Þskj. 293 — 257. mál.
Frumvarp til laga
um umhverfis- og auðlindaskatta.
(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
I. KAFLI
Kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti.
1. gr.
Fjárhæð kolefnisgjalds skal vera 2,90 kr. á hvern lítra af gas- og dísilolíu, 2,60 kr. á hvern lítra af bensíni, 2,70 kr. á hvern lítra af flugvéla- og þotueldsneyti og 3,10 kr. á hvern lítra af brennsluolíu.
Gjaldskyldir aðilar.
2. gr.
1. Allir þeir sem flytja til landsins vöru sem gjaldskyld er samkvæmt lögum þessum, hvort sem er til endursölu eða eigin nota.
2. Allir þeir sem framleiða hér á landi vöru sem gjaldskyld er samkvæmt lögum þessum, vinna að framleiðslu hennar eða setja saman, hvort sem er til endursölu eða eigin nota.
Gjaldskyldum aðilum ber að standa skil á kolefnisgjaldi við tollafgreiðslu ef um innflutning er að ræða en við afhendingu í tilviki innlendrar framleiðslu eða aðvinnslu.
Álagning, innheimta, eftirlit o.fl.
3. gr.
Gjöld, sem lögð eru á samkvæmt lögum þessum, mynda gjaldstofn til virðisaukaskatts.
Ýmis ákvæði.
4. gr.
Ráðherra getur með reglugerð sett nánari fyrirmæli um framkvæmd laga þessara.
II. KAFLI
Skattur af raforku og heitu vatni.
5. gr.
Fjárhæð skatts af raforku skal vera 0,12 kr. á hverja kílóvattstund (kWst) af seldri raforku.
Fjárhæð skatts af heitu vatni skal vera 2,0% af smásöluverði á heitu vatni.
Heimilt er að miða innheimtu skatts af raforku og heitu vatni við áætlaða sölu.
Skattskyldir aðilar.
6. gr.
Skattskylda samkvæmt lögum þessum nær jafnframt til aðila sem framleiða raforku og/eða heitt vatn til eigin nota.
Ríkisskattstjóri heldur skrá yfir skattskylda aðila samkvæmt þessari grein. Skattskyldir aðilar skulu ótilkvaddir senda ríkisskattstjóra tilkynningu um skattskylda starfsemi áður en starfsemi hefst.
7. gr.
1. Raforka eða heitt vatn sem afhent er öðrum skattskyldum aðila.
2. Raforka eða heitt vatn sem afhent er eða notað eingöngu til framleiðslu á raforku eða heitu vatni til endursölu.
Ráðherra er með reglugerð heimilt að kveða nánar á um skilyrði og framkvæmd vegna undanþágu frá greiðslu skatts af raforku og heitu vatni.
8. gr.
1. Útgáfudagur.
2. Útgáfustaður.
3. Afhendingarstaður ef annar en útgáfustaður.
4. Nafn og kennitala seljanda.
5. Nafn og kennitala kaupanda.
6. Magn, einingarverð og heildarverð á raforku eða heitu vatni.
Auk upplýsinga sem tilgreindar eru í 1. mgr. skal á sölureikningi koma fram hvort skattur á vatnsorku og jarðvarmanotkun er lagður á og hver fjárhæð hans er. Um varðveislu sölureikninga gilda ákvæði laga nr. 145/1994, um bókhald.
Álagning.
9. gr.
Uppgjör og innheimta.
10. gr.
Skattskyldir aðilar sem hlotið hafa skráningu skv. 6. gr. skulu greiða skatt af raforku og heitu vatni fyrir hvert uppgjörstímabil miðað við sölu og eigin notkun.
Við uppgjör skatts af raforku og heitu vatni má draga frá fjárhæð sem nemur sannanlega töpuðum útistandandi kröfum eða ofgreiddum skatti, sbr. 4. mgr. 5. gr., af raforku og heitu vatni sem áður hefur verið skilað í ríkissjóð.
Uppgjörstímabil og skýrslur.
11. gr.
Ýmis ákvæði og gildistaka.
12. gr.
Skattur, sem lagður er á samkvæmt lögum þessum, myndar gjaldstofn til virðisaukaskatts.
13. gr.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Með frumvarpi þessu er lagt til að tekið verði annars vegar upp kolefnisgjald á fljótandi jarðefnaeldsneyti og hins vegar að lagður verði skattur á sölu á raforku og heitu vatni.
Í I. kafla frumvarpsins er lagt til að sérstakt kolefnisgjald verði lagt á fljótandi jarðefnaeldsneyti, þ.e. bensín, dísilolíu, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu (svartolíu). Kemur hið nýja gjald sem sjálfstæð viðbót við þau vörugjöld sem fyrir eru á dísilolíu og bensíni. Slíkan skatt má finna í flestum ríkjum Evrópu, þ.m.t. í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Gjaldtakan byggist á kolefnisinnihaldi hverrar tegundar eldsneytis fyrir sig og tekur mið af söluverði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB (EU ETS) eins og það hefur verið síðastliðið ár. Verð á losunarheimildum hefur verið um 13 evrur á hvert tonn CO 2 eða um 48 evrur á hvert tonn af kolefni, en í frumvarpinu er miðað við 4.000 kr. á hvert tonn af kolefni. Þar af leiðandi verður skatturinn hærri á dísilolíu en t.d. bensín þar sem kolefnisinnihald við bruna á einum lítra af dísilolíu er meira en á einum lítra af bensíni. Sama gildir um flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu (svartolíu).
Lagt er til að kolefnisgjaldið verði innheimt við tollafgreiðslu og tollstjóri sjái um álagningu og innheimtu og hafi með höndum eftirlit með greiðslu gjaldsins.
Árið 2008 var innflutningur fljótandi eldsneytis til landsins eftirfarandi og er miðað við að notkunin árið 2010 verði álíka fyrir utan það að nokkuð hefur dregið úr gasolíunotkun:
Tonn | Lítrar í millj. | Kolefnisgjald, kr. | Tekjur, m.kr. | |
Bensín | 151.949 | 201,0 | 2,60 | 523 |
Gasolía | 356.245 | 421,1 | 2,90 | 1.221 |
Brennsluolía | 94.174 | 109,5 | 3,10 | 339 |
Þotueldsneyti | 146.569 | 183,2 | 2,70 | 495 |
Flugvélabensín | 432 | 0,5 | 2,70 | 1 |
Samtals | 749.369 | 915 | 2.579 |
Miðað við þær forsendur er því áætlað að kolefnisgjald komi til með að skila rúmlega 2,5 milljörðum kr. í ríkissjóð árlega. Reiknað er með að skattlagningin hafi 0,07% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs.
I. kafli frumvarpsins er fyrsti liður í áætlun stjórnvalda um samræmingu í skattlagningu ökutækja og eldsneytis með það markmið að leiðarljósi að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minni losunar gróðurhúsalofttegunda og aukinnar notkunar á innlendum orkugjöfum. Með frumvarpi því sem hér er lagt fram er fyrsta hluta þessarar áætlunar hrint í framkvæmd.
Stefnt er að því að næsta skref stjórnvalda verði í formi frumvarps til laga um breytingar á lögum um vörugjald af ökutækjum og eldsneyti og bifreiðagjald, þar sem lagt verður til að skattlagning ökutækja verði byggð á losun á koltvísýringi. Jafnframt eru til skoðunar frekari breytingar á skattlagningu umferðar almennt í þá veru að meira tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða.
Í II. kafla frumvarpsins er lagt til að sérstakur skattur verði lagður á sölu á raforku og heitu vatni á síðasta stigi viðskipta, þ.e. til endanlegs notanda. Lagt er til að skatturinn nemi 0,12 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku og 2% af smásöluverði á heitu vatni. Sá aðili sem selur raforkuna eða heita vatnið til endanlegs notanda yrði sá aðili sem innheimtir skattinn og skilar honum í ríkissjóð. Sömu aðilar skila í dag virðisaukaskatti til ríkissjóðs vegna sölu á raforku og heitu vatni og mundu í þessu sambandi gilda sams konar sjónarmið í framkvæmd og gilda um virðisaukaskatt.
Lagt er til að ríkisskattstjóri hafi eftirlit með því að hinir skattskyldu aðilar innheimti og skili skatti af þeirri raforku og heitu vatni sem þeir selja eða nota, með sama hætti og kveðið er á um í lögum um virðisaukaskatt.
Jafnframt er lagt til að skattskyldan nái einnig til aðila sem annast framleiðslu sína á raforku og heitu vatni sjálfir. Þeir eru í flestum tilvikum í virðisaukaskattsskyldri starfsemi og mundi eftirlit í framkvæmd fara fram með sama hætti og á við um eftirlit með skilum á virðisaukaskatti. Að sama skapi nær skattskyldan til eigin nota á raforku og heitu vatni hinna skattskyldu aðila að því gefnu að sama raforkan eða sama heita vatnið sé ekki tvískattað.
Lagt er til að skattur verði ekki lagður á afhendingu á raforku eða heitu vatni þegar rafmagnið eða heita vatnið er selt öðrum skattskyldum aðila eða þegar heitt vatn eða raforka er afhent eða notað eingöngu til framleiðslu á heitu vatni eða raforku. Þessum ákvæðum er ætlað að koma í veg fyrir tvísköttun.
