svæði.
    Fjöldi svæða sem friðlýst hafa verið á grundvelli laga um náttúruvernd og með sérlögum til náttúruverndar á landinu er nú 100 og er flatarmál þeirra um 21.000 km 2, sem samsvarar tæplega 20% af flatarmáli Íslands. Eyjar og strand- og sjávarsvæði eru 26 talsins, samtals um 900 km 2, 24 svæði eru í þéttbýli, samtals um 9 km 2, og flest eða 51 eru utan þéttbýlis og ná yfir tæpa 20.000 km 2. Frá því að náttúruverndaráætlun 2004–2008 var samþykkt á Alþingi árið 2003 hefur friðlýstum svæðum fjölgað um tólf. Vatnajökulsþjóðgarður var formlega stofnaður með reglugerð í júní 2008, en við það fækkaði friðlýstum svæðum um eitt svæði þar sem bæði Skaftafellsþjóðgarður og þjóðgarðurinn í Jökulsárgljúfrum sameinuðust honum. Auk hans eru tvö þessara nýju svæða á náttúruverndaráætlun 2004–2008, en það eru Guðlaugstungur – Álfgeirstungur sem friðlýstar voru árið 2005 og Vatnshornsskógur sem friðlýstur var árið 2009. Friðlýsing svæðisins Álftanes – Skerjafjörður er hafin með friðlýsingu Gálgahrauns og fjörusvæða í Garðabæ. Sex fólkvangar hafa verið friðlýstir á tímabilinu: Hraun í Öxnadal, Krossanesborgir, Einkunnir, Hvaleyrarlón, Hleinar og Stekkjahraun, þrjú náttúruvætti, þ.e. Arnarnesstrýtur í Eyjafirði, Litluborgir og Kaldárhraun, og friðland við Vífilsstaðavatn. Þá var Surtseyjarfriðland stækkað árið 2006 í tengslum við tilnefningu eyjarinnar á heimsminjalista UNESCO og nær friðlandið nú yfir eyjuna, hafsvæðið og hafsbotninn umhverfis eyjuna, alls um 330 km 2. Samtals eru þetta tæplega 8.800 km 2 , en þar af eru um 8.250 km 2 innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
    Friðlýst svæði skiptast þannig eftir friðlýsingarflokkum (Þingvallaþjóðgarður og Vatnajökulsþjóðgarður eru flokkaðir sem þjóðgarðar þótt þeir séu friðlýstir með sérlögum):

Fjöldi Stærð í ha
Þjóðgarðar 3 1.346.690
Sérlög 2 427.415
Náttúruvætti 36 13.156
Friðlönd 38 267.271
Fólkvangar 19 42.177
Búsvæði 2 2.172

    Auk friðlýstra svæða hefur 31 plöntutegund verið friðlýst, sbr. auglýsingu nr. 184/1978, en síðan þá hefur aðeins ein breyting verið gerð á friðlýsingum plantna, þ.e. með friðlýsingu kúluskíts, þrátt fyrir stóraukna þekkingu á flóru landsins. Jafnframt eru allir dropsteinar í hellum landsins friðlýstir, en til þeirra teljast allar slíkar myndanir í hellum hvort sem þær hanga úr lofti eða standa á gólfi eða veggjum hellanna, sbr. auglýsingu nr. 120/1974. Bannað er að brjóta eða skemma á annan hátt umræddar myndanir.
    Takmarkaðar upplýsingar eru til um náttúrufar friðlýstra svæða þrátt fyrir að tveir þriðju hlutar þeirra hafi verið friðlýstir í yfir 20 ár. Það er því ákveðnum vandkvæðum háð að leggja vísindalegt mat á gildi þeirra fyrir verndun líffræðilegrar fjölbreytni landsins og kerfisbundna uppbyggingu á neti verndarsvæða í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Mikilvægt er að hægt verði að bæta úr þessum þekkingarskorti í tengslum við undirbúning náttúruverndaráætlunar fyrir árin 2014–2018.

Náttúruverndaráætlun 2009–2013, friðlýsing tólf svæða og forsendur.
    Náttúruverndaráætlun 2009–2013 er unnin út frá vísindalegum gagnagrunnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og er byggð á faglegu mati á því hvaða þættir í náttúru Íslands teljast verndarþurfi. Áætlunin miðar fyrst og fremst að því að styrkja verndun ákveðinna tegunda plantna og dýra sem taldar eru í útrýmingarhættu og áframhaldandi uppbyggingu heildstæðs nets verndarsvæða á landinu. Eins og að framan greinir hófst skipuleg uppbygging nets verndarsvæða með fyrri áætlun en þá var megináherslan á fuglaverndarsvæði en jafnframt voru tvö mikilvæg plöntusvæði á áætluninni, sem ekki náðist að friðlýsa á gildistíma hennar. Í þessari áætlun er aðaláhersla hins vegar lögð á sjaldgæfar plöntutegundir og tegundir í hættu og áfram verður haldið með uppbyggingu heildstæðs nets verndarsvæða með áherslu á svæði sem skipta máli fyrir verndun plantna og búsvæði þeirra.
    Í náttúruverndaráætlun 2009–2013 er lagt til að friðlýst verði tólf svæði á gildistíma áætlunarinnar og eru það:
     .      Snæfjallaströnd – Kaldalón.
     .      Eyjólfsstaðaskógur.
     .      Egilsstaðaskógur og Egilsstaðaklettar.
     .      Gerpissvæðið.
     .      Orravatnsrústir.
     .      Þjórsárver (stækkun verndarsvæðis).
     .      Þrjú svæði við jaðar Vatnajökulsþjóðgarðs, sem verði sameinuð honum, þ.e. svæði í Skaftártungum og á Síðuafrétti, Steinadalur í Suðursveit og Langisjór og nágrenni.
     .      Þrjú verndarsvæði fyrir smádýr/hryggleysingja: Undirhlíðar í Nesjum, hvannstóð undir Reynisfjalli og tjarnasvæði á Innri-Hálsum í Berufirði.

Friðlýsing plöntusvæða.
    Í gildandi náttúruverndaráætlun 2004–2008 eru tvö svæði tilgreind sem plöntusvæði en hvorugt þeirra hefur verið friðlýst. Í þessari náttúruverndaráætlun er lagt til að unnið verði að friðlýsingu sex annarra plöntusvæða til viðbótar. Þessi svæði eiga það sameiginlegt að þar vex fjöldi sjaldgæfra háplantna og fléttna sem hafa fáa fundarstaði og í nokkrum tilvikum er um einn eða mjög fáa fundarstaði viðkomandi tegundar að ræða. Snæfjallaströnd – Kaldalón er mikilvægt svæði fyrir sjaldgæfar háplöntur, svo sem dílaburkna, stóraburkna, fjöllaufung, þúsundblaðarós, fjallabláklukku, skollaber og sandmunablóm.
    Skógarsvæðin Eyjólfsstaðaskógur og Egilsstaðaskógur eru merkilegust fyrir fjölda sjaldgæfra fléttna sem þrífast sem ásætur á birki þessara svæða. Alls finnast um 25 tegundir sjaldgæfra fléttutegunda á þessum tveimur svæðum og nokkrar þeirra eru á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Auk þess þrífast þarna sjaldgæfar tegundir háplantna eins og ferlaufungur, sjöstjarna og laugamaðra. Á Egilsstaðaklettum er einnig að finna óvenjumikla fjölbreytni fléttna og þar er m.a. annar tveggja fundarstaða tveggja fléttutegunda á landinu.
    Á Gerpissvæðinu er sérstætt gróðurfar, en á svæðinu finnast allnokkrar sjaldgæfar háplöntutegundir eins og fjöllaufungur, lensutungljurt, sóldögg, álftalaukur, mýraberjalyng, bjöllulilja, sifjarsóley o.fl. Svæðið er vinsælt til útivistar.
    Tillaga um friðlýsingu Steinadals í Suðursveit sem hluta af stækkun Vatnajökulsþjóðgarðs er fyrst og fremst tilkomin vegna gróðurfars og sjaldgæfra plantna en svæðið er jafnframt merkilegt vegna stórbrotins landslags og hrikalegs gljúfurs.
    Markmið friðlýsingar þessara svæða er að treysta friðun þessara sjaldgæfu tegunda og styðja við friðlýsingar einstakra plöntutegunda.

Friðlýsing vistgerða.
    Lagt er til að tvær vistgerðir á hálendi Íslands verði verndaðar, þ.e. breiskjuhraunavist og rústamýravist, annars vegar með því að friðlýsa þessar tvær vistgerðir með vísun til 53. gr. laga um náttúruvernd og hins vegar með friðun lykilsvæða þeirra. Alls er um að ræða fjögur svæði þar sem framkvæmdir og athafnir sem leitt geta til röskunar á umræddum vistgerðum yrðu bannaðar og eru þrjú þeirra þegar friðuð að hluta með einhverjum hætti. Breyta þarf mörkum og stækka sum svæðin til að ná tilætluðum markmiðum um verndun lykilsvæða.
     Breiskjuhraunavisti hefur ekki verið lýst utan Íslands og óvíst er hvort hana sé að finna annars staðar. Hér hefur hún einungis fundist á miðhálendi landsins, ofarlega í vestari álmu Skaftáreldahrauns og er þar útbreidd og áberandi. Lagt er til að verndarstaða vistgerðarinnar innan núverandi marka Vatnajökulsþjóðgarðs verði styrkt og verndarsvæðið stækkað nokkuð, en mikið er um breiskjuhraunavist í þeim hluta þjóðgarðsins sem tilheyrði áður friðlandi umhverfis Lakagíga.
    Tillaga er gerð um að friðlöndin í Þjórsárverum og Guðlaugstungum verði stækkuð til þess að auka friðun rústamýravistar. Lagt er til að mörk friðlandsins í Þjórsárverum verði færð út þannig að það nái yfir allt votlendi veranna. Þar með mundu bætast við nokkur rústamýrasvæði sem eru utan friðlandsins auk þess sem ákvæði stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar um verndun hins sérstæða votlendis veranna væru uppfyllt. Jafnframt yrðu friðlýsingarskilmálar styrktir og bann lagt við röskun innan svæðisins. Lagt er til að sambærileg ákvæði verði sett inn í friðlýsingu Guðlaugstungna, þ.e. bann við röskun vistgerða. Mörk friðlands í Guðlaugstungum ná yfir stóran hluta af rústamýrum á því svæði en að svo stöddu eru hér ekki lagðar til breytingar á þeim mörkum. Þegar lokið verður við að kortleggja vistgerðir á hálendi Íslands kann að vera tilefni til að endurskoða mörk friðlandsins.
    Lagt er til að Orravatnsrústir verði friðaðar en þar er að finna sérstæðasta freðmýrasvæði landsins. Lagt er til að um 90 km 2 svæði umhverfis Orravatnsrústir verði friðað. Þar með yrði meginþorri rústamýra á þessum slóðum innan marka friðlands. Austari-Pollar austan Jökulsár eystri yrðu þó undanskildir. Mörkin mundu ná frá Jökulsá í suðri, þar sem hún sveigir við Illviðrahnjúka, og norður fyrir Reyðarvatn. Í vestri mundu mörkin teygjast eftir vatnaskilum norður um Bleikáluháls og í austri sömuleiðis fylgja vatnaskilum rústamýrasvæðisins við Orravatn. Verndarákvæði væru hliðstæð þeim sem gilda munu um Þjórsárver og Guðlaugstungur.
    Nánari grein er gerð fyrir þessum vistgerðum, breiskjuhraunavist og rústamýravist, í viðauka þar sem fjallað er um útbreiðslu þeirra, einkenni og verndargildi.
    Samkvæmt ákvæðum 53. gr. laga um náttúruvernd er heimilt að friðlýsa vistgerðir almennt á landsvísu, auk svæðisbundinna friðlýsinga eins og hér er lagt til. Slík friðun vistgerða væri sambærileg við friðun tegunda plantna og dýra. Unnið verður að reglugerð eða auglýsingu með ákvæðum um almenna verndun breiskjuhraunavistar og rústamýravistar á hálendi Íslands.

Jarðfræðisvæði.
    Lagt er til að Langisjór og nánasta umhverfi hans verði friðlýst og fellt inn í Vatnajökulsþjóðgarð. Langir móbergshryggir úr basalti, myndaðir við sprungugos undir jökli, einkenna svæðið. Eldgjársprungan liggur um svæðið austanvert, en hún er 60 km löng og er lengsta gígaröð sem gosið hefur á landinu á sögulegum tíma. Langisjór og umhverfi hans er þekkt fyrir náttúrufegurð þar sem dökkbrúnt móbergið ásamt svörtum vikrinum frá Veiðivatnagosinu 1477 kallast á við tært fjallavatnið og mosagróður í fjallahlíðum. Á svæðinu er einstakt samspil jarðelds og jökla við mótun landsins.

Tegundafriðun – plöntur.
    Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að tegundir sjaldgæfra plantna sem tilgreindar eru á nýendurskoðuðum válista stofnunarinnar verði friðlýstar. Ráðuneytið telur mikilvægt, í ljósi stöðu þessara tegunda hér á landi og í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga og áherslna um plöntuverndun, rétt að friðlýsa þessar tegundir, en um er að ræða 25 háplöntur, 45 mosa og 90 fléttutegundir. Til stuðnings tegundaverndun er síðan lagt til að unnið verði að friðlýsingu mikilvægra plöntusvæða eins og að framan er getið. Með því styrkist friðun fjölda tegunda plantna, ekki aðeins ákveðinna lykiltegunda sem mikilvægastar eru á viðkomandi svæðum heldur jafnframt fjölda annarra tegunda með takmarkaða útbreiðslu og þekju. Þessi friðun byggist á þeirri vinnu sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur verið að vinna m.a. til þess að framfylgja alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.
    Aðeins ein plöntutegund, þörungurinn kúluskítur, hefur verið friðlýst á Íslandi í um 30 ár, en með auglýsingu nr. 184/1978 var 31 tegund háplantna friðlýst. Í reglugerð eða auglýsingu um friðun nýrra tegunda verða nánar útfærðar reglur um verndun þeirra. Náttúrufræðistofnun hefur vaktað þessar plöntur og vaxtarstaði þeirra ásamt öðrum plöntutegundum sem eru á válista sem stofnunin hefur tekið saman og verður áfram unnið að slíkri vöktun eftir friðlýsingu þeirra í samvinnu við náttúrustofur. Skoða þarf síðan hugsanlega svæðaverndun til að styrkja tegundafriðun við vinnslu Náttúruverndaráætlunar 2014–2018.

Tegundafriðun – hryggleysingjar.
    Hér er í fyrsta skipti lagt til að dýrategundir verði friðaðar samkvæmt lögum um náttúruvernd. Nú eru tegundir fugla og spendýra friðaðar allt árið eða hluta af árinu með lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, nr. 64/1994, og hagamýs eru friðaðar utan húss samkvæmt sömu lögum. Hér er lagt til að tvær tegundir skordýra verði friðlýstar, en það eru tröllasmiður og tjarnarklukka, og ein tegund lindýrs, þ.e. snigillinn brekkubobbi. Allar þessar tegundir hafa takmarkaða útbreiðslu á suðurhluta landsins og eru sjaldgæfar. Það er því talin ástæða til þess að friða tegundirnar og vernda búsvæði þeirra með því að friðlýsa búsvæði tjarnarklukku í tjörnum á Innri-Hálsum í Berufirði, búsvæði tröllasmiðs í Undirhlíðum í Nesjum og búsvæði brekkubobba í hvannstóði undir Reynisfjalli.

