Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.

Þskj. 314  —  273. mál.


Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                 Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.
     b.      Á eftir orðunum „hlutaðeigandi lífeyrissjóðir“ í 4. mgr. kemur: Fangelsismálastofnun.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.
                 Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, um nánari framkvæmd ákvæðisins, þar á meðal um rafrænar umsóknir, svo sem hvernig standa skuli að undirskrift rafrænnar umsóknar og skilum á öðrum gögnum sem fylgja skulu rafrænni umsókn, sem og nánar um fyrirkomulag þess hvernig umsækjendur skulu hafa reglulegt samband við stofnunina.

2. gr.

    Á eftir 4. mgr. 11. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta eru aðfararhæfir.

3. gr.

    Við 4. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, sbr. 6. mgr. 39. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      C-liður 1. mgr. orðast svo: er búsettur og staddur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Vinnumálastofnun er heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum. Skal hinn tryggði þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

5. gr.

    Á eftir 4. mgr. 14. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      C-liður 1. mgr. orðast svo: er búsettur og staddur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Vinnumálastofnun er heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum. Skal hinn tryggði þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Í stað „36“ í 1. mgr. kemur: 72.
     b.      Í stað „48“ í 3. mgr. kemur: 84.
     c.      Í stað „36“ í 4. mgr. kemur: 72.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 1. mgr. kemur: hálfan mánuð.
     b.      5. mgr. fellur brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „4.431 kr. á dag.“ í 2. mgr. kemur: 149.523 kr. á mánuði.
     b.      1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Vinnumálastofnun er heimilt að ráðstafa grunnatvinnuleysisbótum hins tryggða til vinnumarkaðsaðgerða fyrir hlutaðeigandi enda sé það tryggt að hinn tryggði njóti hærri launa meðan þátttaka hans í vinnumarkaðsaðgerð stendur yfir. Frestast þá greiðsla tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 32. gr. eftir því sem við á.

10. gr.

    Við 35. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Vinnumálastofnun er heimilt að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta sem hinum tryggða hefur áður verið ákvörðuð í allt að einn mánuð frá því að greiðsluna átti að inna af hendi þegar stofnunin hefur rökstuddan grun um að hinn tryggði uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þegar slíkur grunur vaknar skal Vinnumálastofnun án ástæðulauss dráttar og að lágmarki fimm virkum dögum fyrir næsta greiðsludag atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr tilkynna hlutaðeigandi með sannanlegum hætti að fyrirhugað sé að halda eftir greiðslu. Skal stofnunin jafnframt hefja athugun á málinu þegar í stað skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og veita hlutaðeigandi andmælarétt skv. 13. gr. sömu laga. Ákvæði stjórnsýslulaga gilda að öðru leyti um málsmeðferðina.
    Komist Vinnumálastofnun að því eftir að hafa upplýst málið nægjanlega að hinn tryggði hafi átt rétt á þeirri greiðslu, að hluta eða öllu leyti, sem haldið var eftir skv. 2. mgr. ber stofnuninni að greiða þá fjárhæð í síðasta lagi næsta greiðsludag skv. 1. mgr. ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

11. gr.

    Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a., svohljóðandi:
    Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað „2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: 4. mgr.
     b.      Í stað orðanna „og fjármagnstekjur hins tryggða“ í 1. mgr. kemur: greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum.
     c.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                 Umönnunargreiðslur sem ætlaðar eru til að mæta útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barns, styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki eru ætlaðir til framfærslu hins tryggða og styrkir úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem hinn tryggði fær til þróunar eigin viðskiptahugmyndar skulu ekki koma til frádráttar greiðslum samkvæmt lögum þessum. Þegar um er að ræða aðrar áður ótaldar greiðslur sem ekki eru ætlaðar til framfærslu hins tryggða skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort þær skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 1. mgr.
                 Þegar hinn tryggði fær greiðslur frá sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru til komnar vegna óvinnufærni að hluta, sbr. 1. mgr., skal hinn tryggði jafnframt leggja fram vottorð til Vinnumálastofnunar um vinnufærni sína ásamt staðfestingu frá sjúkrasjóði stéttarfélags um hversu mikla óvinnufærni verið er að bæta en að öðrum kosti gildir 1. mgr. 51. gr. um þær greiðslur.

13. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 39. gr. laganna:
     a.      Í stað „15%“ í 2. mgr. kemur: 30%.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. eru aðfararhæfar, sbr. þó 4. mgr. 12. gr.

14. gr.

    Í stað orðanna „þrjá mánuði“ í 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: síðasta mánuðinn.

15. gr.

    1. mgr. 51. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

16. gr.

    Í stað 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „40 dögum“ í 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: einn mánuð.
     c.      Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Vari starfið í skemmri tíma heldur biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „40 dögum“ í 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: einn mánuð.
     c.      Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Vari starfið í skemmri tíma heldur biðtíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Í stað 1.–3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Sá sem áður hefur sætt biðtíma skv. 54. eða 55. gr. eða viðurlögum skv. 57.–59. gr. og sækir að nýju um atvinnuleysisbætur eftir að hafa verið í starfi í skemmri tíma en 24 mánuði og hefur sagt upp því starfi sem hann gegndi síðast án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Hið sama á við um þann sem hefur misst starfið af ástæðum sem hann á sjálfur sök á eða hætt námi án gildra ástæðna.
     b.      Í stað „3. mgr.“ í 4. mgr., sem verður 2. mgr., kemur: 1. mgr.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „40 dögum“ í 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: einn mánuð.
     c.      Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Vari starfið í skemmri tíma heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 58. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „40 dögum“ í 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.
     c.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: einn mánuð.
     d.      Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Vari starfið í skemmri tíma heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                 Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                 Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á viðurlagatímanum skv. 1. mgr. Veiti hann Vinnumálastofnun ekki nauðsynlegar upplýsingar á þeim tíma eða tilkynni um breytingar á högum getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr.
     c.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: einn mánuð.
     d.      Lokamálsliður 3. mgr. orðast svo: Vari starfið í skemmri tíma heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur.
     e.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Látið hjá líða að veita upplýsingar eða látið hjá líða að tilkynna um breytingar á högum.

23. gr.

    60. gr. laganna orðast svo:
    Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
     a.      Í stað 1.–3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Sá sem áður hefur sætt viðurlögum skv. 57.–59. gr. eða biðtíma skv. 54 eða 55. gr. og eitthvert þeirra tilvika sem þar greinir á sér stað að nýju á sama tímabili skv. 29. gr. skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en hann hefur starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði.
     b.      Í stað „3. mgr.“ í 4. mgr., sem verður 2. mgr., kemur: 1. mgr.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum:
     a.      Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. og 22. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall verið lækkað um 20% hið minnsta og hinn tryggði haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli. Þessi tímabundna breyting á ráðningarsamningi skal vara í þrjá mánuði í senn.
     b.      Í stað „2. mgr. 36. gr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 4. mgr. 36. gr.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þrátt fyrir 2. mgr. skulu laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. samanlagt aldrei nema hærri fjárhæð en 521.318 kr. á mánuði.
     d.      Á eftir orðunum „að hluta vegna“ í 3. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: tímabundins.
     e.      Á eftir 4. mgr., sem verður 5. mgr., kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Þeir sem þegar fá greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu skulu uppfylla skilyrði ákvæðisins frá 1. janúar 2010.
     f.      Í stað orðanna „31. desember 2009“ í 5. mgr., sem verður 7. mgr., kemur: 30. júní 2010.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                 Sjálfstætt starfandi einstaklingur á rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis þessa samfellt í allt að þrjá mánuði. Þeir sem þegar hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu frá 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 eiga rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
     b.      Í stað orðanna „31. desember 2009“ í 4. mgr., sem verður 5. mgr., kemur: 30. júní 2010.

27. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     a.      (VIII.)
                 Þrátt fyrir 1. mgr. 36. gr. skulu elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr séreignarsjóðum samtals að fjárhæð 1.000.000 kr. sem hafa verið eða verða teknar út á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010 ekki koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Skilyrði er að fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, í níu mánuði frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila.
     b.      (IX.)
                 Ákvæði 25. gr. skal gilda um þá sem töldust tryggðir samkvæmt lögum þessum en hættu þátttöku á vinnumarkaði til að stunda nám eftir 1. júlí 2006.

II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum.
28. gr.

    Við 1. mgr. 21. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarstjórn er heimilt að setja reglur sem binda fjárhagsaðstoð viðkomandi sveitarfélags skilyrðum, svo sem um virkni, virka atvinnuleit eða þátttöku þeirra sem fá fjárhagsaðstoð í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum.

III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.
29. gr.

    Á eftir 2. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Úrskurðir nefndarinnar um endurkröfu ofgreiddra greiðslna samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfir.

30. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 6. mgr. 15. gr. a laganna.

31. gr.

    Við 15. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 2. mgr. eru aðfararhæfar.

IV. KAFLI
Gildistaka
32. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta felur í sér ákveðnar breytingar innan atvinnuleysistryggingakerfisins sem lagðar eru til í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur við framkvæmd kerfisins frá því að atvinnuleysi jókst mjög hratt á síðari hluta ársins 2008 og fyrri hluta árs 2009. Áður hafði lítið reynt á atvinnuleysistryggingakerfið frá þeim tíma er því var breytt sumarið 2006 fram til haustsins 2008 enda var skráð atvinnuleysi mjög lítið hér á landi á því tímabili. Skráð atvinnuleysi náði ákveðnu hámarki í apríl 2009 er það mældist 9,1% en tók aftur að minnka þegar leið á sumarið og fram á haust. Í október 2009 jókst atvinnuleysi hins vegar aftur um 4,4% að meðaltali frá september og mældist 7,6% sem svarar til þess að 12.682 manns hafi verið að meðaltali án atvinnu þann mánuð. Er gert ráð fyrir að atvinnuleysi komi til með að aukast eitthvað áfram fram til febrúar 2010.
    Frumvarpinu er meðal annars ætlað að koma á meiri festu við framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins svo koma megi í veg fyrir ætlaða misnotkun. Þar á meðal er ætlunin með auknu eftirliti og strangari viðurlögum að letja atvinnuleitendur til að freistast til að hagræða aðstæðum sem leiða til þess að þeir teljist tryggðir í hærra hlutfalli en ella eða láti hjá líða að veita upplýsingar sem kunna að hafa áhrif á tryggingarhlutfall þeirra til lækkunar í því skyni að fá tímabundið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en þeim réttilega ber. Standa vonir til þess að útgjöld vegna atvinnuleysisbóta kunni að dragast saman í kjölfarið. Skapast þá svigrúm til að nýta þá fjármuni í virkar vinnumarkaðsaðgerðir og aukna ráðgjöf Vinnumálastofnunar við þá sem sannanlega þurfa á þjónustu hennar að halda í atvinnuleit sinni.
    Í frumvarpinu er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða V við lögin um heimildir til að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli launamanna verði framlengdur til 30. júní 2010. Þykir þessi heimild hafa sýnt ágæti sitt sem vinnumarkaðsúrræði þar sem starfsmenn eru áfram virkir á vinnumarkaði í að minnsta kosti 50% starfshlutfalli í stað þess ef til vill að missa vinnu sína að fullu. Í lok október 2009 fengu 1.577 einstaklingar greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu. Fleiri konur en karlar fengu greiddar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæðinu eða samtals 915 en 661 karl. Sú breyting er lögð til að starf hlutaðeigandi þurfi að skerðast að lágmarki um 20% í stað 10% en þá er verið að mæta nokkurri skerðingu á starfshlutfalli. Enn fremur er lagt til að samanlagðar tekjur fyrir hlutastarfið og atvinnuleysisbætur geti ekki verið hærri en 521.318 kr. á mánuði. Þá er lagt til að þessi tímabundna breyting á ráðningarsamningi skuli vara í þrjá mánuði í senn. Þessum breytingum er ætlað að tryggja betri framkvæmd þessa ákvæðis, meðal annars í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun.
    Enn fremur er lagt til að gildistími ákvæðis til bráðabirgða VI er gildir um réttindi sjálfstætt starfandi einstaklinga verði framlengdur til jafnlangs tíma eða til 30. júní 2010. Engu síður er eingöngu gert ráð fyrir að hver og einn sjálfstætt starfandi einstaklingur geti nýtt sér þetta úrræði í allt að þrjá mánuði. Sá tími þykir hæfilegur svo að sjálfstætt starfandi einstaklingur geti brugðist við tímabundnum samdrætti í rekstrinum og geti þá nýtt tímann til frekari ráðstafana, svo sem að kanna hvort rekstrarforsendur séu brostnar. Ástæður þessara breytinga eru einkum þær að erfiðlega hefur reynst í framkvæmd að meta samdrátt í rekstri sjálfstætt starfandi einstaklinga. Þar af leiðandi hefur ákvæðið verið til þess fallið að stuðla að ákveðinni misnotkun innan kerfisins. Í október var 821 sjálfstætt starfandi einstaklingur skráður á atvinnuleysisskrá vegna samdráttar í rekstri en þeir einstaklingar sem þegar hafa nýtt sér þetta ákvæði geta fengið áfram greiddar atvinnuleysisbætur í allt að tvo mánuði. Mun fleiri karlar en konur nýttu sér þessa heimild laganna í október 2009 eða 652 á móti 169 konum.
    Sú breyting er lögð til með frumvarpi þessu að námsmenn geta ekki talist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins enda þykir það ekki samrýmast markmiðum laganna. Innan kerfisins eru gerðar mjög ríkar kröfur til atvinnuleitenda um að þeir séu í virkri atvinnuleit og í því felst meðal annars að þeir séu reiðubúnir að taka starfi hvar sem er á landinu án sérstaks fyrirvara. Sú staðreynd hversu námsleyfi vara í tiltölulega skamman tíma hefur takmarkað getu námsmanna til að vera í virkri atvinnuleit enda eingöngu tímabundin störf sem koma til álita. Hins vegar er lagt til að komið verði betur til móts við námsmenn sem aftur vilja verða virkir þátttakendur á vinnumarkaði að námi loknu enda hafi þeir verið þátttakendur á vinnumarkaði áður en þeir hófu nám og þá talist tryggðir samkvæmt lögunum. Er því lagt til að sá tími sem námsmenn geti geymt bótarétt sinn samkvæmt lögunum verði lengdur úr 36 mánuðum í 72 mánuði. Hefur þetta þau áhrif að námsmenn sem hafa lokið allt að sex ára námi og fá ekki störf eftir útskrift geta talist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins á grundvelli þess vinnuframlags sem þeir lögðu fram áður en þeir hófu námið.
