Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 239. máls.
138. löggjafarþing 2009–2010.
Þskj. 515  —  239. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í skattamálum (virðisaukaskattur o.fl.).

Frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar.



    Frumvarp þetta gengur út á breytingar á ýmsum lögum til að auka tekjur ríkissjóðs í samræmi við forsendur í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010: á lögum um virðisaukaskatt, lögum um bifreiðagjald, lögum um gjald af áfengi og tóbaki, lögum um olíugjald og kílómetragjald, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um aukatekjur ríkissjóðs og lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, o.fl..
    Annar minni hluti telur að fjölþrepa virðisaukaskattskerfi, þar sem markmiðið er að virðisaukaskattur á matvæli sé sem lægstur, sé æskilegt. Þó gerir 2. minni hluti athugasemd við að samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans verði gosdrykkir áfram flokkaðir sem matvæli.
    Um það er ekki deilt að staða ríkissjóðs er mjög slæm og einhvern veginn þarf að reyna að brúa þann gríðarlega halla sem blasir við. Ríkisstjórnin hefur valið svokallaða blandaða leið þar sem útgjöld eru skorin niður og skattar hækkaðir á almenning og fyrirtæki, leið sem 2. minni hluti telur við þessar aðstæður bæði óheppilega og í raun óþarfa.
    Heimilin standa ekki undir frekari skattahækkunum. Það er mat 2. minni hluta að slík hugmyndafræði, um enn frekari hækkanir skatta á heimili, eigi ekki við um þær aðstæður sem eru á Íslandi í dag. 2. minni hluta vonar að hér sé um tímabundið ástand að ræða en ómögulegt er að segja til um hvað það vari lengi. Ljóst er að aukin skattheimta leiðir til að kreppan dregst á langinn.
    Annar minni hluti leggur áherslu á að hækkun á tekjuskatti og aukin tekjuöflun ríkisins vegna hans fari í að greiða vexti af skuldum. Hinir auknu fjármunir vegna hækkunar á sköttum munu því ekki leiða til að peningarnir fari aftur í hagkerfið heldur í afborganir ríkisins af erlendum lánum sem leiðir aftur til dýpri kreppu.
    Þörf er á að afla ríkissjóði tekna með öðrum hætti, þ.e. í gegnum útflutningsgreinarnar. Þar er hægt að koma leggja mjög hófleg gjöld á auðlindina sem fyllilega standa undir þeim útgjöldum sem þarf að inna af hendi. Jafnframt mundu þessir atvinnuvegir greiða sanngjörn og hófleg gjöld af því sem þeir hafa hingað til fengið ókeypis. Það væri ábyrg og skynsamleg leið.
    Annar minni hluti lætur í ljósi þá skoðun sína að stjórnvöld hafi látið undan þrýstingi áliðnaðarins og samtaka atvinnulífsins. Hinn almenni borgari hefur ekki verið spurður álits. Svo virðist sem þrýstihópar hafi knúið ríkisstjórnina til að samþykkja lausn.
    Annar minni hluti hefur bent á að undir þeim kringumstæðum sem íslenskt efnahagslíf býr við er þess ekki að vænta að um verði að ræða samsvarandi eða meiri aukningu eftirspurnar en sem nemur skattheimtunni vegna bágrar skuldastöðu ríkissjóðs og takmarkaðs svigrúms til útgjalda. Stór hluti ríkisútgjalda fer í að greiða vexti af lánum og allar auknar tekjur sem falla til vegna hærri skatta fara beint í þann útgjaldalið. Einnig er um að ræða umtalsverðan niðurskurð í ríkisútgjöldum með tilheyrandi samdrætti og uppsögnum starfsfólks í stórum stíl, þannig að í raun er æpandi þversögn í aðferðum ríkisstjórnarinnar sem hún segir auka eftirspurn.
    Annar minni hluti vill að lokum lýsa undrun sinni á þeim vinnubrögðum sem viðgengist hafa við gerð fjárlaga, hvort sem um er að ræða efnahags- og skattanefnd eða fjárlaganefnd. Viðamiklar breytingar á viðkvæmum tímum eru mjög varasamar og ber ekki að afgreiða með þeim hætti sem gert er.

Alþingi, 18. des. 2009.



Þór Saari.