Framkvæmd náttúruverndaráætlunar 2009–2013.
    Undirbúningur friðlýsinga er í höndum Umhverfisstofnunar sem ber að gera drög að friðlýsingu og leggja fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta, sbr. 58. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Með drögum að friðlýsingu er m.a. átt við afmörkun viðkomandi svæða nákvæmar en gert er í náttúruverndaráætlun og nánari skilgreiningu markmiða og skilmála friðlýsingarinnar og tillögur um reglur svæðisins.
    Til þess að tryggja sem best samræmi á þessu stigi við grunnvinnu við upplýsingar um náttúrufar á svæðunum munu Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands vinna og fjalla sameiginlega um afmörkun og verndun landsvæða og um friðlýsingarskilmála sem fullnægi markmiðum og tilgangi friðlýsingarinnar. Reynslan sýnir að það er afar mikilvægt að markmið friðlýsingar, afmörkun svæðis og friðlýsingarskilmálar sem fela í sér kvaðir eða takmarkanir á athöfnum manna séu alveg skýr þegar rætt er við landeigendur og aðra hagsmunaaðila. Við undirbúning náttúruverndaráætlunar 2009–2013 var áhersla þess vegna lögð á þessi atriði eins og fram kemur í svæðalýsingum í viðauka.
    Vinna við friðlýsingu svæða sem eru á náttúruverndaráætlun 2009–2013 mun krefjast samvinnu og samráðs við landeigendur, sveitarstjórnir og ýmsa aðra hagsmunaaðila. Við framkvæmd náttúruverndaráætlunar verður lögð áhersla á kynningu og samráð eins snemma í ferlinu og hægt er og að þeir sem teljast hafa sérstakra hagsmuna að gæta verði skilgreindir eins fljótt og auðið er. Þessari aðferðafræði er ætlað að stuðla að aðkomu hagsmunaaðila snemma í friðlýsingarferlinu og auka þannig líkur á að sátt náist um friðlýsingu, sem er grunnurinn að því að friðlýsingin nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Umhverfisstofnun hefur hafið vinnu við samráðsáætlun fyrir hvert og eitt svæði sem kynnt verður fyrir landeigendum, sveitarstjórnum og öðrum hagsmunaaðilum til að tryggja sátt um málsmeðferð og að allir aðilar hafi góðan skilning á ferlinu.
    Fulltrúar Umhverfisstofnunar og Náttúrufræðistofnunar Íslands munu ræða við landeigendur, sveitarstjórnir og aðra hagsmunaaðila um drög að friðlýsingum eftir því sem við á og óska eftir ábendingum og sjónarmiðum þeirra. Á grunni athugasemda og viðræðna verða friðlýsingarákvæði ákveðin. Drög að friðlýsingu verða síðan kynnt fyrir landeigendum, sveitarstjórnum og öðrum hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að gera frekari athugasemdir. Náist samkomulag um friðlýsingu svæðis við þá aðila sem hagsmuna hafa að gæta er málinu vísað til umhverfisráðherra til frekari ákvörðunar. Ef samkomulag næst ekki um friðlýsingu skal skv. 1. mgr. 59. gr. laga um náttúruvernd vísa málinu til meðferðar umhverfisráðherra sem ber að gæta þeirrar málsmeðferðar sem lýst er í 59. gr. laganna.
    Umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa þegar hafið undirbúning og skipulagningu samráðs við landeigendur. Búið er að gera yfirlit yfir hvaða hagsmunir og aðstæður á hverju svæði fyrir sig eru líklegar til þess að krefjast sérstakrar úrlausnar og vekja upp spurningar þegar að samráði um friðlýsingu kemur. Þá er búið að gera drög að áætlun um það hvernig unnið verður að samráði og friðlýsingum næstu fjögur árin.
    Framkvæmd fyrstu náttúruverndaráætlunarinnar hefur verið með töluvert öðrum hætti en ráð var fyrir gert, eins og ítarlega er gerð grein fyrir hér á eftir. Aðeins hefur tekist að friðlýsa þrjú svæði og hluta af því fjórða af þeim fjórtán svæðum sem eru á áætluninni, þótt vinna við fjölmörg önnur svæði sé langt komin. Á hinn bóginn hafa nokkur önnur svæði verið friðlýst að frumkvæði sveitarfélaga og mikil vinna verið lögð í hið stóra verkefni að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Þessi reynsla sýnir að vinna þarf markvissar að þeirri stefnumörkun sem sett er fram í þingsályktunartillögum um náttúruverndaráætlun, en einnig að nauðsynlegt er að skoða framkvæmdina reglulega út frá viðræðum við landeigendur og sveitarfélög og hugsanlegum breyttum forsendum. Hvað slíkt varðar má nefna að væntanlega munu koma fram tillögur um friðlýsingar sem munu byggjast á væntanlegum niðurstöðum rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða.
    Umhverfisráðherra bryddaði upp á þeirri nýjung á 136. löggjafarþingi að flytja Alþingi skýrslu um umhverfismál sem ætlunin er að gera árlega hér eftir. Þar verður greint frá framkvæmd náttúruverndaráætlunar þannig að þingið fái upplýsingar um hvernig gengur að fylgja þingsályktunartillögunni eftir.
    Mikilvægt er að náttúruverndaráætlun hvíli á skýrum faglegum grunni hvað varðar þekkingu á náttúrunni og mat á verndargildi hennar. Fyrir fyrstu náttúruverndaráætlun var lagður góður aðferðafræðilegur grunnur sem er enn í gildi. Þó liggur fyrir að þekking á náttúrunni eykst og mat á verndargildi þróast eins og er t.d. raunin hvað varðar mat á verndargildi háhitasvæða í rammaáætlun. Náttúruverndaráætlun verður að taka mið af þessu á hverjum tíma og greina frá breytingum á viðmiðum og þekkingargrunni. Framkvæmd náttúruverndaráætlunar og friðlýsing einstakra svæða er svo háð ýmsum þáttum, svo sem vilja heimamanna og landeigenda á hverjum stað, skipulagsáætlunum sveitarfélaga og hvaða kvaðir fylgja friðlýsingum, sem getur verið mjög mismunandi eftir svæðum. Ákveðinn sveigjanleiki verður að vera í framkvæmd friðlýsinga, en ekki má hvika frá þeirri grunnhugsun í náttúruverndaráætlun að setja upp net verndarsvæða út frá vísindalegum forsendum og faglegu mati.
    Eitt af því sem þarf að huga að í tengslum við friðlýsingu er vöktun og eftirlit á viðkomandi svæðum. Umhverfisstofnun er ábyrg fyrir eftirliti og landvörslu á flestum svæðum, en landvarsla fer þó að langmestu leyti fram á nokkrum svæðum þar sem umferð ferðamanna er mikil. Öðrum svæðum er lítið eða jafnvel ekkert sinnt. Umhverfisstofnun hefur í tvö sumur skipulagt svæðislandvörslu fyrir landið allt þar sem lögð er áhersla á að öll friðlýst svæði í umsjón Umhverfisstofnunar séu vöktuð. Hefur þessi nýbreytni gefist vel.
    Ekki er gert ráð fyrir neinni tiltekinni friðlýsingu í hafinu á tímabilinu. Svæðafriðun í hafi er tiltölulega ný af nálinni og hefur hér á landi verið beitt við friðun á tveimur hverastrýtum í Eyjafirði á grundvelli laga um náttúruvernd og við lokun sjávarútvegsráðherra á fimm kórallasvæðum fyrir veiðum. Einnig hafa nokkur strandsvæði og eyjar verið friðlýst, svo sem Surtsey og Breiðafjörður (samkvæmt sérstökum lögum). Umfangsmiklu samvinnuverkefni, Botndýr á Íslandsmiðum (BioIce), sem umhverfisráðuneytið setti á laggirnar árið 1992 og miðar að því að skrásetja og kortleggja tegundir botnlægra hryggleysingja innan íslenskrar efnahagslögsögu, lýkur formlega árið 2009. Verkefnið hefur aukið verulega þekkingu manna á lífverum og vistkerfi hafsbotnsins. Í stefnumörkun um líffræðilega fjölbreytni, sem ríkisstjórnin samþykkti í ágúst 2008, er að finna ákvæði um að áfram verði unnið að friðun svæða í hafi, auk tillagna nefndar um friðun viðkvæmra hafsvæða við Ísland. Ljóst er að umræða um friðun svæða í hafinu er mikil og vaxandi innan alþjóðasamninga um umhverfisvernd og fiskveiðistjórn.

Náttúruverndaráætlun 2014–2018.
    Samkvæmt lögum um náttúruvernd skal umhverfisráðherra leggja náttúruverndaráætlun fyrir Alþingi eigi sjaldnar en á fimm ára fresti. Undirbúningur og vinna við nýja náttúruverndaráætlun þarf að vera stöðugt í gangi og í stöðugri þróun hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun samhliða framkvæmd náttúruverndaráætlunar, m.a. í ljósi nýrra rannsókna og upplýsinga um náttúru landsins. Einnig þarf að gera ítarlega athugun á náttúrufari þegar friðlýstra svæða, en eins og komið hefur fram hér á undan hafa takmarkaðar athuganir farið fram á þeim. Fara þarf skipulega yfir þessi svæði og leggja mat á náttúrufar og gildi þeirra og þýðingu í neti verndarsvæða til verndunar líffræðilegri fjölbreytni og náttúru landsins, m.a. út frá tegundum, búsvæðum, vistgerðum og vistkerfum sem og jarðfræði, landslagi og menningu og fyrir útivist. Þetta þarf að gera skipulega og beita viðurkenndum aðferðum eins og skortgreiningu (Gap Analysis), sbr. þau vinnubrögð sem mótuð hafa verið á vettvangi samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Fyrsta kastið mætti framkvæma slíka greiningu á grundvelli fyrirliggjandi gagna í gagnagrunnum án þess að leggja út í umfangsmiklar rannsóknir á svæðunum sjálfum. Óhjákvæmilegt væri samt sem áður að einhverjar rannsóknir fylgdu í kjölfar frumgreiningar þeirra takmörkuðu upplýsinga sem fyrir hendi eru um þessi svæði. Mikilvægt er að hefja þessa vinnu sem fyrst, m.a. með hliðsjón af 2010 og 2012 markmiðunum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni og myndun nets verndarsvæða á landi og í sjó, einnig með aðild að náttúruverndarneti Evrópu, Emerald Network, að leiðarljósi, en vinna við það er hafin hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.
    Miðað við áherslur í þessum fyrstu tveimur náttúruverndaráætlunum er ljóst að leggja þarf áherslu á þá þætti sem hingað til hafa orðið út undan í undirbúningi áætlananna og við friðlýsingar hingað til. Friðlýsingum í hafi hefur lítið verið sinnt þrátt fyrir 2012 markmiðin og þrátt fyrir að skýrar vísbendingar um að stór svæði í hafinu umhverfis landið hafi látið á sjá og gengið hafi verið á ákveðin búsvæði og vistkerfi í hafinu. Þá er mikilvægt að leggja mat á mikilvægi háhitasvæða fyrir líffræðilega fjölbreytni landsins og vinna að friðlýsingu mikilvægustu háhitasvæða landsins sem fyrst og jafnvel strax í kjölfar þess að niðurstöður liggja fyrir úr athugunum Náttúrufræðistofnunar Íslands í tengslum við undirbúning að öðrum áfanga rammaáætlunar og eigi síðar en við lok á því verkefni haustið 2009. Í tillögum að náttúruverndaráætlun 2009–2013 er farið inn á nýja braut með tillögum um friðun vistgerða á hálendinu. Eðlilegt er að huga að framhaldi á því með því að skoða fleiri vistgerðir á hálendinu og skilgreina og afmarka vistgerðir á láglendi. Slík vinna er mjög mikilvæg fyrir markvissar ákvarðanir er varða náttúruvernd og ekki síður fyrir alla aðra landnýtingu. Tryggja þarf stofnunum ráðuneytisins á þessu sviði fjármagn til þess að vinna að undirbúningi nýrrar náttúruverndaráætlunar fyrir tímabilið 2014–2018 samhliða framkvæmd þessarar áætlunar. Jafnframt þurfa bæði Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun að vera fjárhagslega í stakk búnar til þess að vinna að framkvæmd þessarar áætlunar með fullnægjandi hætti.

Framkvæmd og staða náttúruverndaráætlunar 2004–2008.
    Í náttúruverndaráætlun 2004–2008 var ákveðið að vinna aðallega að þremur stórum verkefnum í náttúruvernd á tímabilinu þótt þar sé einnig að finna tillögur að friðlýsingum sem ekki tengjast þessum verkefnum, t.d. friðun tveggja plöntusvæða og jarðminja. Alls var stefnt að því að friðlýsa 13 svæði á gildistíma áætlunarinnar og stofna Vatnajökulsþjóðgarð. Meginverkefni áætlunarinnar voru:
     1.      Að koma upp heildstæðu neti friðaðra fuglasvæða sem hafa verndargildi á alþjóðavísu.
     2.      Stækkun tveggja þjóðgarða.
     3.      Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og friðlýsing svæða sem munu tengjast honum.
    Umhverfisstofnun hefur haft með höndum framkvæmd náttúruverndaráætlunar 2004–2008 og annast undirbúning að friðlýsingu svæðanna enda ber stofnuninni, sbr. 58. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, að gera drög að friðlýsingu og leggja þau fyrir landeigendur, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem hagsmuna eiga að gæta. Með drögum að friðlýsingu er m.a. átt við nákvæmari afmörkun svæðanna en í áætluninni og að skilmálar friðlýsingarinnar séu settir fram. Hluti þeirrar vinnu krefst samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, einkum afmörkun búsvæða tegunda, vistgerða og vistkerfa og ákvörðun um takmarkandi friðlýsingarákvæði á hverju svæði fyrir sig.
    Við framkvæmd náttúruverndaráætlunar 2004–2008 hefur Umhverfisstofnun lagt áherslu á að kynning og samráð fari fram eins snemma í ferlinu og hægt er og að þeir aðilar sem teljast hafa sérstakra hagsmuna að gæta verði skilgreindir eins fljótt og auðið er. Stofnunin hefur því í upphafi friðlýsingarferlis boðað til kynningarfunda með landeigendum, sveitarstjórnum, umhverfisráðuneyti og öðrum hagsmunaaðilum til þess að kynna markmið og hugmyndir um friðlýsingu viðkomandi svæðis. Með þessu móti hefur stofnunin viljað stuðla að umræðu um tillögurnar og auka líkur á að sátt náist um friðlýsingu, en það er m.a. grunnurinn að því að friðlýsing nái þeim markmiðum sem að er stefnt. Á grunni athugasemda og viðræðna hefur stofnunin síðan mótað drög að friðlýsingu. Drög að friðlýsingu hafa síðan verið kynnt fyrir landeigendum, sveitarstjórnum og öðrum hagsmunaaðilum og þeim gefinn kostur á að gera frekari athugasemdir. Náist samkomulag milli Umhverfisstofnunar og þessara aðila sendir stofnunin tillögu að friðlýsingu til umhverfisráðuneytisins til frekari ákvörðunar. Samþykki ráðuneytið tillöguna er gengið frá friðlýsingu að fengnu áliti Náttúrufræðistofnunar Íslands.
    Vinna við náttúruverndaráætlun 2004–2008 fór vel af stað. Umhverfisstofnun setti í upphafi fram verkferla sem unnið skyldi eftir við friðlýsingu þeirra svæða sem falla undir náttúruverndaráætlun. Var verkinu skipt upp í þrjá meginverkþætti. Fyrsta stigið var forkönnun, sem var að mestu lokið á árinu 2005, síðan grunngagnaöflun og að lokum þriðja stigið sem felst í gerð samninga við landeigendur og sveitarstjórn og frágangi friðlýsinga. Á forkönnunarstiginu var m.a. kannað eignarhald og helstu landnytjar þar sem stuðst var við gögn Fasteignamats ríkisins og viðkomandi sýslumannsembætta. Annað stig var grunngagnaöflun þar sem m.a. var haft samband við landeigendur og sveitarstjórnir með það í huga að kanna afstöðu þeirra. Í samstarfi við sveitarstjórnir eða náttúrustofur voru haldnir kynningarfundir heima í héraði þar sem mættu fulltrúar ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar til þess að kynna áform um friðlýsingu og í sumum tilfellum fulltrúi Náttúrufræðistofnunar Íslands til að fjalla um náttúru viðkomandi svæðis. Lokastigið er að ganga frá yfirlýsingu landeigenda og sveitarstjórnar um samkomulag varðandi friðlýsingarskilmála þar sem fram koma reglur sem á svæðinu gilda og hnitsett og kortlögð mörk. Að lokum er tillaga Umhverfisstofnunar að friðlýsingu send ráðherra til ákvörðunar.
    Búið er að friða Guðlaugstungur, Vatnajökulsþjóðgarð, Vatnshornsskóg og þann hluta af Álftanes- og Skerjafjarðarsvæðinu sem er innan sveitarstjórnarmarka Garðabæjar. Vinna við friðlýsingu nokkurra annarra svæða á náttúruverndaráætlun 2004–2008 er langt komin. Að mati Umhverfisstofnunar væri unnt að ljúka friðlýsingu flestra svæðanna fyrir árslok 2013. Áhersla er nú lögð á að ljúka við friðlýsingu þeirra svæða sem lengst eru komin í ferlinu með það að markmiði að eitt til tvö svæði til viðbótar verði friðlýst fyrir árslok 2009.
    Í upphafi framkvæmdar áætlunarinnar lá fyrir að umhverfisráðuneytið mundi samhliða vinnu við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hafa umsjón með þremur svæðum sem tengdust stækkun þjóðgarða, þ.e. þeirra sem kennd eru við Öxarfjörð, Jökulsárgljúfur og Skeiðarársand. Undirbúningur að friðlýsingu Geysis í Haukadal hefur verið í biðstöðu þar sem umhverfisráðuneytið og fjármálaráðuneytið hafa átt í viðræðum við landeigendur um kaup ríkisins á þeim hluta svæðisins sem er í einkaeign.
    Hér verður gerð grein fyrir stöðunni í framkvæmd náttúruverndaráætlunar 2004–2008 og hvað gert hefur verið til þess að vinna að friðlýsingu hvers svæðis fyrir sig.

