Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 228. máls.

Þskj. 253  —  228. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit
með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Álagningarstofnar eftirlitsgjalds eftirlitsskylds aðila skv. 1.–9. og 11. tölul. 1. mgr. 5. gr., þó ekki þeirra er greiða skulu fast gjald, eru efnahags- eða rekstrarliðir samkvæmt ársreikningi eftirlitsskylds aðila fyrir næstliðið ár þegar skýrsla Fjármálaeftirlitsins skv. 2. gr. er samin.
     b.      1. málsl. 2. mgr. orðast svo: Hafi tveir eða fleiri eftirlitsskyldir aðilar sameinast er álagningarstofn eftirlitsgjalds hins sameinaða aðila samanlagðir efnahags- eða rekstrarliðir þessara aðila samkvæmt ársreikningum þeirra fyrir næstliðið ár.
     c.      3. mgr. orðast svo:
                  Sé ársreikningur ekki fyrir hendi þar sem eftirlitsskyldur aðili er að hefja hina eftirlitsskyldu starfsemi skal miða álagningu við lágmarksgjald skv. 5. gr. Sé ársreikningur fyrir hendi vegna fyrri starfsemi viðkomandi fyrirtækis er heimilt að nota efnahags- eða rekstrarliði samkvæmt honum sem álagningarstofn. Sama á við ef fyrir liggur stofnefnahagsreikningur hins nýja eftirlitsskylda aðila. Þegar um er að ræða nýtt vátryggingafélag sem tekið hefur að öllu leyti við vátryggingarstofni eldra félags skal álagningarstofn vera bókfærð iðgjöld samkvæmt ársreikningi eldra félagsins.

2. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Eftirtaldir eftirlitsskyldir aðilar skulu greiða eftirlitsgjald af álagningarstofni í þeim hlutföllum og stærðum sem hér segir:
     1.      Viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki skulu greiða eftirfarandi hlutföll af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.:
              a.      Viðskiptabankar 0,0176%.
              b.      Sparisjóðir, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki 0,0159%.
     2.      Vátryggingafélög skulu greiða 0,353% af bókfærðum iðgjöldum, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     3.      Félög eða einstaklingar sem stunda vátryggingamiðlun skulu greiða 0,215% af þeim iðgjöldum sem miðlað hefur verið á næstliðnu ári, þó eigi lægri fjárhæð en 300.000 kr.
     4.      Verðbréfafyrirtæki skulu greiða 0,147% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     5.      Verðbréfamiðlanir skulu greiða 0,147% af eignum samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     6.      Rekstrarfélög verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða og fjárfestingarsjóðir sem gefa út hlutabréf skulu greiða 0,0175% af eignum rekstrarfélags og viðkomandi sjóða samtals, þó aldrei lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     7.      Verðbréfamiðstöðvar skulu greiða 0,91% af rekstrartekjum, þó eigi lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     8.      Kauphallir skulu greiða 0,69% af rekstrartekjum, þó aldrei lægri fjárhæð en 350.000 kr.
     9.      Lífeyrissjóðir skulu samtals greiða 0,00982% af hreinni eign til greiðslu lífeyris. Greiða skal eftirlitsgjaldið sem 790.000 kr. fastagjald vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 1.270.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna, 2.220.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tíu milljörðum til tuttugu og fimm milljarða króna, 4.130.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tuttugu og fimm milljörðum til eitt hundrað milljarða króna og 4.780.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir. Það sem þá er ógreitt af eftirlitsgjaldi skv. 1. málsl. greiðist í hlutfalli við hreina eign til greiðslu lífeyris.
     10.      Innlánsdeildir samvinnufélaga skulu greiða fastagjald sem nemur 300.000 kr.
     11.      Íbúðalánasjóður skal greiða 0,0036% af eignum samtals, þó eigi lægri fjárhæð en 600.000 kr.
     12.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta og öryggissjóðir samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta skulu greiða fastagjald sem nemur 300.000 kr.
     13.      Aðilar með innheimtuleyfi samkvæmt innheimtulögum, nr. 95/2008, skulu greiða fastagjald sem nemur 600.000 kr.
    Einstaklingar og lögaðilar, aðrir en fjármálafyrirtæki, sem starfrækja gjaldeyrisskiptastöð eða peninga- og verðmætasendingarþjónustu, sbr. 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, skulu greiða fastagjald sem nemur 600.000 kr.
    Erlendir vörsluaðilar séreignarsparnaðar sem fengið hafa staðfestingu fjármálaráðuneytis á reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað, sbr. 10. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, skulu greiða fastagjald sem nemur 1.500.000 kr.
    Útibú erlendra eftirlitsskyldra aðila sem fengið hafa starfsleyfi hér á landi skulu greiða eftirlitsgjald samkvæmt viðeigandi tölulið 1. mgr.
    Eignarhaldsfélög á fjármálasviði, eignarhaldsfélög á vátryggingasviði, blönduð eignarhaldsfélög, blönduð eignarhaldsfélög á vátryggingasviði og blönduð eignarhaldsfélög í fjármálastarfsemi skulu greiða fastagjald sem nemur 1.500.000 kr.
    Útgefendur hlutabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, skulu greiða fastagjald tengt fjárhæð markaðsvirðis útgefinna hlutabréfa sinna. Greiða skal 300.000 kr. fastagjald vegna hlutabréfa að markaðsvirði undir fimm milljörðum króna, 800.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá fimm til tuttugu og fimm milljarða króna, 2.400.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá tuttugu og fimm til eitt hundrað milljarða króna, 4.400.000 kr. vegna hlutabréfa að markaðsvirði frá eitt hundrað til fimm hundruð milljarða króna og 6.300.000 kr. vegna hlutabréfa með markaðsvirði yfir fimm hundruð milljörðum króna.
    Útgefendur skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, skulu greiða fastagjald tengt fjárhæð markaðsvirðis útgefinna skuldabréfa sinna. Greiða skal 100.000 kr. fastagjald vegna skuldabréfa að markaðsvirði undir einum milljarði króna, 150.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá einum til fimm milljarða króna, 350.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá fimm til tíu milljarða króna, 600.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá tíu til fimmtíu milljarða króna, 850.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði frá fimmtíu til tvö hundruð milljarða króna og 1.000.000 kr. vegna skuldabréfa að markaðsvirði yfir tvö hundruð milljörðum króna.
    Eftirlitsgjald skal reiknast í heilum þúsundum króna. Við álagningu skal jafnframt færa álagningarstofna í þúsundir króna.
    Fjármálafyrirtæki sem stýrt er af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, greiðir 4.000.000 kr.

3. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
     a.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, 2. og 3. mgr., svohljóðandi:
                  Fastagjöld fyrir afgreiðslu umsókna um starfsleyfi eftirlitsskyldra aðila eru eftirfarandi:
              1.      Vegna viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, rafeyrisfyrirtækja og vátryggingafélaga 1.000.000 kr.
              2.      Vegna verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, rekstrarfélaga verðbréfasjóða og verðbréfamiðstöðva 500.000 kr.
              3.      Vegna annarra eftirlitsskyldra aðila 100.000 kr.
                  Fjármálaeftirlitinu er heimilt að krefjast gjalds fyrir afgreiðslu og skráningu sértækrar staðfestingar og mats sem leiðir af starfsemi stofnunarinnar en telst ekki þáttur í reglubundnu eftirliti. Gjöld fyrir þessa þjónustu skulu tilgreind í gjaldskrá.
     b.      2. mgr., er verður 4. mgr., orðast svo:
                  Gjaldskrá fyrir eftirlit skv. 1. mgr., afgreiðslu umsókna skv. 2. mgr. og þjónustu skv. 3. mgr. skal samþykkt af stjórn Fjármálaeftirlitsins og birt í Stjórnartíðindum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Í 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með síðari breytingum, segir:
    „Fyrir 1. júlí ár hvert skal Fjármálaeftirlitið gefa efnahags- og viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila skv. 5. gr.
    Skýrslu Fjármálaeftirlitsins skal fylgja álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi næsta árs ásamt afgreiðslu stjórnar stofnunarinnar á því áliti. Til að samráðsnefndin geti gefið álit sitt skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júní ár hvert senda henni upplýsingar um áætlað rekstrarumfang ásamt skýringum á helstu rekstrarliðum.
    Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til að breyta hundraðshluta eftirlitsgjalds skal efnahags- og viðskiptaráðherra leggja frumvarp þar að lútandi fyrir Alþingi.“
    Áætlað álagt eftirlitsgjald á árinu 2009 er 766 millj. kr. en frumvarpið gerir ráð fyrir 1.022 millj. kr. árið 2010 og nemur áætluð hækkun á milli ára 255 millj. kr. eða um 33%. Áætlaður rekstrarkostnaður Fjármálaeftirlitsins árið 2009 er 954 millj. kr. en áætlaður rekstrarkostnaður á árinu 2010 nemur 1.111 millj. kr. sem er hækkun um 157 millj. kr. eða tæp 17%.
    Umrót í rekstrarumhverfi Fjármálaeftirlitsins á árinu 2009 í kjölfar falls þriggja stærstu viðskiptabankanna í október 2008 leiddi til þess að nauðsynlegt var að endurskoða rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2009. Upphaflega áætlað rekstrarumfang var dregið saman og nauðsynlegt reyndist síðar að lækka áætlaðar tekjur af eftirlitsgjaldi enn frekar vegna ófyrirséðs samdráttar í álagningarstofnum eftirlitsgjaldsins. Þessar breytingar leiða til framangreinds misræmis í hlutfallshækkun áætlaðra gjalda og áætlaðra tekna stofnunarinnar milli áranna 2009 og 2010.
    Verulegar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins í kjölfar bankahrunsins og á næstu missirum verður starfsemi stofnunarinnar löguð að nýjum aðstæðum. Óhjákvæmilegt er hins vegar talið að styrkja starfsemi Fjármálaeftirlitsins strax á árinu 2010. Ljóst er að starfsemi nýju viðskiptabankanna, annarra fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða þarf styrkara eftirlitsaðhald með beinum eftirlitsheimsóknum í ríkari mæli en verið hefur. Þá er nauðsynlegt að vinna að margvíslegum rannsóknum í tengslum við bankahrunið næstu missiri. Einnig liggur fyrir að útgjöld við ákveðna þætti í rekstri stofnunarinnar, svo sem skipulag gagnagrunna og upplýsingavinnslu, hafa verið vanmetin.
    Í fylgiskjali I, skýrslu til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2010, er að finna sundurliðun einstakra kostnaðarliða. Til frekari glöggvunar er hér gerð grein fyrir helstu kostnaðarliðum í rekstri Fjármálaeftirlitsins, samkvæmt áætlun fyrir árið 2010:
     Launakostnaður.
    Laun og launatengd gjöld eru áætluð 803,5 millj. kr. árið 2010 samanborið við 706,1 millj. kr. samkvæmt áætlun 2009. Hækkun launakostnaðar milli ára er því 97,4 millj. kr. eða 13,8%. Viðskiptaráðherra ákvarðar laun stjórnarmanna og verða þau 10,8 millj. kr. á árinu 2010 samanborið við 12,1 millj. kr. árið 2009.
     Húsaleiga og rekstur á húsnæði.
    Samtals er kostnaður vegna húsaleigu og reksturs á húsnæði áætlaður 50,0 millj. kr. á árinu 2010 samanborið við 42,0 millj. kr. á árinu 2009 sem er 19% hækkun og skýrist að stórum hluta af hækkun vegna vísitölutengingar húsaleigu. Stefnt er að flutningi stofnunarinnar í nýtt og hentugra húsnæði á seinni hluta árs 2010. Áætlunin gerir þó aðeins ráð fyrir óverulegri hækkun á húsaleigu við flutning í nýtt húsnæði.
     Rekstur tölvubúnaðar.
    Gert er ráð fyrir að kostnaður við rekstur tölvubúnaðar og sérfræðiþjónusta vegna tölvumála verði 101,5 millj. kr. á árinu 2010 samanborið við 87,2 millj. kr. árið 2009, sem er 16,4% hækkun. Hækkunin stafar fyrst og fremst af hækkunum á vélbúnaði, notendahugbúnaði og rekstrarvörum, fjölgun starfsmanna og gengisbreytingum.
     Ferðakostnaður erlendis.
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður erlendis verði 33,0 millj. kr. á árinu 2010 samanborið við 30 millj. kr. árið 2009, sem er 10% hækkun. Gert er ráð fyrir fækkun ferða en veiking krónunnar vegur lækkunaráhrif á þennan lið upp. Fækkun ferða stafar af samdrætti í eftirliti erlendis í kjölfar breyttra aðstæðna hjá íslenskum viðskiptabönkum en hins vegar er gert ráð fyrir að þátttaka í samstarfi eftirlita á Evrópska efnahagssvæðinu verði með svipuðu sniði og áður.
     Rekstrarkostnaður samtals.
    Samtala gjaldaliða án úrskurðarnefnda er áætluð 1.110,9 millj. kr. á árinu 2010 samanborið við 953,7 millj. kr. samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins 2009 sem er 16,5% hækkun milli ára.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir að álagt eftirlitsgjald verði 1.021,5 millj. kr. árið 2010 og byggist skipting þess milli flokka eftirlitsskyldra aðila á mati sem grundvallast á tímaskráningu Fjármálaeftirlitsins. Tekið er mið af gildandi skiptingu gjaldsins í frumvarpinu og lagt til að mismunandi álagningarhlutföll gildi fyrir viðskiptabanka annars vegar og hins vegar sparisjóði, lánafyrirtæki og rafeyrisfyrirtæki.
    Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir óbreyttum lágmarksgjöldum/fastagjöldum á eftirlitsskylda aðila aðra en lífeyrissjóði. Í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða eru lagðar til breytingar á þrepaskiptum fastagjöldum lífeyrissjóða en miðað er við að hlutur þessara gjalda verði hverju sinni um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóðina.
    Í frumvarpinu er nú gert ráð fyrir eftirlitsgjaldi í formi 1.500 þús. kr. fastagjalds á einstaka erlenda vörsluaðila séreignarsparnaðar sem fengið hafa staðfestingu fjármálaráðuneytis á reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað, sbr. 10. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þetta ákvæði er nýmæli. Tveir erlendir aðilar hafa þegar fengið slíka staðfestingu en þeir bera hins vegar ekkert eftirlitsgjald samkvæmt gildandi lögum vegna þessarar starfsemi sinnar hér á landi sem fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum sem fengið hafa sams konar staðfestingu ber að gera vegna almennrar starfsemi sinnar. Ekki var gert ráð fyrir tekjum af framangreindu í fyrirliggjandi rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010.
    Þá er í frumvarpinu gert ráð fyrir að lagt verði eftirlitsgjald í formi 500 þús. kr. fastagjalds á einstaklinga og lögaðila sem starfrækja gjaldeyrisskiptastöð eða peninga- og verðmætasendingarþjónustu og skráningarskyldir eru hjá Fjármálaeftirlitinu á grundvelli 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Á þessu stigi liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um fjölda þeirra aðila sem verða skráningarskyldir samkvæmt framangreindu en mögulega gæti verið um tvo aðila að ræða. Ekki var gert ráð fyrir tekjum af þessari starfsemi í rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010.
    Með frumvarpi þessu eru birt sem fylgiskjöl gögn sem tilheyra rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010. Þau eru eftirfarandi:
    I. Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins árið 2010, skv. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    II. Umsögn samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila „Um rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010“.
    Í þessum gögnum er að finna nánari sundurgreiningu á einstökum kostnaðarliðum, umfram það sem að framan greinir, auk margvíslegra upplýsinga er varða verkefni og starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins og varpa nánara ljósi á rekstrartölurnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í gildandi lögum er vísað til þess að álagningarstofnar sem notaðir eru við útreikning á álögðu eftirlitsgjaldi séu ársreikningar eftirlitsskyldra aðila fyrir næstliðið ár. Þetta er rétt að svo miklu leyti sem það nær. Lagt er til að ákvæðið verði gert skýrara og vísað bæði til efnahags- og rekstrarliða í ársreikningi, svo og tiltekið að ársreikningur sem viðmiðun eigi ekki við um þá aðila sem greiða fast gjald.
    Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa á högum eins af stóru vátryggingafélögunum er nauðsynlegt að taka á þeim tilvikum hvernig leggja skuli eftirlitsgjald á aðila sem tekið hefur við vátryggingarstofnum annars vátryggingafélags.

Um 2. gr.


