Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 308. máls.

Þskj. 360  —  308. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu,
nr. 40/2007, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    2. og 3. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    2. mgr. 17. gr. laganna fellur brott.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Lagt er til að ákvæði um yfirlækna, yfirhjúkrunarfræðinga og deildarstjóra hjúkrunar verði felld brott úr lögum um heilbrigðisþjónustu, nr. 40/2007, með síðari breytingum. Skv. 1. mgr. 10. gr. laganna bera framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri lækninga faglega ábyrgð á þjónustu stofnunar gagnvart forstjóra. Ekki verður séð að nauðsyn beri til að kveða nánar á um innra skipulag heilbrigðisstofnana í lögum. Skv. 11. gr. laganna ber forstjóra að gera tillögu að skipuriti í samráði við framkvæmdastjórn og leggja hana fyrir ráðherra til staðfestingar. Skv. 4. mgr. 10. gr. laganna bera fagstjórnendur faglega ábyrgð á þeirri þjónustu sem undir þá heyrir í samræmi við stöðu þeirra í skipuriti stofnunar. Þá eru ítarleg ákvæði um gæði heilbrigðisþjónustu, m.a. um faglegar kröfur og eftirlit með faglegum rekstri heilbrigðisþjónustu, í VI. kafla laganna. Tilgangur breytinganna er að auka svigrúm til að endurskipuleggja heilbrigðisstofnanir með því að gera kleift að sameina eða breyta stöðum stjórnenda þar sem það er talið auka skilvirkni og draga úr kostnaði.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Lagt er til að ákvæði 2. mgr. 10. gr. laganna, sem kveður á um að yfirlæknar sérgreina eða sérdeilda beri faglega ábyrgð á læknisþjónustu, falli brott. Með sama hætti er lagt til að ákvæði 3. mgr., þar sem kveðið er á um að deildarstjórar hjúkrunar beri faglega ábyrgð á hjúkrunarþjónustu, falli brott.

Um 2. gr.

    Í 2. mgr. 17. gr. laganna kemur fram að forstjóri og framkvæmdastjórn heilbrigðisstofnunar skuli „hafa samráð við yfirlækni og yfirhjúkrunarfræðing heilsugæslustöðvar þegar sérmál hennar er til ákvörðunar.“ Af því má ráða að gert sé ráð fyrir að á hverri heilsugæslustöð sé bæði yfirlæknir og yfirhjúkrunarfræðingur og að innan heilbrigðisstofnunar séu eða geti verið fleiri en ein heilsugæslustöð. Hér er því lagt til að ákvæðið verði fellt brott.

Um 3. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu,
nr. 40/2007, með síðari breytingum.

    Í frumvarpinu eru lagðar til tvær breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu. Annars vegar er lagt til að ákvæði um faglega ábyrgð yfirlækna sérgreina eða sérdeilda á læknisþjónustu og faglega ábyrgð deildarstjóra hjúkrunar á hjúkrunarþjónustu falli brott. Hins vegar er lagt til að ákvæði um heilsugæslustöðvar sem gerir ráð fyrir að forstjórar og framkvæmdastjórnir heilbrigðisstofnana hafi samráð við yfirlækni og yfirhjúkrunarfræðing heilsugæslustöðvar verði fellt niður og þar með verði ekki lengur áskilnaður um að á öllum heilsugæslustöðvum skuli vera yfirlæknir og yfirhjúkrunarfræðingur.
    Hjá heilbrigðisráðuneytinu eru ekki áform um að gefa út fyrirmæli um að breyta eða leggja niður tilteknar stöður yfirlækna eða deildarstjóra hjúkrunar. Frumvarpinu er ætlað að auka möguleika á að einfalda skipulag og ná fram aukinni hagræðingu og sveigjanleika í starfsemi heilbrigðisstofnana. Heilbrigðisráðuneytið mun í því sambandi hvetja heilbrigðisstofnanir til að endurskoða innra skipulag með það í huga að stjórnendur, þ.m.t. yfirlæknar og deildarstjórar hjúkrunar (yfirhjúkrunarfræðingar) séu ekki fleiri en nauðsynlegt er vegna starfseminnar.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð heldur geri það þessum stofnunum betur kleift að ná fram áformum um hagræðingu í rekstri sem gert er ráð fyrir í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010.