A.     Svæði sem hafa verið friðlýst.
Guðlaugstungur – Álfgeirstungur.
    Eina hálendissvæðið á náttúruverndaráætlun var friðlýst, sbr. auglýsingu nr. 1150/2005. Mikill áhugi var hjá sveitarstjórn Bólstaðarhlíðarhrepps að friðlýsa svæðið. Þar eru mikilvæg varp- og beitilönd heiðagæsar og ein stærstu og fjölbreyttustu rústasvæði utan Þjórsárvera. Svæðið er einnig sérstætt fyrir víðáttumikil heiðalönd og gróskumikið votlendi á hálendi. Friðlýsingarskilmálarnir taka til verndunar dýralífs og gróðurfars og er t.d. óheimilt að fara um varplönd heiðagæsa á varptíma. Að tillögu heimamanna var friðlýst stærra svæði en fyrirhugað var og liggja suðurmörk svæðisins um jaðar Hofsjökuls.

Vatnajökulsþjóðgarður.
    Vatnajökulsþjóðgarður var stofnaður á Alþingi með setningu samnefndra laga nr. 60/2007 og reglugerð nr. 608/2008 sem undirrituð var við formlega athöfn 7. júní 2008. Þjóðgarðurinn nær yfir um 13.490 km 2 svæði, eða um 13% af flatarmáli landsins, og er þar með stærsti þjóðgarður Evrópu. Landsvæði þjóðgarðsins er einstakt á heimsvísu. Þar er að finna síkvikt samspil jökla og eldvirkni, jökulhlaupa, eldgosa og jarðhita. Jarðfræðileg fjölbreytni á svæðinu er óvenjumikil og innan væntanlegra þjóðgarðsmarka er að finna afar sjaldgæfar landslagsheildir, m.a. ósnortin víðerni.
    Við stofnun náði Vatnajökulsþjóðgarður til þjóðgarðsins í Skaftafelli, svo og þjóðgarðsins í Jökulsárgljúfrum, alls Vatnajökuls og helstu áhrifasvæða hans, að vestan, norðan, austan og sunnan. Meðal þeirra eru Tungnafellsjökull, Vonarskarð, Hágönguhraun og Veiðivatnahraun, vestan Vatnajökuls, og Vesturöræfi, Snæfell, Eyjabakkar og hluti Hrauna, norðan Vatnajökuls. Land í Vatnajökulsþjóðgarði verður að mestu í eigu ríkisins, en einnig eru nokkur landsvæði í einkaeigu hluti af þjóðgarðinum.
    Sumarið 2009 var þjóðgarðurinn stækkaður verulega þegar fjalllendi Hoffells í Hornafirði og stórum hluta Ódáðahrauns norðan Vatnajökuls var bætt við þjóðgarðinn, samtals ríflega 1.900 km 2. Gert er ráð fyrir að Vatnajökulsþjóðgarður muni stækka frekar á næstu missirum og árum.

Vatnshornsskógur.
    Í náttúruverndaráætlun 2004–2008 er lagt til að skógurinn í Vatnshornshlíð í Skorradal, alls um 2 km 2 að stærð, verði friðlýstur. Svæðið sem er í Skorradalshreppi er á náttúruminjaskrá (svæði 238) vegna lítt snortins birkiskógar með hávöxnum trjám og gróskumiklum botngróðri en nýverið fannst ný fléttutegund, þ.e. birkikræða, í skóginum. Jörðin Vatnshorn er í eigu sveitarfélagsins og Skógræktar ríkisins og var gengið frá friðlýsingu Vatnshornsskógar í lok janúar 2009, sbr. auglýsingu nr. 164/2009.

Álftanes – Skerjafjörður.
    Sá hluti þessa svæðis sem fellur innan marka Garðabæjar hefur verið friðlýstur með tveimur friðlýsingum, annars vegar friðlýsingu hluta Gálgahrauns, alls 108 ha, sem friðlands og hins vegar strand- og sjávarsvæðis, um 428 ha, til verndunar búsvæða. Snemma á friðlýsingarferlinu kom fram ósk Garðbæinga um að friðlýsa mun stærri hluta Gálgahrauns en lagt var til í náttúruverndaráætlun. Tillaga Garðbæinga er í samræmi við gildandi aðalskipulag Garðabæjar um að friðlýsa Búrfell og hraun þess allt frá eldstöðinni til sjávar sem náttúruvætti.

B.     Svæði sem gert er ráð fyrir að verði friðlýst á næstu missirum.
Vestmannaeyjar.
    Í náttúruverndaráætlun 2004–2008 er lagt til að vernda flestar úteyjar Vestmannaeyja ásamt tveggja kílómetra svæði umhverfis eyjarnar og á Heimaey er lagt til að verndunin nái til Ystakletts og Heimakletts. Svæðið er alls um 20 km 2 að stærð og tilheyrir sveitarfélaginu Vestmannaeyjum. Unnið hefur verið að friðlýsingu þess frá árinu 2005 í samstarfi við Vestmannaeyjabæ, Náttúrustofu Suðurlands, setur Háskóla Íslands í Vestmannaeyjum og Náttúrufræðistofnun Íslands. Heimamenn stofnuðu sérstaka umsjónarnefnd með verkefninu sem hefur ásamt fulltrúum Umhverfisstofnunar fundað með hagsmunaaðilum og nytjaréttarhöfum. Heimamenn hafa lagt til að verndarsvæðum á Heimaey verði fjölgað, m.a. að allar úteyjarnar verði innan verndarsvæðisins. Drög að auglýsingu voru kynnt fyrir heimamönnum á árinu 2006 og samkomulag um tillögu að friðlýsingu svæðisins liggur fyrir. Umhverfisstofnun sendi umhverfisráðuneytinu tillögu að friðlýsingu svæðisins sumarið 2009 og er vonast til þess að á næstu vikum eða mánuðum náist samkomulag um friðlýsingu svæðisins.

Álftanes – Skerjafjörður.
    Í náttúruverndaráætlun 2004–2008 er lagt til að fjara og grunnsævi við Álftanes og Skerjafjörð, alls um 37 km 2, verði verndað. Svæðið er innan marka Garðabæjar, sveitarfélagsins Álftaness, Kópavogs, Reykjavíkur og Seltjarnarness og eru landeigendur fjölmargir einstaklingar, sveitarfélög og ríkið. Núverandi landnotkun er fjölbreytt, m.a. landbúnaður, æðarrækt, útivist, fiskveiðar, þaratekja, siglingar og hafnir. Haldnir hafa verið borgarafundir og ráðstefna um tillögu að verndun svæðisins. Haft hefur verið samráð við formenn umhverfisnefnda sveitarfélagana, en það var m.a. að frumkvæði sveitarfélagsins Álftaness að haldin var ráðstefna um verndun Skerjafjarðar þar sem náttúrufræðingar og sérfræðingar á sviði skipulagsmála, útivistar og mengunarhættu fluttu erindi. Unnið hefur verið með Náttúrufræðistofnun Íslands að kortlagningu viðkvæmustu svæðanna með tilliti til fuglalífs, sérstaklega margæsar og rauðbrystings. Komið hefur í ljós skýr vilji hjá nokkrum sveitarfélögum til að vinna að friðlýsingu svæðisins en ekki hefur náðst að vinna að friðlýsingu svæðisins í heild. Óskað hefur verið eftir formlegri afstöðu sveitarfélaganna til friðlýsingar, friðlýsingarskilmála og hvernig viðkomandi sveitarfélag vill halda áfram með verkefnið. Nú er unnið að friðlýsingu svæðisins í áföngum þar sem ljóst er að áhugi fyrir friðlýsingu er mismunandi hjá sveitarfélögunum og að erfitt hefur reynst að fá svo mörg sveitarfélög til að koma að friðlýsingunni í einu. Samráð hefur verið haft við Náttúrufræðistofnun Íslands um þessar hugmyndir. Gerð hafa verið drög að auglýsingu um friðlýsingu þar sem m.a. hefur verið tekið tillit til smábátahafna og bryggjuhverfa í sveitarfélögunum. Hér að framan var gerð grein fyrir því að gengið hefur verið frá friðlýsingu tveggja svæða í Garðabæ og einu í Hafnarfirði sem tengist þessu svæði. Vinna við undirbúnig friðlýsingar landsvæða innan sveitarfélagsins Álftaness er langt komin og gæti klárast í upphafi árs 2010.

Látrabjarg – Rauðasandur.
    Svæðið er um 486 km 2 að stærð og tilheyrir sveitarfélaginu Vesturbyggð og eru fjölmargir eigendur að svæðinu bæði einstaklingar og hið opinbera. Núverandi landnotkun er landbúnaður sem er þó minni en áður og byggð dreifðari og ferðaþjónusta. Rekin hefur verið ferðaþjónusta í Breiðavík yfir sumartímann, safn er á Hnjóti, en svæðið er vinsæll viðkomustaður ferðamanna sérstaklega vegna þess hversu aðgengilegt bjargið er. Nokkur eggjataka hefur verið stunduð í bjarginu og fiskveiðar með ströndinni. Haldnir hafa verið kynningarfundir fyrir landeigendur og aðra heimamenn á Patreksfirði og einnig í Reykjavík. Fundað hefur verið sérstaklega með sveitarstjórn, sem hefur áhuga á friðlýsingu, en taldi rétt að bíða þess að aðalskipulag sveitarfélagsins yrði tilbúið. Skiptar skoðanir eru á friðlýsingarhugmyndinni hjá landeigendum. Fyrirhugaður er fundur með sveitarstjórn Vesturbyggðar og einnig með stjórn landeigendafélagsins á Látrum. Heimsækja þarf landeigendur og kanna hug þeirra, hvers og eins. Umhverfisstofnun telur rétt að unnið verði að friðlýsingu svæðisins í áföngum og að byrjað verði á því svæði sem er í opinberri eigu, eins og Bæjarbjarg, og þar sem vilji sveitarstjórnar er til staðar ætti að vera unnt að friðlýsa fyrir árslok 2010.

Geysir í Haukadal.
    Eins og fram hefur komið hefur Umhverfisstofnun ekki hafið friðlýsingarferlið á Geysissvæðinu þar sem ákveðið var í samráði við umhverfisráðuneytið að bíða eftir kaupum ríkisins á því. Talið er að eignarhald ríkisins á svæðinu einfaldi mjög og greiði fyrir friðlýsingu í þessu tilviki.

C.     Svæði sem áætlað er að friðlýsa fyrir árslok 2013.
Álftanes – Akrar – Löngufjörur.
    Svæðið er um 460 km 2 að stærð og er innan sveitarfélaganna Borgarbyggðar og Eyja- og Miklaholtshrepps. Kynning var haldin á tillögum um friðlýsingu svæðisins á borgarafundi í Lindartungu. Aflað hefur verið upplýsinga hjá Fasteignamati ríkisins og embætti sýslumanns um eignarhald, en landeigendur eru fjölmargir. Unnin hafa verið drög að auglýsingu friðlýsingarskilmála og hafa einstaka landeigendur lýst áhuga á friðun. Áætlað er að hitta landeigendur og kanna frekar hug þeirra til friðlýsingar en ljóst er að vinna við friðlýsingu er tímafrek vegna fjölda jarða og landeigenda. Áfram verður unnið að friðlýsingu svæðisins sem hefur alþjóðlegt verndargildi vegna afar fjölbreytts fuglalífs og sem mikilvægur viðkomustaður farfugla.

Austara-Eylendið.
    Svæðið, sem er um 47 km 2, er hluti af víðfeðmustu flæðilöndum á landinu og tilheyrir sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi. Fjölmargir eigendur eru að landinu sem er að mestu í einkaeigu. Núverandi landnotkun er aðallega landbúnaður með hefðbundinni beit og veiði. Í samráði við Náttúrustofu Norðurlands vestra hafa verið haldnir almennir kynningarfundir með heimamönnum um friðlýsingu svæðisins. Vorið 2008 var á vegum Náttúrustofu Norðurlands vestra haldin ráðstefnan „Náttúra Skagafjarðar“ þar sem kynntar voru hugmyndir um friðlýsingu svæðisins auk fjölmargra erinda um sérstöðu Skagafjarðar. Óskað var eftir athugasemdum og ábendingum við tillögu að friðlýsingu Austara-Eylendisins, en engar hafa borist, hvorki Náttúrustofunni né Umhverfisstofnun. Undanfarin sumur hefur Umhverfisstofnun staðið fyrir landvörslu á svæðinu í samvinnu við Náttúrustofu Norðurlands vestra. Áfram verður unnið að friðlýsingu svæðisins. Forsendur verndar á svæðinu eru fjölbreytt fuglalíf, sjaldgæfar fuglategundir og votlendi.

Látraströnd – Náttfaravíkur.
    Svæðið sem áætlað er að verði verndað er um 604 km 2 að stærð og tilheyrir Grýtubakkahreppi og Þingeyjarsveit. Um er að ræða eyðibyggð þar sem helstu nytjar á svæðinu eru beit, ferðaþjónusta og útivist. Ákveðið var að forgangsraða vinnu við friðlýsingu vesturhluta svæðisins, þ.e. jarða í Grýtubakkahreppi, enda margar þeirra í eigu hreppsins. Haldnir voru borgarafundir á Grenivík þar sem tillögur um friðlýsingu voru kynntar. Landeigendum hafa verið sendar tillögur að reglum og mörkum hins friðlýsta svæðis. Sveitarstjórn Grýtubakkahrepps hafði áhuga á friðlýsingu svæðisins en vegna þjóðlendukrafna hafnaði Grýtubakkahreppur frekari vinnu við friðlýsingu Gjögurskagans meðan á vinnu við þjóðlendukröfuna stæði. Þar sem niðurstaða liggur fyrir í þjóðlendumálinu hefur að nýju verið óskað eftir samstarfi við Grýtubakkahrepp um friðlýsingu svæðisins. Í kjölfarið kom í ljós að afstaða sveitarfélagsins er óbreytt, en talið er mikilvægt að halda áfram vinnu við friðlýsingu svæðisins eða hluta þess.

Njarðvík – Loðmundarfjörður.
     Unnið hefur verið að því að allur Borgarfjarðarhreppur, alls um 468 km 2, verði verndaður, en svæðið er í eigu fjölmargra einstaklinga og hins opinbera. Núverandi landnotkun er hefðbundinn landbúnaður, ferðaþjónusta, fiskveiðar og útivist. Umhverfisstofnun tók þátt í borgarafundum um skipulag sveitarfélagsins og tillögu að friðlýsingu. Einnig hefur verið fundað sérstaklega um náttúruverndaráætlun. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur kortlagt útbreiðslu lykiltegunda plantna, sem flestar eru á válista. Hugmyndum um friðlýsingu var í fyrstu tekið vel og töldu heimamenn sig sjá sóknarfæri m.a. í sölu landbúnaðarafurða sem merktar væru friðlýstu svæði og lögðu sumir m.a. til að svæðið yrði gert að þjóðgarði þar sem stundaður væri landbúnaður í anda sjálfbærrar þróunar líkt og finna má víða í Evrópu. Nokkuð virðist hafa dregið úr áhuga á friðlýsingu svæðisins, en benda má á að svæðið er mjög stórt og landeigendur margir.

