Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 272. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 313  —  272. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um breytingu á grunni vísitölu neysluverðs hjá Hagstofu Íslands.

Flm.: Ólafur Þór Gunnarsson, Þuríður Backman.



    Alþingi ályktar að fela efnahags- og viðskiptaráðherra að tryggja að áfengi og tóbak séu ekki hluti af grunni vísitölu neysluverðs hjá Hagstofu Íslands.

Greinargerð.


    Í tillögu þessari er lagt til að efnahags- og viðskiptaráðherra verði gert að tryggja að áfengi og tóbak séu ekki með í grunni vísitölu neysluverðs sem Hagstofa ákveður skv. 1. mgr. 1. gr. laga um vísitölu neysluverðs, nr. 12/1995.
    Hagstofa Íslands er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir efnahags- og viðskiptaráðherra, sbr. 1. gr. laga nr. 163/2007, um Hagstofu Íslands og opinbera skýrslugerð. Skal hún m.a. reikna og birta vísitölu sem sýnir breytingar á verðlagi tiltekinna þátta í heimilisútgjöldum. Vísitalan er reist á sérstökum grunni sem Hagstofan ákveður samkvæmt niðurstöðum neyslukönnunar, sbr. 1. gr. laga um vísitölu neysluverðs. Vísitala neysluverðs mælir fyrst og fremst verðbólgu og er notuð til verðtryggingar samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, með síðari breytingum. Þannig leiðir hækkun á vörum sem tilheyra grunni Hagstofunnar til aukinnar verðbólgu og hækkunar á verðtryggðum lánum.
    Áfengi og tóbak eru hluti af grunni Hagstofunnar sem vísitala neysluverðs byggist á og hækkun á verði þeirra hefur bein áhrif til hækkunar á vísitölunni. Á nýliðnu hausti var mikil umræða um skaðsemi tóbaks og kostnað þess fyrir íslenska heilbrigðiskerfið. Þrátt fyrir að íslenska ríki hafi tekjur af sölu áfengis og tóbaks hefur það töluvert meiri kostnað af afleiðingum neyslu þessara efna, sér í lagi tóbaks. Tóbaksreykingar eru valdar að stórum hluta dauðsfalla úr hjarta- og lungnasjúkdómum ásamt krabbameini. Ein helsta forvörn gegn notkun áfengis og tóbaks er takmörkun á aðgengi að þessum vörum og hækkun á verði þeirra. Aftur á móti er ein helsta hindrunin fyrir að hækka verð þessara ávanaefna og vímugjafa sú að hvort tveggja er tekið með í grunn Hagstofunnar fyrir útreikning á vísitölu neysluverðs.     Brýnt er að Alþingi taki ákvörðun um að áfengi og tóbak verði tekið út úr grunni vísitölunnar. Sé það gert og verð á þessum vörum hækkað mundi það sporna við neyslu þeirra og draga úr þeim heilbrigðisvanda sem henni fylgir. Þannig væri skref stigið í þá átt að lágmarka samfélagslegan skaða og kostnað af notkun þessara efna. Grundvallarforsenda fyrir umtalsverðri hækkun á verði áfengis og tóbaks er að taka þessar vörur út úr grunni Hagstofunnar. Hækkun á verði þeirra hefði þá ekki bein áhrif á verðbólgu og fjárhagsskuldbindingar einstaklinga í landinu eins og það gerir nú, hvort sem viðkomandi einstaklingar neyta þessara vara eða ekki. Það eru því rík heilbrigðis- og sanngirnisrök fyrir því að taka áfengi og tóbak út úr grunni Hagstofu Íslands fyrir vísitölu neysluverðs.