Þskj. 315 — 274. mál.
Frumvarp til laga
um breytingu á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra og lögum um
húsnæðismál, með síðari breytingum.
(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)
I. KAFLI
Breyting á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar,
með síðari breytingum.
1. gr.
Rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta eða greiðslna samkvæmt lögum þessum kveður sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, upp úrskurð í málinu. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr.
2. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 8. gr. laganna:a. Í stað orðsins „tveimur“ í 6. mgr. kemur: þremur.
b. Á eftir 6. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta, sbr. 55. gr.
3. gr.
Á eftir 1. mgr. 9. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:Úrskurðir nefndarinnar um endurkröfur ofgreiðslna skv. 1. mgr. 7. gr. eru aðfararhæfir.
4. gr.
Í stað „16 til 67 ára“ í 1. mgr. 18. gr. laganna kemur: 18 til 67 ára.5. gr.
Við 1. mgr. 34. gr. laganna bætist: með þeirri undantekningu að réttur til örorkulífeyris reiknast frá 16 ára aldri.6. gr.
Við 1. mgr. 54. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Þá er heimilt, að ósk umsækjanda eða bótaþega, að fresta greiðslu bóta og greiða bætur í einu lagi eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur umsækjanda eða bótaþega á bótagreiðsluárinu liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.7. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:a. Á eftir orðinu „bótaþega“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: eða dánarbúi hans.
b. Á eftir orðunum „um tekjuaukninguna“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: eða aðrar breyttar aðstæður.
c. 3. mgr. orðast svo:
Ofgreiddar bætur skal að jafnaði draga frá greiðslum til bótaþega á næstu 12 mánuðum eftir að krafa stofnast. Ekki er heimilt að draga frá bótum meira en 20% af mánaðarlegum greiðslum til bótaþega, nema samið sé um annað, þó aldrei lægri fjárhæð en 3.000 kr., uns ofgreiðsla er endurgreidd að fullu. Hafi endurkrafa vegna ofgreiddra bóta ekki verið greidd á 12 mánuðum frá því að krafa stofnaðist skal greiða 5,5% ársvexti á eftirstöðvar kröfunnar. Heimilt er að falla frá kröfu um vexti ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
d. Á eftir orðinu „honum“ í 1. málsl. 4. mgr. kemur: eða dánarbúi hans.
e. Á eftir 5. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta samkvæmt ákvæði þessu eru aðfararhæfar, sbr. þó 7. mgr. 8. gr.
8. gr.
Við ákvæði til bráðabirgða í lögunum bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:14. Þrátt fyrir ákvæði 3. málsl. b-liðar 2. mgr. 16. gr. laganna skal örorkulífeyrisþegi á tímabilinu 1. janúar til og með 31. desember 2010 hafa 1.315.200 kr. frítekjumark vegna atvinnutekna við útreikning tekjutryggingar.
15. Þrátt fyrir ákvæði 69. gr. laganna skulu bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr., ekki breytast á árinu 2010.
II. KAFLI
Breyting á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð,
með síðari breytingum.
9. gr.
10. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr. laganna:a. 3. málsl. 2. mgr. fellur brott.
b. Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.
11. gr.
7. gr. laganna orðast svo :Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.
Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.
12. gr.
9. gr. laganna orðast svo ásamt fyrirsögn:Uppbætur á lífeyri.
Heimilt er að greiða lífeyrisþega uppbót á lífeyri vegna kostnaðar sem ekki fæst greiddur eða bættur með öðrum hætti ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi geti framfleytt sér án uppbótar skal taka tillit til eigna og tekna.
Heimilt er að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 180.000 kr. á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 153.500 kr. á mánuði.
Til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi.
Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk.
13. gr.
Eftirfarandi breytingar verða á 10. gr. laganna:a. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
b. Á eftir 1. málsl. 3. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
III. KAFLI
Breyting á lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa,
með síðari breytingum.
14. gr.
Kröfur skv. a–d-lið 5. gr. skulu bera vexti skv. 4. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá gjalddaga þeirra til þess dags er Ábyrgðasjóður launa greiðir kröfuna.
15. gr.
Í stað „0,2%“ í 2. mgr. 23. gr. laganna kemur: 0,25%.IV. KAFLI
Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof,
með síðari breytingum.
16. gr.
a. (I.)
Þrátt fyrir ákvæði 13. gr. frestast greiðslur skv. 2. og 5. mgr. fyrir einn mánuð af sameiginlegum rétti foreldra skv. 8. gr. þar til barnið nær 36 mánaða aldri þegar réttur til fæðingarorlofs stofnast vegna fæðingar eða 36 mánuðum eftir að barn kom inn á heimili þegar rétturinn stofnast vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Foreldrum er heimilt að nýta sér rétt sinn skv. 1. málsl. á næstu 24 mánuðum þar á eftir enda hafi þeir ekki þegar nýtt sér allan sameiginlegan rétt sinn til fæðingarorlofs skv. 8. gr.
Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um hvernig reikna skuli fjárhæð greiðslna sem foreldrar hafa rétt til úr Fæðingarorlofssjóði skv. 13. gr. þegar frestuninni lýkur skv. 1. mgr. með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála.
Ákvæði þetta á við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2011.
b. (II.)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 18. gr. frestast greiðsla fæðingarstyrks fyrir einn mánuð af sameiginlegum rétti foreldra þar til barnið nær 36 mánaða aldri þegar réttur til fæðingarstyrks stofnast vegna fæðingar eða 36 mánuðum eftir að barn kom inn á heimili þegar rétturinn stofnast vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Foreldrum er heimilt að nýta sér rétt sinn skv. 1. málsl. á næstu 24 mánuðum þar á eftir.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 18. gr. frestast greiðsla fæðingarstyrks fyrir einn mánuð þar til barnið nær 36 mánaða aldri þegar réttur til fæðingarstyrks stofnast vegna fæðingar eða 36 mánuðum eftir að barn kom inn á heimili þegar rétturinn stofnast vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Foreldrum er heimilt að nýta sér rétt sinn skv. 1. málsl. á næstu 24 mánuðum þar á eftir.
Ákvæði þetta á við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2011.
c. (III.)
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 19. gr. frestast greiðsla fæðingarstyrks fyrir einn mánuð af sameiginlegum rétti foreldra þar til barnið nær 36 mánaða aldri þegar réttur til fæðingarstyrks stofnast vegna fæðingar eða 36 mánuðum eftir að barn kom inn á heimili þegar rétturinn stofnast vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Foreldrum er heimilt að nýta sér rétt sinn skv. 1. málsl. á næstu 24 mánuðum þar á eftir.
Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 19. gr. frestast greiðsla fæðingarstyrks fyrir einn mánuð þar til barnið nær 36 mánaða aldri þegar réttur til fæðingarstyrks stofnast vegna fæðingar eða 36 mánuðum eftir að barn kom inn á heimili þegar rétturinn stofnast vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Foreldrum er heimilt að nýta sér rétt sinn skv. 1. málsl. á næstu 24 mánuðum þar á eftir.
Ákvæði þetta á við um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2011.
V. KAFLI
Breyting á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum.
17. gr.
a. Í stað „7.534“ í 2. málsl. 1. mgr. kemur: 8.400.
b. Í stað „1.143.362“ í 2. málsl. 2. mgr. kemur: 1.361.468.
18. gr.
4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna orðast svo: Nú tekst stofnun ekki að innheimta hlut vistmanns í dvalarkostnaði og er Tryggingastofnun ríkisins þá heimilt að halda eftir samsvarandi hluta af mánaðarlegum greiðslum vistunarframlags til viðkomandi stofnunar.19. gr.
Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:a. (VI.)
Vegna útreiknings á vistunarframlagi skv. 21. gr. laganna er á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2010 unnt að óska eftir því að Tryggingastofnun ríkisins beri saman útreikning vistunarframlags fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 17/2008. Ef samanburðurinn leiðir til aukinnar kostnaðarþátttöku vistmanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta vistunarframlag vegna framangreinds tímabils til samræmis við það.
b. (VII.)
Framkvæmdasjóði aldraðra er heimilt að verja fé úr sjóðnum til að standa straum af rekstrarkostnaði hjúkrunarrýma fyrir aldraða rekstrarárin 2012 og 2013.
VI. KAFLI
Breyting á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum.
20. gr.
Almennt.
VII. KAFLI
Gildistaka.
21. gr.
Ákvæði 14. gr. á við um kröfur sem hafa fallið í gjalddaga 1. júlí 2009 eða síðar.
Ákvæði 17. gr. kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2010 vegna tekna ársins 2009.
Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.
Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010. Að venju byggist síðarnefnda frumvarpið meðal annars á ákveðnum forsendum um tekjur og gjöld sem taka mið af stefnu stjórnvalda í efnahags- og ríkisfjármálum. Í fjárlagafrumvarpinu er stefnt að verulegum samdrætti í útgjöldum ríkissjóðs en mikilvægt er að hann megi fram ganga í því skyni að ná þeim markmiðum sem stjórnvöld hafa skuldbundið sig til svo treysta megi stöðu efnahagslífsins. Þær breytingar sem lagt er til að gerðar verði á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, með síðari breytingum, lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, lögum nr. 125/ 1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, og lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, með síðari breytingum, með frumvarpi þessu eru m.a. liður í þeirri viðleitni að ná fram markmiðum ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum.
Auk framangreindra breytinga eru í frumvarpi þessu lagðar til ýmsar aðrar breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra.
Í október 2009 skilaði verkefnisstjórn um endurskoðun almannatrygginga skýrslu til félags- og tryggingamálaráðherra um nýskipan almannatrygginga. Í skýrslunni koma fram margvíslegar tillögur um breytingar á núgildandi lífeyriskerfi. Tillögurnar eru nú til skoðunar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og er stefnt að því að leggja fram frumvarp á vorþingi 2010 sem mun að miklu leyti byggjast á skýrslunni. Hér er um umfangsmikið verk að ræða sem varðar hagsmuni þjóðarinnar og mikilvægt að vanda til verka í því sambandi.
Í því frumvarpi sem nú liggur fyrir eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um almannatryggingar. Hér er bæði um að ræða breytingar sem talið er nauðsynlegt að gera nú og ekki mega bíða þar til fyrrnefndri heildarendurskoðun lífeyriskerfisins er lokið og einnig breytingar sem varða réttaröryggi borgaranna:
1. Valdsvið úrskurðarnefndar almannatrygginga er rýmkað.
2. Hámarksfrestur úrskurðarnefndar almannatrygginga til að kveða upp úrskurði í kærumálum er lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá.
3. Kveðið er á um aðfararhæfi endurkrafna ofgreiddra bóta.
4. Örorkulífeyrir lífeyristrygginga greiðist frá 18 ára aldri í stað 16 ára.
5. Heimilt verður að greiða bætur í einu lagi eftir á óski bótaþegi þess.
6. Breytingar verða gerðar á reglum um innheimtu ofgreiddra bóta.
Samhliða frumvarpinu er gert ráð fyrir að gerðar verði breytingar á reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat og þeim staðli sem er í fylgiskjali með reglugerðinni. Staðallinn kom til framkvæmda fyrir um tíu árum og hafa ekki verið gerðar á honum breytingar síðan. Má því segja að komin sé töluverð reynsla af notkun hans sem byggja má á við endurskoðun. Tekið verður tillit til annmarka og framkominna athugasemda, m.a. frá læknum sem koma að matsferli örorku á vegum Tryggingastofnunar ríkisins, um að núverandi heilsufarsleg skilyrði fyrir mati á fullri örorku séu ekki nógu ítarleg. Er því gert ráð fyrir að reglugerðinni og staðlinum verði breytt á þann hátt að heilsufarsleg skilyrði til að fá örorkumat verði gerð skýrari og ítarlegri. Litið er svo á að um tímabundna breytingu sé að ræða þar til nýtt kerfi verður tekið upp, þar sem áherslan verður lögð á getu fólks til að starfa en ekki byggt á mati á vangetu eins og nú er, jafnframt því sem aukin áhersla verður lögð á starfsendurhæfingu.
Þá eru í frumvarpinu lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð, með síðari breytingum. Um er að ræða breytingar sem varða barnalífeyri vegna náms, umönnunargreiðslur, endurhæfingarlífeyri, uppbætur á lífeyri og bifreiðakostnað. Veigamesta breytingin felst í 11. gr. frumvarpsins þar sem m.a. er gert ráð fyrir að heimilt verði að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Þessar breytingar tengjast að miklu leyti framangreindum breytingum sem fyrirhugað er að gera á örorkumatsstaðlinum og eru í samræmi við þá stefnu stjórnvalda að leggja eigi höfuðáherslu á starfsgetu einstaklinga og möguleika þeirra til starfsendurhæfingar.
Loks eru lagðar til breytingar á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál, sem varða heimildir til að veita fé til reksturs, kaupa eða byggingar hjúkrunarheimila fyrir aldraða.
Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.