D.     Svæði þar sem ekki er talið að friðlýsing nái fram að ganga að svo stöddu.
Reykjanes – Eldvörp – Hafnaberg.
    Það svæði sem lagt er til að vernda yst á Reykjanesskaga er um 113 km 2 að stærð og er innan marka sveitarfélaganna Grindavíkur og Reykjanesbæjar. Núverandi landnotkun er m.a. orkuframleiðsla og er hluti svæðisins eitt af þeim svæðum sem metið er á vegum rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða. Fundað hefur verið með sveitarstjórnum á svæðinu og óskað eftir fundi með fulltrúum Orkuveitu Suðurnesja, en engin viðbrögð hafa borist frá þeim. Umhverfisstofnun telur að bíða eigi niðurstöðu II. áfanga rammaáætlunar um verndun og nýtingu náttúrusvæða og í framhaldinu verði tekin ákvörðun um hvort halda eigi áfram vinnu við friðlýsingu svæðisins. Rétt er að árétta að undanþegið tillögu að friðlýsingu var iðnaðarsvæðið á utanverðu nesinu.
    Sérstaða svæðisins er mikil bæði út frá jarðmyndunum og lífríki. Þar kemur Mið-Atlantshafshryggurinn, sem klýfur Atlantshafið í tvær úthafsplötur, á land og hvergi annars staðar eru eins glögg merki um jarðhræringar í jarðskorpunni. Þar eru mismunandi gerðir eldstöðva, svo sem dyngjur og gígaraðir, ásamt því að á utanverðum skaganum er þekkt jarðhitasvæði.

Skeiðarársandur, Jökulsárgljúfur og Öxarfjörður.
    Í tengslum við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs hefur umhverfisráðuneytið tekið upp viðræður við landeigendur að Skeiðarársandi og svæðum við Jökulsárgljúfur og Öxarfjörð til þess að kanna vilja og afstöðu þeirra til þess að Skeiðarársandur innan Austur-Skaftafellssýslu og svæði meðfram Jökulsá á Fjöllum verði friðlýst sem hluti af Vatnajökulsþjóðgarði. Þrátt fyrir ítrekaðar viðræður við landeigendur hefur ekki reynst áhugi á því hjá þeim að svæðið verði friðlýsti sem hluti þjóðgarðsins. Tenging þjóðgarðsins til sjávar er að mati ráðuneytisins mjög mikilvæg til þess að skapa heildstæða friðun þeirra náttúruminja sem tengjast samspili elds og íss og landslagsheildum sem mótaðar eru af því. Þótt búið sé að stofna Vatnajökulsþjóðgarð eru enn í gangi viðræður við landeigendur í nágrenni garðsins um að mikilvægum náttúruminjum verði bætt við þjóðgarðinn.

Kostnaðarmat.
    Metinn hefur verið kostnaður við framkvæmd náttúruverndaráætlunar 2009–2013 fyrir þau svæði sem náttúruverndaráætlun tekur til. Mat á kostnaði skiptist í tvo þætti, í fyrsta lagi friðlýsingarferlið og stofnkostnað svæða, þ.e. gerð verndaráætlunar, deiliskipulags, fræðsluefnis og stíga, eftir því sem við á á hverju svæði, og í öðru lagi rekstrarkostnað svæða á ársgrundvelli eftir að friðlýsing hefur tekið gildi. Kostnaður við friðlýsingu er mismunandi eftir svæðum og er tekið tillit til þess við matið eins og fram kemur í töflu hér á eftir.

Ár 2010 2011 2012 2013 Alls Uppsafnað
Fjöldi svæða friðlýst árlega 3 3 3 3 12
Friðlýsing og stofnkostnaður 8,0 11,0 18,0 19,0 56,0 56,0
Rekstrarkostnaður á ári 2,0 4,0 5,5 7,5 19,0 19,0
Aukin fjárveiting á ári 10,0 15,0 23,5 26,5 75,0 75,0

    Heildarkostnaður við náttúruverndaráætlunina á tímabilinu er áætlaður um 75 millj. kr. Þar af er stofnkostnaður 56 millj. kr. en heildarrekstrarkostnaður er 19 millj. kr. Eykst hann á tímabilinu eftir því sem friðlýstum svæðum fjölgar. Þannig verður varanlegur árlegur rekstrarkostnaður alls 7,5 millj. kr. á ári þegar friðlýsingum samkvæmt áætluninni er að fullu lokið á árinu 2013. Sá fyrirvari er gerður á mati á kostnaði náttúruverndaráætlunar 2009– 2013 að í kjölfar friðlýsingar má reikna með að frekari uppbyggingar sé þörf á einhverju þessara svæða m.t.t. aðgengis, þjónustu og frekari landvörslu. Í þeim tilfellum munu verða lagðar fram fjárlagabeiðnir þar að lútandi.

Viðauki.

    Hér er gerð grein fyrir friðlýsingartillögum fyrir náttúruverndaráætlun 2009–2013 sem unnar eru á grunni tillagna Náttúrufræðistofnunar Íslands, sbr. skýrslu stofnunarinnar Verndun svæða, vistgerða og tegunda (nr. 08-008). Fjallað er um svæði sem lagt er til að verði vernduð vegna mikilvægis þeirra sem búsvæða sjaldgæfra tegunda plantna og smádýra með takmarkaða útbreiðslu og einnig svæði sem ná til vistgerða á miðhálendi Íslands sem taldar eru verndarþurfi. Gerð er grein fyrir markmiðum friðlýsinganna og forsendum fyrir verndun svæðanna og leiðbeinandi tillaga að afmörkun þeirra sýnd á kortum. Auk þess er birtur listi yfir tegundir plantna og smádýra sem verða friðlýstar sérstaklega á næstunni. Allar tillögurnar gera ráð fyrir friðlýsingu skv. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd, og lögbundnu samráðsferli við landeigendur og sveitarstjórnir.

I. Plöntusvæði.

a. Snæfjallaströnd – Kaldalón.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er um 165,4 km 2 (16.540 ha) að stærð og tilheyrir sveitarfélögunum Ísafjarðarbæ og Strandabyggð. Á svæðinu er líffræðileg fjölbreytni mikil, gróðurfar er sérstætt með háu hlutfalli sjaldgæfra plöntutegunda. Svæðið er að stórum hluta á náttúruminjaskrá (svæði 324) fyrir fjölbreytt og mikilfenglegt landslag með hrikalegum fjöllum, ýmsum berggerðum, jökulgörðum og óshólmum og vegna þess að þar er fjölskrúðugur gróður og dýralíf.
     Markmið friðlýsingarinnar: Verndun búsvæða margra fágætra plöntutegunda, þar á meðal nokkurra tegunda á válista. Með búsvæðavernd tegundanna er stuðlað að því að tryggja viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðisins, sbr. 2010 markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni og evrópsku áætlunina um plöntuvernd 2008–2014.
     Mörk: Snæfjallaströnd, frá Súrnadal með strönd að Seleyri við Kaldalón. Þaðan um Háafellshjalla í tind Háafells og þaðan í Jökulholt. Þaðan í Öldugilsvatn, þá í Snæfjöll og til sjávar um Súrnadal.
     Mikilvægustu svæði: Norðurhlíðar Háafells og dalurinn inn af Kaldalóni, suðvesturhlíðar Dalsfjalls frá Innri-Skarðsá að Bæjahlíð, ásamt Unaðsdal, suðvesturhlíðar Snæfjalla frá Drangsvík að Sátuvík.
     Svæðislýsing: Fjalllendi með hrikalegum fjöllum, grónum dölum og hlíðum. Landslag er fjölbreytt og mikilfenglegt og Drangajökull setur svip sinn á svæðið. Gróðurfar er fjölbreytt og sérstætt því þarna er að finna óvenjuhátt hlutfall sjaldgæfra plöntutegunda.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður og útivist.
     Ógnir: Engar alvarlegar.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Ekkert er því til fyrirstöðu að beit búfénaðar verði áfram í svipaðri mynd og nú er. Koma þarf í veg fyrir að ágengar, framandi plöntutegundir verði fluttar inn á svæðið og forðast ber rask á landinu á þeim stöðum sem eru mikilvægastir fyrir plöntutegundirnar sem hér eru til umfjöllunar.
     Forsendur friðlýsingar: Sérstætt gróðurfar með háu hlutfalli sjaldgæfra tegunda eins og þúsundblaðarósar ( Athyrium distentifolium), fjöllaufungs ( Athyrium filix-femina), skollakambs ( Blechnum spicant), mánajurtar ( Botrychium boreale), lensutungljurtar ( Botrychium lanceolatum), fjallabláklukku ( Campanula uniflora), keldustarar ( Carex paupercula), dúnhulstrastarar ( Carex pilulifera), skollaberja ( Cornus suecica), sóldaggar ( Drosera rotundifolia), dílaburkna ( Dryopteris expansa), stóraburkna ( Dryopteris filix-mas), sandmunablóms ( Myosotis stricta), grájurtar ( Omalotheca sylvatica), ferlaufungs ( Paris quadrifolia) og broddkrækils ( Sagina subulata).

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsendur verndar
Hrísastör Carex adelostoma Háplanta Sjaldgæf VU Einn af nokkrum fundarstöðum
Hlíðaburkni Cryptogramma crispa Háplanta Mjög sjaldgæf VU Annar af tveimur fundarstöðum
Línarfi Stellaria borealis Háplanta Sjaldgæf VU Fjórir af 12 fundarstöðum

b. Eyjólfsstaðaskógur og nærliggjandi skóglendi.
    Svæðið sem hér er lagt til að verði verndað er um 3,3 km 2 að stærð og tilheyrir sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Um er að ræða birkiskóg sem er mikilvægt búsvæði margra sjaldgæfra plöntutegunda, einkum fléttna. Svæðið er ekki á náttúruminjaskrá.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Markmið friðlýsingarinnar er að vernda mikilvægt búsvæði fyrir margar sjaldgæfar tegundir ásætufléttna. Með verndun tegunda og búsvæða þeirra er stuðlað að því að tryggja viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðanna, sbr. 2010 markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni og evrópsku áætlunina um plöntuvernd 2008–2014.
     Mörk: Að norðan miðast mörk við læk sem rennur úr Axlardal niður í Gerðisás. Að vestan og sunnan ráðast mörk af útbreiðslu skógarins en frístundabyggðin við Úlfarsstaði er þó utan marka. Austurmörk miðast við 300 m hæðarlínu.
     Svæðislýsing: Eyjólfsstaðaskógur er hluti af víðáttumiklu birkiskóglendi í fjallshlíð og nær hann upp í um 250 m hæð. Í skóginn hefur verið plantað barrtrjám og hluti skógarins er skipulagður sem sumarhúsabyggð. Fjölbreytni fléttutegunda er mikil í skóginum. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði.
     Núverandi landnotkun: Hluti skógarins er skilgreindur sem frístundabyggð samkvæmt aðalskipulagi. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði. Plantað hefur verið erlendum trjátegundum í hluta skógarins.
     Ógnir: Stækkandi frístundabyggð og útbreiðsla framandi trjátegunda.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Ekki verði settar á skipulag frekari fyrirætlanir en nú þegar eru um frístundabyggð eða aðra mannvirkjagerð eða jarðrask á svæðinu. Sá hluti skógarins sem ekki er tekinn frá fyrir frístundabyggð ætti að fá að vaxa villtur og þróast eftir eigin lögmálum. Koma ætti í veg fyrir frekari skógrækt barrtrjáa á svæðinu.
     Forsendur friðlýsingar: Birkiskógur með fjölbreyttum ásætufléttum en á birkinu og fauskum þess má finna flestar sjaldgæfar ásætufléttur sem helst hafa útbreiðslusvæði sitt um austan- og suðaustanvert landið.

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsendur verndar
Birkiskegg Bryoria fuscescens Flétta Sjaldgæf VU Einn af 12 fundarstöðum
Flatþemba Hypogymnia physodes Flétta Sjaldgæf LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Pípuþemba Hypogymnia tubulosa Flétta Sjaldgæf LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Japewia subaurifera Flétta Mjög sjaldgæf Einn af fjórum fundarstöðum
Gljádumba Melanelia septentrionalis Flétta Sjaldgæf EN Einn af 14 fundarstöðum
Grástika Parmeliopsis hyperopta Flétta Mjög sjaldgæf CR Einn af þremur fundarstöðum
Gulstika Parmeliopsis ambigua Flétta Sjaldgæf Einn af 10 fundarstöðum
Næfurskóf Platismatia glauca Flétta Sjaldgæf VU Einn af 10 fundarstöðum
Krypplugrös Tuckermannopsis chlorophylla Flétta Sjaldgæf Einn af allmörgum fundarstöðum
Gullinvarp Vulpicida pinastri Flétta Mjög sjaldgæf EN Einn af sjö fundarstöðum

c. Egilsstaðaskógur, nærliggjandi skóglendi og Egilsstaðaklettar.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er um 24,7 km 2 að stærð, eða um 2.470 ha, og tilheyrir sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði. Um er að ræða birkiskóg sem er mikilvægt búsvæði margra sjaldgæfra plöntutegunda, einkum fléttna. Einnig nær tillagan til Egilsstaðakletta þar sem tegundafjölbreytni fléttna er óvenjumikil. Svæðið tilheyrir að hluta svæði nr. 611 á náttúruminjaskrá, þ.e. austanverðum Eyvindarárdal og Eyvindarárgili, sem er á skrá vegna fagurs gljúfurs, vatnsmikillar bergvatnsár, skóglendis og jökulgarða. Einnig sem útivistarsvæði í nágrenni Egilsstaða.
     Markmið friðlýsingarinnar: Verndun afar mikilvægs búsvæðis fyrir margar sjaldgæfar fléttutegundir og nokkrar tegundir háplantna. Um er að ræða náttúrulegan, lítt snortinn og hávaxinn birkiskóg þar sem gróðurfar er mjög fjölbreytt og einnig kletta við Lagarfljót þar sem óvenjumargar fléttutegundir vaxa á litlu svæði. Með verndun tegunda og búsvæða þeirra er stuðlað að því að tryggja viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðanna, sbr. 2010 markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni og evrópsku áætlunina um plöntuvernd 2008–2014.
     Mörk: Miðhúsaskógur, Selskógur, Egilsstaðaskógur og Dalhúsaskógur. Að norðan eru mörk dregin austur með Miðhúsaá upp undir Brúnagil. Austurmörk miðast við 500 m hæðarlínu á Gagnheiði suður að Valagili. Niður með Valagilsá, yfir Eyvindará og upp með Köldukvísl upp í 300 m hæð. Að vestan fylgja mörkin útbreiðslumörkum birkisins, vestur fyrir Innri- og Ytri-Vatnshæðir, að Krossásum og í byrjunarpunkt. Við Egilsstaðakletta eru mörkin dregin utan um klettana.
     Svæðislýsing: Víðáttumikið og uppvaxandi birkiskóglendi austan Egilsstaða og inn með Eyvindarárdal. Skógurinn er að miklum hluta gamall og sjálfsáður og er hann meðal stærstu skóga á landinu þar sem trén ná allt að 10 m hæð. Lítið hefur verið plantað af erlendum trjátegundum. Á láglendi er skógurinn ósamfelldur þar sem skóglausum mýrum hefur verið breytt með framræslu og túnrækt en þéttastur er hann á Egilsstaðahálsi. Í Egilsstaðaskógi er stærsta útbreiðslusvæði villtrar blæaspar á landinu og þar er hún einnig hæst, eða um 8 m. Í skóginum vex einnig reyniviður og gulvíðir. Gróðurfar er sérstætt og þar vaxa sjaldgæfar plöntutegundir, m.a. mikill fjöldi fléttutegunda. Skógurinn er vinsælt útivistarsvæði.
    Egilsstaðaklettar eru við Lagarfljót og á þeim vaxa óvenjumargar fléttutegundir á litlu svæði.
     Núverandi landnotkun: Útivist og landbúnaður.
     Ógnir: Frístundabyggð.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Skógurinn fái að vaxa villtur og þróast eftir eigin lögmálum. Ekki skal hirða um hann eins og um nytjaskóg væri að ræða því dauðir trjádrumbar geta verið mikilvæg búsvæði fyrir ákveðnar tegundir. Óheimilt verði að flytja inn á svæðið framandi tegundir og beit bönnuð. Ekki verði settar á skipulag frekari fyrirætlanir en nú þegar eru um frístundabyggð eða aðra mannvirkjagerð á svæðinu.
     Forsendur friðlýsingar: Birkiskógur með fjölbreyttum ásætufléttum en einnig má finna nokkrar þyrpingar af villtri blæsöp í skóginum. Í skóginum vaxa nokkrar sjaldgæfar háplöntutegundir, t.d. ferlaufungur ( Paris quadrifolia), sjöstjarna ( Trientalis europaea) og laugamaðra ( Galium uliginosum). Á birkinu og fauskum þess má finna flestar sjaldgæfar ásætufléttur sem helst hafa útbreiðslusvæði sitt um austan- og suðaustanvert landið, einnig nokkrar tegundir sem aðeins hafa fundist í skóginum en eru lítt þekktar á Íslandi og því ekki hægt að fullyrða hvort séu sjaldgæfar, eins og bleikörðu ( Biatora albohyalina), Lepraria elobata, Ochrolechia arborea og Pertusaria leioplaca. Á Egilsstaðaklettum er tegundafjölbreytni fléttna afar mikil og þar hefur fundist 141 tegund, m.a. er þar annar tveggja fundarstaða vætlukorpu ( Dermatocarpon deminuens) og hreisturkorpu ( Dermatocarpon leptophyllodes).

