Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 324. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 420  —  324. mál.
Frumvarp til lagaum breyting á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar.

Frá heilbrigðisnefnd.1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 29. gr. laganna:
     a.      Við 1. mgr. bætist nýr töluliður sem orðast svo: Dvöl á sjúkrahóteli. Fyrir dvöl á sjúkrahóteli skulu sjúkratryggðir greiða gjald sem nemur að hámarki 20% af kostnaði við gistingu og fæði og skal gjaldið ákveðið með reglugerð sem ráðherra setur.
     b.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein sem verður 3. mgr. og orðast svo:
                  Þeir sem ekki eru sjúkratryggðir hér á landi samkvæmt lögum þessum skulu greiða gjald fyrir dvöl á sjúkrahóteli sem nemur öllum kostnaði sem til fellur vegna dvalar á sjúkrahóteli í samræmi við reglugerð sem ráðherra setur, nema í gildi sé samningur um þjónustuna við það ríki sem þeir koma frá.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði heimild í lög um sjúkratryggingar til töku gjalds fyrir dvöl sjúklinga á sjúkrahóteli.
    Sjúkrahótel hefur verið rekið allt frá árinu 1974 og stóð Rauði kross Íslands fyrir rekstrinum til ársins 2005. Frá þeim tíma hefur sjúkrahótelið verið rekið að Rauðarárstíg 18 í Reykjavík samkvæmt samningi Landspítala og Fosshótela ehf. Fosshótel sér sjúklingum sem þar dveljast fyrir gistingu og fullu fæði. Heilbrigðisþjónusta sem veitt er á sjúkrahótelinu í tengslum við dvölina er á vegum Landspítala og er hún sjúklingum að kostnaðarlausu. Um greiðslur fyrir lyf og fyrir heilbrigðisþjónustu sem sjúklingar sækja utan sjúkrahótelsins gilda almennar reglur um greiðsluþátttöku sjúklinga. Rekstur sjúkrahótelsins er að mestu kostaður af föstu framlagi í fjárlögum en að hluta til með innheimtu gjalds að fjárhæð 800 kr. á sólarhring fyrir sjúkratryggða sjúklinga og 5.000 kr. fyrir ósjúkratryggða sjúklinga. Þá hefur hótelið innheimt 2.500 kr. af aðstandendum sem dvalist hafa á sjúkrahótelinu. Gjaldið hefur verið óbreytt frá 1. janúar 2005 þegar fyrrgreindur samningur tók gildi.
    Sjúklingur kvartaði til umboðsmanns Alþingis vegna gjaldtöku á sjúkrahótelinu. Í áliti umboðsmanns Alþingis frá 17. september 2009 (mál nr. 5002/2007) segir m.a. að leggja verði „til grundvallar í ljósi efnisákvæða þjónustusamnings Landspítala og Fosshótela ehf. og þess lagagrundvallar, sem hann er reistur á, að gisting sjúklinga á sjúkrahótelinu sé í slíkum beinum og órjúfanlegum tengslum við þá lögskyldu og opinberu heilbrigðisþjónustu sem þar er veitt af hálfu starfsmanna Landspítalans, sem jafnframt er eini tilgangur hlutaðeigandi sjúklinga fyrir dvöl þar, að gjaldtaka fyrir gistingu á sjúkrahótelinu verði eins og atvikum er háttað að teljast undirorpin almennum reglum um gjaldtöku hins opinbera.“ Þá segir jafnframt í álitinu: „Til að taka gjalda fyrir þá þjónustu sem hér um ræðir teljist heimil [...] verður Alþingi með settum lögum að taka skýra afstöðu til gjaldtöku fyrir gistingu á sjúkrahóteli, og þá þannig að ráðið verði af lagaheimildinni með túlkun hvaða kostnaðarliðir verði lagðir til grundvallar við útreikning gjalda vegna þess þáttar í dvöl sjúklings á sjúkrahótelinu sem um ræðir.“ Loks beinir umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins „að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til að endurskoða lagagrundvöll þeirrar gjaldtöku sem byggt er á í þjónustusamningi [...] og þá eftir atvikum með því að leita eftir því á vettvangi Alþingis að tryggð verði viðhlítandi lagastoð fyrir því fyrirkomulagi, sem samningurinn mælir fyrir um, ef ákveðið er að viðhalda því.“
    Gisting á sjúkrahóteli fellur ekki undir þjónustu sem ríkinu er skylt að veita. Hér er annars vegar um að ræða úrræði fyrir sjúklinga sem eru til rannsóknar eða meðferðar sem ekki krefst innlagnar á sjúkrahús en geta ekki búið heima vegna fjarlægðar eða heimilisaðstæðna. Hins vegar mætir sjúkrahótel þörfum sem skapast hafa við styttingu legutíma á sjúkrahúsum og vegna þess að ýmsar aðgerðir eru í auknum mæli framkvæmdar utan sjúkrahúsa. Hér er því bæði um að ræða mikilvæga aðstoð við sjúklinga sem þurfa að leita eftir heilbrigðisþjónustu fjarri heimili sínu og úrræði sem stytt getur legutíma á sjúkrahúsi og þannig stuðlað að betri nýtingu fjármuna.
    Í a-lið 1. gr. er lagt til að bætt verði við 1. mgr. 29. gr. laganna tölulið þar sem kveðið er á um heimild til gjaldtöku fyrir dvöl á sjúkrahóteli. Gjaldið skal ákveðið með reglugerð og má að hámarki nema 20% af kostnaði við fæði og gistingu samkvæmt samningi um rekstur sjúkrahótels, eða samkvæmt kostnaðargreiningu, ef sjúkrahótel er rekið af heilbrigðisstofnun. Megintilgangur þessarar greinar er að skýra gjaldtökuheimildir sjúkrahótela og kveða á um hvernig gjald skuli ákveðið. Rekstur sjúkrahótela er að mestu kostaður af hinu opinbera með framlagi í fjárlögum og er gert ráð fyrir að svo verði áfram. Eðlilegt þykir þó að áfram verði unnt að innheimta hóflegt gjald sem standi undir hluta kostnaðar við dvöl sjúklings á sjúkrahóteli.
    Í b-lið 1. gr. er lagt til að bætt verði nýrri málsgrein við 29. gr. þar sem kveðið er á um gjaldtöku vegna dvalar einstaklinga, sem ekki eru sjúkratryggðir samkvæmt lögunum, á sjúkrahóteli. Samkvæmt ákvæðinu skulu þessir aðilar greiða raunkostnað af þeirri þjónustu sem þeir fá á sjúkrahóteli. Ef í gildi eru milliríkjasamningar um þjónustuna gilda þeir um gjaldtöku af hinum ósjúkratryggða.