Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 314. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 366  —  314. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um tilraunaverkefni um samvinnu um nám og starfsþjálfun fyrir ungt fólk og ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum.

Flm.: Ólína Þorvarðardóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Atli Gíslason,


Árni Johnsen, Sigurður Ingi Jóhannsson, Þráinn Bertelsson.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að veita fjárstuðning til tilraunaverkefnis í samvinnu við landsstjórnir Færeyja og Grænlands sem stuðli að aukinni vestnorrænni samvinnu um námsframboð og starfsþjálfun fyrir ungt fólk og ófaglærða á Vestur-Norðurlöndum.

Greinargerð.


    Tillaga þessi er sett fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 3/2009 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins 27. ágúst 2009 í Rúnavík í Færeyjum. Markmið tillögunnar er að skapa hvatningu fyrir einstaklinga sem ekki eru langskólagengnir til að auka þekkingu sína og kunnáttu sem og lífsgæði og atvinnumöguleika með því að fjölga tækifærum til mennta á Vestur-Norðurlöndum.
    Samhliða alþjóðlegu fjármálakreppunni og efnahagssamdrætti hefur atvinnuleysi aukist. Reynsla Vestur-Norðurlanda sem og annarra landa sýnir að atvinnuleysi bitnar einna mest á einstaklingum sem hafa takmarkaða menntun eða starfsþjálfun. Samantekt Vinnumálastofnunar á Íslandi sýnir að fólk sem hefur ekki aðra menntun en grunnskólapróf hefur orðið harðast úti í uppsögnum liðinna mánaða auk þess sem ungu fólki á atvinnuleysisskrá hefur fjölgað hratt og fleiri karlar en konur misst vinnu. Svipaða sögu er að segja frá Grænlandi en af þeim sem voru atvinnulausir árið 2008 í þéttbýlisstöðum þar voru 81,4% ófaglærðir og meiri hlutinn karlmenn samkvæmt tölfræði hagstofu Grænlands svo að dæmi sé tekið.
    Atvinnuleysi hefur aukist í öllum vestnorrænu löndunum undanfarna mánuði, á Íslandi hvað mest en í apríl var það 9,1% í samanburði við 3,4% í Færeyjum.
    Vestur-Norðurlönd eiga það sameiginlegt að brottfall úr framhaldsskólum er talið vera vandamál. Til að mynda kom fram í skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar árið 2008 að brottfall á meðal framhaldsskólanema á Íslandi er um 40%. Það sem vekur sérstaka athygli, a.m.k. á Íslandi og Grænlandi, er að brottfall er hvað mest úr faglegu iðnnámi. Rannsóknir sýna þar fyrir utan að þeir sem eru með minnsta formlega menntun sækja sér síður símenntun en þeir sem eru með meiri menntun.
    Þemaráðstefna Vestnorræna ráðsins um námsframboð fyrir fólk sem ekki er langskólagengið eða faglært var haldin á Grænlandi í 4.–7. ágúst 2009. Meginmarkmið ráðstefnunnar var að kortleggja námsframboð á Vestur-Norðurlöndum fyrir þennan hóp fólks og kanna með hvaða hætti Vestur-Norðurlönd gætu aukið samstarf sín á milli annars vegar með námsframboði og hins vegar með því að skapa hvatningu fyrir fólk til að bæta við kunnáttu sína og þar með auka lífsgæði sín og atvinnumöguleika.
    Ráðstefnan leiddi í ljós að á Íslandi er nokkuð gott námsframboð fyrir fólk sem er ekki langskólagengið, ekki síst á vegum verkalýðshreyfingarinnar en frá árinu 2000 hefur í auknum mæli verið boðið upp á nám og námsstyrki fyrir þá sem hafa ekki náð árangri innan hins formlega menntakerfis. Aðilar vinnumarkaðarins hafa sett á fót stofnanir, eins og Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem stendur að símenntunarmiðstöðvum um land allt þar sem athyglinni er ekki síst beint að þeim sem minnsta menntun hafa. Þá hefur sú þróun einnig átt sér stað undanfarin ár að verkalýðshreyfingin beitir sér fyrir því að fá meiri peninga inn í hin óformlegu fræðslukerfi. Þar með hefur námstilboð á vegum verkalýðshreyfingarinnar í raun sýnt sig að vera það gagnlegasta sem hefur verið gert fyrir þennan hóp fólks.
    Í ljósi reynslunnar á Íslandi og markmiða þemaráðstefnunnar var eftirfarandi tillaga um tilraunaverkefni um aukna samvinnu milli Vestur-Norðurlanda lögð fram en hugmyndin er að ef vel tekst til þá sé hægt að undirbyggja nánara samstarf á þessu sviði sem verði gagnkvæmt samstarf allra Vestur-Norðurlanda.
    Tilraunaverkefnið felur í sér að bjóða upp á ungmenna- og kennaraskipti milli Vestur- Norðurlanda. Sem fyrsta skref væri hægt að bjóða fimm til sjö ungmennum eða ófaglærðum frá Grænlandi og Færeyjum ásamt nokkrum kennurum til verknáms í Menntaskólanum á Ísafirði í eina önn/einn vetur með búsetu á heimavist og fæði í mötuneyti. Fræðslumiðstöð Vestfjarða mundi semja kennslu- eða starfsmenntaáætlun og halda utan um verkefnið og jafnvel sjá um eitthvert bóklegt nám. Menntaskólinn á Ísafirði sæi um verknámshlutann. Næsta skref yrði að vinna að því að bjóða upp á alhliða samvinnu á milli nemenda og kennara frá öllum vestnorrænu löndunum. Sótt yrði um nemendaskiptastyrki í norræna sjóði og meðgjöf frá stjórnvöldum sem næmi framlagi íslenska ríkisins til nemendaígilda við íslenska framhaldsskóla þann tíma sem nemendurnir væru við nám á Ísafirði.