Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 273. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 479  —  273. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, og lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.

(Eftir 2. umr., 17. des.)



I. KAFLI

Breytingar á lögum nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar,
með síðari breytingum.
1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      3. mgr. orðast svo:
                      Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.
     b.      Á eftir orðunum „hlutaðeigandi lífeyrissjóðir“ í 4. mgr. kemur: Fangelsismálastofnun.
     c.      Við bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal eftir að umsókn hans skv. 1. mgr. hefur verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveður.
                      Félags- og tryggingamálaráðherra er heimilt að setja reglugerð, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs, um nánari framkvæmd ákvæðisins, þar á meðal um rafrænar umsóknir, svo sem hvernig standa skuli að undirskrift rafrænnar umsóknar og skilum á öðrum gögnum sem fylgja skulu rafrænni umsókn, sem og nánar um fyrirkomulag þess hvernig umsækjendur skulu hafa reglulegt samband við stofnunina.

2. gr.

    Á eftir 4. mgr. 11. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Úrskurðir úrskurðarnefndarinnar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta eru aðfararhæfir.

3. gr.

    Við 4. mgr. 12. gr. laganna bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, sbr. 6. mgr. 39. gr.

4. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:
     a.      C-liður 1. mgr. orðast svo: er búsettur og staddur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Vinnumálastofnun er heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum. Skal hinn tryggði þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

5. gr.

    Á eftir 4. mgr. 14. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Sá sem hefur verið skráður í nám, sbr. c-lið 3. gr., á síðustu námsönn án þess að hafa sannanlega lokið náminu og hyggst halda námi áfram á næstu námsönn telst ekki vera í virkri atvinnuleit í námsleyfi samkvæmt kennslu- og/eða námskrá hlutaðeigandi skóla. Hið sama gildir um námsmenn sem skipta um skóla milli námsanna eða fara milli skólastiga.

6. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna:
     a.      C-liður 1. mgr. orðast svo: er búsettur og staddur hér á landi, sbr. þó VIII. kafla.
     b.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Vinnumálastofnun er heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunna að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum. Skal hinn tryggði þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

7. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. laganna:
     a.      Í stað „36“ í 1. mgr. kemur: 72.
     b.      Í stað „48“ í 3. mgr. kemur: 84.
     c.      Í stað „36“ í 4. mgr. kemur: 72.

8. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 32. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 1. mgr. kemur: hálfan mánuð.
     b.      5. mgr. fellur brott.

9. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 33. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „4.431 kr. á dag“ í 2. mgr. kemur: 149.523 kr. á mánuði.
     b.      1. málsl. 3. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Vinnumálastofnun er heimilt að ráðstafa grunnatvinnuleysisbótum hins tryggða til vinnumarkaðsaðgerða fyrir hlutaðeigandi enda sé það tryggt að hinn tryggði njóti hærri launa meðan þátttaka hans í vinnumarkaðsaðgerð stendur yfir. Frestast þá greiðsla tekjutengdra atvinnuleysisbóta skv. 32. gr. eftir því sem við á.

10. gr.

    Við 35. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Vinnumálastofnun er heimilt að halda eftir greiðslu atvinnuleysisbóta sem hinum tryggða hefur áður verið ákvörðuð í allt að einn mánuð frá því að greiðsluna átti að inna af hendi þegar stofnunin hefur rökstuddan grun um að hinn tryggði uppfylli ekki lengur skilyrði laganna eða hafi þegar fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Þegar slíkur grunur vaknar skal Vinnumálastofnun án ástæðulauss dráttar og að lágmarki fimm virkum dögum fyrir næsta greiðsludag atvinnuleysisbóta skv. 1. mgr. tilkynna hlutaðeigandi með sannanlegum hætti að fyrirhugað sé að halda eftir greiðslu. Skal stofnunin jafnframt hefja athugun á málinu þegar í stað skv. 10. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og veita hlutaðeigandi andmælarétt skv. 13. gr. sömu laga. Ákvæði stjórnsýslulaga gilda að öðru leyti um málsmeðferðina.
    Komist Vinnumálastofnun að því eftir að hafa upplýst málið nægjanlega að hinn tryggði hafi átt rétt á þeirri greiðslu, að hluta eða öllu leyti, sem haldið var eftir skv. 2. mgr. ber stofnuninni að greiða þá fjárhæð í síðasta lagi næsta greiðsludag skv. 1. mgr. ásamt vöxtum fyrir það tímabil sem féð var í vörslu Atvinnuleysistryggingasjóðs. Skulu vextir þessir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir á hverjum tíma skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.

