Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 289. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 334  —  289. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um birtingu skjala og annarra upplýsinga um ákvörðun um stuðning Íslands við innrásina í Írak.

Flm.: Ögmundur Jónasson, Lilja Mósesdóttir,


Árni Þór Sigurðsson, Þuríður Backman.


    Alþingi ályktar að fela forsætisráðherra og utanríkisráðherra að sjá til þess að birt verði öll skjöl og allar aðrar upplýsingar sem fyrir liggja frá ársbyrjun 2002 til desember 2003 sem varpa ljósi á ákvörðun þáverandi ríkisstjórnar um stuðning Íslands við innrás Bandaríkjamanna og Breta og annarra þjóða í Írak árið 2003.

Greinargerð.


    Ein umdeildasta ákvörðun íslenskra stjórnvalda í seinni tíð er stuðningur Íslands við innrásina í Írak. Á Alþingi var m.a. deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar að Ísland veitti stuðning við innrásina; yrði hluti af því sem Bandaríkjastjórn kallaði „hinar viljugu þjóðir“ eða „coalition of the willing“. Sem kunnugt er var Ísland sett á lista Bandaríkjastjórnar um „hinar viljugu þjóðir“ sem fyrst var greint frá á fréttamannafundi í bandaríska utanríkisráðuneytinu sem haldinn var 18. mars 2003. Þar taldi talsmaður ráðuneytisins, Richard Boucher, upp þau ríki sem í hlut áttu, sagði að þau hefðu verið spurð hvert um sig og fengist hafi afgerandi svör. (Í opinberum gögnum er að finna orðrétta frásögn af fréttamannafundinum þar sem þetta kom fram:

         QUESTION: Can you, in any way you can, describe the functions of the 30 countries listed as part of the coalition? The first question, of course, would be, are more than a handful contributing troops? And – well, let's begin with that.
        MR. BOUCHER: There are 30 countries who have agreed to be part of the coalition for the immediate disarmament of Iraq. I'd have to say these are countries that we have gone to and said, „Do you want to be listed?“ and they have said, „Yes“.
        I'll read them to you alphabetically, so that we get the definitive list out on the record.
        They are: Afghanistan, Albania, Australia, Azerbaijan, Colombia, the Czech Republic, Denmark, El Salvador, Eritrea, Estonia, Ethiopia, Georgia, Hungary, Iceland, Italy, Japan, Korea, Latvia, Lithuania, Macedonia, the Netherlands, Nicaragua, the Philippines, Poland, Romania, Slovakia, Spain, Turkey, the United Kingdom, and Uzbekistan.
         Each country is contributing in the ways that it deems the most appropriate. Some of these countries, I suppose all these countries have talked in public about what they're doing. …)


Íslensk þýðing.


         SPURNING: Getur þú, á hvaða hátt sem þú getur, lýst hvernig háttað er þátttöku þeirra 30 ríkja sem birt eru á lista sem hluti bandalagsins? Fyrsta spurningin, að sjálfsögðu, yrði, er meira en handfylli sem leggja til hermenn? Og – jæja, við skulum byrja á því.
         MRHR. BOUCHER: Það eru 30 ríki sem hafa samþykkt að verða hluti bandalagsins um skjóta afvopnun Íraks. Ég þyrfti segja að þetta eru ríki sem við höfum farið til og sagt, „Viljið þið skráningu á listann“ og þau hafa sagt, „Já.“
        Ég skal lesa þau upp fyrir ykkur í stafrófsröð, svo að við fáum hinn endanlega lista skrásettan.
        Þau eru: Afganistan, Albanía, Ástralía, Aserbaídsjan, Kólumbía, Tékkland, Danmörk, El Salvador, Erítrea, Eistland, Eþíópía, Georgía, Ungverjaland, Ísland, Ítalía, Japan, Kórea, Lettland, Litháen, Makedónía, Holland, Níkaragúa, Filippseyjar, Pólland, Rúmenía, Slóvakía, Spánn, Tyrkland, Bretland og Úsbekistan.
        Hvert ríki leggur sitt af mörkum á þann hátt sem það telur helst viðeigandi. Sum af þessum ríkjum, ég geri ráð fyrir að öll þessi ríki hafi talað opinberlega um hvað þau eru að gera. …)
    
    Opinberlega hefur því verið haldið fram að á ríkisstjórnarfundi þennan sama dag hafi ákvörðun verið tekin um stuðning Íslands við innrásina. Það er augljóslega málum blandið og um það deilt að hvaða marki ríkisstjórnin yfirleitt kom að málinu eða einstakir ráðherrar eða embættismenn. Sama gegnir um aðkomu utanríkismálanefndar og Alþingis sem lögum samkvæmt hefði átt að upplýsa áður en svo afdrifarík ákvörðun var tekin. Um þessa þætti er margt á huldu þar sem engar opinberar almennar umræður fóru fram í aðdraganda ákvörðunar um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak.
    Í Bretlandi og víðar fer nú fram rannsókn á hlut stjórnvalda og embættismanna og hefur komið fram við vitnaleiðslur að margt var öðruvísi en fram kom á yfirborðinu, meiri efasemdir um réttmæti innrásarinnar hafi verið í stjórnkerfinu en upplýst hefur verið um til þessa og blekkingum hafi verið beitt.
    Eðlilegt er að upplýst verði um aðkomu íslenskra stjórnvalda, stjórnmálamanna og embættismanna, svo að deilur þurfi ekki að fylgja okkur inn í framtíðina hvað staðreyndir máls áhrærir og er því með þessari þingsályktunartillögu óskað eftir aðgengi almennings að öllum skjölum og öðrum upplýsingum sem liggja fyrir og varða ákvörðun um stuðning íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak árið 2003.