Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 257. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 495  —  257. mál.
Nefndarálitum frv. til l. um umhverfis- og auðlindaskatta.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Indriða H. Þorláksson, Maríönnu Jónasdóttur, Ingibjörgu Helgu Helgadóttur og Ögmund Hrafn Magnússon frá fjármálaráðuneyti, Vilhjálm Egilsson, Hannes G. Sigurðsson og Guðlaug Stefánsson frá Samtökum atvinnulífsins, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Elínu Björgu Jónsdóttur og Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stefán Baldursson frá Bandalagi háskólamanna, Jón Steindór Valdimarsson og Ragnheiði Héðinsdóttur frá Samtökum iðnaðarins, Sigurð Þór Ásgeirsson frá Alcan, Ragnar Guðmundsson frá Norðuráli, Gunnar Jónsson hrl., f.h. Alcoa Fjarðaáls, Gunnar H. Sigurðsson frá Sementsverksmiðjunni, Gústaf Adolf Skúlason frá Samorku, Árna Gunnarsson, Ernu Hauksdóttur og Gunnar Val Sveinsson, frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Birki Hólm Guðnason og Björgólf Jóhannsson frá Icelandair, Matthías Imsland, Bjarna Jónsson frá Sambandi garðyrkjubænda, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Árni Bjarnason og Guðjón Ármann Einarsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Guðmund Ragnarsson frá Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Friðrik Jón Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Runólf Ólafsson frá Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Sigríði Ósk Sigurðardóttur frá ÁTVR, Andrés Magnússon og Signýju Sigurðardóttur frá Samtökum verslunar og þjónustu, Finn Oddsson og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands, Almar Guðmundsson frá Félagi íslenskra stórkaupmanna, Guðjón Rúnarsson og Helgu Jónsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Braga Gunnarsson frá Nýja Landsbankanum, Tanya Zharov frá Auði Capital, Örn Gústafsson frá Okkar líf, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta, Hrafn Magnússon og Gunnar Baldvinsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Marinó G. Njálsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Unnar Stefánsson frá Félagi eldri borgara í Reykjavík, Kristjönu H. Guðmundsdóttur frá Félagi eldri borgara í Kópavogi, Helga K. Hjálmsson og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur frá Landssambandi eldri borgara, Guðmund Magnússon og Sigríði Hönnu Ingólfsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Karl Björnsson og Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Gunnar Gunnarsson, Markús Möller, Þórarin Gunnar Pétursson og Þorvarð Tjörva Ólafsson frá Seðlabanka Íslands, Svein Agnarsson frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, Axel Hall frá Háskólanum í Reykjavík, Þóri H. Ólafsson frá Félagi löggiltra endurskoðenda, Friðgeir Sigurðsson og Elínu Árnadóttur frá PricewaterhouseCoopers, Völu Valtýsdóttur og Garðar Valdimarsson frá Deloitte, Sigurð Jónsson, Alexander Edvardsson og Sigurjón Pál Högnason frá KPMG, Árna Stefánsson og Gunnar Birgisson frá Vífilfelli, Ingvar J. Rögnvaldsson, Guðrúnu J. Jónsdóttur, Elínu Ölmu Arthúrsdóttur og Jón Guðmundsson frá ríkisskattstjóra, Runólf Birgi Leifsson, Sigurð Grétarsson og Rögnu Haraldsdóttur frá Tryggingastofnun ríkisins, Stefán Skjaldarson frá skattrannsóknarstjóra ríkisins, Eddu Símonardóttur frá tollstjóra og Barbara Wdowiak og Magdalenu Láru Gestsdóttur frá Félagi viðurkenndra bókara.
    Þá bárust umsagnir og athugasemdir frá Alþýðusambandi Íslands, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Bandalagi íslenskra leigubifreiðastjóra, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bílum og fólki ehf., Bændasamtökum Íslands, Deloitte hf., Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Félagi skipstjórnarmanna sameiginlega, Félagi ferðaþjónustubænda, Félagi íslenskra bifreiðaeigenda, Félagi íslenskra stórkaupmanna, Félagi löggiltra endurskoðenda, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Félagi viðurkenndra bókara, Fjármálaeftirlitinu, fjármálaráðuneyti, Guðmundi Tyrfingssyni ehf., Hagsmunasamtökum heimilanna, Háskólanum í Reykjavík, Íbúðalánasjóði, Jafnréttisstofu, Kauphöll Íslands, KPMG hf., Landssambandi eldri borgara, Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Samtökum fiskvinnslustöðva sameiginlega, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Landssambandi veiðifélaga, Landssamtökum lífeyrissjóða, Lýðheilsustöð, Lögmannafélagi Íslands, Neytendasamtökunum, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Olíuverslun Íslands hf., Orkustofnun, Orkuveitu Húsavíkur, Persónuvernd, PricewaterhouseCoopers hf, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Sambandi garðyrkjubænda, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samorku – Samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samtökum iðnaðarins, Samtök iðnaðarins o.fl. (SA , SI, SART, SFF, LÍÚ, SAF, SF, SVÞ) sameiginlega, Seðlabanka Íslands, Sjómannasambandi Íslands, Skattstofu Suðurlandsumdæmis, Skattstofu Vestfjarðaumdæmis, SkattVís slf., Skeljungi hf., Strætó bs., SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, tollstjóranum í Reykjavík, Tónastöðinni, Tryggingastofnun ríkisins, Umhverfisstofnun, Viðskiptaráði Íslands, Vínbúðinni – ÁTVR og Æðarræktarfélagi Íslands.