    Breytingar skv. 1. mgr. á álagningarhlutföllum frá gildandi lögum skýrast af lögbundnu endurmati á kostnaðarskiptingu við rekstur Fjármálaeftirlitsins, þróun álagningarstofna eftirlitsskyldra aðila og mati á kostnaðardreifingu, sbr. fylgiskjal I með frumvarpinu. Þannig er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, rekstrarfélaga verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða, kauphalla, verðbréfamiðstöðva, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs hækki, álagningarhlutfall vátryggingafélaga lækki og álagningarhlutföll vátryggingamiðlara haldist óbreytt.
    Samkvæmt 9. tölul. 1. mgr. er gert ráð fyrir hækkunum á fastagjöldum lífeyrissjóða sem eru eins og áður í fimm þrepum og er lægsta þrepið samkvæmt frumvarpinu nú 790.000 kr. en það hæsta 4.780.000 kr. Breytingar frá gildandi ákvæði eru miðaðar við að hlutur fastagjaldanna verði um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóðina í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða.
    Ákvæði 6. mgr. 1. gr. gildandi laga hefur verið flutt í 13. tölul. 1. mgr.
    Ákvæði 2. mgr. er nýmæli. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lagt verði eftirlitsgjald á einstaklinga og lögaðila sem starfrækja gjaldeyrisskiptastöð eða peninga- og verðmætasendingarþjónustu sem er skráningarskyld hjá Fjármálaeftirlitinu á grundvelli 1. mgr. 25. gr. a laga nr. 64/2006, um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að eftirlitsgjald samkvæmt málsgreininni verði í formi fastagjalds.
    Ákvæði 3. mgr. er nýmæli. Þar er gert ráð fyrir að lagt verði eftirlitsgjald á erlenda vörsluaðila séreignarsparnaðar sem fengið hafa staðfestingu fjármálaráðuneytis samkvæmt reglum um viðbótartryggingavernd og séreignarsparnað, sbr. 10. gr. laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Ákvæðinu er ætlað að ná til aðila sem veita þessa þjónustu hér á landi en greiða annars ekkert eftirlitsgjald sem fjármálafyrirtækjum, líftryggingafélögum og lífeyrissjóðum sem veita sams konar fjármálaþjónustu ber annars að gera vegna almennrar starfsemi sinnar samkvæmt frumvarpinu. Frumvarpið gerir ráð fyrir að eftirlitsgjald samkvæmt málsgreininni verði í formi fastagjalds.
    Í gildandi lögum er í 1. tölul. 1. mgr. 5. gr. að finna ákvæði um hver skuli vera álagning á þau fjármálafyrirtæki sem sett voru haustið 2008 undir stjórn skilanefnda. Þótt ekki sé gerð tillaga um það hér að breyta framkvæmd álagningar má vekja athygli á því hvort með sanngirni sé hægt að ætlast til að aðrir eftirlitsskyldir aðilar standi undir kostnaði við þær sérgreindu rannsóknir sem beinast að tildrögum þess að þessi fyrirtæki lentu í hremmingum. Í frumvarpinu er hins vegar aðeins gert ráð fyrir því að ákvæði um álagningu eftirlitsgjalds á þessa aðila sé haft í sérstakri málsgrein.
    Að öðru leyti en greint er frá hér á undan eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á 5. gr. laganna.

Um 3. gr.


    Samkvæmt tímaskráningarkerfi Fjármálaeftirlitsins undanfarin þrjú ár hafa allt að 5% af heildartíma stofnunarinnar farið í afgreiðslu umsókna um starfsleyfi. Fjármálaeftirlitið hefur óskað eftir því að heimildir þess til að láta umsækjendur um starfsleyfi bera kostnað við afgreiðslu umsóknar, frekar en að hann jafnist út á aðra, verði gerðar skýrari. Með tilliti til umfangs við afgreiðslu umsókna er í frumvarpinu lagt til að umsækjendum sé skipt upp í þrjá flokka.
    Enn fremur er lagt til að Fjármálaeftirlitið geti gert aðilum reikning fyrir sértæka þjónustu sem aðilar óska eftir samkvæmt gjaldskrá. Samkvæmt tímaskráningarkerfi stofnunarinnar hefur umfang slíkrar þjónustu á síðustu árum numið frá hálfu og að einu prósenti.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal I.

Fjármálaeftirlitið:

Skýrsla til viðskiptaráðherra um áætlaðan rekstrarkostnað Fjármálaeftirlitsins
árið 2010, skv. 2. gr. laga nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar
við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

(6. júlí 2009.)

    Í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, er viðskiptaráðherra hér með send rekstraráætlun fyrir Fjármálaeftirlitið vegna ársins 2010. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skal Fjármálaeftirlitið eigi síðar en 1. júlí ár hvert gefa viðskiptaráðherra skýrslu um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs. Í skýrslunni skal jafnframt lagt mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila.
    Mikil og snögg umskipti á íslenskum fjármálamarkaði í byrjun október á sl. ári, fall stærstu banka þjóðarinnar og umfangsmikil og flókin vinna við endurreisn nær alls bankakerfisins hér á landi frá síðasta hausti hefur leitt til mikils umróts í starfsemi og rekstri Fjármálaeftirlitsins síðustu mánuðina. Enn er ófyrirséð hvenær þeirri vinnu lýkur. Rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2008 fór úr skorðum af framangreindum ástæðum og áætlun fyrir líðandi ár var skorin umtalsvert niður seint á síðasta ári og löguð að því sem þá voru taldar nýjar aðstæður í rekstrinum. Ófyrirséð þróun hefur svo enn orðið í rekstrarumhverfi stofnunarinnar á líðandi ári sem aukið hefur rekstarkostnaðinn og rýrt áætlaðar tekjur á árinu umfram það sem gert var ráð fyrir við enduráætlunina. Þessar aðstæður og áframhaldandi breytingar í starfsemi og starfsumhverfi nær allra íslenskra fjármálafyrirtækja gera það að verkum að rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010 verður væntanlega háð töluvert meiri óvissu en áður eða allt frá því að stofnunin tók til starfa í ársbyrjun 1999.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Fjármálaeftirlitið hefur, í samræmi við 2. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999, leitað álits samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila á áætluðu rekstrarumfangi stofnunarinnar á árinu 2010. Átti Fjármálaeftirlitið fund með nefndinni þann 4. júní sl. þar sem kynnt voru drög að rekstraráætlun fyrir stofnunina ásamt skýringum og drög að skiptingu eftirlitsgjaldsins við álagningu á árinu 2010. Samráðsnefndin skilaði athugasemdum við drögin að rekstraráætluninni til Fjármálaeftirlitsins þann 16. júní sl. Stjórn Fjármálaeftirlitsins fjallaði um álit nefndarinnar á stjórnarfundi þann 2. júlí sl. og staðfesti meðfylgjandi rekstraráætlun. Það hefur verið tilkynnt samráðsnefnd og er gert ráð fyrir að nefndin, sem nú hefur verið skipuð að nýju, skili Fjármálaeftirlitinu endanlegu áliti sínu við rekstraráætlunina bráðlega, og verður það þá sent ráðuneytinu.
    Auk forsendna fyrir rekstraráætlun ársins 2010 og tillögum um álagningu eftirlitsgjalds á því ári er í skýrslu þessari að finna stutta greinargerð um rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2008 og umfjöllun um rekstraráætlun vegna ársins 2009, sem var skorin verulega niður í nóvember sl. í kjölfar falls stærstu viðskiptabankanna. Athygli er vakin á að í áætlun fyrir árið 2010 er horft allt að 18 mánuði fram í tímann varðandi umsvif í rekstri Fjármálaeftirlitsins.
    Skýrslunni fylgja tvær töflur þar sem gerð er grein fyrir áætluðu rekstrarumfangi næsta árs (2010) og endurskoðaðri rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins á yfirstandandi ári (tafla 1) og áætlaðri álagningu eftirlitsgjalds miðað við áætlað rekstrarumfang 2010 (tafla 2). Ársreikningur Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2008 er einnig meðfylgjandi.