Áætlað er að tekjur ríkissjóðs af skatti á raforku komi til með að nema tæpum 2 milljörðum kr. árlega sem skiptist á notendur sem hér segir:
m. kr. | |
Heimili | 85 |
Stóriðja | 1.600 |
Landbúnaður og sjávarútvegur | 15 |
Iðnaður, þjónusta o.fl. | 185 |
Samtals: | 1.885 |
Skattur af heitu vatni er talinn skila tæpum 200 millj. kr. á ári, en nánari skipting hans á notendur liggur ekki fyrir. Reiknað er með að umræddur skattur af raforku og heitu vatni hafi 0,04% áhrif til hækkunar á vísitölu neysluverðs.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Samkvæmt greininni er tekinn upp nýr skattur á fljótandi jarðefnaeldsneyti, kolefnisgjald, sem leggst á dísilolíu, bensín, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu (svartolíu) við innflutning. Er gjaldið lagt jafnt á litaða sem ólitaða dísilolíu. Greinin kveður á um að fjárhæð kolefnisgjaldsins skuli vera 2,90 kr. á hvern lítra af olíu, 2,60 kr. á hvern lítra af bensíni, 2,70 kr. á hvern lítra af flugvéla- og þotueldsneyti og 3,10 kr. á hvern lítra af brennsluolíu (svartolíu).
Um 2. gr.
Með greininni er kveðið á um hverjir séu gjaldskyldir aðilar í skilningi laganna. Er greinin efnislega samhljóða 18. gr. laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.
Með greininni er jafnframt lagt til að gjaldskyldum aðilum beri að standa skil á kolefnisgjaldi við tollafgreiðslu ef um innflutning er að ræða en við afhendingu ef um innlenda framleiðslu eða aðvinnslu er að ræða.
Um 3. gr.
Með greininni er lagt til tollstjóri annist álagningu, innheimtu og eftirlit með greiðslu kolefnisgjalds. Auk þess er kveðið á um að gjaldið myndi stofn til virðisaukaskatts.
Um 4. gr.
Með greininni er lagt til að ákvæði tollalaga, nr. 88/2005, og laga nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., að því er varðar gjaldskyldu, álagningu, úrskurð um flokkun til gjaldskyldu, eftirlit, innheimtu, vörslusviptingu, uppboð, sektir, viðurlög, refsingar og aðrar framkvæmdir varðandi kolefnisgjald gildi að svo miklu leyti sem ekki er kveðið á um þessi atriði í lögunum og eftir því sem við getur átt.
Jafnframt er ráðherra með greininni veitt heimild til að setja nánari fyrirmæli varðandi framkvæmd laganna í reglugerð.
Um 5. gr.
Með greininni er kveðið á um skyldu til greiðslu skatts af seldri raforku og heitu vatni. Lagt er til að skatturinn verði 0,12 kr. á hverja kílóvattstund af seldri raforku og 2,0% af tekjum vegna sölu á heitu vatni. Jafnframt er það lagt til að heimilt verði að miða innheimtu við áætlaða notkun notenda á raforku eða heitu vatni þar sem álestur af raforku- og heitavatnsmælum fer að jafnaði ekki fram nema einu sinni á ári.
Um 6. gr.
Með greininni er kveðið á um það hverjir séu skattskyldir aðilar í skilningi laganna. Samkvæmt greininni eru það allir þeir sem selja raforku og heitt vatn til notenda. Skatturinn leggst því ekki á sölu á raforku eða heitu vatni á milli framleiðanda eða dreifingaraðila eða á þá raforku sem tapast við flutning eða dreifingu heldur eingöngu á sölu til þess sem notar rafmagnið eða heita vatnið. Jafnframt er lagt til að skatturinn leggist á eigin notkun þeirra aðila sem selja eða framleiða rafmagn eða heitt vatn.
Auk þess er með greininni lagt til að ríkisskattstjóri haldi skrá yfir skattskylda aðila.
Um 7. gr.
Í greininni er kveðið á um í hvaða tilvikum sala eða afhending á raforku eða heitu vatni er undanþegin skattlagningunni. Er þar annars vegar um að ræða afhendingu til annars gjaldskylds aðila og hins vegar afhendingu eða eigin notkun til framleiðslu á heitu vatni eða raforku til endursölu. Jafnframt er með greininni kveðið á um reglugerðarheimild fyrir ráðherra til að kveða á um skilyrði og framkvæmd vegna undanþágu frá greiðslu skattsins.
Um 8. gr.
Í greininni er kveðið á um upplýsingar sem þurfa að koma fram á reikningum vegna sölu eða afhendingar á rafmagni eða heitu vatni. Er meðal annars kveðið á um að koma þurfi fram hvort skattur sé lagður á eður ei. Að öðru leyti gilda ákvæði VIII. kafla laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, um tilhögun bókhalds eftir því sem við getur átt, sbr. 12. gr.
Um 9. gr.
