Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 500, 138. löggjafarþing 170. mál: skaðabótalög (meðábyrgð starfsmanns við vinnuslys).
Lög nr. 124 23. desember 2009.

Lög um breytingu á skaðabótalögum, nr. 50/1993, með síðari breytingum.


1. gr.

     Á eftir 23. gr. laganna kemur ný grein, 23. gr. a, sem orðast svo ásamt fyrirsögn:
Meðábyrgð starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysum.
     Nú verður starfsmaður fyrir líkamstjóni í starfi sínu og skerðist þá ekki réttur hans til skaðabóta vegna meðábyrgðar nema hann hafi af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi átt þátt í að tjónsatburður varð.
     Ef starfsmaður sem 1. mgr. tekur til deyr af völdum tjónsatburðar skulu bætur sem greiðast þeim er misst hafa framfæranda ekki skerðast vegna meðábyrgðar hins látna, nema hann hafi átt þátt í dauða sínum af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi.

2. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi og taka til tjónsatvika sem verða eftir gildistöku laganna.

Samþykkt á Alþingi 18. desember 2009.