Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 180. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 374  —  180. mál.
Svarsamgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn Unnar Brár Konráðsdóttur um Landeyjahöfn.

     1.      Hvenær mun ferðaáætlun og gjaldskrá fyrir ferðir Herjólfs í Landeyjahöfn liggja fyrir?
    Gert er ráð fyrir að Landeyjahöfn verði tilbúin fyrir siglingar í júlí árið 2010. Unnið er að öllum þáttum breyttra samgangna milli lands og Eyja, m.a. ferðaáætlunum.
    Vegagerðin hefur óskað eftir breytingum á samningi við Eimskip frá og með júlí 2010 en samningur við félagið gildir til ársloka 2010. Þá er verið að skoða rekstrarforsendur ferjunnar miðað við breytta siglingaleið skipsins.
    Líklegt er að gerðar verði breytingar á ferðafjölda frá upphaflegri áætlun eins og hún lá fyrir í útboði smíði nýrrar ferju þar sem miðað var við minna skip í útboðsgögnum og þá lægri rekstrarkostnað. Þá liggur fyrir að fjárveitingar til málaflokksins hafa verið skornar niður á árinu 2010. Talið var eðlilegt að afla fyrst upplýsinga um verð, m.a. frá rekstraraðilanum, í ljósi ferðaáætlunar sem unnin var í tengslum við framangreint útboð. Síðan yrði metið hvaða breytingar þurfi að gera í ljósi þess fjármagns sem Vegagerðin hefur til ráðstöfunar á árinu 2010. Gert er ráð fyrir að gjaldskráin taki mið af útboðsgögnum vegna reksturs ferju frá Landeyjahöfn á sínum tíma með verðlagsbreytingum.
    Ekki liggja fyrir svör frá Eimskipi um kostnað, m.a. þar sem ekki liggur fyrir með hvaða hætti tekið verður tillit til hafnarkostnaðarins. Þá er eftir að leggja mat á fjölda í áhöfn á breyttri siglingaleið.
    Þegar þessir þættir liggja fyrir verður hægt að taka afstöðu til fjölda ferða. Gjaldskrá mun því ekki liggja fyrir fyrr en lengra er komið með breytingar á samningi við Eimskip.

     2.      Hvernig verður háttað almenningssamgöngum milli Landeyjahafnar og Reykjavíkur og hver verður aðkoma ríkisins að fjármögnun þeirra?
    Almenningssamgöngur munu verða þarna á milli en ekki er lokið útfærslu á þeim, t.d. hvað varðar ferðafjölda.

     3.      Verður rekstur ferjunnar á nýrri siglingaleið, Vestmannaeyjar–Landeyjahöfn, boðinn út?
    Þegar er í gildi samningur um rekstur ferjunnar til ársloka 2010 við Eimskip. Í fyrstu verður reynt að ná fram breytingum á þeim samningi út gildistíma hans. Ef það gengur ekki verður rekstur á leiðinni boðinn út.