    Ljóst er að atvinnuleysistryggingakerfið er orðið nokkuð umfangsmikið og þykir því mikilvægt að skyldur þeirra sem eru tryggðir samkvæmt lögunum gagnvart Vinnumálastofnun verði gerðar skýrari. Meðal annars er lagt til að skýrar verði kveðið á um að þeir sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum skulu hafa reglulegt samband við stofnunina eftir að umsóknir þeirra um atvinnuleysisbætur hafa verið samþykktar. Megintilgangur þessa er að minna atvinnuleitendur á mikilvægi þess að vera í virkri atvinnuleit og ekki síst er þessu fyrirkomulagi ætlað að gera Vinnumálastofnun betur kleift að grípa inn í með auknum stuðningi í tíma áður en í óefni er komið þar sem reynslan sýnir að oft eykst þörf á ýmiss konar stuðningi við atvinnuleitendur þegar atvinnuleitin dregst á langinn. Enn fremur er gert ráð fyrir að lögð verði sú skylda á hina tryggðu að tilkynna til Vinnumálastofnunar með eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem þeir taka á þeim tíma er þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur eða sæta biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Þó er lagt til að heimilt verði að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu þegar um er að ræða tilvik sem eru þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að sjá hina tilfallandi vinnu fyrir fyrr. Er þetta mikilvægur liður í því að sporna gegn því að fólk sé virkt á vinnumarkaði á sama tíma og það fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að gera Vinnumálastofnun sem og jafnvel öðrum viðeigandi stjórnvöldum viðvart um þá vinnu. Jafnframt er lagt til að Vinnumálastofnun verði veittar frekari heimildir til eftirlits með að þeir sem fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum uppfylli skilyrði laganna á sama tíma. Er lagt til að Vinnumálastofnun verði heimilt að boða þá sem eru tryggðir samkvæmt lögunum til stofnunarinnar með sannanlegum hætti með mjög skömmum fyrirvara. Tilgangur þessa er að kanna hvort þeir sem skráðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins uppfylli enn skilyrði laganna til að teljast tryggðir sem og hvort breytingar hafi orðið á högum þeirra sem kunni að hafa áhrif á rétt þeirra samkvæmt lögunum.
    Enn fremur eru lagðar til breytingar á lögunum sem ætlaðar eru að auðvelda Vinnumálastofnun að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Er meðal annars gert ráð fyrir að ákvarðanir stofnunarinnar og úrskurðir úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði aðfararhæf. Er þessu fyrirkomulagi ætlað að einfalda mjög innheimtuferlið. Sá varnagli er reyndar sleginn að verði ákvörðun Vinnumálastofnunar kærð til úrskurðarnefndarinnar frestar stjórnsýslukæran aðför enda sætir þá ákvörðunin endurskoðun innan stjórnsýslunnar og telst því ekki endanleg stjórnvaldsákvörðun. Vinnumálastofnun er jafnframt veitt heimild til að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta í allt að einn mánuð í þeim tilvikum er stofnunin hefur rökstuddan grun um að hlutaðeigandi uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Tilgangur þessarar heimildar er aðallega að koma í veg fyrir að stofnunin greiði út atvinnuleysisbætur þegar hún hefur gögn undir höndum sem benda til að hlutaðeigandi eigi ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögunum en með því má komast hjá endurgreiðslu síðar. Vinnumálastofnun eru settar þröngar skorður við framkvæmd þessarar heimildar og einnig er henni gert að greiða hinum tryggða vexti af fjárhæðinni sem haldið var eftir þegar athugun stofnunarinnar leiðir í ljós að hann hafi átt rétt á henni að hluta eða öllu leyti.
    Þá eru lögð til strangari ákvæði um biðtíma og viðurlög þegar þeir sem teljast tryggðir samkvæmt lögunum hafa sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna, átt sjálfir sök á að hafa misst starf sitt, hætt námi án gildra ástæðna, hafnað starfi eða atvinnuviðtali eða hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Ekki eru lagðar til efnisbreytingar á biðtíma eða viðurlögum við fyrsta brot en þegar við annað brot verður hlutaðeigandi ekki talinn eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að hafa starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði. Sama gildir er þeir sem eru tryggðir láta hjá líða að veita upplýsingar eða tilkynna um breytingar á högum sem kunna að hafa áhrif á rétt þeirra innan kerfisins. Lagðar eru til nánari verknaðarlýsingar á því hvaða háttsemi átt er við þegar litið er svo á að atvinnuleysisbóta hafi verið aflað með sviksamlegum hætti. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að sá sem gerist uppvís að tiltekinni háttsemi eigi ekki áfram rétt innan kerfisins fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Gert er ráð fyrir að Vinnumálastofnun taki slíkar viðurlagaákvarðanir. Þetta kemur þó ekki í veg fyrir að stórfelld misnotkun innan atvinnuleysistryggingakerfisins kunni að verða kærð til lögreglu enda eigi slík brot undir ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum. Þá er lagt til að álag það sem lagt er á ofgreiddar atvinnuleysisbætur verði hækkað úr 15% í 30%. Markmið þessa er að draga úr misnotkun innan atvinnuleysistryggingakerfisins þannig að fólk fái tímabundið hærri atvinnuleysisbætur en því ber samkvæmt lögunum. Jafnframt er þessum breytingum ætlað að undirstrika mikilvægi þess að fólk sé í virkri atvinnuleit og stuðla að því að Vinnumálastofnun eigi þess betur kost að eiga gott samstarf við atvinnuleitendur. Aukast þar með jafnframt líkurnar á að betri árangur náist við að aðstoða þá sem sannanlega þurfa á virkum stuðningi stofnunarinnar að halda í atvinnuleit sinni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lögð er til breyting á 3. mgr. 9. gr. laganna þannig að skýrt sé kveðið á um að þeim sem telst tryggður á grundvelli umsóknar um atvinnuleysistryggingar beri að upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann kann að sæta biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Ástæða þessa er að hlutaðeigandi ber að uppfylla skilyrði laganna á þeim tíma á sama hátt og á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur.
    Í ljósi reynslunnar er lagt til að Fangelsismálastofnun verði gert að láta Vinnumálastofnun í té upplýsingar sem nauðsynlegar eru við framkvæmd laganna en skv. 53. gr. laganna telst sá sem hefur verið sviptur frelsi sínu með dómi ekki tryggður samkvæmt lögunum.
    Umsókn um atvinnuleysisbætur felur jafnframt í sér umsókn um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum. Atvinnuleysistryggingakerfið og skipulag Vinnumálastofnunar á vinnumarkaðsaðgerðum gera ráð fyrir að atvinnuleitendum séu boðin regluleg viðtöl við ráðgjafa Vinnumálastofnunar en tíðni slíkra viðtala fari eftir því hversu mikinn stuðning hver og einn atvinnuleitandi er talinn þurfa í atvinnuleit sinni. Slík viðtöl hafa verið talin hluti vinnumarkaðsaðgerða. Reynslan hefur sýnt að margir atvinnuleitendur hafa við upphaf atvinnuleysis síns flesta burði til að bjarga sér sjálfir um vinnu og þurfa því ekki á miklum stuðningi ráðgjafa stofnunarinnar að halda. Engu síður hefur þótt mikilvægt í framkvæmd að þeir hafi reglulegt samband við stofnunina án þess að komi til formlegra viðtala við ráðgjafa. Megintilgangur þessa er að minna atvinnuleitendur á mikilvægi þess að vera í virkri atvinnuleit og ekki síst að geta gripið inn í með auknum stuðningi í tíma áður en í óefni er komið. Ástæðan er sú að oft eykst þörf á stuðningi þegar atvinnuleysi dregst á langinn hjá viðkomandi enda reynir það mjög á flesta einstaklinga að vera án atvinnu til lengri tíma. Vinnumálastofnun hefur því talið að í mörgum tilfellum sé nægjanlegt að atvinnuleitendur tilkynni sig rafrænt til stofnunarinnar í upphafi atvinnuleitar enda þótt í öðrum tilfellum hafi þótt nauðsynlegt að atvinnuleitandi komi á skrifstofu stofnunarinnar sem næst er lögheimili viðkomandi. Þegar líður á atvinnuleitina og merki um að viðkomandi þurfi á meiri stuðningi að halda hafa gert vart við sig hefur þótt mikilvægt að sá hinn sami sem áður tilkynnti sig rafrænt til stofnunarinnar taki að mæta þangað reglulega. Þykir mikilvægt að festa framangreinda framkvæmd stofnunarinnar enn frekar í sessi innan atvinnuleysistryggingakerfisins og þannig undirstrika að eftir að umsókn hins tryggða um atvinnuleysisbætur hefur verið samþykkt ber honum skylda til að hafa samband við stofnunina með reglulegum hætti samkvæmt því fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður. Á þetta við hvort sem hinn tryggði fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum.

Um 2. gr.