    Í kjölfar efnahagshrunsins horfir íslenskt samfélag fram á mikla erfiðleika. Íslenskar fjölskyldur hafa orðið fyrir miklu áföllum sem og íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Ríkissjóður er ekki undanskilinn frá þeim miklu erfiðleikum eins og ráða má af frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 þar sem mikill niðurskurður er boðaður á flestum sviðum. Ríkissjóður verður einnig að leita nýrra leiða til að afla tekna til að standa straum af þeim kostnaði sem af efnahagshruninu hlýst. Nefndin hefur fengið til umfjöllunar þrjú frumvörp sem varða sérstakar tekjuöflunaraðgerðir, sbr. mál nr. 239 (ráðstafanir í skattamálum), nr. 256 (tekjuöflun ríkissjóðs) og nr. 257 (orku- og umhverfisskattar). Nefndarálit þetta varðar síðastnefnda frumvarpið en í ljósi aðdragandans samþykkti nefndin að ræða málin saman.
    Frumvarpið kveður á um upptöku sérstaks kolefnisgjalds á fljótandi jarðefnaeldsneyti sem og að lagður verði skattur á sölu á raforku og heitu vatni. Í I. kafla frumvarpsins er mælt fyrir um að gjald á jarðefnaeldsneyti sé föst krónutala á hvern lítra eldsneytisins og skulu gjaldskyldir aðilar standa skil á kolefnisgjaldinu við tollafgreiðslu ef um innflutning er að ræða en við afhendingu í tilviki innlendrar framleiðslu eða aðvinnslu. Gjaldtakan byggist á kolefnisinnihaldi hverrar tegundar eldsneytis fyrir sig og tekur mið af söluverði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB (EU ETS) eins og það hefur verið síðastliðið ár. Samkvæmt frumvarpinu skal fjárhæð gjaldsins vera 2,90 kr. á hvern lítra af gas- og dísilolíu, 2,60 kr. á hvern lítra af bensíni, 2,70 kr. á hvern lítra af flugvéla- og þotueldsneyti og 3,10 kr. á hvern lítra af brennsluolíu. Skal tollstjóri annast álagningu og innheimtu ásamt því að hafa á hendi eftirlit með greiðslu gjaldsins.
    Í athugasemdum við frumvarpið er áætlað að kolefnisgjald muni árlega skila rúmlega 2,5 milljörðum kr. í ríkissjóð og að áhrif þess á vísitölu neysluverðs geti orðið 0,07% til hækkunar.
    Í II. kafla frumvarpsins er kveðið á um að innheimta skuli skatt af seldri raforku og heitu vatni fram til ársloka 31. desember 2012. Skal skattur á hverja kílóvattstund af seldri raforku nema 0,12 kr. og skattur af heitu vatni vera 2,0% af smásöluverði á heitu vatni. Skattskyldan nær til þeirra sem selja raforku og heitt vatn til endanlegra notenda og eiga söluaðilarnir að innheimta skattinn og skila honum í ríkissjóð. Frumvarpið gerir jafnframt ráð fyrir að skattskyldan nái til aðila sem framleiða raforku og/eða heitt vatn til eigin nota. Aftur á móti er ekki innheimtur skattur á raforku eða heitt vatn sem afhent er öðrum skattskyldum aðila né þegar slíkt er notað eingöngu til framleiðslu á raforku eða heitu vatni til endursölu. Álagning og innheimta skattsins sem ríkisskattstjóri annast er byggð á sams konar sjónarmiðum og eiga við um virðisaukaskatt. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að skattskyldir aðilar vegna sölu á raforku og heitu vatni geti dregið frá skilum sínum þá fjárhæð er nemur sannanlega töpuðum útistandandi kröfum.
