Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 286. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Prentað upp.

Þskj. 330  —  286. mál.
Texti.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Frá forsætisnefnd.



1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. laganna:
     a.      4. málsl. 1. mgr. orðast svo: Skýrslunni skal skilað fyrir lok janúar 2010.
     b.      Í stað 2. og 3. mgr. koma fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Alþingi kýs níu þingmenn í nefnd til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar og móta tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum hennar.
                  Um þingmannanefndina gilda ákvæði þingskapa um fastanefndir, eftir því sem við á, en nefndin setur sér að öðru leyti verklagsreglur. Hún gefur Alþingi skýrslu um störf sín, sbr. 26. og 31. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, getur lagt fram tillögur að öðrum þingmálum eftir því sem efni máls krefur og fylgt eftir ábendingum í skýrslunni um úrbætur á reglum með því að vísa þeim til viðkomandi fastanefndar ef ástæða er til.
                  Ef nefndin telur nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga um einstök atriði getur hún falið einum eða fleiri sérfróðum aðilum að rannsaka þau og gefa sér skýrslu um niðurstöðuna. Reglur II., III. og VI. kafla laga þessara gilda um slíka framhaldsrannsókn eftir því sem við á, þar á meðal um rannsóknarheimildir, þagnarskyldu og birtingu upplýsinga sem háðar eru þagnarskyldu.
                  Nefndin skal svo fljótt sem auðið er taka afstöðu til þess hvort einhverjum hluta rannsóknargagna verði skilað síðar til Þjóðskjalasafns en áætlað er, sbr. 5. mgr. 17. gr., út af fyrirhugaðri framhaldsrannsókn. Þeir sem annast framhaldsrannsókn eiga aðgang að gögnum sem rannsóknarnefndin hefur aflað að því marki sem nauðsynlegt er í þágu rannsóknarinnar.

2. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 18. gr. og orðast svo:
    Rannsóknarnefndin afhendir Þjóðskjalasafni Íslands þá gagnagrunna sem orðið hafa til í störfum hennar, sbr. 5. mgr. 17. gr. Rannsóknarnefndin tekur ákvörðun um hverjum af þeim gögnum sem nefndin hefur safnað ber að skila sem gagnagrunni samkvæmt þessu ákvæði og hvaða upplýsingar koma þar fram. Þjóðskjalasafni Íslands er heimilt að gera samning við aðra ríkisstofnun á grundvelli 30. gr. fjárreiðulaga um að rækja starfsskyldur safnsins um ákveðinn tíma samkvæmt ákvæðum þessarar greinar.
    Þjóðskjalasafn varðveitir upprunalega gagnagrunna og er óheimilt að veita aðgang að upplýsingum úr þeim þar til reglur upplýsingalaga um aðgang að gögnum um einkamálefni einstaklinga leyfa.
    Þjóðskjalasafni Íslands er heimilt að afhenda afrit af gagnagrunnum sem hafa að geyma ópersónugreinanlegar upplýsingar og upplýsingar sem ekki verða raktar til nafngreindra fyrirtækja. Óheimilt er að afhenda afrit af öðrum gagnagrunnum um bankahrunið.
    Taka skal sérstakt afrit af gagnagrunnunum til fræðilegra rannsókna þar sem afmáð eru persónuauðkenni launaupplýsinga. Persónuvernd skal taka afstöðu til þess hvort afmá beri önnur persónueinkenni úr gagnagrunnunum eða nota aðrar aðferðir til þess að vernda persónuupplýsingar. Þjóðskjalasafn Íslands ber kostnað af vinnu Persónuverndar.
