Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 74. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 494  —  74. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um vitamál, nr. 132/1999.

Frá samgöngunefnd.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Karl Alvarsson og Sigurð Örn Guðleifsson frá samgöngu- og sveitarstjórnarmálaráðuneyti, Ágúst Ágústsson frá Cruise Iceland, Gísli Gíslason frá Hafnasambandi Íslands, Signý Sigurðardóttir frá SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, flutningasviði, Friðrik Friðriksson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Ólafur Jónsson frá Skeljungi hf.
    Umsagnir bárust frá Skeljungi, Landssambandi íslenskra útgerðarmanna, Samtökum verslunar og þjónustu, VM – Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Hafnarsambandi Íslands, Byggðastofnun, Landssambandi smábátaeigenda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Cruise Iceland.
    Tilgangur frumvarpsins er tvíþættur. Annars vegar er gerð tillaga um að hækka vitagjald í samræmi við verðlagsbreytingar og þróun gengis frá því að gjaldið var hækkað með lögum nr. 142/2002. Með frumvarpinu er lagt til að vitagjald verði 156,50 kr. á hvert brúttótonn sem er 100% hækkun í samræmi við þróun gengisbreytinga og hækkun neysluvísitölu. Vísitalan hefur hækkað um 39% frá 2002 til 2009 og evran um 100%. Hins vegar er lögð til í frumvarpinu sú breyting að vitagjaldið megi ekki einungis nota í verkefni skv. 2. gr. laga um vitamál heldur til að standa straum af kostnaði við rekstur Siglingastofnunar Íslands og framkvæmdir á hennar vegum.
    Á fundum nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að umrædd hækkun gæti haft alvarlegar afleiðingar, t.d. fækkun ferðamanna sem ferðast með skemmtiferðaskipum til landsins. Umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við að hækkun gjaldsins væri tengd við þróun gengis evru og töldu að 100% hækkun gjaldsins eins og hér er lagt til væri óviðunandi. Auk þess var gagnrýnt að heimiluð yrði nýting vitagjaldsins til almenns rekstrar Siglingastofnunar þar sem það væri ekki tilgangur gjaldsins, heldur væri það í eðli sínu þjónustugjald en ekki skattur.
    Nefndin fjallaði um málið og fór yfir þau sjónarmið sem fram komu á fundum nefndarinnar. Er það mat nefndarinnar að hér sé um eðlilega og nauðsynlega breytingu að ræða en að sama skapi er það mat nefndarinnar að rétt sé að takmarka hækkunina við 60% sem lætur nærri að sé hækkun neysluverðsvísitölu frá því að gjaldskránni var síðast breytt 30. september 2002 til dagsins í dag. Nefndin gerir því sérstaka breytingartillögu þess efnis. Auk þess áréttar nefndin mikilvægi þess að gjaldskrár séu uppfærðar reglulega í samræmi við verðlagsþróun.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:    Í stað fjárhæðarinnar „156,50“ í a-lið 2. gr. komi: 125,12.

    Björgvin G. Sigurðsson, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Guðmundur Steingrímsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. des. 2009.Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Oddný G. Harðardóttir.Árni Þór Sigurðsson.


Ásbjörn Óttarsson,


með fyrirvara.


Árni Johnsen.