    Mikilvægt þykir að einfalda innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 39. gr. laganna frá gildandi fyrirkomulagi og draga úr innheimtukostnaði sem fellur í hlut skuldara láti hann hjá líða að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Er því lagt til að úrskurðir úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði gerðir aðfararhæfir sem einfaldar innheimtuferlið skv. 4. mgr. 39. gr. laganna en samkvæmt lögum nr. 90/1989, um aðför, með síðari breytingum, er gert ráð fyrir að úrskurðir yfirvalda séu aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna. Niðurstöðu æðra stjórnvalds í kærumáli verður yfirleitt ekki hnikað innan stjórnsýslunnar og gildir það sama um niðurstöðu lægra setts stjórnvalds, sem ekki er kærð til æðra setts stjórnvalds. Er því jafnframt lagt til í 13. gr. frumvarps þessa að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. 39. gr. laganna verði einnig aðfararhæfar. Hins vegar er sá varnagli sleginn að sé ákvörðun Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta kærð til úrskurðarnefndarinnar frestar stjórnsýslukæran aðför, sbr. 3. gr. frumvarps þessa, enda sætir þá sú ákvörðun Vinnumálastofnunar endurskoðun æðra setts stjórnvalds og verður þar af leiðandi ekki talin endanleg ákvörðun innan stjórnsýslunnar.
    Engu síður er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun gæti meðalhófs við innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og sendi aðila kröfubréf þar sem hlutaðeigandi er veitt tækifæri til að endurgreiða stofnuninni áður en mál hans er sent til innheimtumanns ríkissjóðs til innheimtu.

Um 3. gr.

    Vísað er til athugasemda við 2. gr. frumvarps þessa.

Um 4. gr.

    Lagt er til að skýrar verði kveðið á um það skilyrði að atvinnuleitandi sé staddur hér á landi til að geta talist í virkri atvinnuleit og því ekki eingöngu nægjanlegt að hann teljist hér búsettur. Þetta er ekki breyting á framkvæmd laganna en þó þykir betra að undirstrika mikilvægi þess að atvinnuleitendur séu staddir hér á landi í virkri atvinnuleit og þar með reiðubúnir að taka vinnu þegar hún býðst með stuttum fyrirvara, sbr. einnig c-lið 1. mgr. 14. gr. laganna.
    Þá er áhersla lögð á að Vinnumálastofnun öðlist skýrar heimildir í lögunum til að boða atvinnuleitanda til stofnunarinnar með skömmum fyrirvara. Tilgangur þessa er liður í eftirliti innan atvinnuleysistryggingakerfisins með því hvort breytingar hafi orðið á högum hinna tryggðu sem kunna að hafa áhrif á rétt þeirra til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum. Er þá meðal annars verið að kanna hvort þeir sem tryggðir eru hafi uppfyllt tilkynningarskyldu sína á grundvelli 3. mgr. 9. gr. eða 2. mgr. 14. gr. laganna og gengið úr skugga um hvort þeir uppfylli enn skilyrði skv. 1. mgr. 13. gr. laganna sem og önnur ákvæði laganna. Gert er ráð fyrir að þessi boðun geti komið til viðbótar reglulegum samskiptum atvinnuleitanda við stofnunina sem lögð eru til í 1. gr. frumvarps þessa, sem og virkum vinnumarkaðsaðgerðum á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir. Gert er ráð fyrir að stofnunin boði atvinnuleitendur til sín með sannanlegum hætti enda lagt til að það geti leitt til missis bóta skv. XI. kafla laganna láti atvinnuleitandi hjá líða að sinna þessari boðun, sbr. 21. gr. frumvarps þessa. Með sannanlegum hætti er átt við bréf á lögheimili hlutaðeigandi. Jafnframt er gert ráð fyrir að stofnunin geti boðað atvinnuleitanda með allt að sólarhringsfyrirvara á þá skrifstofu sína sem næst er lögheimili viðkomandi enda þykir þetta mikilvægur liður í eftirliti stofnunarinnar með því að þeir sem fá greiddar atvinnuleysisbætur séu í virkri atvinnuleit.

Um 5. gr.

    Það þykir ekki samrýmast markmiðum laganna að námsmenn teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum hlutaðeigandi skóla enda er kerfinu ætlað að tryggja launamönnum og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Innan kerfisins eru gerðar mjög ríkar kröfur til atvinnuleitenda um að þeir séu í virkri atvinnuleit og í því felst meðal annars að þeir séu reiðubúnir til að taka starfi hvar sem er á landinu án sérstaks fyrirvara. Reynslan hefur sýnt að námsmenn geta ekki talist vera í virkri atvinnuleit í skilningi laga þessara í námsleyfum enda sjái þeir fram á að halda áfram námi sínu á næstu námsönn. Takmarkar það til dæmis þau störf sem unnt er að bjóða þeim enda eingöngu tímabundin störf sem koma til greina. Er því lagt til að námsmenn teljist ekki tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins í námsleyfum skóla. Dæmi um slík námsleyfi eru jólaleyfi, páskaleyfi og sumarleyfi.
    Hér er átt við þá sem hafa verið skráðir í skóla á einni námsönn og eru jafnframt skráðir í nám á næstu námsönn á eftir. Á það einnig við um þá sem eru skráðir í annan skóla á næstu námsönn en á fyrri námsönninni, svo sem þegar nemandi útskrifast úr framhaldsskóla og skráir sig í háskóla þegar á næstu námsönn. Námsmönnum sem hyggjast hætta námi án þess að ljúka námi og eru því ekki skráðir í skóla næstu námsönn á eftir þeirri sem þeir eru að ljúka er heimilt að sækja um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. laganna. Kemur það þá í hlut Vinnumálastofnunar að meta hvort hlutaðeigandi teljist tryggður samkvæmt lögunum og þá einnig hvort ákvæði 55. gr. laganna um áhrif þess á rétt viðkomandi þegar námi er hætt án gildra ástæðna eigi við.

Um 6. gr.

    Vísað er til athugasemda við 4. gr. frumvarps þessa.

Um 7. gr.

    Lagt er til að atvinnuleysistryggingar þess sem hverfur af vinnumarkaði til að stunda nám geti geymst í allt að sex ár í stað þriggja ára frá því að hlutaðeigandi hætti störfum á vinnumarkaði enda hafi hann sannanlega lokið náminu. Þykir þessi breyting eðlileg í ljósi þess að lagt er til að námsmenn eigi ekki rétt til atvinnuleysistrygginga í námsleyfum, sbr. 5. gr. frumvarps þessa. Er gert ráð fyrir að ákvæði þetta gildi um þá sem hættu störfum á vinnumarkaði og hófu nám eftir 1. júlí 2006 þegar lögin tóku gildi, sbr. b-lið 27. gr. frumvarps þessa.

Um 8. gr.

    Lagt er til að greiðslur verði ekki lengur miðaðar við fjölda virkra daga í hverjum mánuði heldur verði um að ræða mánaðargreiðslur. Ástæða þess er einkum sú að jafna greiðslur milli mánaða þannig að fjárhæð atvinnuleysistrygginga sé sú sama miðað við tryggingarhlutfall viðkomandi óháð dagafjölda í mánuði. Til að finna út atvinnuleysisbætur fyrir hvern dag skal miða við 21,67 daga í mánuði, sbr. einnig 6. mgr. 32. gr. laganna.

Um 9. gr.

    Þær breytingar sem lagðar eru til í a- og b-lið ákvæðis þessa eru í samræmi við þær breytingar sem lagðar eru til í 8. gr. frumvarpsins um að atvinnuleysisbætur verði mánaðargreiðslur í stað þess að miða við fjölda virkra daga í hverjum mánuði. Þannig er lagt til að fullar grunnatvinnuleysisbætur verði að fjárhæð 149.523 kr. í hverjum mánuði í stað þess að vera 6.900 kr. fyrir hvern virkan dag, sbr. reglugerð nr. 1219/2008, um breytingu á reglugerð nr. 548/2006, um fjárhæð atvinnuleysistrygginga.
    Tíðkast hefur að bjóða atvinnuleitendum reynsluráðningu eða starfsþjálfun innan fyrirtækja að nánari skilyrðum uppfylltum samkvæmt reglugerð nr. 12/2009, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki. Í þeim tilvikum hefur Vinnumálastofnun greitt til vinnuveitanda sem nemur grunnatvinnuleysisbótum hlutaðeigandi atvinnuleitanda ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð og atvinnuleitandinn fengið í staðinn greidd laun samkvæmt gildandi kjarasamningi í hlutaðeigandi starfsgrein. Markmið þessa er að atvinnuleitandinn fái tækifæri til að þjálfa sig í þeirri starfsgrein sem hlutaðeigandi fyrirtæki eða stofnun starfar innan til að auka hæfni sína til slíkra starfa á vinnumarkaði enda sé hann reiðubúinn að ráða sig til framtíðarstarfa innan starfsgreinarinnar. Þessi vinnumarkaðsúrræði hafa reynst mjög vel í framkvæmd og því þykir rétt að árétta þetta í lögunum.