    Þjóðskjalavörður getur heimilað aðgang að afriti skv. 4. mgr. í öruggri aðstöðu safnsins til þess að gera fræðilega rannsókn, enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:
     a.      ábyrgðarmaður rannsóknar og aðrir sem sjá um tölvuvinnslu á hans vegum heiti því að gæta þagmælsku um þær persónugreinanlegu upplýsingar sem þeir fá aðgang að sem og fjárhagsupplýsingar sem rekja má til nafngreindra fyrirtækja og undirriti skriflega yfirlýsingu þar um,
     b.      þær upplýsingar sem veittur er aðgangur að verði ekki birtar í rannsóknaniðurstöðum á persónugreinanlegan hátt eða þær raktar til nafngreindra fyrirtækja,
     c.      virtar séu í hvívetna öryggisreglur sem þjóðskjalavörður skal setja um gagnagrunnana í samræmi við ákvæði 11. gr. laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.
    Þjóðskjalavörður getur sett frekari skilyrði um hvernig haga beri aðgangi að gagnagrunnunum að fenginni umsögn Persónuverndar, m.a. til þess að tryggja öryggi gagnanna.
    Í umsókn ábyrgðarmanns skal gera ítarlega grein fyrir markmiði rannsóknarinnar, fræðilegu gildi hennar og hvernig staðið verði að framkvæmd hennar.
    Ákvæði laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga gilda að öðru leyti um gagnagrunna um bankahrunið, þ.m.t. eftirlit og úrræði Persónuverndar.
    Ábyrgðarmaður rannsóknar, sem óskar eftir að gera fræðilega rannsókn á gagnagrunnum um bankahrunið, skal greiða fyrir allan kostnað sem hlýst af framkvæmd rannsóknarinnar og eftirliti með því að reglum og skilmálum sé fylgt. Þurfi Þjóðskjalasafn að kalla til sérfræðing við framkvæmd eða eftirlit með rannsókninni skal ábyrgðarmaður rannsóknar jafnframt greiða þann kostnað samkvæmt reikningi.
    Ef maður, sem fengið hefur leyfi til þess að gera fræðilega rannsókn, eða annar aðili sem vinnur að rannsókninni brýtur ákvæði 5. eða 6. mgr. varðar það sektum eða fangelsi allt að þremur árum. Sömu refsingu varðar það að gera rannsókn án leyfis eða á annan hátt en sótt var um.
    Nú brýtur maður 5. eða 6. mgr. af ásetningi eða gáleysi og má þá dæma hann til að greiða þeim sem upplýsingarnar varða bætur fyrir fjártjón og miska.

3. gr.

    Við lögin bætist ný grein sem verður 19. gr. og orðast svo:
    Kröfum í einkamáli og málum skv. 2. og 3. tölul. 242. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, með síðari breytingum, út af atriðum er koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar eða öðrum skýrslum eða frásögnum í tengslum við rannsóknina, verður ekki beint gegn þeim einstaklingum sem unnið hafa að rannsókninni. Sama gildir ef mál er höfðað út af málsmeðferð í tilefni af henni. Íslenska ríkið ber ábyrgð á athöfnum þeirra eftir almennum reglum hvort sem mál er höfðað fyrir innlendum eða erlendum dómstóli. Verði mál höfðað fyrir erlendum dómstóli gegn einstaklingi sem unnið hefur að rannsókninni, þrátt fyrir 1. málsl., greiðir íslenska ríkið allan kostnað hans við rekstur málsins og aðrar áfallnar kröfur af því tilefni.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar og viðbætur við lög nr. 142/2008, um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða. Þær miða fyrst og fremst að því að búa í haginn fyrir framlagningu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið og skýra hvað gerist í kjölfarið. Í fyrsta lagi er frestur nefndarinnar til að skila skýrslu færður til janúarloka í samræmi við beiðni nefndarinnar um lengri tíma til að ljúka úrvinnslu gagna og ganga frá skýrslunni til Alþingis. Í öðru lagi eru sett inn í lögin fyrirmæli um meðferð Alþingis á skýrslunni en samkomulag hefur orðið innan forsætisnefndar um fyrirkomulag þeirrar meðferðar. Í þriðja lagi er bætt við ákvæði um varðveislu og aðgang að þeim viðamiklu rafrænu gagnagrunnum sem orðið hafa til í vinnu rannsóknarnefndarinnar. Í fjórða og síðasta lagi er þeim einstaklingum sem unnið hafa að rannsókninni tryggð ákveðin friðhelgi gegn hugsanlegum málsóknum út af starfi þeirra í þágu rannsóknarinnar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 4. málsl. 1. mgr.15. gr. laganna segir að stefnt skuli að því að skýrslu rannsóknarnefndarinnar verði skilað til Alþingis eigi síðar en 1. nóvember 2009. Ákvæðið lýsir því ákveðnu markmiði um hvenær vinnu nefndarinnar ljúki. Nú liggur fyrir að þessu markmiði verði ekki náð enda hefur gagnaöflun af ýmsum ástæðum reynst umfangsmeiri og tímafrekari en áætlað var. Rannsóknarnefndin hefur lagt mat á hve langan viðbótartíma hún þurfi til að ganga frá skýrslunni og telur að unnt verði að skila henni fyrir janúarlok. Hér er því lagt til að lögfestur verði skilafrestur sem taki mið af þessu mati nefndarinnar.
