Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 17. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 475  —  17. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum vegna endurskoðunar á undanþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samninginn og innleiðingar á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 178/2002 frá 28. janúar 2002 auk afleiddra gerða.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.


    Nefndin ákvað að taka málið til frekari umfjöllunar eftir að því hafði verið vísað til 3. umræðu. Nefndin telur rétt að árétta heimild ráðherra til að setja nánari ákvæði um framsal á eftirliti með reglugerð eins og gerð var tillaga um í nefndaráliti við 2. umræðu. Ráðherra setur reglugerð í samráði við Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlitssvæði sveitarfélaga um framsal eftirlits með kjötvinnslu á grundvelli 14. gr. frumvarpsins, og eftir atvikum einnig með framleiðslu mjólkur og mjólkurvara á bændabýlum og mótar þannig reglur um það í hvaða tilvikum heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga geta sinnt eftirliti með framangreindum afurðum. Í ljósi umfjöllunar um framsal eftirlits vill nefndin árétta að meginmarkmið með slíku framsali á að vera hagkvæmni þess og skilvirkni þannig að hagkvæmasti kosturinn hverju sinni sé valinn. Þess vegna er nauðsynlegt að meta hvort framsal er fjárhagslega hagkvæmt fyrir hlutaðeigandi aðila, eftirlitsþola, ríki og sveitarfélög.
    Þá leggur nefndin til tæknilega lagfæringu á b-lið 2. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    B-liður 2. gr. orðist svo: 2. mgr. orðast svo:
              Lyf, sbr. lyfjalög, eru undanþegin ákvæðum þessara laga. Þó gilda lög þessi um matvæli, þ.m.t. fæðubótarefni, sem innihalda lyf. Tóbak, sbr. lög um tóbaksvarnir, og vímuefni, önnur en áfengi, sbr. lög um ávana- og fíkniefni, eru undanþegin ákvæðum þessara laga. Það sama gildir um plöntur, fyrir uppskeru, sbr. lög um varnir gegn sjúkdómum og meindýrum á plöntum, fóður, sbr. lög um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, og lifandi dýr nema þau séu alin til markaðssetningar til manneldis.

Alþingi, 17. des. 2009.



Ólína Þorvarðardóttir,


frsm.


Helgi Hjörvar.


Ásmundur Einar Daðason.



Arndís Soffía Sigurðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.


Björn Valur Gíslason.



Jón Gunnarsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson,


með fyrirvara.