Í ákvæðinu er lagt til að valdsvið úrskurðarnefndar almannatrygginga verði rýmkað og að nefndin fái einnig það hlutverk að kveða upp úrskurði sem varða aðrar greiðslur en bætur samkvæmt almannatryggingalögum, t.d. meðlagsgreiðslur, sem og í málum sem varða endurkröfurétt og innheimtu ofgreiddra bóta á grundvelli almannatryggingalaga og laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, sbr. 1. mgr. 14. gr. þeirra laga. Núgildandi ákvæði kveður aðeins á um að nefndin úrskurði í málum ef ágreiningur rís um grundvöll, skilyrði eða upphæð bóta samkvæmt lögunum. Hefur það leitt til þess að nefndin hefur þurft að vísa málum frá, t.d. þegar um er að ræða kærumál vegna meðlagsgreiðslna eða innheimtu ofgreiðslna hjá dánarbúum. Þetta hefur bæði valdið óþægindum og óvissu fyrir kærendur og eins fyrir Tryggingastofnun ríkisins í tengslum við leiðbeiningarskyldu hennar. Talið er mikilvægt fyrir réttaröryggi borgaranna að einnig sé hægt að bera þessi ágreiningsefni undir sjálfstæða og óháða úrskurðarnefnd. Er því lagt til að valdsvið nefndarinnar verði víkkað eins og að framan greinir.
Um 2. gr.
Í a-lið ákvæðisins er gert er ráð fyrir að hámarksfrestur úrskurðarnefndar almannatrygginga til að kveða upp úrskurði í kærumálum verði lengdur úr tveimur mánuðum í þrjá. Búast má við því að fjöldi kærumála aukist töluvert samfara því að valdsvið nefndarinnar verði víkkað, sbr. 1. gr. frumvarps þessa. Samkvæmt gildandi lögum skal nefndin kveða upp úrskurð svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en tveimur mánuðum eftir að henni berst mál. Þessi tími er of skammur þegar hafður er í huga hinn mikli fjöldi mála sem nefndinni berast. Í sumum tilvikum getur efnisleg meðferð málanna verið mjög þung í vöfum og í raun óraunhæft að nefndin geti afgreitt þau mál á skemmri tíma en tveimur mánuðum. Á þetta sérstaklega við þegar litið til þess hversu langan tíma gagnaöflun getur tekið hjá t.d. sjúkrastofnunum og læknum. Því er lagt til að úrskurðarnefndin fái heimild til að afgreiða mál á allt að þremur mánuðum.
Í b-lið ákvæðisins er lagt til að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en stjórnsýslukæra fresti þó aðför á grundvelli ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta, sbr. 55. gr. laganna. Að öðru leyti er vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarps þessa.
Um 3. gr.
Mikilvægt þykir að einfalda innheimtu ofgreiddra bóta skv. 55. gr. laganna frá gildandi fyrirkomulagi sem og að draga úr innheimtukostnaði sem fellur í hlut skuldara láti hann hjá líða að endurgreiða Tryggingastofnun ofgreiddar bætur. Er því lagt til að úrskurðir úrskurðarnefndar almannatrygginga um endurkröfu ofgreiddra bóta verði gerðir aðfararhæfir sem einfaldar innheimtuferlið en samkvæmt lögum nr. 90/1989, um aðför, með síðari breytingum, er gert ráð fyrir að úrskurðir yfirvalda séu aðfararhæfir samkvæmt fyrirmælum laga, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 1. gr. þeirra laga. Niðurstöðu æðra stjórnvalds í kærumáli verður yfirleitt ekki hnikað innan stjórnsýslunnar og gildir það sama um niðurstöðu lægra setts stjórnvalds, sem ekki er kærð til æðra setts stjórnvalds. Er því jafnframt lagt til í 7. gr. frumvarps þessa að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfu ofgreiddra bóta skv. 55. gr. laganna verði einnig aðfararhæfar. Aftur á móti er sá varnagli sleginn að sé ákvörðun Tryggingastofnunar um endurkröfu ofgreiddra bóta kærð til úrskurðarnefndarinnar frestar stjórnsýslukæran aðför, sbr. 2. gr. frumvarps þessa, enda sætir þá sú ákvörðun Tryggingastofnunar endurskoðun æðra setts stjórnvalds og verður þar af leiðandi ekki talin endanleg ákvörðun innan stjórnsýslunnar. Engu síður er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun gæti meðalhófs við innheimtu ofgreiddra bóta og sendi aðila kröfubréf þar sem hlutaðeiganda er veitt tækifæri til að endurgreiða stofnuninni áður en mál hans er sent til frekari innheimtu.
Um 4. gr.
Gert er ráð fyrir að aldursviðmiði örorkulífeyris verði breytt úr 16 ára aldri í 18 ára aldur. Samkvæmt lögræðislögum verða menn lögráða 18 ára og er talið rétt að miða rétt til örorkulífeyris við það aldursmark þannig að ófjárráða einstaklingum séu ekki greiddar örorkubætur. Má einnig benda á að örorkustyrkur skv. 19. gr. laganna er veittur einstaklingum frá 18 ára aldri. Þá eru umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, greiddar til 18 ára aldurs, en nokkur brögð hafa verið að því að tvígreiðslur hafa myndast vegna þessa, þ.e. greiðslur örorkulífeyris til ungmennisins og umönnunargreiðslur til foreldra hafa verið greiddar út samtímis sem ekki er heimilt. Loks miðast greiðslur barnalífeyris skv. 20. gr. almannatryggingalaga við 18 ára aldur, en það er sérstaklega tekið fram í 2. málsl. 5. mgr. 20. gr. laganna að ekki skuli greiða barnalífeyri vegna þeirra barna er njóta örorkulífeyris. Þar sem breyting sú sem hér er lögð til hefur ekki afturvirk áhrif, þ.e. gildir aðeins um þá sem fá greiðslur frá og með gildistöku laganna, er gert ráð fyrir að ákvæðið verði ekki afnumið til að fyrirbyggja tvöfaldar greiðslur til þeirra barna sem hér um ræðir.
Um 5. gr.
Þar sem til stendur að endurskoða IV. kafla almannatryggingalaga um slysatryggingar í heild sinni á næstu mánuðum, sbr. þingmálaskrá heilbrigðisráðherra, er talið rétt að hafa öll aldursviðmið óbreytt hvað slysatryggingar varðar.
Um 6. gr.