1. Rekstur Fjármálaeftirlitsins á árinu 2008.
    Tekjur af eftirlitsgjaldi á árinu 2008 námu 912,7 m.kr. Ýmsar tekjur námu 11,2 m.kr. og fjármunatekjur nettó námu 43,0 m.kr. Sérstakt framlag ríkisins nam 549 m.kr. Rekstrargjöld, að meðtöldum eignakaupum, námu 1.075,2 m.kr. Tekjuafgangur samkvæmt rekstrarreikningi nam 440,6 m.kr. Meðtalin í framangreindum fjárhæðum eru tekjur og gjöld vegna úrskurðarnefnda, sem vistaðar eru hjá Fjármálaeftirlitinu, samtals 5.9 m.kr. Eignir í árslok 2008 námu samtals 771,0 m.kr. og skuldir 242,6 m.kr. þannig að eigið fé í árslok nam 528,3 m.kr.
    Rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2008 var endurskoðuð tvisvar. Í fyrra sinn í júní 2008 í tengslum við gerð áætlunar fyrir árið 2009 en þá var fallið frá fyrirhuguðum flutningi í nýtt húsnæði á árinu 2008 og felldir út úr áætluninni liðir tengdir flutningunum, samtals 42.9 m.kr. Gerð er grein fyrir þessum breytingum í skýrslu til viðskiptaráðherra um rekstraráætlun stofnunarinnar 2009, dags. 3. júlí 2008. Síðari endurskoðun rekstraráætlunar ársins 2008 var í nóvember 2008, í kjölfar ráðstafana á fjármálamarkaði á grundvelli l. nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Við þá breytingu var launaliður áætlunarinnar fyrir árið 2008 lækkaður um 32,8 m.kr. Gerð var grein fyrir þessum breytingum í skýrslu til viðskiptaráðherra, dags. 26. nóvember 2008.
    Samkvæmt fjáraukalögum fyrir árið 2008, sem samþykkt voru á Alþingi þann 22. desember 2008, er framlag til Fjármálaeftirlitsins 549 m.kr. Tengist það auknum kostnaði stofnunarinnar vegna ráðstafana á grundvelli l. nr. 125/2008. Helstu þættir þessa kostnaðar eru vegna skilanefnda viðskiptabanka, sem skipaðar voru af Fjármálaeftirlitinu, endurskoðunar- og verðmatskostnaður vegna gerðar stofnefnahags-reikninga nýju viðskiptabankanna og ýmis önnur aðkeypt sérfræðiþjónusta tengd endurreisn fjármálakerfisins. Hvað varðar kostnað vegna skilanefnda þá er það vilji stjórnar Fjármálaeftirlitsins að endurheimta hann frá gömlu viðskiptabönkunum. Ljóst er nú að heildarkostnaður vegna framangreinds, sem að stærstum hluta fellur undir liðinn "aðkeypt sérfræðiþjónusta" í ársreikningi Fjármálaeftirlitsins, varð töluvert lægri fjárhæð á árinu 2008 en gert var ráð fyrir í fjáraukalögunum eða alls 310,6 m.kr. Alls 238,4 m.kr. af þessu sérstaka ríkisframlagi var því ekki ráðstafað á árinu.
     Í yfirliti 1 hér á eftir eru sýndar helstu tölur úr rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2008 ásamt breytingum sem tvisvar voru gerðar á áætluninni og nefndar hafa verið hér að framan. Þá sýnir yfirlitið einnig rauntölur ársins skv. ársreikningi stofnunarinnar fyrir 2008. Sérstakur dálkur er svo í yfirlitinu sem sýnir endanlegar rekstrar- og efnahagstölur ársins eftir að sérstaka ríkisframlagið hefur verið dregið út og á sama hátt kostnaður því tengdur. Fjárhæðir í þessum dálki (dálkur 5) eru síðan í yfirlitinu bornar saman við rekstraráætlun, annars vegar við upphaflega áætlun og loks við fjárhæðir úr síðari útgáfu áætlunarinnar í nóvember 2008.
    Eins og sjá má á yfirlitinu skýrist stærsta frávik í gjaldahlið rauntalna í rekstri Fjármálaeftirlitsins árið 2008 af verulega lægri launakostnaði en áætlað var eða um 128 m.kr. Frávikið má fyrst og fremst rekja til þess að áætlanir um nýráðningar riðluðust við bankahrunið auk þess sem launaleiðréttingar sem höfðu verið í áætlun gengu ekki eftir. Kostnaður við tölvu- og upplýsingatæknimál er hins vegar helsta ástæðan fyrir því að önnur gjöld alls fóru að lokum nokkuð fram úr áætlun á árinu eða um 16 m.kr. Á tekjuhlið er hins vegar helsta frávikið 33 m.kr. hærri vaxtatekjur en áætlað var.

Yfirlit 1.     
1 2 3 4 5 6 7
Rekstraráætlun FME
vegna 2008
m.kr.     
Upphafleg áætlun
(júní 2007)
Endursk. áætlun
(júní 2008)
Endursk. áætlun
(nóv. 2008)     
Rauntölur 2008 Rauntölur 2008 án ríkisframlags og sérstaks kostn. vegna bankahruns      Frávik raunt. í dálki 5
frá upphafl. áætlun í dálki 1
Frávík raunt. í dálki 5 frá endursk. áætlun í dálki 3
Tekjur:
    Eftirlitsgjald 915 ,0 915,0 915,0 912,7 912,7 -2,3 -2,3
    Úrskurðarnefndir 6 ,0 6,0 6,0 5,9 5,9 -0,1 -0,1
    Aðrar tekjur 0 ,5 0,5 0,5 5,3 5,3 4,8 4,8
    Vaxtatekjur nettó 10 ,0 10,0 10,0 43,0 43,0 33,0 33,0
                    Tekjur samt. 931 ,5 931,5 931,5 966,9 966,9 35,4 35,4
Ríkisframlag 549,0
Gjöld:
    Launakostnaður 691 ,1 692,1 658,3 530,4 530,4 -160,7 -127,9
    Úrskurðarnefndir 6 ,0 6,0 6,0 5,9 5,9 -0,1 -0,1
    Önnur gjöld samt. 255 ,0 212,2 212,2 538,9 228,3 -26,7 16,1
                    Gjöld samt. 952 ,2 910,3 876,5 1075,2 764,6 -187,6 -111,9
Tekjuafgangur -20,7 21,2 55,0 440,6 202,3 223,0 147,3
Yfirfært frá fyrra ári 50,7 87,7 87,7 87,7 87,7 37,0 0
Eigið fé í árslok 30,0 108,9 142,7 528,3 289,9 259,9 147,2
    Þ.a sérstakur varasjóður 30 ,0 45,7 45,7 38,3

    Samkvæmt lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi er Fjármálaeftirlitinu heimilað að mynda varasjóð samsvarandi rekstrarafgangi umfram áætlun sem skerðist ekki þótt síðar verði rekstrartap af starfseminni. Hámark slíks varasjóðs er 5% af áætluðu eftirlitsgjaldi næsta árs og er heimilt að nýta viðkomandi sjóð til að fjármagna útgjöld umfram áætlanir vegna ófyrirséðra atvika.
    Um rekstur og efnahag Fjármálaeftirlitsins á árinu 2008 er að öðru leyti vísað til ársreiknings Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2008.

