Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 165. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 357  —  165. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Arnór Snæbjörnsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti og Óðin Sigþórsson frá Landssambandi veiðifélaga.
    Umsagnir bárust frá Landssambandi veiðifélaga, Fiskistofu, Veiðimálastofnun og Landssambandi landeigenda á Íslandi.
    Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur, annars vegar er lagt til með 2. gr. að sú háttsemi að hefja framkvæmd í veiðivatni án þess að leyfis sé aflað skv. 1. mgr. 33. gr. laganna verði gert refsivert. Þörf er á því að gera þessa háttsemi refsiverða.
    Hins vegar er lagt til að kveðið verði að nýju sérstaklega á um að atkvæðisréttur í veiðifélögum fylgi eyðibýlum. Brottfall þessarar heimildar má rekja til setningar gildandi laga um lax- og silungaveiði, nr. 61/2006, og ákvæða þeirra um atkvæðisrétt í veiðifélagi.
    Í 1. mgr. 40. gr. hinna nýju lax- og silungsveiðilaga segir að á félagssvæði veiðifélags fylgi eitt atkvæði hverri jörð sem veiðirétt á í samræmi við ákvæði laganna. Hið sama gildir um veiðifélag sem einungis tekur til veiðivatna á afréttum í þjóðlendu. Síðan segir að með jörð sé hér átt við þær jarðir sem fullnægðu skilyrðum laga til að teljast lögbýli við gildistöku eldri jarðalaga, nr. 65/1976. Ekki er vikið sérstaklega að atkvæðisrétti eyðijarða eins og í eldri lögum. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur fram að eðlilegt þyki að miða við þetta tímamark „í ljósi þess að þá hafði lögbýlaskipan landsins tekið á sig nokkuð endanlega mynd“. Hvergi segir að tilgangur frumvarpsins sé að þrengja eða fella niður atkvæðisrétt eyðijarða (sbr. þskj. 891 í 607. máli á 132. löggjafarþingi).
    Hugtakið lögbýli var ekki skilgreint í jarðalögum, nr. 65/1976. Um skilning á því verður að leita til 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1976. Efnislega er þar kveðið á um að í lögunum nefnist jörð eða lögbýli hvert það býli sem sérstaklega er metið til verðs í fasteignamati, með tilgreind og ákveðin merki, nauðsynlegan húsakost og landrými eða aðstöðu til að framfleyta minnst 10 kúgildum. Þá sagði í sömu lagagrein að jörð sem ekki hefur verið setin í tvö ár eða lengur teljist eyðijörð og þó að hús séu fallin eða rifin teljist hún lögbýli, nema jörðinni sé ráðstafað til annarra nota með samþykki sveitarstjórnar og jarðanefndar, t.d. lögð til afréttar eða sameinuð annarri jörð.
    Með jarðaskýrslu fyrir fardagaárið 1958–1959 hóf Landnám ríkisins árlega útgáfu á jarðaskýrslu fyrir allt landið á grundvelli skýrslna frá hreppstjórum. Þegar ábúðarlög, nr. 64/1976, og jarðalög, nr 65/1976, gengu í gildi, 31. maí 1976, var í gildi jarðaskrá fyrir fardagaárið 1975–1976 (fardagar voru 3. júní 1976).
    Vegna þess hversu örðugt er um vik að afla heimilda um hvort eyðijörð hafi verið ráðstafað „til annarra nota“ við gildistöku jarðalaga, nr. 65/1976, hafa veiðifélög við ákvörðun atkvæðisréttar samkvæmt hinum nýju lögum stuðst í framkvæmd við jarðaskrá Landnáms ríkisins fyrir fardagaárið 1975–1976. Þá hefur og þýðingu að við færslur í jarðaskrána á næstliðnum árum hafði Landnám ríkisins m.a. byggt á 1. gr. ábúðarlaga, nr. 36/1961, þar sem kveðið var á um að eyðijarðir féllu úr tölu lögbýla eða jarða hefðu þær ekki verið byggðar í 25 ár eða lengur. Með þessu hafa eigendur fjölda eyðijarða, sem fallið höfðu úr jarðaskránni, misst atkvæðisrétt í veiðifélagi.
    Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem koma fram í 2. gr. frumvarpsins. Það er einnig mat nefndarinnar að ekki hafi verið ætlunin að gera grundvallarbreytingu á fyrirkomulagi atkvæðisréttar í veiðifélögum að því er varðar eyðijarðir með setningu laga nr. 61/2006 og því sé rétt að gera þær breytingar á lögunum sem hér eru lagðar til.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Björn Valur Gíslason og Helgi Hjörvar voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 3. des. 2009.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Ögmundur Jónasson.



Einar K. Guðfinnsson.


Róbert Marshall.


Jón Gunnarsson.



Sigurður Ingi Jóhannsson.