Samkvæmt 54. gr. almannatryggingalaga skal greiða bætur fyrsta dag hvers mánaðar og eru bæturnar greiddar fyrir fram í byrjun hvers mánaðar. Útreikningur bóta getur verið mjög flókinn og krefst góðrar samvinnu bótaþega og Tryggingastofnunar ríkisins. Er sérstaklega mikilvægt að bótaþegar upplýsi stofnunina um allar þær breytingar sem kunna að verða á tekjum þeirra til að tryggja að útreikningur bóta sé réttur á hverjum tíma. Sérstaklega hefur það reynst bótaþegum erfitt að áætla fyrir fram hverjar fjármagnstekjur þeirra muni verða. Þetta hefur margoft leitt til þess að við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta kemur í ljós að bætur hafa ýmist verið vangreiddar eða ofgreiddar. Í ákvæðinu er gert ráð fyrir að heimilt verði að fresta greiðslu bóta og greiða bætur í einu lagi eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur umsækjanda eða bótaþega á bótagreiðsluárinu liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Þetta verði þó aðeins gert ef umsækjandi eða bótaþegi óskar þess sérstaklega. Þetta mun hafa þau áhrif að unnt verður að greiða út bætur ársins 2010 í einu lagi í ágúst 2011 þegar álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Í þeim tilvikum er því ekki hætta á því að bætur fyrir árið 2010 verði ofgreiddar eða vangreiddar þar sem eingreiðslan verður ekki innt af hendi fyrr en endanlegar upplýsingar liggja fyrir. Gera má ráð fyrir að það verði sérstaklega þeir sem fá mjög lágar mánaðarlegar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sem sjái sér hag í því að fá greiðslur með þessum hætti, t.d. þeir sem lengi hafa búið erlendis, og einnig þeir sem hafa talsvert háar tekjur sem hafa áhrif á bótarétt þeirra og þurfa ekki nauðsynlega á mánaðarlegum greiðslum lífeyristrygginga að halda.
Um 7. gr.
Í a- og d-lið ákvæðisins er lagt til að orðinu dánarbú verði bætt við í 55. gr. laganna, en með því er verið að taka af allan vafa um að Tryggingastofnun ríkisins sé skylt að endurkrefja dánarbú um ofgreiddar bætur til bótaþega sem hefur látist.
Í b-lið er bætt við ákvæðið orðunum „eða aðrar ástæður“ þar sem það er ekki eingöngu skortur á tekjuupplýsingum sem getur valdið ofgreiðslu bóta heldur einnig ýmsar aðrar ástæður, t.d. ef bótaþegi tilkynnir ekki um breytta hjúskaparstöðu eða flutning til útlanda.
Í c-lið ákvæðisins er lagt til að bætt verði inn í lögin ákvæði um vexti á kröfur vegna ofgreiðslu bóta í þeim tilvikum sem innheimtan tekur lengri tíma en 12 mánuði. Bætur Tryggingastofnunar ríkisins eru ætlaðar til framfærslu og því ber að fara varlega við álagningu vaxta. Af þeim sökum er lagt til að vextirnir verði ákvarðaðir lágir, 5,5%, sem er í samræmi við vexti sem leggjast á vangreiddar bótafjárhæðir. Einnig er lagt til að vextir verði ekki lagðir á nema í þeim tilvikum sem innheimta endurkröfunnar tekur lengri tíma en 12 mánuði frá þeim tíma sem krafa stofnast, sem miðast við þann tíma þegar frestur skuldara til að koma að athugasemdum vegna kröfunnar er liðinn. Ársvextir byrja þannig að reiknast frá fyrsta degi þrettánda mánaðar eftir að krafa hefur stofnast. Jafnframt verður Tryggingastofnun ríkisins heimilt að falla frá kröfum um vexti þegar sérstaklega stendur á. Ákvæðinu er ætlað að vera hvati fyrir einstaklinga til að endurgreiða fjárhæð sem þeir hafa fengið ofgreidda á sem stystum tíma, sem meðal annars dregur úr líkum á því að ofgreiðslur aukist ár frá ári. Að öðru leyti er ákvæðið óbreytt frá 3. mgr. 55. gr. núgildandi laga.
Í e-lið er lagt til að ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurkröfur ofgreiddra bóta verði aðfararhæfar en að öðru leyti er vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarps þessa.
Um 8. gr.
Lagt er til að við útreikning tekjutryggingar til örorkulífeyrisþega haldist frítekjumark vegna atvinnutekna óbreytt skv. 11. tölul. ákvæðis til bráðabirgða eða 1.315.200 kr. á ári sem svarar til 109.600 kr. á mánuði þar sem talið er sérstaklega mikilvægt að stuðla áfram að aukinni atvinnuþátttöku öryrkja í því efnahagsástandi sem nú ríkir.
Enn fremur er lagt til, í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins, að bætur almannatrygginga, svo og meðlagsgreiðslur skv. 63. gr., skuli ekki breytast á árinu 2010 frá því sem nú er.
Um 9. gr.
Í 3. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, með síðari breytingum, er kveðið á um heimild til handa Tryggingastofnun ríkisins að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18–20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru látnir sem og ef annað foreldri eða báðir foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar. Sama gildir ef ekki er unnt að framfylgja úrskurði skv. 1. mgr. 62. gr. barnalaga, sem heimilar sýslumanni að úrskurða að foreldri skuli greiða barni sínu framlag til menntunar eða starfsþjálfunar samkvæmt kröfu þess frá 18 til 20 ára aldurs, vegna efnaleysis foreldris eða ef ekki tekst að hafa uppi á því eða ef ljóst er að ungmenni er ókleift að innheimta greiðslur á grundvelli slíks úrskurðar.
Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna greiðist eingöngu einfaldur barnalífeyrir í framangreindum tilvikum. Þetta leiðir til þess að ungmenni, sem t.d. hafa misst báða foreldra sína, annað foreldrið er látið og hitt er örorkulífeyrisþegi eða báðir foreldrar eru öryrkjar eða geta ekki greitt framlag til menntunar eða starfsþjálfunar vegna efnaleysis, njóta lakari réttar en önnur ungmenni, sem geta á aldrinum 18–20 ára bæði fengið barnalífeyri vegna náms og menntunarframlag. Því er lagt til að 2. málsl. 1. mgr. verði felldur brott svo að öll ungmenni á aldrinum 18–20 ára sem stunda nám njóti jafnræðis hvað þetta varðar.
Um 10. gr.
Í 2. mgr. 4. gr. laganna segir að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna. Þá er kveðið á um að önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerði umönnunargreiðslur. Loks er tekið fram að tryggingalæknar meti þörf samkvæmt ákvæði þessu.
Lagt er til að lokamálsliður 2. mgr., þar sem kveðið er á um mat tryggingalækna, verði felldur brott þar sem það eru í fæstum tilfellum tryggingalæknar sem meta þörf fyrir umönnunargreiðslur eða hvort skilyrði til þeirra séu uppfyllt. Í stað þess komi ný málsgrein sem kveði á um að Tryggingastofnun ríkisins meti þörf fyrir umönnunargreiðslur. Ekki er um efnislega breytingu að ræða heldur er aðeins verið að laga löggjöfina að ríkjandi framkvæmd.
Um 11. gr.