    Samkvæmt 2. og 3. mgr. 15. gr. laganna er skýrt að skýrsla rannsóknarnefndarinnar skuli tekin til umfjöllunar á Alþingi. Þar er þó ekki fjallað nema að litlu leyti um fyrirkomulagið. Í frumvarpi þessu, sem samkomulag hefur orðið um innan forsætisnefndar, er meðferð skýrslunnar markaður ákveðinn farvegur innan þingsins. Með því er leitast við að hún fái vandaða og ítarlega meðferð á Alþingi og að viðbrögð þingsins verði bæði fumlaus og skýr.
    Lagt er til að níu þingmenn verði kosnir í nefnd til að fjalla um skýrsluna og móta viðbrögð Alþingis við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar. Í núgildandi skipulagi þingsins er engri fastanefnda Alþingis falið að annast mál er tengjast eftirlitshlutverki Alþingis eða þeim markaður ákveðinn farvegur innan þingsins. Því þarf að sérsníða þá meðferð sem skýrslan fær. Ekki er talið heppilegt að fela einhverri fastanefnd þingsins eða forsætisnefnd þetta erfiða og umfangsmikla verkefni. Með kosningu sérstakrar nefndar gefst flokkunum jafnframt færi á því að velja sérstaklega þá fulltrúa sem verður trúað fyrir þessu mikilvæga verkefni. Í þessu sambandi telur forsætisnefnd afar æskilegt að þingflokkarnir komist að samkomulagi um skipan eins lista er boðinn verður fram þannig að tryggt verði að þeir eigi allir fulltrúa í þingmannanefndinni.
    Miðað er við að þingmannanefndin taki skýrsluna í heild til umfjöllunar. Því er horfið frá því fyrirkomulagi, sem kveðið er á um í 15. gr. núgildandi laga, að forsætisnefnd vísi tillögum rannsóknarnefndarinnar um úrbætur á lögum og reglum til fastanefnda en að forseti og formenn þingflokkanna fjalli um skýrsluna að öðru leyti og geri tillögu um meðferð Alþingis á niðurstöðum hennar.
    Viðfangsefni þingmannanefndarinnar og þingsins í heild munu ráðast af umfjöllun rannsóknarnefndarinnar og niðurstöðum hennar. Sú umfjöllun markast af verkefnum rannsóknarnefndarinnar eins og þau voru skilgreind í 1. gr. laganna. Meðal þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar skipun nefndarinnar var að fagleg greining á ástæðum bankahrunsins þyrfti að liggja til grundvallar almennu pólitísku uppgjöri málsins. Væntingar standa til þess að á grunni skýrslunnar verði unnt að draga almenna lærdóma af efnahagsáföllunum. Þingmannanefndin mun að líkindum fjalla um það atriði. Eftir atvikum kemur það enn fremur í hlut hennar að móta afstöðu til ábyrgðar í málinu að því marki sem það er hlutverk þingsins. Þá má ætla að þingmannanefndin fylgi eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar um breytingar á lögum og reglum sem miða að því að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi sem urðu hér á landi haustið 2008 endurtaki sig.