2. Rekstraráætlun vegna ársins 2009.
    Rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2009 var send viðskiptaráðherra með bréfi, dags. 3. júlí 2008. Eftir ráðstafanir á fjármálamarkaði í október 2008 á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., var talið að töluverðar breytingar yrðu í starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins á árinu 2009 og tekjur og rekstrarumfang stofnunarinnar yrðu minni en gert var ráð fyrir í fyrirliggjandi rekstraráætlun. Var áætlunin því endurskoðuð og hætt við fyrirhugaða fjölgun starfsmanna á árinu og fallið frá áætlun um flutning í nýtt húsnæði. Ennfremur þótti fyrirsjáanlegt að utanlandsferðum á vegum eftirlitsins myndi fækka og fallið var frá fyrirhugaðri þátttöku í alþjóðasamtökum verðbréfaeftirlita (IOSCO). Ný rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2009 með þessum breytingum var send viðskiptaráðherra með bréfi, dags. 26. nóvember 2008. Á yfirliti 2 hér á eftir má sjá helstu breytingar framangreindrar endurskoðunar á rekstraráætluninni og samanburð við upphaflega áætlun. Þess ber að geta að við meðferð rekstraráætlunarinnar í viðskiptanefnd Alþingis var ákveðið að bæta 13 m.kr. við áætlaðan launalið áætlunarinnar og þ.m.t. áætlað eftirlitsgjald og hefur þessi breyting verið færð í tölur endurskoðuðu áætlunarinnar ásamt breytingu á liðnum "yfirfært frá fyrra ári" sem hefur áhrif til lækkunar á áætluðu eftirlitsgjaldi um sömu fjárhæð.
    Eins og fram er komið hér að framan í umfjöllun um rekstur ársins 2008 bættust ýmis ný úrlausnarefni á síðasta hausti við reglubundin verkefni Fjármálaeftirlitsins, á grundvelli laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitinga úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði ofl. Hins vegar var ekki gerlegt að koma að áætluðum kostnaðar- og tekjuliðum vegna þessara verkefna í rekstraráætlunum stofnunarinnar. Nú liggur fyrir að 238,4 m.kr. af sérstakri 549 m.kr. fjárveitingu vegna framangreinds samkvæmt fjáraukalögum fyrir árið 2008 var ekki ráðstafað á árinu og flyst fjárhæðin því yfir á árið 2009 sem hluti af tekjuafgangi stofnunarinnar á árinu. Gert er ráð fyrir að þessum fjármunum ásamt 18,5 m.kr. væntanlegu aukaframlagi úr ríkissjóði verði ráðstafað á árinu 2009 til verkefna á grundvelli nefndra laga.
    Við gerð rekstraráætlunar fyrir árið 2010 hefur síðan enn reynst nauðsynlegt að endurskoða áætlun fyrir líðandi ár. Ástæður þess eru fyrst og fremst þær að breyting hefur orðið á fjárhæð vegna yfirfærslu frá fyrra ári, þar sem uppgjör ársins liggur nú fyrir, sbr. það sem tilgreint hefur verið hér að framan. Auk þess er nú búist við nokkrum afföllum af álögðum eftirlitsgjöldum á árinu eins og rakið verður hér á eftir.
    Alls voru lagðar á 830 m.kr. á eftirlitsskylda aðila í ársbyrjun 2009 samkvæmt lögum nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Óvissa er um fulla innheimtu þessarar fjárhæðar. Tvær meginástæður valda því.
    Í fyrsta lagi er álagning eftirlitsgjalds á nýju viðskiptabankana þrjá byggð á upplýsingum um heildareignir í drögum að stofnefnahagsreikningum bankanna, en endanlegir efnahagsreikningar lágu þá ekki fyrir. Ýmsar breytingar hafa síðar verið gerðar á þessum drögum að stofnefnahagsreikningum, einkum til lækkunar. Álagt eftirlitsgjald verður því væntanlega að endurreikna, þegar endanlegir stofnefnahagsreikningar liggja fyrir. Miðað við fyrirliggjandi upplýsingar, þegar þessi skýrsla er gerð, má áætla að lækkun álagningar eftirlitsgjalds á viðskiptabankana geti numið um 46 m.kr. af framangreindum ástæðum.
    Í öðru lagi hefur Fjármálaeftirlitið, eftir að álagning eftirlitsgjaldsins fór fram, í byrjun janúar sl. gripið til ráðstafana gagnvart fleiri lánastofnunum á grundvelli laga nr. 125/2008. Þær ráðstafanir, umbreytingar á lánamarkaði, og rekstrarleg óvissa nokkurra annarra fyrirtækja, sem greiða eiga eftirlitsgjald, gera það að verkum að nokkur óvissa er um fulla innheimtu eftirlitsgjalda þessara aðila. Fjármálaeftirlitið áætlar nú að um 18 m.kr. rýrnun verði í innheimtu álagðra eftirlitsgjalda á árinu 2009 frá þessum aðilum. Samtals er því nú áætlað að innheimt eftirlitsgjöld á árinu 2009 verði um 64 m.kr. lægri en álagning í ársbyrjun 2009 gerði ráð fyrir.

Yfirlit 2.
Rekstraráætlun FME
vegna 2009
m.kr.
Rekstraráætlun
(júní 2008)
Endursk. áætlun
(nóv. 2008)
Endursk. áætlun
(júní 2009)     
Frávik frá upphafl. áætlun
(júní 2008)
    Tekjur
    Eftirlitsgjald 1.116 ,0 825,7 766,0 -350,0
    Úrskurðarnefndir 6 ,0 6,0 6,0 0
    Aðrar tekjur 1 ,0 0,5 0,5 -0,5
    Vaxtatekjur nettó 12 ,0 12,0 12,0 0
1.135,0 844,2 784,5 -350,5
    Gjöld
    Launakostnaður 900 ,9 704,8 706,1 -194,8
    Úrskurðarnefndir 6 ,0 6,0 6,0 0
    Önnur gjöld samt. 291 ,3 230,4 247,6 -43,7
1.198,2 941,2 959,7 -238,5
    Tekjuafgangur -63 ,2 -97,0 -175,2 -112,0
    Yfirfært frá fyrra ári 109 ,0 142,7 289,9 180,9
    Eigið fé í árslok 45 ,7 45,7 114,7 69,0

3. Rekstraráætlun fyrir árið 2010
    Ljóst er að verulegar breytingar hafa orðið í starfsumhverfi Fjármálaeftirlitsins síðustu mánuði og á næstu misserum verður starfsemi stofnunarinnar mótuð að nýjum aðstæðum. Við þá endurmótun er óhjákvæmilegt að taka mið af reynslu síðustu ára og fyrirliggjandi ráðgjöf sérfræðinga, sem stjórnvöld fengu til aðstoðar eftir bankahrunið. Fram er komið að rekstraráætlun stofnunarinnar fyrir árið 2009 var lækkuð umtalsvert eftir bankahrunið og fallið frá fyrirhugaðri fjölgun starfsmanna. Óhjákvæmilegt hefur hins vegar reynst að fjölga starfsfólki tímabundið, fyrst og fremst vegna margháttaðrar rannsóknarvinnu tengdri fyrri starfsemi gömlu bankanna. Frá október 2008 hefur Fjármálaeftirlitið hafið rannsókn á 51 máli tengdum meintum brotum einstaklinga og fjármálafyrirtækja. Gera verður ráð fyrir að þessi vinna teygi sig yfir á árið 2010. Því til viðbótar liggur þegar fyrir að ákveðnir þættir í rekstri stofnunarinnar, s.s. skipulag gagnagrunna og upplýsingavinnsla, hafa verið vanmetnir. Þá er þegar ljóst að starfsemi nýju viðskiptabankanna, annarra fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða þarf styrkara eftirlitsaðhald með beinum eftirlitsheimsóknum en verið hefur. Að öllu samanlögðu er því óhjákvæmilegt að taka upp aftur í rekstraráætlun fyrir árið 2010 áætlun um styrkingu eftirlitsins og í raun nokkuð umfram það sem horfið var frá á líðandi ári.

Launakostnaður
    Fjöldi starfsmanna ræður mestu um helstu rekstrarstærðir Fjármáleftirlitsins, þ.e. laun og launatengd gjöld, húsnæðisþörf og umfang tölvubúnaðar. Gert er ráð fyrir 13 nýjum stöðugildum á árinu 2010. Þar af eru 7 ný stöðugildi á lánasviði, 3 á lífeyris- og verðbréfasjóðasviði og 3 á stoðsviði. Áætlað er að fjöldi stöðugilda í árslok 2009 verði 64,4 og 77,4 í lok árs 2010. Gert er ráð fyrir að aukning á árinu 2010 reiknist frá byrjun ársins. Fjölgun starfsmanna er tímabundin vegna umfangs rannsóknarverkefna á árinu 2009 og 2010. Til lengri tíma litið er óvissa um umfang starfseminnar og starfsmannaþörf.
    Í töflu 1 kemur fram að laun og launatengd gjöld eru áætluð 803,5 m.kr. árið 2010 samanborið við 706,1 m.kr. samkvæmt áætlun 2009. Hækkun launakostnaðar milli ára er því 97,4 m.kr. eða 13,8%. Hækkunin skýrist fyrst og fremst af fjölgun starfsmanna, en að óverulegu leyti vegna samningsbundinna launabreytinga.
    Viðskiptaráðherra ákvarðar laun stjórnarmanna og verða þau 10,8 m.kr. á árinu 2010 samanborið við 12,1 m.kr. árið 2009.

