Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 71. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 455  —  71. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög (eignarhald, kynjahlutföll og starfandi stjórnarformenn).

Frá 2. minni hluta viðskiptanefndar.



    Annar minni hluti styður markmið frumvarpsins um að hafa sem jafnast hlutfall kynja í stjórnum og í æðstu stöðum í viðskiptalífinu en er ósammála þeirri aðferðafræði sem birtist í breytingartillögu 1. minni hluta. Bendir 2. minni hluti á að í ákvæði frumvarpsins, þar sem mælt er fyrir um að gætt skuli að kynjahlutföllum í stjórnum, hafi falist ákveðin málamiðlun milli ólíkra sjónarmiða um hvernig best væri að ná fram jafnrétti kynjanna í atvinnulífinu. Þá má jafnframt benda á að fyrir rúmu ári öðluðust gildi lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Þar eru lagðar ríkar skyldur á fyrirtæki, m.a. um að skila skýrslum og setja sér jafnréttisáætlun. Telur 2. minni hluti ekki nægjanlega reynslu komna á þessa lagasetningu. Við umfjöllun málsins í nefndinni kom fram að forustufólk Samtaka atvinnulífsins, Félags kvenna í atvinnurekstri og Viðskiptaráðs Íslands skrifaði sl. vor undir samstarfssamning þar sem hvatt er til fjölgunar kvenna í forustusveit íslensks atvinnulífs. Markmiðið er að í lok árs 2013 verði hlutfall hvors kyns ekki undir 40%. Studdu fulltrúar allra flokka sem eiga sæti á Alþingi samninginn með undirritun. Óskuðu framangreind samtök eftir ráðrúmi frá löggjafanum til að sjá árangur af þessu átaki sem atvinnulífið hefur ráðist í án þess að eiga yfir höfði sér aðgerðir á borð við þær sem felast í breytingartillögu 1. minni hluta.
    Breytingartillaga 1. minni hluta lýtur að því að í einkahlutafélögum og hlutafélögum verði hlutfall hvors kyns að vera minnst 40% þegar stjórnarmenn eru tveir (þ.e. í einkahlutafélögum) eða fleiri. Það er mun víðtækara en ákvæði norskra laga sem mikið hefur verið vísað til þar sem 40% reglan snertir einungis hlutafélög. Kom reyndar fram það sjónarmið í nefndinni að í löggjöfinni ætti að gera meiri greinarmun á annars vegar hlutafélögum og hins vegar einkahlutafélögum. Væru hin síðarnefndu oft minni félög, stofnendur fáir o.s.frv. Þá verður að telja, og var á það bent á af hálfu umsagnaraðila, að ákvæði breytingartillögunnar passi illa við ákvæði laganna um stjórnarkjör, en þau ákvæði eru nokkuð sérstök í íslenskum rétti. Virðist 1. minni hluti ganga út frá því að ef niðurstaða stjórnarkjörs samræmist ekki ákvæðum laganna, verði frumvarpið að lögum, verði að kjósa að nýju. Því er 2. minni hluti mótfallinn.
    Á vef Félags kvenna í atvinnurekstri kemur fram að samkvæmt könnun Capacent séu minni líkur á því að konur veljist í stöðu framkvæmdastjóra eftir því sem fyrirtæki eru stærri. Hjá minnstu fyrirtækjunum séu konur 22% framkvæmdastjóra en aðeins 9% þeirra stærstu. Þá eru konur um fimmtungur stjórnarmanna íslenskra fyrirtækja en hlutfall þeirra virðist hærra í varastjórnum þar sem 51% varamanna í stjórnum eru konur.
    Annar minni hluti tekur undir það sem fram kemur í sömu könnun um að farsælast væri að bæði kyn kæmu að stofnun og rekstri fyrirtækja. Sýna tölur um arðsemi fram á að árangur kvenkyns stjórnenda sé jafnvel betri en þegar karlar eru við stjórn. Þá eru fyrirtæki ólíklegri til að lenda í alvarlegum vanskilum ef framkvæmdastjórar þeirra eru konur, auk þess sem fyrirtæki stofnuð af báðum kynjum eru ólíklegri en önnur til að hætta rekstri, hvort sem er vegna gjaldþrots eða annarra ástæðna.
    Annar minni hluti telur að í stað þess að koma á jafnrétti með boðum og bönnum ætti jákvæð hvatning til fyrirtækja að vera ríkari og áhersla lögð á samstarf við atvinnulífið. 2. minni styður það átak og samstarfssamning sem að framan er getið þar sem er unnið í þeim anda að atvinnulífið sjálft stuðli að auknu jafnrétti meðal kynjanna. Þá vill 2. minni hluti benda á að hið opinbera ætti að ganga á undan með góðu fordæmi en athygli hefur vakið að við skipun í skilanefndir og slitastjórnir bankanna virðist ekki hafa verið litið til sjónarmiða um sem jöfnust hlutföll kynjanna. Einnig er það óþolandi að stjórnir sem svo eru skipaðar af viðkomandi skilanefndum og slitastjórnum virða þessi sjónarmið einnig að vettugi.
    Annar minni hluti styður ekki breytingartillögur 1. minni hluta nefndarinnar.

Alþingi, 16. des. 2009.



Ragnheiður E. Árnadóttir,


frsm.


Guðlaugur Þór Þórðarson.