Um 10. gr.

    Lagt er til að Vinnumálastofnun fái sérstaka heimild til að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta sem hinum tryggða hafði áður verið ákvörðuð þegar stofnunin hefur rökstuddan grun um að sá hinn sami uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með rökstuddum grun er átt við að fyrir liggi upplýsingar, svo sem frá skattyfirvöldum, sem bendi til að hlutaðeigandi uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Tilgangur þessarar heimildar er aðallega að koma í veg fyrir að stofnunin greiði út atvinnuleysisbætur þegar hún hefur gögn undir höndum sem benda til að viðkomandi einstaklingur eigi ekki lengur rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt lögunum en þannig má komast hjá kröfu Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu síðar og þeim aukakostnaði sem slíkri kröfu kann að fylgja, bæði fyrir þann sem í hlut á og stofnunina.
    Að teknu tilliti til þess hversu íþyngjandi þessi heimild kann að vera fyrir þann einstakling sem í hlut á er Vinnumálastofnun settar þröngar skorður í þessu efni samkvæmt ákvæðinu enda atvinnuleysisbætur ætlaðar til framfærslu hlutaðeigandi. Þannig er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun verði eingöngu heimilt að halda eftir greiðslu í allt að einn mánuð frá því að greiðsluna átti ella að inna af hendi þegar rökstuddur grunur vaknar um að hlutaðeigandi uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur og skal stofnunin jafnframt tilkynna viðkomandi án ástæðulauss dráttar að fyrirhugað sé að halda eftir greiðslu. Sá frestur getur að lágmarki verið fimm virkir dagar og er sá tími ætlaður til að veita hlutaðeigandi svigrúm til að grípa til ráðstafana varðandi fjármál sín ef hann telur slíkt nauðsynlegt. Lagt er til að stofnuninni beri jafnframt að hefja athugun málsins þegar í stað á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga og gæta þess að hinum tryggða sé veittur andmælaréttur á grundvelli sömu laga. Hefur stofnunin tíma fram til næsta greiðsludags þar á eftir til að taka ákvörðun í málinu að ákvæðum stjórnsýslulaga virtum. Komi upp rökstuddur grunur innan fimm virkra daga fyrir næsta greiðsludag skv. 35. gr. laganna skal Vinnumálastofnun engu síður greiða út atvinnuleysisbætur á greiðsludegi en jafnframt hefja athugun sína og tilkynna hlutaðeigandi þegar í stað um þá athugun. Vinnumálastofnun skal ávallt gæta meðalhófs við beitingu þessarar heimildar og aldrei halda eftir hærri fjárhæð en grunur leikur á að hlutaðeigandi eigi ekki lengur rétt á eða hafi fengið ofgreitt.
    Þá er í ákvæðinu kveðið á um að leiði athugun Vinnumálastofnunar á málinu til þess að hinn tryggði hafi sannanlega átt rétt að hluta eða öllu leyti á þeirri fjárhæð sem haldið var eftir beri stofnuninni að greiða fjárhæðina eigi síðar en næsta greiðsludag skv. 35. gr. laganna að viðlögum vöxtum. Er lagt til að miðað verði við sömu vexti og gert er í 5. mgr. 39. gr. laganna.

Um 11. gr.

    Lagt er til að skýrar verði kveðið á um skyldu þeirra sem fá greiddar atvinnuleysisbætur eða sæta biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna til að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu sem þeir taka á sama tíma. Gert er ráð fyrir að meginreglan verði sú að tilkynna þurfi um vinnuna með eins dags fyrirvara en sá frestur miðast við að þar sem um tilfallandi vinnu sé að ræða geti hún komið til með mjög skömmum fyrirvara. Enn fremur er gert ráð fyrir að tilkynningin geti verið rafræn í gegnum vefsvæði Vinnumálastofnunar. Eðlilegt þykir að hinn tryggði tilkynni um tilfallandi vinnu fyrir fram til Vinnumálastofnunar svo komast megi hjá ofgreiðslu atvinnuleysisbóta. Engu síður er lagt til að heimilt verði að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu deginum áður þar sem ekki var unnt að sjá hana fyrir fyrr en sama dag og hún er innt af hendi. Dæmi um slík tilvik eru ýmiss konar störf sem unnin eru í veikinda- eða slysaforföllum annarra starfsmanna, svo sem við kennslu í skólum. Þar sem um er að ræða undanþágu frá meginreglunni ber að skýra þessa heimild þröngt. Þessi tilkynningarskylda er jafnframt liður í því að koma í veg fyrir að þeir sem verða uppvísir að því að vinna á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur eða sæta biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna geti komið með þá skýringu að eingöngu sé um tilfallandi vinnu að ræða, jafnvel þótt vinnan hafi staðið yfir í einhvern tíma. Er þetta því liður í bættu eftirliti með því að koma í veg fyrir að þeir sem eru virkir á vinnumarkaði geti jafnframt fengið greiddar atvinnuleysisbætur eða sætt biðtíma eða viðurlögum á grundvelli laganna á sama tíma.

Um 12. gr.

    Lagt er til að skýrar verði kveðið á um hvaða greiðslur sem atvinnuleitandi fær sér til framfærslu á sama tímabili og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur kunna að koma til frádráttar atvinnuleysisbótunum. Áfram er gert ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrisgreiðslur á grundvelli laga um almannatryggingar og elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr almennum lífeyrissjóðum og séreignarsjóðum séu samrýmanlegar greiðslur við atvinnuleysisbætur en komi þeim til frádráttar. Þó er lagt til í a-lið 27. gr. frumvarps þessa að séreignarsparnaður að fjárhæð 1.000.000 kr. sem hefur verið eða verður tekinn út á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010 komi ekki til frádráttar atvinnuleysisbótum. Þetta er gert til að gæta jafnræðis milli þeirra sem nýta sér sérstaka heimild til að taka út séreignarsparnað á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. einnig lög nr. 13/2009, og þeirra sem taka út séreignarsparnað sinn á grundvelli 11. og 12. gr. sömu laga.
    Enn fremur er lagt til að greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta komi til frádráttar atvinnuleysisbótum. Í þeim tilvikum er jafnframt gert ráð fyrir að hinn tryggði leggi fram vottorð um vinnufærni sína þar sem eðlilegt verður að teljast að samræmi sé milli ólíkra greiðslukerfa um vinnufærni sama einstaklings. Þegar um er að ræða greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ætlað er að bæta óvinnufærni að fullu er gert ráð fyrir að þær greiðslur verði ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum, sbr. 15. gr. frumvarpsins, á sama hátt og gildir um sjúkra- og slysadagpeninga innan almannatryggingakerfisins.
    Þá er lagt til að tekið verði á því með skýrari hætti en áður hvaða greiðslum er ekki ætlað að koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Þar er um að ræða umönnunargreiðslur sem ætlað er að mæta útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barns, og styrki úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki eru ætlaðir til framfærslu hins tryggða, svo sem styrki til gleraugnakaupa. Jafnframt er lagt til að styrkir úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem hinn tryggði hefur aflað sér til þróunar eigin viðskiptahugmyndar komi ekki til frádráttar enda ekki beinlínis ætlaðir til framfærslu heldur til dæmis til tækjakaupa eða til að standa straum af aðkeyptri sérfræðiþjónustu svo viðskiptahugmyndin geti komist til framkvæmda. Þarna getur verið um að ræða styrki til atvinnumála kvenna og úr Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Jafnframt er lagt til að aðrar greiðslur áður ótaldar í ákvæðinu með sama tilgangi geti komið til en þá fellur það í hlut Vinnumálastofnunar að meta hvert tilvik fyrir sig. Verður þetta að teljast mikilvægt svo styðja megi við nýsköpun í atvinnulífinu og frumkvæði atvinnuleitenda.