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsendur verndar
Blæösp Populus tremula Háplanta Mjög sjaldgæf VU Einn af sex fundarstöðum
Arthonia mediella Flétta Mjög sjaldgæf Eini fundarstaðurinn
Fauskprjónar Chaenotheca furfuracea Flétta Mjög sjaldgæf Einn af fjórum fundarstöðum
Vætlukorpa Dermatocarpon deminuens Flétta Mjög sjaldgæf Annar af tveimur fundarstöðum
Hreisturkorpa Dermatocarpon leptophyllodes Flétta Mjög sjaldgæf Annar af tveimur fundarstöðum
Flatþemba Hypogymnia physodes Flétta Sjaldgæf LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Pípuþemba Hypogymnia tubulosa Flétta Sjaldgæf LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Skrámuklúka Japewia subaurifera Flétta Mjög sjaldgæf Einn af þremur fundarstöðum
Lecanora cenisia Flétta Mjög sjaldgæf Annar af tveimur fundarstöðum
Grábleðla Lobothallia alphoplaca Flétta Sjaldgæf VU Einn af 10 fundarstöðum
Gljádumba Melanelia septentrionalis Flétta Sjaldgæf EN Einn af 14 fundarstöðum
Gulstika Parmeliopsis ambigua Flétta Sjaldgæf Tveir af 10 fundarstöðum
Grástika Parmeliopsis hyperopta Flétta Mjög sjaldgæf CR Einn af þremur fundarstöðum
Svarðskjóða Thrombium epigaeum Flétta Sjaldgæf EN Einn af níu fundarstöðum
Krypplugrös Tuckermannopsis chlorophylla Flétta Sjaldgæf Einn af allmörgum fundarstöðum
Gullinvarp Vulpicida pinastri Flétta Mjög sjaldgæf EN Einn af sjö fundarstöðum

d. Gerpissvæðið.
    Svæðið sem hér er lagt til að verði verndað er um 157 km 2 að stærð, eða 15.664 ha, og er í Fjarðabyggð. Það tilheyrir svæði nr. 650 á náttúruminjaskrá sem er í skránni vegna afar fagurs og fjölbreytilegs fjalllendis með líparítinnskotum. Þar er einnig fögur strandlengja og svæðið er austasti hluti Íslands.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Markmið friðlýsingarinnar: Verndun búsvæðis nokkurra sjaldgæfra hápöntutegunda á svæði sem býr yfir sérstæðu gróðurfari sem einkennist af snjódældagróðri. Með því að tryggja búsvæðavernd tegundanna er stuðlað að viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni, sbr. 2010 markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni og evrópska stefnumótum um plöntuvernd 2008 –2014.
     Mörk: Svæðið markast af línu sem dregin er frá Hellisfjarðarnesi í Grænafell og Grákoll eftir hæstu brúnum í Víkurheiði og til sjávar við Flesjar vestan við Karlsskála og er austan þeirrar línu.
     Svæðislýsing: Eyðibyggð á austasta hluta landsins. Svæðið einkennist af fjölbreyttu landslagi með fjöllum, grösugum dölum með bröttum hlíðum, víkum og fjörðum. Gróðurfar er sérstætt með snjódældagróðri og þar vaxa allnokkrar sjaldgæfar háplöntutegundir. Svæðið er vinsælt til útivistar og um það liggja áhugaverðar gönguleiðir.
     Mikilvægustu svæði: Sandfell milli Viðfjarðar og Sandvíkur, Sandvík, Skammidalur í Viðfirði, Vöðlavík, Víkurvatn og norðurhlíðar Hellisfjarðar frá Götuhjalla að Háa-Járnskara.
     Núverandi landnotkun: Beitiland og útivist.
     Ógnir: Notkun framandi og ágengra plöntutegunda ógnar svæðinu, t.d. hefur alaskalúpínu verið sáð/plantað í Víkurskarði og Vöðlavík. Uppbygging frístundahúsa á eyðijörðum er óskipulögð.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Ekkert er því til fyrirstöðu að beit búfénaðar verði áfram í svipaðri mynd og nú er. Koma þarf í veg fyrir að ágengar, framandi plöntutegundir verði fluttar inn á svæðið og uppræta ætti þær sem fyrir eru. Forðast ber allt rask á landinu á þeim stöðum sem eru mikilvægust fyrir plöntutegundirnar sem hér eru til umfjöllunar.
     Forsendur fyrir friðlýsingu: Sérstætt gróðurfar en á svæðinu finnast allnokkrar sjaldgæfar háplöntutegundir eins og fjöllaufungur ( Athyrium filix-femina), lensutungljurt ( Botrychium lanceolata), dúnhulstrastör ( Carex pilulifera), hagastör ( Carex pulicaris), sóldögg ( Drosera rotundifolia), álftalaukur ( Isoetes echinospora), mýraberjalyng ( Oxycoccus microcarpus), bjöllulilja ( Pyrola grandiflora), sifjarsóley ( Ranunculus auricomus) og bergsteinbrjótur ( Saxifraga paniculata).

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsendur verndar
Skógelfting Equisetum sylvaticum Háplanta Mjög sjaldgæf VU Einn af þremur fundarstöðum, sá eini á Austurlandi
Stinnasef Juncus squarrosus Háplanta Sjaldgæf VU Tveir af tíu fundarstöðum

e. Steinadalur.
    Svæðið sem hér er lagt til að verði verndað er um 51 km 2 að stærð, eða um 5.106 ha, og er staðsett í sveitarfélaginu Hornafirði. Það tilheyrir svæði 633 á náttúruminjaskrá sem er á skránni m.a. vegna stórbrotins landslags, hrikalegs gljúfurs og kjarrlendis.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Markmið friðlýsingarinnar: Verndun mikilvægs búsvæðis fyrir margar sjaldgæfar fléttutegundir með takmarkaða útbreiðslu og nokkrar tegundir háplantna. Með verndun tegunda og búsvæða þeirra er stuðlað að því að tryggja viðhald líffræðilegrar fjölbreytni svæðanna, sbr. 2010 markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni og evrópska stefnumótum um plöntuvernd 2008– 2014. Lagt er til að svæðið verði sameinað Vatnajökulsþjóðgarði.
     Mörk: Staðarfjall um fjallsbrúnir að Nautastigsgili. Niður með gilinu, með brekkurótum suður fyrir Grenishvammshrygg, yfir Köldukvísl í Steinadal og í Prestsstól í Steinafjalli. Um fjallsbrúnir í Kvennaskálatind, Bæjartind, Þverártind og að jökulrönd. Með mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs að Staðarfjalli.
     Mikilvægustu svæði: Steinadalur og norðausturbrekkur Staðarfjalls.
     Svæðislýsing: Dalir og fjalllendi, með skógum, graslendi og lítt grónu bersvæði.
     Núverandi landnotkun: Frístundabyggð, beit, útivist.
     Ógnir: Trjárækt þar sem töluvert hefur verið plantað af innfluttum trjám. Lúpína er á svæðinu og gæti breitt úr sér. Frístundabyggð.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Birkiskógurinn ætti að fá að vaxa villtur og fá að þróast eftir eigin lögmálum. Ekki skal hirða um hann eins og um nytjaskóg væri að ræða því dauðir trjádrumbar geta verið mikilvæg búsvæði fyrir ákveðnar lífverur. Stöðva ætti innflutning framandi tegunda inn á svæðið. Ekki ætti að skipuleggja landnotkun á svæðinu sem felur í sér jarðrask. Ekkert er því til fyrirstöðu að hefðbundinni nýtingu landsins í þágu landbúnaðar verði haldið áfram, þ.e. til beitar búfénaðar.
     Forsendur fyrir friðlýsingu: Birkiskógur með fjölbreyttum ásætufléttum en á birkinu og fauskum þess má finna flestar sjaldgæfar ásætufléttur sem helst hafa útbreiðslusvæði sitt um austan- og suðaustanvert landið. Birkið er sérstakt, vex vel og virðist spretta betur en birki frá öðrum skógum sem prófað var í tilraun Skógræktar ríkisins (Aðalsteinn Sigurgeirsson, munnl. uppl.). Einnig má finna nokkrar sjaldgæfar plöntutegundir á svæðinu eins og fjöllaufung ( Athyrium filix-femina), dúnhulstrastör ( Carex pilulifera) og stóraburkna ( Dryopteris filixmas).

Tegund Tegundarheiti Flokkur Algengi Válisti Forsendur verndar
Klettaburkni Asplenium viride Háplanta Sjaldgæf VU Einn af átta fundarstöðum
Birkiskegg Bryoria fuscescens Flétta Sjaldgæf VU Einn af nokkrum fundarstöðum
Flathyrna Evernia prunastri Flétta Mjög sjaldgæf CR Eini fundarstaðurinn
Flatþemba Hypogymnia physodes Flétta Sjaldgæf LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Pípuþemba Hypogymnia tubulosa Flétta Sjaldgæf LR Einn af allmörgum fundarstöðum
Elgshyrna Pseudevernia furfuracea Flétta Mjög sjaldgæf CR Einn af fjórum fundarstöðum
Ljósaskegg Usnea subfloridana Flétta Mjög sjaldgæf VU Einn af tveimur fundarstöðum
Krypplugrös Tuckermannopsis chlorophylla Flétta Sjaldgæf Einn af allmörgum fundarstöðum
Gullinvarp Vulpicida pinastri Flétta Mjög sjaldgæf EN Einn af fjórum fundarstöðum

II. Dýrasvæði.

a. Undirhlíðar í Nesjum. Búsvæði tröllasmiðs.
    Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er um 20 km 2, eða sem svarar 19.980 ha, að stærð í sveitarfélaginu Hornafirði. Hluti svæðisins skarast á við svæði 628 á náttúruminjaskrá sem er Laxárdalur, með fjölbreyttum og litríkum jarðmyndunum, mýrlendi og vötnum og talsverðu fuglalífi. Einnig kemur það inn á svæði 653 sem er fjalllendið utan Skarðsdals sem er á skránni vegna fagurs fjalllendis með margvíslegum bergtegundum.
     Markmið friðlýsingarinnar: Verndun búsvæðis fyrir stærstu bjöllutegund landsins, íslenskan tröllasmið Carabus problematicus islandicus sem er staðbundinn í brekkurótum fjalla frá Hoffelli og austur fyrir Almannaskarð. Með verndun svæðisins er tegundinni tryggt athvarf til að dafna áfram á eigin forsendum eins og hann hefur gert um aldir. Einnig er friðlýsingin í samræmi við 2010 markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
     Mörk: Brekkurætur fjalla frá austanverðum Hoffellsdal suður fyrir Rustanöf, að meðtöldum Laxárdal.
     Fundarstaðir: Tröllasmiðir hafa aðeins fundist í Nesjum á Suðausturlandi. Flestir hafa fundist nálægt brekkurótum fjallanna allt frá Hoffelli og austur fyrir Almannaskarð. Ekki er um það kunnugt hvort hann sé að finna fjær fjöllunum. Hann heldur sig í þurrlendinu, þ.e gras- og mólendi, og leitar gjarnan skjóls undir steinum undir brekkunum.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Forsendur friðlýsingar: Tröllasmiður er stærsta bjöllutegund sem finnst á Íslandi og um leið eitt stærsta skordýrið. Hann er talinn hafa lifað í landinu frá fornu fari og er það rökstutt með rannsókn arniðurstöðum Lindroths (1968) sem bar íslensk eintök saman við eintök frá nágrannalöndum. Í ljós kom að íslenski tröllasmiðurinn er það frábrugðinn að hann verðskuldaði að vera skilgreindur sem sérstök undirtegund ( C. p. islandicus). Talið er að það taki aldir fyrir undirtegund að myndast. Tröllasmiður er mjög staðbundinn og því viðkvæmur fyrir raski á heimkynnunum.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður.
     Ógnir: Jarðrask, t.d. efnistaka og túnrækt.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Tryggja þarf að sem minnst rask verði á því umhverfi sem tröllasmiður lifir í við brekkurætur fjallanna. Ekkert er því til fyrirstöðu að hefðbundinni nýtingu landsins í þágu landbúnaðar verði haldið áfram, þ.e. til beitar búfénaðar. Hins vegar ber að forðast allt rask á landinu, svo sem efnistöku og túnrækt.
     Annað: Tröllasmiður er heimafólki kunnur og hefur gengið undir heitinu tordýflamóðir. Ekki er vitað hversu gamalt það heiti er en elstu menn í sveitinni ólust upp við það. Tordýfill er staðbundið heiti á járnsmið ( Nebria rufescens) sem er náinn ættingi og áþekkur að sköpulagi en miklu minni. Það skýrir tilvísunina til móður.

b. Tjarnir á Innri-Hálsum. Búsvæði tjarnarklukku.
    Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er um 1 km 2, eða 146 ha, að stærð og er staðsett í Djúpavogshreppi. Svæðið er ekki á náttúruminjaskrá.
     Markmið friðlýsingarinnar: Verndun búsvæðis tjarnarklukku Agabus uliginosus sem er ein fárra tegunda vatnabjallna sem er að finna hér á landi og hefur aðeins fundist í tjörnum á Innri-Hálsum ofan Djúpavogs. Tjarnirnar búa yfir afar fjölskrúðugu smádýralífi og þar finnast nokkrar aðrar tegundir vatnabjallna. Svæðið hefur mikið rannsóknargildi. Með verndun svæðisins er tegundinni tryggt athvarf til að dafna áfram á eigin forsendum. Einnig er friðlýsingin í samræmi við 2010 markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
     Mörk: Útmörk svæðisins eru dregin um 120 m hæðarlínu utan um Innri-Hálsa.
     Svæðislýsing: Innri-Hálsar eru austan Búlandsdals ofan við Djúpavog og ná upp í um 160 m hæð. Á hálsinum er fjöldi smátjarna af ýmsu tagi sem iða af lífi. Sumar eru mjög gróðurríkar en minni gróður í öðrum.
     Forsendur friðlýsingar: Tjarnir á Berufjarðarhálsi eru eina þekkta búsvæði tjarnarklukku Agabus uliginosus hér á landi en tegundin er ein fárra tegunda vatnabjallna sem er að finna hér á landi. Hún er góður fulltrúi fyrir íslensk skordýr sem ala mestan sinn aldur í vatni. Hún er fágæt og staðbundin á áhugaverðum stað og lifir í tjörnum sem verðskulda nánari rannsóknir. Aðrar tegundir vatnabjallna sem finnast á svæðinu í ríkum mæli eru brunnklukka

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Agabus bi pustulatus
, fjallaklukka Colymbetes dolabratus og lækjaklukka Hydroporus nigrita.
     Núverandi landnotkun: Sauðfjárbeit.
     Ógnir: Engar yfirvofandi.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Eftir heldur yfirborðskennda skoðun 1990 virðast smátjarnirnar á Berufjarðarhálsi gefa ástæðu til frekari rannsókna. Ekki er kunnugt um aðsteðjandi ógnanir við tjarnasvæðið uppi á Berufjarðarhálsi enda ekki auðvelt að nýta það á annan hátt en til sauðfjárbeitar. Hins vegar er æskilegt að draga fram mikilvægi svæðisins fyrir fágæta tegund sem og aðra ættingja hennar.
     Annað: Tilvist tjarnarklukku var staðfest árið 1935 þegar skordýrasafnaranum Geir Gígja var vísað á staðinn þar sem heimamenn höfðu orðið varir við óvenjulitlar brunnklukkur í Tjörn á Berufjarðarhálsi. Lék þá grunur á að tegundin hefði borist þangað skömmu áður (Larsson & Gígja, 1959). Engin rök eru fyrir þeirri tilgátu. Hálfdán Björnsson, Kvískerjum, kom á staðinn í september 1970 og fann bjöllurnar á sínum stað. Hann kom þangað aftur í júní 1990 ásamt Erling Ólafssyni og fundu þeir tjarnarklukkur í allnokkrum tjörnum á svæðinu. Þrátt fyrir að bjöllurnar hafist vel við á hálsinum hefur þeirra ekki orðið vart annars staðar á landinu til þessa.