    Almennar reglur þingskapa um fastanefndir Alþingis munu gilda um starf þingmannanefndarinnar eftir því sem við á. Ætlast er til að hún setji sér starfsreglur sem taki m.a. á þeim atriðum sem reglur þingskapa eru ekki taldar eiga við. Við það er miðað að þingmannanefndin geri grein fyrir athugun sinni í skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi, sbr. 26. og 31. gr. þingskapa. Þar verður eftir atvikum unnt að gera tillögu eða tillögur til þingsályktunar sem kæmu til afgreiðslu við lok umræðunnar um skýrsluna. Enn fremur getur nefndin lagt fram annars konar þingmál eða eftir atvikum vísað einstökum ábendingum um úrbætur á reglum til viðkomandi fastanefndar.
    Eftir ítarlega og umfangsmikla gagnasöfnun rannsóknarnefndarinnar ætti ekki að vera þörf fyrir sjálfstæða upplýsingaöflun þingmannanefndarinnar enda er henni fyrst og fremst ætlað að leggja skýrslu rannsóknarnefndarinnar til grundvallar störfum sínum. Þó er lagt til að henni verði veitt heimild til að láta rannsaka einstaka þætti málsins nánar telji hún þörf á frekari upplýsingum. Ekki er ráðgert að þingmannanefndin annist sjálf slíka framhaldsrannsókn heldur feli hún einum eða fleiri sérfróðum aðilum umsjón hennar. Um störf þeirra, rannsóknarheimildir, málsmeðferð og ýmis önnur atriði gilda ákvæði laganna eftir því sem við á. Komi til slíkrar framhaldsrannsóknar skal skýrslu skilað til þingmannanefndarinnar sem tekur afstöðu til þess hvernig meðferð hennar skuli hagað.
    Nefndinni ber að leggja mat á það svo fljótt sem auðið er hvort einhverjum hluta rannsóknargagna verði skilað síðar til Þjóðskjalasafns en áætlað er út af fyrirhugaðri framhaldsrannsókn. Þó að þessum gögnum hafi verið skilað verður þeim sem annast framhaldsrannsóknina heimilt að kynna sér gögn rannsóknarnefndarinnar að því marki sem nauðsynlegt er í þágu rannsóknarinnar. Þagnarskylda mun hvíla á þeim um efni þeirra og annað sem fram kemur við rannsóknina í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laganna. Líkt og rannsóknarnefndin geta þeir þó birt upplýsingar í skýrslu til þingmannanefndarinnar sem annars væru háðar þagnarskyldu ef það er talið nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöðuna, sbr. 4. mgr. 4. gr. laganna. Ekki er þó heimilt að birta upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, nema verulegir almannahagsmunir af því að birta upplýsingarnar vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á.
    Ekki er settur ákveðinn tímafrestur fyrir athugun þingmannanefndarinnar. Eftir sem áður er mikilvægt að hraða meðferð málsins eftir fremsta megni og að þingmannanefndin setji sér skýr markmið í þessu efni.

Um 2. gr.


    Að lokinni vinnu rannsóknarnefndarinnar munu liggja fyrir umfangsmiklir gagnagrunnar sem byggjast á margvíslegum rafrænum upplýsingakerfum frá bönkunum og öðrum aðilum. Í þessum gagnagrunnum eru fjárhagsupplýsingar af ýmsu tagi um viðskipti fjármálastofnana fyrir hrunið sem geta haft mikla fræðilega þýðingu, m.a. fyrir hagfræðilegar rannsóknir á því hvernig bankastarfsemi bregst við sveiflum á fjármálamörkuðum og hvað beri að forðast í því efni. Að þessu leyti eru gagnagrunnarnir einstakir á alþjóðavísu. Þar sem í þeim verða miklar upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga og fyrirtækja ættu þessir gagnagrunnar hins vegar ekki að vera aðgengilegir að óbreyttu fyrr en eftir þrjátíu eða áttatíu ár, sbr. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996. Til að þeir geti nýst við fræðilegar rannsóknir er hér lagt til að sett verði sérstakt ákvæði um aðgang að upplýsingum úr þeim eftir að þeir hafa verið afhentir Þjóðskjalasafninu til varðveislu. Slíkan aðgang er hins vegar ekki hægt að veita nema gæta að vernd persónuupplýsinga og upplýsinga sem varða mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækja í rekstri. Sú leið sem hér er lögð til miðar að því að veita aðgang að gagnagrunnunum en taka jafnframt nauðsynlegt tillit til framangreindra hagsmuna.