Gert er ráð fyrir breytingum á 7. gr. laga um félagslega aðstoð sem mælir fyrir um endurhæfingarlífeyri. Öryrkjum hefur fjölgað ört á liðnum áratug og sýna rannsóknir að samband er milli aukningar atvinnuleysis og fjölgunar nýskráðra öryrkja. Mikilvægt er að allir sem einhverja starfsgetu hafa eigi kost á endurhæfingarúrræðum sem leiða til aukinna möguleika á atvinnuþátttöku. Efla þarf endurhæfingu þeirra sem búa við skerta starfshæfni og gera þeim þannig mögulegt að komast á ný út á vinnumarkað eða taka á annan hátt virkan þátt í samfélaginu. Það er ekki einvörðungu mikilvægt einstaklinganna sjálfra vegna heldur ekki síður samfélagsins alls að efla endurhæfingu eins og kostur er.
Í fyrsta lagi er lagt til að skýrt verði tekið fram í lögunum að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri til einstaklinga á aldrinum 18 til 67 ára og er það í samræmi við 4. gr. frumvarpsins um aldursmörk örorkulífeyris.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að heimilt verði að framlengja hámarkstímabil endurhæfingarlífeyris, sem er í dag 12 mánuðir með heimild til framlengingar um sex mánuði, í allt að 36 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Hér er einkum átt við ef miklar líkur eru taldar til þess að lengri endurhæfing muni leiða til starfshæfni einstaklingsins og þannig verði komið í veg fyrir varanlega örorku.
Þá er lagt til að fellt verði brott skilyrði um að greiðslur sjúkra- eða slysadagpeninga séu nauðsynlegur undanfari endurhæfingarlífeyris. Í stað þess er lagt til að bætt verði við ákvæðið skilyrði um að umsækjandi hafi tæmt rétt sinn til greiðslu launa frá atvinnurekanda, atvinnuleysisbóta eða greiðslna frá sjúkrasjóði stéttarfélags. Greiðslur endurhæfingarlífeyris hefjast þá í fyrsta lagi eftir að kjarasamningsbundinna réttinda nýtur ekki lengur við. Fái viðkomandi einnig sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins stöðvast greiðslur þeirra þegar greiðsla endurhæfingarlífeyris hefst. Tekið skal fram að þeir sem ekki hafa verið á vinnumarkaði geta einnig fengið greiddan endurhæfingarlífeyri, eins og nú er.
Í 3. mgr. er gert ráð fyrir að sömu reglur gildi um búsetutíma, fjárhæðir og tekjutengingar endurhæfingarlífeyris og gilda um örorkulífeyri skv. 18. gr. laga um almannatryggingar. Helsta efnislega breytingin sem í þessu felst er sú að gerð er krafa um lágmarksbúsetutíma á Íslandi áður en heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris getur myndast og enn fremur að endurhæfingarlífeyrir greiðist í hlutfalli við búsetu hér á landi með sama hætti og örorkulífeyrir. Er talið eðlilegt og sanngjarnt að sömu kröfur séu gerðar um búsetutíma hér á landi hvort sem um er að ræða örorku- eða endurhæfingarlífeyri. Þá er í ákvæðinu sérstaklega tekið fram að uppbætur til bifreiðakaupa greiðast ekki til endurhæfingarlífeyrisþega, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna, enda greiðast þær uppbætur aðeins á fimm ára fresti og eru ætlaðar þeim sem eru hreyfihamlaðir til langframa.
Þá er í 3. mgr. ákvæðisins lagt til að lokamálsliður 2. mgr. 7. gr. laganna, sem kveður á um að sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni hafi ekki áhrif á bótagreiðslur, verði óbreyttur en að vegna lengingar á hámarkstímalengd endurhæfingarlífeyris verði því bætt við ákvæðið að um sé að ræða sjúkrahúsvist að hámarki eitt ár samfellt. Verður að telja eðlilegt að sjúkrahúsvist sem nær yfir lengri tíma en eitt ár samfellt leiði til þess að greiðslur endurhæfingarlífeyris falli niður.
Að lokum er gert ráð fyrir að kveðið verði sérstaklega á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með framkvæmd endurhæfingarinnar, þ.e. að sinna eftirfylgni við endurhæfingaráætlun og meta árangur hennar. Þá er lögð á það sérstök áhersla að stofnunin hafi eftirlit með því að greiðslur endurhæfingarlífeyris renni eingöngu til þeirra sem uppfylli skilyrði laganna til greiðslna.
Með þessum breytingum er lögð aukin áhersla á mikilvægi starfsendurhæfingar en með endurhæfingu aukast líkur á að einstaklingurinn skili sér aftur á atvinnumarkað að endurhæfingu lokinni. Nýtt vinnulag með góðri framkvæmd og eftirliti eykur líkur á að endurhæfingu sé fylgt eftir og færri einstaklingar verði öryrkjar til langframa.
Um 12. gr.
Lagt er til að sú breyting verði gerð á orðalagi 9. gr. laga um félagslega aðstoð, hvað varðar heimild til að greiða frekari uppbætur til elli- og örorkulífeyrisþega, að skýrt sé kveðið á um að ákvæðið taki til allra lífeyrisþega. Hér er um heimildarákvæði að ræða þar sem byggt er á mati á þörf að teknu tilliti til aðstæðna lífeyrisþegans. Í 1. mgr. er fjallað um uppbót vegna kostnaðar. Sérstaklega er tekið fram að uppbótinni sé ætlað að mæta kostnaði sem lífeyrisþegar verða fyrir og ekki fæst bættur á annan hátt. Hér getur t.d. verið um að ræða umönnunarkostnað sem opinberir aðilar greiða ekki, sjúkra- eða lyfjakostnað sem sjúkratryggingar greiða ekki, vistunarkostnað o.fl. Í reglugerð nr. 595/1997, um heimilisuppbót og frekari uppbætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, með síðari breytingum, er kveðið nánar á um framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu uppbótar samkvæmt þessu ákvæði.
Í 2. mgr. er fjallað um sérstaka uppbót vegna framfærslu lífeyrisþega. Lagt er til að ákvæði reglugerðar nr. 878/2008, um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega, með síðari breytingu, verði felld inn í lögin. Reglugerð þessi kom til framkvæmda frá og með 1. september 2008. Með gildistöku hennar var þeim lífeyrisþegum, sem búa einir og höfðu heildartekjur undir 150.000 kr. á mánuði, tryggð lágmarksupphæð til framfærslu ef þeir gátu sýnt fram á að þeir gætu ekki framfleytt sér án þess. Miðað var við að þeir lífeyrisþegar sem ekki byggju einir þyrftu að hafa heildartekjur undir 128.000 kr. á mánuði til þess að geta átt tilkall til sérstakrar uppbótar. Með reglugerð nr. 1192/2008, um (1.) breytingu á reglugerð nr. 878/ 2008 um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega, sem tók gildi um síðustu áramót, var fjárhæð tekjumarka hækkuð og er uppbótin nú greidd þeim lífeyrisþegum sem búa einir og hafa heildartekjur undir 180.000 kr. á mánuði. Hjá þeim lífeyrisþegum sem ekki búa einir eru tekjumörkin 153.500 kr. á mánuði. Ekki er gert ráð fyrir efnislegum breytingum á núgildandi reglugerð eða framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins, heldur er tilgangur ákvæðisins að lögfesta ákvæði um lágmarksupphæð til framfærslu lífeyrisþega.
