Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 227. máls.

Þskj. 252  —  227. mál.Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Orðin „ásetningi eða“ í 1. mgr. 6. gr. laganna falla brott.
         

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 1. mgr. 6. gr. laga um endurskoðendur, nr. 79/2008. Í ákvæðinu er fjallað um starfsábyrgðartryggingar og sú skylda lögð á endurskoðendur að hafa í gildi starfsábyrgðartryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi hér á landi vegna fjárhagstjóns sem leitt getur af ásetningi eða gáleysi í störfum hans eða starfsmanna hans samkvæmt lögunum. Var ákvæði um skylduvátryggingu vegna tjóns sem leiðir af ásetningi nýmæli í lögum nr. 79/2008.
    Eftir gildistöku laganna hefur komið í ljós að vátryggingafélög hafa ekki getað boðið endurskoðendum starfsábyrgðartryggingar vegna tjóns sem leitt getur af ásetningsbrotum. Hafa endurskoðendur því ekki getað uppfyllt skilyrði 1. mgr. 6. gr. laga um endurskoðendur. Því er lagt til að felld verði niður skylda endurskoðenda til að hafa starfsábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns af völdum ásetningsbrota. Áfram stendur skylda þeirra til að taka starfsábyrgðartryggingu vegna gáleysisbrota og er það í samræmi við ákvæði um starfsábyrgðartryggingar annarra stétta, t.d. lögmanna, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 77/1998, um lögmenn. Í Noregi hefur verið gerð krafa um að endurskoðendur leggi fram, auk starfsábyrgðartryggingar sem nær til gáleysis, bankaábyrgð vegna hugsanlegs tjóns af ásetningsbrotum. Norðmenn hyggjast nú afnema þá skyldu og munu starfsábyrgðartryggingar endurskoðenda í Noregi ekki ná til tjóna sem valdið er af ásetningi.
    Þrátt fyrir að lagt sé til að endurskoðendum verði ekki skylt að taka starfsábyrgðartryggingu vegna tjóns sem hlotist hefur af ásetningsbrotum bera endurskoðendur eftir sem áður ábyrgð á tjóni sem þeir eða starfsmenn þeirra valda af ásetningi eða gáleysi, sbr. 27. gr. laga um endurskoðendur.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 79/2008,
um endurskoðendur.

    Með frumvarpinu er lagt til að lögð verði niður skylda endurskoðenda til að hafa starfsábyrgðartryggingu vegna fjárhagstjóns af völdum ásetningsbrota.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.