Húsaleiga og rekstur á húsnæði
    Húsaleiga í núverandi húsnæði byggir á föstum samningum sem bundnir eru vísitölu neysluverðs. Áætlunin nú gerir ráð fyrir að leiga á 2. hæð hússins fáist framlengd á óbreyttum kjörum frá ársbyrjun 2010 en flutt verði í nýtt húsnæði af svipaðri stærð og það húsnæði sem stofnunin hefur nú yfir að ráða á seinni hluta árs 2010. Húsrýmisáætlun stofnunarinnar verður uppfærð í framhaldi af gerð rekstraráætlunarinnar. Stefnt er að því að frágangur og gæði nýs húsnæðis verði í samræmi við fyrirliggjandi húslýsingu stofnunarinnar og húsnæði því leigt fullbúið. Stærsti hluti hækkunar leigukostnaðar frá líðandi ári er áætluð verðlagshækkun vegna tengingar húsaleigu við neysluvísitölu en gert er ráð fyrir óverulegri hækkun á grunnleiguverði frá gildandi leigusamningum. Óvissa hvað varðar leigukjör tengist þó hugsanlegum virðisaukaskatti á leiguverð í nýju húsnæði en slíkur skattur leggst ekki á leiguverð í núverandi húsnæði stofnunarinnar. Margir leigusalar eru með húsnæði sitt virðisaukaskattskráð en stofnunin getur ekki nýtt slíkt fyrirkomulag til endurgreiðslu virðisaukaskatts.
    Gerð hefur verið grein fyrir húsnæðismálum stofnunarinnar í gögnum með rekstraráætlun stofnunarinnar sl. ár, auk þess sem bréfaskipti hafa átt sér stað við viðskiptaráðuneytið vegna þessara mála, en frá því á árinu 2007 hefur í rekstraráætlunum verið gert ráð fyrir flutningi í stærra og hentugra húsnæði. Vegna fjölgunar starfsmanna var húsnæðið orðið of lítið og ýmis aðstaða ófullnægjandi. Ríkiskaup auglýstu á árinu 2007 eftir húsnæði fyrir Fjármálaeftirlitið án árangurs og var húsnæðisleitinni haldið áfram með aðstoð Framkvæmdasýslu ríkisins á árinu 2008. Samningar náðust þá hins vegar ekki í leiguviðræðum um húsnæðiskost sem þótti áhugaverður. Við niðurskurð rekstraráætlunar Fjármálaeftirlitsins fyrir líðandi ár, sem gerður var í kjölfar bankahrunsins í október sl., var fallið frá áætlun um flutning stofnunarinnar á árinu 2009 en skömmu áður hafði tekist að útvega viðbótarhúsnæði á 2. hæð hússins sem leysir brýnasta húsnæðisvandann út líðandi ár.
    Samtals er kostnaður vegna þessara liða áætlaður 50,0 m.kr. samanborið við 42,0 m.kr. á árinu 2009 sem er 19% hækkun.

Rekstur tölvubúnaðar
    Gert er ráð fyrir að rekstur tölvubúnaðar og sérfræðiþjónusta vegna tölvumála hækki um 14,3 m.kr., eða um 16,4%, úr 87,2 m.kr. áætlun fyrir árið 2009 í 101,5 m.kr. á árinu 2010. Hækkunin stafar fyrst og fremst af hækkunum á vélbúnaði, notendahugbúnaði og rekstrarvörum, fjölgun starfsmanna og gengisbreytingum.

Ferðakostnaður erlendis
    Gert er ráð fyrir að ferðakostnaður erlendis hækki um 10% milli ára og verði 33,0 m.kr. Gert er ráð fyrir 132 ferðum á næsta ári á móti rúmum 150 árið 2009. Mikil veiking krónunnar vegur þyngst í aukningu þessa liðar og vegur upp lækkun vegna fækkunar ferða. Fækkun ferða stafar af samdrætti í eftirliti erlendis í kjölfar falls stærstu viðskiptabankanna. Þátttaka í samstarfi eftirlita á Evrópska efnahagssvæðinu verður hins vegar með svipuðu sniði og verið hefur.

Þátttökugjöld vegna erlends samstarfs
    Fjármálaeftirlitinu ber í nokkrum tilvikum að greiða þátttökugjöld í erlendu samstarfi. Samstarfið tengist fyrst og fremst eftirgreindum nefndum:
     *      Samstarfsnefnd evrópskra verðbréfaeftirlita (e. Committee of European Securities Regulators – CESR)     4,5 m.kr.
     *      Alþjóðasamtök vátryggingaeftirlita (e. International Association of Insurance Supervisors – IAIS)     2,9 m.kr.
     *      Samstarfsnefnd Evrópskra vátryggingaeftirlita og lífeyrissjóðaeftirlita (e.
     *      Committee of European Insurance and Occupational Pension Supervisors –
         CEIOPS
)          2,6 m.kr.
     *      Samstarfsnefnd evrópskra bankaeftirlita (e. Committee of European Banking Supervisiors – CEBS)     1,5 m.kr.

    Heildarþátttökugjöld samkvæmt þessum lið eru 12,0 m.kr. Á árinu 2009 var sambærilegur kostnaður samtals 7,4 m.kr. og nemur hækkunin 62,2%. Ástæður fyrir hækkuninni eru fyrst og fremst óhagstæð gengisþróun.

Kostnaður vegna flutninga/eignakaupa
    Stór hluti húsbúnaðar stofnunarinnar verður orðinn 10 ára gamall á árinu 2010. Í upphaflegri áætlun fyrir árið 2009 var gert ráð fyrir endurnýjun þessa búnaðar í tengslum við fyrirhugaða flutninga og vísað í endurnýjunarþörf samkvæmt mati verkfræðistofu. Nú er hins vegar stefnt að því að nýta sem mest af þessum húsbúnaði í nýju húsnæði. Eigi að síður er nokkur endurnýjun óhjákvæmileg auk viðbótar þar sem húsbúnaður vegna fjölgunar starfsmanna frá miðju ári 2008 var að mestu tekinn á leigu með því viðbótarhúsnæði sem leigt var frá sama tíma. Er því áætlaður kostnaður á árinu 2010 vegna endurnýjunar húsbúnaðar samkvæmt framangreindu, nýs símabúnaðar og fleiri þátta sem tengdir eru húsnæðisbreytingum alls 29 m.kr. Einnig er þar innifalinn 2,5 m.kr. kostnaður vegna húsnæðisöflunar og flutninga á árinu 2010.

Annar kostnaður
    Samtala kostnaðarliða sem ekki hefur verið gerð grein fyrir hér á undan er áætluð 81,9 m.kr. á árinu 2010 samanborið við 74,5 m.kr. fyrir árið 2009 og nemur hækkunin 7,4 m.kr. eða 10%. Að hluta til stafar hækkunin milli ára á þessum kostnaðarliðum samtals af áhrifum af fjölgun starfsmanna. Í þessu sambandi má nefna að samkvæmt símenntunarstefnu Fjármálaeftirlitsins er stefnt að því að kostnaður vegna símenntunar nemi 3,5% af launum og launatengdum gjöldum. Stærsti liðurinn sem fellur undir framangreint viðmið er endurmenntunar- og skólakostaður, 11 m.kr., en þar getur einnig bæst við ferða- og dvalarkostnaður tengdur þátttöku í námskeiðum og ráðstefnum erlendis. Fjöldi slíkra ferða er ekki áætlaður en ákvarðanir um þær takmarkast af framangreindu viðmiði.

Rekstrarkostnaður samtals
    Samtala gjaldaliða án úrskurðarnefnda er áætluð 1.110,9 m.kr. á árinu 2010 samanborið við 953,7 m.kr. samkvæmt endurskoðaðri áætlun ársins 2009 eða 16,5% hækkun milli ára.

Aðrar tekjur, vaxtatekjur
    Fjármálaeftirlitið fær vexti af innstæðum á reikningum sínum í Seðlabanka Íslands. Vaxtatekjur nettó, 12 m.kr., eru byggðar á áætlaðri meðalstöðu innstæðu m.v. álagningu sem miðast við drög að rekstraráætlun. Aðrar tekjur eru óverulegar eða um 1 m.kr. Fjármálaeftirlitið áskilur sér jafnframt rétt til að nýta heimildir í 7. gr. laga nr. 99/1999, um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, með áorðnum breytingum, til að innheimta sérstaklega útlagðan kostnað vegna umframeftirlits eða aðkeyptrar sérfræðiþjónustu vegna ákveðinna aðila.

