Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 258. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 497  —  258. mál.
Framhaldsnefndarálitum frv. til l. um breyt. á l. um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum.

Frá viðskiptanefnd.    Nefndin fjallaði að nýju um frumvarpið eftir 2. umræðu. Nefndin fékk á sinn fund Benedikt Bogason fyrir hönd réttarfarsnefndar.
    Við 2. umræðu var velt upp þeirri spurningu hvort ákvæði frumvarpsins væru afturvirk. Var með því átt við hvort með frumvarpinu væri hreyft við ákvæðum sem gilda um hversu langt aftur í tímann miðað við frestdag megi rifta ráðstöfunum.
    Nefndin áréttar að með frumvarpinu er einungis lagt til að lengdur verði frestur til að höfða riftunarmál skv. 148. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þessi frestur er ekki liðinn nú þegar í tilfelli þeirra fjármálafyrirtækja sem nú eru í slitameðferð en upphafsfrestur hans miðast við lok kröfulýsingarfrests.
    XX. kafli laga um gjaldþrotaskipti o.fl. ber yfirskriftina Riftun ráðstafana þrotamanns o.fl. Þar er mælt fyrir um hversu langt aftur í tímann megi rifta gerningum miðað við frestdag en fresturinn er mislangur eftir því um hvers konar gerning er að ræða. Til dæmis má skv. 1. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. krefjast riftunar á gjafagerningi ef gjöf var afhent á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag. Þá má skv. 1. mgr. 133. gr. krefjast riftunar á greiðslu á síðustu sex mánuðum fyrir frestdag vegna greiðslu þrotamanns til nákominna á launum o.fl. ef greiðslan var bersýnilega hærri en sanngjarnt var miðað við vinnuna, tekjur af atvinnurekstrinum og önnur atvik. Ekki er með frumvarpi þessu lögð til breyting á ákvæðum laga um gjaldþrotaskipti o.fl. sem mæla fyrir um slíka fresti.
    Steinunn Valdís Óskarsdóttir, Eygló Harðardóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 17. des. 2009.Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Guðlaugur Þór Þórðarson.Björn Valur Gíslason.


Ragnheiður E. Árnadóttir.


Margrét Tryggvadóttir.