Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 274. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 449  —  274. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, lögum um Ábyrgðasjóð launa, lögum um fæðingar- og foreldraorlof, lögum um málefni aldraðra og lögum um húsnæðismál, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.



    Nefndin hefur fengið fjölmarga á fund sinn til þess að ræða fyrirliggjandi frumvarp og farið nokkuð ítarlega yfir efnisliði þess, þrátt fyrir skamman tíma. 1. minni hluti telur þó fullt tilefni til þess að gagnrýna þann flýti sem einkennt hefur þinglega meðferð frumvarpsins og varar við því að slíkur flýtir verði að meginreglu við afgreiðslu yfirgripsmikilla frumvarpa á hinu háa Alþingi. Störf þingsins undanfarna mánuði gefa ærið tilefni til þess að hafa áhyggjur af þessari þróun.
    Í fyrirliggjandi frumvarpi eru lagðar til breytingar á sex lögum. 1. minni hluti lýsir sig sammála áliti meiri hluta félags- og tryggingamálanefndar varðandi flest atriði þess, fyrir utan þau sem lúta að breytingum á lögum um fæðingar- og foreldraorlof.
    Fyrsti minni hluti er andsnúinn frekari skerðingum á fæðingarorlofsgreiðslum. Þegar hafa greiðslur í fæðingarorlofi verið skornar niður tvisvar sinnum á innan við ári. Hámarksgreiðslur voru lækkaðar úr 480 þús. kr. í 400 þús. kr. 1. janúar sl. og niður í 350 þús. kr. 1. júlí sl. 1. minni hluti fagnar því að samstaða náðist í nefndinni um að falla algerlega frá fyrirliggjandi tillögu sem felst í 16. gr. frumvarpsins, um að foreldrum verði gert að fresta einum mánuði af töku fæðingarorlofs, og tekur undir röksemdir meiri hluta nefndarinnar gegn þeirri tillögu. 1. minni hluti er hins vegar ekki fylgjandi breytingartillögu meiri hlutans hvað þessa grein varðar, enda felur hún eftir sem áður í sér verulega skerðingu á fæðingarorlofsgreiðslum frá því sem nú er þótt aðferðin við skerðinguna sé vissulega skárri en sú sem lagt er upp með í frumvarpinu.
    Fyrsti minni hluti áttar sig á bágri stöðu ríkissjóðs og að niðurskurður í ríkisrekstri er nauðsynlegur. Hvað varðar Fæðingarorlofssjóð er hins vegar mikilvægt að hafa í huga að sjóðurinn fær tekjur sínar af sérstökum tekjustofni samkvæmt lögum en ákveðið hlutfall tryggingagjalds skal renna til sjóðsins. Fjárþörf sjóðsins til þess að standa undir greiðslum samkvæmt núverandi fyrirkomulagi – eftir að búið er að skera niður hámarksgreiðslur tvisvar sinnum á einu ári – er áætluð um 1,2 milljarðar kr. Það vekur furðu að í þeirri endurskoðun á prósentuhlutfalli tryggingagjalds sem farið var í á þessu ári í samráði við aðila vinnumarkaðarins skuli ekki hafa verið tekið á fjárþörf hins berstrípaða sjóðs.
    Barneignir eru þjóðfélaginu mikið hagsmunamál, auk þess að vera ákaflega fagur og innihaldsríkur hluti þess að vera til. Sterkar röksemdir eru fyrir því að um það verkefni að tryggja framfærslu þeirra sem eignast börn, og þurfa því að vera tímabundið frá vinnu, ríki sértakt kerfi samtryggingar. Samfélagið allt axlar þar með ábyrgð á því að gera þjóðfélagsþegnum á barneignaraldri það kleift að fjölga sér – bæði í kreppu og góðæri – án þess að bíða of mikinn fjárhagslegan skaða af því. Út frá þjóðhagslegu sjónarmiði er hér um mikilvægt langtímamarkmið að ræða. Tryggja þarf að í framtíðinni verði á vinnumarkaði nægur fjöldi ungs fólks til þess að standa undir sístækkandi velferðarkerfi. Mannfjölgun er því frá sjónarmiði þjóðarbúskaparins ákaflega mikilvæg hagstærð. Þar með er þó ekki tiltekinn megintilgangur fæðingarorlofsins sem felst vitaskuld í því að tryggja þann rétt barnsins að eiga foreldra sína óskipta í tiltekinn fjölda mánaða á mikilvægu upphafsskeiði ævinnar.
    Fæðingarorlofskerfið íslenska hefur vakið eftirtekt fyrir að vera framsækið og er að margra mati til fyrirmyndar. Upp úr aldamótum stóð Framsóknarflokkurinn með stolti að því að koma á núverandi fæðingarorlofskerfi, þar sem réttur feðra til orlofs er tryggður til jafns við rétt mæðra. Það skref fól í sér mikilvægar umbætur út frá jafnréttissjónarmiðum og bætti stöðu kvenna á vinnumarkaði til muna.
    Nú ríður á að eyðileggja ekki þetta góða kerfi. Sterkar röksemdir voru fyrir því að lækka þak hámarksgreiðslna eins og gert var og takmarka þar með fjárstreymi úr sjóðnum. Nú er hins vegar komið vel yfir sársaukamörk hvað það varðar. Greiðslur mega ekki vera svo lágar að stór hópur launþega, bæði karlar og konur, telji sér ekki fært að njóta fæðingarorlofs. Álit 1. minni hluta er að sjóðurinn megi ekki við frekari niðurskurði eigi hann að geta þjónað mikilvægum tilgangi sínum. Fjárþörf sjóðsins þurfi því að mæta eftir öðrum leiðum.
    Í ljósi framangreinds leggur 1. minni hluti til að 16. gr. frumvarpsins falli brott og leggur til breytingartillögu þess efnis á sérstöku þingskjali. Hvað varðar aðra liði frumvarpsins lýsir 1. minni hluti sig í meginatriðum sammála áliti meiri hluta nefndarinnar og er fylgjandi tillögum til breytinga á þeim liðum sem meiri hlutinn leggur til, öðrum en á 16. gr.

Alþingi, 15. des. 2009.



Guðmundur Steingrímsson.