Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 321. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 408  —  321. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum.

Frá heilbrigðisnefnd.1. gr.

    Síðari málsliður 13. gr. laganna, sbr. lög nr. 28/2009, orðast svo: Þó skal ákvæði 10. gr., hvað varðar smásöluaðila, taka gildi 1. janúar 2012.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpinu er lagt til að enn verði frestað hluta gildistöku 10. gr. laga nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994. Frestunin varðar eingöngu smásölu lyfja.
    Gildistökunni hefur í þrígang verið frestað, fyrst með lögum nr. 120/2008, um breytingu á lögum nr. 97/2008, um breytingu á lyfjalögum, nr. 93/1994, með síðari breytingum, og þá til 1. janúar 2009. Með lögum nr. 146/2008 var gildistöku ákvæðisins að nýju frestað til 1. apríl 2009 og aftur með lögum nr. 28/2009 til 1. janúar 2010.
    Ástæða þess að gildistöku hluta ákvæðisins var ítrekað frestað var sú að þær breytingar er snúa að afslætti af lyfjum í smásölu skyldu haldast í hendur við nýtt greiðsluþátttökukerfi lyfja sem fyrirhugað var að kæmi til framkvæmda á sama tíma.
    Í nóvember sl. lagði heilbrigðisráðherra fram frumvarp til breytinga á lyfjalögum, nr. 93/1994, þess efnis að fella út orðin „eða smásöluaðilar“ í 3. málsl. 42. gr. laganna. Í því felst að fellt er brott ákvæði sem afnemur afslætti á smásölustigi lyfja og taka átti gildi 1. janúar 2010.
    Nefndin sendi út umsagnarbeiðnir í meðferð sinni á málinu og fékk jafnframt til sín gesti frá hagsmunaaðilum. Telur nefndin að ágallar séu á ríkjandi fyrirkomulagi. Má þar til dæmis nefna flækjustig og ógagnsæi afsláttarfyrirkomulagsins, að erfitt er fyrir sjúklinga að gera verðsamanburð á milli lyfsala og verð geti verið mismunandi eftir samkeppnisstigi sem og á milli landshluta. Nefndin tekur undir jafnræðissjónarmið sem fram kom í umsögnum um að æskilegt væri að lyfjaverð sé samræmt um allt land líkt og er með aðra heilbrigðisþjónustu sem ríkið tekur þátt í kostnaði við. Þrátt fyrir þann árangur sem náðst hefur til lækkunar lyfjaverðs, m.a. með afnámi afsláttar á heildsöluverði og aukinni notkun samheitalyfja, áréttar nefndin að ástæða frestunar á gildistöku ákvæðisins er varðar smásöluaðila var fyrst og fremst mikilvægi þess að afnám afslátta skyldi haldast í hendur við nýtt greiðsluþátttökukerfi. Jafnframt var því sjónarmiði hreyft fyrir nefndinni að framkvæmd ákvæðis 3. málsl. 42. gr. lyfjalaga er lýtur að smásölum yrði mjög erfið tæki það gildi 1. janúar nk.
    Nefndin bendir á að í athugasemdum við frumvarpið segir að óljóst sé hvort og þá hvenær nýtt greiðsluþátttökukerfi verður að veruleika. Nefndin áréttar mikilvægi þess að koma á nýju greiðsluþátttökukerfi með það að leiðarljósi að einfalda það, gera það gagnsærra og að reynt verði að tryggja jafnræði. Það er álit nefndarinnar að fresta skuli gildistöku ákvæðisins um afnám afslátta á smásölustigi áfram en ekki fella það brott líkt og frumvarpið gerir ráð fyrir. Leggur nefndin þannig áherslu á að endurskoðun kerfisins verði að fara fram en telur aftur á móti að gefa verði raunhæfan frest svo að ráðrúm gefist til að vinna þetta með sem bestum hætti. Leggur nefndin því fram frumvarp þetta til frestunar á gildistöku þess hluta ákvæðisins er varðar smásöluaðila til 1. janúar 2012.