    Áætlað er að skattur á sölu raforku skili tæpum 2 milljörðum kr. í tekjur fyrir ríkissjóð á hverju ári og skattur af heitu vatni um 200 millj. kr. Talið er að áhrif þessara skatta séu um 0,04% til hækkunar á vísitölu neysluverðs.

Kolefnisgjald.
    Fulltrúar atvinnulífs, stóriðju og iðnaðar gagnrýndu samráðsleysi stjórnvalda við gerð fjárlagafrumvarpsins og töldu að áform sem þar voru kynnt um upptöku orku-, umhverfis- og kolefnisskatts hefðu verið óásættanleg og til þess fallin að hafa skaðleg áhrif á erlenda fjárfestingu. Frumvarp þetta væri afrakstur málamiðlunar en að auki hefðu álverin skuldbundið sig til að fyrirframgreiða samtals árlega 1200 millj. kr. á næstu þremur árum upp í væntanlega álagningu á tekjuskatti og öðrum opinberum gjöldum. Sjónarmið komu fram um að kolefnisgjaldið kæmi ásamt öðrum fyrirhuguðum skatta og gjaldahækkunum illa við atvinnulífið og að mikilvægt væri að lögfesta kolefnisgjaldið ekki varanlega heldur að hafa það tímabundið eins og til stæði varðandi skatt á raforku og heitt vatn.
    Einstakir flugrekstraraðilar sem komu á fund nefndarinnar telja hagsmuni ríkissjóðs vera meiri af því að laða ferðamenn til landsins í stað þess að taka upp nýjar álögur sem aðilar í ferðaþjónustu eiga erfitt með að standa undir. Einnig var á það bent að olíukostnaður væri stór útgjaldaliður útgerðarinnar og hækkun drægi úr samkeppnishæfni sjávarútvegsfyrirtækja. Á fundum nefndarinnar gerðu hagsmunaaðilar einnig sérstaka grein fyrir erfiðri stöðu á byggingarmarkaði og í verslun og þjónustu.
    Talsmenn heimila sem komu á fund nefndarinnar tóku fram að upptaka kolefnisgjalds samhliða öðrum fyrirhuguðum skatta- og gjaldahækkunum mundi koma illa við heimili landsins og gæti orðið umfram greiðslugetu þeirra m.a. vegna áhrifa á verðlag og vísitölu. Gagnrýnt var að yfirlýstur tilgangur gjaldtökunnar um vernd umhverfisins viki í frumvarpinu fyrir sjónarmiðum um tekjuöflun ríkisins. Jafnframt mætti búast við að gjaldtakan yrði sérstaklega íþyngjandi fyrir íbúa landsbyggðarinnar þar sem hún mundi leiða til hækkunar flutningskostnaðar.
    Við umfjöllun nefndarinnar var athygli vakin á því að kolefnisgjaldið væri einskorðað við fljótandi eldsneyti en ekki eldsneyti á öðru formi, þ.e. kol og gas, auk þess sem gerð var athugasemd við að álagningin ætti að vera bundin tegundarheitum en ekki tollskrárnúmerum. Sumir töldu það ekki heldur samræmast uppbyggingu skattkerfisins að fela tollstjóra að annast álagningu gjaldsins á innlenda framleiðslu en af hálfu fjármálaráðuneytis var bent á að fyrir því séu fordæmi.

Skattur á raforku og heitt vatn.
    Á fundum nefndarinnar var undirstrikað að raforka og heitt vatn væru mikilvægir rekstrarliðir í hvers kyns iðnaði, landbúnaði og nauðsynlegu heimilishaldi. Fram kom að raforka væri nú þegar undirorpin mikilli gjaldtöku sem notendur bera endanlegan kostnað af og þá geti slæm fjárhagsstaða margra orkufyrirtækja gefið tilefni til frekari hækkana.
    Samband íslenskra garðyrkjubænda mótmælti aukinni skattlagningu á raforku og benti á að kostnaður vegna raforkukaupa hefði hækkað umtalsvert á árinu samhliða hækkun annarra rekstrarliða. Fjármálaráðuneytið afhenti nefndinni minnisblað þar sem fram kemur að stjórnvöld áforma að endurgreiða garðyrkjubændum skattinn með tilgreindum hætti og að það sama eigi að gera vegna íbúa á köldum svæðum.
    Nefndin ræddi þá hugmynd Orkustofnunar um að fela Landsneti að standa ríkissjóði skil á innheimtu skatts á raforku en að fengnum viðbrögðum fjármálaráðuneytis sér meiri hlutinn ekki ástæðu til þess þar sem hann telur að þessi tilhögun verði ekki til einföldunar á framkvæmd skattsins.