11. gr.

    Á eftir 35. gr. laganna kemur ný grein, 35. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Tilkynning um tilfallandi vinnu.

    Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vara.

12. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 36. gr. laganna:
     a.      Í stað „2. mgr.“ í 1. mgr. kemur: 4. mgr.
     b.      Í stað orðanna „og fjármagnstekjur hins tryggða“ í 1. mgr. kemur: greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru komnar til vegna óvinnufærni að hluta, fjármagnstekjur hins tryggða og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kann að fá frá öðrum aðilum.
     c.      Á eftir 1. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                      Umönnunargreiðslur sem ætlaðar eru til að mæta útlögðum kostnaði vegna veikinda eða fötlunar barns, styrkir úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem ekki eru ætlaðir til framfærslu hins tryggða og styrkir úr opinberum sjóðum eða sambærilegum sjóðum sem hinn tryggði fær til þróunar eigin viðskiptahugmyndar skulu ekki koma til frádráttar greiðslum samkvæmt lögum þessum. Þegar um er að ræða aðrar áður ótaldar greiðslur sem ekki eru ætlaðar til framfærslu hins tryggða skal Vinnumálastofnun meta í hverju tilviki hvort þær skuli koma til frádráttar atvinnuleysisbótum skv. 1. mgr.
                      Þegar hinn tryggði fær greiðslur frá sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem eru til komnar vegna óvinnufærni að hluta, sbr. 1. mgr., skal hinn tryggði jafnframt leggja fram vottorð til Vinnumálastofnunar um vinnufærni sína ásamt staðfestingu frá sjúkrasjóði stéttarfélags um hversu mikla óvinnufærni verið er að bæta en að öðrum kosti gildir 1. mgr. 51. gr. um þær greiðslur.

13. gr.

    Við 39. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 2. mgr. eru aðfararhæfar, sbr. þó 4. mgr. 12. gr.

14. gr.

    Í stað orðanna „í a.m.k. þrjá mánuði“ í 1. mgr. 47. gr. laganna kemur: a.m.k. síðasta mánuðinn.

15. gr.

    1. mgr. 51. gr. laganna orðast svo:
    Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

16. gr.

    2. og 3. mgr. 52. gr. laganna orðast svo:
    Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.
    Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

17. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 54. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „40 dögum“ í 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: hálfan mánuð.

18. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 55. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „40 dögum“ í 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: hálfan mánuð.

19. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „60 dögum“ í 1. mgr. kemur: þremur mánuðum.
     b.      Í stað orðanna „átta vikur“ í 3. mgr. kemur: tvo mánuði.

20. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 57. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „40 dögum“ í 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: hálfan mánuð.

21. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 58. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „40 dögum“ í 1. mgr. kemur: tveimur mánuðum.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.
     c.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: hálfan mánuð.

22. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 59. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                      Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.
     b.      2. mgr. orðast svo:
                      Hinn tryggði skal uppfylla skilyrði laga þessara á viðurlagatímanum skv. 1. mgr. Veiti hann Vinnumálastofnun ekki nauðsynlegar upplýsingar á þeim tíma eða tilkynni um breytingar á högum getur komið til ítrekunaráhrifa skv. 61. gr.
     c.      Í stað orðanna „tíu virka daga“ í 3. mgr. kemur: hálfan mánuð.
     d.      Fyrirsögn greinarinnar orðast svo: Látið hjá líða að veita upplýsingar eða látið hjá líða að tilkynna um breytingar á högum.

23. gr.

