Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 312. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 364  —  312. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um vestnorræn nemendaskipti milli menntastofnana á framhaldsskólastigi.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,


Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.

    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera samning við landsstjórnir Færeyja og Grænlands um samstarf menntastofnana á framhaldsskólastigi í löndunum þremur með það að markmiði að koma á nemendaskiptum. Enn fremur er mælt með að stjórnvöld leggi fé í sjóð til að greiða kostnað við verkefnið.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2009 í Rúnavík í Færeyjum. Markmið tillögunnar er að auka þekkingu Vestur-Norðurlandabúa á högum og menningu nágranna sinna. Leið að því marki er að ungmenni fái tækifæri til tímabundinnar dvalar í öðru vestnorrænu landi og geti þar með fengið innsýn í menningu nágrannalandanna.
    Tillagan miðast við framhaldsskólastig en vænta má að á því stigi sé samstarf auðveldast. Með framhaldsskólastigi er m.a. átt við menntaskóla, fjölbrautaskóla, verslunarskóla, tækniskóla og iðnnám hjá meistara.
    Framhaldsskólastigið er vel þróað í öllum löndunum þremur með fjölbreyttum námsmöguleikum fyrir nemendur. Kerfunum svipar auk þess saman í löndunum þremur og þannig er yfirfærsla námsmats auðveldari. Aukin samvinna t.d. á háskólastigi hefði hins vegar í för með sér takmarkanir þar sem framboð á háskólanámi er mjög takmarkað í Færeyjum og á Grænlandi.
    Miðað er við að fyrirkomulag nemendaskiptanna verði svipað og hjá AFS, þ.e. að skiptinemarnir búi í heimahúsum hjá fjölskyldum í dvalarlandinu. Nemendaskiptum mun fylgja kostnaður við ferðir og uppihald en kostnaður við námsstyrki og kennslu er óbreyttur. Mælt er með að löndin þrjú veiti fé til að greiða kostnað sem hlýst af verkefninu.
    Tillagan vekur spurningar um tungumálahindranir en til þess að nemendur geti tileinkað sér kennslu í dvalarlandinu er mikilvægt að hún fari fram á tungumáli sem þeir skilja. Lausn á því verður að finna áður en af nemendaskiptunum verður.