c. Hvannstóð undir Reynisfjalli. Búsvæði brekkubobba.
    Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er um 3 km 2, eða um 301 ha, að stærð og er staðsett í Mýrdalshreppi. Svæðið er ekki á náttúruminjaskrá.
     Markmið friðlýsingarinnar: Verndun búsvæðis fyrir brekkubobba Cepaea hortensis sem er sjaldgæfur landhryggleysingi hér á landi sem hefur líklega verið hér þegar á landnámsöld og e.t.v. fyrr. Búsvæði hans er einnig mikilvægt fyrir aðra hryggleysingja og fyrir hagamúsina, heimsins stærstu skógarmús, sem er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Með verndun svæðisins er tegundinni tryggt athvarf til að dafna áfram á eigin forsendum. Einnig er friðlýsingin í samræmi við 2010 markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
     Mörk: Að vestan miðast mörk við neðstu klettabrún en að norðan liggja þau með Króktorfuhaus og niður eftir klettabeltinu að göngustíg á láglendinu, þaðan til suðurs meðfram hvannstóðinu að landamerkjum lands sveitarfélagsins við Þórshafnarklakk og áfram með þeim landamerkjum upp í neðsu klettabrún.
     Fundarstaðir og mikilvægasta svæðið: Brekkubobbi hefur fundist með vissu á nokkrum stöðum syðst á landinu, frá Drangshlíð undir Eyjafjöllum og austur að Höfðabrekku í Mýrdal. Einnig hefur hann fundist í Heimaey. Þrír aðrir staðir hafa verið tilteknir á SV- og SA-landi en þar hafa brekkubobbar ekki fundist síðan svo ólíklegt má telja að þeir lifi þar lengur ef þeir hafa þá nokkurn tímann átt þar fastan samastað. Töluvert finnst af brekkubobbum í ríkulegum gróðri uppi undir klettum við bæinn Drangshlíð. Að lokum er töluvert um brekku

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


bobba í hvannstóðum og á aðliggjandi klettum við rætur Reynisfjalls, við byggðina í Vík, og er lagt til að það svæði verði nú friðlýst. Ekki er vel kunnugt um fjölda þeirra á öðrum fundarstöðum.
     Forsendur friðlýsingar: Brekkubobbi er góður fulltrúi fyrir fágæta landhryggleysingja hér á landi. Brekkubobbi er staðbundinn á landinu en töluvert er um hann þar sem hann finnst. Hann er stór og vel sýnilegur fólki og vekur aðdáun fyrir fallegt randaskraut. Búsvæði hans er einnig mikilvægt fyrir aðra hryggleysingja. Bæði er þar fjölbreytt smádýralíf og fjöldi smádýranna mikill.
    Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar (1772) má lesa lýsingar sem benda til þess að þeir félagar hafi fengið pata af brekkubobbum á ferðalögum sínum um landið. Því er mögulegt að tegundin hafi verið hér viðloðandi allt aftur til landnámsaldar. Hún getur jafnvel hafa borist til landsins fyrr með fuglum, en um það er ekki vitað.
     Núverandi landnotkun: Landbúnaður og garðrækt í nágrenni við svæðið.
     Ógnir: Engar yfirvofandi. Ólíklegt er talið að gangagerð og vegarlagning gegnum Reynisfjall hafi áhrif á verndun brekkubobba og friðlýsingu búsvæða hans verði ýtrustu varfærni gætt og skipulagi framkvæmda hagað þannig að lágmarksröskun verði á búsvæðinu.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Rétt er að benda á mikilvægi hvannstóða í Vík í Mýrdal fyrir velferð brekkubobba. Ríkulegur gróðurinn, verndunin sem hann veitir sem felustaður og það að viðhalda raka er afgerandi fyrir brekkubobbann. Bobbar af þessu tagi eru eftirsóttir af fuglum, ekki síst þröstum, og eru felustaðirnir í hvönninni brekkubobbanum því mikils virði. Því skal lögð áhersla á að hvannstóðin undir Reynisfjalli fái að dafna óskert.

III. Vistgerðir á hálendinu.

    Tvær vistgerðir á hálendinu verði friðaðar:
     a.      Rústamýravist.
                  Verndun hennar verði m.a. tryggð með því að:
                  –      stækka friðlönd í Þjórsárverum,
                  –      friða Orravatnsrústir.
     b.      Beiskjuhraunavist.
                  Verndun hennar verði m.a. tryggð með því að:
        –  svæði í Skaftártungum og á Síðuafrétti verði friðuð sem hluti Vatnajökulsþjóðgarðs.

a. Rústamýravist.
    Lagt er til að rústamýravist á hálendi Íslands verði vernduð. Um er að ræða vel gróin votlendi til fjalla samsett úr mörgum ólíkum gróðursamfélögum. Vistgerðin er vel afmörkuð og staðbundin. Rústamýravist er að finna innan marka friðlandanna í Þjórsárverum og Guðlaugstungum og einnig innan nokkurra svæða á náttúruminjaskrá.
     Markmið með friðlýsingunni: Verndun staðbundinnar vistgerðar á hálendinu sem telst alþjóðlega verndarþurfi en rústamýrum fer fækkandi hér á landi. Vistgerðin þykir óvenjufjölbreytt miðað við aðrar þekktar vistgerðir á hálendinu og hefur verulegt vísindalegt gildi. Rústamýrar hafa einnig sérstakt verndargildi vegna þess að þær eru meðal þeirra búsvæða sem talin eru í hættu af aðildarþjóðum Bernarsamningsins og njóta því sérstakrar verndar. Í 4. gr. Bernarsamningsins eru ákvæði um verndun búsvæða. Þar er m.a. kveðið á um að tryggja skuli verndun búsvæða þeirra tegunda sem nefndar eru í 1. og 2. viðauka samningsins, svo og þeirra vistgerða sem eru í hættu. Aðildarþjóðunum er jafnframt falið að forðast eða draga eins og kostur er að skerða slík svæði. Verndunin er einnig liður í að stuðla að stöðvun skerðingar líffræðilegrar fjölbreytni fyrir árið 2010, sbr. markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
     Útbreiðsla: Rústamýravist er bundin við miðhálendið í yfir 450–500 m hæð á svæðum þar sem loftslag er kalt, úrkoma lítil, grunnvatnsstaða há og jarðvegur þykkur og að meiri hluta lífrænn. Hún er útbreidd norðan Vatnajökuls á Vesturöræfum, Fljótsdalsheiði og Jökuldalsheiði og síðan umhverfis Hofsjökul og vestur að Langjökli, þ.e. í Þjórsárverum sunnan Hofsjökuls, Orravatnsrústum norðan hans og í Guðlaugstungum og Álfgeirstungum norðvestan jökulsins. Rústamýrar með dreifðum rústum er einnig að finna norðan og sunnan þessa aðalsvæðis. Víðáttumestu og fjölbreyttustu rústasvæði á landinu eru í Þjórsárverum og í Guðlaugstungum.
     Lýsing á vistgerð: Rústamýravist er hallalítið, vel gróið votlendi, hátt til fjalla, samsett úr mörgum gróðurfélögum. Yfirborð er breytilegt með tjörnum, flóa- og mýrasundum, lækjum, lækjadrögum og rústum með klakalinsum. Rústirnar eru sérkennilegar bungur sem lyfst hafa upp úr votlendinu og þornað. Þær eru mismunandi að stærð, lögun og gróðurfari. Á þeim er oft mikill fléttugróður. Háplöntuflóra í rústamýrum er fjölbreytt og spannar allt frá þurrlendisgróðri yfir í votlendisgróður. Gróska og hæð gróðurs er breytileg.
     Jarðvegur: Jarðvegur í rústamýrum er þykkur, að mestu leyti lífræn jörð en áfoksjörð kemur fyrir allvíða. Sífreri er algengur í jörðu. Magn kolefnis í jarðvegi er breytilegt en að jafnaði mikið en sýrustig lágt miðað við aðrar vistgerðir.
     Plöntur: Ríkjandi tegundir eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða rústir, tjarnir, mýrar eða flóa. Þekjumiklar háplöntutegundir eru grávíðir, hálmgresi, stinnastör, grasvíðir, klóelfting, kornsúra, klófífa og hengistör. Algengustu mosategundir eru Sanionia uncinata, Warnstorfia sarmentosa, Sphagnum teres, Straminergon stramineum og Warnstorfia exannulata.

    Sjaldgæfar plöntutegundir á landsvísu eru mosinn heiðahnubbi Didymodon asperifolius og fléttan Biatora helvola.

     Fuglar: Varp mófugla er mjög þétt (41,4 pör/km 2) í rústamýravist en tegundir fremur fáar. Lóuþræll og heiðlóa eru einkennistegundir. Þúfutittlingur er einnig mjög áberandi og hvergi eins algengur á hálendinu (12,1 par/km 2) og í rústamýravist. Andfuglar eru einnig áberandi, einkum heiðagæsir og eru rústamýrar landsins meðal mikilvægustu varpsvæða þessarar tegundar á landinu og þar með í heiminum. Álftir eru líka algengar, sem og hávella og kjói.
     Smádýr: Smádýralíf er lýsandi fyrir aðstæður í rústamýravist og einkennist af votlendistegundum þótt tegundir sem lifa að öllu jöfnu í þurrara umhverfi og aðrar sem alast upp í tjörnum auki á fjölbreytileikann. Tvívængjan mókryppa Megaselia sordida er afgerandi algengust, einkum í virkum rústamýrum. Tvívængjan Themira dampfi, sem elst m.a. upp í gæsaskít, er sömuleiðis algeng. Aðeins ein bjöllutegund telst algeng, þ.e. mýruxi Atheta graminicola. Hélukeppur Otiorhynchus nodosus lifir á þurrum og raklendum rústakollum og gullsmiður Amara quenseli þar sem rof er í kollana. Fjallaklukka Colymbetes dolabratus er í tjörnunum. Sníkjuvespur eru fágætar nema Aclastus gracilis sem verpir í eggjapoka köngulóa. Vorflugan tjarnahulstra Limnephilus picturatus elst upp í tjörnunum. Köngulóafána er fáskrúðug.
     Núverandi landnotkun: Beitilönd, orkuvinnslusvæði, útivist.
     Ógnir: Rústum fer fækkandi hér á landi, einkum vegna loftslagsbreytinga. Einnig eru hugmyndir um virkjanir sem ógnað geta tilvist sumra rústamýra landsins.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Framkvæmdir sem raskað geta rústamýrum eða ógnað tilvist þeirra, m.a. mannvirkjagerð og jarðrask, skulu ekki heimilar.
     Forsendur friðlýsingar: Útbreiðsla rústamýravistar takmarkast við loftslagsleg mörk hennar og geta litlar breytingar í umhverfi haft verulegar afleiðingar á tilvist hennar. Rústamýrum fer fækkandi hér á landi, m.a. vegna loftslagsbreytinga. Í rústamýravist er fjölbreytileiki gróðursamfélaga og tegundafjölbreytni plantna óvenjumikil miðað við aðrar vistgerðir sem skoðaðar hafa verið á hálendinu. Þá er vistgerðin afar mikilvæg til viðhalds varpstofni heiðagæsar sem sækir í að verpa á svæðum þar sem rústamýrar eru. Rústamýravist hefur alþjóðlegt verndargildi. Hún hefur einnig hátt vísinda- og fræðslugildi og þolir illa rask af ýmsu tagi.
     Friðun svæða: Lagt er til að tilgreind verði og vernduð lykilsvæði fyrir rústamýravist á hálendi Íslands. Þar yrðu allar framkvæmdir og athafnir sem leitt geta til röskunar á vistgerðinni fortakslaust bannaðar. Alls er um að ræða þrjú svæði og eru tvö þeirra þegar friðuð að hluta með einhverjum hætti. Breyta þarf mörkum og stækka sum þeirra til að tilætluðum markmiðum um verndun lykilsvæða verði náð.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Þjórsárver.

    Lagt er til að mörk friðlandsins í Þjórsárverum verði færð út þannig að það nái yfir allt votlendi veranna, sbr. meðfylgjandi kort, og verði alls um 1.152 km 2, eða um 115.160 ha. Þar með mundu bætast við nokkur rústamýrasvæði sem eru utan friðlandsins auk þess sem ákvæði stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar kveða á um stækkun friðlandsins. Jafnframt yrðu friðlýsingarskilmálar styrktir og bann lagt við röskun innan svæðisins.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Orravatnsrústir.

    Hér er að finna sérstæðasta freðmýrasvæði landsins. Lagt er til vernda um 73 km 2 svæði umhverfis Orravatnsrústir. Þar með yrði meginþorri rústamýra á þessum slóðum innan marka friðlands. Austari-Pollar, austan Jökulsár eystri, yrðu þó undanskildir. Mörkin mundu ná frá Jökulsá í suðri, þar sem hún sveigir við Illviðrahnjúka, og norður fyrir Reyðarvatn. Í vestri mundu mörkin teygjast eftir vatnaskilum norður um Bleikáluháls og í austri sömuleiðis fylgja vatnaskilum rústamýrasvæðisins við Orravatn. Verndarákvæði væru hliðstæð þeim sem gilda munu um Þjórsárver og Guðlaugstungur.

b. Breiskjuhraunavist.
    Lagt er til að breiskjuhraunavist á hálendi Íslands verði vernduð. Um er að ræða mjög sjaldgæfa og fremur staðbundna vistgerð sem mótast af fágætum aðstæðum þar sem undirstaðan er víðast hvar afar hrjúft, ungt hraun, með hryggjum og gjótum. Áfok er lítið en úrkoma mikil. Breiskjuhraunavist er að finna í Skaftáreldahrauni, að hluta til við Laka innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
     Markmið með friðlýsingunni: Verndun staðbundinnar og afar sjaldgæfrar vistgerðar á hálendinu í einu stærsta hrauni sem runnið hefur á sögulegum tíma á jörðinni. Vistgerðin þykir afar sérstæð og fjölbreytt miðað við þekktar vistgerðir á hálendinu. Verndun breiskjuhraunavistar er liður í að stuðla að stöðvun skerðingar líffræðilegrar fjölbreytni fyrir árið 2010, sbr. markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
     Útbreiðsla: Í rannsóknum hefur breiskjuhraunavist enn sem komið er aðeins fundist á hálendi Suðurlands á afréttum Skaftártungu og Síðumanna, þar sem hún þekur stór svæði í Skaftáreldahrauni. Þessari vistgerð hefur ekki verið lýst annars staðar en hér á landi.
     Lýsing á vistgerð: Allvel grónar hallalitlar hraunbreiður, einkum á svæðum með ríkulegri úrkomu. Gróður er mjög lágvaxinn (<5 cm) og einkennist af breiskjufléttum ( Stereocaulon) og mosunum melagambra ( Racomitrium ericoides) og hraungambra ( R. lanuginosum) en háplöntur vaxa á stangli. Á snjóléttum stöðum í vistgerðinni, svo sem á gígum, bungum og rindum, er hraungambri ráðandi en þar sem snjór liggur lengur tekur fyrst við melagambri en síðan hélumosi, sem verður ráðandi í lægðum. Breiskjufléttur eru yfirleitt mjög áberandi og mynda víða töluverða þekju. Víðast hvar er hraunið úfið en sums staðar eru sléttar hraunhellur. Yfirborð er yfirleitt stöðugt. Í hrauninu er mikill breytileiki þar sem hryggir, kollar, rindar, drangar, drýli, traðir, rásir, gjótur, glufur og smáhellar skapa fjölbreytileika. Þar finnast einnig melablettir, vikurhólar og vikurskellur. Háplöntuflóra er fremur fábreytt en mosa- og fléttutegundir hlutfallslega margar.
     Jarðvegur: Klapparjörð er ráðandi jarðvegsgerð en nokkuð er einnig af sandjörð. Jarðvegur er þunnur, kolefnisinnihald fremur lágt og sýrustig í meðallagi miðað við aðrar vistgerðir.
     Plöntur: Af lágplöntum eru melagambri, hraungambri, hélumosi og breiskjufléttur ríkjandi. Af háplöntum er grasvíðir með langmesta þekju en einnig eru lotsveifgras, kornsúra og snæsteinbrjótur algengar. Tófugras hefur ekki mikla þekju en er hins vegar mjög einkennandi fyrir vistgerðina. Algengar mosategundir eru margar, þeirra á meðal eru Racomitrium ericoides, Anthelia juratzkana, Lophozia sudetica, Lophozia ventricosa, Gymnomitrion concinnatum, Racomitrium lanuginosum, Dicranoweisia crispula og Sanionia uncinata.
    Algengustu fléttutegundir eru Stereocaulon arcticum, Porpidia flavicunda, Lecanora polytropa, Stereocaulon vesuvianum, Cladonia borealis, Ochrolechia frigida, Rhizocarpon geographicum, Solorina bispora og Baeomyces rufus.

