Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 319. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 392  —  319. mál.
Frumvarp til lagaum breytingu á lögum um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Frá umhverfisnefnd.1. gr.

    Í stað orðanna „1. janúar 2010“ í fyrri málslið 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I í lögunum kemur: 1. janúar 2011.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010.

Greinargerð.


    Í frumvarpi þessu er lagt til að fresta ákvæði um að leggja úrvinnslugjald á einnota drykkjarvöruumbúðir, í stað núverandi skilagjalds og umsýsluþóknunar á einnota drykkjarvöruumbúðir úr áli, stáli, gleri og plastefnum, til 1. janúar 2011, eða um eitt ár, þannig að starfsemi Endurvinnslunnar hf., sbr. lög nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, verði óbreytt til ársins 2011. Frumvarp þetta er unnið að höfðu samráði við Samtök iðnaðarins og Endurvinnsluna hf.
    Frumvarp um sama efni var lagt fram á 135. löggjafarþingi þar sem lagt var til að ákvæði til bráðabirgða I um álagningu úrvinnslugjalds á einnota drykkjarvöruumbúðir væri frestað um tvö ár eða til 1. janúar 2010 og var það frumvarp samþykkt. Ákvæðið var sett með það að markmiði að Endurvinnslan hf. hætti starfsemi í núverandi mynd og hluti af starfsemi fyrirtækisins færðist til Úrvinnslusjóðs. Miklar breytingar hafa orðið á allri tilhögun um úrvinnslu úrgangs frá því að lögin voru sett árið 2002 og er nú m.a. lögð aukin áhersla á ábyrgð framleiðenda vegna meðhöndlunar úrgangs. Þannig hefur verið sett á fót kerfi til að tryggja framleiðendaábyrgð vegna raf- og rafeindatækja, sbr. lög nr. 73/2008, um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, sem tóku gildi 14. júní 2008. Framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja áttu að skrá sig hjá skráningarkerfi framleiðenda og innflytjenda fyrir 1. október 2008 og eiga aðild að skilakerfi frá sama tíma. Ábyrgð framleiðenda og innflytjenda á raf- og rafeindatækjum og úrvinnslu þess úrgangs sem af þeim hlýst tók gildi 1. janúar 2009. Unnið hefur verið í nokkurn tíma í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Endurvinnsluna hf. að breytingum á lögum um meðhöndlun úrgangs þar sem horft var til fyrirkomulags um meðhöndlun á raf- og rafeindatækjum. Samkvæmt V. kafla laga nr. 55/2003 skulu framleiðendur og innflytjendur bera ábyrgð á þeim raf- og rafeindatækjum sem framleidd eru hér á landi eða flutt inn og falla undir lögin. Í ábyrgð framleiðanda og innflytjanda felst að þeir skulu fjármagna og tryggja meðhöndlun raf- og rafeindatækjaúrgangs að frátalinni söfnun til söfnunarstöðvar sveitarfélaga. Skulu framleiðendur og innflytjendur uppfylla skyldur sínar með rekstri. Ýmis ófyrirsjáanleg vandamál hafa komið upp vegna hins nýja kerfis og hefur verið unnið að því að sníða þá af. Það hefur gengið en tekið verulegan tíma. Ljóst er að ekki er komin löng reynsla af framkvæmd laganna. Talið er rétt að horfa til þessarar reynslu af framkvæmd kerfis vegna raf- og rafeindatækja þegar skoðuð er útfærsla þess að tryggja framleiðendaábyrgð á drykkjarvöruumbúðir úr plasti, gleri og áli og hvort aðrar leiðir séu betur til þess fallnar en það kerfi mælir fyrir um. Samhliða þessu þarf að horfa til hlutverks Úrvinnslusjóðs gagnvart framleiðendaábyrgð vegna meðhöndlunar úrgangs og kanna hvort aðlaga þurfi þá stofnun betur með þá ábyrgð í huga. Skoða þarf hvaða fyrirkomulag geti hentað best fyrir söfnun og meðhöndlun á einnota drykkjarvöruumbúðum þannig að það þjóni best hagsmunum almennings. Vilji er fyrir því að setja drykkjarvöruumbúðir úr áli, stáli, gleri og plastefnum í kerfi sem framleiðendur bera ábyrgð á og gefa þarf rýmri tíma til að vinna að því verkefni m.a. með hliðsjón af reynslu af núverandi kerfum og er því lagt til að gildistöku þessa ákvæðis verði frestað um eitt ár. Um leið er mikilvægt að halda í þann góða árangur sem náðst hefur hér á landi í söfnun og endurvinnslu drykkjarvöruumbúða úr áli, stáli, gleri og plasti og að tryggja að neytendur hafi áfram góða möguleika á að skila af sér umræddum umbúðum.