Samkvæmt greininni annast ríkisskattstjóri álagningu skatts af raforku og heitu vatni.
Um 10. gr.
Með greininni er lagt til að skattur af rafmagni og heitu vatni greiðist fyrir hvert uppgjörstímabil, sbr. 11. gr. Jafnframt er með greininni lagt til að skattskyldir aðilar geti dregið frá skilum sínum fjárhæð sem nemur sannanlega töpuðum útistandandi kröfum eða ofgreiddum skatti á raforku og heitt vatn sem áður hefur verið skilað í ríkissjóð. Er þetta gert til þess að tryggja að skattskyldir aðilar sitji ekki uppi með ábyrgð á greiðslu skattsins þrátt fyrir að hann hafi aldrei fengist innheimtur eða hafi hann verið áætlaður um of.
Um 11. gr.
Með greininni er kveðið á um að uppgjörstímabil skatts á heitt vatn og raforku sé tveir mánuðir. Er lagt til að sömu uppgjörstímabil og gjalddagar gildi um skil á skatti af raforku og heitu vatni og gilda um skil á virðisaukaskatti. Að öðru leyti gildir IX. kafli laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, um uppgjörstímabil, sbr. 12. gr.
Um 12. gr.
Með greininni er lagt til að ákvæði laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, að því er varðar álagningu, tilhögun bókhalds, eftirlit, upplýsingaskyldu, viðurlög, kærur og aðra framkvæmd gildi um skattlagningu samkvæmt lögum þessum, að svo miklu leyti sem ekki er um þessi atriði kveðið í lögunum og eftir því sem við getur átt.
Um 13. gr.
Greinin þarfnast ekki skýringa.
Fylgiskjal.
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
Umsögn um frumvarp til laga um umhverfis- og auðlindaskatta.
Í fyrsta kafla frumvarpsins er lagt til að sérstakt kolefnisgjald verði lagt á fljótandi jarðefnaeldsneyti, þ.e. bensín, dísilolíu, flugvéla- og þotueldsneyti og brennsluolíu. Kemur hið nýja gjald sem sjálfstæð viðbót við þau vörugjöld sem fyrir eru. Gert er ráð fyrir að fjárhæð kolefnisgjalds verði 2,90 kr. á hvern lítra dísilolíu, 2,60 kr. á hvern lítra af bensíni, 2,70 kr. á hvern lítra flugvéla- og þotueldsneytis og 3,10 kr. á hvern lítra svartolíu. Lagt er til að gjaldið verði innheimt við tollafgreiðslu og er gert ráð fyrir að á ársgrundvelli skili það rúmlega 2,5 milljörðum kr. til ríkissjóðs.
Í öðrum kafla frumvarpsins er lagt til að lagður verði á sérstakur skattur á sölu á raforku og heitu vatni. Skatturinn verði lagður á við sölu eða afhendingu á raforku eða heitu vatni til endanlegra notenda, þ.e. á síðasta stigi viðskipta. Fjárhæð skattsins á raforku verði 0,12 kr. á hverja kílóvattstund og fjárhæð skatts á heitt vatn verði 2% af smásöluverði. Þeir aðilar sem afhenda raforku eða heitt vatn til endanlegs notanda innheimta skattinn og skila í ríkissjóð. Lagt er til að ríkisskattstjóri hafi eftirlit með því að hinir skattskyldu aðilar innheimti og skili skatti af þeirri raforku og heitu vatni sem þeir afhenda með sama hætti og kveðið er á um í lögum um virðisaukaskatt og olíugjald. Gert er ráð fyrir að skattskylda þessi nái einnig til aðila sem annast framleiðslu sína á raforku eða heitu vatni sjálfir. Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af sérstökum skatti á raforku og heitt vatn verði um 2,2 milljarðar kr. á ársgrundvelli, þar af 2 milljarðar kr. vegna raforku og 200 m.kr. vegna heits vatns.
Vegna álagningar kolefnisgjalds má gera ráð fyrir að nokkur aukinn kostnaður verði til hjá tollstjóra vegna aðlögunar á tölvukerfum, auk auglýsinga- og kynningarefnis. Áætlað hefur verið að einskiptis stofnkostnaður vegna þessa gæti verið allt að 5 m.kr. Gert er ráð fyrir að ríkisskattstjóri annist álagningu skatts á raforku og heitt vatn. Álagning og innheimta verður með svipuðum hætti og á við um eftirlit með virðisaukaskatti. Í umsögn um frumvarp til laga um breytingu á virðisaukaskattskerfinu var gert ráð fyrir að aukinn kostnaður vegna breytinga á tölvukerfum yrði allt að 10 m.kr. og er get ráð fyrir að breytingar á tölvukerfum vegna skattlagningar á raforku og heitt vatn verði unnar samhliða og kostnaður við þær rúmist innan þeirrar fjárveitingar.