Um 13. gr.

    Lagt er til að álag það sem bætist við endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 39. gr. laganna verði hækkað úr 15% í 30%. Tilgangur þessa er einkum sá að auka fælingarmátt álagsins þannig að atvinnuleitendur freistist síður til að hagræða aðstæðum sínum með þeim hætti að þær leiði til þess að þeir teljist tryggðir í hærra hlutfalli en ella eða láti hjá líða að veita upplýsingar sem kunna að hafa áhrif á tryggingarhlutfall þeirra til lækkunar í því skyni að fá tímabundið greiddar hærri atvinnuleysisbætur en þeim ber samkvæmt lögunum. Eftir sem áður ber Vinnumálastofnun að fella niður álagið samkvæmt ákvæðinu færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, sbr. lokamálslið 2. mgr. 39. gr. laganna. Jafnframt er lagt til að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta verði aðfararhæfar en að öðru leyti er vísað til athugasemda við 2. gr. frumvarps þessa.

Um 14. gr.

    Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert athugasemdir við að umsækjandi um atvinnuleysisbætur þurfi að hafa starfað í a.m.k. þrjá mánuði á ávinnslutímabili skv. 15. eða 19. gr. laganna áður en heimilt er að leggja saman starfstímabil hans sem launamanns eða sjálfstætt starfandi einstaklings í öðru aðildarríki að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Er því lagt til að þetta tímabil verði stytt um tvo mánuði þannig að heimilt verði að leggja saman starfstímabil á hinum sameiginlega evrópska vinnumarkaði auk Sviss og Færeyja hafi umsækjandi um atvinnuleysisbætur starfað á innlendum vinnumarkaði a.m.k. síðasta mánuðinn á ávinnslutímabili samkvæmt lögunum. Þykir sá tími hæfilegur svo unnt sé að ganga úr skugga um að hlutaðeigandi hafi sannanlega verið virkur þátttakandi á innlendum vinnumarkaði og að greitt hafi verið tryggingagjald af tekjum hans inn í Atvinnuleysistryggingasjóð a.m.k. í þann tíma. Þannig er jafnframt komið í veg fyrir að launafólk geti tekið tímabundna vinnu á innlendum vinnumarkaði í skemmri tíma í þeim tilgangi einum að sækja um atvinnuleysisbætur hér á landi að þeim tíma liðnum.

Um 15. gr.

    Gert er ráð fyrir að til viðbótar sjúkra- og slysadagpeningum teljist greiðsla endurhæfingarlífeyris á grundvelli laga nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, ekki til samrýmanlegra greiðslna enda bæði kerfin ætluð til framfærslu þegar einstaklingar geta ekki tekið virkan þátt á vinnumarkaði. Þá er jafnframt lagt til að greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ætlaðar eru til að bæta óvinnufærni að fullu verði ósamrýmanlegar atvinnuleysistryggingum enda skilyrði að sá sem telst tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar sé vinnufær að hluta eða öllu leyti.

Um 16. gr.

    Meginreglan er sú að sá sem stundar nám í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar telst ekki tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins á sama tímabili enda teljist námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna. Eitt aðalhlutverk Atvinnuleysistryggingasjóðs er að tryggja einstaklingum, sem hafa áður verið virkir á vinnumarkaði en missa starf sitt, framfærslu þann tíma sem það tekur að finna nýtt starf enda áhersla lögð á að viðkomandi sé í virkri atvinnuleit. Lánasjóði íslenskra námsmanna er hins vegar ætlað það hlutverk að aðstoða námsmenn um framfærslu þann tíma sem þeir stunda nám.
    Mikilvægt þykir að móta skýr skil milli þessara tveggja framfærslukerfa til að tryggja gott samspil þeirra og tryggja jafnræði milli námsmanna. Í því skyni að ná því markmiði hefur grunnframfærsla Lánasjóðs íslenskra námsmanna verið hækkuð á árinu 2009 en jafnframt þykir eðlilegt að ekki sé unnt að sækja lánshæft nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Er því lagt til að undanþágur þær sem eru í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna verði felldar brott en þó verði atvinnuleitendum heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn skóla. Þannig er ekki komið í veg fyrir að atvinnuleitandi sé virkur í samfélaginu með þessum hætti enda slík virkni afar mikilvæg.

Um 17.–19. gr.

    Breytingar þær sem lagðar eru til á ákvæðum þessum eru til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 8.–9. gr. frumvarpsins um að atvinnuleysisbætur verði mánaðargreiðslur í stað þess að miða við fjölda virkra daga í hverjum mánuði. Þykir þá eðlilegt að biðtími og viðurlög samkvæmt sömu lögum verði reiknuð út í mánuðum í stað virkra daga áður enda þótt um sé að ræða jafnlangt tímabil og áður. Þó er lögð til sú breyting að sá tími sem hlutaðeigandi þarf að hafa unnið á innlendum vinnumarkaði svo biðtíminn falli niður lengist úr tíu virkum dögum í einn mánuð. Enn fremur er lagt til að þegar atvinnuleitandi sætir biðtíma í annað skipti á sama tímabili skv. 29. gr. laganna eigi hann ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en að hann hefur starfað í a.m.k. sex mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Um 20. gr.

    Breytingar þær sem lagðar eru til í ákvæði þessu eru til samræmis við þær breytingar sem lagðar eru til í 8.–9. gr. frumvarps þessa, sbr. einnig 17.–19. gr. frumvarpsins. Þó er lögð til sú breyting að sá tími sem hlutaðeigandi þarf að hafa unnið á innlendum vinnumarkaði svo viðurlögin falli niður lengist úr tíu virkum dögum í einn mánuð.

Um 21. gr.

    Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 20. gr. frumvarps þessa.

Um 22. gr.

    Sú breyting er lögð til á 1. mgr. 59. gr. laganna að ákvæðið eigi einungis við þegar umsækjandi um atvinnuleysisbætur lætur hjá líða að veita tilteknar upplýsingar eða tilkynna um breytingar á högum sínum sem kunna að hafa áhrif á rétt hlutaðeigandi innan kerfisins. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 20. gr. frumvarps þessa.

Um 23. gr.

    Lagt er til að nánari verknaðarlýsing verði sett fram í ákvæðinu þannig að skýrara verði hvaða háttsemi átt er við þegar litið er svo á að atvinnuleysisbóta hafi verið aflað með sviksamlegum hætti. Þykir það nauðsynlegt í ljósi þess að gert er ráð fyrir að verði einstaklingur uppvís að slíkri háttsemi eigi hann ekki rétt innan kerfisins fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Gert er ráð fyrir að þau viðurlög eigi við um þrenns konar brot á lögunum. Í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum. Þannig er gert ráð fyrir að þetta eigi við um tilvik er rangar upplýsingar frá atvinnuleitanda leiða til þess að hann telst ranglega tryggður í hærra tryggingarhlutfalli en honum ber samkvæmt lögunum. Á þetta sem dæmi við um þann sem leggur fram vottorð um fulla vinnufærni en hefur lagt fram vottorð innan annars framfærslukerfis um skerta vinnufærni fyrir sama tímabil. Í öðru lagi er miðað við að viðurlögin eigi við um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum þar sem hann hefur ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna. Þá verður hið sama talið gilda í tilvikum er ætlaður atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu skv. 11. gr. frumvarpsins. Verður þetta að teljast mikilvægur liður í því að sporna við „svartri atvinnustarfsemi“ þar sem atvinnuleitendur sem fá greiddar atvinnuleysisbætur verða að tilkynna fyrir fram um hina tilfallandi vinnu eða samdægurs í nánar tilgreindum undantekningartilvikum.
    Ekki er lengur gert ráð fyrir að brot á lögunum geti varðað sektum og þar af leiðandi er ekki heldur gert ráð fyrir því að þau séu lengur kærð til lögreglu. Í staðinn er gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun sjái til þess að mál séu nægjanlega upplýst og veiti hlutaðeigandi tækifæri til að tjá sig um efni málsins áður en ákvörðun er tekin um viðurlögin samkvæmt ákvæðinu. Að öðru leyti gilda önnur ákvæði stjórnsýslulaga. Ákvarðanir Vinnumálastofnunar á grundvelli ákvæðis þessa eru kæranlegar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða líkt og gildir um aðrar viðurlagaákvarðanir sem stofnunin tekur á grundvelli laganna. Eftir atvikum er jafnframt heimilt að bera ágreiningsefnið undir almenna dómstóla. Ákvæði þetta kemur þó ekki í veg fyrir að stórfelld misnotkun innan atvinnuleysistryggingakerfisins kunni að verða kærð til lögreglu enda eigi slík brot undir ákvæði almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, svo sem XVII. kafla um skjalafals og önnur brot er varðar sýnileg sönnunargögn eða XXVI. kafla um auðgunarbrot.