Gert er ráð fyrir að allar skattskyldar tekjur teljist til tekna skv. 3. mgr. ákvæðisins, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Sama gildir um erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Eingreiðslur til lífeyrisþega (orlofs- og desemberuppbætur) eru þó undanþegnar þessari reglu. Er þetta í samræmi við framangreindar reglugerðir og framkvæmdina, en greiðsla uppbóta á lífeyri kemur aðeins til greina þegar heildartekjur lífeyrisþega eru það lágar að sýnt þykir að lífeyrisþegi geti ekki framfleytt sér án uppbótar. Því er talið eðlilegt að bætur almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar teljist til heildartekna í því sambandi.
Í 4. mgr. er sérstaklega tekið fram að Tryggingastofnun ríkisins meti þörf samkvæmt ákvæðinu.
Um 13. gr.
Lagt er til að í 1. og 3. mgr. 10. gr. laganna sem kveða á um greiðslur uppbóta og styrkja til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða verði bætt við ákvæðum sem kveða á um það tímabil sem þarf að líða á milli slíkra greiðslna, þ.e. fimm ár. Er það í samræmi við núgildandi reglugerð nr. 170/2009, um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Ástæða þess að nú er lagt til að þetta tímabil verði lögfest er sú að í áliti umboðsmanns Alþingis frá 1. desember 2008, í máli nr. 5132/2007, kemur fram að tímaskilyrði 5. mgr. 5. gr. þágildandi reglugerðar um að styrki til bifreiðakaupa megi veita á fimm ára fresti hafi ekki átt fullnægjandi lagastoð í þágildandi a-lið 1., sbr. 3. mgr. 38. gr. laga nr. 100/2007, um almannatryggingar, sbr. áður 33. gr. laga nr. 117/1993. Á þeim tíma sem álit umboðsmanns Alþingis var í vinnslu tóku ný lög um sjúkratryggingar gildi, sbr. lög nr. 112/2008. Með þeim lögum voru styrkir vegna bifreiðakaupa færðir úr lögum um almannatryggingar yfir í 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og þá jafnframt kveðið á um að styrkir til kaupa á bifreiðum yrðu heimildarákvæði á sama hátt og uppbætur til bifreiðakaupa. Í samræmi við framangreint álit umboðsmanns Alþingis er því lagt til að fyrrgreindum tímaskilyrðum verði bætt við lagaákvæðin til þess að taka af allan vafa um fullnægjandi lagastoð ákvæða reglugerðarinnar.
Um 14. gr.
Lagt er til að ákvæði 8. gr. laga nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, með síðari breytingum, verði breytt þannig að það verði efnislega eins og það var fyrir þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, og tóku gildi 29. júní 2009. Er því lagt til að kröfur þær sem Ábyrgðasjóður launa ábyrgist skv. a–d-lið 5. gr. laganna beri vexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, eins og verið hefur frá gjalddaga þeirra til þess dags er Ábyrgðasjóður launa greiðir kröfuna. Er gert ráð fyrir að ákvæði þetta gildi um kröfur sem fallið hafa í gjalddaga 1. júlí 2009 og síðar, sbr. 2. mgr. 21. gr. frumvarps þessa, og er því tryggt að allar kröfur sem Ábyrgðasjóður launa ábyrgist skv. a–d-lið 5. gr. laganna beri vexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu óháð því hvenær þær hafa fallið í gjalddaga innan ábyrgðatímabils laganna.
Um 15. gr.
Í því skyni að koma til móts við þann kostnaðarauka sem af því hlýst að Ábyrgðasjóður launa greiði vexti af kröfum sem hann ábyrgist skv. 5. gr. laganna, sbr. 14. gr. frumvarps þessa, er lagt til að ábyrgðargjaldið sem stendur straum af fjármögnun Ábyrgðasjóðs launa skv. 23. gr. laganna verði hækkað úr 0,2% í 0,25% af gjaldstofni þess. Með þessari hækkun á ábyrgðargjaldinu mun gjaldið jafnframt standa betur undir áætluðum útgjöldum Ábyrgðasjóðs launa en ella hefði verið. Áætluð útgjöld sjóðsins eru 1.773 millj. kr. samkvæmt frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010.
Um 16. gr.
Um a-lið (ákvæði til bráðabirgða I).
Lagt er til að foreldrar eigi áfram rétt til fæðingarorlofs, þ.e. leyfis frá störfum vegna fæðingar barns, frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur, í samtals níu mánuði skv. 8. gr. laganna þannig að hvor foreldra um sig eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í þrjá mánuði og sameiginlegur réttur þeirra verði þrír mánuðir. Foreldrar geta þannig nýtt sér alla níu mánuðina á fyrstu 36 mánuðunum í lífi barns eða 36 mánuðunum eftir að barn kom inn á heimili vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur. Hins vegar er lagt til að greiðslum skv. 13. gr. laganna vegna þriðja sameiginlega mánaðarins verði frestað þar til barnið nær 36 mánaða aldri þegar réttur til fæðingarorlofs stofnast vegna fæðingar. Skal þá miða við afmælisdag barns. Í tilvikum er réttur til fæðingarorlofs stofnast vegna frumættleiðingar eða töku í varanlegt fóstur er miðað við að greiðslur frestist þar til að 36 mánuðum liðnum eftir að barn kom inn á heimili. Er gert ráð fyrir að foreldrar geti nýtt þennan rétt sinn á næstu 24 mánuðum þar á eftir eða þar til barnið verður fimm ára enda hafi foreldrar ekki þegar nýtt sér allan rétt sinn til fæðingarorlofs skv. 8. gr. Miðað er við að sama viðmiðunartímabil skv. 13. gr. laganna eigi þá við og átti við um aðrar greiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóði vegna sama barns. Engu síður er gert ráð fyrir að félags- og tryggingamálaráðherra verði heimilt að setja í reglugerð með hvaða hætti skuli reikna þær fjárhæðir sem foreldrar eiga rétt á skv. 13. gr. til núgildis á þeim tíma er réttur þessi er nýttur, með tilliti til þróunar launa, verðlags og efnahagsmála. Í tilvikum þegar foreldrar kjósa að nýta sér allan rétt sinn til fæðingarorlofs á fyrstu 36 mánuðunum er þeim heimilt að óska eftir því að greiðslum verði dreift á níu mánuði í stað átta mánaða þannig að komi til lægri greiðslna á því tímabili. Áhersla er lögð á að um tímabundnar aðgerðir er að ræða og því lagt til að ákvæði þessi gildi um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu frá 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2011 enda markmiðið að aftur verði teknar upp óbreyttar greiðslur fyrir alla þá mánuði sem foreldrar eiga rétt á í fæðingarorlof eins og verið hefur um leið og aðstæður í ríkisfjármálum leyfa.