    60. gr. laganna orðast svo:
    Sá sem veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

24. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 61. gr. laganna:
     a.      Í stað orðanna „60 virkum dögum“ í 1. mgr. kemur: þremur mánuðum.
     b.      Í stað orðanna „átta vikur“ í 3. mgr. kemur: tvo mánuði.

25. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða V í lögunum:
     a.      Í stað 1. málsl. 2. mgr. koma tveir nýir málsliðir, svohljóðandi: Þegar atvinnuleysisbætur eru greiddar samhliða minnkuðu starfshlutfalli skv. 17. og 22. gr. vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitanda skulu föst laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall ekki koma til skerðingar á fjárhæð atvinnuleysisbóta skv. 36. gr. enda hafi fyrra starfshlutfall verið lækkað um 20% hið minnsta og hinn tryggði haldið að lágmarki 50% starfshlutfalli. Þessi tímabundna breyting á ráðningarsamningi skal vara í þrjá mánuði í senn.
     b.      Í stað „2. mgr. 36. gr.“ í 3. málsl. 2. mgr. kemur: 4. mgr. 36. gr.
     c.      Á eftir 2. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þrátt fyrir 2. mgr. skulu laun frá vinnuveitanda fyrir hið minnkaða starfshlutfall og atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. samanlagt aldrei nema hærri fjárhæð en 491.318 kr. á mánuði.
     d.      Á eftir orðunum „að hluta vegna“ í 3. mgr., sem verður 4. mgr., kemur: tímabundins.
     e.      Á eftir 4. mgr., sem verður 5. mgr., kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Þeir sem þegar fá greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur samkvæmt ákvæði þessu skulu uppfylla skilyrði ákvæðisins frá 1. janúar 2010.
     f.      Í stað orðanna „31. desember 2009“ í 5. mgr., sem verður 7. mgr., kemur: 30. júní 2010.

26. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á ákvæði til bráðabirgða VI í lögunum:
     a.      Á eftir 3. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                      Sjálfstætt starfandi einstaklingur á rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis þessa samfellt í allt að þrjá mánuði. Þeir sem þegar hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðis þessa á tímabilinu frá 21. nóvember 2008 til 31. desember 2009 eiga rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli ákvæðisins í allt að tvo mánuði að öðrum skilyrðum laganna uppfylltum.
     b.      Í stað orðanna „31. desember 2009“ í 4. mgr., sem verður 5. mgr., kemur: 30. júní 2010.

27. gr.

    Við lögin bætast tvö ný ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     a.      (VIII.)
                      Þrátt fyrir 1. mgr. 36. gr. skulu elli- og örorkulífeyrisgreiðslur úr séreignarsjóðum samtals að fjárhæð 1.000.000 kr. sem hafa verið eða verða teknar út á tímabilinu 1. mars 2009 til 1. október 2010 ekki koma til frádráttar atvinnuleysisbótum. Skilyrði er að fjárhæðin greiðist út með jöfnum mánaðarlegum greiðslum, að frádreginni staðgreiðslu samkvæmt lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, í níu mánuði frá því að beiðni um útgreiðslu er lögð fram hjá vörsluaðila.
     b.      (IX.)
                      Ákvæði 25. gr. skal gilda um þá sem töldust tryggðir samkvæmt lögum þessum en hættu þátttöku á vinnumarkaði til að stunda nám eftir 1. júlí 2006.

II. KAFLI

Breyting á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum.
28. gr.

    Á eftir 2. mgr. 5. gr. laganna kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
    Úrskurðir nefndarinnar um endurkröfu ofgreiddra greiðslna samkvæmt lögum þessum eru aðfararhæfir.

29. gr.

    Við 6. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Stjórnsýslukæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Stjórnsýslukæra frestar þó aðför á grundvelli ákvörðunar Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, sbr. 6. mgr. 15. gr. a laganna.

30. gr.

    Við 15. gr. a laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Ákvarðanir Vinnumálastofnunar um endurkröfu ofgreiddra greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skv. 2. mgr. eru aðfararhæfar.

III. KAFLI
Gildistaka.
31. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010. Þó skulu 8. gr. og a- og b-liður 9. gr. taka gildi 1. maí 2010.