Um 24. gr.

    Áfram er gert ráð fyrir að fyrri ákvarðanir um viðurlög skv. XI. kafla laganna hafi ítrekunaráhrif á síðari viðurlagaákvarðanir en þó með þeim hætti að við annað brot í stað þriðja brots á sama bótatímabili skv. 29. gr. laganna hafi fyrri ákvörðun um viðurlög þau áhrif að sæki hlutaðeigandi aftur um atvinnuleysisbætur að nýju á sá hinn sami ekki rétt á þeim. Lagt er til að hann geti fyrst öðlast rétt á atvinnuleysisbótum að nýju eftir að hafa starfað á innlendum vinnumarkaði samfellt í sex mánuði eða lengri tíma í stað átta vikna. Er með þessu verið að undirstrika mikilvægi þess að atvinnuleitendur séu í virkri atvinnuleit þann tíma sem þeir fá greiddar atvinnuleysisbætur og sýni vilja til samvinnu við ráðgjafa Vinnumálastofnunar í því skyni að auka tækifæri sín til að verða aftur virkir á vinnumarkaði.

Um 25. gr.

    Lagt er til að áfram verði heimilt að greiða hlutfallslegar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli og þá án þess að föst laun fyrir hlutastarfið komi til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 36. gr. laganna. Engu síður eru lagðar til tilteknar breytingar til að koma meiri festu á framkvæmd þessa ákvæðis í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun. Þar á meðal er lagt til að fyrra starfshlutfall launafólks lækki um 20% hið minnsta enda er þá verið að mæta nokkurri skerðingu á starfshlutfalli. Getur þá launamaður að hámarki verið í 80% starfshlutfalli hafi hann áður verið í fullu starfi til að eiga rétt á atvinnuleysisbótum samkvæmt ákvæði þessu. Jafnframt er lagt til að samanlagðar tekjur fyrir hlutastarfið og atvinnuleysisbætur geti ekki verið hærri en 521.318 kr. á mánuði en þá er miðað við að hinn tryggði geti haldið allt að 400.000 kr. á mánuði fyrir hlutastarf sitt án þess að til skerðingar komi þegar hlutaðeigandi á rétt á hámarksfjárhæð á tekjutengdum atvinnuleysisbótum er svarar hálfu starfi. Dæmi um þetta er að launamaður sem hefur haft 655.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf en starfshlutfall hans er lækkað um 20%. Hann fær þá 524.000 kr. á mánuði fyrir hið minnkaða starfshlutfall og á ekki rétt til atvinnuleysisbóta á grundvelli ákvæðisins. Launamaður sem hefur haft 500.000 kr. á mánuði fyrir fullt starf en starfshlutfall hans er lækkað um helming. Hann fær þá 250.000 kr. á mánuði fyrir hið minnkaða starfshlutfall og 121.318 kr. í atvinnuleysisbætur sem svarar til 50% af hámarksfjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eða samtals 371.318 kr. á mánuði. Gert er ráð fyrir að þessi tímabundna breyting á ráðningarsamningi vari í þrjá mánuði í senn. Áhersla er lögð á að um tímabundna aðgerð er að ræða vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði sem rekja má til efnahagsþrenginganna sem hófust í október 2008.

Um 26. gr.

    Ákvæði þetta hefur reynst nokkuð flókið í framkvæmd þar sem erfiðlega hefur reynst að meta samdrátt í rekstri sjálfstætt starfandi einstaklinga og hvað geti talist tilfallandi verkefni. Hefur ákvæðið því sætt ákveðinni gagnrýni vegna aukinnar hættu á misnotkun innan atvinnuleysistryggingakerfisins og á það sérstaklega við þegar sjálfstætt starfandi einstaklingar hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins til lengri tíma. Er því lagt til að hver og einn sjálfstætt starfandi einstaklingur geti nýtt sér þetta úrræði í tiltekinn tíma í því skyni að bregðast við tímabundnum samdrætti í rekstrinum. Þykir sá tími hæfilegur þrír mánuðir en þá er jafnframt gert ráð fyrir að sjálfstætt starfandi einstaklingar geti nýtt þann tíma til frekari ráðstafana og þá jafnvel til að loka rekstrinum sé það niðurstaðan að þeim tíma liðnum að rekstrarforsendur hans séu brostnar. Í því skyni að koma til móts við þá aðila sem þegar fá eða hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða VI er lagt til að þeir geti fengið greiddar atvinnuleysisbætur í allt að tvo mánuði á gildistíma ákvæðisins að öðrum skilyrðum uppfylltum til að ganga frá málum sínum.

Um 27. gr.

     Um a-lið.
    Lagt er til að séreignarsparnaður allt að 1.000.000 kr. sem tekinn hefur verið út frá 1. mars 2009 komi ekki til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 36. gr. laganna og er gert ráð fyrir að þessi undanþága gildi fram til 1. október 2010. Á þetta þó eingöngu við um þegar fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, í níu mánuði frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila. Tilgangur þessa er að gæta jafnræðis milli þeirra sem nýta sér sérstaka heimild til að taka út séreignarsparnað á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða VIII við lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, sbr. einnig lög nr. 13/2009, og þeirra sem taka út séreignarsparnað sinn á grundvelli 11. og 12. gr. sömu laga. Tekið er fram berum orðum í ákvæði til bráðabirgða VIII við lög um skyldutryggingu lífeyrissjóða og starfsemi lífeyrissjóða að útgreiðsla séreignarsparnaðar komi ekki til frádráttar atvinnuleysisbótum á framangreindu tímabili en þessi heimild fellur brott 1. október 2010. Þar sem um undanþáguákvæði er að ræða ber að túlka þá heimild þröngt þannig að hún eigi eingöngu við um þann séreignarsparnað sem tekinn er út á grundvelli ákvæðisins til bráðabirgða. Engu síður þykir eðlilegt að sama gildi um úttekt séreignarsparnaðar að því er varðar áhrif hans á atvinnuleysisbætur viðkomandi óháð því hvor heimild laganna er nýtt enda má leiða að því líkum að tilgangur úttektar séreignarsparnaðar kunni að vera sá sami án tillits til heimildarinnar. Hafi séreignarsparnaður verið dreginn af atvinnuleitendum á grundvelli 36. gr. laganna á þessu tímabili mun Vinnumálastofnun leiðrétta það verði ákvæði þetta samþykkt sem lög.
     Um b-lið.
    Vísað er til athugasemda við 7. gr. frumvarps þessa.

Um 28. gr.