Um b- og c-lið (ákvæði til bráðabirgða II og III).
Lagt er til að greiðsla fæðingarstyrks fyrir einn mánuð af sameiginlegum rétti foreldra frestist þar til barnið nær 36 mánaða aldri þegar réttur til fæðingarstyrks stofnast vegna fæðingar eða 36 mánuðum eftir að barn kom inn á heimili þegar rétturinn stofnast vegna frumættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur. Foreldrum er heimilt að nýta sér rétt sinn skv. 1. málsl. á næstu 24 mánuðum þar á eftir. Þessi breyting er til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í a-lið. Á sama hátt og gildir um þær breytingar sem lagðar eru til í a-lið er áhersla lögð á að um tímabundnar aðgerðir er að ræða í ljósi aðstæðna í ríkisfjármálum og því lagt til að þær gildi eingöngu um foreldra barna sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu frá 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2011.
Um 17. gr.
Í a-lið ákvæðisins er lagt til að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra samkvæmt lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, verði hækkað um 866 kr., um 11,5%, og nemi 8.400 kr. á hvern gjaldanda í stað 7.354 kr. samkvæmt gildandi lögum. Gjaldið kemur til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2010 vegna tekna ársins 2009.
Samkvæmt b-lið ákvæðisins er gert ráð fyrir hækkun fjárhæðar skv. 2. mgr. 10. gr. laganna þar sem vísað er til tekjuviðmiðs sem notað er til að ákvarða þá sem undanþegnir eru gjaldinu.
Um 18. gr.
Lagt er til að 4. málsl. 1. mgr. 23. gr. laganna verði breytt en í ákvæðinu kemur m.a. fram að daggjaldastofnanir skuli innheimta hjá vistmanni sjálfum í byrjun hvers mánaðar daglegan hlut hans í dvalarkostnaði. Þá segir: „Nú vanrækir stofnun þessa innheimtu og er Tryggingastofnun þá heimilt að halda eftir samsvarandi hluta af mánaðarlegum greiðslum vistunarframlags til viðkomandi stofnunar.“ Ákvæði þetta hefur verið túlkað þannig að takist daggjaldastofnun ekki að innheimta hlut vistmanns í dvalarkostnaði sé Tryggingastofnun ríkisins heimilt að halda eftir samsvarandi hluta af mánaðarlegum greiðslum vistunarframlags til viðkomandi stofnunar. Ekki er gert ráð fyrir breytingu á þessari heimild Tryggingastofnunar en aftur á móti þykir ljóst að ekki sé rétt að tala um vanrækslu stofnana þótt þeim takist í einhverjum tilfellum ekki að innheimta hlut vistmanna í dvalarkostnaði.
Um 19. gr.
Gert er ráð fyrir að við lög nr. 125/1999, um málefni aldraðra, með síðari breytingum, bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða þar sem kveðið er á um að á tímabilinu frá 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2010 sé unnt að óska eftir því við Tryggingastofnun ríkisins að stofnunin geri samanburð á útreikningi á kostnaðarþátttöku vistmanna fyrir og eftir gildistöku laga nr. 166/2006 og laga nr. 17/2008. Með lögum nr. 166/2006 var dregið úr tengingum við tekjur maka vistmanna og þær síðar afnumdar með lögum nr. 17/2008. Leiði samanburðurinn til aukinnar kostnaðarþátttöku vistmanns frá því sem var fyrir gildistöku þeirra laga skal leiðrétta vistunarframlag vegna ársins 2010 til samræmis við það. Sú niðurstaða sem er hagstæðari fyrir vistmanninn verður því ætíð valin við útreikning á kostnaðarþátttöku hans og útreikning vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Hér er um framlengingu á sams konar ákvæði að ræða, en gildandi ákvæði um heimild til samanburðar á útreikningi á kostnaðarþátttöku vistmanna samkvæmt eldri og yngri lögum, sbr. ákvæði til bráðabirgða V, rennur út 1. janúar 2010.
Þá er í nýju ákvæði til bráðabirgða kveðið á um að Framkvæmdasjóði aldraðra verði veitt tímabundin heimild til að kosta rekstur hjúkrunarrýma aldraðra en sú heimild hefur ekki verið fyrir hendi. Ástæða þessara ráðstafana er fjárhagsvandi ríkissjóðs og sparnaðarkrafa fjárlagaheimilda. Um er að ræða tímabundið framlag úr Framkvæmdasjóði aldraðra vegna rekstrarkostnaðar við 60 ný hjúkrunarrými frá ársbyrjun 2012 til ársloka 2013. Ríkissjóður mun svo í ársbyrjun 2014 taka við þessum rekstrarkostnaði og rekstur þeirra þá falla undir fjárlagaheimildir til reksturs hjúkrunarheimila. Áætlaður kostnaður Framkvæmdasjóðs aldraðra er um 7 millj. kr. á hvert hjúkrunarrými, alls 420 millj. kr. á hvort ár.
Um 20. gr.
Ákvæðið mælir fyrir um sérstaka heimild Íbúðalánasjóðs til að lána sveitarfélögum fyrir framkvæmdakostnaði við að koma upp hjúkrunarrýmum fyrir aldraða. Tiltekið er sérstaklega að lánið getið numið öllum framkvæmdakostnaði og lánstími er ákveðinn allt að 40 árum.
Um 21. gr.
Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.
Fylgiskjal.
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar,
lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa,
lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra
og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum.