    Nefndin ræddi kosti og galla þess að miða álagningarstofn við smásöluverð á heitu vatni. Samband íslenskra sveitarfélaga benti á að verð á heitu vatni réðist almennt af kostnaði við heitavatnsöflun og dreifikerfi og því mætti búast við að skatturinn bitnaði harðar á landsbyggðinni. Fjármálaráðuneyti telur hins vegar að munur álagningar sé ekki það mikill að ástæða sé til að fara í kostnaðarsamar aðgerðir til þess að jafna greiðslur hvers og eins notanda. Fellst meiri hlutinn á það sjónarmið ráðuneytisins.
    Samband íslenskra sveitarfélaga telur að með skatti á heitt vatn sé ríkið að skattleggja almannaþjónustu sem sveitarfélög veita íbúum sínum. Einnig tók sambandið fram að umsýsla skattsins mundi leiða til kostnaðar fyrir veitufyrirtæki vegna breytinga á innheimtu- og bókhaldskerfum sem aftur væri til þess fallið að hækka verð til endanlegra notenda.
    Líkt og að framan greinir er í frumvarpinu gert ráð fyrir að ríkisskattstjóri annist álagningu skatts af raforku og heitu vatni, sbr. 9. gr. frumvarpsins. Í tilefni af athugasemdum hans leggur meiri hlutinn áherslu á að skoðað verði hvort Fjársýsla ríkisins hafi með höndum umsýslu og skrárhald tengt þessari skattlagningu.
    Gerðar voru athugasemdir varðandi 3. mgr. 10. gr. frumvarpsins sem felur í sér heimild til að draga frá, við uppgjör skatts af raforku og heitu vatni, þá fjárhæð sem nemur sannanlega töpuðum útistandandi kröfum eða ofgreiddum skatti. Voru þau sjónarmið viðhöfð fyrir nefndinni að hér væri um of þrönga og óskýra heimild að ræða og lagt til að orðið „sannanlega“ yrði fellt út. Það er álit meiri hlutans að ekki sé hægt að fallast á slíkt þar sem með því yrði það í höndum skattskylds aðila að meta hvenær útistandandi krafa teljist töpuð. Skattyfirvöld gera þá kröfu að um sé að ræða gjaldþrot eða aðrar aðferðir við innheimtu sem sýni að krafa muni sannanlega ekki fást greidd.

Tillögur til breytinga.
    Meiri hlutinn leggur til að notkun eigin framleiðslu á heitu vatni eða raforku verði undanþegin skattlagningu og að sama eigi við um þá sem selja raforku eða heitt vatn fyrir minna en 500.000 kr. á ári. Við það fækkar skattskyldum aðilum umtalsvert og eftirlit verður mun einfaldara. Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðuneyti verður tekjuskerðing ríkissjóðs vegna þessarar breytingar tiltölulega lítil.
    Í 2. mgr. 7. gr. frumvarpsins er að finna heimild til handa ráðherra að kveða nánar á um skilyrði og framkvæmd vegna undanþágu frá greiðslu skatts af raforku og heitu vatni. Það er mat meiri hlutans að orðalagið þurfi nánari skýringa við þannig að tryggt sé að ráðherra sé ekki í sjálfsvald sett að undanþiggja skattaðila skattskyldu.
    Meiri hlutinn leggur til þá breytingu að kolefnisgjald verði tímabundið og að gjaldtakan falli úr gildi 31. desember 2012. Þá telur meiri hlutinn að fengnum ábendingum einfaldara að álagningargrunnur brennsluolíu verði í kílógrömmum en ekki lítrum. Aðferð við útreikning verður eftir sem áður sams konar og notuð væri við útreikning í lítrum.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


     1.      Við 1. gr. Í stað orðanna „3,10 kr. á hvern lítra“ í 2. mgr. komi: 3,60 kr. á hvert kílógramm.
     2.      Við 6. gr. 2. mgr. orðist svo:
                 Undanþegnir skattskyldu skv. 1. mgr. eru þeir sem selja raforku eða heitt vatn fyrir minna en 500.000 kr. á ári.
     3.      Við 8. gr. Í stað orðanna „á vatnsorku og jarðvarmanotkun er“ í 2. mgr. komi: af raforku og heitu vatni sé.
     4.      Við 9. gr. Orðin „og eigin nota“ í 1. mgr. falli brott.
     5.      Við 10. gr. Orðin „og eigin notkun“ í 2. mgr. falli brott.
     6.      13. gr. orðist svo:
                   Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2010. Lögin falla úr gildi 31. desember 2012.

Alþingi, 17. des. 2009.Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Lilja Mósesdóttir.


Magnús Orri Schram.Ögmundur Jónasson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.