Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 325. máls.

Þskj. 431  —  325. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla .

(Lagt fyrir Alþingi á 138. löggjafarþingi 2009–2010.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 45. gr. er framhaldsskólum heimilt fram til loka skólaársins 2011–2012 að miða fjárhæð gjalds vegna náms sem þeir bjóða utan reglubundins daglegs starfstíma framhaldsskóla og í fjarnámi við allt að þriðjung af meðalkennsluframlagi á nemanda á framhaldsskólastigi samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám. Annars reiknast gjaldið hlutfallslega miðað við fjölda námsgreina.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með 45. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, voru gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla þrengdar frá því sem var í lögum nr. 80/1996, um framhaldsskóla. Þannig var ákveðið í 4. mgr. ákvæðisins að hámarksfjárhæð gjaldsins skyldi miðast við 10% af meðalkennsluframlagi á nemanda samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám. Annars skyldi gjaldið reiknast hlutfallslega miðað við fjölda þeirra námsgreina sem yrðu valdar í kvöldskóla eða fjarnámi. Í reglugerð nr. 614/2009, um gjaldtökuheimildir opinberra framhaldsskóla, var hámarkið útfært þannig að taka mætti allt að 2.500 kr. gjald fyrir hverja námseiningu.
    Fyrir gildistöku laga nr. 92/2008 var framhaldsskólum heimilt að innheimta allt að þriðjungi kennslukostnaðar með nemendagjöldum. Framlög til skólanna í fjárlögum miðuðust þá við 2/ 3af kostnaði við nemendaígildi. Eftirstandandi þriðjungi var mætt með nemendagjöldum. Til að mæta lækkun heimilda skóla til innheimtu kennslugjalda verður að hækka framlög í fjárlögum úr 67% í 90% af nemendaígildum í kvöldskóla. Samkvæmt fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er slík breyting ekki í fjárlagaforsendum 2010. Því munu vanta um 20% upp á að framhaldsskólar fái framlög er samsvari kennslukostnaði í kvöldskóla. Að óbreyttum lögum er ljóst að lagabreytingin mun leiða til aukins kostnaðar fyrir framhaldsskóla sem boðið hafa upp á nám í kvöldskóla umfram þær kröfur sem gerðar hafa verið um hagræðingu innan framhaldsskólans. Í þessu ljósi er lagt til að ákvæði 2. mgr. 33. gr. eldri laga um heimildir framhaldsskóla til innheimtu gjalda gildi tímabundið eða út skólaárið 2011–2012.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu


á lögum nr. 92/2008, um framhaldsskóla.


    Með frumvarpinu er lagt til að framhaldsskólum verði heimilt að miða fjárhæð gjalds, fyrir nám sem þeir bjóða utan reglubundins starfstíma framhaldsskóla og fjarnám við allt að þriðjung af meðalkennsluframlagi á nemanda samkvæmt fjárlögum miðað við fullt nám. Ákvæðið er til bráðabirgða og gildir fram til loka skólaársins 2011–2012. Samkvæmt gildandi lögum miðast gjaldtakan við 10% af meðalkennsluframlagi. Í forsendum frumvarps til fjárlaga 2010 var gert ráð fyrir því að gjaldtakan yrði um þriðjungur af meðalframlagi úr ríkissjóði. Í fjárlagafrumvarpinu er reiknað með að framlag á námseiningu sé um 25.000 kr. og að gjaldtaka á námseiningu verði um 8.250 kr. Gert er ráð fyrir að um 225 nemendur muni stunda fullt 35 eininga nám í kvöldskóla árið 2010.
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja að forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir 2010 gangi eftir og að útgjöld skólanna vegna þessa náms verði ekki meiri en þar er gert ráð fyrir.