    Sjaldgæfar plöntutegundir á landsvísu eru mosarnir brúnkólfur Gymnomitrion apiculatum, rindagletta Marsupella adusta, fjallagambri Racomitrium microcarpon, fjallasigð Sanionia georgico-uncinata og mjallmosi Sauteria alpina og flétturnar Euopsis pulvinata, Polyblastia terrestris, Pronectria solorinae, Raciborskiomyces peltigericola og Rhizocarpon parvum.

     Fuglar: Fuglalíf er fremur fábreytt. Mófuglar eru mest áberandi, aðallega heiðlóa og sendlingur. Snjótittlingur er algengastur og er þéttleiki hans meiri en skráður hefur verið í öðrum vistgerðum hér á landi.
     Smádýr: Smádýralíf er afar sérstætt og fjölbreytt. Skán sem einkennir gróðurfar í gjótunum skapar undirstöðu þessarar sérstöku fánu. Sveppamý (ættin Mycetophilidae) er algjörlega ríkjandi en lirfur þess nærast á sveppum í skáninni. Þar er í fararbroddi tegundin Exechia frigida sem hvergi annars staðar finnst í viðlíka fjölda og í þessari vistgerð. Aðrar tegundir eru einnig algengar, t.d. Allodia embla og Mycomya islandica. Tvívængjan mókryppa ( Megaselia sordida) er einkar algeng, einnig er heiðakryppa ( Megaselia clara) áberandi, en hún er annars frekar fágæt á landinu og hvergi eins áberandi og þarna. Þriðja krypputegundin, Megaselia humeralis, er mjög sjaldgæf á landsvísu en töluvert er af henni í breiskjuhraunum. Af mjög algengum tvívængjum ber að nefna Spilogona megastoma, S. alpica, Delia echinata, Zaphne frontata, Scathophaga furcata og Coenosia pumila. Nokkrar bjöllutegundir eru áberandi, t.d. járnsmiður ( Nebria rufescens), hélukeppur ( Otiorhynchus nodosus), víðiglytta ( Phratora polaris) og dreyruxi ( Acidota crenata). Nokkrar tegundir æðvængja eru algengar, þ.e. sníkjuvespurnar Plectiscidea hyperborea, Barycnemis bellator, Nodisplata diffinis og Aclastus gracilis. Köngulóafánan er lýsandi fyrir raklendar aðstæður. Kembuló ( Collinsia holmgreni) er algengust og freraló ( Hilaira frigida) fylgir fast á eftir. Langleggur ( Mitopus morio) er algengur.

    
Smádýr, sem eru sjaldgæf á landsvísu, eru tvívængjurnar Megaselia humeralis, Pegomya ichterina og Graphomya maculata.

     Núverandi landnotkun: Afréttur, útivist. Vistgerðin er að stórum hluta til innan Vatnajökulsþjóðgarðs.
     Ógnir: Vistgerðin er viðkvæm fyrir öllu jarðraski.
     Nauðsynlegar aðgerðir: Framkvæmdir sem raskað geta breiskjuhraunavist, m.a. mannvirkjagerð og jarðrask, skulu ekki heimilar. Eðlilegt er að mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs verði breytt þannig að hann nái til vistgerðarinnar í Skaftártungum og á Síðuafrétti.
     Forsendur friðlýsingar: Útbreiðsla breiskjuhraunavistar er afar takmörkuð því hún er sjaldgæf og mjög staðbundin. Vistgerðin er sérstök, bæði ásýndar og að samsetningu. Til að mynda er gróðurfar svæðisins mjög ólíkt gróðurfari annars staðar. Þar er að finna margar algengar tegundir mosa og fléttna en einnig nokkrar sjaldgæfar tegundir. Smádýralíf er afar sérstætt og fjölbreytt. Vistgerðin er lítt snortin, samfelld og víðáttumikil. Hún hefur mikið útivistar-, fræðslu- og vísindagildi. Vistgerðin sem er hluti af Skaftáreldahrauni hefur mikið verndargildi á Íslandi og sennilega einnig á heimsvísu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Friðun svæða: Lagt er til að tilgreind verði og vernduð lykilsvæði fyrir breiskjuhraunavist á hálendi Íslands. Þar yrðu allar framkvæmdir og athafnir sem leitt geta til röskunar vistgerðarinnar fortakslaust bannaðar. Breiskjuhraunavist hefur ekki verið lýst utan Íslands og óvíst er hvort hana sé að finna annars staðar. Hér hefur hún einungis fundist á miðhálendinu, ofarlega í vestari kvísl Skaftáreldahrauns, og er þar útbreidd og áberandi. Til að ná tilætluðum markmiðum um verndun lykilsvæðis breiskjuhraunavistar þarf að breyta mörkum Vatnajökulsþjóðgarðs og stækka hann út í Skaftáreldahraun.

Skaftáreldahraun.
    Styrkja á verndarstöðu vistgerðarinnar innan núverandi marka Vatnajökulsþjóðgarðs en mikið er af breiskjuhraunavist í þeim hluta garðsins sem tilheyrði áður friðlandi umhverfis Lakagíga. Gert er ráð fyrir að breyta mörkum þjóðgarðsins lítillega til að ná utan um drjúgan hluta útbreiðslusvæðis vistgerðarinnar.

IV. Jarðfræðisvæði.

Langisjór og Tungnaárfjöll, sameinuð Vatnajökulsþjóðgarði.
    Svæðið sem lagt er til að verði friðlýst er 404 km 2 að flatarmáli (40.400 ha) og tilheyrir Skaftárhreppi. Það liggur í þeim hluta austurgosbeltisins þar sem eldvirkni einkennist af mjög löngum gossprungum, bæði gígaröðum frá nútíma og móbergshryggjum frá síðasta hlýskeiði ísaldar.
    Eitt helsta sérkenni eldvirkni í austurgosbeltinu eru langar og beinar gossprungur suðvestur af Vatnajökli. Margar eru tuga kílómetra langar og þær lengstu meira en 60 km. Gígaraðir frá sögulegum tíma njóta nú þegar nokkurrar verndar. Lakagígar (frá árunum 1783–1784) eru innan Vatnajökulsþjóðgarðs og syðsti hluti Veiðivatnagíga (frá 1477) og Vatnaalda (frá því um 870) nær suður fyrir Tungnaá, inn í Friðland að Fjallabaki. Veiðivatnagígar norðan Tungnaár og Vatnaöldur að hálfu eru á náttúruminjaskrá (svæði 707) og um fjórðungur Eldgjársprungunnar (frá því um 940) er einnig á skránni (svæði 706). Móbergshryggir sem eru hliðstæðar gosmyndanir frá ísöld njóta aðeins mjög takmarkaðrar verndar. Snjóöldufjallgarður, Grænifjallgarður og suðurhluti Kattarhryggjar eru innan svæða sem eru á náttúruminjaskrá.
    Til að styrkja verndun þessarar jarðfræðilegu heildar er lagt til að móbergshryggirnir, Grænifjallgarður og Fögrufjöll, auk hryggjanna vestan við Langasjó sem ekki bera sérstakt nafn verði í framtíðinni innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Þessir hryggir, ásamt Kattarhrygg og Snjóöldufjallgarði, sem liggja sinn hvorum megin Tungnaár, eru mestu móbergshryggir landsins og jarðmyndanir af þessu tagi er ekki að finna annars staðar á jörðinni. Þá er norðausturhluti Eldgjár innan svæðisins. Á austasta hluta þess er Langisjór, eitt stærsta ósnortna stöðuvatnið á hálendi landsins (25 km 2), rómaður fyrir náttúrufegurð.
    Alþjóðlegt jarðfræðiheiti móbergshryggja er íslenska orðið „tindar“. Svæðið suðvestur af Vatnajökli, Tungnaárfjöll og nágrenni, er einkennissvæði „tinda“.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     Markmið friðlýsingarinnar: Að friðlýsa svæði sem hefur að geyma einstakar jarðmyndanir sem hafa búið til og mótað afar sérstætt landslag, tilkomumikil víðerni og sérstæðar vistgerðir. Með friðlýsingunni er stuðlað að verndun alþjóðlega mikilvægra jarðminja. Verndun svæðisins er einnig í samræmi við landslagssáttmála Evrópu sem leggur áherslu á að náttúrulegt landslag sé mikilvægur hluti þjóðararfleifðar hvers lands, en einnig sameiginleg arfleifð Evrópu. Þá er verndun vistgerða liður í að stöðva skerðingu líffræðilegrar fjölbreytni fyrir árið 2010, sbr. markmið samningsins um líffræðilega fjölbreytni.
     Mörk: Austurmörk svæðisins fylgja mörkum friðlandsins við Lakagíga. Frá suðurenda friðlandsins til suðvesturs að veginum um Fjallabaksleið nyrðri um 1 km austan við Eldgjá. Síðan með veginum til norðvesturs að vegamótum í Faxasund. Þaðan um hápunkt Breiðbaks og í Vatnajökul.
     Svæðislýsing: Landslag á svæðinu einkennist af löngum fjallahryggjum sem liggja frá suðvestri til norðausturs. Sums staðar eru fjallahlíðar grænar af mosagróðri en að stærstum hluta er landið brúnt og svart yfir að líta. Brúnn litur fjallanna á rætur að rekja til móbergs en svarti liturinn sem einkennir neðri hluta fjallanna, dalbotna og nánast allt flatlendi, stafar af svörtum vikri sem féll yfir svæðið í Veiðivatnagosi árið 1477. Rennandi vatn er takmarkað nema með jaðri Vatnajökuls og austan til á svæðinu fellur Skaftá um breiða aura ofan til en neðar um þröngan farveg á hraunasvæði. Í lægð milli móbergshryggja er Langisjór og frá honum fellur Útfall til Skaftár.
    Víðáttumestu vistgerðirnar á svæðinu eru sanda- og vikravist og melavistir sem eru útbreiddastar milli Langasjós og Tungnaár og austan Skaftár sunnan við Lyngfellsgíga. Einnig eru stór svæði með breiskjuhraunavist sem er eingöngu í Skaftáreldahrauni austan Skaftár. Allstór svæði eru með eyravist með Skaftá, mosamóavist í Fögrufjöllum og á landi næst byggðinni og svo melagambravist sem einkum finnst í norðanverðum Fögrufjöllum, neðanverðum Grænafjallgarði og víðar. Í öllum þessum vistgerðum er jarðvegur kolefnisrýr en sýrustig hátt sem er einkennandi fyrir ung vistkerfi. Tegundafjölbreytileiki gróðurs er lítill hvað háplöntur varðar en mosaflóra er víða fjölbreytt. Sérstæðasta vistgerðin er breiskjuhraunavist sem er sjaldgæf og staðbundin.
     Núverandi landnotkun: Ferðamennska, ferðaþjónusta og landbúnaður.
     Ógnir: Virkjunaráform.
     Forsendur friðlýsingar: Langir móbergshryggir úr basalti, myndaðir við sprungugos undir jökli á ísöld, einkenna svæðið. Ríkjandi berggerð í hryggjunum er móberg og þursaberg ásamt bólstrabergi. Hryggirnir eru myndaðir í mörgum eldgosum og hafa gosefnin iðulega lagst yfir efni úr eldri gosum. Stefna hryggjanna er nær alltaf hin sama (N40–42°A). Yngstu hryggirnir eru mest áberandi, t.d. Grænifjallgarður og Fögrufjöll. Eldgjársprungan liggur um svæðið austanvert en hún er lengsta gígaröð sem gosið hefur á landinu á sögulegum tíma, um 60 km, auk þess sem hún hverfur undir áraura í norðaustri og Mýrdalsjökul í suðvestri. Móbergshryggirnir eru ísaldarásýnd hinna löngu gossprungna sem einkum eru áberandi á svæðinu milli Tungnaár og Þórisvatns, svo sem Veiðivatnasprungan og Vatnaöldur. Austan við svæðið eru svo Lakagígar. Engin megineldstöð er á svæðinu og allar gosmyndanir úr basalti. Þessar löngu gossprungur tengjast stóru megineldstöðvunum suðvestan við svæðið (t.d. Torfajökli og Mýrdalsjökli) og norðaustan þess (t.d. Bárðarbungu og Grímsvötnum).
    Norðaustan við Langasjó falla vesturkvíslar Skaftár undan Tungnaárjökli og þaðan suðvestur með Fögrufjöllum að austan. Undanfarna áratugi hafa orðið miklar breytingar á farvegi Skaftár á svæðinu milli Fögrufjalla og Lakagíga vegna mikils aurburðar í Skaftárhlaupum. Aurburður Skaftárhlaupa veldur því að nyrsti hluti Eldgjársprungunnar hverfur smám saman ásamt hraunum frá Lakagígum. Hér fer fram einstakt samspil jarðelds og jökla við mótun landsins.
    Stöðuvatnið Langisjór liggur í löngum dal milli tveggja móbergshryggja. Vatnið er um 20 km langt og víðast um 1–2 km breitt. Vatnið og umhverfi þess er þekkt fyrir náttúrufegurð þar sem dökkbrúnt móbergið ásamt svörtum vikrinum frá gosinu í Veiðivötnum árið 1477 kallast á við tært fjallavatnið og mosagróður í fjallahlíðum.
    Innan svæðisins eru sérstæðar vistgerðir, sanda- og vikravist og breiskjuhraunavist, en sú síðarnefnda hefur hátt verndargildi á Íslandi og sennilega einnig á heimsvísu. Vistgerðin er lítt snortin, samfelld og víðáttumikil. Hún hefur hátt útivistar-, fræðslu- og vísindagildi.

V. Tegundalistar yfir plöntutegundir.

Háplöntur.
Háplöntur sem þarfnast verndar: verndarstaða, fjöldi fundarstaða og mikilvægustu búsvæði.
    