Helstu breytingarnar í frumvarpinu á lögum um almannatryggingar og félagslega aðstoð eru fyrsta lagi að lagt er til að aldursviðmið örorkulífeyris verði hækkað úr 16 ára aldri í 18 ára aldur. Áætlað er að þessi breyting lækki útgjöld vegna örorkulífeyris um 90 m.kr. en á móti er áætlað að útgjöld vegna umönnunargreiðslna aukist um 30 m.kr. á ári. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á innheimtu ofgreiddra bóta í almannatryggingum til einföldunar á innheimtuferlinu. Í þriðja lagi er kveðið á um að bætur almannatrygginga skuli ekki hækka á árinu 2010 þrátt fyrir verðlagsviðmið samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í fjórða lagi er í frumvarpinu gert ráð fyrir að greiðslur á barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmenna 18 til 20 ára verði rýmkaðar þannig að heimilt verði að greiða ungmennum tvöfaldan barnalífeyri. Áætlað er að sú breyting muni auka útgjöld ríkissjóðs um 24 m.kr. Í fimmta lagi er lagt til að hægt verði að greiða endurhæfingarlífeyrir í allt að 18 mánuði í stað 12 mánaða samkvæmt gildandi lögum og að auk þess verði hægt að framlengja það tímabil um 18 mánuði í stað 6 mánaða. Reynslan sýnir að meiri hluti þeirra sem þegið hafa endurhæfingarlífeyrir fara að því loknu á varanlega örorku en endurhæfingarlífeyri og almennur örorkulífeyrir gefa jafnháar bætur. Á árinu 2008 fóru um 60% af þeim sem voru með endurhæfingarlífeyri inn á varanlegar örorkubætur en nú eru um 1.300 manns með endurhæfingarlífeyri. Óljóst er hvort þessi breyting hafi veruleg áhrif á útgjöld ríkissjóðs. Ef aukinn tími í endurhæfingu skilar fólki frekar aftur út á vinnumarkaðinn í stað þess að það fari varanlega á örorkubætur gæti dregið úr útgjöldum ríkissjóðs. Haldist tilfærsla fólks úr endurhæfingarlífeyri yfir í almennan örorkulífeyri hins vegar óbreytt þá gætu útgjöld ríkissjóðs aukist til lengri tíma litið. Fjármálaráðuneytið hefur ekki forsendur til að meta þetta frekar. Að öðru leyti verða markmið um samdrátt í útgjöldum almannatrygginga útfærð með breytingum á reglugerð og skilvirkara eftirliti með bótagreiðslum.
Með breytingum á lögum um Ábyrgðasjóð launa er lagt til í fyrsta lagi að gerð verði sú breyting á lögum að kröfur í bú vinnuveitanda sem sjóðurinn ábyrgist, þ.e. kröfur launamanna um vinnulaun, orlofslaun og bætur vegna launamissis og kröfur lífeyrissjóða vegna lífeyrisiðgjalda, beri almenna vexti skv. 4. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001. Miðað er við að þessi breyting eigi við um kröfur sem hafa fallið í gjalddaga 1. júlí 2009 eða síðar. Með þessari breytingu er gert ráð fyrir að ákvæði laganna verði færð í sama horf og þau voru fyrir þær breytingar sem gerðar voru með lögum nr. 70/2009, um ráðstafanir í ríkisfjármálum, á sl. sumarþingi. Sú breyting fól í sér niðurfellingu vaxtagreiðslna á lífeyrisiðgjöldum og átti að lækka vaxtagjöld sjóðsins um 70 m.kr. á ári. Breytingin var liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr ríkisútgjöldum. Gert hefur verið ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2010. Í öðru lagi er lagt til að ábyrgðargjaldið sem sjóðurinn er fjármagnaður með verði hækkað úr 0,2% af tryggingagjaldsstofni í 0,25% eða um 0,05%. Á sl. sumarþingi hafði gjaldið áður verið hækkað um 0,1%. Reikna má með að tekjur ríkissjóðs aukist árlega um 357 m.kr. í kjölfar 0,05% hækkunar á gjaldprósentunni miðað við áætlun fjárlagafrumvarps 2010 um tryggingagjaldsstofninn. Þar af er áætlað að hækkun á launakostnaði rekstraraðila sem fjármagnaðir eru úr ríkissjóði nemi samtals um 70 m.kr. þótt hækkunin verði óveruleg hjá hverjum og einum. Því til viðbótar má gera ráð fyrir að vaxtagjöld Ábyrgðasjóðs launa verði 70 m.kr. meiri en að óbreyttum lögum. Verði þessi ákvæði frumvarpsins að lögum munu útgjöld ríkisins því aukast um samtals 140 m.kr. á ári. Á móti vegur að tekjur aukast um 357 m.kr. þannig að telja má að afkoma ríkissjóðs muni batna um 217 m.kr. á ársgrundvelli.
Lögð er til sú breyting á lögum um fæðingar- og foreldraorlof að greiðsla fyrir einn mánuð af níu af rétti til fæðingarorlofs frestist í 36 mánuði frá því að réttur til fæðingarorlof stofnast. Nánar tiltekið er hér um að ræða einn af þremur sameiginlegum mánuðum móður eða föður í fæðingarorlofi. Tillagan gildir um börn sem fæðast, eru ættleidd eða tekin í varanlegt fóstur á tímabilinu 1. janúar 2010 til og með 31. desember 2011. Áætlað er að þessi breyting fresti sem nemur um 1.200 m.kr. af útgjöldum ríkissjóðs á ári í a.m.k. 36 mánuði. Lækkun útgjaldanna verður þó ekki varanleg þar sem þau munu að óbreyttu aukast aftur um sömu fjárhæð á ári frá og með árinu 2013.
Í breytingum á lögum um málefni aldraðra er m.a. kveðið á um að gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækki á næsta ári um 11,5% í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins 2010. Auk þess er lagt til að sjóðnum verði heimilt að verja fé til að standa straum af rekstrarkostnaði við hjúkrunarrými árin 2012 og 2013. Tilgangurinn með því er að gera það heimilt að sjóðurinn geti tímabundið staðið undir rekstri tiltekins fjölda rýma vegna áforma um fjölgun rýma og fækkun fjölbýla með leigufyrirkomulagi sem er til skoðunar.
Loks er í frumvarpinu lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita sveitarfélögum lán til allt að 40 ára sem nemi allt að 100% af framkvæmdarkostnaði við kaup eða byggingu hjúkrunarheimila fyrir aldraða. Tengist það áforum sem eru til skoðunar um uppbyggingu hjúkrunarrýma með leigufyrirkomulagi eins og áður segir. Miðað við þær áætlanir sem liggja fyrir má gera ráð fyrir að heildarlánveitingarnar gætu numið í krinum 9 milljörðum kr. og mundu ábyrgðir ríkisins aukast sem því næmi.
Verði frumvarpið óbreytt að lögum er áætlað að útgjöld ríkissjóðs muni lækka tímabundið árin 2010 til 2012 um samtals 1.290 m.kr. á ársgrundvelli. Á móti er áætlað að önnur útgjöld aukist um samtals 194 m.kr. og verði því nettóáhrifin samtals um 1.096 m.kr. til lækkunar. Þar að auki er áætlað að tekjur ríkissjóðs aukist um 357 m.kr. og mun því afkoma ríkissjóðs batna um samtals 1.453 m.kr. Þar af er þó 1.200 m.kr. einungis frestun á útgjöldum í tvö ár um a.m.k. 36 mánuði. Útgjaldabreytingin í fæðingarorlofssjóði er hér til samræmis við áætlaða hagræðingu í frumvarpi til fjárlaga 2010 en í almannatryggingum á enn eftir útfæra hagræðingu til samræmis við fjárlagafrumvarpið en þar var gert ráð fyrir samtals 750 m.kr. hagræðingu.