    Samkvæmt tillögunni verða upprunalegu gagnagrunnarnir varðveittir óbreyttir á Þjóðskjalasafninu og aðgangur að þeim opnaður þegar heimilt verður að veita aðgang að upplýsingum um einkamálefni einstaklinga. Skv. 3. mgr. 8. gr. upplýsingalaga er það að áttatíu árum liðnum frá því að gögnin urðu til. Að öðru leyti verður aðgangur aðeins veittur að afritum gagnagrunnanna þar sem ákveðnar upplýsingar hafa verið afmáðar. Í fyrsta lagi er í frumvarpinu veitt heimild til að taka afrit þar sem allar persónugreinanlegar upplýsingar og upplýsingar sem rekja má til nafngreindra fyrirtækja hafa verið afmáðar en heimilt verður að afhenda slíkt afrit án skilyrða. Að auki er ráðgert að safnið taki afrit sem einungis verði ætlað til fræðilegra rannsókna í öruggri aðstöðu á safninu og að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum um þagnarskyldu þeirra sem vinna að rannsókninni. Í því yrðu aðeins afmáð persónuauðkenni launaupplýsinga og hugsanlega önnur persónuauðkenni sem Persónuvernd metur að ekki eigi að vera opinber. Þjóðskjalavörður metur hvort heimila skuli aðgang að þessu afriti með hliðsjón af því sem fram kemur í umsókn ábyrgðarmanns rannsóknar þar sem lýst er markmiði hennar, fræðilegu gildi og hvernig staðið verði að framkvæmd rannsóknarinnar.
    Kostnaður við framkvæmd rannsóknar og eftirlit með því að reglum og skilmálum sé fylgt skal greiddur af ábyrgðarmanni rannsóknarinnar. Almennar reglur um þjónustugjöld gilda um afmörkun og fjárhæð gjaldtökunnar.
    Ef ábyrgðaraðili rannsóknar eða annar aðili sem vinnur að henni fer ekki að fyrirmælum eða skilmálum skv. 5. og 6. mgr. greinarinnar ber hann refsiábyrgð. Sama á við ef maður notar upplýsingar úr gagnagrunnunum án leyfis eða á annan hátt en sótt var um. Brotin varða sömu refsingu og brot á lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga, nr. 77/2000, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna.

Um 3. gr.


    Hlutverk rannsóknarnefndarinnar er að varpa ljósi á ástæður bankahrunsins haustið 2008 og segja til um hverjir kunni að bera ábyrgð á því. Í þessu skyni fékk nefndin heimild til að afla upplýsinga sem eiga almennt að fara leynt út af reglum um þagnarskyldu. Þar er nefndinni jafnframt veitt heimild til að greina frá slíkum upplýsingum í skýrslu sinni til Alþingis ef það er nauðsynlegt til að rökstyðja niðurstöður hennar. Eftir sem áður skal því aðeins birta þar upplýsingar um persónuleg málefni einstaklinga, þ.m.t. fjármál þeirra, að verulegir almannahagsmunir af því að birta þær vegi þyngra en hagsmunir þess einstaklings sem í hlut á. Rannsóknarnefndinni er með þessu falið að feta einstigi milli hagsmuna almennings af því að fá fullnægjandi mynd af ástæðum hrunsins annars vegar og hins vegar hagsmuna sem tengjast friðhelgi einkalífs og leynd viðskiptaupplýsinga.
