Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 195. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 436  —  195. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 47/2006, um kjararáð, með síðari breytingum.

Frá minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Frumvarp þetta gengur út á það að óheimilt verði til ársloka 2010 að hækka laun þeirra sem falla undir úrskurðarvald kjararáðs, þó ekki forseta Íslands.
    Við meðferð málsins hefur komið fram allhörð gagnrýni á tillöguna:
     a.      Vegið að sjálfstæði dómsvalds og m.a. gengið gegn athugasemdum sérstakrar nefndar á vegum Evrópusamtaka dómara frá maí 2009 og alþjóðasamtaka dómara frá október 2009.
    Ljóst er að í kjölfar hrunsins mun málafjöldi og álag á dómstóla aukast gríðarlega. Þannig hefur málafjöldi þegar aukist um 40% hjá Hæstarétti og viðbúið að hann muni aukast enn frekar. Það er glapræði að halda dómarastéttinni í gíslingu og ógn við réttaröryggið. Ef alþjóðasamtök álykta á þeim nótum er viðbúið að traust á íslenska réttarríkinu mun dvína sem leiðir til vantrúar að hægt sé að framfylgja samningum sem aftur hamlar fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. Að auki er brýnt að leita allra ráða til að styrkja trú Íslendinga sjálfra á stofnanir samfélagsins og er þessi ráðstöfun ekki liður í því.
     b.      Verið er að eyðileggja launakerfi ríkisins því að kjararáð taki hvort sem er mið af launaþróun.
    Fram kom í máli framkvæmdastjóra kjararáðs að ráðstöfunin hefti ráðið í ákvörðunum sínum og stefndi í voða launakerfi ríkisins. Þá kom fram að ákvörðun þingsins um að setja lög sem lúta að því að gera forsætisráðherra að launahæsta ríkisstarfsmanninum hefði verið afar óheppileg. Ákvörðunarvaldið er tekið úr höndum réttbærra fagaðila og fært inn í sali Alþingis þar sem önnur sjónarmið ráða. Þetta verður að telja afar slæmt fyrir sjálfstæði stjórnskipaðra aðila sem falið er afmarkað viðkvæmt hlutverk fyrir ríkið. Það má vera að ríkisstjórnin nái fram einhverju settu markmiði sínu en um leið eru markmið kjararáðs virt að vettugi.
     c.      Gengið er hættulega nærri samkeppnishæfni landsins hvað varðar viðkomandi starfsstéttir.
    Líklegt er að ráðstöfunin geti komið losi á starfsmenn sem hún nær til. Tilviljanakennd ákvörðun sem þessi er ekki í anda fagmennsku og gæti niðurstaðan allt eins orðið sú að erfitt verði að manna stöður sem heyra undir ráðið hæfum einstaklingum og að þeir sem fyrir eru sætti sig ekki við málsmeðferð og leiti til annarra landa eftir störfum.
     d.      Tillagan felur í sér óraunsæja hugmynd um að launamönnum á þessu sviði muni almennt ekki fækka.
    Nafnlaun á almennum markaði hafa hækkað undanfarið og skýtur það mjög skökku við að viðhalda launalækkun sem ákvörðuð var fyrr á þessu ári. Líklegt er að starfsmenn leiti á önnur mið, sérstaklega þar sem álag á þessar stéttir hefur í mörgum tilfellum margfaldast í kjölfar hrunsins.
     e.      Málið er ekki einungis táknræn aðgerð ríkisstjórnarinnar heldur allt að því lýðskrum.
    Framangreind atriði hafa ekki verið höfð í huga við ráðstöfunina heldur hafa önnur atriði verið höfð að leiðarljósi. Það er óásættanlegt að fagmennska sé virt að vettugi í viðleitni stjórnvalda við að slá ryki í augu fólks.
    Ef það er einlægur ásetningur stjórnvalda að viðhalda launalækkuninni í krafti þess að hún sé táknræn leggur minni hlutinn til að þingmenn verði teknir út úr kjararáði og laun þeirra meðhöndluð á þann táknræna hátt sem ríkisstjórninni þykir best henta í ímyndarbaráttu sinni en aðrar stéttir verði ekki dregnar inn í hana. Slíkt kæmi til móts við markmið ríkisstjórnarinnar en stefndi ekki launakerfi ríkisins í voða. Auk þess sem hættan á spekileka yrði þá minnkuð.
    Minni hlutinn leggur til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 14. des. 2009.



Tryggvi Þór Herbertsson,


frsm.


Birkir Jón Jónsson.


Pétur H. Blöndal.



Þór Saari.