    Í ákvæði þessu er lagt til að sveitarstjórnum verði heimilt að setja reglur sem binda fjárhagsaðstoð viðkomandi sveitarfélags skilyrðum sem miða að því að tengja slíka aðstoð við virkni þeirra sem sækja um eða njóta slíkrar aðstoðar, svo sem við virka atvinnuleit og þátttöku þeirra í vinnumarkaðsaðgerðum, í því skyni að hvetja viðkomandi einstaklinga til sjálfshjálpar þannig að einstaklingurinn verði betur fær um að stjórna málum sínum sjálfur í stað þess að verða háður aðstoðinni. Er þetta meðal annars lagt til í samræmi við ákvæði 15. gr. laga nr. 55/2006, um vinnumarkaðsaðgerðir, með síðari breytingum.

Um 29.–31. gr.

    Mikilvægt þykir að einfalda innheimtu ofgreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 15. gr. a laga um fæðingar- og foreldraorlof og draga úr innheimtukostnaði sem fellur í hlut skuldara láti hann hjá líða að greiða skuld sína við Vinnumálastofnun. Er því lagt til að úrskurðir úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála um endurkröfu ofgreiðslna verði gerðir aðfararhæfir sem einfaldar innheimtuferlið. Jafnframt er lagt til í 31. gr. frumvarps þessa að ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 2. mgr. 15. gr. a laganna verði einnig aðfararhæfar en þegar ákvörðun stofnunarinnar er kærð til úrskurðarnefndarinnar fresti það aðför, sbr. 30. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti vísast til athugasemda við 2. gr. frumvarps þessa.

Um 32. gr.

    Ákvæðið þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á framkvæmd greiðslna atvinnuleysisbóta í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur við framkvæmd bótakerfisins frá því að atvinnuleysi jókst til muna á síðasta ári. Breytingunum er einnig ætlað að sníða af ýmsa vankanta í lögum um atvinnuleysistryggingakerfið. Auk þess er tilgangurinn með frumvarpinu að mæta hluta af markmiðum um samdrátt í útgjöldum ríkissjóðs í samræmi við frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2010.
    Helstu breytingarnar snúa að auknu eftirliti Vinnumálastofnunar með bótaþegum og greiðslum til þeirra og að auknum úrræðum til að styðja við bótaþega til að þeir komist sem fyrst út á vinnumarkaðinn á ný. Einnig er gert ráð fyrir að stofnunin geti gripið til ýmissa vinnumarkaðsúrræða. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild til að binda fjárhagsaðstoð við einstaklinga ákveðnum skilyrðum eins og að þeir séu í virkri atvinnuleit og taki þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að bráðabirgðaákvæði um heimild til að greiða launþegum og sjálfstætt starfandi einstaklingum hlutaatvinnuleysisbætur verði þrengt en jafnframt framlengt til 30. júní. 2010. Þá er lagt til að námsmenn verði ekki lengur tryggðir innan kerfisins en á móti komi lengri réttur þeirra til að geyma bótarétt og nýta sér ef þörf krefur eftir að námi lýkur. Samkvæmt frumvarpinu verður Vinnumálastofnun auk þess gert auðveldara um vik að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur og fæðingarorlofsgreiðslur en til viðbótar er gert ráð fyrir að álag við endurgreiðslu á slíkum ofgreiddum bótum hækki úr 15% í 30%.
    Gert er ráð fyrir að umfang starfsemi Vinnumálastofnunar muni aukast umtalsvert vegna aukins eftirlits og vinnumarkaðsúrræða. Áætlanir miðast við að fjölga þurfi starfsfólki um tíu manns sem hefði í för með sér um 58 m.kr. kostnaðarauka á ári, en auk þess falla til útgjöld vegna reksturs húsnæðis, tölva og fleira, sem samtals gæti numið 8 m.kr. ásamt 5 m.kr. í stofnkostnað. Á móti kemur að gert er ráð fyrir að bótagreiðslur muni lækka um nálægt 300 m.kr. vegna hertra viðurlaga og lengingar þess tíma sem einstaklingur þarf að hafa verið á vinnumarkaði eftir að hafa misst rétt til bóta. Talsverð óvissa er þó um hvað þessar breytingar munu skila í reynd.
    Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld ríkissjóðs aukist vegna ákvæða um skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Miðað er við að Vinnumálastofnun standi einungis straum af kostnaði við úrræði þeirra sem eru tryggðir innan atvinnuleysiskerfisins. Fari svo að þjónusta stofnunarinnar verði aukin gagnvart skjólstæðingum sveitarfélaganna vegna vinnumarkaðsúrræða verður væntanlega gerður samningur þar að lútandi milli aðila og sveitarfélögin munu þá greiða þann kostnað sem til fellur.
    Gera má ráð fyrir að aukinn kostnaður vegna innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta og fæðingarorlofsgreiðslna verði um 19 m.kr. á ári. Fyrirhugað er að ráða tvo nýja starfsmenn til þess að vinna að innheimtukröfum. Á móti er þess vænst að innheimtur muni aukast.
    Reikna má með lítils háttar lækkun á útgjöldum vegna ákvæða um framlengingu á rétti til að greiða launþegum atvinnuleysisbætur á móti skertu starfshlutfalli þar sem það verður 80% að hámarki auk þess sem sett verður þak á þessar greiðslur miðað við tekjur viðkomandi. Bætur til allra þeirra sem eru í 81-95% starfshlutfalli nema samtals um 36 m.kr. á ári. Ekki er ólíklegt að hluti þeirra færi í 80% starfshlutfall og fengi þar með hærri bætur. Á hinn bóginn gætu einhverjir af þeim sem eru með hæsta starfshlutfallið hætt á bótum og farið í 100% starf þannig að eitthvað sparist á móti. Sparnaður af því að setja þak á hlutaatvinnuleysisbætur miðað við tekjur er talinn verða óverulegur. Einungis eru fáir einstaklingar sem þiggja bætur og eru með tekjur auk bóta yfir 500 þúsund kr. á mánuði.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að réttur sjálfstætt starfandi einstaklinga verði takmarkaður þannig að þeir geti að hámarki fengið greiddar hlutaatvinnuleysisbætur í þrjá mánuði. Í gildandi lögum eru engin sérstök tímamörk fyrir þessar bætur, fyrir utan hin almennu skilyrði bótakerfisins. Árlegur kostnaður við bætur af þessum toga til þessa hóps er nú um 1.500 m.kr. Áætlað er að breytingarnar verði til þess að það fækki mjög í þessum hópi þannig að greiddar bætur til þeirra verði um 300 m.kr. á næsta ári. Sparnaður Atvinnuleysistryggingasjóðs er því áætlaður um 1.200 m.kr. á ársgrundvelli. Ekki er talið að margir sjálfstætt starfandi einstaklingar fari á fullar bætur eftir að réttur þeirra til hlutaatvinnuleysisbóta rennur út.
    Lækkun útgjalda við það að námsmenn fari út úr tryggingakerfinu er áætluð 370 m.kr. á næsta ári en erfitt er að áætla hver kostnaðurinn kann að verða vegna lengingar á geymslu bótaréttar úr 36 mánuðum í 72 mánuði. Ekki fer að reyna á þessa breytingu fyrr en að þremur árum liðnum og mun það ráðast af atvinnuástandinu hversu margir munu nýta sér réttinn.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum má ætla að útgjöld ríkissjóðs vegna atvinnuleysisbóta gætu lækkað um 1.570 m.kr. á ári. Útgjöldin gætu lækkað enn meira vegna hertra viðurlaga og aukinnar innheimtu á ofgreiddum bótum en á móti vega aukin útgjöld vegna þessara ráðstafana sem eru áætluð 90 m.kr. á næsta ári. Þar af eru 5 m.kr. tímabundinn einskiptiskostnaður. Samtals er því áætlað að breytingarnar í frumvarpinu lækki útgjöld ríkissjóðs um 1.480 m.kr. á næsta ári. Í frumvarpi til fjárlaga 2010 var hins vegar reiknað með 750 m.kr. hagræðingu í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þessi kostnaðarviðmið vegna frumvarpsins byggjast á rauntölum fyrir janúar til október 2009 sem svarar til um 8% atvinnuleysis að meðaltali. Kostnaðaráhrifin til lengri tíma litið ráðast að mestu af ástandi á vinnumarkaði.