4. Álagning eftirlitsgjalds fyrir árið 2010
    Tekjuáætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010 skal byggð á álagningarstofnum úr ársreikningum eftirlitsskyldra aðila fyrir árið 2008 samkvæmt því sem nánar er tilgreint um álagningarstofna í 5. gr. laga nr. 99/1999. Ársreikningar nýju viðskiptabankanna þriggja fyrir árið 2008 liggja hins vegar ekki fyrir þegar þessi áætlun er gerð auk þess sem óvissa er um áframhaldandi rekstur nokkurra smærri eftirlitsskyldra aðila. Álagningarstofn viðskiptabankanna samtals í tekjuáætluninni er því áætluð stærð og frávik frá áætlun gætu orðið meiri en áður af framangreindum ástæðum.
    Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. laga nr. 99/1999 skal Fjármálaeftirlitið í skýrslu þessari leggja mat á þróun starfseminnar undangengin þrjú ár með tilliti til þess tíma sem ætla má að farið hafi í eftirlit með hverjum flokki eftirlitsskyldra aðila. Þannig skal hliðsjón höfð af tímaskiptingunni á tilgreindu tímabili samhliða mati á þróun þessarar skiptingar fyrir líðandi ár og næsta fjárhagsár.
    Í töflu 2 sem er fylgiskjal með skýrslunni er sýnd tillaga (áætlun) Fjármálaeftirlitsins um skiptingu eftirlitsgjalds á árinu 2010 milli flokka eftirlitsskyldra aðila, sem gerð er með hliðsjón af framangreindu lagaákvæði. Í töflunni er einnig sýnd sambærileg skipting álagðs eftirlitsgjalds á árinu 2009, álagningarstofnar vegna áætlaðs eftirlitsgjalds á árinu 2010, áætluð álagningarhlutföll á árinu 2010 og upplýsingar um lágmarks- og fastagjöld.
    Tímaskráning Fjármálaeftirlitsins er tengd málaskráningarkerfi stofnunarinnar. Þessi skráning verður þó ekki nema að hluta tengd ákveðnum eftirlitsskyldum aðilum eða flokkum þeirra. Fjölmörg mál og eftirlitsverkefni eru almenns eðlis (e. cross-sectoral) og varða fleiri en einn flokk eftirlitsskyldra aðila eða markaði í heild. Sama á við um verkefni í innri starfsemi eftirlitsins.
    Með breytingu á lögum nr. 99/1999 sem tóku gildi í ársbyrjun 2008 var gerð sú breyting að greint var á milli viðskiptabanka og annarra lánastofnana í álagningu eftirlitsgjalds með mismunandi álagningarhlutföllum. Fjármálaeftirlitið hafði í rekstraráætlun sinni fyrir árið 2008 lagt fram tillögu um sama álagningarhlutfall fyrir allar lánastofnanir byggða á tímaskráningu, samanber einnig gildandi lög á þeim tíma. Þessu var hins vegar breytt við afgreiðslu viðkomandi frumvarps frá viðskiptanefnd, samkvæmt tilmælum frá Samtökum fjármálafyrirtækja.
    Forsendur fyrir þessari skiptingu álagningarhlutfalls á lánastofnanir eru því ekki komnar frá Fjármálaeftirlitinu og skiptingin ekki studd niðurstöðum úr tímaskráningu stofnunarinnar. Í rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2009, þann 3. júlí 2008, var lagt til að þessu yrði aftur breytt þannig að allar lánastofnanir bæru sama álagningarhlutfall. Þessu var þó aftur breytt til fyrra horfs í samræmi við tillögur samtaka fjármálafyrirtækja við meðferð enduráætlunar rekstraráætlunarinnar í viðskiptanefnd Alþingis í desember 2008 eftir að upphafleg tekjuáætlun stofnunarinnar hafði raskast mjög vegna bakahrunsins. Tekjuáætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2009 hefur því í raun takmarkaðri tengingu við tímaskráningu stofnunarinnar en gert var ráð fyrir í upphaflegri áætlun stofnunarinnar vegna ársins.
    Í tillögum að álagningu eftirlitsgjalds á árinu 2010, sem nú eru lagðar fram, er aftur reynt að færa skiptingu eftirlitsgjalds meira til samræmis við tímaskráningu stofnunarinnar þó þannig að enn eru ekki sömu álagningarhlutföll á viðskiptabanka og aðrar lánastofnanir.
    Þá er í tillögunum gert ráð fyrir óbreyttri skiptingu heildarálagningar eftirlitsgjaldsins á útgefendur hluta- og skuldabréfa sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi, þannig að útgefendur hlutabréfa beri 70% heildarálagningarinnar og útgefendur skuldabréfa beri 30%. Tekið er mið af þessari skiptingu í tillögu um þrepaskiptingu fastagjalda, sbr. eftirfarandi töflu:
                   
Útgefendur hlutabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi Útgefendur skuldabréfa, sem tekin hafa verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði og markaðstorgi fjármálagerninga hér á landi
Markaðsvirði m.kr. Fastagjald í þús.kr. Markaðsvirði m.kr. Fastagjald í þús.kr.
    0–4.999 300     0–999 100
    5.000–24.999 800     1.000–4.499 150
    25.000–99.999 2.400     5.000–9.999 350
    100.000–499.999 4.400     10.000–49.999 600
    500.000 og yfir 6.300     50.000–199.999 850
    200.000 og yfir 1.000

    Þá leggur Fjármálaeftirlitið nú til breytingar á fastagjöldum lífeyrissjóða en miðað er við að hlutur þessara gjalda verði hverju sinni um 60% af heildarálagningu eftirlitsgjalds á lífeyrissjóðina í samræmi við óskir Landssamtaka lífeyrissjóða. Gjöld þessi verði því:
    Fastagjald 790.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris undir einum milljarði króna, 1.270.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá einum til tíu milljarða króna, 2.220.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tíu milljörðum króna til tuttugu og fimm milljarða króna, 4.130.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris frá tuttugu og fimm milljörðum króna til eitthundrað milljarða króna og 4.780.000 kr. vegna þeirra lífeyrissjóða er höfðu hreina eign til greiðslu lífeyris þar yfir.
    Eins og fram kemur í rekstraráætluninni fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir að eftirlitsgjald á því ári verði 1.021,5 m.kr. samanborið við 766,0 m.kr. áætlað innheimt eftirlitsgjald á árinu 2009 sem er 33,4 % hækkun milli ára.


Rekstraráætlun FME.
(6. júlí 2009. )


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Tafla 1.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.

Samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila:

Umsögn um rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010.

    Meðfylgjandi eru athugasemdir samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila við greinargerð um áætlað rekstrarumfang FME árið 2010 sem kynnt var nefndinni í júní.

