Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 174. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 488  —  174. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurgeir Þorgeirsson, Hrefnu Gísladóttur, Jóhann Guðmundsson og Kristján Frey Helgason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Árna Múla Jónasson og Auðun Ágústsson frá Fiskistofu, Friðrik J. Arngrímsson frá Landssamband íslenskra útvegsmanna, Örn Pálsson og Arthur Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda, Jóhann Sigurjónsson og Þorstein Sigurðsson frá Hafrannsóknastofnuninni, Hólmgeir Jónsson og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandinu, Guðmund Ragnarsson frá VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Árna Bjarnason frá Farmanna- og fiskimannasambandinu, Gunnar Tómasson og Guðberg Rúnarsson frá Samtökum fiskvinnslustöðva og Jón Stein Elíasson og Albert Svavarsson frá Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda.
    Umsagnir bárust frá Þorvaldi Garðarssyni, formanni Árborgar, félags smábátaeigenda á Suðurlandi, Arnari Atlasyni, f.h. hóps leigjenda aflamarks, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Fiskistofu, Starfsgreinasambandinu, Sjómannasambandi Íslands, VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hvíldarkletti ehf., Sumarbyggð ehf., Samtökum atvinnulífsins, Hafrannsóknastofnuninni, Viðskiptaráði Íslands, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum fiskvinnslustöðva, Samtökum fiskframleiðenda og útflytjenda og Landssambandi smábátasjómanna.
    Í frumvarpinu eru lagðar til átta meginbreytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í fyrsta lagi er um að ræða að heimilað verði að stunda veiðar í atvinnuskyni á sama tímabili og frístundaveiðar eru stundaðar. Í öðru lagi verði dregið úr heimild til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%. Lagt er til að línuívilnun verði aukin. Í fjórða lagi verði ráðherra heimilt með reglugerð að kveða á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að svokölluð veiðiskylda verði aukin. Í sjötta lagi er lagt til að heimildir til flutnings aflamarks frá skipi verði takmarkaðar í þeim tilgangi að stuðla að því að aflaheimildir séu nýttar til veiða. Í sjöunda lagi er í frumvarpinu bráðabirgðaákvæði er lýtur að veiðistjórn á skötusel og gjaldtöku fyrir úthlutun aflamarks. Loks er lagt til að leyfilegum heildarafla í karfa verði skipt upp í gullkarfa og djúpkarfa.
    Ekki var ágreiningur um 1. gr. og er mat meiri hlutans að hún sé til þess fallin að renna styrkari stoðum undir útgerð frístundafiskiskipa. Meiri hlutinn telur mikilvægt að huga að þessari atvinnugrein þar sem hún er ný, veiðarnar eru atvinnuskapandi auk þess að laða að ferðamenn sem skapar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Í ljósi þessa leggur meiri hlutinn til þá breytingu að heimila ráðherra á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 að ráðstafa allt að 200 lestum af óslægðum botnfiski á hvoru ári. Gegn greiðslu gjalds verði heimilt að ráðstafa aflaheimildum þessum til skipa sem leyfi hafa til frístundaveiða, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 6. gr. laganna, vegna afla sem fenginn er við frístundaveiðar. Nánari útlistun þessa ákvæðis er að finna í breytingartillögum meiri hlutans.
    Rætt var hvort rétt væri að lækka heimild til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að réttast væri að miða við óbreytta heimild. Meiri hlutinn vekur athygli því að heimild þessi var hækkuð úr 20% í 33% af aflamarki hverrar botnfisktegundar á síðasta ári. Hlutfallið var meðal annars hækkað þar sem talið var heppilegt að nýta slíka heimild í ýsu þar sem líklegt var að leyfilegur ýsuafli mundi dragast saman á þessu ári (sbr. þskj. 123, 114. mál 136. löggjþ.). Að athuguðu máli telur meiri hlutinn rétt að heimildin sé lækkuð til að ná því markmiði að auka hagkvæma nýtingu fiskstofna. Gert er ráð fyrir að hafi ráðherra heimild til að hækka þetta hlutfall verði það til að stuðla að betri nýtingu tegundar, sbr. b-lið 1. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Er það mat meiri hlutans að skynsamlegt sé að tryggja nauðsynlegan sveigjanleika í kerfinu á þennan hátt.
    Jafnframt telur meiri hlutinn að breytingartillögur sem miða að því að auka veiðiskyldu geti stuðlað að aukinni veiði. Að sama skapi telur meiri hlutinn að hugmyndir um að takmarka heimildir til að flytja aflamark milli skipa við 50% ýti undir að aflaheimildir séu nýttar til veiða. Auk þess sem þetta ákvæði er til þess fallið að takmarka málamyndagjörninga með aflaheimildir.