    Ekki er útilokað að þeir sem hlut eiga að máli muni telja að ummæli eða upplýsingar sem birtast í skýrslunni vegi að réttindum þeirra, svo sem friðhelgi einkalífs. Á hinn bóginn er mikilvægt að nefndarmenn sem vinna að gerð skýrslunnar taki afstöðu til þess hvað eigi að birta án þess að þurfa að leiða hugann að því hvort þeir kunni persónulega að þurfa að taka til varna í dómsmálum út af því sem fram kemur í skýrslunni. Jafnframt mundi slík málsókn leiða til fjárútláta nefndarmanna sem gætu orðið verulega íþyngjandi. Ekki getur talist sanngjarnt að þeir verði þvingaðir til að grípa til varna fyrir það lögmælta verkefni sem þeim var trúað fyrir af Alþingi og hugsanlega bera af því fjárhagslegt tjón. Af þessum sökum er hér lagt til að þeim einstaklingum sem unnið hafa að rannsókninni sé veitt ákveðin vernd gegn slíkum málsóknum. Sú vernd mun ekki aðeins ná til nefndarmanna í rannsóknarnefndinni heldur t.d. einnig til þeirra sem tóku sæti í vinnuhópi til að fjalla um það hvort rekja megi ástæður hrunsins til siðferðis eða vinnubragða og til þeirra sem eftir atvikum munu vinna að framhaldsrannsókn í samræmi við frumvarp þetta.
    Tekið er fram í greininni að íslenska ríkið beri ábyrgð á athöfnum þessa fólks eftir almennum reglum hvort sem mál er höfðað fyrir innlendum eða erlendum dómstóli. Ekki er þó tryggt að ákvæði af þessu tagi bindi erlenda dómstóla. Í slíkum tilvikum er ljóst að sú vernd sem ákvæðinu er ætlað að veita væri tilgangslítil ef ekki væri jafnframt skýrt að íslenska ríkið greiddi allan kostnað við rekstur málsins fyrir erlendum dómstóli og eftir atvikum aðrar áfallnar kröfur.
    Ákvæði af þessu tagi þekkjast í löggjöf hér á landi. Þannig er alþingismönnum tryggð ákveðin friðhelgi út af því sem þeir hafa sagt á Alþingi í 2. mgr. 49. gr. stjórnarskrárinnar, en leyfi Alþingis þarf fyrir málsókn af því tagi. Kröfum í tilefni af álitum umboðsmanns Alþingis ber enn fremur að vísa frá dómi, sbr. 16. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis. Þá er málsókn gegn dómurum útilokuð skv. 2. mgr. 32. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, og ber ríkið skaðabótaábyrgð á gerðum þeirra í samræmi við almennar reglur. Framkrafa ríkisins á hendur dómara kemur því aðeins til álita að hann hafi valdið tjóni af ásetningi og ríkið hafi verið dæmt til greiðslu skaðabóta.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Greinin er reist á sömu sjónarmiðum og síðastgreinda ákvæðið þar sem byggt er á meginreglu um ábyrgð vinnuveitanda á saknæmri háttsemi starfsmanna. Greinin einskorðast þó ekki við skaðabótakröfur heldur nær hún einnig til hvers konar viðurkenningarkrafna, krafna um ómerkingu ummæla og annars konar einkaréttarkrafna. Er þá m.a. haft í huga að ómerkingarkröfum út af ummælum í dómnefndarálitum hefur verið beint gegn þeim einstaklingum sem hafa átt sæti í viðkomandi dómnefnd, sbr. hæstaréttardóm frá 25. mars 2004 í máli nr. 382/2003 (Hrd. 2004:1553) og hæstaréttardóm frá 1. nóvember 1985 í máli nr. 99/1984 (Hrd. 1985:1148).
    Með einkamálum er átt við öll mál sem eru rekin fyrir dómstólum á grundvelli laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Verndin nær því almennt ekki til brota er sæta opinberri ákæru. Þó tekur hún til mála sem höfðuð eru út af ætlaðri ærumeiðandi móðgun eða aðdróttun óháð því hvort handhafi ákæruvalds eða sá sem telur á sér brotið höfðar málið.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.