Ein af forsendum verndar er sú að tegund sé á válista. Válistaflokkun íslenskra háplantna hefur nýlega verið endurskoðuð samkvæmt nýjum skilgreiningum Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna frá árinu 2001 (IUCN 2001). Notaðar eru skammstafanir sem lýsa stöðu viðkomandi tegundar á válista, svokallaðir hættuflokkar:
     .      ER: Útdauð í náttúrunni, regionally extinct
     .      CR: Í bráðri hættu, critically endangered
     .      EN: Í hættu, endangered
     .      VU: Í yfirvofandi hættu, vulnerable
     .      DD: Upplýsingar ófullnægjandi, data deficient
     .      NT: Í nokkurri hættu, near threatened
     .      LC: Metin en ekki í hættu, low concern
     .      NA: Uppfyllir ekki forsendur mats, not applicable



    

Forsendur verndar

Tegund
Tegundarheiti Algengi Válisti Fundarstaðir Mikilvægustu svæði Athugasemdir
Ljósalyng Andromeda polifolia Sjaldg. VU 4 Rakir móar og súrar mýrarþúfur, A- land
Ginhafri Arrhenatherum elatius Mjög sjaldg. VU 1 Graslendi, S-land Slæðingur utan aðalútbreiðslusvæðis
Keilutungljurt Botrychium minganense Líkl. sjaldg. DD >5 Sendinn jarðvegur eða frjóar grasbrekkur. Allnokkrir staðir víða um land Líklega nokkuð víða
Hrísastör Carex adelostoma, sérstök deilitegund Sjaldg. VU >5 Þéttgrónir hrísmóar og þýft hálfdeigt mýrlendi, N- og NV-land
Vorstör Carex caryophyllea Mjög sjaldg. EN 1 Grasbrekka, SV-land
Safastör Carex diandra Takmörkuð útbr. VU >5 Mýrar og flóar, V-, S- og SA-land
Gljástör Carex pallescens Mjög sjaldg. VU 2 Þurrar grasbrekkur, S- og V-land
Skógelfting Equisetum sylvaticum Sjaldg. VU 3 Móar og kjarr, Vestfirðir og A-land
Sandlæðingur Glaux maritima Sjaldg. VU >5 Sjávarfitjar, V- og N-land
Flæðalófótur Hippuris tetraphylla Sjaldg. VU >5 Sjóflæðatjarnir, N-land og Vestfirðir
Stinnasef Juncus squarrosus Sjaldg. VU >5 Hálfdeigja, A-land og Vestfirðir
Rauðkollur Knautia arvensis Sjaldg. VU >5 Gras- og blómlendi, dreift um landið, Líklega gamall slæðingur
Munkahetta Lychnis flos-cuculi Takmörkuð útbr. VU >5 Deiglendi, mýrar, S-land Slæðingur utan S- lands
Naðurtunga Ophioglossum azoricum Sjaldg. VU >5 Vex við jarðhita
Flóajurt Persicaria maculosa Sjaldg. VU >5 Við jarðhita á S- og SV-landi
Blæösp Populus tremula Sjaldg. VU >5 Móar og kjarrlendi, N- og A-land
Maríulykill Primula stricta Sjaldg. VU >5 Rök leirflög, á N-landi
Lónajurt Ruppia maritima Nokkuð sjaldg. VU >5 Nokkrir staðir, ísaltar tjarnir og sjávarlón, víða um land
Fjallkrækill Sagina caespitosa Sjaldg. VU >5 Fjallamelar, víða um land
Blátoppa Sesleria albicans Sjaldg. VU >5 Gras og lyngmóar, SV- og SA-land
Rauðberjalyng Vaccinium vitisidaea Sjaldg. VU >5 Lyngmóar, birkiskógur, A-, SV- og NA-land
Hagabrúða Valeriana sambucifolia Sjaldg. DD >5 Deigt blóm- og kjarrlendi, S-land Útbreiðsla illa þekkt
Laugadepla Veronica anagallis- aquatica Sjaldg. VU >5 Við jarðhita á S- og V-landi Horfin við Kleifarvatn
Giljaflækja Vicia sepium Sjaldg. VU >5 Blóm- og graslendi, S-land Slæðingur utan aðalútbreiðslusvæðis

Mosar.
Mosar sem þarfnast verndar og lagt er til að verði friðlýstir skv. 53. gr. laga nr. 44/1999, um náttúruvernd: verndarstaða, fjöldi fundarstaða og mikilvægustu búsvæði.
    Ein af forsendum verndar er sú að tegund sé á válista. Válistaflokkun íslenskra mosa byggist á skilgreiningum Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna frá árinu 1994 (IUCN 1994, sjá einnig Náttúrufræðistofnun Íslands 1996 og 2000a). Notaðar eru skammstafanir sem lýsa stöðu viðkomandi tegundar á válista, svokallaðir hættuflokkar:
     .      EW: Útdauð í náttúrunni, extinct in the wild
     .      CR: Í bráðri hættu, critically endangered
     .      EN: Í hættu, endangered
     .      VU: Í yfirvofandi hættu, vulnerable
     .      LR: Í nokkurri hættu, lower risk
                  1.      cd: Háðar verndun, conservation dependent
                  2.      nt: Ekki háðar verndun, near threatened
                  3.      lc: Aðrar tegundir, least concern
     .      DD: Upplýsingar ófullnægjandi, data deficient
     .      NE: Ekki metin, not evaluated
         

Forsendur verndar

Tegund
Tegundarheiti Algengi Válisti Evr. válisti Fundarstaðir Mikilvægustu svæði Athugasemdir
Dvergrandi Atrichum tenellum Mjög sjaldg. CR 2 Jarðhiti Virðist horfinn á öðrum staðnum
Laugarandi Atrichum angustatum Mjög sjaldg. VU 5 Jarðhiti
Smáhnokki Bryum nitidulum Mjög sjaldg. VU 2 Berangur til fjalla
Ylhnokki Bryum sauteri Mjög sjaldg. CR 3 Jarðhiti
Dverghnokki Bryum vermigerum Mjög sjaldg. EN 1 Berangur til fjalla
Fjóluhnokki Bryum violaceum Mjög sjaldg. EN 3 Jarðhiti
Bakkabroddur Cirriphyllum crassinervium Mjög sjaldg. VU 1 Klettar við læk Bar ekki íslenskt nafn
Fauskabrúskur Dicranum tauricum Mjög sjaldg. EN 1 Dauðar birkileifar
Klettavendill Ditrichum zonatum Mjög sjaldg. VU 2 Klettar við læk
Keldulufsa Drepanocladus sordidus Mjög sjaldg. 1 Mýrlendi Nefndur D. sendtneri
Hæruklukka Encalypta brevipes Mjög sjaldg. EN X 4 Hraun og klettar Horfinn á einum stað
Laugaseti Entosthodon attenuatus Sjaldg. LR >5 Jarðhiti Virðist horfinn á einum staðnum
Hveraseti Entosthodon obtusus Mjög sjaldg. CR 2 Jarðhiti Líklega horfinn á öðrum staðnum
Dægurmosi Ephemerum serratum Mjög sjaldg. VU 2 Þornaður tjarnarbotn
Hellafjöður Fissidens gracilifolius Mjög sjaldg. EN 1 Hellisskúti
Lækjafjöður Fissidens pusillus Mjög sjaldg. VU 2 Volgir lækir Horfinn á öðrum staðnum
Hnyðrumosi Glyphomitrium daviesii Mjög sjaldg. LR X 4 Steinar við sjó
Veggjaskeggi Grimmia plagiopodia Mjög sjaldg. VU X 3 Steypa og sandsteinn

Fléttur.
Fléttur sem þarfnast verndar: verndarstaða, fjöldi fundarstaða og mikilvægustu búsvæði. Skammstafanir sem lýsa hættuflokkum í válista eru útskýrðar hér að framan.

Forsendur verndar

Tegund1
Tegundarheiti Algengi Válisti Fundarstaðir Mikilvægustu svæði Athugasemdir
Acarospora badiofusca Mjög sjaldg. 1 Miðhálendi
Birkikræða Alectoria sarmentosa var. sarmentosa 1 Birkiskógur, V-land Fannst 2004
Hraufugláma Amygdalaria panaeola Mjög sjaldg. 3 Hálendi S-lands, á móbergi
Setríla Arthonia glebosa Sjaldg. 9 Hálendi, á sethjöllum Fimm fundarstaðir horfnir undir Hálslón
Arthonia gelidae Sjaldg. 2 Miðhálendi, A-land Sníkill á skeljaskóf
Arthonia intexta Mjög sjaldg. 1 A-land Sníkill á Lecidella asema
Arthonia mediella Mjög sjaldg. 1 Birkiskógur, A-land
Baeomyces carneus Sjaldg. 2 Jarðvegur, A- og NA-land
Törgudoppa Buellia adjuncta Sjaldg. 4 Vestfjarðarkjálki Sníkill á lundatörgu
Buellia badia Mjög sjaldg. 2 N- og S-land
Rindadoppa Buellia concinna Mjög sjaldg. 2 Klettar, N-land
Buellia jugorum Sjaldg. 2 Steinar, N- og S-land
Steindoppa Buellia stellulata Sjaldg. 4 Steinar, A- og N-land
Birkiskegg Bryoria fuscescens Sjaldg. VU >5 Birkistofnar og greinar, SA- land
Gálgaskegg Bryoria pseudofuscescens Mjög sjaldg. CR 1 Hraundrangur, SV-land
Kvistaskegg Bryoria simplicior Mjög sjaldg. CR 3 Birkistofnar og greinar, A- og SA-land
Caloplaca arenaria Mjög sjaldg. 2 Klettar, A-land
Birkimerla Caloplaca borealis Mjög sjaldg. VU 4 Birkistofnar og greinar, Vestfirðir, V- og A-land
Caloplaca festivella Mjög sjaldg. 3 Á móbergi eða basalti, hálendi S-lands Greining ekki örugg
Caloplaca lobulata Mjög sjaldg. 1 Reyniviður, N-land
Hellisprjónar Chaenotheca cinerea Mjög sjaldg. 1 N-land
Fauskprjónar Chaenotheca furfuracea Sjaldg. 4 Birki og fauskar, N- og A- land
Cladonia conista Sjaldg. DD >5 Jarðvegur, Vestfirðir, N- og A-land
Ljósálfabikar Cladonia cryptochlorophaea Mjög sjaldg. LR 3 Móajarðvegur, N- og SA- land
Rauðbroddar Cladonia macilenta Mjög sjaldg. EN 4 Móajarðvegur, V-land
Hreisturbikar Cladonia squamosa Sjaldg. LR >5 Móajarðvegur, V-land og Vestfirðir
Seltulauf Cladonia strepsilis Mjög sjaldg. EN 4 Móajarðvegur, Austfirðir Finnast líklega víðar á A- landi
Raufarbikar Cladonia sulphurina Mjög sjaldg. EN 2 Móajarðvegur, Vestfirðir
Hrukkuslembra Collema furfuraceum Mjög sjaldg. EN 3 Utan í klettum, S-land Finnst líklega víðar syðst á landinu
Gróparslembra Collema polycarpon Mjög sjaldg. 1 Á klettum nálægt jarðhita- gufum, hálendi A-lands
Víkurslembra Collema subflaccidum Mjög sjaldg. EN 3 Utan í klettum, S-land
Klettakræða Cornicularia normoerica Sjaldg. LR >5 Klettar, A-land Aðeins á Austurlandi, allvíða þar
Vætukorpa Dermatocarpon bachmannii Sjaldg. 4 Votir klettar, V- og A-land
Vætlukorpa Dermatocarpon deminuens Sjaldg. 2 Votir klettar, V- og A-land
Hreisturkorpa Dermatocarpon leptophyllodes Sjaldg. 2 Votir klettar, A-land
Brúnkorpa Dermatocarpon meiophyllizum Mjög sjaldg. 1 Votir klettar, A-land
Strimlaflaga Endocarpon pulvinatum Mjög sjaldg. 2 Klettar við vatn eða nálægt jarðhitagufum, A-land
Endococcus perpusillus Mjög sjaldg. 4 Á steinum, hálendi og Surtsey Sníkill á flikrum (Rhizocarpon spp.)
Flathyrna Evernia prunastri Mjög sjaldg. CR 1 Birkistofnar og greinar, SA- land
Móaþemba Hypogymnia austerodes Mjög sjaldg. 1 Móar, N-land
Skógarþemba Hypogymnia farinacea Mjög sjaldg. CR 2 Birkistofnar og greinar, A- og N-land
Flatþemba Hypogymnia physodes Sjaldg. LR >5 Birki og móajarðvegur, A- land
Pípuþemba Hypogymnia tubulosa Sjaldg. LR >5 Birki og móajarðvegur, A- land
Prikþemba Hypogymnia vittata Sjaldg. 3 Jarðvegur og birki, A-land
Skrámuklúka Japewia subaurifera Sjaldg. 3 Birki, Vestfirðir og A-land
Lecanora cenisia Sjaldg. 2 Klettar, A- og N-land
Leciophysma finmarckicum Sjaldg. LR >5 Móajarðvegur, hálendi Horfinn á einum stað
Lempholemma isidioides Sjaldg. DD 3 Klappir, V- og N-land
Gígnæfra Lobaria scrobiculata Mjög sjaldg. CR 1 Grasbrekkur, V-land
Hraunnæfra Lobaria virens Mjög sjaldg. CR 1 Hraun, hálendi, S-land
Grábleðla Lobothallia alphoplaca Sjaldg. VU >5 Klettar við ár og læki, A-land Válisti 1, ranglega nefnd Physcia phaea
Gljádumba Melanelia septentrionalis Sjaldg. EN >5 Birkistofnar og greinar, NA- og A-lands Nokkuð víða við Mývatn og á Fljótsdalshéraði
Melanelia sorediata Mjög sjaldg. 1 Klettar, V-land
Melanelia subaurifera Sjaldg. DD 4 Klettar, Vestfirðir og V-land Getur líka vaxið á trjám
Dvergdimbill Multiclavula coryneoides Mjög sjaldg. EN 2 Skurðbakki, A- og N-land
Brókarhverfa Nephroma bellum Mjög sjaldg. CR 1 Birkistofnar og greinar, V- land
Loðhverfa Nephroma resupinatum Sjaldg. 3 Birki og reynir, Vestfirðir, A- og N-land
Opegrapha pulvinata Sjaldg. 3 Klettar, A-land Sníkill á korpum (Dermatocarpon spp.)
Gulstika Parmeliopsis ambigua Sjaldg. LR >5 Birkistofnar og greinar, A- land
Grástika Parmeliopsis hyperopta Mjög sjaldg. CR 3 Birkistofnar og greinar, A- og N-land
Kylfuskán Pertusaria dactylina Mjög sjaldg. EN 1 Móajarðvegur, N-land E.t.v. víðar í fjöllum N-lands
Bóluskán Pertusaria glomerata Mjög sjaldg. 2 Jarðvegur, N- og S-land
Strípamóra Phaeophyscia constipata Mjög sjaldg. CR 4 Hraundrangar, NA-land
Klappamóra Phaeophyscia endococcina Sjaldg. DD >5 Klettar, Miðhálendið, N- og A-land. Líklega nokkuð algeng um norðan- og austanvert landið
Dökkamóra Phaeophysica nigricans Mjög sjaldg. DD 1 Trjástofnar, SV-land
Phaeorrhiza nimbosa Sjaldg. EN >5 Rök moldarflög, NA- og A- land Víðar en fyrst var ætlað
Hraufustubbar Pilophorus cereolus Sjaldg. VU >5 Móbergsklettar, S- og V-land
Næfurskóf Platismatia glauca Sjaldg. VU >5 Birkistofnar og greinar, A- land
Protothelenella corrosa Mjög sjaldg. 2 Á klettum, hálendi og V-land
Elgshyrna Pseudevernia furfuracea Mjög sjaldg. CR 4 Birkistofnar og greinar, SA- land
Gulrenda Pseudocyphellaria crocata Mjög sjaldg. CR 2 Utan í klettum S- og V-lands
Raciborskiomyces peltigericola Mjög sjaldg. 2 Í mólendi á hálendi Sníkill á engjaskófum (Peltigera spp.)
Bjargstrý Ramalina siliquosa Mjög sjaldg. VU 5 Sjávarhamrar, V-land og Vestfirðir Nefnd bjargskegg í válista 1 frá 1996
Rhymbocarpus neglectus Mjög sjaldg. 1 Í gljúfri, S-land
Vikurhvomsa Sarcosagium campestre Mjög sjaldg. EN 1 Rakur vikurjarðvegur á hálendi
Áttgróagrýta Solorina octospora Mjög sjaldg. EN 3 Móajarðvegur, N-, NA- og A- land
Dílabreyskja Stereocaulon paschale Sjaldg.
5 Móajarðvegur til fjalla
Hraufubreyskja Stereocaulo uliginosum Mjög sjaldg. VU 4 Lyng- eða grasmóar, NA- land Flokkunarfræðilegra rannsókna þörf
Búldubreyskja Stereocaulon vanoyei Frekar sjaldg. DD >5 Hraun, S- og SV-land Flokkunarfræðilegra rannsókna þörf
Stigmidium stygnospilum Sjaldg. 3 Klettar, S- og V-land Sníkill á korpum (Dermatocarpon spp.)
Svarðskjóða Thrombium epigaeum Sjaldg. EN >5 Nýgræður, N- og A-land
Krypplugrös Tuckermanopsis chlorophylla Sjaldg. >5 Birkistofnar og greinar, V-, N-, A- og SA-land
Músanafli Umbilicara hirsuta Mjög sjaldg. EN 4 Klettar, N- og V-land
Fjölbleðlanafli Umbilicaria polyphylla Mjög sjaldg. VU 4 Klettar, Vestfirðir
Leðurnafli Umbilicaria rigida Mjög sjaldg. EN 1 Háfjallaklettar, hálendi
Hamranafli Umbilicaria vellea Mjög sjaldg. EN 3 Klettaveggir, Vestfirðir og N- land
Jöklanafli Umbilicaria virginis Mjög sjaldg. EN 1 Háfjallaklettar á jökulskerjum SA-lands
Ljósaskegg Usnea subfloridana Mjög sjaldg. VU 2 Birkistofnar og greinar, SA- land
Gullinvarp Vulpicid pinastri Mjög sjaldg. EN 4 Birkistofnar og greinar, A- og SA-land
Reyniglæða Xanthoria polycarpa Mjög sjaldg. LR 2 Reynir og birki í görðum, V- land
1Sumar fléttutegundir hafa ekki fengið íslenskt nafn.