    Töluvert var rætt um að ráðherra fái heimildir til að skylda útgerðir skipa til að vinna hluta aflans. Rædd voru þau sjónarmið hvort réttara væri að hlutaðeigandi aðilar legðu sjálfir mat á vinnsluaðferðir. Niðurstaða meiri hlutans er að á þennan hátt megi best tryggja að hámarksverðmæti fáist við nýtingu stofnanna þannig að fiskur sem vel er hæfur til manneldis endi ekki í bræðslu. Það er mat meiri hlutans að mikilvægt sé að ganga með ábyrgum hætti um nytjastofna sjávar og hlúa að þeirri ímynd sem við höfum á alþjóðavettvangi sem ábyrg fiskveiðiþjóð.
    Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á ákvæði laganna sem snýr að línuívilnun. Frumvarpið gerir ráð fyrir að ívilnunin hjá bátum sem nota landbeitta línu verði aukin úr 16% í 20% umfram þann afla sem reiknast til aflamarks. Meiri hlutinn telur þessar breytingar jákvæðar og þess eðlis að skapa fleiri störf í landi. Meiri hlutinn áréttar þó mikilvægi þess að við ákvörðun heildaraflamarks sé tekið mið af áætluðum afla fengnum með línuívilnun svo að sá afli bætist ekki ofan á það magn sem að var stefnt miðað við ráðgjöf. Á fundum nefndarinnar komu fram þau sjónarmið umsagnaraðila að í þessu fælist mismunun þar sem bátar með beitingarvélar fengju ekki línuívilnun. Meiri hlutinn vekur athygli á því að beiting með beitingarvélum um borð er ekki til þess fallin að skapa fleiri störf en markmiðið með þessari heimild er að skapa störf í landi.
    Á fundum sínum fjallaði nefndin um aukna úthlutun aflaheimilda í skötusel á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011. Fram kom að skötuselurinn er ágengur og vaxandi fiskstofn á Íslandsmiðum og hefur hann hefur dreifst mjög hratt. Þegar stofninn var upphaflega settur í kvóta var það ekki að tillögu Hafrannsóknastofnunarinnar. Stofninn stækkaði hratt á tímabilinu 2002–2005 samfara vaxandi útbreiðslu og hefur afli fimmfaldast úr 5–600 tonnum tímabilið 1973–1996 í 2.300–2.900 tonn á árunum 2004–2008. Hins vegar telur meiri hlutinn að rannsóknir á vexti og viðgangi skötuselsstofnsins skorti og þörf sé á frekari rannsóknum á þessum þáttum, sem og áhrifum skötuselsins á vöxt og viðgang annarra nytjastofna. Meiri hlutinn vekur athygli á að hér er um að ræða tímabundið bráðabirgðaákvæði til tveggja ára sem veitir ráðherra heimild til að ráðstafa allt að 2.000 tonnum umfram aflamark. Engu síður telur meiri hlutinn mikilvægt að við úthlutun veiðiheimilda í skötusel hafi ráðherra samráð við Hafrannsóknastofnunina. Við umfjöllunina var rætt hvort rétt væri að fjalla fyrst um þessi mál í sáttanefnd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um framtíðarskipan í fiskveiðistjórn. Í því samhengi vekur meiri hlutinn athygli á að umdeildasta ákvæðið sem hér er til umræðu er til einungis til bráðabirgða. Frumvarpið gerir ráð fyrir að tekjur af aflaheimildum renni í ríkissjóð og skuli þeim ráðstafað á þann veg að 40% renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs en 60% verði varið til byggðaáætlunar. Meiri hlutinn gerir þá breytingartillögu að 60% tekna af aflaheimildum skötusels renni í Átak til atvinnusköpunar í stað byggðaáætlunar, enda er það skjótvirk og skilvirk leið til atvinnueflingar.
    Meiri hlutinn telur brýnt að flýta skiptingu karfa í djúpkarfa og gullkarfa eins og kostur er. Tillaga sú sem lögð er fram í frumvarpinu er afrakstur vinnu starfshóps á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem falið var að gera tillögur um reglur við framkvæmd skiptingar heildaraflamarks fyrir gullkarfa og djúpkarfa. Meiri hlutinn telur þessa leið skynsamlega og stuðla að betra eftirliti með hvorum stofni fyrir sig og vísar í því samhengi til þess að Hafrannsóknastofnunin hefur í nokkur ár lagt til í ráðgjöf sinni að aflamarki í gullkarfa og djúpkarfa verði úthlutað aðskildu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi
    

BREYTINGUM:     1.      Í stað orðsins „byggðaáætlun“ í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I komi: Átak til atvinnusköpunar.
     2.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
                  Á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 hefur ráðherra til ráðstöfunar aflaheimildir sem nema allt að 200 lestum af óslægðum botnfiski á hvoru ári. Gegn greiðslu gjalds er heimilt að ráðstafa aflaheimildum þessum til skipa sem hafa leyfi til frístundaveiða, sbr. 2. tölul. 4. mgr. 6. gr. laganna, vegna afla sem er fenginn við frístundaveiðar. Verð á aflaheimildum skal vera meðalverð í viðskiptum með aflamark, sem birt er á vef Fiskistofu, í lok dags daginn áður en viðskipti fara fram og skal það greitt Fiskistofu fyrir úthlutun. Ráðherra kveður nánar á um úthlutun aflaheimilda í reglugerð.
                  Um tekjur af aflaheimildum þessum fer skv. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða I.

Alþingi, 17. des. 2009.Ólína Þorvarðardóttir,


varaform., frsm.


Helgi Hjörvar.


Ásmundur Einar Daðason.Björn Valur Gíslason.


Róbert Marshall.


Arndís Soffía Sigurðardóttir,


með fyrirvara.