Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 75. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 493  —  75. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um Siglingastofnun Íslands, nr. 6/1996, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson og Sigurð Örn Guðleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti, Friðrik Friðriksson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Jón H. Magnússon frá Samtökum atvinnulífsins.
    Umsagnir bárust frá Landssambandi smábátaeigenda, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Siglingastofnun Íslands, Samtökum atvinnulífsins og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
    Markmið frumvarpsins er að gera lagaákvæði um gjaldtöku Siglingastofnunar Íslands skýrari þannig að ekki leiki vafi á því fyrir hvaða efni og þjónustu stofnunin hefur heimild til að taka gjald. Helstu nýmæli í frumvarpinu eru í fyrsta lagi að kveðið er á um að Siglingastofnun geti aflað sér tekna með sölu á sérhæfðri þjónustu vegna starfsemi sem rekin er á viðskiptagrundvelli á samkeppnismarkaði. Gert er ráð fyrir að greina skuli kostnað allra verkefna og á kostnaður við þessa sérhæfðu þjónustu að vera fjárhagslega aðskilinn frá lögmæltum verkefnum stofnunarinnar. Í frumvarpinu er einnig það nýmæli að taldir eru upp þeir kostnaðarliðir sem gjöldum, sem kveðið er á um í ýmsum sérlögum fyrir þjónustu Siglingastofnunar, er ætlað að standa straum af. Er þetta sérstaklega gert til að koma til móts við álit umboðsmanns Alþingis sem hefur margsinnis gert athugasemdir við óskýrleika gjaldtökuheimilda þar sem ekki hefur legið fyrir hvaða kostnaðarliðum viðkomandi gjaldi er ætlað að standa undir.
    Það er mat nefndarinnar að fyrrgreindar tillögur séu til þess gerðar að styrkja stöðu Siglingastofnunar og gera stofnuninni kleift að nýta þá sérfræðiþekkingu sem hún býr yfir. Nefndin telur einnig að greitt sé úr þeirri óvissu sem uppi hefur verið um gjaldtökuheimildir Siglingastofnunar í sérlögum og leggur áherslu á mikilvægi þess að reynt sé að koma til móts við sjónarmið umboðsmanns Alþingis. Nefndin telur þó mikilvægt að sérstaklega sé áréttað að við gjaldtöku sé miðað við raunkostnað við veitta þjónustu og gerir nefndin breytingartillögu þess efnis.
    Björgvin G. Sigurðsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
         Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Við 2. gr. Á eftir orðinu „kostnað“ í 3. málsl. 3. efnismgr. komi: sem hlýst af því að veita viðkomandi þjónustu.

Alþingi, 18. des. 2009.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Oddný G. Harðardóttir.



Árni Þór Sigurðsson.


Ásbjörn Óttarsson.


Árni Johnsen.