Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 170. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj.  437 —  170. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum.

Frá allsherjarnefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.
    Umsagnir bárust frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Landssambandi lögreglumanna, ríkislögreglustjóraembættinu, ríkisskattstjóra, Persónuvernd og Útlendingastofnun.
    Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði ákvæði við skaðabótalög um að ef starfsmaður verður fyrir líkamstjóni í starfi skuli hann eiga rétt til fullra bóta fyrir tjón sitt samkvæmt lögunum nema hann hafi verið meðvaldur að tjóninu af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi. Þá er jafnframt lagt til að þeir sem eiga rétt til bóta vegna missis framfæranda sem deyr vegna slíks tjónsatviks þurfi jafnframt ekki að sæta skerðingu á rétti sínum nema hinn látni hafi orðið meðvaldur að tjóni sínu af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi. Bætur úr hendi vinnuveitanda til starfsmanns sem verður fyrir tjóni skerðast því ekki nema tjónið megi rekja til ásetnings eða stórkostlegs gáleysis starfsmannsins.
    Frumvarpið var lagt fram af allsherjarnefnd á 136. löggjafarþingi (þskj. 888, 465. mál) og er lagt fram óbreytt af dómsmála- og mannréttindaráðherra. Forsaga málsins er sú að þáverandi ríkisstjórn Íslands lýsti því yfir í tengslum við frágang kjarasamninga snemma árs 2008 að hún mundi beita sér fyrir þeim breytingum á skaðabótalögum sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Skaðabótaábyrgð starfsmanns vegna tjóns sem hann veldur í starfi sínu sætir verulegum takmörkunum samkvæmt gildandi lögum. Í 23. gr. skaðabótalaga er fjallað um bótaábyrgð starfsmanns en þar er vísað til sanngirnisreglu, þ.e. að vinnuveitandi geti einungis krafið starfsmanninn um bætur að því marki sem telja má sanngjarnt þegar litið er til sakar og stöðu starfsmannsins og atvika að öðru leyti. Sama gildir um skaðabótaábyrgð starfsmanns gagnvart tjónþola og má skerða bætur eða fella niður þyki það sanngjarnt. Þessi réttarregla byggist að nokkru á almennri útbreiðslu vátrygginga í atvinnurekstri.
    Þróunin hefur því verið sú að létta skaðabótaábyrgð af starfsmanni eða takmarka hana ef hann veldur tjóni við framkvæmd starfa í þágu vinnuveitanda. Starfsmaður er hins vegar enn berskjaldaður ef hann verður sjálfur fyrir tjóni í starfi sínu sem hann kann að bera einhverja ábyrgð á. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að þróun skaðabótaréttar á Norðurlöndunum hefur verið í þá veru að takmarka meðábyrgð starfsmanna sem verða fyrir líkamstjóni við vinnu sína við stórkostlegt gáleysi eða ásetning.
     Nefndin fellst á að takmörkun þeirrar skaðabótaábyrgðar sé brýn, sérstaklega þegar starfsmaður verður fyrir líkamstjóni sem hefur varanlegar afleiðingar, t.d. umtalsverða starfsorkuskerðingu til frambúðar og er hann þá illa í stakk búinn til að bera sjálfur skaðabótaábyrgð þannig að bætur til hans verði lækkaðar.
    Þá telur nefndin einnig eðlilegt að sömu takmarkanir verði gerðar á skaðabótaábyrgð hins látna og greiðslu bóta til þeirra sem eiga rétt á bótum vegna missis framfæranda.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið að í greinargerð með frumvarpinu væri ekki tekið skýrt fram að með ákvæði um meðábyrgð starfsmanns vegna líkamstjóns sé ekki lögð til nein breyting á reglum um grundvöll ábyrgðar vinnuveitanda eða annars aðila sem kann að bera skaðabótaábyrgð á líkamstjóni sem starfsmaður verður fyrir í starfi sínu. Nefndin telur ekki þörf á að fjalla sérstaklega um bótagrundvöllinn enda almennt ekki gert í skaðabótalögum heldur hefur hann ráðist af almennum óskráðum reglum og þess vegna getað þróast í takt við breytingar í þjóðfélaginu og t.d. aukna útbreiðslu hvers konar vátrygginga, einkum ábyrgðartrygginga og bendir einnig á að þessi sama nálgun hefur einnig tíðkast í Danmörku.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.
    Arndís Soffía Sigurðardóttir, Ólöf Nordal og Þráinn Bertelsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Þór Saari áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur álitinu.

Alþingi, 15. des. 2009.Steinunn Valdís Óskarsdóttir,


form., frsm.


Birgir Ármannsson.


Valgerður Bjarnadóttir.Vigdís Hauksdóttir.


Ásmundur Einar Daðason.


Róbert Marshall.