Fjárhagsáætlun 2010:
     1.      Í rekstraráætlun fyrir árið 2010 er gert ráð fyrir 15,7% hækkun launakostnaðar milli ára eða 110,6 milljónir kr. Um er að ræða kostnað vegna ráðningar 13 nýrra starfsmanna á árinu 2010. Á fundi samráðsnefndar með FME kom fram að þessi aukning skýrðist af rannsóknarvinnu tengdri bankahruninu og að gert sé ráð fyrir að draga muni úr starfsmannaþörf aftur þegar sér fyrir endann á þeirri vinnu á næstu árum.
     2.      Eðlilegt er að eftirlitsskyldir aðilar standi straum af kostnaði við rekstur FME í samræmi við eftirlit með starfsemi þeirra. Á sama hátt er eðlilegt að kostnaður vegna rannsóknar á bankahruninu og málum því tengdu greiðist af gömlu bönkunum eða ríkissjóði beint. Í ljósi þess að fyrirhuguð fjölgun starfsmanna snýr að slíkri rannsóknarvinnu liggur þannig beint við að sá viðbótarkostnaður komi úr sérstöku ríkisframlagi, og það sé svo mál ríkisins og gömlu bankanna hvort um endurkröfu þeirra á milli verði að ræða. Þá er nauðsynlegt að FME greini sem best milli kostnaðar af hefðbundinni eftirlitsstarfsemi og kostnaðar sem stafar af bankahruninu.
     3.      Laun fyrir sérfræðistörf hafa lækkað í fjármálageira eins og öðrum atvinnugreinum eftir hrunið. FME ætti því að geta náð hagstæðari launasamningum en gert er ráð fyrir í fyrirliggjandi rekstraráætlun m.t.t. þeirrar launaþróunar sem á sér stað á fjármálamarkaði þessi misserin. Þau áföll sem dundu yfir síðastliðið haust sýna mikilvægi þess að FME hafi yfir að ráða sem mestri sérþekkingu á málefnum fjármálamarkaðar. Í þeim efnum hefur samráðsnefnd ávallt lagt áherslu á lögbundna heimild FME til að ráða tímabundið sérfræðinga til að sinna ákveðnum málum. Eins og fram kemur í skýrslunni hefur sú leið verið mikið notuð í framhaldi af hruninu, en var lítið sem ekkert notuð fram að því. Horfa mætti til þeirrar lausnar til að brúa það bil sem FME telur að nú þurfi að gera tímabundið, og halda þá einnig sérstaklega utanum þann kostnað. Þá má velta því upp hvort fara mætti þá leið sem þekkist hjá sumum af evrópsku fjármálaeftirlitunum, þar sem utanaðkomandi sérfræðingar hafa með höndum úttektir á starfsstöðvum og sambærilega vinnu en fastráðnir starfsmenn eru meira í að hafa heildaryfirsýn yfir málefni fjármálamarkaðar og huga að kerfislegri áhættu.
     4.      Fram kemur í skýrslunni að FME sé að leita að nýju húsnæði sem það geri ráð fyrir að flytja í seinni hluta árs 2010, og að gert sé ráð fyrir óverulegri hækkun á grunnleiguverði frá gildandi leigusamningum. Einnig kemur fram að óvissa sé um leigukjör hvað það varðar að margir leigusalar séu með húsnæði sitt virðisaukaskattsskráð, sem FME geti ekki nýtt sér. Leiguverð á atvinnuhúsnæði hefur lækkað mikið á skömmum tíma og því má gera ráð fyrir að FME standi til boða gott húsnæði á hagstæðari kjörum en nú er. Þá er framboð á atvinnuhúsnæði það mikið að erfitt er að sjá að óvissa eigi að þurfa að vera um leigukjör í tengslum við virðisaukaskatt.

Skipting eftirlitsgjalds
     5.      Hvað skiptingu eftirlitsgjaldsins varðar hefur samráðsnefnd ávallt lagt áherslu á að tímaskipting vinnu FME eigi að vera grundvöllur skiptingar heildarkostnaðar. Að mati samráðsnefndar er það hið eðlilega viðmið og mikilvægt að FME leggi sig fram um að halda sem nákvæmasta tímaskráningu til að byggja þá skiptingu á. Í gegnum árin hefur verið miðað við meðal tímaskiptingu síðastliðinna þriggja ára en vera má að næstu 2-3 árin geti verið eðlilegra að horfa til skemmra tímabils í ljósi þeirra breytinga sem eru að verða á fjármálaumhverfinu öllu. Rétt er að ítreka mikilvægi þess sem fram kemur hér að framan, þ.e. að eftirlitsskyldir aðilar í dag séu að greiða fyrir þá starfsemi FME sem lýtur að almennu fjármálaeftirliti, en ekki fyrir rannsóknir tengdum bankahruninu. Til viðbótar við almennt viðhorf til skiptingar eftirlitsgjaldsins, vilja einstakir fulltrúar eftirlitsskyldra aðila í samráðsnefnd koma eftirfarandi á framfæri:

    Athugasemd frá fulltrúa sparisjóða:
    Fulltrúi sparisjóða gerir athugasemd við að eftirlitsgjald starfandi sparisjóða nær fjórfaldist frá 2008.

    Athugasemd frá fulltrúa lífeyrissjóða:
    Fulltrúi lífeyrissjóða vill koma þeirri athugasemd á framfæri að samkvæmt framlögðu yfirliti um skiptingu eftirlitsgjalds og skráðra vinnutíma hjá FME kemur fram að skráðir vinnutímar vegna lífeyrissjóða hafi numið að meðaltali s.l. þrjú ár 10-11%, en hlutfall álagningargjalds á árinu 2009 sé áætlað 18.2% og 15.4% á árinu 2010. Þarna sé um augljóst misræmi að ræða sem þurfi að taka til endurskoðunar.

    Athugasemd frá fulltrúa viðskiptabanka:
    Fulltrúi viðskiptabanka vill koma þeirri athugasemd á framfæri að fjármálamarkaðurinn hefur tekið á sig mun einfaldari mynd en verið hefur. Með tilliti til þessa er nauðsynlegt að umfang og starfsemi FME taki mið af núverandi stærð fjármálamarkaðarins. Mikilvægt er að álagning eftirlitsgjalds á ólíka hópa eftirlitsskyldra aðila fari fram í takt við áætlað vinnuframlag við eftirlit með hverjum hópi og tekið sé mið af tímaskiptingu sem grunni við skiptingu eftirlitsgjalds.

    Athugasemd frá fulltrúa annarra eftirlitsskyldra aðila:
    Fulltrúi annarra eftirlitsskyldra aðila gerir athugasemd við að hlutdeild Kauphallarinnar og Verðbréfaskráningar Íslands, þ.e. hlutfallsskipting milli flokka eftirlitsskyldra aðila m.v. álagningu 2009, hefur aukist milli ára (KÍ 0,61% í 0,70%, VS 0,84% í 0,92%) meðan eftirlitsgjaldið á aðra aðila (fyrir utan lánastofnanir og ÍLS) hefur lækkað. Umfang í rekstri Kauphallarinnar hefur minnkað verulega og er þessi hækkun 25% á sjálfu gjaldinu. Ekki er að finna í skýrslunni sérstök rök fyrir þessari hækkun, t.d. að eftirlitið með Kauphöllinni og Verðbréfaskráningunni sé meira eftir bankahrun. Fulltrúi annarra eftirlitsskyldra aðila telur svo ekki vera.

Reykjavík 16. júní 2009,
f.h. samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila,
Guðjón Rúnarsson

Umsögn um rekstraráætlun Fjármálaeftirlitsins fyrir árið 2010.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Reykjavík 15. ágúst 2009,
f.h. samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila,

Stefán Árni Auðólfsson.



Fylgiskjal III.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1999,
um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

    Tilgangurinn með frumvarpinu er að kveða á um gjöld á eftirlitsskyldar fjármálastofnanir. Ár hvert skulu Fjármálaeftirlitið og samráðsnefnd eftirlitsskyldra aðila skila efnahags- og viðskiptaráðherra skýrslu um umfang og útgjöld eftirlitsins. Ef niðurstaða skýrslunnar gefur tilefni til breytinga á eftirlitsgjaldi skal ráðherra leggja fram frumvarp þar að lútandi.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll viðskiptabanka, sparisjóða, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja, verðbréfamiðlana, rekstrarfélaga, verðbréfasjóða og fjárfestingarsjóða, kauphalla, verðbréfamiðstöðva, lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs hækki. Þá er gert ráð fyrir að álagningarhlutföll vátryggingafélaga lækki og álagningarhlutföll vátryggingamiðlara haldist óbreytt. Áætlað er að álagt eftirlitsgjald á árinu 2009 verði samtals 766 m.kr. en 1.022 m.kr. árið 2010 og nemur áætluð hækkun á milli ára um 256 m.kr. eða 33%. Gert er ráð fyrir hækkun á rekstrarkostnaði Fjármálaeftirlitsins sem felst fyrst og fremst í auknum launakostnaði en gert er ráð fyrir að sá kostnaður hækki um 97,4 m.kr. eða um 13,4% vegna 13 nýrra stöðugilda á árinu 2010 og er þá gert ráð fyrir að stöðugildi stofnunarinnar verði orðin um 77. Það er mat efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að efla þurfi starfsemi Fjármálaeftirlitsins í kjölfar bankahrunsins með því að veita starfsemi nýju viðskiptabankanna, annarra fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða eftirlitsaðhald í ríkari mæli en verið hefur.     
    Rekstur Fjármálaeftirlitsins er fjármagnaður með eftirlitsgjaldi sem lagt er á eftirlitsskylda aðila og færist á tekjuhlið ríkissjóðs. Stofnunin fékk þó sérstakt 549 m.kr. framlag í fjáraukalögum 2008 til að mæta ýmsum kostnaði sem leiddi af bankahruninu sl. haust. Verði frumvarpið óbreytt að lögum munu ríkisútgjöld lækka um 94,5 m.kr. frá fjárlögum 2009 en afkoma ríkissjóðs verður óbreytt eftir sem áður. Gert hefur verið ráð fyrir þessum breytingum í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010.