Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 56. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 358  —  56. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006.

    Frá viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ómar Þór Eyjólfsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Helga Magnús Gunnarsson frá embætti ríkislögreglustjóra og Þórð Sveinsson frá Persónuvernd. Nefndinni bárust umsagnir um málið frá félagi íslenskra stórkaupmanna, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fjármálaeftirlitinu, Kauphöll Íslands, ríkislögreglustjóranum, ríkisskattstjóra, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum verslunar og þjónustu og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, nr. 64/2006. Tilefni breytinganna eru athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) vegna atriða sem snerta innleiðingu EB-tilskipunar nr. 2005/60/EB með lögum nr. 64/2006.
    Helstu athugasemdir ESA og þær breytingar sem frumvarpið kveður á um eru eftirfarandi: Stofnunin benti á það í fyrsta lagi að tilkynningarskyldir aðilar skyldu samkvæmt tilskipuninni gera auknar kröfur til könnunar á áreiðanleika upplýsinga væru aðstæður í eðli sínu þannig að samkvæmt áhættumati væri aukin hætta á peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka. Með öðrum orðum vanti í lögin almennt ákvæði um að ávallt skuli gera auknar kröfur um könnun á áreiðanleika upplýsinga í framangreindum tilvikum. Vegna þessarar ábendingar er í 3. gr. frumvarpsins lagt til að við 7. gr. laganna bætist ný málsgrein sem hefur að geyma slíkt almennt ákvæði. Eftir stendur að í III. kafla laganna er þess krafist að auknar kröfur skuli gera til könnunar á áreiðanleika upplýsinga þegar um er að ræða fjarsölu, í millibankaviðskiptum, ef um er að ræða einstaklinga í áhættuhópi vegna stjórnmálalegra tengsla eða í millibankaviðskiptum við lánastofnun án raunverulegrar starfsemi. Í öðru lagi gerði ESA athugasemd um að samkvæmt tilskipuninni sé tilkynningarskyldum aðila ekki heimilt að undanþiggja lífeyrissjóði könnun á áreiðanleika upplýsinga um viðskiptamenn, enda séu þeir þar hvorki skilgreindir sem lánastofnanir né fjármálafyrirtæki. Er því í frumvarpinu lögð til breyting á a-lið 1. mgr. 15. gr. laganna um einfaldaða könnun á áreiðanleika þannig að lífeyrissjóðir verði ekki meðal þeirra sem beita má einfaldaðri könnun á áreiðanleika. Þá benti ESA á það í þriðja lagi að ekki væri innleiddur í lögin áskilnaður tilskipunarinnar þess efnis að stundi einstaklingur sérfræðistörf, sem launamaður hjá tilkynningarskyldum aðila, þá skuli skyldur þær sem kveðið er á um í 23. gr. laganna (innra eftirlit) eiga við um hinn tilkynningarskylda aðila en ekki um viðkomandi launamann. Er því lögð til viðbót við 2. mgr. 23. gr. laganna þess efnis að þær skyldur sem mælt er fyrir um í greininni eigi við um hinn tilkynningarskylda aðila. Stofnunin benti á það í fjórða lagi að tilskipunin heimilaði ekki að skriflegar innri reglur útibúa og dótturfélaga tiltekinna tilkynningarskyldra aðila í ríkjum utan EES- svæðisins væru eins sambærilegar því sem lög og reglur viðkomandi ríkis heimiluðu. Reglurnar skyldu vera sambærilegar þeim sem krafist er í 1. mgr. 23. gr. laganna. Að öðrum kosti mætti skilja það sem svo að minni kröfur væru gerðar til útibúa og dótturfélaga þessara aðila erlendis væru lög og reglur þess ríkis ekki eins strangar og hér á landi. Er því í 7. gr. frumvarpsins lögð til breyting þessa efnis. Í fimmta lagi benti stofnunin á að 29. gr. tilskipunarinnar væri ekki innleidd í lögin. Þar er mælt fyrir um að hafi framkvæmdastjórnin samþykkt ákvörðun um bann við því að tilkynningarskyldir aðilar miðli upplýsingum til einstaklinga eða lögaðila sem hafa tengsl við ríki eða ríkjasvæði sem ekki hafa sambærilegar reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og lögin mæla fyrir um skuli aðildarríkin banna þeim að veita stofnunum og einstaklingum í viðkomandi þriðja ríki upplýsingar. Í 8. gr. frumvarpsins er ráðherra veitt heimild til að innleiða slíkar ákvarðanir framkvæmdastjórnarinnar með reglugerð.
    Á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hefur Fjármálaeftirlitið gefið út leiðbeinandi tilmæli um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sbr. tilmæli nr. 2/2008. Verði frumvarpið að lögum mun Fjármáleftirlitið uppfæra tilmælin með hliðsjón af þeim breytingum sem kveðið er á um í frumvarpinu.
    Nefndin leggur til að við frumvarpið bætist ákvæði um breytingu á 4. mgr. 5. gr. laganna. Þar er mælt fyrir um að tilkynningarskyldur aðili skuli krefja viðskiptamann sem er þegar í viðskiptum um að sanna á sér deili skv. 1. mgr. Nefndin leggur til að við greinina bætist að tilkynningarskyldur aðili geti krafist þess að viðskiptamaður afli upplýsinga um raunverulegan eiganda, sbr. 2. mgr. 5. gr., laganna hafi það ekki þegar verið gert.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með svofelldri

BREYTINGU:

    Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
              Á eftir orðunum „skv. 1. mgr.“ í 4. mgr. 5. gr. laganna kemur: og afli upplýsinga um raunverulegan eiganda skv. 2. mgr.

    Guðlaugur Þór Þórðarson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eygló Harðardóttir og Ragnheiður E. Árnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. nóv. 2009.



Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Árni Þór Sigurðsson.



Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir.