Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 258. máls.

Þskj. 294  —  258. mál.Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki,
nr. 161/2002, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
1. gr.

    Við 4. mgr. 103. gr. laganna bætist: en þó þannig að frestur til að höfða riftunarmál skv. 1. mgr. 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. skal vera 24 mánuðir í stað sex mánaða.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á XII. kafla laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem lýtur að lengingu frests til að höfða mál til riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækja sem eru í slitameðferð. Byggist frumvarp þetta m.a. á sameiginlegri ábendingu slitastjórna Glitnis banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Kaupþings banka hf.
    Í 4. mgr. 103. gr. núgildandi laga um fjármálafyrirtæki kemur fram að krefjast megi riftunar á ráðstöfunum fjármálafyrirtækis eftir sömu reglum og gilda um riftun ráðstafana þrotamanns við gjaldþrotaskipti ef ekki er sýnt að eignir fjármálafyrirtækis muni nægja til að efna skuldbindingar þess að fullu. Þær reglur sem vísað er til að gildi um riftun ráðstafana er að finna í XX. kafla laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, m.a. í 148. gr. laganna. Skv. 148. gr. gjaldþrotaskiptalaga er frestur til að höfða dómsmál til að koma fram riftun á ráðstöfunum þrotamanns sex mánuðir frá lokum kröfulýsingarfrests.
    Í frumvarpinu er lagt til að frestur til að höfða riftunarmál vegna gerninga fjármálafyrirtækja verði lengdur í 24 mánuði. Er því lagt til að við núverandi 4. mgr. 103. gr. laganna bætist að frestur til að höfða riftunarmál skv. 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 skuli vera 24 mánuðir í stað sex mánaða. Þau sjónarmið sem búa að baki lengd tímafrests í gjaldþrotaskiptalögum eiga ekki að öllu leyti við í slitameðferð fjármálafyrirtækja. Rannsókn og undirbúningur vegna riftunarmála við slitameðferð fjármálafyrirtækja getur verið gríðarlega umfangsmikill og því óraunhæft að slitastjórnir hafi svigrúm til að rannsaka öll gögn og höfða dómsmál innan sex mánaða frestsins.
    Ákvæði XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki um slit fjármálafyrirtækja byggjast á því að jafnræðis kröfuhafa sé gætt við slit fjármálafyrirtækja og lýtur sú breyting sem nú er lögð til að því sama markmiði. Heimildir laga um riftun gerninga hafa það að markmiði að gæta jafnræðis kröfuhafa, þ.e. að einstakir kröfuhafar séu ekki betur settir en aðrir vegna ráðstafana fjármálafyrirtækis áður en slitameðferð hófst. Í ljósi umfangs margra fjármálafyrirtækja, m.a. þeirra sem nú eru í slitameðferð, má telja víst að verði frestur til að koma fram málshöfðun til riftunar á gerningum ekki lengdur séu miklar líkur á að markmið um jafnræði kröfuhafa fari forgörðum.
    Samkvæmt XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki gilda ýmis sérákvæði um slit fjármálafyrirtækja enda eiga ekki alltaf sömu sjónarmið við um slit fjármálafyrirtækja og annarra fyrirtækja, sbr. 2. mgr. 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki.Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að frestur gjaldþrotalaga til að höfða mál til að rifta gjörningum verði lengdur úr 6 mánuðum í 24 mánuði. Breytingin er gerð með það að markmiði að slitastjórnirnar geti náð að gæta hagsmuna búa bankanna með sem bestum hætti.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.